Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 295 . mál.


427. Frumvarp til laga



um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Brottfall laga um hreppstjóra, nr. 32 26. apríl 1965, o.fl.


1. gr.


    Lög um hreppstjóra, nr. 32 26. apríl 1965, með síðari breytingum, eru úr gildi felld.

2. gr.


    Í 4. gr. tilskipunar um húsvitjanir, 27. maí 1746, falla niður orðin „hvort þeir eru hreppstjórar eða virðingarmenn frá þessu embætti“.

3. gr.


     Í 17. gr. konungsbréfs (til stiftamtmanns og amtmanns) um fiskiútveg á Íslandi, 28.
febrúar 1758, fellur niður orðið „hreppstjórana“.

4. gr.


    Í 3. gr. tilskipunar um skyldu manna að bjarga mönnum, sem sýnast dauðir, 4. ágúst 1819, falla niður orðin „eða til sveita sóknarpresti eða hreppstjóra, ef skemmra er til þeirra, og skal það gert sumpart til þess, að embættismenn þessir eða sýslunarmenn geti, þangað til læknir kemur, séð um rétta meðferð á hinum sjúka, og sumpart til þess að þeir geti gert ráðstafanir þær, er þörf er á, ef einhver kynni að hafa til ábyrgðar unnið“.

5. gr.


    Í 8. gr. laga um stofnun veðdeildar í Landsbankanum í Reykjavík, nr. 1 12. janúar 1900, falla niður orðin „svo og að hreppstjórar fyrir hæfilega þóknun, er dómsmálaráðherra ákveður og veðdeildin borgar, hafi eftirlit með eignum þeim, sem í kaupstaðnum eða hreppnum eru veðsettar veðdeildinni“.

6. gr.


    Á lögum um landamerki o.fl., nr. 41 28. nóvember 1919, verða svofelldar breytingar:
    Í stað 5.–7. málsl. 1. mgr. 2. gr. kemur: Að þessu loknu skal merkjaskrá afhent sýslumanni til þinglýsingar.
    Í 2. mgr. 6. gr. falla niður orðin „og hreppstjórar“.
    2. málsl. 2. mgr. 6. gr. fellur niður.
    1. málsl. 3. mgr. 6. gr. verður svohljóðandi: Nú berast sýslumanni upplýsingar um að misbrestur sé á merkjagerð, merkjaskrá eða að viðhaldi merkja sé fylgt og skal hann þá kveðja þann eða þá sem eiga hlut að máli á sinn fund og beina því til þeirra að ráða bót á.

7. gr.


    Á lögum um skipströnd og vogrek, nr. 42 15. júní 1926, verða svofelldar breytingar:
    Í 1. málsl. 1. gr. falla niður orðin „hreppstjóra, eða lögreglustjóra, ef auðveldara er að ná til hans“, en í stað þeirra kemur: lögreglustjóra.
    2. málsl. 1. gr. fellur niður.
    Í 1. málsl. 2. gr. falla niður orðin „Hreppstjóri eða lögreglustjóri, ef hann er fyrr á strandstað kominn“, en í stað þeirra kemur: Lögreglustjóri.
    Í 3. málsl. 2. gr. falla niður orðin „Hreppstjóri eða lögreglustjóri“, en í stað þeirra kemur: Lögreglustjóri.
    3. gr. verður svohljóðandi:
                  Sá sem annast björgun og aðhlynningu manna, varðveislu skips og björgun góss og varðveislu þar til lögreglustjóri skipar fyrir um þau efni, sbr. þó 4. og 5. gr. og 1. mgr. 7. gr., skal gæta þess að ekkert það verði gert er tálma kunni síðar rannsókn nokkurra þeirra atriða er strandið varðar.
    Í 4. gr. falla niður orðin „hlutast hreppstjóri þá ekki“, en í stað þeirra kemur: skal þá ekki hlutast til.
    Í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. falla niður orðin „og hreppstjórum“.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. fellur niður orðið „hreppstjóri“, en í stað þess kemur: lögreglustjóri.
    Í 2. málsl. 6. gr. falla niður orðin „hreppstjóra eða“.
    Í 1. málsl. 8. gr. falla niður orðin „hreppstjóri eða“.
    Í 2. mgr. 10. gr. falla niður orðin „hreppstjóri eða sá annar, er með umboð lögreglustjóra“, en í stað þeirra kemur: lögreglustjóri eða sá annar, er með umboð hans.
    Í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. fellur niður orðið „Hreppstjóri“, en í stað þess kemur: Lögreglustjóri.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. falla niður orðin „bæði áður en og eftir að hann fékk fyrirskipanir lögreglustjóra“.
    Í 3. málsl. 1. mgr. 12. gr. fellur niður orðið „hreppstjóra“, en í stað þess kemur: lögreglustjóra. Í sama málslið falla niður orðin „og hreppstjóri skal annast“.
    4. málsl. 1. mgr. 12. gr. fellur niður.
    2. mgr. 12. gr. fellur niður.
    Í 1. málsl. 3. mgr. 12. gr. fellur niður orðið „hreppstjóri“, en í stað þess kemur: lögreglustjóri.
    4. mgr. 12. gr. fellur niður.
    Í 3. málsl. 14. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.
    Í 16. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.
    Í 1. mgr. 18. gr. falla niður orðin „hreppstjóra, eftirriti úr lögreglubók eða strandbók“.
    Í 19. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.
    Í 21. gr. falla niður orðin „hreppstjóra og“.
    Í 3. málsl. 23. gr. falla niður orðin „hreppstjóra eða“. Í sama málslið falla niður orðin „skulu þeir“, en í stað þeirra kemur: skal hann.
    4. málsl. 23. gr. fellur niður.
    Í 2. tölul. 32. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.
    Í 34. gr. falla niður orðin „hreppstjórum og“.

8. gr.


    Á víxillögum, nr. 93 19. júní 1933, verða svofelldar breytingar:
    Í 88. gr. falla niður orðin „hreppstjóra eða einn“.
    Í 1. mgr. 94. gr. falla niður orðin „hreppstjóri eða“.

9. gr.


    Á lögum um tékka, nr. 94 19. júní 1933, verða svofelldar breytingar:
    Í 66. gr. falla niður orðin „hreppstjóra eða einn“.
    Í 1. mgr. 71. gr. falla niður orðin „hreppstjóri eða“.

10. gr.


    Í 3. gr. laga um skipting fasteignaveðslána, nr. 39 13. júní 1937, falla niður orðin „og skal um matskostnað farið eftir lögum nr. 64 14. nóv. 1917, um laun hreppstjóra og aukatekjur“.

11. gr.


    Í 16. gr. landskiptalaga, nr. 46 27. júní 1941, fellur niður orðið „hreppstjóra“.

12. gr.


    Á lögum um skógrækt, nr. 3 6. mars 1955, verða svofelldar breytingar:
    12. gr. fellur niður.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. fellur niður orðið „hreppstjóra“, en í stað þess kemur: sveitarstjórn.
    Í 3. málsl. 1. mgr. 17. gr. fellur niður orðið „Hreppstjóri“, en í stað þess kemur: Sveitarstjórn.
    Í 4. málsl. 1. mgr. 17. gr. fellur niður orðið „hreppstjóri“, en í stað þess kemur: sveitarstjórn.
    Í 1. málsl. 2. mgr. 17. gr. fellur niður orðið „hreppstjóra“, en í stað þess kemur: sveitarstjórn.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 17. gr. fellur tvívegis niður orðið „hreppstjóri“, en í báðum tilvikum kemur í stað þess: sveitarstjórn.
    Í 6. mgr. 17. gr. falla niður orðin „Sé hreppstjóri eða“ en í stað þeirra kemur: Séu.
    Í 23. gr. falla niður orðin „Hreppstjórar og skógarverðir skulu, hver í sínu umdæmi“ en í stað þeirra kemur: Skógarverðir skulu.

13. gr.


    Á lögum um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, nr. 23 10. mars 1956, verða svofelldar breytingar:
    Í 2. mgr. 14. gr. fellur niður orðið „hreppstjóri“, en í stað þess kemur: sveitarstjórn.
    4. mgr. 14. gr. fellur niður.
    Í 16. gr. fellur niður orðið „Hreppstjórar“, en í stað þess kemur: Sveitarstjórnir.
    Í 1. málsl. 20. gr. fellur niður orðið „hreppstjóra“, en í stað þess kemur: sveitarstjórn.
    Í 3. málsl. 20. gr. fellur niður orðið „Hreppstjóra“, en í stað þess kemur: Sveitarstjórn. Í sama málslið fellur niður orðið „hann“, en í stað þess kemur: hún.
    Í 4. málsl. 20. gr. fellur niður orðið „hreppstjóri“, en í stað þess kemur: sveitarstjórn. Í sama málslið fellur niður orðið „hann“, en í stað þess kemur: hún.
    Í 1. málsl. 2. mgr. 35. gr. fellur niður orðið „hreppstjóra“, en í stað þess kemur: héraðsdýralækni.

14. gr.


    Á farsóttalögum, nr. 10 19. mars 1958, verða svofelldar breytingar:
    Í 4. mgr. 2. gr. fellur niður orðið „hreppstjórum“.
    3. málsl. 1. mgr. 8. gr. fellur niður.
    4. mgr. 8. gr. fellur niður.
    Í 1. mgr. 10. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.
    Í 1. málsl. 12. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.
    Í 2. málsl. 12. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.

15. gr.


    Á lögum um landgræðslu, nr. 17 24. apríl 1965, verða svofelldar breytingar:
    Í 3. mgr. 11. gr. falla niður orðin „hreppstjóra eða“.
    Í 1. málsl. 16. gr. falla niður orðin „hreppstjóra, en hann“, en í stað þeirra kemur: sveitarstjórn, en hún.
    Í 2. málsl. 16. gr. fellur niður orðið „hreppstjóri“, en í stað þess kemur: sveitarstjórn.
    5. málsl. 16. gr. fellur niður.

16. gr.


    Í 6. mgr. 1. gr. laga um útgáfu og notkun nafnskírteina, nr. 25 21. apríl 1965, falla niður orðin „eða hreppstjóra“.

17. gr.


    Í 2. mgr. 11. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33 26. apríl 1966, falla niður orðin „hreppstjórum fyrir hönd veiðiréttarhafa í umdæmum sínum“, en í stað þeirra kemur: einstökum handhöfum fuglaveiðiréttar.

18. gr.


    Á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, verða svofelldar breytingar:
    Í 1. mgr. 5. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.
    Í 2. mgr. 19. gr. falla niður orðin „Enn fremur er þeim heimilt“, en í stað þeirra kemur: Heimilt er.

19. gr.


    Á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76 25. júní 1970, verða svofelldar breytingar:
    Í 2. mgr. 11. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri, þar sem eigi er eftirlitsmaður við veiðivatn“.
    Í 3. mgr. 12. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri, þar sem eigi er eftirlitsmaður við veiðivatn, skulu“, en í stað þeirra kemur: skal.
    Í 2. mgr. 36. gr. falla niður orðin „eða hreppstjóri“.

20. gr.


    Á ábúðarlögum, nr. 64 31. maí 1976, verða svofelldar breytingar:
    2. málsl. 39. gr. verður svohljóðandi: Sýslumaður skipar úttektarmenn og tvo varamenn að fengnum tillögum sveitarstjórnar.
    Í 1. mgr. 40. gr. falla niður orðin „aðrir en hreppstjóri“.

21. gr.


    Á jarðalögum, nr. 65 31. maí 1976, verða svofelldar breytingar:
    Í 16. gr. fellur niður orðið „hreppstjórum“.
    Í 2. mgr. 29. gr. fellur niður orðið „hreppstjórum“.

22. gr.


    Á lögum um sauðfjárbaðanir, nr. 22 10. maí 1977, verða svofelldar breytingar:
    Í 1. mgr. 5. gr. falla niður orðin „hreppstjóra eða“.
    Í 4. mgr. 6. gr. falla niður orðin „hreppstjóra, er hlutast til um í samráði við eftirlitsmann“, en í stað þeirra kemur: héraðsdýralækni er hlutast til um.
    Í 2. mgr. 7. gr. falla niður orðin „og hreppstjóra“.

23. gr.


    Í 87. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75 14. september 1981, falla niður orðin „Hreppstjóra, sveitarstjóra“, en í stað þeirra kemur: Sveitarstjóra.

24. gr.


    Á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6 21. mars 1986, verða svofelldar breytingar:
    Í 33. gr. fellur niður orðið „hreppstjóra“, en í stað þess kemur: sýslumanns.
    Í 34. gr. fellur niður orðið „hreppstjóri“, en í stað þess kemur: sýslumaður.
    Í 1. mgr. 59. gr. fellur niður orðið „hreppstjóri“, en í stað þess kemur: sveitarstjórn.
    Í 4. mgr. 59. gr. fellur niður orðið „hreppstjóra“, en í stað þess kemur: sveitarstjórnar.
    Í 60. gr. falla niður orðin „skulu hreppstjórar birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um förgun óskilafjár, hver í sínum hreppi“, en í stað þeirra kemur: skal sveitarstjórn birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um förgun óskilafjár.
    Í 2. mgr. 65. gr. falla niður orðin „Hreppstjórar og markaverðir“, en í stað þeirra kemur: Markaverðir.

25. gr.


    Á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43 30. mars 1987, verða svofelldar breytingar:
    1. mgr. 3. gr. verður svohljóðandi:
                  Tollstjórar eru lögskráningarstjórar hver í sínu umdæmi. Utan aðsetursstaða sinna og á aðsetursstöðum sínum, ef þess gerist þörf, er tollstjórum heimilt að skipa fulltrúa til að annast lögskráningar.
    Í 2. mgr. 3. gr. falla niður orðin „Hreppstjórar og lögskráningarfulltrúar“, en í stað þeirra kemur: Lögskráningarfulltrúar.

26. gr.


    Á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80 16. október 1987, verða svofelldar breytingar:
    1. mgr. 10. gr. verður svohljóðandi:
                  Í hverri kjördeild skal vera undirkjörstjórn, skipuð þremur mönnum, er sveitarstjórn, sem í hlut á, kýs til eins árs úr hópi kjósenda sveitarfélagsins og jafnmarga til vara. Hlutfallskosningu skal viðhafa ef sveitarstjórnarmaður krefst þess. Kjörstjórn velur sér oddvita og skiptir að öðru leyti með sér verkum.
    B-liður 1. mgr. 13. gr. fellur niður.
    Í 2. mgr. 13. gr. falla niður orðin „en sýslumenn skipa varamenn hreppstjóra“.
    1. málsl. 1. mgr. 60. gr. verður svohljóðandi:
                  Sýslumaður varðveitir atkvæðakassa úr umdæmi sínu, svo og poka sem þeim fylgja, milli kosninga og sér um að þeir séu til taks í tæka tíð þar sem þarf að nota þá við kosningar.
    B-liður 1. mgr. 63. gr. fellur niður.
    5. málsl. 2. mgr. 66. gr. verður svohljóðandi:
                  Umslagið skal síðan áritað til sýslumannsins í því umdæmi eða kjörstjórnarinnar í þeirri kjördeild þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá.
    Í 1. mgr. 71. gr. falla niður orðin „Hreppstjórar og bæjarfógetar (í Reykjavík borgarfógeti)“, en í stað þeirra kemur: Sýslumenn.
    Í 2. mgr. 71. gr. falla niður orðin „hreppstjóra eða bæjarfógeta (borgarfógeta) í þeim hreppi eða kaupstað“, en í stað þeirra kemur: sýslumanni í því umdæmi.
    Í 3. mgr. 71. gr. falla niður orðin „hreppstjóri eða bæjarfógeti (borgarfógeti) síðan hlutaðeigandi undirkjörstjórn“, en í stað þeirra kemur: sýslumaður síðan undirkjörstjórn á aðsetursstað sínum.

27. gr.


    Í 6. gr. laga um búfjárhald, nr. 46 25. mars 1991, falla niður orðin „og afhentur hreppstjóra“.

28. gr.


    2. mgr. 6. gr. laga um Jarðasjóð, nr. 34 27. maí 1992, fellur niður.

29. gr.


    Á lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41 27. maí 1992, verða svofelldar breytingar:
    Í 14. gr. falla niður orðin „hreppstjóri eða“.
    Í 21. gr. falla niður orðin „fulltrúa hans, sbr. 14. gr., eða hreppstjóra“, en í stað þeirra kemur: eða fulltrúa hans, sbr. 14. gr.

II. KAFLI


Breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.


30. gr.


    Á eftir 2. mgr. 115. gr. laganna kemur ný málsgrein svohljóðandi:
     Dómsmálaráðherra er heimilt að leggja á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Umferðarráðs sem má nema allt að 100 kr. og greiðist við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki. Gjald þetta er grunngjald og er ráðherra heimilt að hækka gjaldið allt að því að það hækki í réttu hlutfalli við vísitölu framfærslukostnaðar. Grunntaxti er miðaður við 1. september 1992, þ.e. 161,3 stig. Ráðherra setur reglur um innheimtu umferðaröryggisgjalds og um skil þess í ríkissjóð.

III. KAFLI


Fjármálaráðstafanir á sviði kirkjumála.


31. gr.


    Á árinu 1993 skal taka af hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti samkvæmt lögum um kirkjugarða, nr. 21 23. apríl 1963, sbr. lög nr. 89 29. desember 1987, um breytingu á þeim lögum, til að standa undir kostnaði ríkisins við eftirtalin verkefni á sviði kirkjumála:
    Viðhald prestssetra.
    Byggingu prestssetra.
    Kaup eigna á prestssetursjörðum.
    Embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og Tónskóla þjóðkirkjunnar.
    Starfsþjálfun guðfræðikandídata.
    Kirkjuþing, prestastefnu og kirkjuráð.
    Ýmis verkefni.
    Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

32. gr.


    Meðan ekki liggur fyrir hverjar heildargreiðslur ríkisins skv. 2. gr. verða á árinu skal ríkissjóður halda eftir 20% af hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti við mánaðarlega greiðslu gjaldanna til kirkjugarða. Þegar upplýsingar um heildargreiðslur þessar liggja fyrir, og eigi síðar en 15. apríl 1994, skal endurgreiða kirkjugörðum það sem oftekið kann að hafa verið, en ella skal, ef því er að skipta, taka af hlutdeild þeirra á árinu 1994, og eigi síðar en 15. apríl, það sem kann að vera ógreitt. Með heildargreiðslum er átt við greiðslur samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir árið 1993.

33. gr.


    Á lögum um kirkjugarða verða svofelldar breytingar:
    3. mgr. 4. gr. laganna fellur niður.
    Við 5. mgr. 27. gr. laganna bætist: Laun umsjónarmanns kirkjugarða, sbr. 4. gr., greiðast úr Kirkjugarðasjóði.

IV. KAFLI


Gildistaka.


34. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Um I. kafla.


    Í tengslum við gerð fjárlaga fyrir árið 1993 hefur verið ákveðið að leggja til að embætti hreppstjóra verði lögð niður. Með þeim hætti er talið að spara megi u.þ.b. 16 millj. kr. Í frumvarpi þessu er lagt til að lög um hreppstjóra, nr. 32. 26. apríl 1965, verði felld úr gildi. Jafnframt er lagt til að í öðrum lögum, þar sem hreppstjórum er falið ákveðið hlutverk, verði ákvæði um þá felld brott. Þar sem talið hefur verið að ákvæði um hreppstjóra séu orðin óþörf er öðrum ekki falið að yfirtaka hlutverk þeirra, en ef talið er nauðsynlegt að fela öðrum hlutverk þeirra eru gerðar tillögur um það í einstökum greinum frumvarpsins, svo sem nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Sjá almennar skýringar hér að framan.

Um 2. gr.


    Í 4. gr. tilskipunar um húsvitjanir, 27. maí 1746, eru ákvæði um að m.a. hreppstjórum sé ekki heimilt að víkjast undan því að taka að sér störf meðhjálpara. Samkvæmt greininni er engum sem velst til slíkra starfa heimilt að víkjast undan því og er því lagt til að þetta sérákvæði verði fellt niður.

Um 3. gr.


    Í 17. gr. konungsbréfs (til stiftamtm. og amtm.) um fiskiútveg á Íslandi eru ákvæði um að sýslumenn skuli láta hreppstjóra krefja bætur samkvæmt bréfinu ef þær eru ekki afgreiddar góðmótlega. Með því að fella brott orðið „hreppstjórana“ er skylda samkvæmt ákvæðinu hjá sýslumönnum.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 3. gr. tilskipunar um skyldu manna til að bjarga mönnum, sem sýnast dauðir, 4. ágúst 1819, er skylt að tilkynna lögreglustjórum og til sveita, ef skemmra er til þeirra, sóknarpresti eða hreppstjóra um ráðstafanir sem gerðar eru til að bjarga mönnum sem sýnast dauðir. Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að sérákvæði um tilkynningaskyldu til sveita falli niður.

Um 5. gr.


    Samkvæmt 8. gr. laga um stofnun veðdeildar í Landsbankanum í Reykjavík, nr. 1 12. janúar 1900, sbr. 2. gr. laga 92/1991, er m.a. heimilt að ákveða í reglugerð að hreppstjórar hafi eftirlit með eignum þeim sem veðsettar eru deildinni. Í greininni er lagt til að þessi heimild falli brott.

Um 6. gr.


    Í greininni er lagt til að ákvæði um skyldur hreppstjóra samkvæmt lögum um landamerki o.fl., nr. 41 28. nóvember 1919, falli niður og að hlutverk þeirra samkvæmt lögunum færist alfarið til sýslumanna, en í flestum tilvikum höfðu þeir þessar skyldur ásamt hreppstjórum.

Um 7. gr.


    Í lögum um skipströnd og vogrek, nr. 42 15. júni 1926, eru lögreglustjórum og hreppstjórum falin ýmis verkefni. Í greininni er lagt til að þessi verkefni verði alfarið falin lögreglustjórum.

Um 8. gr.


    Í fimmtánda kapítula víxillaga, nr. 93 19. júní 1933, er m.a. hreppstjórum heimilað í undantekningartilvikum að annast um afsögn víxla. Í greininni er lagt til að þessi heimild falli niður.

Um 9. gr.


    Í þrettánda kapítula laga um tékka, nr. 94 19. júní 1933, er m.a. hreppstjórum heimilað í undantekningartilvikum að annast um afsögn tékka. Í greininni er lagt til að þessi heimild falli niður.

Um 10. gr.


    Í 3. gr. laga um skiptingu fasteignaveðslána, nr. 39 13. júní 1937, er tilvísun til laga um laun hreppstjóra og aukatekjur, nr. 64/1917, en þau voru felld niður með lögum 85/1938. Þar sem í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lög um hreppstjóra verði felld úr gildi er í grein þessari lagt til að tilvísun til þeirra verði felld niður.

Um 11. gr.


    Í 16. gr. landskiptalaga, nr. 46 27. júní 1941, eru ákvæði um að landeigendum sé í sumum tilvikum frjálst að skipta sjálfir landi. Þegar skiptin eru sérstaklega vandasöm er þeim þó skylt að fá til aðstoðar hreppstjóra, úttektarmann eða trúnaðarmann Búnaðarfélags Íslands. Í greininni er lagt til að tilvísun til hreppstjóra verði felld niður.

Um 12. gr.


    Samkvæmt lögum um skógrækt, nr. 3 6. mars 1955, er hreppstjórum fyrst og fremst ætlað það hlutverk að hafa milligöngu milli umsjónarmanna skógræktarsvæða og fjáreigenda þegar sauðfé eða geitfé kemst inn á skógræktarsvæði sem er girt. Í greininni er lagt til að þetta hlutverk hreppstjóra verði fært til sveitarstjórna.

Um 13. gr.


    Samkvæmt lögum um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, nr. 23 10. mars 1956, er hlutverk hreppstjóra aðallega að sjá um förgun á fé vegna smithættu og taka við tilkynningum og gera ráðstafanir ef grunsamleg veikindi koma upp í búfé. Í þessari grein er lagt til að þessar skyldur færist til sveitarstjórna.

Um 14. gr.


    Samkvæmt farsóttalögum, nr. 10 19. mars 1958, er hlutverk hreppstjóra að aðstoða héraðslækna við framkvæmd farsóttavarna, taka við tilkynningum um smitbera og sem fulltrúar lögreglustjóra að taka þátt í aðgerðum sem ákveðnar eru vegna farsótta. Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að ákvæði um hreppstjóra verði felld brott og er ekki talin þörf á að fela öðrum aðilum það hlutverk sem þeim er ætlað í lögunum.

Um 15. gr.


    Samkvæmt lögum um landgræðslu, nr. 17 24. apríl 1965, er hlutverk hreppstjóra að taka við tilkynningum um það þegar talið er að landgræðslugirðing haldi ekki sauðfé og að taka við tilkynningum um búfé sem komist hefur inn í girðingar og í undantekningartilvikum að láta lóga skepnum. Í greininni er lagt til að skyldur hreppstjóra færist til sveitarstjórna.

Um 16. gr.


    Samkvæmt lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina, nr. 25 21. apríl 1965, annast lögreglustjórar eða hreppstjórar afhendingu skírteinanna. Í greininni er lagt til að ákvæði um hreppstjóra verði fellt niður.

Um 17. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33 26. apríl 1966, getur ráðuneytið veitt hreppstjórum fyrir hönd veiðiréttarhafa í umdæmum sínum undanþágu frá friðunarákvæðum laganna þegar grágæsir valda miklum og almennum spjöllum á nytjagróðri. Í greininni er lagt til að umrædd leyfi verði veitt beint til einstakra handhafa fuglaveiðiréttar.

Um 18. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. áfengislaga, nr. 82 2. júlí 1969, skulu lögreglumenn og hreppstjórar í forföllum lögreglustjóra taka áfengisílát og innsigla strandi skip hér við land og hafi áfengi meðferðis eða þvílíkt vogrek berist á land. Í 1. tölul. greinarinnar er lagt til að tilvísun til hreppstjóra í þessu sambandi falli niður.
     Í 2. tölul. er gerð tillaga um orðalagsbreytingu á upphafi 2. mgr. 19. gr. sem er tilkomin vegna þess að með 56. tölul. 194. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, var eldri 2. mgr. felld brott.

Um 19. gr.


    Samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76 25. júní 1970, skulu eftirlitsmenn með veiði eða hreppstjórar merkja veiðarfæri, safna veiðiskýrslum og senda veiðimálastjóra og sjá til þess að nema farartálma brott ef þörf krefur. Í greininni er lagt til að tilvísun til hreppstjóra verði felld brott.

Um 20. gr.


    Samkvæmt ábúðarlögum, nr. 64 31. maí 1976, er hreppstjóri annar af tveimur úttektarmönnum. Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að sýslumaður skipi báða úttektarmennina.

Um 21. gr.


    Samkvæmt jarðalögum, nr. 65 31. maí 1976, er hreppstjórum ásamt fleirum skylt að láta í té upplýsingar um jarðir, ábúð á þeim o.fl. Í greininni er lagt til að tilvísun til hreppstjóra verði felld niður.

Um 22. gr.


    Samkvæmt lögum um sauðfjárbaðanir, nr. 22 10. maí 1977, er hreppstjórum ásamt fleirum falið að taka við tilkynningum sé kind kláðasjúk, gera ákveðnar ráðstafanir vegna böðunar á sauðfé o.fl. Í greininni er lagt til að tilvísun til hreppstjóra verði felld niður og í einu tilviki verði héraðsdýralækni falið hlutverk hans.

Um 23. gr.


    Í 87. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75 14. september 1981, er fjármálaráðherra heimilt að skipa umboðsmann skattstjóra utan aðseturs hans. Í greininni er tilgreindum aðilum skylt að taka við skipun í þetta starf, þar á meðal hreppstjórum. Í greininni er lagt til að tilvísun til hreppstjóra verði felld niður.

Um 24. gr.


    Í 33. og 34. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6 21. mars 1986, er hlutverk hreppstjóra að taka við kærum og tilnefna matsmenn. Í greininni er lagt til að þetta hlutverk þeirra verði fært til sýslumanna. Í 59. gr. laganna er hreppstjórum falið að sjá um að lóga ómerkingum og óskilafé og skv. 60. gr. skulu þeir tilkynna í Lögbirtingablaði um förgun óskilafjár. Í greininni er lagt til að þetta hlutverk þeirra verði falið sveitarstjórnum.

Um 25. gr.


    Samkvæmt 3. gr. laga um lögskráningu sjómanna, nr. 43 30. mars 1987, sbr. 92. gr. laga nr. 92/1991, er tollstjórum heimilt að fela hreppstjórum að annast lögskráningar. Í greininni er lagt til að tilvísun til hreppstjóra verði felld niður en tollstjórum verði heimilt að skipa fulltrúa til að annast lögskráningar.

Um 26. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80 16. október 1987, sbr. lög nr. 10/1991. Verður nánar gerð grein fyrir einstökum breytingartillögum hér á eftir.
     Um 1. tölul. Í 1. mgr. 10. gr. er fjallað um skipun undirkjörstjórna. Þar er m.a. ákvæði um að hreppstjórar skuli að jafnaði vera formenn kjörstjórnar eða kjördeildar sem hann er búsettur í. Í þessum tölulið greinarinnar er lagt til að sama regla gildi í öllum sveitarfélögum landsins um skipun undirkjörstjórna.
     Um 2. og 3. tölul. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 13. gr. eru hreppstjórar kjörstjórar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Í 2. tölul. greinarinnar er lagt til að þetta ákvæði verði fellt brott. 3. tölul. er breyting sem leiðir af 2. tölul.
     Um 4. tölul. Í 1. málsl. 1. mgr. 60. gr. er fjallað um varðveislu atkvæðakassa á milli kosninga. Í ákvæðinu er m.a. hreppstjórum falið þetta hlutverk. Í þessum tölulið er lagt til að sýslumönnum verði falið þetta hlutverk.
     Um 5. tölul. Í 1. mgr. 63. gr. er fjallað um það hvar atkvæðagreiðsla utan kjörfundar megi fara fram. Í b-lið er ákvæði um að hún geti farið fram á skrifstofu eða á heimili hreppstjóra. Í þessum tölulið er lagt til að þetta ákvæði verði fellt niður, sbr. 2. tölul. greinarinnar. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á að skv. a-lið sömu málsgreinar fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram á skrifstofu sýslumanns. Samkvæmt 13. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92 1. júní 1989, skal sýslumaður hafa skrifstofur í umdæmi sínu eftir því sem dómsmálaráðherra kveður á um hverju sinni og fé er veitt til á fjárlögum. Telja verður að útibú frá sýslumannsembættum, sbr. 3. gr. reglugerðar um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna nr. 57/1992 teljist skrifstofa hans í skilningi a-liðar 1. mgr. 63. gr. Aftur á móti telst útibú lögreglu skv. 4. gr. sömu reglugerðar ekki skrifstofa sýslumanns í þessum skilningi.
     Um 6. tölul. Samkvæmt 5. málsl. 2. mgr. 66. gr., sbr. 24. gr. laga nr. 10/1991, er heimilt að senda utankjörstaðaatkvæði m.a. til hreppstjóra. Í þessum tölulið er lagt til að það verði sent annaðhvort til sýslumanns eða viðkomandi kjörstjórnar.
     Um 7.–9. tölul. Í 1. mgr. 71. gr. er fjallað um skráningu á atkvæðabréfum við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, í 2. mgr. er ákvæði um að þegar greitt er atkvæði þar sem menn eru á kjörskrá skuli þeir skilja atkvæði eftir í atkvæðakassa og í 3. mgr. um skil sýslumanna og hreppstjóra á atkvæðakössum í upphafi kjörfundar. Í þessum tölulið greinarinnar eru lagðar til breytingar í samræmi við það að tilvísun til hreppstjóra verði felld brott. Auk þess eru lagðar til breytingar á embættisheitum í samræmi við það er gert var með 97. gr. laga 92/1991, en láðst hefur að breyta embættisheitum í þessari grein laganna.

Um 27. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um búfjárhald, nr. 46 25. mars 1991, skal sveitarstjórn hlutast til um að graðpeningur, sem ekki er í öruggri vörslu, sé handsamaður og afhentur hreppstjóra. Í greininni er lagt til að sá hluti hennar, sem fjallar um að hreppstjóra skuli afhentur graðpeningur, falli niður.

Um 28. gr.


    Í greininni er lagt til að 2. mgr. 6. gr. laga um Jarðasjóð, nr. 34 27. maí 1992, verði felld niður. Tillaga um að fella þessa málsgrein niður er í samræmi við þá stefnu sem tekin var með lögum um nauðungarsölu, nr. 91/1991, að fella niður öll ákvæði um sérstaka rannsókn o.fl. ef eign er seld nauðungarsölu.

Um 29. gr.


    Í tveimur greinum í lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41 27. maí 1992, eru hreppstjórar nefndir ásamt öðrum og þá sem aðilar sem fara með lögregluvald í ákveðnum tilvikum. Í greininni er lagt til að tilvísun til hreppstjóra verði felld niður.

Um 30. gr.


    Markmiðið með því sem lagt er til í þessari grein er að veita Umferðarráði hlutdeild í tekjum af aðalskoðun og skráningu ökutækja. Fjöldi slíkra verka er um 150.000 á ári. Aðalskoðanir eru um 92.000, skráningar eigendaskipta um 50.000 og nýskráningar um 8.000. Gjaldið gæti því skilað Umferðarráði um 15 m.kr.
     Flest slys verða fremur rakin til mannlegra mistaka en bilunar í ökutækjum. Ökutækjaskoðun hefur bætt umferðaröryggi að markmiði og má færa fyrir því rök að einhverjum hluta skráningar- og skoðunargjalda sé varið til umferðarfræðslu í sama skyni.
     1. maí sl. voru Bifreiðapróf ríkisins sameinuð Umferðarráði, en Bifreiðaprófin höfðu haft með höndum umsjón og framkvæmd ökuprófa og kennslu til aukinna ökuréttinda frá því að Bifreiðaskoðun Íslands hf. tók við meginhluta verkefna Bifreiðaeftirlits ríkisins í ársbyrjun 1989. Umferðarráð gegndi þegar því hlutverki samkvæmt umferðarlögum að stuðla að öruggari umferð, bættum umferðarháttum og aukinni umferðarmenningu. Sameining þessara þátta er talin munu auka möguleika stofnunarinnar á því að ná árangri í starfi sínu og er mikill áhugi á að efla hana til þess. Hefur stofnunin t.d. í undirbúningi að setja fram heildstæða áætlun um fækkun umferðarslysa, markmið og leiðir. Er vonast eftir að áætlunin sjái dagsins ljós í haust. Nokkur óvissa er um hvernig breytingar á starfsemi Umferðarráðs muni hafa áhrif á ýmsar tekjur stofnunarinnar, en talið er að sértekjur muni lækka nokkuð, eða um 8–9 m.kr. aðallega vegna þess að kennsla vegna ökuprófa leggst af hjá stofnuninni, en sú starfsemi hefur skilað afgangi. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1993 mun ríkisframlag til stofnunarinnar hækka um u.þ.b. 3 m.kr. í um 22 m.kr. Verði þetta frumvarp að lögum mun Umferðarráð því hafa úr að spila um 10 m.kr. hærri fjárhæð árið 1993 en stofnanirnar tvær hafa á árinu 1992, eða alls tæpar 77 m.kr., ef núverandi áætlun um sértekjur gengur eftir.
     Þess má að lokum geta að dómsmálaráðuneytið hefur áhuga á að kanna hvort heppilegt sé að flytja ýmis bílatæknileg mál, sem nú er sinnt í ráðuneytinu, til Umferðarráðs. Hér er t.d. um að ræða ýmsar afgreiðslur og túlkanir á reglum um gerð og búnað ökutækja o.fl. sem heppilegra væri að sinna utan ráðuneytisins sjálfs, en getur illa vistast hjá skoðunarfyrirtækjum í samkeppni.

Um III. kafla.


     Með þeim breytingum, sem lagðar eru til í III. kafla, er gert er ráð fyrir að lækka útgjöld á sviði kirkjumála um u.þ.b. 87 m.kr. Er ráðgert að lækka ríkisframlag til kirkjumála með því að mæla fyrir um að kostnaður við tiltekin verkefni skuli greiddur af hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti. Sú skipan mála, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að því er það varðar, er bundin við árið 1993. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði kosið að þjóðkirkjan tæki sjálf yfir stjórn þessara verkefna og að varanlegri breyting yrði gerð á fyrirkomulagi tekjustofna, t.d. þannig að Jöfnunarsjóður sókna yrði efldur til að standa straum af kostnaði við þessi verkefni en kirkjugarðsgjald lækkað og sniðið eftir því sem þau verkefni krefjast. Kirkjuráð taldi hins vegar ekki unnt að fjalla um og taka afstöðu til svo stórfelldrar kerfisbreytingar á stuttum tíma og taldi skárri kost að búa óumflýjanlegum tilflutningi kostnaðar það tímabundna form sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þó er gert ráð fyrir að breyting verði á lögum um kirkjugarða, þannig að laun umsjónarmanns kirkjugarða verði eftirleiðis greidd beint úr Kirkjugarðasjóði, en ekki ríkissjóði eins og verið hefur.

Um 31. gr.


    Hér er mælt fyrir um að ótiltekinn hluti af hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti skuli renna til tilgreindra verkefna á sviði kirkjumála á árinu 1993. Samkvæmt upplýsingum Ríkisbókhalds nam hlutdeild kirkjugarða í tekjuskatti á árinu 1991 264.387.027 kr. eftir 20% skerðingu samkvæmt lánsfjárlögum, nr. 26/1991. Kirkjugarðsgjaldið á einstakling átti að vera 159 kr. á mánuði en með skerðingunni varð það 127,20 kr. á mánuði.
     Árið 1992 átti hlutdeild kirkjugarða í tekjuskatti að nema 174,90 kr. á mánuði á hvern einstakling, en samkvæmt lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 1/1992, var gjaldið skert um 20% og nemur því 139,92 kr. á mánuði. Hvorki liggur fyrir í dag hver kirkjugarðsgjöld verða á árinu 1993 né heldur hverjar greiðslur verða í raun til verkefna sem tiltekin eru í ákvæði þessu, en þær fjárhæðir afmarkast í fjárlögum fyrir árið 1993. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1993 er fyrirhugað að verja til verkefna þessara um 85,1 m.kr. samtals á árinu 1993.
     Sökum þessa er ekki unnt að tiltaka nákvæmlega hver skerðingin skal verða svo að unnt sé að ná markmiðum um lækkun ríkisútgjalda. Því er gert ráð fyrir að skerðingin verði ákveðin 20% til bráðabirgða, en að endanlegt uppgjör við kirkjugarða fari fram svo fljótt sem verða má á árinu 1994 þegar endanlegar tölulegar upplýsingar liggja fyrir. Þá er gert ráð fyrir ef því er að skipta að heimilað verði að taka eftirstöðvar, ef einhverjar verða, af kirkjugarðsgjöldum ársins 1994. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1993 skiptist fjárhæðin á viðfangsefni þau er tiltekin eru í ákvæði þessu sem hér greinir:
    Viðhald prestssetra: 44,6 m.kr.
    Bygging prestssetra: 5 m.kr.
    Kaup eigna á prestssetursjörðum: 4 m.kr.
    Embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og Tónskóli Íslands: 15,5 m.kr. (er þá tekið tillit til sértekna).
    Starfsþjálfun guðfræðikandídata: 2,8 m.kr.
    Kirkjuþing, prestastefna, kirkjuráð: 5,4 m.kr.
    Ýmis verkefni 5,6 m.kr.
    Fjölskylduþjónusta kirkjunnar: 2,2 m.kr.
    Samtals nema fjárhæðir þessar kr. 85,1 m.kr.

Um 32. gr.


    Gert er ráð fyrir að mánaðarlegar greiðslur til kirkjugarða verði skertar um 20% meðan ekki liggur fyrir hver útgjöld verða í raun á árinu. Sú tala byggist á áætlun. Áætlunin byggist á kirkjugarðsgjöldum fyrir árið 1991 og 1992 eins og áður var minnst á. Reiknað er með að meðaltekjuskattsstofn milli tekjuáranna 1991 og 1992 hafi hækkað um 5%, en upplýsingar um þau atriði liggja ekki fyrir í dag. Þá er enn fremur reiknað með að fjöldi manna 16 ára og eldri hér á landi verði um 193.800 1. desember 1992. Er sú spá byggð á upplýsingum Hagstofu Íslands. Þá er gert ráð fyrir að upplýsingar um heildarútgjöld á árinu til verkefna skv. 1. gr. liggi fyrir ekki síðar en 15. janúar 1994. Ber því Ríkisbókhaldi að gera full skil við kirkjugarða innan þriggja mánaða frá þeim tíma. Hafi meira fé verið tekið en þörf krefur skal endurgreiða kirkjugörðum mismuninn eigi síðar en 15. apríl 1994, en ella skal það sem vanta kann á tekið af kirkjugarðsgjöldum innan sama tíma.

Um 33. gr.


    Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að Kirkjugarðasjóður beri launakostnað vegna umsjónarmanns kirkjugarða en ekki ríkissjóður eins og verið hefur. Telja má eðlilegt að Kirkjugarðasjóður standi straum af kostnaði við umsjón kirkjugarða. Reikna má með að launakostnaður geti numið um 2 m.kr. á ári og annar kostnaður um 500.000 kr.

Um 34. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskristofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fjármálaráðstafanir á sviði


dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.


    Frumvarp þetta er í þremur köflum. Fyrsti kafli fjallar um brottfall laga um hreppstjóra og með honum er ætlað að nema úr gildi lög um hreppstjóra og ákvæði í öðrum lögum um skyldur hreppstjóra. Í fjárlögum 1992 er 18,4 m.kr. veitt til hreppstjóra og falla þær fjárveitingar brott í fjárlagafrumvarpi fyrir 1993.
     Annar kafli leggur til breytingu á umferðarlögum, þannig að heimilt verði að leggja á sérstakt umferðaröryggisgjald allt að 100 kr. sem greiðist við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis eða skráningu eigendaskipta að ökutæki. Áætlað er að slíkt gjald geti gefið af sér allt að 15 m.kr. á hverju ári og munu þær tekjur renna til Umferðarráðs. Gert er ráð fyrir þessum tekjum hjá Umferðarráði í fjárlagafrumvarpi 1993.
     Þriðji kafli frumvarpsins fjallar um fjármálaráðstafanir á sviði kirkjumála. Þar er lagt til að tiltekin verkefni á sviði kirkjumála verði kostuð af hlutdeild kirkjugarðanna í tekjuskatti á árinu 1993. Verkefni þessi og fjárveiting til þeirra í fjárlagafrumvarpi 1993 eru sem hér segir (í m.kr.):

Viðhald prestssetra     
44
,6
Bygging prestssetra     
5
,0
Kaup eigna á prestssetursjörðum     
4
,0
Embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og Tónskóla Íslands     
15
,5
Starfsþjálfun guðfræðikandídata     
2
,8
Kirkjuráð, kirkjuþing, prestastefna     
5
,4
Fjölskylduþjónusta kirkjunnar     
2
,2
Ýmis verkefni     
5
,6
Samtals     
85
,1

     Þar fyrir utan er gert ráð fyrir að laun umsjónarmanns kirkjugarða greiðist úr Kirkjugarðasjóði, en sá kostnaður er um 2,5 m.kr.