Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 280 . mál.


550. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um breytingar á Rafmagnseftirliti ríkisins.

     1 .     Áformar ráðherra að breyta lögum nr. 60/1979, um Rafmagnseftirlit ríkisins, svo og starfsemi stofnunarinnar?
    Engin áform eru uppi um að breyta lögum nr. 60/1979, um Rafmagnseftirlit ríkisins. Hins vegar hefur verið ákveðið að breyta áherslum í rafmagnseftirliti. Þessar breytingar munu hafa umtalsverð áhrif á starfsemi stofnunarinnar.

     2 .     Ef svo er, í hverju eru þær breytingar í aðalatriðum fólgnar?
    Þótt ekki séu áformaðar breytingar á lögunum er rétt að greina frá ráðgerðum breytingum á starf­semi stofnunarinnar. Þær felast í stuttu máli í því að Rafmagnseftirlit ríkisins mun fyrst og fremst sinna yfirstjórn rafmagnsöryggismála en ekki taka beinan þátt í framkvæmd eftirlits. Í þessu felst að stofnunin mun sinna þáttum eins og stefnumótun, samhæfingu, kveða upp úrskurði o.s.frv. Inn­lendri raffangaprófun mun verða hætt en í stað þess tekið upp öflugt markaðseftirlit. Framkvæmd rafmagnseftirlits (þ.e. eftirlit með veitum í húsum og veitum raforkufyrirtækja o.fl.) mun verða í höndum sérstakra skoðunarstofa.

     3 .     Á hvern hátt snerta áformaðar breytingar störf og stöður starfsmanna Rafmagnseftirlits ríkisins í Reykjavík og annars staðar á landinu?
    Gert er ráð fyrir að störfum hjá Rafmagnseftirliti ríkisins muni fækka á næstu árum. Um þessi áramót verða lögð niður störf við raffangaprófun. Áhersla er lögð á að starfsmenn fái áfram störf í nýju skipulagi rafmagnseftirlits. Þeir starfsmenn sem láta af störfum nú um áramótin hafa fengið ný störf eða fara á eftirlaun að loknu biðlaunatímabili. Störf á Akureyri og Egilsstöðum hafa verið bein eftirlitsstörf og verða væntanlega lögð niður þegar skoðunarstofur taka við framkvæmd eftir­lits.

     4 .     Hefur ráðherra haft samráð við starfsmenn Rafmagnseftirlitsins og aðra hlutaðeigandi um ráðgerðar breytingar og hvernig hefur því verið háttað?
    Haft hefur verið gott samstarf við starfsmenn Rafmagnseftirlitsins og alla hagsmunaaðila, þar með talið Félag rafmagnseftirlitsmanna.

    Hér að neðan er gerð nánari grein fyrir breytingum á skipan rafmagnsöryggismála.
    Með bréfi dags. 17. september 1991 fór iðnaðarráðherra þess á leit við Hagsýslu ríkisins að hún gerði „ . . .  úttekt á fyrirkomulagi rafmagnseftirlits í landinu, hlutverki og rekstri Rafmagnseftirlits ríkisins og mótaði tillögur um framtíðarskipan þess“. Iðnaðarráðuneytið lagði sérstaka áherslu á að kannaðir yrðu möguleikar á því að auka ábyrgð rafverktaka og rafveitna á rafmagnsöryggismálum og athuguð væru áhrif aukins Evrópu
samstarfs á málaflokkinn m.a. með tilliti til stöðlunar, gagnkvæmra viðurkenninga á prófunum og hugsanlegrar einkavæðingar.
    Við úttektina og mótun tillagna leituðu starfsmenn Hagsýslunnar upplýsinga hjá mörgum aðil­um innan lands og erlendis. Sérstök áhersla var lögð á að afla upplýsinga um alþjóðlegt samstarf um nýskipan eftirlits með öryggi vara og þær nýjungar sem það felur í sér. Leitað var eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila, auk þess sem rætt var við alla starfsmenn Rafmagnseftirlits ríkisins (RER). Skýrsla Hagsýslunnar var lögð fram í apríl 1992. Í henni voru mótuð þau meginsjónarmið sem fylgt verður í breytingum á rafmagnsöryggismálum. Skýrslan er lögð fram sem fylgiskjal með svari þessu.
    Í framhaldi af skýrslu Hagsýslu ríkisins um skipan rafmagnsöryggismála var ákveðið að skipa starfshóp hagsmunaaðila til þess að fjalla um skýrsluna og gera tillögur um framkvæmd þeirra til­lagna sem þar koma fram.
    Í starfshópinn voru skipaðir: Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, formaður, Bergur Jónsson raf­magnseftirlitsstjóri, Magnús Geirsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Jón Magnússon frá Félagi raftækjaheildsala, Þorleifur Finnsson frá Sambandi íslenskra rafveitna, Ingólfur Árnason frá Landssambandi rafverktaka, Árni Guðmundsson, trúnaðarmaður starfsmanna RER, Helgi G. Þórð­arson, formaður stjórnar RER, Gunnar Ingi Gunnarsson frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga.
    Starfshópurinn skipti viðfangsefni sínu í tvo þætti. Annars vegar fjallaði hópurinn um raffanga­prófun og tengd verkefni og hins vegar um aðra þætti í skipan rafmagnsöryggismála.
    Hinn 28. ágúst samþykkti starfshópurinn eftirfarandi tillögur til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um breytingar á skipan rafmagnsöryggismála:

1. Raffangaprófun.
    1.1. Raffangaprófun RER og skráningu raffanga verði hætt 1. janúar 1993 (sbr. lið 3.1 og 3.2).
    1.2. Störf hjá RER við raffangaprófun verði lögð niður 1. janúar 1993. Sett verði á fót nefnd skipuð fulltrúum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, Hagsýslu ríkisins og trúnaðarmanni starfsmanna RER til að aðstoða starfsfólk við að finna ný störf.
    1.3. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti geri samning við raffangaprófunarstöðvar í nálægum lönd­um um prófun á íslenskum rafföngum og rafföngum sem markaðseftirlit telur nauðsynlegt að prófa. Samdar verði reglur um prófanir á íslenskum rafföngum og samskipti aðila í því sambandi.

2. Markaðseftirlit.
    2.1. Hagsýslu ríkisins verði falið að vinna að tillögum um hvernig standa megi að stofnun og starfsemi markaðseftirlits sem hafi eftirlit með vörum á markaði, þar á meðal rafföngum. Farið verði að evrópskum reglum um þetta efni.

3. Reglugerð.
    3.1. Ákvæði í reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971 um skipulag raffangaeftirlits verði endur­skoðuð. Endurskoðunin taki mið af lágspennutilskipun EB, heildaraðferð um vottanir og prófanir og tillögum Hagsýslu ríkisins.
    3.2. Hafin verði endurskoðun á ákvæðum reglugerðarinnar um kröfur til raffanga. Í því efni verði stuðst við lágspennutilskipun EB varðandi grunnkröfur um öryggi en vísað til staðla varðandi tæknilegar kröfur.
    Fallist var á tillögur starfshópsins og undirbúningur hafinn við að hrinda tillögunum í fram­kvæmd.
    Hinn 30. nóvember samþykkti starfshópurinn samhljóða að gera tillögur til iðnaðar- og við­skiptaráðherra um eftirtaldar breytingar á skipan rafmagnsöryggismála:

1. Yfirstjórn og reglugerð.
    1.1. Ráðgjafarnefnd um rafmagnsöryggismál, skipuð fulltrúum hagsmunaaðila, verði komið á fót 1. janúar 1993. Jafnframt verði núverandi stjórn RER lögð niður.
    1.2. Rafmagnseftirlit ríkisins verði endurskipulagt frá grunni með tilliti til breytinga á skipan rafmagnsöryggismála. Stofnunin sinni yfirstjórn málaflokksins en taki ekki beinan þátt í fram­kvæmd eftirlits.
    1.3. Hafist verði handa um breytingar á reglugerð um raforkuvirki. Kafli 1, Verksvið og tilhögun rafmagnseftirlits, verði endurskoðaður.

2. Löggilding rafverktaka.
    2.1. Nýir rafverktakar verði löggiltir eftir nýjum kröfum frá og með 1. maí 1993 og allir rafverk­takar verði að endurnýja löggildingu sína fyrir 1. maí 1994.
    2.2. Ný löggilding yfirtaki starfsleyfi rafveitna, löggilding gildi um allt land og verði bundin því fyrirtæki sem rafverktakinn starfar við. Löggildingin verði tímabundin og rafverktakar greiði árlegt löggildingargjald. Settar verði reglur um skráningar og upplýsingaskyldu rafverktaka. Gerð verði rafverktakaskrá sem inniheldur nauðsynlegar upplýsingar. Settar verði reglur um meðferð athuga­semda vegna starfsemi rafverktaka og um áminningu, sektir, tímabundna og varanlega sviptingu löggildingar.

3. Eftirlit með raforkuvirkjum raforkufyrirtækja.
    3.1. Raforkufyrirtækjum verði heimilt að fela skoðunarstofum eftirlit 1. maí 1993. Öll raforku­fyrirtæki skulu hafa komið eftirliti til skoðunarstofa fyrir 1. maí 1994.
    3.2. Raforkufyrirtæki skulu skila skýrslu um eftirlit og öryggismál ekki síðar en 1. maí ár hvert.

4. Eftirlit með neysluveitum.
    4.1. Rafveitum verði heimilt að hefja eftirlit samkvæmt nýjum reglum 1. maí 1993. Allar rafveit­ur skulu starfa samkvæmt nýjum reglum fyrir 1. maí 1994.
    4.2. Nýjar reglur feli í sér að skoðunarstofur annist eftirlit og að nýúttektir verði framkvæmdar með úrtaksskoðunum. Settar verði reglur um lágmarksfjölda veitna sem teknar verði út hjá hverjum rafverktaka og um úttekt á sérstaklega flóknum eða hættulegum veitum.
    4.3. Leitað verði eftir samstarfi við tryggingafélög varðandi gamalskoðanir.

5. Skoðunarstofur.
    5.1. Skoðunarstofur, sem starfa samkvæmt bráðabirgðakröfum, geti hafið starfsemi 1. maí 1993. Þær verði að hafa aflað sér faggildingar fyrir 1. maí 1994.

6. Fræðsla og túlkun reglna.
    6.1. Fræðslustarf verði eflt og leitað verði eftir sem víðtækustu samstarfi um það. Sett verði á stofn sérstakt fræðsluráð sem vinni að eflingu og samræmingu fræðslustarfs.

    6.2. Gerður verði samningur við SÍR um þátt rafveitna í fræðslu til fagmanna og almennings.

7. Rannsóknir á slysum og brunum.
    7.1. RER hætti rannsóknum á slysum og brunum 1. maí 1994. Kannað verði hvort rétt sé að stuðla að því að skoðunarstofa komi sér upp sérfræðiþekkingu á þessu sviði.

8. Eftirlitsstarf RER.
    8.1. Eftirlitsstarfi RER verði haldið áfram til 1. maí 1994. Dregið verði úr starfseminni eftir því sem skoðunarstofur taka við eftirliti.

    Fallist var á tillögur starfshópsins og undirbúningur hafinn við að hrinda tillögunum í fram­kvæmd.
    Að framansögðu má vera ljóst að óvenju góð samstaða hefur myndast um breytingu á fyrirkomu­lagi rafmagnsöryggismála. Starfsmenn Hagsýslu ríkisins og iðnaðarráðuneytisins kynntu tillögur Hagsýslunnar á fundum í flestum félögum hagsmunaaðila og tóku þátt í umræðum um þær. Miklar umræður og góð samstaða náðist einnig í samstarfshópi helstu hagsmunaaðila um framkvæmd til­lagnanna. Má af þessu sjá að breyting þessi á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála er vel undirbúin og um hana hefur náðst mikil samstaða.
    Nú er unnið að því að hrinda ofangreindum breytingum á skipan rafmagnsöryggismála í fram­kvæmd. Ákveðið hefur verið að gera breytingar á yfirstjórn Rafmagnseftirlits ríkisins meðan á áformuðum breytingum á starfsemi stofnunarinnar stendur og skipa sérstakan verkefnisstjóra sem vinna mun að því ásamt rafmagnseftirlitsstjóra að hrinda breytingunum í framkvæmd. Þessi skipan verður þó tekin til endurskoðunar í síðasta lagi í árslok 1994.
    Einnig er gert ráð fyrir því að koma á fót nú eftir áramótin ráðgjafarnefnd um rafmagnsöryggis­mál skipaða fulltrúum hagsmunaaðila. Jafnframt verði núverandi stjórn RER lögð niður. Hlutverk ráðgjafarnefndarinnar er ætlað að vera umræðuvettvangur um rafmagnsöryggismál og styðja við þróun málaflokksins. Óskað hefur verið eftir tilnefningum í ráðgjafarnefndina frá samtökum ráð­gjafarverkfræðinga, rafverktaka, raftækjainnflytjendum og raftækjasala, Rafiðnaðarsambandinu, Sambandi íslenskra rafveitna, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Brunamálastofnun og Félagi rafmagnseftirlitsmanna.
    Gerður hefur verið samningur við Bifreiðaskoðun Íslands hf. um að annast markaðseftirlit með rafföngum frá 1. janúar 1993 er raffangaprófun Rafmagnseftirlits ríkisins fellur niður. Einnig hefur iðnaðarráðuneytið gert samninga við prófunarstofur í Svíþjóð og Danmörku, SEMKO og DEMKO um að annast prófun raffanga fyrir íslenska framleiðendur og vegna markaðseftirlits. Hefur hið nýja fyrirkomulag verulegan sparnað í för með sér án þess að slakað sé á öryggiskröfum.


Fylgiskjal.


Hagsýsla ríkisins:


Greinargerð til iðnaðarráðherra um skipan


rafmagnsöryggismála á Íslandi.


(Apríl 1992.)




(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)