Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 296 . mál.


452. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla, sbr. og lög nr. 1/1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Eftirtalin ákvæði laganna skulu ekki koma til framkvæmda á fyrri hluta árs 1993 og ekki á skólaárinu 1993–1994:
    3. mgr. 4. gr.
    1. og 6. mgr. 46. gr.

2. gr.


    Í stað orðanna „1992–1993“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða kemur: 1993–1994.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1993 er gert ráð fyrir sama sparnaði í grunnskólum og í fjárlögum 1992, en vegna hans var lögum um grunnskóla, nr. 49/1991, breytt með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, nr. 1/1992. Þær breytingar, sem gerðar voru og giltu aðeins fyrir árið 1992 og skólaárið 1992–1993, verður því að framlengja vegna sparnaðar þess sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 1993.

Um 1. gr.


    Frestað er framkvæmd ákvæðis um að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma.
    Frestað er að lengja kennslutíma nemenda í grunnskóla að því marki sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 46. gr. og verður miðað við þann kennslutíma sem gert er ráð fyrir í fjárlögum 1992 og frumvarpi til fjárlaga 1993. Enn fremur er frestað framkvæmd á 6. mgr. 46. gr. þar sem kveðið er á um að komið skuli á skólaathvörfum við hvern grunnskóla.

Um 2. gr.


    Frestað er til loka skólaárs 1993–1994 að fækka nemendum í bekkjum í samræmi við 75. gr.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um


breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla,


sbr. og lög nr. 1/1992.



     Frumvarpið gerir ráð fyrir hliðstæðum breytingum eins og kveðið er á um í lögum nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1993 miðast útgjaldaáætlanir við að ákvæði þessa frumvarps verði að lögum. Þetta hefur því ekki áhrif á áætluð útgjöld ríkissjóðs á árinu 1993. Ef hins vegar er litið til þess hvað sparast miðað við óbreytt ákvæði grunnskólalaga er eftirfarandi að segja:

Um 1. gr.


    Ógerlegt er að segja til um hugsanlegan kostnað við málsverði í skólum þar sem ekki hefur verið mörkuð stefna um hvað skólarnir eiga að bjóða upp á í þessum efnum. Þó er ljóst að kostnaður hefði að hluta fallið á sveitarfélög.
    Gert var ráð fyrir að fjölga vikustundum um 15 alls á þremur árum og má þá telja eðlilegt að fjölga þeim um 5 á ári. Sé tekið mið af því sparar frestun þessa ákvæðis um 45 m.kr. á næsta ári. Ekki er hægt að spá fyrir um hvað frestun á framkvæmd ákvæðis um skólaathvörf sparar.

Um 2. gr.


    Erfitt er að áætla sparnað vegna þessa ákvæðis og fer það m.a. eftir hvernig nemendur dreifast á skóla. Gera má ráð fyrir að frestun á því að fækka nemendum í 18 í 1. bekk og í 22 í 3. bekk spari um 55 m.kr.
     Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að frestun framangreindra ákvæða grunnskólalaga, nr. 49/1991, spari ríkissjóði a.m.k. 100 m.kr. á árinu 1993.