Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 286 . mál.


489. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og á fund hennar komu frá fjármálaráðuneytinu Bolli Þór Bollason skrifstofustjóri, Indriði H. Þorláksson skrifstofustjóri, Maríanna Jónasdóttir deildarstjóri, Snorri Olsen deildarstjóri, Jón H. Steingrímsson deildarstjóri og Ingibjörg Þorsteinsdóttir lögfræðingur. Þá komu Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóri, Jón Guðmundsson, forstöðumaður virðisaukaskattsdeildar ríkisskattstjóraembættisins, og Steinþór Haraldsson, yfirlögfræðingur hjá sama embætti, Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Stefán Þór Jansson, tölvunarfræðingur í Þjóðhagsstofnun, Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, Eiríkur Jónsson, varaformaður Kennarasambands Íslands, Þráinn Bertelsson, formaður Rithöfundasambands Íslands, Snær Karlsson frá Verkamannasambandi Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur ASÍ, Magnús Geirsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Unnur Halldórsdóttir, formaður Landssamtakanna Heimili og skóli, Sigríður Pétursdóttir, stjórnarmaður í Samfok, Lúðvík Geirsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, Páll Halldórsson, formaður BHMR, Birgir Björn Sigurjónsson, framkvæmdastjóri BHMR, Eggert Lárusson, varaformaður BHMR, Birna Hreiðarsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisráðs, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Þórður Skúlason framkvæmdastjóri, Grétar Guðmundsson, þjónustufulltrúi í Húsnæðismálastofnun ríkisins, Róbert Agnarsson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ, Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri VSÍ, Magnús Hreggviðsson, formaður Samtaka útgefenda tímarita, Wilhelm Wessman, formaður Samtaka veitinga- og gistihúsa, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka veitinga- og gistihúsa, Birgir Þorgilsson ferðamálastjóri, Helgi Jóhannsson, formaður Félags íslenskra ferðaskrifstofa, Karl Sigurhjartarson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra ferðaskrifstofa, Örn Kærnested, formaður Verktakasambands Íslands, Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda, Gunnlaugur Júlíusson, hagfræðingur Stéttarsambands bænda, Óskar Vigfússon, formaður Sjómannasambands Íslands, Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, og frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands Benedikt Valsson framkvæmdastjóri, Ragnar Hermannsson varaforseti og Reynir Traustason stjórnarmaður. Umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: ASÍ, BHMR, BSRB, Blaðamannafélagi Íslands, Ferðamálaráði, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Félagi sérleyfishafa, Félagi hópferðaleyfishafa, Félagi íslenskra iðnrekenda, Húsnæðisstofnun ríkisins, Íslenskri verslun, Íslenska járnblendifélaginu, Landssambandi iðnaðarmanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssamtökunum Heimili og skóli, Mosfellsbæ, Neytendasamtökunum, Rithöfundasambandi Íslands, Sambandi veitinga- og gistihúsa, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Sambandi hljómplötuframleiðenda, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum útgefenda tímarita, Sauðárkrókskaupstað, Sjómannasambandi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Verslunarráði Íslands, VSÍ, yfirskattanefnd og Þjóðhagsstofnun.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði eftirtaldar breytingar á frumvarpinu:
    Í fyrsta lagi verði gerðar breytingar á I. kafla um skattlagningu lögðaðila. Lögð er til breyting á 16. gr. þannig að gildistöku a-liðar 1. gr. og a-liðar 2. gr. frumvarpsins, um takmörkun útborgaðs arðs frá skattskyldum tekjum við 10% af nafnvirði hlutafjár, verði frestað um eitt ár. Til þess að draga úr áhrifum þessarar breytingar á tekjur ríkissjóðs verði skatthlutfall við álagningu á árinu 1993 39% í stað 38%, sbr. breytingartillögu við ákvæði til bráðabirgða III í 17. gr. Enn fremur verði heimild manna til að draga frá skattskyldum tekjum fé, sem varið er til fjárfestingar í atvinnurekstri, breytt þannig að skilyrði um eignarhald hlutabréfanna verði lengt úr tveimur árum í þrjú ár og að þessi heimild til frádráttar verði látin falla niður á lengri tíma en frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í öðru lagi leggur meiri hluti nefndarinnar til að gerðar verði breytingar á ákvæðum sem snerta skattlagningu manna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að kostnaði ríkissjóðs vegna afnáms aðstöðugjalds verði að hluta til mætt með þeim hætti að tekjuskattur manna hækki úr 32,8% í 34,3% eða um 1,5%, lagður verði á sérstakur hátekjuskattur og barnabætur lækki um 500 millj. kr. Meiri hluti nefndarinnar telur rétt að þessum auknu sköttum verði dreift nokkuð jafnar en lagt er til í frumvarpinu og leggur því til að í stað þess að skerða barnabætur verði almennur persónuafsláttur lækkaður þannig að áhrif á tekjur ríkissjóðs verði hin sömu og fyrirhuguð voru með skerðingu barnabótanna. Til þess að hlutur tekjulágra einstæðra foreldra verði ekki lakari en ráð var fyrir gert í frumvarpinu og til þess að vega upp hjá þeim áhrif af breytingum á mæðra- og feðralaunum er gerð tillaga um að hækka barnabótaauka einstæðra foreldra um 7.500 kr. en jafnframt verði tekjutengingu hans breytt á þann veg að hún hefjist við 549.000 kr. sem er helmingur þeirrar fjárhæðar sem gildir um hjón. Til þess að gera þessar breytingar á barnabótum án tekjutaps fyrir ríkissjóð er nauðsynlegt að lækka persónuafslátt um 400 kr. á mánuði.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki tillögu um breytingar á ákvæðum frumvarpsins um vaxtabætur þótt fram hafi komið marktæk gagnrýni á þau ákvæði frumvarpsins. Ákvæði þessi eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en við ákvörðun vaxtabóta á árinu 1994 og telur nefndin að þegar á næsta ári verði að fara fram ítarleg athugun á vaxtabótakerfinu og tengingu vaxtabóta við tekjur og eignir. Rétt sé því að ákvæði frumvarpsins standi óbreytt að sinni til þess að marka þá stefnu sem í þeim felst hvað varðar útgjöld ríkissjóðs.
    Í þriðja lagi er lagt til að fremst í II. kafla frumvarpsins komi nýtt ákvæði er geri ríkisskattstjóra kleift að ákveða viðmiðunarlaun sjálfstætt starfandi aðila 15% hærri en unnt er samkvæmt gildandi reglum.
    Í fjórða lagi er gerð tillaga um breytt orðalag á 36. gr. til gleggri skýringar á því að í reglugerð skuli greina á milli þeirrar starfsemi sem fellur undir almennt og sérstakt tryggingagjald.
    Í fimmta lagi eru lagðar til lagfæringar á 46., 49. og 53. gr. sem fela ekki í sér efnisbreytingar.
    Í sjötta lagi leggur meiri hluti nefndarinnar til að við frumvarpið bætist kafli sem fjalli um breytingar á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, en í þeim lögum eru ákvæði um gjaldtöku af bensíni. Hluti af tekjuöflun til að standa undir aðgerðum í efnahagsmálum var að afla fjár í ríkissjóð með gjaldi á bensíni er rynni í ríkissjóð. Fyrirhugað var að gera það með þeim hætti að hækka almennt vörugjald á bensíni sem ætlunin var að leggja á í stað tolls. Sú breyting er ráðgerð í sérstöku frumvarpi um vörugjald á ökutæki, eldsneyti og fleira, 27. máli, sem tengist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir 50% almennu vörugjaldi á bensín sem rynni í ríkissjóð eins og bensíntollur hefur gert. Sú viðbótartekjuöflun, sem að framan greinir, gerir nauðsynlegt að hækka vörugjald þetta úr 50% í 90%. Þar sem ljóst er að fyrrgreint frumvarp nær ekki afgreiðslu fyrir áramót varð að ráði að taka í frumvarp þetta ákvæði sem tryggt gætu þessa tekjuöflun og eru þau í 11. tölul. í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar. Samkvæmt þeim skal lagt á sérstakt bensíngjald sem renna mun í ríkissjóð. Fjárhæð gjaldsins er miðuð við 1,70 kr. á hvern lítra og er sú fjárhæð á sama grunni og önnur gjöld sem ákveðin eru í lögum þeim sem lögð er til breyting á og um hana gilda sömu heimildir til hækkunar með tilliti til vísitölu byggingarkostnaðar. Samkvæmt þeim heimildum er hægt að leggja á gjald að fjárhæð 4,50 kr. á lítra. Þegar frumvarp til laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. verður að lögum mun þessi gjaldtökuheimild falla úr gildi.
    Loks er lagt til að annar kafli bætist við frumvarpið sem fjalli um gjald af umboðsþóknun í gjaldeyrisviðskiptum. Ákvæði kaflans eru samhljóða frumvarpi til laga um gjald af umboðsþóknun í gjaldeyrisviðskiptum, 254. máli, sem vísað hefur verið til efnahags-og viðskiptanefndar. Í ákvæðum þessum er gert ráð fyrir að skattur á viðskipti með gjaldeyri, sem nú er fyrir hendi, verði lagður af í áföngum og formi hans breytt nokkuð með tilliti til breyttra aðstæðna að því er varðar gjaldeyrisviðskipti bankanna og gengisskráningu. Tekjur af skatti þessum eru áætlaðar um 300 millj. kr. á þessu ári en verða samkvæmt frumvarpinu um 200 millj. kr. á næsta ári.
    Skattvísitala, sem ákveðin er í fjárlögum ár hvert, hefur áhrif á ýmsar fjárhæðir og viðmiðunartölur í skattalögum. Þær breytingar þurfa þó að verða mismunandi eftir því um hvaða fjárhæðir er að ræða. Af þeim sökum kann að vera nauðsynlegt að breyta grunntölum skattalaga nokkuð og er gert ráð fyrir að breytingartillögur um það efni verði fluttar við 3. umr. þessa máls.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 17. des. 1992.



Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Guðjón Guðmundsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Ingi Björn Albertsson,


með fyrirvara.