Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 329 . mál.


600. Tillaga til þingsályktunar



um smábátaveiðar.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Jóhann Ársælsson, Kristinn H. Gunnarsson,


Ragnar Arnalds, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að undirbúa tillögur um þróunarforsendur og starfs­skilyrði smábátaveiða með það að markmiði að viðhalda frjálsum aðgangi þeirra báta sem leyfi hafa til slíkra veiða innan sóknartakmarkana og friðunarskilmála sem í gildi verða. Jafnframt verði eftir­farandi þættir metnir eftir því sem kostur er:
—    þjóðhagslegt gildi smábátaveiða í samanburði við aðrar fiskveiðar;
—    þýðing smábátaveiða fyrir viðhald byggðar og atvinnu;
—    hlutur smábátaveiða í skynsamlegri nýtingu fiskimiðanna;
—    áhrif smábátaveiða á vistkerfi sjávar í samanburði við aðrar veiðar;
—    afkoma þeirra sem hafa lífsframfæri af smábátaveiðum;
—    öryggi sjómanna sem stunda smábátaveiðar.
    Lagaákvæði og reglur um stjórnun smábátaveiða verði endurskoðuð að teknu tilliti til ofan­greindra þátta.
    Við gerð tillagnanna verði haft náið samráð við Landssamband smábátaeigenda, Fiskifélag Ís­lands, Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsnefnd Alþingis.
    Niðurstöður verði kynntar Alþingi fyrir 15. október 1993.

Greinargerð.


    Á þeim áratug, sem liðinn er frá því að sett voru fyrstu lögin um stjórnun fiskveiða með afla­marki, hafa verið miklar sveiflur í fjölda og afkomu þeirra sem stunda veiðar á smábátum undir 10 brúttórúmlestum að stærð. Staða þessara báta í stjórnkerfi fiskveiða hefur jafnframt tekið miklum breytingum. Fyrst í stað voru smábátar undanþegnir aflamarki en háðir banndagakerfi. Síðar var reynt að setja heildaraflamark sem viðmiðun fyrir afla smábáta en það dugði skammt, enda fjölgaði bátum af þessari stærð hömlulaust. Hlutdeild smábáta í heildarþorskafla jókst úr rúmum 4% árið 1983 í tæp 15% árið 1990. Við síðustu endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun (lög nr. 38/1990) var síðan lögfest róttæk breyting þar sem allar veiðar skyldu háðar leyfum. Smábátar af stærðinni 6–9,9 tonn voru settir á aflamark samkvæmt aflareynslu undangenginna ára, en bátar undir 6 tonnum að stærð gátu valið á milli aflamarks og frjálsra veiða (krókaleyfis). Lögin kveða jafnframt á um að frá og með fiskveiðiárinu 1994/1995 verði allir smábátar háðir aflamarki ef heildarafli þeirra fer yfir ákveðið hámark fram að þeim tíma. Þegar liggur ljóst fyrir að sú verði raunin og þarf að koma til lagabreyting ef ákvæðið um aflamark á alla báta á ekki að taka gildi.
    Fram til ársins 1987 fór þorskafli vaxandi á heildina litið en hefur síðan farið minnkandi. Skerð­ing á veiðiheimildum, sem síðan hefur gengið yfir, hefur bitnað á öllum fiskiskipum á aflamarki en frá 1990 komið sérstaklega hart niður á smábátum. Eru dæmi um að við síðustu úthlutun veiðiheim­ilda hafi einyrkjar á trillum lent í 28% skerðingu í þorskígildum talið. Skerðing á aflaheimildum smábáta kemur verr við þá en stærri skip þar eð möguleikar smábáta til veiða á öðrum tegundum en þorski eru minni en annarra sem sótt geta lengra á miðin.
    Tillögur um smábátaveiðar, þar með talið um stjórnun veiðanna, ættu að byggjast á víðtæku mati á þjóðhagslegu gildi þessara veiða sem sjávarútvegsráðherra er með þingsályktunartillögunni falið að gera í nánu samráði við hagsmunaaðila, Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsnefnd Alþingis. Landssamband smábátaeigenda hefur lagt á það megináherslu undanfarið að krókaveiðar báta undir 6 brúttótonnum að stærð verði áfram frjálsar og leitað verði leiða til að draga úr mikilli kvótaskerð­ingu smábáta á aflamarki sem gengið hefur yfir síðan 1990.
    Með þessari þingsályktunartillögu er lögð áhersla á það markmið að smábátaveiðar verði fram­vegis frjálsar innan sanngjarnra takmarkana. Æskilegast væri að sömu reglur gildi um veiðar á öll­um bátum innan við 10 brúttótonn að stærð eins og var fram til ársins 1990. Haldi menn sig hins vegar við að draga mörk milli bátastærða svipað og nú er koma ýmsar leiðir til greina til að rétta hlut báta á aflamarki þannig að þeir sem þá gera út og hafa sjómennsku að aðalstarfi geti framfleytt sér af slíkri útgerð. Hér skal bent á þann möguleika að heimila þessum bátum veiðar á línu í tvo mánuði að sumarlagi þar sem fiskur sem veiðist væri aðeins að hálfu talinn með í aflamarki. Í staðinn mætti takmarka hliðstæða heimild um veiðar á línu á tveimur vetrarmánuðum, t.d. í janúar og febrúar. Með þessu væri dregið úr hvatningu til sóknar á þeim tíma sem veður eru að jafnaði vályndust og um leið rýmkað fyrir um aflamöguleika viðkomandi báta.
    Mælingareglum um flokkun báta var breytt frá ársbyrjun 1990, m.a. með það að markmiði að koma í veg fyrir að menn „leiki á kerfið“ með því að koma bátum í smábátaflokk eins og gerðist með allmarga báta fyrir nokkrum árum. Hvort það hefur tekist með breyttum reglum verður hér ekki dæmt um en aðeins undirstrikað að með tillögu þessari er miðað við raunverulega smábáta, hvort sem um er að ræða 10 eða 6 tonna mörk. Einnig er haft í huga að um eitt úthald sé að ræða á bát á veiðum utan aflamarks en ekki að margir nýti sama bátinn til veiða.
    Á árinu 1991 lögðu samtals 1.452 smábátar upp afla og nam hann samtals 52 þús. lestum, þar af var þorskafli þeirra 35 þús. lestir eða sem svarar 11,4% af heildarþorskafla landsmanna. Af þessu sést hversu geysimikið framlag smábátanna er í heildarveiðinni. Talið er að heildarverðmæti afla smábáta undir 10 brúttólestum að stærð hafi á undanförnum árum numið 3–4 milljörðum kr., reiknað á verðlagi ársins 1990. Líklegt er að um 1.300 ársstörf sjómanna af alls 6.000–6.500 ársverkum við fiskveiðar séu við útgerð smábáta, þ.e. um fimmtungur.
    Þótt veiðar á smábátum eigi sér langa sögulega hefð hér á landi og hafi verið eina útgerðarformið á Íslandi þar til á síðari hluta 19. aldar hafa litlar athuganir farið fram á þjóðhagslegu gildi þessara veiða og upplýsingar um afla og afkomu smábáta verið gloppóttar. Nokkuð hefur verið úr þessu bætt með gögnum sem fram komu sl. haust á vegum Landssambands smábátaeigenda. Er þar átt við skýrslu um afkomu smábátaútgerðar 1989 sem unnin var fyrir Landssamband smábátaeigenda af Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands og greinargerð Karls Benediktssonar landfræðings sem kynnt var um svipað leyti undir heitinu „Smábátaútgerð á tímum breytinga í sjávarútvegi“. Bæði þessi gögn geta orðið stjórnvöldum að gagni við að meta þjóðhagslega þýðingu smábátaútgerðar sem og þýðingu hennar fyrir byggð og atvinnu víða um land. Helstu atriði úr þessum skýrslum eru birt sem fylgisköl með tillögunni.

    Smábátaútgerð hefur úrslitaþýðingu fyrir byggð og atvinnu í nokkrum byggðarlögum m.a. Drangsnesi og víðar á Ströndum, í Grímsey, á Bakkafirði og Borgarfirði eystra. Á mörgum öðrum stöðum og landsvæðum hefur útgerð smábáta afar mikla þýðingu þótt burðarásar hráefnisöflunar séu stærri skip.
    Athuganir Karls Benediktssonar beindust öðru fremur að Suðurnesjum og Austfjörðum. Á Suð­urnesjum voru 143 bátar skráðir fyrir afla á árinu 1991. Er talið að á bak við það séu um 140 ársstörf sjómanna og um 150 störf við fiskvinnslu í landi auk ýmissa afleiddra starfa í þjónustu. Á Austfjörð­um voru á sama tíma 224 smábátar skráðir fyrir afla og að baki þeim talin standa 212 störf á sjó sem svarar til um þriðjungs af sjómannsstörfum í landshlutanum. Þar að auki koma 60–70 störf við vinnslu aflans í landi, en nær undantekningarlaust leggja smábátar á Austfjörðum afla sinn upp í heimabyggð. Þannig eru um 10% af störfum á Austfjörðum tengd smábátaútgerð með beinum hætti þótt þýðing hennar sé misjöfn eftir byggðarlögum. Hefur gildi smábátaútgerðar vaxið hröðum skrefum á einstökum stöðum, svo sem á Höfn í Hornafirði.
    Takmarkaðar athuganir hafa verið gerðar hérlendis á áhrifum mismunandi veiðitækni á nýtingu fiskimiðanna, bæði að því er snertir stærð fiskiskipa og veiðarfæri. Þó er ástæða til að ætla, einnig með hliðsjón af erlendum rannsóknum, að smábátar með veiðar á króka og línu fari betur með fiski­slóðir en önnur veiðarfæri. Þá eyðist mun minni orka á aflaeiningu á smábátum en við togveiðar. Hins vegar standa fleiri störf að baki sama aflamagni hjá smábátunum en togurum. Hvort tveggja verður að teljast smábátaveiðum til tekna eins og nú háttar í þjóðfélaginu og út frá umhverfislegum gildum.
    Þá skiptir einnig miklu að fiskur af dagróðrarbátum er jafnbesta hráefni sem völ er á og hafa handfæra- og línuveiðar að jafnaði yfirburði yfir net og troll. Samkeppnisstaða dagróðrarbáta gæti líka orðið betri en t.d. frystitogara ef tollar lækka inn á markað Evrópubandalagsins að mati for­svarsmanna Landssambands smábátaeigenda.
    Hafa ber einnig í huga að mikið hefur verið fjárfest í þágu smábátaveiða undanfarin ár bæði í nýjum bátum og hafnaraðstöðu. Þótt langtum minna fjármagn sé bundið í þessum rekstri en t.d. í togaraútgerð styður það með öðru að skjóta beri skildi fyrir veiðar smábáta.
    Smábátaútgerðin er nær einvörðungu fjölskyldurekstur þar sem maki og börn taka oft mikinn þátt í útgerðinni. Slíkt fellur vel að félagslegu munstri lítilla byggða og tengir fólk nánari böndum við heimabyggð og nánasta umhverfi en þegar um þátttöku í stórrekstri er að ræða. Setja verður stórt spurningarmerki við fiskveiðistjórnun sem ýtir undir uppkaup stærri útgerða á aflaheimildum smá­báta. Margt bendir til að þar sé á ferðinni hagræðing með öfugu formerki.
    Tillaga þessi er flutt til að sporna við þeirri aðför að smábátaútgerð í landinu sem felst í núver­andi stjórnkerfi og freista þess að ráða bót á sinnuleysi stjórnvalda um málefni smábátaútgerðar. Það atvinnuleysi, sem nú ríður húsum í landinu, ætti ásamt öðru að fá aðila framkvæmdar- og löggjafar­valds til að staldra við og breyta hið fyrsta lögum og reglum varðandi smábátaveiðar þannig að heildarhagsmuna sé gætt.


Fylgiskjal I.

Karl Benediktsson:

Smábátaútgerð á tímun breytinga í sjávarútvegi.


(Áfangaskýrsla 1992.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal II.

Sjávarútvegsstofnun
Háskóla Íslands:


Afkoma smábátaútgerðar 1989.


(Skýrsla, nóvember 1992.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal III.

Asmund Bjordal og Taivo Laevastu:

Áhrif togveiða og línuveiða á afrakstur og


lífþyngd þorskstofna — tölulega greint.


(1990.)




(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal IV.


Tafla yfir flutning veiðiheimilda af bátum yfir á togskip.


(Úr samantekt gagna um málefni smábátaeigenda, desember 1992.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)



Fylgiskjal V.


Línu- og súlurit yfir afla smábáta 1985–1991.


(Úr samantekt gagna um málefni smábátaeigenda, desember 1992.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal VI.


Samþykktir og ályktanir 8. aðalfundar Landssambands smábátaeigenda.


(26. og 27. október 1992.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)