Ferill 294. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 294 . mál.


426. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987.

Flm.: Finnur Ingólfsson, Stefán Guðmundsson, Ólafur Þ. Þórðarson,


Páll Pétursson, Valgerður Sverrisdóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.



1. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
     Gjald skv. 1. gr. skal innheimt til ríkissjóðs. Tekjum samkvæmt lögum þessum skal einungis varið til vega- og reiðvegagerðar samkvæmt veg- og reiðvegaáætlunum.
    

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    


Greinargerð.


     Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi um breytingu á vegalögum, nr. 6/1977, með síðari breytingum. Með því frumvarpi er Vegagerð ríkisins falin gerð reiðvega samkvæmt sérstakri reiðvegaáætlun sem samgönguráðherra lætur gera í samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög til fjögurra ára í senn. Samkvæmt frumvarpinu skal kostnaður við reiðvegagerð greiðast skv. 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til reiðvegagerðar.
    Í 1. gr. laga nr. 3/1987 er kveðið á um innheimtu sérstaks innflutningsgjalds af bensíni, svokallaðs bensíngjalds, og skal því skv. 2. gr. laganna varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun. Með frumvarpi þessu eru tekin af öll tvímæli um að tekjum ríkissjóðs af bensíngjaldi skuli einnig varið til reiðvegagerðar samkvæmt reiðvegaáætlun.
    Gera má ráð fyrir að um 10.000 manns stundi hestamennsku hér á landi. Við uppbyggingu vega og annarra umferðarmannvirkja hefur þó ekki sem skyldi verið tekið tillit til umferðar ríðandi manna. Hætta á slysum er því oft mikil, jafnt fyrir akandi sem ríðandi. Ekki er því óeðlilegt að tekjum ríkissjóðs af bensíngjaldi sé varið til gerðar reiðvega. Gerð þeirra mundi án efa auka umferðaröryggi til muna og draga þannig mjög úr slysahættu. Ávinningur þjóðfélagsins og ríkissjóðs er því umtalsverður þegar til lengri tíma er litið.