Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1
1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – . mál.


616. Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Ný grein, 173. gr. b laganna, orðast svo:
     Hver, sem tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti gegn 173. gr. a, skal sæta fangelsi allt að 10 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem geymir eða flytur slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíku broti.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Í umræðum á alþjóðavettvangi um aðgerðir gegn ólöglegum fíkniefnaviðskiptum hefur athyglinni undanfarin ár í auknum mæli verið beint að fjárhagshlið viðskiptanna. Alþjóðleg samstaða er um það að leggja aukna áherslu á fjárhagshlið viðskiptanna. Talið er mikilvægt að ná til þeirra sem í reynd standa að viðskiptunum með því að skipuleggja eða fjármagna þau án þess að vera sjálfir neytendur eða koma að öðru leyti beint fram, t.d. sem innflytjendur eða dreifendur. Í þeim tilgangi að ná til þeirra sem standa að skipulögðum fíkniefnaviðskiptum, t.d. með fjármögnun eða með því að koma ágóða undan, hafa víða verið lögfest sérstök refsiákvæði.
     Hinn 10. júní 1991 samþykkti ráð Evrópubandalagsins tilskipun nr. 91/308 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar (sic). Tilskipun þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er Ísland skuldbundið til að hafa lagað löggjöf sína að þessari tilskipun Evrópubandalagsins við gildistöku EES-samningsins.
     Tilgangurinn með framangreindri tilskipun EB um peningaþvætti er aðallega sá að samræma aðgerðir aðildarríkjanna til að reyna að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir verði notaðar til að þvætta ágóða af brotastarfsemi og að hindra að aukið frelsi í fjármagnsflutningum og fjármálaþjónustu verði notað til peningaþvættis.
     Samkvæmt 2. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríkin tryggja að peningaþvætti sé bannað. Það er ófrávíkjanleg krafa að aðildarríkin hafi reglur um peningaþvætti vegna fíkniefnabrota. Samkvæmt tilskipuninni er aðildarríkjunum að öðru leyti í sjálfsvald sett hvort þau setja reglur um peningaþvætti vegna annarra afbrota. Það er því ekki fortakslaus krafa að sett séu refsiákvæði um peningaþvætti, en refsiákvæði er raunhæfasta leiðin til að tryggja að bannið við peningaþvætti verði virkt.
     Í tilskipun EB um aðgerðir gegn peningaþvætti er hugtakið skilgreint með eftirfarandi hætti:
—    ummyndun eða yfirfærsla á eignum þegar vitað er að slíkar eignir eru til komnar vegna afbrota eða vegna þátttöku í slíkri starfsemi, í þeim tilgangi að hylma yfir eða leyna ólögmætum uppruna eignarinnar eða aðstoð við hvern þann sem á þátt í slíkri starfsemi í að sneiða hjá lögfylgjum athafna sinna,
—    yfirhylming eða launung að því er varðar raunverulegt eðli, uppruna, staðsetningu, ráðstöfun, flutning, réttindi yfir eða eignarrétt eigna þegar vitað er að slík eign er til komin vegna afbrota eða þátttöku í slíkri starfsemi,
—    öflun, umráð eða notkun eignar þegar vitað er við móttöku að slík eign er til komin vegna afbrota eða þátttöku í slíkri starfsemi,
—    þátttaka í, samtök um, tilraunir til, liðveisla, hvatning, fyrirgreiðsla eða ráðgjöf við framningu sérhverra þeirra athafna sem nefndar eru í undanfarandi málsgreinum.
     Þegar talað er um eign hér að framan er átt við eignir af öllu tagi, hvort sem þær eru áþreifanlegar eða óáþreifanlegar, lausafjármunir eða fasteignir, rekstrarfjármunir eða óefnislegar eignir, lagaskjöl eða skjöl sem sanna eign eða réttindi sem tengjast slíkum eignum.
     Á 116. löggjafarþingi hefur verið lagt fram frumvarp til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, en í því frumvarpi er lagt til að lögfest verði ákvæði varðandi fjármálastofnanir sem nauðsynleg eru talin til að fullnægja skilyrðum í áðurgreindri tilskipun EB.

II. Almennt um frumvarpið.


    Íslensk refsilöggjöf um ávana- og fíkniefni er tvíþætt. Í fyrsta lagi eru sérrefsilög, þ.e. lög um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974. Og í öðru lagi eru ákvæði í 173. gr. a almennra hegningarlaga um alvarlegri fíkniefnabrot.
     Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna um ávana- og fíkniefni er varsla og meðferð ávana- og fíkniefna óheimil á íslensku forráðasvæði samkvæmt því sem nánar segir í 4. mgr. greinarinnar, en samkvæmt henni er innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla, tilbúningur og varsla ávana- og fíkniefna bönnuð. Brot á lögunum varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum. Heimilt er að refsa fyrir brot hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi og ákvæði almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild gilda einnig um brot á lögunum.
     Í 1. mgr. 173. gr. a eru ákvæði um að sá sem andstætt lögum um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt skuli sæta fangelsi allt að 10 árum.
     Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal sá sæta sömu refsingu sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt sem segir í 1. mgr.
     Vafi er talinn leika á því að hvaða leyti hægt sé að refsa þeim fyrir hlutdeild í fíkniefnabroti sem t.d. tekur við, geymir eða flytur ágóða af fíkniefnabroti. Samkvæmt 22. gr. hegningarlaga, þar sem fjallað er um hlutdeild, skal hverjum þeim refsað sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt tekur þátt í því að brot samkvæmt lögunum er framið. Hlutdeildarákvæðið tekur fyrst og fremst til hlutdeildar í verknaði sem til er komin áður en brot er framið eða samtímis framningu þess. Almennt er aðstoð, sem veitt er eftir það tímamark, refsilaus nema hún sé veitt samkvæmt samkomulagi sem gert var fyrir verknaðinn.
     Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að almennt sé ekki unnt samkvæmt gildandi lögum að refsa fyrir viðtöku ágóða af fíkniefnasölu. Það sama gildir um flutning, geymslu og aðra sambærilega aðstoð sem kemur til eftir að frumbrotið er framið.
     Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði refsiákvæði um viðtöku, geymslu, flutning ávinnings af fíkniefnabrotum o.s.frv. Samhliða frumvarpi þessu verður flutt frumvarp um breyting á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, þar sem lögð verður til sams konar viðbót við þau lög eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.
     Slíku refsiákvæði er ætlað að hamla gegn fíkniefnaviðskiptum og það getur einnig takmarkað möguleika milliliða og leppa að tryggja sér ávinning af fíkniefnaviðskiptum. Þá styrkir slíkt ákvæði réttarvörslu gagnvart þeim sem standa að baki fíkniefnabrotum með fjármögnun. Samkvæmt ákvæðinu verður einnig hægt að refsa þeim sem taka við ágóða af fíkniefnabrotum án þess að sannað verði að viðskiptin hafi verið fjármögnuð með peningaláni eða sambærilegri fyrirgreiðslu. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að kunnáttusamleg fíkniefnaviðskipti eru skipulögð í mörgum sjálfstæðum liðum þar sem sjaldnast liggur fyrir vitneskja um aðra sem taka þátt í þeim.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að í almenn hegningarlög verði bætt við nýju ákvæði sem verði 173. gr. b. Hið refsiverða atferli samkvæmt greininni er í reynd tvíþætt:
     Í fyrsta lagi að taka við eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti gegn 173. gr. a.
     Í öðru lagi að geyma eða flytja slíkan ávinning, aðstoða við afhendingu hans eða stuðla á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti gegn sömu grein.
     Markmiðið með fyrri hluta greinarinnar er að ná beint til þeirra sem standa að fíkniefnaviðskiptum, án þess að þeir eigi beina aðild að innflutningi eða dreifingu þeirra, en þar sem unnt er að sanna að þeir hafi tekið á móti peningum eða öðrum ávinningi af viðskiptunum. Tilgangur þeirra sem leggja fé til fíkniefnaviðskipta án annarra afskipta er sá að hagnast af viðskiptunum. Viðtaka ágóða viðskiptanna er í reynd síðasti hlekkur viðskiptanna og verður að telja hana jafnámælisverða og hlutverk þeirra sem sinna öðrum liðum í viðskiptunum. Samkvæmt þessum hluta greinarinnar er ekki einungis lagt til að lögð verði refsing við því að taka við eða útvega sér ávinning af fíkniefnabroti heldur einnig að útvega öðrum slíkan ávinning. Það væri óeðlilegt að unnt væri að losna undan refsiábyrgð með því t.d. að afhenda maka sínum peningana eða greiða með þeim skuld.
     Markmiðið með síðari hluta greinarinnar er að takmarka fíkniefnaviðskipti með því að leggja refsingu við hinum ýmsu aðferðum sem unnt er að viðhafa til að aðstoða við undanskot ávinnings af fíkniefnaviðskiptum, án þess að það sé skilyrði að viðkomandi hafi nokkurn ábata af aðstoðinni eða hafi ætlast til slíks ábata. Upptalning á tilhögun aðstoðar, þ.e. geyma, flytja og aðstoða við afhendingu, er hér ekki tæmandi. Nefna má fleiri dæmi aðstoðar en talin eru upp í greininni, svo sem að innheimta kröfu, fjárfesta, dylja ávinning o.s.frv.
     Í greininni er lagt til að brot gegn henni varði allt að 10 ára fangelsi. Er það sama refsing og fyrir brot gegn 173. gr. a. Þeir verknaðir, sem lagt er til að lögð verði refsing við samkvæmt greininni, geta verið jafnalvarlegir og sjálft fíkniefnabrotið og er það ástæða þess að lagt er til að refsimörk verði þau sömu.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.