Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 287 . mál.


418. Frumvarp til laga



um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Tilgangur, gildissvið og yfirstjórn.


1. gr.


    Tilgangur laganna er:
    að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins,
    að fylgjast með og hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra,
    að tryggja að búfjárafurðir, framleiddar í landinu, verði sem heilnæmastar.

2. gr.


    Lög þessi taka til allra sjúkdóma í dýrum, jafnt húsdýrum, gæludýrum og villtum dýrum.

3. gr.


    Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.
     Yfirdýralæknir skal vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að dýrasjúkdómum og framkvæmd laganna.
     Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með og vinna að bættu heilsufari dýra og fylgjast með heilbrigðisástandi þeirra og vera á verði gegn nýjum dýrasjúkdómum er kunna að berast til landsins.

II. KAFLI


Orðskýringar.


4. gr.


     Búfé: Hross, nautgripir, sauðfé, geitur, svín, loðdýr, kanínur og alifuglar, auk þess eldisfiskar og önnur dýr sem haldin eru til nytja. Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.
     Dýr: Öll dýr, bæði hryggdýr og hryggleysingjar.
     Dýrasjúkdómur: Smitsjúkdómur sem orsakast af völdum örvera eða sníkjudýra, efnaskiptasjúkdómur, erfðasjúkdómur, eitranir og aðrir sjúkdómar sem lög þessi ná til.
     Gæludýr: Öll dýr sem haldin eru til afþreyingar.

     Smitsjúkdómur: Sjúkdómur eða smit sem beint eða óbeint getur borist frá einu dýri til annars eða milli manna og dýra.
     Sóttvarnarsvæði: Landsvæði sem afmarkast af varnarlínum, ám, vötnum, sjó eða öræfum sem ásamt fyrirskipaðri vörslu og öðrum varúðarráðstöfunum mynda farartálma eða fullkomna hindrun á samgangi dýra.
     Varnarlínur : Mörk sóttvarnarsvæða, þar með taldar girðingarlínur sem skiptast í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur.

III. KAFLI


Tilkynningarskylda og sjúkdómsgreining.


5. gr.


    Hverjum þeim, sem hefur ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi sem lög þessi ná yfir, ber án tafar að tilkynna það hverjum þeim dýralækni sem til næst eða lögreglu. Skylt er lögreglu að hafa strax samband við dýralækni. Telji dýralæknir ástæðu til skal hann tafarlaust gera ráðstafanir til að fá sjúkdómsgreiningu sína staðfesta og hindra útbreiðslu sjúkdómsins.
     Leiði rannsókn í ljós eða dýralæknir fær grun um að um sé að ræða smitsjúkdóm, sem tilgreindur er í viðauka 1 með lögum þessum eða smitsjúkdóm áður óþekktan hér á landi, skal dýralæknir án tafar tilkynna það yfirdýralækni. Jafnframt ber honum að grípa til varúðarráðstafana gegn útbreiðslu eða til útrýmingar sjúkdóminum, einnig að banna afhendingu dýrsins eða afurða þess og sjá um að einangra dýrið og önnur dýr sem kunna að bera smit, svo og nánasta umhverfi þeirra. Enn fremur skal hann sjá um að hlutir og vörur, sem komist hafa í snertingu við dýrið, verði sótthreinsuð eða þeim eytt og að aflífa dýrið eða gera aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar teljast. Eigendum dýra er skylt að veita alla nauðsynlega aðstoð vegna varúðarráðstafana sem framkvæmdar eru á grundvelli þessarar málsgreinar.
     Sé hins vegar um að ræða sjúkdóm sem tilgreindur er í viðauka 2 skal dýralæknir hlutast til um að framkvæmdar séu frekari rannsóknir og málið tilkynnt að því marki sem nauðsynlegt er.

6. gr.


    Öllum þeim, sem starfa að dýralækningum, er skylt að fylgja fyrirmælum yfirdýralæknis um skráningu dýrasjúkdóma og gera þær ráðstafanir til varnar og upprætingar sjúkdómum sem hann mælir fyrir um eða tilgreindir eru í reglugerðum og auglýsingum þar um.

7. gr.


    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um varúðarráðstafanir sem nauðsynlegar eru ef upp kemur grunur um smitsjúkdóma sem tilgreindir eru í viðauka 1 eða ef þeirra verður vart og nýja, nú óþekkta sjúkdóma hér á landi, þar með talin ákvæði um sóttvörn og samgang við svæði þar sem sjúkdómur hefur komið upp, einangrun dýra, rannsóknir, aflífun í rannsóknarskyni, sýnatöku og skýrslugerð og eyðingu dýrahræja.

IV. KAFLI


Varnaraðgerðir.


8. gr.


    Landbúnaðarráðherra getur samkvæmt lögum þessum og að fengnum tillögum yfirdýralæknis fyrirskipað hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu þeirra dýrasjúkdóma sem taldir eru upp í viðaukum 1 og 2 og til að afstýra hættu og tjóni af völdum útbreiðslu þessara sjúkdóma. Ráðstafanir þessar ná yfir:
    Dýr:
         
    
    rannsóknir, þar með talda sýnatöku til sjúkdómsgreiningar,
         
    
    sjúkdómsmeðferð,
         
    
    ónæmisaðgerðir,
         
    
    merkingar og einangrun,
         
    
    eftirlit,
         
    
    förgun og eyðingu.
    Dýraafurðir, fóður, húsdýraáburð og annað sem mengað er og kann að bera smit:
         
    
    rannsóknir á mögulegu smitefni,
         
    
    gerilsneyðingu, sótthreinsun og dauðhreinsun,
         
    
    eyðingu.
    Byggingar, starfssvæði, vélar, verkfæri og farartæki:
         
    
    hreinsun og sótthreinsun,
         
    
    eftirlit og einangrun.
    Eigendur og umráðaaðila dýra, starfsfólk þeirra, fatnað og tæki sem kunna að bera smitefni:
         
    
    rannsóknir, þar með talda sýnatöku til sjúkdómsgreiningar,
         
    
    hreinsun, sótthreinsun og eyðingu fatnaðar.

V. KAFLI


Fyrirbyggjandi aðgerðir.


9. gr.


    Heimilt er landbúnaðarráðherra að takmarka eða banna dýrahald á afmörkuðum svæðum þar sem ætla má að heilbrigði dýra sé sérstök hætta búin að mati yfirdýralæknis.

10. gr.


    Óheimilt er að flytja til landsins eftirtaldar vörutegundir:
    Hey, hálm, alidýraáburð, gróðurmold og rotmassa blandað alidýraáburði, hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, unnar og óunnar, ósútuð skinn og húðir, kjötmjöl, beinamjöl, fóðurvörur sem unnar eru úr afurðum eða úrgangi spendýra og fugla, blóð og blóðvatn, ósoðna mjólk og egg.
    Ull, notaða poka eða aðrar umbúðir, óhreinan fatnað og tuskur, fiður, fjaðrir, dún, stráteppi, strákörfur og óunnið dýrahár, enn fremur notaðan reiðfatnað, reiðtygi og annað sem notað hefur verið við geymslu eða flutninga á dýrum og dýraafurðum.
    Hvers konar notaðan veiðibúnað til stangaveiði.
     Heimilt er landbúnaðarráðherra að fengnum meðmælum yfirdýralæknis að leyfa í rannsóknarskyni innflutning á vörutegundum sem taldar eru upp í a-lið 1. mgr. Ef hey eða hálmur er notað sem pökkunarefni fyrir aðra vöru sem flutt er inn og ekki er háð sérstöku leyfi má flytja heyið eða hálminn inn án leyfis ef telja má að slíkt pökkunarefni hafi ekki smithættu í för með sér. Innflutningsbann þeirra vörutegunda, sem taldar eru upp í b- og c-liðum 1. mgr., kemur ekki til framkvæmda ef varan sótthreinsast við tilbúning eða hreinsun eða sérstök sótthreinsun er framkvæmd fyrir innflutning og vörunni fylgir vottorð um uppruna, vinnslu og sótthreinsun.

     Landbúnaðarráðherra er heimilt að banna með auglýsingu innflutning á öðrum vörum sem hætta telst á að smitefni geti borist með.

11. gr.


    Yfirdýralækni er heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli sóttvarnarsvæða telji hann að það valdi eða sé líklegt til að valda stórfelldu tjóni á dýrum.

12. gr.


    Landbúnaðarráðherra ákveður að fengum tillögum dýrasjúkdómanefndar hvaða varnarlínum skuli haldið við. Á sama hátt getur ráðherra ákveðið að setja upp nýjar varnarlínur þar sem nauðsyn krefur. Girðingarstæði skulu valin þar sem best skilyrði eru frá náttúrunnar hendi og valdi sem minnstum spjöllum og jarðraski. Upprekstrarfélög og einstakar jarðir má svipta aðgangi að landi sínu sé slíkt nauðsynlegt, enda skal þá leitast við að bæta það með tilsvarandi landi í skiptum ef unnt er. Verði ekki samkomulag um landaskipti eða bætur fyrir missi landsnytja skulu bætur metnar af dómkvöddum matsmönnum. Bætur þær, sem ákveðnar eru, greiðast af þeim er landið fá og miðast við notagildi þess.
     Landbúnaðarráðherra ákveður með auglýsingu skiptingu varnarlína í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur að fengnum tillögum dýrasjúkdómanefndar.

13. gr.


    Hræ dýra, sláturúrgang og sláturafurðir, sem ekki eru nýttar eða eru óhæfar til manneldis, skal meðhöndla, geyma, flytja eða eyða á þann hátt að ekki valdi hættu á útbreiðslu smitefna eða annarra skaðlegra efna. Sama gildir um annan úrgang frá dýrum. Afurðir þessar er enn fremur óheimilt að nota sem dýrafóður nema samkvæmt sérstöku leyfi yfirdýralæknis og viðkomandi heilbrigðiseftirlits.
     Þeir sem meðhöndla, geyma eða flytja hræ og sláturúrgang til eyðingar eða dauðhreinsunar eða ætla að nýta það til fóðurgerðar skulu afla sér heimildar yfirdýralæknis áður en starfsemin hefst.

14. gr.


    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um meðferð, geymslu og notkun matarleifa og dýraafurða sem ætlaðar eru til fóðurs eða fóðurgerðar. Þar skal kveðið á um leyfi til fóðurgerðar, sbr. 13. gr., starfrækslu fóðurstöðva og hvaða skilyrðum þær þurfa að fullnægja, sýnatöku og eftirlit með slíkri starfsemi til að koma í veg fyrir smithættu.

15. gr.


    Landbúnaðarráðherra er heimilt að setja reglur um búnað, tilhögun og rekstur sæðingastöðvar og heilbrigðiskröfur varðandi dýr sem tekið er úr sæði, egg eða fósturvísar til flutnings, svo og heilbrigðiskröfur um sæði, egg og fósturvísa sem ætlaðir eru til sæðinga eða eggjaflutninga. Þá er landbúnaðarráðherra heimilt að setja reglur um heilbrigðiskröfur þeirra dýra sem notuð eru sem fósturmæður.

VI. KAFLI


Kostnaður og bætur.


16. gr.


    Þóknun og ferðakostnaður vegna starfa dýralæknis eða annarra sem takast á hendur verkefni sem leiðir af framkvæmd þessara laga samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis skal greiddur úr ríkissjóði.

17. gr.


    Ríkissjóður greiðir kostnað vegna einangrunar búfjár sem ákveðin er til varnar sjúkdómum sem taldir eru upp í viðauka 1 með lögum þessum, svo og efniskostnað vegna nauðsynlegrar hreinsunar og sótthreinsunar, einnig kostnað vegna aflífunar, eyðingar hræja og notkunar tækja sem þarf til fyrrgreindra verka. Ríkissjóður greiðir kostnað vegna einangrunar og gæslu svæða, enda sé einangrunin fyrirskipuð af landbúnaðarráðherra. Eigendum búfjár er skylt að leggja fram endurgjaldslaust alla ófaglega vinnu og aðstoð við hreinsun, sótthreinsun og aflífun dýra.

18. gr.


    Kostnaður vegna einangrunar og rannsókna á öðrum sjúkdómum en taldir eru upp í viðauka 1 greiðist af eigendum dýranna að hluta eða öllu leyti samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra.

19. gr.


    Stofnkostnaður og viðhald aðalvarnarlína greiðist úr ríkissjóði. Ríkissjóður leggur til efni í aukavarnarlínur, en uppsetning, rekstur og viðhald þeirra greiðist af viðkomandi sveitarsjóði. Rísi ágreiningur um skiptingu kostnaðar við aukavarnarlínur sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi að fenginni umsögn dýrasjúkdómanefndar.

20. gr.


    Eigendur búfjár, sem fargað er samkvæmt fyrirmælum landbúnaðarráðherra að tillögum yfirdýralæknis, eiga rétt á bótum úr ríkissjóði.
     Bætur ríkissjóðs svara til verðgildis afurða og rekstrartaps sem sannanlega leiðir af eyðingu dýranna. Heimilt er að víkja frá ákvæðum þessarar málsgreinar um bætur þegar fyrirskipaður er niðurskurður á kynbótagripum.
     Sé unnt að nýta afurðir dýra að hluta eða í heild skal verðmæti þeirra afurða koma til frádráttar heildarbótagreiðslum. Ekki koma bætur fyrir dýr sem eru óveruleg að verðmæti, nema því aðeins að til þess liggi gildar ástæður.
     Bótaskylda ríkissjóðs samkvæmt lögum þessum nær eingöngu til búfjár.

21. gr.


    Réttur til bóta samkvæmt lögum þessum glatast að öllu leyti eða að hluta ef eigandi dýra hefur ekki farið eftir ákvæðum þessara laga eða reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim. Sama gildir ef eigandi hefur orðið sér úti um dýr sem hann vissi eða mátti vita með tilliti til aðstæðna að haldið var sjúkdómi sem lög þessi taka til eða valdið því með ásetningi eða vanrækslu að dýr hans smitaðist.
     Bætur greiðast ekki ef dýr, sem flutt hafa verið til landsins, hafa sýkst af sjúkdómi áður en sex mánuðir eru liðnir frá innflutningi þeirra.

VII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


22. gr.


    Yfirdýralækni, héraðsdýralæknum og fulltrúum þeirra skal hvenær sem er vera heimill aðgangur að húsnæði, búum og fyrirtækjum þar sem dýr, eða afurðir þeirra, eru geymd og skulu þeim veittar allar nauðsynlegar upplýsingar vegna eftirlits og rannsókna sem óskað er eftir á grundvelli laga þessara.

23. gr.


    Skylt er að viðhalda varnarlínum svo lengi að fullvíst þyki að búfjársjúkdómar, sem valda stórfelldu tjóni, geti ekki leynst í búfé öðrum megin línunnar þannig að samgangur milli svæðanna auki á sýkingarhættu fyrir búfé að mati dýrasjúkdómanefndar.
     Því aðeins er landbúnaðarráðherra heimilt að leggja niður varnarlínur að fram hafi farið ítarlegt heilbrigðiseftirlit á búfé á þeim varnarsvæðum sem að línunni liggja og að fengnum meðmælum dýrasjúkdómanefndar. Gefa skal aðliggjandi sveitarfélögum kost á að eignast girðingarnar endurgjaldslaust, enda taki þau ábyrgð á að girðing valdi ekki slysum eða tjóni.

24. gr.


    Yfirdýralækni er heimilt að fyrirskipa á kostnað eigenda sérstakar merkingar á búfé þar sem slíkt er nauðsynlegt. Þá getur hann bannað hvers konar litarmerkingar á búfé á ákveðnum svæðum.

25. gr.


    Óheimilt er að flytja sauðfé til lífs yfir varnarlínur nema vegna fjárskipta. Sleppi sauðfé yfir varnarlínur skal því slátrað. Merkja skal líffæri úr fénu og senda án tafar til rannsóknar. Eigandi skal fá bætur samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis fyrir sauðfé sem slátrað er enda hafi líffæri verið send til rannsóknar. Nautgripi og geitur má því aðeins flytja yfir varnarlínur til lífs að fram fari sérstök rannsókn á heilbrigði þeirra. Yfirdýralæknir getur leyft flutning á tilrauna- og kynbótagripum yfir varnarlínur.

26. gr.


    Hlíti eigandi eða umráðaaðili dýra ekki ákvörðun landbúnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum er viðkomandi lögreglustjóra skylt að hlutast til um framkvæmd á fyrirmælum ráðherra. Óheimilt er að farga dýrum eða taka þau frá aðila eða neyta annarra þeirra úrræða sem lög þessi kveða á um og valdið geta eiganda þeirra umtalsverðum kostnaði nema yfirdýralæknir hafi samþykkt slíkar aðgerðir. Gefa skal eiganda og umráðaaðila kost á að tjá sig um slíkar aðgerðir áður en til þeirra er gripið.

27. gr.


    Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna dýrasjúkdómanefnd til fjögurra ára í senn. Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda tilnefna sinn manninn hvor, en yfirdýralæknir skal vera formaður nefndarinnar.
    Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur í dýrum á afmörkuðum svæðum er landbúnaðarráðherra heimilt að skipa þriggja manna svæðisnefnd er verði yfirdýralækni til aðstoðar við framkvæmd hvers konar varnaraðgerða og við útrýmingu sjúkdómsins.

28. gr.


    Stöðu framkvæmdastjóra sauðfjársjúkdómanefndar skal samhliða gildistöku laganna breytt í stöðu deildarstjóra í landbúnaðarráðuneytinu.

29. gr.


    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

VIII. KAFLI


Refsiákvæði og gildistaka.


30. gr.


    Brot gegn lögum þessum, reglugerðum og fyrirmælum gefnum samkvæmt þeim varða sektum, varðhaldi eða fangelsi ef sakir eru miklar.
     Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.

31. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Við gildistöku þeirra falla brott eftirtalin lög og lagaákvæði:
    Lög nr. 3 14. febrúar 1902, um heimild til að banna innflutning ósútaðra skinna og húða.
    Lög nr. 25 20. júní 1923, um berklaveiki í nautpeningi.
    Lög nr. 11 23. apríl 1928, um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, og 24. gr. laga nr. 75/1982 og 1. gr. laga nr. 16/1952, um breyting á þeim lögum.
    Lög nr. 23 10. mars 1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, og lög nr. 12/1967 og 25. gr. laga nr. 75/1982, um breyting á þeim lögum.
    Lög nr. 22 10. maí 1977, um sauðfjárbaðanir.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Reglugerðir, auglýsingar og önnur fyrirmæli sett samkvæmt lögum nr. 11/1928, með síðari breytingum, lögum nr. 23/1956, með síðari breytingum, og lögum nr. 22/1977, um sauðfjárbaðanir, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau stangast ekki á við lög þessi þar til nýjar reglugerðir, auglýsingar eða önnur fyrirmæli hafa öðlast gildi.

Viðauki 1.

TILKYNNINGARSKYLDIR SJÚKDÓMAR



Miltisbrandur     — Anthrax
Gin- og klaufaveiki     — Foot and Mouth Disease
Smitandi fósturlát     — Brucellosis
Hundaæði     — Rabies
Sníf     — Glanders
Blátunga     — Bluetongue
Dúrín     — Dourine
Riða/Smit. heilahrörnun     — Scrapie/Bovine spongif. encephalop. (BSE)
Smit. kverka- og barkabólga     — Infectious laryngotracheitis (ILT)
Newcastle-veiki     — Newcastle disease
Kjúklingasótt     — Pullorum disease (Salmonella pullorum)
Hænsnatyfus     — Fowl typhoid (Salmonella gallinarum)
Munnblöðrubólga     — Vesicular stomatitis
Aujezsky's-veiki     — Aujezsky's disease (Pseudorabies)
Smitandi maga- og garnabólga     — Transmiss. gastroenteritis (Swine) (TGE)
Fjárbólusótt     — Sheep pox
Fjárkláði     — Scabies, Sheep scab (Psoroptic mange)
Hrossakláði     — Mange in horses (Sarcoptes mange)
Svínapest     — Hog cholera, Classical swine fever
Afríkönsk svínapest     — African swine fever
Sæljóna- og svínafár     — Vesicular Exanthema of Swine (VES)
Blöðruþot í svínum     — Swine vesicular disease (SVD)
Mæði (Þurramæði)     — Maedi
Lömunarveiki í svínum     — Porcine Enteroviral Encephalomyelitis,
             Teschen disease (Talfan disease)
Fuglakólera     — Fowl cholera (Pasteurella multocida)
Hringskyrfi     — Ringworm (Herpes tonsurans)
Kverkeitlabólga     — Strangles
Illkynjuð brjósthimnubólga     — Contagious bovine pleuropneumonia

Nautapest     — Rinderpest
Hænsnapest     — Fowl plague (Influenza)
Afríkönsk hrossapest     — Afrikansk hestepest
Húðþrimlaveiki     — Lumpy skin disease
Rift Valley veiki     — Rift Valley fever
Berklar     — Tuberculosis (M.bov, M.tub)

Viðauki 2.

SKRÁNINGARSKYLDIR SJÚKDÓMAR



DÝR ALMENNT:
Chlamydia-sýkingar     — Chlamydiosis (Psittacosis, Ornithosis)
Bólusótt     — Pox disease
Gulusótt     — Leptospirosis (m.a. Weils gula)
Clostridia-sýkingar     — Clostridiosis
Pestbjúgur     — Blackleg (Miltbr.emfysem)
Salmonellasýking     — Salmonellosis
Hvanneyrarveiki     — Listeriosis
Tríkínusýki     — Trikinosis
Sullaveiki (ígulbandormur)     — Hydatidosis (Echinococcus granulosus)

HROSS:
Smitandi legbólga     — Contagious equine metritis (CEM)
Hestainflúensa     — Equine influenza
Smitandi háls- og lungnakvef     — Rhinopneumonitis/virusabort
Smitandi blóðleysi     — Equine inf. anemia, Swamp fever (EIA)

NAUTGRIPIR:
Smitandi kverka- og barkabólga     — IBR/IPV
Smitandi slímhúðarpest     — Mucosal disease/Bovin viral diarrhea
             (MD/BVD)
Smitandi hvítblæði     — Enzootic leucosis
Illkynjuð slímhúðarbólga     — Malignant catarrhal fever
Veiruskita     — Viral Diarrhea

SAUÐFÉ:
Lungnapest, lungnadrep     — Pasteurellosis
Garnaveiki     — Johne's disease, Paratuberculosis
Kýlapest     — Actinobacillosis
Tannlos     — Broken mouth
Smitandi fósturlát     — Vibriosis (Camphylobacter foetus)
Fótakláði     — Foot mange, leg mange
Bítlaveiki     — Hairy shaker disease, Border disease (BD)
Fótrot     — Foot rot
Smitandi munnangur     — Orf, Contagious Echtyma (CE)
Færilús     — Sheep tick (Melophagus ovinus)

SVÍN:
Svínainflúensa     — Swine influenza, Hog flu
Garnadrep     — Necrotic enteritis (Clostr. perfr. type C)
Svínakregða     — Mycoplasmal Pneumonia, Endemic
             pneum. (EP)
Illvíg brjósth./lungnabólga     — Pleuropneumonia (Haemophilus pleuropn.)
Snúðtrýni     — Atrophic rhinitis swine
Rauðsýki     — Erysipelas
Svínakláði     — Sarcoptes mange
Júgurbólga/legbólga     — Metritis-mastitis-syndrome, Agalactia
             (MMA)
Svínadysentería     — Swine dysentery (T. hyodys.)
Bláeyra     — Porcine respiratory and reproductive
             syndrome

ALIFUGLAR:
Fuglakólera     — Fowl cholera (Pasteurella multocida)
Fuglaberklar     — Avian tuberculosis
Smitandi berkjubólga     — Infectious bronchitis (IB)
Hænsnalömun (Mareks-veiki)     — Marek's disease
Hvítblæði (Leukosis)     — Leucosis
Gumboro-veiki     — Gumboro disease

HUNDAR, KETTIR, LOÐDÝR:
Veiruskita     — Virus Enteritis (mink)
Maurakláði     — Scabies
Hundafár     — Canine distemper, Hardpad disease
Smitandi lifrarbólga     — HCC
Refavanki (Nósematósa)     — Nosematosis
Plasmacytósa     — Plasmacytosis
Hérasótt     — Rabbit Fever (Tularemia)

ALIFISKAR:
Kýlaveiki     — Furunculosis (A. salmonicida)
Sárasýking     — Ulcer disease (H. piscium)
Rauðmunnaveiki     — Yersiniosis (Y. ruck)
Nýrnaveiki     — Bacterial kidney disease (R. salm)
Vibríu-veiki     — Vibriosis (V. ang)
IPN-veiki     — Inf. pancreatic necrosis
IHN-veiki     — Infectious haematopoietic necrosis
VHS-veiki     — Viral haemorrh. septicaemia, Egtvedtsyge
Hvirfilveiki     — Myxobolus cerebralis
Roðflyðrusýki     — Gyrodactylus salaris

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim var lagt fram á 115. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er endurflutt að teknu tilliti til ábendinga frá umsagnaraðilum. Á liðnu vori bárust landbúnaðarnefnd Alþingis umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands og Búnaðarþingi, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Páli A. Pálssyni, fyrrverandi yfirdýralækni, og Dýralæknafélagi Íslands. Margar ábendingar og athugasemdir framangreindra aðila þóttu réttmætar og hefur frumvarpinu verið breytt til samræmis við þær ábendingar. Leitað var samráðs við alþingismennina Egil Jónsson, formann landbúnaðarnefndar Alþingis, og Guðna Ágústsson.
    17. janúar 1990 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd sem fengið var það hlutverk að yfirfara íslensk lagaákvæði sem varða búfjársjúkdóma og varnir gegn þeim og semja eitt lagafrumvarp um þetta efni að teknu tilliti til breyttra aðstæðna frá gildistöku laganna. Voru sérstaklega tilgreind í því sambandi lög nr. 23/1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, lög nr. 11/1928, um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, lög nr. 25/1923, um berklaveiki í nautpeningi, og lög nr. 22/1977, um sauðfjárbaðanir.
     Nefndina skipuðu: Jón Höskuldsson, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, formaður, Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir og Guðmundur Jónsson bóndi, tilnefndur af Stéttarsambandi bænda.
     Nefndin kynnti sér gildandi íslensk lög og lagaákvæði um búfjársjúkdóma og varnir gegn þeim. Jafnframt aflaði nefndin sér upplýsinga um og kynnti sér sambærilega löggjöf sem gildir í Danmörku (Lov om husdyrsygdomme nr. 814 21. desember 1988), Finnlandi (Lag om djursjukdomar 18. janúar 1980), Noregi (Lov om tiltak mot dyresjukdommer (husdyrloven) frá 8. júní 1962, breyt. 8. mars 1963) og Svíþjóð (Epizootillag 29. maí 1980). Varð nefndin sammála um að rétt væri að leiða í lög almenn ákvæði (rammalög) um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sem næðu ekki einvörðungu til búfjársjúkdóma (húsdýrasjúkdóma) heldur einnig til sjúkdóma í gæludýrum og villtum dýrum.
     Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, er byggt á tillögum ofangreindrar nefndar. Því er skipt í átta kafla. Frumvarpinu fylgja tveir viðaukar. Í viðauka 1 eru taldir upp svonefndir hættulegir smitsjúkdómar dýra sem eru fortakslaust tilkynningarskyldir skv. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Í viðauka 2 eru hins vegar taldir upp aðrir dýrasjúkdómar sem ekki eru tilkynningarskyldir heldur ber dýralækni að hlutast til um að fram fari frekari rannsókn verði þeirra vart (skráningarskylda). Þá fylgir frumvarpi þessu samantekt Páls A. Pálssonar, fskj. I, fyrrverandi yfirdýralæknis, um búfjársjúkdóma, innflutning dýra og búfjárafurða. Á fskj. II með frumvarpinu er að finna umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.
    Núgildandi íslensk lagaákvæði um sjúkdóma dýra og varnir gegn þeim takmarkast nær einvörðungu við sauðfjársjúkdóma eða voru sett með það að markmiði að útrýma sauðfjársjúkdómum (þurramæði, garnaveiki, kýlapest og síðar riðuveiki) eða nautgripasjúkdómum (berklaveiki). Með tilliti til þess að gildandi lög á þessu sviði eru takmörkuð, m.a. vegna aldurs þeirra og í ljósi breyttra aðstæðna, þykja næg rök standa til þess að sett verði almenn lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim eins og hér er lagt til. Helstu efnisatriði gildandi laga eru:

     Lög nr. 25 20. júní 1923, um berklaveiki í nautpeningi.
     Samkvæmt 1. gr. laganna er eigendum eða umráðamönnum nautgripa skylt að tilkynna dýralækni hið fyrsta öll sjúkdómseinkenni í nautpeningi er grun vekja um berklaveiki samkvæmt leiðarvísi er landbúnaðarráðuneytið lætur semja og úbúa. Dýralæknir sér þá um að rannsókn fari fram svo fljótt sem við verður komið. Kostnaður af slíkri rannsókn greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. gr., ef sjúkdómurinn reynist vera berklaveiki. Að öðrum kosti greiðist hann að hálfu úr ríkissjóði á móti eiganda.
     Reynist nautgripur berklaveikur skal dýralæknir strax tilkynna það landbúnaðarráðuneytinu og er ráðuneytinu heimilt með ráðum dýralæknis að fyrirskipa niðurskurð á sjúkum gripum og sótthreinsun eftir þörfum. Ávallt skal fyrirskipa niðurskurð ef gripir teljast hættulegir vegna opinna, smitandi berkla. Í 4. gr. laganna er kveðið á um bætur vegna niðurskurðar sem fyrirskipaður er. Ber ríkissjóði að greiða eiganda skaðabætur sem svarar 1 / 3 af andvirði kjötskrokksins eins og hann mundi seljast ósjúkur og í heilu lagi í næsta kauptúni. Eiganda eru frjáls afnot húðarinnar, svo og kjöts og sláturs, að svo miklu leyti sem dýralæknir telur það hæft til manneldis. Sótthreinsunarlyf og umsjón með sótthreinsun annast ríkissjóður á sinn kostnað, en eiganda er skylt að leggja til endurgjaldslaust alla þá hjálp er með þarf við rannsókn og niðurskurð gripa.

     Lög nr. 11 23. apríl 1928, um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, með síðari breytingum.
    Allt frá árinu 1926 hafa lög lagt bann við innflutningi ýmissa vörutegunda. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 11/1928 er bannað að flytja til landsins lifandi spendýr og fugla. Heimilt er landbúnaðarráðuneytinu að víkja frá banni þessu, enda séu hverju sinni settar reglur, sem eru öruggar, til varnar því að alidýrasjúkdómar berist til landsins með innfluttum dýrum, sbr. nú lög nr. 54/1990, um innflutning dýra. Í 2. gr. laganna er jafnframt bannaður innflutningur ýmissa vörutegunda. Í sumum tilvikum hafa lögin að geyma fortakslaust bann við innflutningi, en ýmsar vörutegundir er þó heimilt að flytja til landsins samkvæmt sérstöku leyfi landbúnaðarráðuneytisins. Þá er landbúnaðarráðherra heimilt skv. 3. gr. að banna með auglýsingu innflutning á öðrum þeim vörum er hætta telst á að sóttnæmi geti borist með. Brot gegn innflutningsbanni varðar sektum og jafnframt að dýr eða vara verði hugsanlega ónýtt.
     Samkvæmt lögunum er landbúnaðarráðherra veitt heimild til að gera hverjar þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til að hefta útbreiðslu gin- og klaufaveiki berist hún eða annar hættulegur alidýrasjúkdómur til landsins. Lögin heimila þannig mjög víðtækar ráðstafanir sem unnt er að grípa til til að hefta útbreiðslu veikinnar. Með reglugerð er ráðherra unnt að setja fyrirmæli um niðurskurð gripa og um einangrun heimila og héraða þar sem gin- og klaufaveiki eða annars hættulegs alidýrasjúkdóms hefur orðið vart eða grunur leikur á um að slíkur sjúkdómur hafi komið upp, enn fremur bætur úr ríkissjóði fyrir gripi sem slátrað verður, afurðatjónsbætur, greiðslu sótthreinsikostnaðar, svo og önnur þau atriði er þurfa þykir.

     Lög nr. 23 10. mars 1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, með síðari breytingum.
    Lög þessi má rekja allt aftur til ársins 1937 er sett voru sérstök lög um varnir gegn útbreiðslu borgfirsku sauðfjárveikinnar, lög nr. 12 12. maí 1937, sem höfðu að geyma víðtæk ákvæði með það að markmiði að hefta útbreiðslu mæðiveikinnar. Of langt mál yrði að rekja sögulegan aðdraganda laga nr. 23/1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra. Samkvæmt 1. gr. laganna ná þau til þurramæði og garnaveiki, svo og riðuveiki og kýlapestar samkvæmt sérstakri ákvörðun ráðherra. Markmið framkvæmda þeirra, sem lögin fjalla um, er að hindra útbreiðslu ofannefndra sjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra, sbr. 2. gr. Fimm manna framkvæmdanefnd, sauðfjársjúkdómanefnd, hefur á hendi stjórn þeirra mála sem lögin taka til, svo og framkvæmdastjóri sem sér um dagleg störf og framkvæmdir í umboði nefndarinnar. Í III. kafla laganna er fjallað um sauðfjárvarnasvæði og varnir. Eru ákvæði laganna um varnarlínur og girðingar mikið til óbreytt frá eldri löggjöf (6.–11. gr.). Samkvæmt 12. gr. er sauðfjársjúkdómanefnd heimilt að fyrirskipa á kostnað eiganda sérstakar merkingar á sauðfé og nautgripum þar sem nauðsynlegt þykir. Þá getur nefndin bannað hvers konar litarmerkingar á sauðfé á ákveðnum svæðum.
     Óheimilt er skv. 13. gr. að flytja sauðfé til lífs yfir varnarlínur nema vegna fjárskipta. Kynbótafé má þó flytja yfir varnarlínur með sérstöku leyfi sauðfjársjúkdómanefndar og samþykki yfirdýralæknis. Sleppi kindur yfir varnarlínur skal þeim slátrað. Fáist vissa eða sterkur grunur um að einhver fjársótt hafi borist yfir varnarlínu skal framkvæmdastjóri í samráði við sauðfjársjúkdómanefnd gera þær ráðstafanir til varnar útbreiðslu veikinnar sem nefndin telur tryggilegastar og er nefndinni heimilt að láta slátra hinu sjúka eða grunaða fé tafarlaust og auk þess kindum sem líkur eru til að hafi smitast við hýsingu með veiku fé, við samrekstur og í réttum skv. 17. gr. Samkvæmt 18. gr. varðar það fjáreiganda sektum að leyna veiki í fé sínu og fangelsisvist verði það til þess að veikin berist í ósýkt fé annarra. Í IV. kafla laganna, 24.–29. gr., er fjallað um fjárskiptafélög. V. kafli laganna hefur að geyma ítarleg ákvæði um fjárskipti (30.–36. gr.). Um fjárframlög ríkisins til fjárskipta er fjallað í VI. kafla laganna. Miðast framlag ríkisins við fjártölu samkvæmt síðasta skattframtali áður en fjárskipti hefjast. Þó getur sauðfjársjúkdómanefnd lagt til grundvallar bótum fjártölu við næstsíðasta skattframtal hjá fjáreigendum sem orðið hafa fyrir verulegu tjóni af völdum sauðfjársjúkdóma árið áður en fjárskipti hefjast. Samkvæmt 38. gr. greiðir ríkissjóður fjáreigendum afurðatjónsbætur sem svarar 3 / 4 lambsverðs á bótaskylda kind. Skal Framleiðsluráð landbúnaðarins ákveða það með hliðsjón af meðalvænleik lamba tvö undanfarin ár á hverju fjárskiptasvæði og því verðlagi á landbúnaðarafurðum sem fjáreigendur fá það haust sem bætur eru greiddar. Kostnað við flutning líflamba á langleiðum inn á fjárskiptasvæði og yfirumsjón sauðfjársjúkdómanefndar greiðir ríkissjóður.
     Samkvæmt 42. gr. getur landbúnaðarráðherra fyrirskipað niðurskurð á sýktu eða grunuðu svæði að tillögu sauðfjársjúkdómanefndar telji nefndin það nauðsynlegt til að útrýma sauðfjársjúkdómi. Getur ráðherra þá fyrirskipað niðurskurð hvort sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram á svæðinu eða ekki. Greiðast bætur fjáreigendum samkvæmt ákvæðum laganna. Verði krafist mats vegna niðurskurðarins eftir gildandi lögum um eignarnám er matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu. 44. gr. fjallar um heimild landbúnaðarráðherra að tillögu sauðfjársjúkdómanefndar til að gera hverja þá ráðstöfun er hann álítur nauðsynlega til að hindra útbreiðslu fjársóttanna, reyna að finna læknisráð við þeim og útrýma þeim, t.d. varnarbólusetningu, heilbrigðiseftirliti, söfnun og rannsókn líffæra og blóðsýniskorna. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. hefur sauðfjársjúkdómanefnd heimild til að lækka bótagreiðslur eftir lögum eða fella þær niður ef réttarrannsókn sannar að bótaþegi hafi af ásettu ráði eða vítaveðu hirðuleysi brotið fyrirmæli laganna eða fyrirmæli nefndarinnar.

     Lög um sauðfjárbaðanir, nr. 22 10. maí 1977.
    Samkvæmt 1. gr. er eigendum og umráðaaðilum sauðfjár og geita skylt að láta fara fram böðun á því til að útrýma kláða og öðrum óþrifum. Skylt er að eiga eða tryggja sér afnot af aðstöðu til böðunar þannig að verkið geti gengið greiðlega, farið fram innan húss og án þess að fénaður sæti óþörfu hnjaski. Böðun skal skv. 2. gr. fara fram annan hvern vetur milli 1. nóvember og 15. mars, þó aldrei fyrr en lokið er haustslátrun og aldrei fyrr en fé er komið á hús nema sérstakar aðstæður mæli með slíku að dómi eftirlitsmanns og yfirdýralæknir samþykki. Um undanþágu frá böðunarskyldu 1. gr. er fjallað í 3. gr. laganna og er hún háð meðmælum yfirdýralæknis og viðkomandi héraðsdýralæknis. Fjárkláða í kind eða grun um hann ber skv. 5. gr. að tilkynna án tafar héraðsdýralækni og hreppstjóra eða lögreglustjóra. Skylt er að halda hinu sýkta eða grunaða fé í einangrun á ábyrgð og kostnað eiganda uns dýralæknir hefur úrskurðað hvort um fjárkláða sé að ræða. Reynist svo vera skipar yfirdýralæknir fyrir um nauðsynlega böðun. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. getur ráðherra fyrirskipað tvíböðun í fjárskiptahólfi þrátt fyrir að böðunarskyldu hafi verið fullnægt, enda verði fjárkláða eða annarra óþrifa á sauðfé og geitfé vart æ ofan í æ. Héraðsdýralæknar eru eftirlitsmenn með sauðfjárböðunum í þeim umdæmum þar sem þeir eru búsettir að svo miklu leyti sem þeir geta annast það eftirlit að dómi ráðherra. Annars staðar skipar landbúnaðarráðherra sérstaka eftirlitsmenn með böðunum, einn í hverju sýslufélagi eða hluta úr sýslufélagi eða bæjarfélagi. Skipuleggja eftirlitsmenn böðunina og undirbúa hana. Þeir útnefna baðstjóra skv. 7. gr. í samráði við hreppsnefndir. Baðstjórum er skylt að skipuleggja sauðfjárbaðanir hver á sínu svæði og vera viðstaddir böðun. Þeir sjá um blöndun á baðlegi og hafa gát á því að þeir sem að böðun starfa fylgi settum reglum og fylgist vel með því hvort óþrifa verði vart í fénu. Tegund baðlyfs skal ákveðin af ráðherra að fengnum tillögum yfirdýralæknis.

     Eins og áður er fram komið felur frumvarpið í sér almenn ákvæði um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Frumvarpið tekur til allra sjúkdóma í dýrum og með því er öllum ákvæðum um varnir og útrýmingu sjúkdóma skipað í einn lagabálk. Með þessu fyrirkomulagi er ekki að neinu leyti slakað á kröfum gildandi laga í þeirri baráttu sem nú á sér stað við útrýmingu smitsjúkdóma.
     Frumvarp þetta felur í sér breytingu á stjórn sjúkdómavarna. Skipan þeirra mála er færð til embættis yfirdýralæknis sem er til þess fallið að hafa í för með sér markvissari og betri nýtingu á starfskröftum við sjúkdómavarnir, en það eykur hagkvæmni og dregur úr útgjöldum ríkissjóðs við framkvæmd laga um dýrasjúkdóma.
     Fyrirsjáanlegt er að samgangur við útlönd fer vaxandi og því er árangursríkara að tengja saman upplýsingar um sjúkdómsástand í ýmsum viðskiptalöndum og varnir gegn sjúkdómum hérlendis. Samfara hugsanlegum innflutningi landbúnaðarvara verður að gera víðtækar og kostnaðarsamar rannsóknir á útbreiðslu sjúkdóma, þekktra og óþekktra, til að fyrir liggi bestu fáanlegu upplýsingar ef til slíks innflutnings kemur. Það skýrir m.a. mikilvægi þess að stjórn dýrasjúkdómamála sé samræmd og á einni hendi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lýst þríþættum megintilgangi laganna. Í fyrsta lagi að stuðla að góðu heilsufari dýra og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins, í öðru lagi að fylgjast með og hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra og í þriðja lagi að tryggja að búfjárafurðir, framleiddar í landinu, verði sem heilnæmastar. Benda má einkum á ákvæði III.–V. kafla laganna og þau úrræði sem þar eru gefin og eru til stuðnings tilgangi laganna. Greinin er mun ítarlegri en sambærilegt ákvæði laga nr. 23/1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra.

Um 2. gr.


    Í greininni er gildissviði laganna lýst, en þeim er ætlað að ná til allra sjúkdóma í dýrum, bæði hryggdýrum og hryggleysingjum, húsdýrum, gæludýrum og villtum dýrum. Hér er um veigamikla breytingu frá gildandi löggjöf að ræða sem takmarkast að mestu leyti við sauðfjársjúkdóma.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að yfirdýralæknir sé ráðherra til ráðuneytis varðandi alla dýrasjúkdóma og framkvæmd laganna. Er það sambærilegt fyrirkomulag og gildir um búfjársjúkdóma skv. 2. mgr. 3. gr. laga um dýralækna, nr. 77/1981, með síðari breytingum. Eins og rakið er í almennum athugasemdum við frumvarpið er ekki gert ráð fyrir sambærilegri framkvæmdanefnd og kveðið er á um í 4. gr. laga nr. 23/1956 varðandi sauðfjársjúkdóma, enda eðlilegt að yfirdýralæknir hafi með höndum framkvæmd og samræmingu í baráttu við og útrýmingu á öllum sjúkdómum í búfé og öðrum dýrum hér á landi.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Greinin leggur þá skyldu á alla sem hafa ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi að tilkynna það dýralækni eða lögreglu. Jafnframt er kveðið á um mismunandi úrræði sem dýralækni ber að framkvæma eftir því hvort um er að ræða sjúkdóm sem talinn er í viðauka 1 eða viðauka 2. Í viðauka 1 eru dýrasjúkdómar sem eru hættulegir mönnum og dýrum og geta með útbreiðslu sinni valdið eða eru líklegir til að valda stórfelldu tjóni. Um þá ber dýralækni tafarlaust skylda til að tilkynna yfirdýralækni, jafnframt því að grípa án tafar til varúðarráðstafana gegn útbreiðslu sjúkdómsins eða til útrýmingar sjúkdóminum. Er þá m.a. unnt að grípa til afhendingarbanns eða banna afhendingu á afurðum viðkomandi dýrs sem getur reynst nauðsynlegt til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Ákvæði svipaðs efnis er í 7. gr. laga um dýralækna, nr. 77/1981, sem þó takmarkast eingöngu við búfé.

Um 6. gr.


    Greinin kveður á um skyldu allra dýralækna sem starfa að dýralækningum til að fylgja fyrirmælum yfirdýralæknis um skráningu allra dýrasjúkdóma og fylgja fyrirmælum um ráðstafanir til varnar og upprætingar sjúkdóma og er nýmæli. Hún tekur til allra héraðsdýralækna og sjálfstætt starfandi dýralækna sem er nauðsynlegt vegna síaukinnar hættu á að smitsjúkdómar berist til landsins vegna aukinna samgangna og hugsanlegs innflutnings á landbúnaðarafurðum í framtíðinni.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir að heimilt sé að setja með reglugerð nánari ákvæði um nauðsynlegar varúðarráðstafanir verði vart við hættulega smitsjúkdóma í dýrum eða ef upp kemur grunur um þá. Jafnframt hefur greinin að geyma heimild til að setja sérstakar reglur um aðgerðir til útrýmingar nýjum hættulegum smitsjúkdómum sem kunna að berast til landsins. Mikilvægt er að lögin hafi að geyma tiltölulega rúma reglugerðarheimild að þessu leyti og eru ekki tæmandi talin þau atriði sem unnt er að kveða á um í reglugerð.

Um 8. gr.


    Í greininni er að finna yfirgripsmikila upptalningu á ráðstöfunum sem ráðherra getur kveðið á um í því skyni að hindra útbreiðslu eða útrýma dýrasjúkdómum og til að afstýra hættu og tjóni af völdum útbreiðslu þeirra. Rétt þykir að heimildir af því tagi, sem hér um ræðir, séu hjá ráðherra. Nýmæli er að varnaraðgerðir, sem greinin fjallar um, geti náð til eiganda eða umráðaaðila dýra, en slíkt getur verið þýðingarmikið varðandi margar tegundir smitsjúkdóma.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Að efni til er greinin svipuð ákvæðum 2. og 3. gr. laga nr. 11/1928, um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins. Í heild er fjölgað þeim vörutegundum sem óheimilt er að flytja til landsins og við bætast gróðurmold og rotmassi blandað alidýraáburði, kjötmjöl, beinamjöl, fóðurvörur unnar úr afurðum eða úrgangi spendýra og fugla, blóð og blóðvatn (a-liður), notaður reiðfatnaður, notuð reiðtygi og annað sem notað hefur verið við geymslu eða flutninga á dýrum og dýraafurðum, svo og notaður veiðibúnaður til stangaveiði (b- og c-liðir). 1. málsl. 2. mgr. um undanþágu frá innflutningsbanni a-liðar 1. mgr. er nýmæli. 3. mgr. er efnislega samhljóða 3. gr. laga nr. 11/1928.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða ákvæðum 2. og 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 23/1956 sem gilda um sauðfjárvarnasvæði.

Um 13. gr.


    Greinin er nýmæli og hefur að geyma þýðingarmikil ákvæði sem ætlað er að fyrirbyggja hættu á útbreiðslu smitefna eða annarra skaðlegra efna. Sífellt erfiðara reynist að finna staði til að koma fyrir úrgangi eða hræjum. Því er nauðsynlegt að setja sérstakar reglur til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitefnis.

Um 14. gr.


    Hér er lagt til að ráðherra setji með reglugerð ákvæði um meðferð, geymslu og notkun matarleifa og dýraafurða til fóðurgerðar og um sýnatöku og eftirlit. Nærtækt dæmi um útbreiðslu smitefnis í fóðri úr dýraafurðum er sjúkdómurinn heilahrörnun í nautgripum (BSE) í Bretlandi þar sem skorti á nauðsynlega hitameðferð við fóðurgerðina. Ítarlegar leiðbeinandi reglur á þessu sviði eru til þess fallnar að draga úr smithættu.

Um 15. gr.


    Í þessari grein er nýmæli um heimild til að setja reglur um fósturflutninga og heilbrigðiskröfur fósturmæðra. Gildandi reglugerð á þessu sviði er reglugerð um búfjársæðingar nr. 226 13. ágúst 1969.

Um 16. gr.


    Greinin kveður á um skyldu ríkissjóðs til að greiða þóknun og ferðakostnað þeirra aðila sem vinna að framkvæmd laganna eftir fyrirmælum yfirdýralæknis. Um getur verið að ræða dýralækni og aðra aðila sem taka að sér sérstök og afmörkuð verkefni samkvæmt fyrirsögn yfirdýralæknis.

Um 17. og 18. gr.


    Kostnaður við einangrun, rannsóknir, sótthreinsun og því um líkt greiðist af ríkissjóði þegar um er að ræða búfé og sjúkdóma sem taldir eru upp í viðauka 1 með lögunum. Kostnaður við einangrun og rannsóknir á öðrum sjúkdómum getur að hluta eða öllu leyti fallið á eiganda viðkomandi dýrs samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra. Í 17. gr. er mikilvægt nýmæli um skyldu eigenda búfjár til að leggja endurgjaldslaust fram aðstoð og ófaglega vinnu við hreinsun, sótthreinsun og aflífun dýra.

Um 19. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 8. gr. laga nr. 23/1956, með síðari breytingum.

Um 20. gr.


    Í greininni er kveðið á um rétt búfjáreigenda til bóta úr ríkissjóði fyrir búfé sem fargað er samkvæmt fyrirmælum landbúnaðarráðherra. Takmarkast bótaskylda ríkissjóðs við búfé og falla því gæludýr og önnur dýr sem ekki eru haldin eða alin til nytja utan skyldu ríkissjóðs til greiðslu bóta. Samkvæmt 2. mgr. er aðalreglan sú að bótum ríkissjóðs er ætlað að svara til verðgildis afurða og rekstrartaps sem sannanlega leiðir af eyðingu búfjárins. Undantekning frá þessari meginreglu er í 3. mgr. að nýtanlegar afurðir búfjár koma til frádráttar heildarbótum eiganda. Þá geta bætur fyrir kynbótagripi skv. 2. mgr. verið hærri en sannanlegt verðmæti afurða þeirra.

Um 21. gr.


    Greinin fjallar um takmörkun á bótarétti eigenda dýra að hluta eða öllu leyti við þær aðstæður ef sannast að eigandi fer ekki eftir ákvæðum laganna eða stjórnvaldsfyrirmælum settum samkvæmt þeim. Greinin tekur einnig til þeirra tilvika ef eigandi verður sér úti um dýr sem hann vissi eða mátti vita að var haldið sjúkdómi. Eðlilegt þykir að eigendur verði að bera tjón sitt sjálfir að hluta eða öllu leyti við þær aðstæður sem greininni er ætlað að ná yfir.

Um 22. gr.


    Greinin er nýmæli og kveður á um skyldu til að veita yfirdýralækni, héraðsdýralæknum og fulltrúum þeirra aðgang að húsnæði, búum og fyrirtækjum þar sem dýr eða afurðir þeirra eru og upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits og rannsókna. Eftirlits- og rannsóknaraðilum sem greinin nær til er nauðsyn á að hafa greiðan aðgang að öllum þeim stöðum þar sem dýr eða afurðir þeirra eru og jafnframt getur verið brýnt að fá án tafar allar upplýsingar sem máli geta skipt í tengslum við eftirlit eða rannsóknir á sjúkdómum og er greininni ætlað að ná yfir slík tilfelli.

Um 23. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 23/1956. Ákvörðunarvald um niðurlagningu varnarlínu er hjá landbúnaðarráðherra í stað sauðfjársjúkdómanefndar áður.

Um 24. gr.


    Hér er fjallað um heimild yfirdýralæknis til að fyrirskipa sérstakar merkingar á búfé þegar nauðsyn krefur og að banna hvers konar litarmerkingar á búfé á ákveðnum svæðum. Greinin er svipuð að efni til og 12. gr. laga nr. 23/1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, en sú grein hefur að geyma heimild fyrir sauðfjársjúkdómanefnd til að fyrirskipa eða banna slíkar merkingar á sauðfé og nautgripum. Eigendum búfjár er ætlað að bera allan kostnað af merkingum.

Um 25. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 13. gr. laga nr. 23/1956 og þarfnast ekki skýringa.

Um 26. gr.


    Greinin er nýmæli. Í gildandi lög skortir sambærileg úrræði sem nauðsynleg eru til að framfylgja ákvörðun ráðherra á grundvelli laganna. Förgun dýra eða umráðataka þeirra er háð sérstöku samþykki yfirdýralæknis og verður ekki framkvæmd án þess að sjónarmið eiganda og umráðamanns liggi fyrir.

Um 27. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um skipun þriggja manna dýrasjúkdómanefndar samkvæmt tilnefningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Gert er ráð fyrir að yfirdýralæknir sé formaður nefndarinnar sem er í samræmi við það markmið laganna að samræma og færa á eina hendi stjórn sjúkdómamála dýra.
    2. mgr. gerir ráð fyrir heimild landbúnaðarráðherra til að skipa þriggja manna svæðisnefnd sem ætlað er að vera yfirdýralækni til aðstoðar við framkvæmd varnaraðgerða og útrýmingu alvarlegra smitsjúkdóma sem upp kunna að koma í dýrum. Eðli málsins samkvæmt er hér um tímabundna nefnd að ræða sem skipuð yrði vegna ákveðins sjúkdóms sem við er að glíma á ákveðnu svæði/svæðum. Þær aðstæður geta skapast að yfirdýralækni sé nauðsyn á að hafa sér til aðstoðar nefnd manna sem staðkunnugir eru og geta verið til aðstoðar við framkvæmdir sem gera þarf til útrýmingar smitsjúkdómi.

Um 28. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skipar landbúnaðarráðherra framkvæmdastjóra sauðfjársjúkdómanefndar. Í samræmi við þá breytingu, sem frumvarpið felur í sér á yfirstjórn dýrasjúkdóma og lýst er í almennum athugasemdum, er eðlilegt að staða framkvæmdastjóra sauðfjársjúkdómanefndar færist við gildistöku laganna til landbúnaðarráðuneytisins, enda má gera ráð fyrir að verkefni ráðuneytisins aukist að einhverju marki við þá breytingu.

Um 29. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 30. gr.


    Greinin hefur að geyma hliðstæðan refsiramma og gildandi lög kveða á um.

Um 31. gr.


    Í greininni eru talin upp þau lög og lagaákvæði sem felld eru brott við gildistöku laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Fyrirsjáanlegt er að töluverða vinnu þarf að leggja í að endurskoða þær reglugerðir og önnur fyrirmæli sem sett hafa verið með stoð í gildandi lögum. Því er gert ráð fyrir að reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli haldi gildi sínu að svo miklu leyti sem þau stangast ekki á við lögin. Hér er einkum um að ræða reglugerð nr. 556/1982 um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum og reglugerð nr. 290/1978 um sauðfjárbaðanir.



Fylgiskjal I.


Páll A. Pálsson,
fyrrv. yfirdýralæknir:

BÚFJÁRSJÚKDÓMAR, INNFLUTNINGUR DÝRA OG BÚFJÁRAFURÐA


I.


    Vegna afskekktrar legu Íslands norður í höfum hafa þeir smitsjúkdómar húsdýra, sem alvarlegastir eru, aldrei borist til landsins, þó hafa nokkrir smitsjúkdómar húsdýra, sem hingað hafa borist, valdið gífurlegu tjóni beint og óbeint svo sem alkunna er.
     Þrátt fyrir strjálbýli hér á landi eru búskaparhættir þannig að mjög hefur reynst erfitt og kostnaðarsamt að hindra útbreiðslu smitandi húsdýrasjúkdóma sem hér hafa náð fótfestu.
     Húsdýr (kindur, hross og nautgripir) eru hér yfirleitt látin eftirlitslítil í sumarhögum og fara vítt um bæði á afréttum og í heimahögum. Tilhögun afréttamála og fjallskila, sem hér er lögbundin, er vel til þess fallin að stuðla að dreifingu smitsjúkdóma í sauðfé og hrossum.
     Flutningur og umferð með hross milli héraða og landshluta er með ólíkindum mikil að ekki sé talað um sífelld kaup og sölu hrossa, hestamót, eftirlitslausan flutning á graðhestum og hryssum landshorna á milli. Hesthúsaþorp hafa risið þangað sem hundruð hrossa eru flutt á hverju hausti hvaðanæva eftirlitslaust og geymd vetrarlangt. Ef upp kæmi einhver þeirra smitandi hrossasjúkdóma sem landlægir eru í grannlöndum okkar má telja nokkuð víst að útbreiðsla þeirra yrði ör við þessar aðstæður og afleiðingar skelfilegar. Löng húsvist búfjár hér á landi, oft við mikil þrengsli og lélegan aðbúnað og stundum takmarkað einhæft fóður, veitir smitsjúkdómum góð skilyrði til að ná öruggri fótfestu og útbreiðslu verði þeirra ekki vart þegar í stað sem telja verður frekar ósennilegt.
     Aldalöng nánast algjör einangrun húsdýra hér á landi hefur gert það að verkum að sumir sjúkdómar, sem erlendis eru landlægir og taldir fremur meinlausir, geta, þegar þeir sýkja íslensk dýr, orðið að alvarlegum farsóttum. Þetta hefur bændum og ráðamönnum þjóðarinnar lengi verið ljóst og því viljað nýta afskekkta legu landsins til að vernda húsdýr landsmanna gegn því að hingað bærust smitandi sjúkdómar með lagasetningum og reglum sem lögðu bann við því að flutt væru til landsins dýr eða vörur sem smithætta gæti stafað af. Því miður hafa bönn þessi ekki alltaf komið að tilætluðu haldi og liggja til þess ýmsar ástæður. Þegar undanþágur hafa verið veittar hefur þekking manna á eðli sumra smitsjúkdóma verið ofmetin, látið hefur verið undan ásókn um innflutning og þeirri gróðavon sem menn töldu tengda honum og sú staðreynd að innflutningi lifandi dýra fylgir ávallt nokkur áhætta, hvernig sem um hnúta er búið, ekki verið viðurkennd.

II.


    Í tímans rás hafa ýmis lög og reglur verið sett bæði til að girða fyrir að sjúkdómar bærust til landsins og til þess að hamla útbreiðslu sjúkdóma sem hingað bærust eða hér hafa náð fótfestu.
     Með lögum 17. mars 1882 var fyrst lagt bann við því að flytja til Íslands útlent kvikfé en sérstaka undanþágu mátti þó gera með stjórnarleyfi gegn varúðarreglum og tryggingum. Þegar lög þessi voru sett var enn tekist á um aðgerðir gegn fjárkláðanum seinni sem svo hefur verið nefndur og hingað barst 1855, en sá sjúkdómur olli geysitjóni og heiftugum deilum um áratuga skeið. Enn hefur ekki tekist að uppræta fjárkláða að fullu þótt mikilli vinnu og fjármunum hafi verið til kostað.
     Á síðari hluta nítjándu aldar hófst innflutningur á ósútuðum húðum til landsins. Voru þær einkum notaðar til skógerðar. Með þeim barst þráfaldlega miltisbruni til landsins sem víða fékk nafnið „skinnapest“. Olli veiki þessi verulegu tjóni á einstökum bæjum og þar sem hræ af miltisbrunasjúklingum voru grafin var veikin síðar að stinga sér niður aftur og aftur allt fram á þennan dag, því gró miltisbrunasýkla lifa áratugum saman. Þess vegna voru sett lög um hömlur og bann við innflutningi á ósútuðum húðum og skinnum með lögum frá 11. desember 1891 og 14. febrúar 1902. Tók þá fyrir miltisbrunasmit af þessum völdum.
     Lögum frá 1882 um bann við innflutningi á útlendu kvikfé var dálítið breytt með lögum 10. nóvember 1905 og lögum 9. júlí 1909 og alidýrategundum fjölgað sem bannað var að flytja inn svo að ekki mátti flytja inn nautgripi, sauðfé, hesta, svín, geitur eða hunda.
    Með lögum 15. júní 1926 um innflutningsbann á dýrum o.fl. eru fyllri ákvæði, bannað að flytja til landsins spendýr og tilteknar vörur sem smithætta gat stafað af. Í öllum þessum lögum var gert ráð fyrir að veita mætti undanþágu frá banninu að uppfylltum vissum öryggisatriðum. Vegna ótta við gin- og klaufaveiki, sem þá geysaði í flestum löndum Evrópu, voru enn sett lög 23. apríl 1928, um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins. Hafa þau að geyma enn ítarlegri ákvæði en lögin frá 1926 sem jafnframt voru felld úr gildi. Mikil áhersla er lögð á að banna ýmsar vörutegundir sem smithætta gæti stafað af. Þegar sérstakt hættuástand skapast í viðskiptalöndum okkar varðandi smitsjúkdóma heimila lögin sérstakar varúðarráðstafanir og hefur þeirri heimild stöku sinnum verið beitt. Lög þessi eru góðu heilli enn í gildi. Almennt er viðurkennt eins og mörg dæmi sanna að kjötvörur ýmiss konar hafa borið smit milli landa jafnvel milli heimsálfa. Má heita að fréttir af slíkum slysum berist árlega erlendis frá og hafa slík slys valdið gífurlegu tjóni beint og óbeint, t.d. þegar um er að ræða gin- og klaufaveiki, svínapest og hænsnapest. Vegna áðurnefndra laga frá 1928 þurfti sérstök lög (14. júní 1929) til að heimila stjórnvöldum innflutning og ræktun sauðnauta fyrst frá Austur-Grænlandi og ári síðar frá Noregi. Öll hin innfluttu sauðnaut drápust á fyrsta og öðru ári eftir komuna til Íslands.
     Þann 8. september 1931 voru sett lög um heimild fyrir ríkisstjórn að flytja inn sauðfé til sláturfjárbóta og 19. júní 1933 lög um heimild fyrir ríkisstjórn að flytja inn nautgripi af bresku holdakyni. Í skjóli þessara laga var flutt inn sauðfé frá Skotlandi 1932 og árið eftir karakúlfé frá Þýskalandi.
     Árið 1933 voru flutt inn holdanaut frá Bretlandi. Þau reyndust hafa húðsjúkdóm, hringskyrfi, er smitaði íslenska nautgripi sem með þeim voru í Þerney þar sem þeir voru geymdir og einnig fólk sem hirti gripina. Framangreind lög, sem heimiluðu innflutninginn, voru samþykkt á alvarlegum krepputíma í þeirri von og trú að innflutningur erlendra búfjárkynja gæti styrkt fjárhagsafkomu landsmanna ekki síst bænda. Allt fór það þó öðruvísi en menn höfðu vonað. Með karakúlfénu bárust sjúkdómar sem urðu að farsóttum, garnaveiki, votamæði, þurramæði og sennilega kýlapest, með nautgripunum hringskyrfi svo þeir voru felldir og ýmsir ókostir skoska fjárins við íslenska staðhætti komu í ljós en með því höfðu menn ekki reiknað.
     Í stað þess að efla afkomu og atvinnuhætti ollu sjúkdómar þeir, sem bárust til landsins með þessum innflutningi, geysitjóni beint og óbeint og eru sumir þeirra nú orðnir landlægir og vonlítið að uppræta þá eins og þekking manna nær nú.
    Loðdýr, einkum minkar og silfurrefir, voru fluttir inn í byrjun fjórða áratugar aldarinnar. Bundu ýmsir vonir við þann innflutning og var farið heldur óvarlega með þessi dýr svo þau sluppu úr vörslu og minkur lagði smátt og smátt undir sig allt landið með þeim afleiðingum sem óþarft er að rekja.
     Sauðfjárrækt og sauðfé var flutt inn með sérstöku leyfi atvinnumálaráðherra árið 1947. Svo illa tókst til að kindur þessar sýndu einkenni smitsjúkdóms, sem hér er óþekktur, strax og kaupin voru gerð. Var fénu því öllu lógað fáum dögum eftir komuna til landsins.
     Eftir hinar sífelldu hrakfarir, óhöpp og geysilega tjón, sem fylgdu í kjölfar innflutnings eins og hér er rakið, voru sett mjög ströng lög um innflutning lifandi dýra, lög nr. 15/1948. Ákvæði þeirra voru tekin upp í lög nr. 74 28. apríl 1962. Í þeim lögum er þó heimild til að flytja inn nautasæði til notkunar í sóttvarnastöð ríkisins. Var sú heimild notuð og hefur sú tilhögun reynst óhappalaus eftir því sem best er vitað fram til þessa.
    Mest var þó tjónið sem fylgdi innflutningi sauðfjár. Þegar ljóst varð hve alvarlegir sjúkdómar höfðu borist til landsins með innflutningi karakúlfjárins 1933 varð ljóst að opinberra aðgerða var þörf til að takast á við þessi nýju vandamál sem raunar urðu fljótt svo stórfelld að þau vörðuðu þjóðina alla beint eða óbeint. Fyrstu lögin sem sett voru varðandi þessar fjárpestir voru bráðabirgðalög 21. desember 1936 „Um varnir gegn útbreiðslu sauðfjárveiki“. 12. maí 1937 voru síðan staðfest lög „Um varnir gegn útbreiðslu borgfirsku sauðfjárveikinnar“ og næstu árin voru sett fleiri lög eftir því sem vandinn óx og viðhorfin breyttust.
     Þann 9. júlí 1941 voru sett lög „Um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og heimild til samþykktar um fjárskipti“ og fyrri lög um þessi mál felld úr gildi. Enn voru staðfest lög 9. maí 1947 „Um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra“ og eldri lög jafnframt felld úr gildi, en mörg ákvæði þeirra felld inn í hin nýju lög.
     Loks voru staðfest lög 10. mars 1956 „Um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra“. Þau lög eru enn í gildi með viðaukalögum 28. mars 1967: „Um viðauka við breytingar á lögum nr. 23 10. mars 1956“.
     Með stoð í þeim lögum, sem að framan eru talin, voru gefnar út ýmsar reglugerðir, tilkynningar og fyrirmæli varðandi nauðsynlegar aðgerðir gegn þessum sjúkdómum sem lögin náðu til.
     Með þeim viðauka, sem lögfestur var 28. mars 1967, var fellt inn ákvæði um riðuveiki og kýlapest og einnig var hægt að beita lögunum er aðrir áður óþekktir sjúkdómar kæmu upp og yllu stórfelldu tjóni. Hafa ákvæði þessi m.a. verið notuð til að útrýma hringskyrfi í búfé og til að hamla útbreiðslu riðuveiki. Löggjöfin um varnir og útrýmingu karakúlpestanna er á margan hátt hin merkasta þar sem framkvæmd þeirra treysti og byggðist fyrst og fremst á þegnskap og samvinnu sauðfjáreigenda við nauðsynlegar, erfiðar, vandasamar og víðtækar framkvæmdir. Vandséð er hvort tekist hefði með öðrum hætti að ná tilætluðum árangri.

III.


     Í tímans rás hafa nokkrir alvarlegir smitsjúkdómar dýra borist til landsins þrátt fyrir að reynt hafi verið að girða fyrir það með varúðarráðstöfunum og bönnum ýmiss konar. Til fróðleiks skulu tilgreind nokkur dæmi um það.
     Ekki eru tiltækar heimildir um innflutning dýra til landsins áður en lög um bann við innflutningi kvikfjár voru sett fyrir rúmri öld síðan. Oftast voru það einstaklingar sem stóðu að slíkum innflutningi og oftast var um að ræða einstök eða fá dýr hvort sem um var að ræða kindur, kálfa, svín, hunda eða ketti. Eftirlit með slíkum innflutningi var ekki fyrirskipað eða framkvæmt.
     Upp úr miðri átjándu öld var á vegum stjórnvalda efnt til innflutnings á sauðfé til landsins í þeim tilgangi að bæta ullargæði. Svo illa tókst til að 1762 barst með þessu fé fjárkláði að talið er sem geisaði sem faraldur um mikinn hluta landsins. Sauðfjáreign landsmanna var þá talin 360 þúsund. Með skipulögðum fjárskiptum, sem tók til allra héraða að kalla vestan Jökulsár á Sólheimasandi og Skjálfandafljóts, er talið að kláðanum hafi verið útrýmt. Af völdum þessa faraldurs fórst eða var skorið niður um 280 þúsund fjár. Aftur barst fjárkláði til landsins árið 1856 með enskum kindum sem prestur á Suðurlandi flutti inn. Olli sá faraldur heiftugum deilum áratugum saman. Enn hefur fjárkláða ekki verið útrýmt að fullu.
     Riðuveiki í sauðfé hefur lengst af verið mest áberandi á Norðurlandi, en breiðst þaðan til annarra landshluta síðustu tvo áratugi. Ýmsir hafa haldið því fram að upphaf riðuveiki megi rekja til kynbótahrúts af ensku kyni sem fluttur var til Skagafjarðar 1878. Riðuveiki er nú sá sauðfjársjúkdómur sem mestu tjóni veldur og erfiðast er við að eiga, enda staðið af sér fjárskipti sums staðar.
     Kýlapest í sauðfé barst til landsins með innfluttu fé á fjórða áratugnum og varð fyrst vart í Þingeyjarsýslu. Þessa sjúkdóms verður nú víða vart.
     Hundafár eða hundapest barst hvað eftir annað til landsins með útlendum hundum og geisaði hér sem banvænn faraldur svo heilir landshlutar urðu hundlausir að kalla. Síðasti faraldur af þessu tagi barst með smygluðum hundi til landsins árið 1966.
     Illkynjuð klaufaveiki í sauðfé barst til landsins árið 1947 með skoskum hrútum sem ætlaðir voru til sauðfjársæðinga. Þeim var öllum slátrað meðan þeir voru enn í sóttkví.
     Svínapest og blöðruþot eru veirusjúkdómar sem hingað bárust með matarleifum frá hernum. Hvoru tveggja sjúkdómur olli miklu tjóni á svínabúum suðvestanlands.
     Miltisbruni barst þráfaldlega til landsins með innflutningi á ósútuðum nautshúðum uns innflutningur var bannaður með sérstökum lögum 1902.
     Berklaveiki hefur lítið orðið vart í dýrum hér á landi ef frá eru talir fuglaberklar sem fundist hafa bæði í alifuglum og æðarfugli og ekki ósjaldan í svínum.
     Nautaberklar hafa sennilega borist hingað með útlendum berklaveikum fjósamanni sem hirti kýr á skólabúinu á Hólum í Hjaltadal 1958. Allir nautgripir staðarins voru loks felldir og höfðu þá allir smitast. Talið var að tvö ungmenni á staðunum hefðu smitast sennilega af ógerilsneyddri mjólk.
     Hringskyrfi barst til landsins með breskum holdanautum og voru þau felld. Síðan hefur þessi sjúkdómur, sem er smitnæmur húðsjúkdómur sem sveppir valda, tvisvar borist til landsins með útlendingum sem sinntu hér fjósverkum. Í fyrra sinnið barst sjúkdómurinn til Eyjafjarðar 1966, dreifðist á 12 bæi, þar sem nær allir nautgripir smituðust auk þess sem veikin barst í fólk, sauðfé og hross. Aftur barst sjúkdómurinn 1987 með útlendri stúlku í nautgripi á bæ undir Vestur-Eyjafjöllum. Heimilisfólk smitaðist og með kálfum í sumarhögum dreifðist sjúkdómurinn á þrjá aðra bæi. Aðgerðir til að uppræta sjúkdóminn ollu bændum miklum óþægindum og niðurskurður á sauðfé og hrossum olli verulegum útgjöldum fyrir ríkissjóð.
     Þegar loðdýrarækt hófst á nýjan leik hér á landi um 1970 voru fluttir inn minkar, refir og kanínur í allstórum stíl. Enda þótt reynt væri að sneiða við innkaup dýranna hjá stöðum þar sem kunnugt var um sjúkdóma fór ekki hjá því að hingað bærust með þessum innflutningi smitsjúkdómar eins og t.d. plasmacytosis sem veldur verulegu tjóni í minkabúum. Smitandi sjúkdómar í öndunarfærum kanína ollu líka tjóni í sumum búum. Er þetta enn ein sönnun þess að ógerlegt er með öllu að girða fyrir sjúkdóma þegar um er að ræða innflutning á lifandi dýrum þó fyllstu varúðar sé gætt.
     Vegna reynslu erlendis, þar sem smitsjúkdómar í vatnafiskum hafa borist með hrognum og seiðum, voru hömlur settar á innflutning vatnafiska og hrogna úr þeim, sbr. lög nr. 76 25. júní 1970. Ekki er vitað til þess að með þeim litla innflutningi á hrognum, sem heimilaður hefur verið, hafi borist sjúkdómar.
     Alkunnugt er að með innflutningi á hráum sláturafurðum hafa sjúkdómar borist milli landa, t.d. gin- og klaufaveiki, svínapest, Newcastle-veiki í hænsnum, nautariða o.s.frv.
     Af þessum sökum hefur um allangt skeið verið bannað að flytja inn fóðurvörur sem í hefur verið blandað mjöli unnu úr slátur- eða mjólkurafurðum.
    Eigi að síður hafa fundist hér í fóðurvörum salmonella-sýklar bæði í pokuðu fóðri og fóðri sem flutt er laust og getur því auðveldlega mengast, t.d. af músum og rottum. Nú munu salmonella-sýkingar af ýmsu tagi orðnar landlægar hér á landi og verður seint útrýmt.
     Ýmis lög og reglur hefur þurft að setja til að hamla útbreiðslu smitsjúkdóma húsdýra umfram það sem hér hefur verið rakið, varnaraðgerðir verið fyrirskipaðar eða menn hvattir til að beita þeim. Er sú starfsemi stöðugt í gangi um allt land að kalla.
     Eins og ljóst má vera af því lauslega yfirliti, sem hér er rakið, hefur innflutningur lifandi dýra eða búfjárafurða til landsins í för með sér hættu á því að með honum berist smitsjúkdómar hvernig sem um hnútana er búið. Því verður aldrei of varlega farið í þeim efnum. Gildandi lagareglur um smitsjúkdóma dýra hér á landi og hömlur gegn innflutningi dýra og afurða þeirra eru því seint of strangar.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um


dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.


    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að ein heildarlöggjöf um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim taki við af fimm eldri lögum á þessu sviði sem flest miðast við ákveðna búfjársjúkdóma. Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
     Stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs í þessum málaflokki er greiðslur til bænda vegna förgunar á búfé. Landbúnaðarráðuneytið hefur lýst því yfir að það muni haga reglugerðarákvæðum um framkvæmd 20. gr. frumvarpsins þannig að hugsanleg bótaskylda ríkissjóðs vegna þess aukist ekki frá því sem er samkvæmt gildandi lögum.
     Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sauðfjársjúkdómanefnd verði lögð niður en kostnaður við hana hefur numið um 0,4 millj. kr. á ári hverju. Á móti kemur að í 27. gr. er kveðið á um dýrasjúkdómanefnd og svæðisnefnd. Kostnaður vegna þessara nefnda er áætlaður óverulegur enda er ekki gert ráð fyrir umfangsmiklu starfi. Á það sérstaklega við um svæðisnefndina en hún verður ekki skipuð nema upp komi alvarlegur smitsjúkdómur í dýrum á afmörkuðum svæðum. Þá mun starfsmaður sauðfjárveikivarna færast til landbúnaðarráðuneytis. Gera má ráð fyrir að þessi skipan muni koma til með að auka hagkvæmni í rekstri og draga úr útgjöldum þegar til langs tíma er litið.
     Loks skal það áréttað að ákvæði 17. gr. frumvarpsins um greiðslu kostnaðar, sem leiðir af einangrun dýra, á ekki við um einangrun gæludýra sem leyfður er innflutningur á samkvæmt heimild í lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra.