Ferill 304. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 304 . mál.


473. Frumvarp til laga



um afnám laga nr. 97 27. desember 1973, um löndun á loðnu til bræðslu, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Lög nr. 97 27. desember 1973, um löndun á loðnu til bræðslu, eru úr gildi felld. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 98 31. desember 1974 og lög nr. 79 31. desember 1977, um breyting á þeim lögum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lok sjöunda áratugarins varð veruleg aukning í loðnuveiðum hér við land. Á þessum árum voru loðnuveiðar þó aðeins stundaðar í takmarkaðan tíma snemma árs, einkum fyrir Suðausturlandi og vestur fyrir land. Jókst fjöldi báta, sem tóku þátt í þessum veiðum, með hverju ári og mátti rekja þá aukningu m.a. til hruns síldveiða í lok þessa áratugar.
     Þar sem afkastageta þeirra loðnubræðslna, sem lágu nærri veiðisvæðunum, var mjög takmörkuð sköpuðust oft vandkvæði fyrir loðnuskipin að losna við afla. Engar reglur voru í gildi um löndun afla og leiddi það til þess að kaupendur loðnu gátu í raun sjálfir valið þá báta sem fengu löndun hverju sinni. Vegna þessa kom á loðnuvertíð 1972 til nokkurra árekstra milli eigenda loðnuskipa og sjómanna annars vegar og forsvarsmanna loðnuverksmiðja hins vegar þar sem hinir fyrrnefndu töldu að einstakar loðnuverksmiðjur hygluðu ákveðnum skipum. Að beiðni Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd 1. júní 1972 til þess að gera tillögur um fyrirkomulag á löndun á loðnu á vertíðinni.
     Nefndin skilaði áliti í september 1972 og lagði til að lagt yrði fram á Alþingi frumvarp til laga um skipulag á löndun loðnu til bræðslu sem nefndin hafði unnið í samvinnu við hagsmunaaðila. Var það gert og í desember 1972 voru á Alþingi samþykkt lög um skipulag á löndun loðnu til bræðslu. Voru lög þessi samþykkt til eins árs og skyldi endurskoða þau að lokinni loðnuvertíð 1973 með tilliti til þeirrar reynslu sem þar fengist.
     Veigamesta breytingin, sem fólst í lögum nr. 102 31. desember 1972, um skipulag á löndun á loðnu til bræðslu, var að loðnuverksmiðjum var gert skylt að taka við loðnuafla af fiskiskipum í þeirri röð sem skipin komu í löndunarhöfn, enda væru móttökuskilyrði fyrir hendi. Með því móti gátu loðnuverksmiðjur ekki tekið eitt loðnuskip fram fyrir annað. Jafnframt var sett á laggirnar nefnd þriggja manna sem annast skyldi skipulagningu og tilhögun á löndun á loðnu til bræðslu.
     Eftir loðnuvertíð 1973 voru lög þessi endurskoðuð með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hafði á vertíðinni og á Alþingi voru í desember 1973 samþykkt lög nr. 97 27. desember 1973, um löndun á loðnu til bræðslu. Var með þeim lögum breytt nokkrum ákvæðum fyrri laga með hliðsjón af fenginni reynslu, auk þess sem kveðið var skýrar á um verk- og valdsvið Loðnunefndar. Skylda loðnuverksmiðja til að taka á móti afla í þeirri röð, sem fiskiskip kæmu til löndunar, stóð óbreytt.
    Frá því að lög um skipulag loðnulöndunar tóku gildi 1973 annaðist Loðnunefnd framkvæmd laganna. Var í því skyni starfrækt sérstök skrifstofa sem annaðist daglega stjórn veiðanna, auk þess sem hún safnaði upplýsingum um gang veiðanna. Loðnunefnd gaf auk þess út frá upphafi árlega skýrslu um starfsemi nefndarinnar og gang veiðanna. Starfsemi Loðnunefndar tók hins vegar nokkrum breytingum hin seinni ár og færðist starfsemin úr því að lúta að beinni stjórnun veiða yfir í það að safna upplýsingum um veiðarnar og miðla þeim til þeirra sem þörfnuðust þeirra. Varð Loðnunefnd því í raun þjónustuaðili fyrir útvegsmenn, sjómenn og loðnuverksmiðjur sem leituðu mikið til nefndarinnar. Gerðist þetta einkum eftir að kvótakerfið var tekið upp í loðnuveiðum árið 1980 því við það dró verulega úr þeirri samkeppni sem hafði verið í þessum veiðum.
     Lög nr. 97 27. desember 1973, um löndun á loðnu til bræðslu, eru enn í gildi með þeim breytingum sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 90/1974 og nr. 79/1977. Lög þessi voru talin nauðsyn við þær aðstæður sem ríktu þegar þau voru sett og á grundvelli þeirra var löndun á loðnu stjórnað til hausts 1990.
     Sú ákvörðun var tekin á haustmánuðum 1990 að starfrækja ekki Loðnunefnd áfram. Var þessi ákvörðun tekin samkvæmt tillögum sjómanna, útgerðarmanna og kaupenda, en þessir aðilar höfðu staðið undir rekstri Loðnunefndar samkvæmt ákvæðum laganna þar um. Eru aðilar sammála um að breytt skipulag veiða, sem m.a. stafar af kvótakerfinu í loðnuveiðum og nú síðast af frjálsri verðlagningu, hafi dregið mjög úr gildi sérstakrar lagasetningar um löndun loðnu og þeirrar starfsemi sem Loðnunefnd hefur sinnt. Með frjálsri verðlagningu er það samkomulagsatriði milli kaupanda og seljanda hvort afli er tekinn til löndunar og á hvaða verði. Kvótakerfið hefur og vitanlega haft mikil áhrif varðandi veiðarnar og er aðstaðan nú önnur en þegar veiðar voru frjálsar. Auk þess má hér nefna að bætt samskiptatækni hefur dregið úr gildi þeirrar upplýsingasöfnunar sem Loðnunefnd annaðist og hafa kaupendur og seljendur nú beint samband sín á milli.
     Lög um skipulag á löndun loðnu voru sett vegna sérstakra aðstæðna sem nú eru gerbreyttar. Þessi lög eru sérstaks eðlis og taka aðeins til löndunar á loðnu. Engin sambærileg lög eru í gildi varðandi löndun á öðrum afla.
    Með hliðsjón af því sem hér er rakið er því lagt til að lög um löndun á loðnu til bræðslu verði afnumin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.