Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 342 . mál.


621. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 4 frá 19. febrúar 1963, um ráðherraábyrgð.

Flm.: Páll Pétursson.



1. gr.


    Við 10. gr. laganna bætist nýr liður, c-liður, er orðast svo:
c.    ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Lögin um ráðherraábyrgð frá 4. febrúar 1963 taka ekki til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir því rangt frá, gefur því villandi upplýsingar eða leynir það upplýsingum er mikilvægar eru fyrir meðferð máls. Ráðherrar hafa því ekki nauðsynlegt aðhald og geta freistast til að gefa Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leyna það mikilvægum upplýsingum. Þetta getur leitt til óvandaðrar meðferðar mála og orsakað fullkominn trúnaðarbrest Alþingis og ráðherra. Í lögum Dana um ráðherraábyrgð (Lov 1964-04-15 nr. 117 om ministres ansvarlighed) eru hins vegar skýr ákvæði um þetta atriði. Lagt er til að þau ákvæði verði tekin í íslensk lög. Það er mjög mikilvægt að Alþingi geti treyst því að upplýsingar, er ráðherrar gefa því, séu fullnægjandi og sannleikanum samkvæmar og að ráðherra leyni ekki upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls.


Fylgiskjal.


10. og 11. gr. laga nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð, með þeirri


breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir.


10. gr.


    Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:
    ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín,
    ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir,
     ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu.

11. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða, eftir málavöxtum, embættismissi, sektum, … 1) varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.
    Við ákvörðun refsingar skal höfð hliðsjón af 70. gr. almennra hegningarlaga.
     Hafi ráðherra jafnframt brotið gegn hinum almennu hegningarlögum, skal hegning sú, sem hann hefur til unnið, tiltekin í einu lagi samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga.

     1) L. 75/1982, 2. gr.