Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 301 . mál.


469. Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.


    1. mgr. 109. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélag verður eigi sameinað öðrum sveitarfélögum nema fleiri kjósendur í atkvæðagreiðslu skv. 108. gr. séu fylgjandi sameiningu en andvígir, enda hafi meiri hluti atkvæðisbærra íbúa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Lögð er til sú grundvallarbreyting á núgildandi ákvæðum 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga að meiri hluti þeirra sem afstöðu taka ráði niðurstöðu í almennri atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélags við annað eða önnur sveitarfélög. Samkvæmt tillögugreininni hafa þeir kjósendur ekki áhrif á úrslit í atkvæðagreiðslu sem koma ekki á kjörstað. Þeir sem skila auðu eða ógilda atkvæði sitt hafa ekki heldur áhrif á úrslitin að öðru leyti en því að þeir gætu tryggt nægilega þátttöku í atkvæðagreiðslunni með atkvæði sínu.
    Ákvæði núgildandi laga eru þannig að meiri hluti kjósenda á kjörskrá þarf að greiða atkvæði gegn tillögu um sameiningu til þess að hún teljist felld. Þar með er í raun fyrir fram ákveðið að þeir kjósendur styðji sameiningu sem ekki koma á kjörstað og enn fremur að kjósendur, sem koma og greiða atkvæði en gera ógilt atkvæði sitt eða skila auðu, séu stuðningsmenn fyrirliggjandi tillögu.
    Kjósendur, sem taka þátt í atkvæðagreiðslu en skila auðu atkvæði eða ógilda það, láta með því aðra ráða úrslitum, en núgildandi ákvæði 109. gr. virða þá afstöðu að vettugi.
    Þessi ákvæði laganna brjóta gegn viðurkenndum sjónarmiðum um lýðræðislega afgreiðslu máls. Nægir að nefna ákvæði kosningalaga og laga um þingsköp því til stuðnings og enn fremur 51. gr. sveitarstjórnarlaganna sjálfra, en þar er kveðið á um að afl atkvæða ráði úrslitum. Í skýringum með 51. gr. kemur fram að hjáseta í atkvæðagreiðslu telst þátttaka þar sem afstaða er tekin, þ.e. sú afstaða að láta aðra ráða niðurstöðunni.
    Almenna reglan er sú að þeir kjósendur einir, sem koma til atkvæðagreiðslu, hafa tekið afstöðu. Hinir, sem ekki taka þátt í atkvæðagreiðslunni, hafa ekki áhrif á niðurstöðuna þar sem þeir hafa ekki tekið afstöðu. Ákvæði 1. mgr. 109. gr. brjóta þessa meginreglu og í raun gera þeim upp ákveðna afstöðu sem engan þátt tók í atkvæðagreiðslunni. Slík lagasetning er fullkomlega út í hött og engan veginn samboðin lýðræðisríki.
    Þessir annmarkar á 1. mgr. 109 gr. eru svo alvarlegir að óhjákvæmilegt er að breyta greininni.
    Ákvæði tillögugreinarinnar um lágmarksþátttöku í atkvæðagreiðslunni er hins vegar í fullu samræmi við skilyrði þingskapalaga og 51. gr. sveitarstjórnarlaga fyrir afgreiðslu máls og þarfnast ekki frekari skýringar.