Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 350 . mál.


629. Frumvarp til laga



um vátryggingarstarfsemi.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



I. KAFLI


Gildissvið. Mörk við aðra starfsemi.


1. gr.


    Lög þessi gilda um vátryggingarstarfsemi. Rísi deilur um hvort starfsemi falli undir ákvæði laga þessara sker ráðherra vátryggingarmála úr.

2. gr.


    Lögin gilda ekki um eftirlaunasjóði, lífeyrissjóði og sjúkrasjóði einstakra atvinnustétta, starfshópa og fyrirtækja eða um Tryggingastofnun ríkisins, Atvinnuleysistryggingasjóð og hliðstæðar stofnanir sem reknar eru samkvæmt sérstökum lögum nema að því leyti sem þessir aðilar kunna að hafa með höndum vátryggingarstarfsemi.

3. gr.


    Hlutafélög, gagnkvæm félög eða félög sem stofnuð eru með sérlögum mega reka vátryggingarstarfsemi hér á landi.
     Um vátryggingarhlutafélög gilda ákvæði laga um hlutafélög og um gagnkvæm vátryggingarfélög sem stofnuð eru og rekin í samvinnufélagsformi, ákvæði laga um samvinnufélög nema annað leiði af ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
     Félög, sem stofnuð eru með sérlögum til að reka vátryggingarstarfsemi, mega reka þessa starfsemi í hlutafélagsformi sem gagnkvæm félög eða á öðru lögmæltu félagsformi enda búi þau við sömu rekstrarskilyrði og einkafélög. Sama gildir um erlend vátryggingarfélög sem leyfi fá til að reka vátryggingarstarfsemi hér á landi.

4. gr.


    Nú á vátryggingarfélag svo mikinn hlut í öðru félagi að það fer með meiri hluta atkvæða í félaginu og telst þá fyrrnefnda félagið móðurfélag en hið síðarnefnda dótturfélag.
     Nú á dótturfélag eða móðurfélag ásamt einu eða fleiri dótturfélögum, eða fleiri en eitt dótturfélag í sameiningu, svo mikinn hlut í öðru félagi sem um ræðir í 1. mgr. og telst þá síðastnefnda félagið dótturfélag móðurfélagsins.
     Ef vátryggingarfélag hefur annars sem eigandi eignarhluta eða vegna samninga yfirráð í öðru félagi og verulega hlutdeild í afrakstri þess telst fyrrnefnda félagið einnig móðurfélag og hið síðarnefnda dótturfélag. Móður- og dótturfélög eru í sameiningu félagasamstæða.

5. gr.


    Lög þessi gilda um félagasamstæður þegar móðurfélagið er vátryggingarfélag, sbr. 4. gr.
     Vátryggingareftirlitið getur ákveðið að ákvæði laganna um samstæður skuli eiga við um tengsl félags sem ekki er vátryggingarfélag og vátryggingarfélaga þegar litið væri á hið fyrrnefnda sem móðurfélag samkvæmt lögum þessum ef það ræki vátryggingarstarfsemi.
     Vátryggingareftirlitið getur einnig ákveðið að lögin taki til félaga sem teljast ekki félagasamstæður skv. 4. gr. þegar veruleg innbyrðis tengsl eru á milli þeirra. Félögin skulu þá tilnefna eitt þeirra sem móðurfélag.

6. gr.


    Vátryggingarfélag má ekki reka aðra starfsemi en vátryggingarstarfsemi. Til vátryggingarstarfsemi telst hliðarstarfsemi sem henni tengist, sbr. 7. gr.
     Vátryggingarfélag telst reka aðra starfsemi en vátryggingarstarfsemi ef félagið hefur ákvörðunarvald eða virk yfirráð, eitt sér eða ásamt öðru vátryggingarfélagi, í félagi sem rekur aðra starfsemi en vátryggingarstarfsemi.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er vátryggingarfélagi heimilt að eiga meiri hluta í félagi sem rekur fjármálastarfsemi, enda sé starfsemin háð eftirliti opinberra aðila.
     Vátryggingarfélag má ekki taka á sig ábyrgðir sem ekki eru vátryggingar. Því er óheimilt að taka á sig skuldbindingar sem ekki eru í tengslum við eðlilegan rekstur vátryggingarfélags.

7. gr.


    Hliðarstarfsemi af því tagi, sem hér greinir, telst til vátryggingarstarfsemi samkvæmt lögum þessum:
    Umboð fyrir vátryggingarfélög sem leyfi hafa til að starfa hér á landi og fyrir önnur félög sem lúta eftirliti Vátryggingareftirlitsins eða annarra opinberra aðila.
    Að reisa, eiga og reka fasteignir sem lið í fjárfestingu til ávöxtunar á fjármunum félagsins til lengri tíma.
    Tjónsuppgjör og tjónavarnarstarfsemi.
    Rekstur og umsjón með sjóðum er tengjast eða eru hliðstæðir vátryggingarstarfsemi.
    Önnur umsýsla í beinu framhaldi af og í eðlilegum tengslum við vátryggingarstarfsemi sem hliðarstarfsemi.
     Starfsemi skv. 5. tölul. er háð leyfi Vátryggingareftirlitsins. Vátryggingareftirlitið getur ákveðið að starfsemi sem fellur undir 5. tölul. skuli rekin af sjálfstæðu félagi.

8. gr.


    Vátryggingarstarfsemi skal rekin í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur í vátryggingarviðskiptum og með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum. Verði misbrestur á skal Vátryggingareftirlitið gefa fyrirmæli um að ráðin verði bót á því sem úrskeiðis hefur farið.

9. gr.


    Líftryggingarstarfsemi má ekki reka með annarri vátryggingarstarfsemi. Þó má sama félag hafa með höndum endurtryggingar á líftryggingum með annarri vátryggingarstarfsemi. Einnig má veita líftryggingarfélagi starfsleyfi í slysa- og sjúkratryggingum.
     Vátryggingareftirlitið má veita vátryggingarfélagi sem rekur aðra starfsemi en líftryggingarstarfsemi heimild til að hafa með höndum áhættulíftryggingar þegar sú tegund vátrygginga er hluti vátryggingarsamninga eða í beinum tengslum við aðra vátryggingarsamninga þess félags, enda séu áhættulíftryggingarnar ekki teknar til lengri tíma í senn en 10 ára.

10. gr.


    Greinaflokkarnir farmtryggingar, flugtryggingar, sjótryggingar, greiðslu- og efndatryggingar í atvinnurekstri, svo og skaðatryggingar stórfyrirtækja teljast stóráhætta. Aðrar vátryggingar, einkum fjölskyldna, heimila og minni fyrirtækja svo og persónutryggingar stórfyrirtækja teljast fjöláhætta. Greint er á milli líftrygginga sem líftryggingartaki tekur að eigin frumkvæði og án atbeina líftryggingarfélaga eða annarra sem starfa á þeirra vegum eða fyrir þau og líftrygginga þar sem slíkur atbeini eða öflun líftrygginga á sér stað í atvinnuskyni. Teljast þær líftryggingar sem fyrr eru nefndar til þjónustu sem veitt er án fastrar atvinnustöðvar, en hinar síðarnefndu til starfsemi í fjöláhættugreinum, sbr. VI. kafla.
     Ráðherra ákveður með reglugerð nánari skilgreiningu á greinaflokkum vátrygginga, skilyrðum þess að vátrygging teljist stóráhætta og fjöláhætta og skilyrði þess að fyrirtæki teljist stórfyrirtæki í merkingu laga þessara.

11. gr.


    Vátryggingarfélag má ekki hefja vátryggingarstarfsemi eða stofna til vátryggingarsamninga fyrr en það hefur fengið starfsleyfi. Ekki má skrá félag sem vátryggingarfélag í hlutafélagaskrá eða aðra félagaskrá fyrr en starfsleyfi hefur verið gefið út.
     Heimilt er að skrá félagsmenn með það fyrir augum að stofna gagnkvæmt vátryggingarfélag svo framarlega sem ekki er stofnað til vátryggingarsamninga og ábyrgðar vegna þeirra eða innheimtu iðgjalda, áður en félagið hefur verið skráð.

12. gr.


    Í nafni vátryggingarfélags skal koma greinilega fram að um vátryggingarfélag sé að ræða. Aðrir en þeir sem leyfi hafa til vátryggingarstarfsemi mega ekki bera heiti sem kunna að benda til eða gefa í skyn að þeir reki vátryggingarstarfsemi eða láta neitt frá sér fara opinberlega, í prentuðu máli eða á annan hátt, sem skilja mætti á þann veg að vátryggingarstarfsemi sé rekin.
     Félagsform vátryggingarfélags skal koma greinilega fram í heiti þess. Þegar gefnar eru upplýsingar opinberlega eða á annan hátt með tilkynningum til almennings um upphæð hlutafjár, stofnfjár eða annars ábyrgðarfjár skal bæði koma fram skráð fé og hversu mikið er innborgað.
     Nafn og aðsetur þess vátryggingarfélags sem áhættuna ber skal ávallt koma fram á vátryggingarskírteinum, bréfum og öðrum tilkynningum til vátryggingartaka og í öllum gögnum sem skuldbinda hann, svo og nafn og aðsetur aðalstöðva félagsins þegar um útibú eða umboð er að ræða, sbr. þó 44. gr. Ávallt skal upplýsa vátryggingartaka um þessi atriði áður en hann er skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi.

II. KAFLI


Stofnun vátryggingarfélags. Starfsleyfi og skráning í vátryggingarfélagaskrá.


1. Stofnun vátryggingarfélags.


13. gr.


    Stofnendur vátryggingarfélags skulu gera og undirrita skriflegan stofnsamning. Í stofnsamningi skulu vera drög að samþykktum félagsins og ákvarðanir um þau atriði sem tilgreind eru í 14. gr.
     Stofnendur skulu hið fæsta vera þrír. Meiri hluti stofnenda skal vera búsettur á Íslandi. Stofnendur geta verið einstaklingar, íslenska ríkið og stofnanir þess, sveitarfélög á Íslandi og stofnanir þeirra, vátryggingarfélög með heimilisfang hér á landi, skráð hlutafélög, skráð samvinnufélög, önnur skráð félög með takmarkaðri ábyrgð, skráð sameignarfélög, skráð samlagsfélög svo og sjálfseignarstofnanir sem eru undir opinberu eftirliti með aðsetur hér á landi. Stofnendur skulu hafa náð tuttugu ára aldri, hafa óflekkað mannorð og hafa aldrei verið sviptir forræði á búi sínu. Ráðherra getur veitt undanþágu frá kröfunni um búsetu stofnenda á Íslandi.
     Sá sem undirritar stofnsamning og önnur stofnskjöl fyrir hönd lögaðila skal fullnægja þeim skilyrðum er segir um einstaklinga. Hann ber auk umbjóðanda síns ábyrgð svo sem sjálfur væri hann stofnandi nema á greiðslu þess hlutafjár eða stofnfjár sem umbjóðandi hans hefur skrifað sig fyrir.

14. gr.


    Í stofnsamningi vátryggingarfélags skal eftirfarandi koma fram:
    Nöfn og heimilisföng stofnenda.
    Hve mikið skuli greiða fyrir hvern hlut í félaginu.
    Frestir sem kunna að vera veittir til áskriftar fyrir hlutum og til greiðslu þeirra.
    Reglur um innborgun hlutafjár, stofnfjár eða ábyrgðarfjár.
    Ákvarðanir um að stofnendur eða aðrir skuli njóta sérstakra réttinda eða hlunninda í félaginu.
    Ákvarðanir um að gert skuli samkomulag við stofnendur eða aðra sem hefði í för með sér verulegar fjárskuldbindingar fyrir félagið.
    Ákvarðanir um að félagið taki við verðmætum sem ekki er greitt fyrir með hlutum í félaginu.
    Hvenær halda skuli stofnfund og hvernig til hans skuli boðað nema það leiði af ákvæðum 17. gr. að fundur þessi verði haldinn án sérstakrar boðunar.
    Hvort félagið skuli bera kostnað við stofnunina og, ef svo er, hversu hár sá kostnaður megi vera. Kostnaður þessi má ekki fara yfir 5% af skráðu fé þegar frá eru talin opinber útgjöld og kostnaður við matsgerð, sbr. 15. gr. Vátryggingareftirlitið getur veitt undanþágu frá hámarki stofnkostnaðar. Ekki má greiða stofnendum þóknun vegna stofnunarinnar.
     Í stofnsamningi gagnkvæms vátryggingarfélags skal jafnframt getið:
    Ábyrgðar félagsmanna og ábyrgðarmanna á skuldbindingum félagsins og skuldbindingar þeirra innbyrðis hvers gagnvart öðrum.
    Hvort og að hvaða marki félagið á að geta tekið að sér endurtryggingar án gagnkvæmrar ábyrgðar.
    Eftir hvaða reglum stofnfé skuli ávaxtað.
     Í stofnsamningi skal gerð grein fyrir þeim atriðum sem nauðsynleg eru og máli skipta til þess að unnt sé að meta til fjár þau verðmæti er félagið hyggst taka við.
     Sé stofnað til félagsins með það fyrir augum að yfirtaka vátryggingarstarfsemi eða vátryggingarstofn annars vátryggingarfélags skal þess getið í stofnsamningi og það tekið fram hvort samningsdrög um yfirfærslu vátryggingarstofns hafi verið gerð og umfjöllun Vátryggingareftirlits liggi fyrir, sbr. VIII. kafla.
     Skjöl, sem hafa að geyma mikilvæg efnisatriði sem ekki koma fram í stofnsamningi, skulu fest við hann og teljast hluti stofnsamningsins.
     Allir samningar um atriði sem fjallað er um í stofnsamningi, en voru ekki samþykkt við gerð hans, eru ógildir gagnvart félaginu.

15. gr.


    Hlutir skulu greiddir í reiðufé. Vátryggingareftirlitið getur veitt heimild til að greiðsla fari fram með öðrum hætti.
     Framlög til greiðslu hluta í öðru en reiðufé skulu vera þannig að unnt sé að meta fjárhagslegt verðmæti þeirra. Í þeim má ekki felast skuldbinding um að leggja fram vinnu eða þjónustu og framlög mega ekki vera í formi krafna á aðra stofnendur eða þá sem skrá sig fyrir hlutum þótt kröfurnar séu tryggðar með veði.
     Sé ætlunin að greiða hluti á annan hátt en í reiðufé skal senda Vátryggingareftirlitinu umsókn ásamt matsgerð. Matsgerðin skal unnin af einum eða fleiri óvilhöllum, sérfróðum matsmönnum sem Vátryggingareftirlitið samþykkir. Matsmönnum skal heimill aðgangur að öllum gögnum til að unnt sé að gera þær athuganir sem þeir telja nauðsynlegar og þeir geta krafið stofnendur eða félagið um allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem þeir álíta sig þurfa við verk sitt. Fallist Vátryggingareftirlitið á umsóknina má gera stofnsamning.
     Telji Vátryggingareftirlitið ástæðu til að ætla að verðmæti framlaga hafi breyst frá því að matsgerð var framkvæmd og stofnfundur er haldinn getur það krafist yfirlýsingar matsmanna um verðmætið eða nýrrar matsgerðar.
     Ákvæði þessarar greinar eiga einnig við taki félagið við fjármunum af stofnendum, hluthöfum eða ábyrgðarmönnum sem ekki eru til greiðslu hluta og greiðsla skal innt af hendi innan tveggja ára frá dagsetningu stofnsamnings, eða greiðsla nemur meir en tíunda hluta hlutafjár, stofnfjár eða ábyrgðarfjár.

16. gr.


    Stofnendur skulu gera tillögu að samþykktum vátryggingarfélags og skulu eftirfarandi atriði koma fram:
    Heiti félagsins og heimilisfang.
    Tilgangur félagsins, starfssvið og starfssvæði.
    Heildarupphæð hlutafjár, stofnfjár eða ábyrgðarfjár, fjárhæð hluta og atkvæðisréttur.
    Hvort hlutir eiga að geta gengið kaupum og sölum og reglur um innlausn og sérstök réttindi er þeim kunna að fylgja, svo og skorður sem reistar kunna að vera við heimildum eigenda hluta til meðferðar á þeim.
    Fjöldi manna í stjórn og varastjórn ásamt endurskoðendum og kjörtímabil þeirra.
    Hvernig boðað skuli til félagsfundar.
    Hvaða mál skuli leggja fyrir aðalfund.
    Hvert skuli vera reikningsár félags.
    Ráðstöfun tekjuafgangs og hvernig mæta skal halla.
    Úthlutun arðs og ágóðahluta.
    Hvernig ráðstafa megi eignum félagsins og hvernig fara skuli með eignir þess við félagsslit.
     Í samþykktum gagnkvæms félags skal enn fremur kveðið á um:
    Skilyrði aðildar félagsmanna að félaginu og um brottfall aðildar.
    Atriði samkvæmt ákvæðum 10.–12. tölul. 14. gr.

17. gr.


    Ákvörðun um stofnun vátryggingarfélags skal tekin á stofnfundi.
     Stofnendur skulu sjá um að áskriftarskrár og þeir samningar og gögn sem um ræðir í stofnsamningi, þar með talin matsgerð og yfirlýsing, ef við á sbr. 15. gr., séu til sýnis í eina viku fyrir stofnfund á stað sem greinir í fundarboði.
     Ef áskrift fæst að öllum hlutum á stofnfundi og allir viðurkenndir áskrifendur eru sammála þar um er unnt að taka ákvörðun um stofnun félagsins án frekari funda. Sé svo ekki skulu stofnendur boða alla áskrifendur til stofnfundar.
     Á stofnfundi skulu lögð fram gögn sem fjallað er um í 2. mgr. og gerð skal grein fyrir útgjöldum sem um getur í 9. tölul. 1. mgr. 14. gr. Einnig skal veita upplýsingar um það hlutafé, stofnfé eða ábyrgðarfé sem samþykkt hefur verið og um skiptingu hluta og innborgaðra fjárhæða. Upplýsingar þessar skulu færðar í fundargerðabók.

2. Starfsleyfi og skráning í vátryggingarfélagaskrá.


18. gr.


    Umsókn um starfsleyfi skal send Vátryggingareftirlitinu innan sex mánaða frá dagsetningu stofnsamnings ásamt tilkynningu til skráningar í vátryggingarfélagaskrá, sbr. 21. gr.
     Í umsókn skulu koma fram þær vátryggingargreinar sem sótt er um leyfi fyrir. Henni skulu fylgja staðfest endurrit stofnsamnings og fundargerðar stofnfundar úr fundargerðabók, drög að samþykktum til staðfestingar, ásamt áætlun um starfsemi félagsins, sbr. 19. gr. Teljist vátryggingargrein fjöláhætta í merkingu 10. gr. laga þessara skulu einnig fylgja umsókn sýnishorn almennra vátryggingarskilmála og iðgjaldagrundvallar.
     Berist umsóknin ekki innan tilskilins frests, sbr. 1. mgr., skal synja um skráningu félagsins. Fari svo falla burtu skuldbindingar þeirra er hafa skráð sig fyrir hlutafé, stofnfé eða ábyrgðarfé. Sama gildir ef skráningu er synjað af öðrum ástæðum. Eftir þetta er ekki hægt að skrá félagið nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi og má þá skrá félagið þó að fresturinn sé liðinn.
     Ekki má skrá vátryggingarfélag í vátryggingarfélagaskrá nema hlutafé, stofnfé eða ábyrgðarfé, sem skráð er við stofnun, sé að fullu greitt.
     Vátryggingarfélag má ekki hefja starfsemi fyrr en það hefur fengið starfsleyfi og verið skráð í vátryggingarfélagaskrá.

19. gr.


    Í áætlun um starfsemina, sem fylgja skal umsókn um starfsleyfi, skal eftirfarandi koma fram:
    Skýrsla um endurtryggingarvernd og hámark þess sem félagið hyggst bera í eigin áhættu án endurtryggingar í hverri vátryggingargrein.
    Skrá yfir eignir sem eiga að koma á móti ábyrgðarsjóði, sbr. 26. gr.
    Rökstutt mat á kostnaði við að koma starfseminni á fót og hvernig ætlað er að mæta þeim kostnaði.
    Áætluð staða félagsins samkvæmt efnahagsreikningi í lok þriggja fyrstu bókhaldsáranna ásamt áætlun um árlegar tekjur og gjöld.
    Áætlun um hvernig félagið hyggst standa við skuldbindingar sínar og uppfylla kröfur um gjaldþol og ábyrgðarsjóð fyrstu þrjú bókhaldsárin.
     Sé sótt um leyfi fyrir greiðsluvátryggingum skal auk gagna skv. 1. mgr. gerð sérstök grein fyrir eignum sem ætlað er að mæta vátryggingarskuld félagsins.

20. gr.


    Vátryggingareftirlitið metur umsókn félags um starfsleyfi. Umsögn Vátryggingareftirlits skal liggja fyrir innan þriggja mánaða frá móttöku umsóknarinnar og allra gagna sem fylgja eiga umsókn.
     Uppfylli félagið skilyrði um gjaldþol og ábyrgðarsjóð og mæli Vátryggingareftirlitið að öðru leyti með umsókninni veitir ráðherra starfsleyfi og að því fengnu má skrá félagið í vátryggingarfélagaskrá. Í starfsleyfi skulu koma fram upplýsingar um þá vátryggingarstarfsemi sem félagið má reka. Ráðherra ákveður að öðru leyti hvað koma skal fram í starfsleyfi. Mæli Vátryggingareftirlitið ekki með umsókninni skal það stutt rökum og tilkynnt umsækjanda skriflega.
     Vátryggingarfélag, sem hefur starfsleyfi og hyggst taka upp nýja grein vátrygginga eða hyggst breyta starfsemi sinni í verulegum atriðum, skal sækja um leyfi til Vátryggingareftirlitsins fyrir hinni nýju starfsemi og senda gögn í samræmi við 19. gr. eftir því sem við á og nauðsynleg eru til að Vátryggingareftirlitið geti metið umsóknina. Uppfylli félagið skilyrði um gjaldþol og ábyrgðarsjóð að teknu tilliti til hinnar nýju starfsemi og fallist Vátryggingareftirlitið að öðru leyti á umsóknina veitir eftirlitið leyfi fyrir starfseminni. Starfsleyfi og leyfi fyrir nýrri starfsemi skulu þegar í stað skráð í vátryggingarfélagaskrá.

21. gr.


    Halda skal vátryggingarfélagaskrá um öll félög sem stjórnvöld hér á landi veita starfsleyfi og skal hún vera í vörslu Vátryggingareftirlitsins. Heimill skal almennur aðgangur að vátryggingarfélagaskrá.
     Í vátryggingarfélagaskrá skal skrá eftirfarandi:
    Dagsetningu stofnsamnings, stofnfundargerðar og samþykkta.
    Nafn, félagsform og starfssvæði, lögheimili og varnarþing.
    Starfssvið og tilgang.
    Dagsetningu starfsleyfis og skrá yfir þær vátryggingargreinar sem félag hefur fengið leyfi til að reka og um aðra starfsemi skv. 2. mgr. 7. gr.
    Skráð og innborgað hlutafé, stofnfé og ábyrgðarfé, og eigið hlutafé.
    Stjórn og varastjórn, endurskoðendur og tryggingastærðfræðinga.
    Nöfn þeirra er skuldbinda mega félag.
    Aðalumboðsmann og atvinnustöð erlends félags hér á landi og þegar við á, þann sem hefur með höndum uppgjör í ábyrgðartryggingum ökutækja hér á landi.
    Dagsetningu yfirfærslu/yfirtöku vátryggingarstofna ásamt skrá yfir vátryggingargreinar sem yfirfærðar/yfirteknar eru.
    Dagsetningu skipunar skilastjórnar og hverjir skipa skilastjórn, dagsetningu afturköllunar starfsleyfis, slita félags og þegar félag er máð úr vátryggingarfélagaskrá.
     Allar breytingar varðandi atriði sem tilkynna skal til vátryggingarfélagaskrár skulu, eins fljótt og auðið er og eigi síðar en innan eins mánaðar, tilkynntar til skrárinnar ásamt gögnum er sanni samþykkt þeirra og lögmæti. Tilkynningar skulu berast á sérstökum eyðublöðum er Vátryggingareftirlitið lætur í té.
     Ákvörðun um breytingu á samþykktum vátryggingarfélags öðlast ekki gildi fyrr en Vátryggingareftirlitið hefur staðfest breytinguna. Beiðni um staðfestingu á breytingum á samþykktum félags skal senda Vátryggingareftirlitinu innan eins mánaðar. Félagið skal senda dagsett eintak af samþykktunum í heild með þeim breytingum sem samþykktar hafa verið innan tveggja mánaða frá því að félaginu hefur verið tilkynnt um staðfestinguna.
     Ákvörðun um að taka upp nýja vátryggingargrein, eða að breyta starfsemi í verulegum atriðum, öðlast ekki gildi fyrr en hún hefur verið skráð í vátryggingarfélagaskrá.

22. gr.


    Ef tilkynningar til vátryggingarfélagaskrár fullnægja ekki fyrirmælum laga eða samþykkta félags, eða ákvarðanir eru ekki teknar á þann hátt sem fyrir er mælt í lögum eða samþykktum félags, skal synja um skráningu. Tilkynna skal skriflega um synjun og um ástæður hennar.
    Birta skal árlega í Lögbirtingablaði skrá um þau félög sem hafa fengið leyfi stjórnvalda hér á landi til að reka vátryggingarstarfsemi. Enn fremur skal birta þar tilkynningu um skráningu nýs félags í vátryggingarfélagaskrá, um yfirfærslu og yfirtöku vátryggingarstofna og tilkynningu um að vátryggingarfélag hafi verið máð úr vátryggingarfélagaskrá og ástæður þess.

23. gr.


    Óskráð vátryggingarfélag getur hvorki öðlast réttindi né tekið á sig skyldur. Það getur ekki heldur verið aðili í dómsmálum nema málum er varða áskrift hlutafjár, stofnfjár eða ábyrgðarfjár.
     Séu vátryggingarsamningar gerðir, þrátt fyrir ákvæði 11. gr., ábyrgjast þeir sem gert hafa vátryggingarsamningana fyrir hönd félagsins sameiginlega að halda gerða samninga eða eru samábyrgir um það. Viðurkenni félagið skuldbindingar þær, sem í samningunum felast innan fjögurra vikna frá skráningu félagsins, fellur ábyrgð viðkomandi niður nema talið verði að hagsmunir vátryggingartaka skerðist verulega ella. Samningar af þessu tagi eru ekki bindandi fyrir vátryggingartaka nema viðurkenning félagsins á skuldbindingunum liggi fyrir.
     Innritun félagsmanns í gagnkvæmt félag í samræmi við 2. mgr. 11. gr. er því aðeins bindandi að tilkynnt sé um félagið til vátryggingarfélagaskrár innan árs frá innritun. Sé félaginu neitað um skráningu fellur samningurinn úr gildi.
     Um aðra löggerninga, sem gerðir eru fyrir hönd vátryggingarfélags áður en það er skráð, gildir að þeir sem tekið hafa þátt í gerningum eða ákvörðunum bera óskipt ábyrgð á efndum. Við skráninguna tekur félag við þeim skyldum sem leiddi af stofnsamningi eða félag hefur tekið á sig eftir stofnfund.
     Ef gerður er löggerningur áður en félag er skráð og hinn samningsaðilinn vissi að félagið var ekki skráð getur hann, nema um annað sé samið, rift gerningnum svo fremi tilkynning til vátryggingarfélagaskrár sé ekki gerð innan þess frests er um ræðir í 18. gr. eða skráningar hafi verið synjað. Vissi viðsemjandinn ekki að félagið var óskráð getur hann rift löggerningnum meðan félagið er ekki skráð.

III. KAFLI


Fjárhagsgrundvöllur. Fjárhagsleg skilyrði.


24. gr.


    Gjaldþol vátryggingarfélags er heildareign þess að frádregnum nauðsynlegum afskriftum og niðurfærslum, óefnislegum eignum svo og hvers konar skuldum og skuldbindingum, þar með talin vátryggingarskuld. Til gjaldþols teljast eignir samsvarandi eftirtöldum efnahagsliðum:
    Innborgað hlutafé, stofnfé eða ábyrgðarfé.
    Helmingur óinnborgaðs hlutafjár, stofnfjár eða ábyrgðarfjár, enda nemi innborgað fé minnst 25% heildarfjárins.
    Sjóðir sem mæta eiga tapi en eru ekki skuldbindingar félags.
    Óráðstafaður hagnaður að frádregnu ójöfnuðu tapi.
    Helmingur framlaga sem eigendur gagnkvæmra vátryggingarfélaga hafa skuldbundið sig til að leggja fram en ekki greitt, enda nemi heildarframlög minna en 50% gjaldþols.
    Vátryggingareftirlitið getur heimilað að duldir sjóðir, sem ekki koma fram í efnahagsreikningi og myndast hafa vegna þess að eignir eru taldar undir raunvirði, verði taldir með til gjaldþols, enda megi reikna með að hinir duldu sjóðir séu af varanlegum toga.
     Ráðherra setur nánari reglur um gjaldþol vátryggingarfélaga, að fengnum tillögum Vátryggingareftirlitsins.

25. gr.


    Gjaldþol vátryggingarfélags skal á hverjum tíma nema tilteknu lágmarki sem miðast við þá vátryggingarstarfsemi sem félagið rekur eða hyggst reka og þá áhættu sem í henni felst. Ráðherra setur nánari reglur um hvernig lágmarksgjaldþol skuli reiknað, að fengnum tillögum Vátryggingareftirlitsins.
     Verði breytingar á högum félags þannig að ástæða sé til að ætla að gjaldþol sé lægra en tilskilið lágmarksgjaldþol í lok reikningsárs eða á öðrum tíma skulu þegar í stað gerðar ráðstafanir til úrbóta og gripið til viðeigandi aðgerða þegar þörf krefur, og í samræmi við ákvæði IX. kafla.

26. gr.


    Ábyrgðarsjóður vátryggingarfélags nemur þriðjungi reiknaðs lágmarksgjaldþols en þó eigi lægri fjárhæð en hér greinir í evrópskum reiknieiningum, ecu:


    Í líftryggingarfélagi      800.000
    Í félagi sem rekur ábyrgðartryggingar eða greiðslu- og efndavátryggingar aðrar
           en skv. 6. tölul.     
400.000

    Í félagi sem rekur skaðatryggingar aðrar en ábyrgðartryggingar      300.000
    Í félagi sem rekur persónutryggingar aðrar en líftryggingar      300.000
    Í félagi sem rekur réttaraðstoðarvátryggingar eða ýmsar eignatryggingar      200.000
    Í félagi sem rekur greiðsluvátryggingar og ársiðgjöld nema að lágmarki 2.500.000 ecu eða 4%
           heildariðgjalda     
1.400.000


Reki vátryggingarfélag fleiri en eina grein vátrygginga skal miða við þá fjárhæð sem hæst er skv. 1. mgr.
     Verði gjaldþol vátryggingarfélags á einhverjum tíma lægra en sem svarar ábyrgðarsjóði skal þegar í stað gripið til aðgerða til að rétta við hag þess, sbr. IX. kafla.
     Vátryggingareftirlitið getur heimilað að lágmarksgjaldþol gagnkvæms vátryggingarfélags og lágmark ábyrgðarsjóðs sé lægra en í vátryggingarhlutafélagi, að teknu tilliti til ábyrgðar vátryggingartaka samkvæmt samþykktum félagsins, sbr. 29. gr. Lágmarkið má þó aldrei vera lægra en þrír fjórðu hlutar tilskilins lágmarksgjaldþols eða ábyrgðarsjóðs vátryggingarhlutafélags.
     Við stofnun vátryggingarfélags og meðan félagið starfar á grundvelli framlagðrar áætlunar um starfsemina, sbr. 19. gr., skulu tilskilið lágmarksgjaldþol og fjárhæð ábyrgðarsjóðs ákveðin á grundvelli þeirrar áætlunar og endurskoðunar hennar ef forsendur áætlunarinnar breytast.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um fjárhæð ábyrgðarsjóðs í einstökum vátryggingargreinum.

27. gr.


    Vátryggingarskuldin skal metin þannig að hún samsvari heildarskuldbindingum vátryggingarfélags vegna gerðra vátryggingarsamninga og skal vátryggingarfélag sjá til þess að tilteknar eignir séu fyrir hendi hjá félaginu til jöfnunar vátryggingarskuldinni á hverjum tíma.
     Vátryggingarfélag skal halda skrá yfir þær eignir sem um ræðir í 1. mgr. og sjá til þess að nýjar eignir verði skráðar á reikningsárinu þegar breytingar eiga sér stað. Afrit skrárinnar, staðfest af löggiltum endurskoðanda, skal sent Vátryggingareftirlitinu með ársreikningi og á öðrum tíma ef talin er ástæða til.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari reglur um þær eignir, sem telja má til jöfnunar vátryggingarskuld félags, um tegund þeirra og samsetningu.

28. gr.


    Vátryggingarhlutafélag má sjálft aldrei eiga meira en 10% hlutafjárins. Atkvæðisréttur fylgir ekki hlutabréfum sem vátryggingarhlutafélag á sjálft.
     Gagnkvæmt vátryggingarfélag má ekki afla eigin ábyrgðarhluta til eignar eða að veði gegn greiðslu. Dótturfélag slíks félags má ekki afla ábyrgðarhluta í móðurfélaginu til eignar eða að veði gegn greiðslu.
     Megi greiða nýja hluti með skuldajöfnuði eða á annan hátt en með reiðufé við hækkun áhættufjár skulu reglur þar að lútandi koma fram í ákvörðun félagsfundar um hækkunina og gilda ákvæði 15. gr. eftir því sem við getur átt. Ákvörðun um að innborgun nýrra hluta geti farið fram með skuldajöfnuði skal hljóta samþykki Vátryggingareftirlitsins.
     Allar ákvarðanir um lækkun áhættufjár í vátryggingarfélagi skulu háðar samþykki Vátryggingareftirlitsins. Stofnfé gagnkvæms vátryggingarfélags má ekki lækka eða endurgreiða nema samþykki eftirlitsins liggi fyrir.
     Í gagnkvæmum vátryggingarfélögum og félögum, sem starfa samkvæmt sérlögum, skal halda bók um ábyrgðarhluti. Ábyrgðarhlutirnir skulu skráðir í bókina með upplýsingum um nafn og heimilisfang ábyrgðarmanns. Ábyrgðarhluturinn skal hafa áritun félagsins um skrásetninguna.

29. gr.


    Hver sá sem vátryggir hjá gagnkvæmu vátryggingarfélagi er sameigandi þess. Settar skulu reglur um ábyrgð vátryggingartaka á skuldbindingum félagsins í samþykktum þess.
     Undanþiggja má vátryggingarfélag, sem endurtryggir hjá gagnkvæmu félagi, slíkri ábyrgð samkvæmt heimild í samþykktum félagsins. Endurtryggingariðgjöld, sem undanþegin eru, mega ekki nema meira en 10% af heildariðgjöldum félagsins án samþykkis Vátryggingareftirlitsins.
     Ábyrgð vátryggingartaka skal miða við almanaksár og fellur hún niður, miðað við hver áramót, ef eigi er krafa gerð á hendur vátryggingartaka innan tveggja ára frá lokum þess almanaksárs er vátrygging féll úr gildi.
    Einungis skiptastjóri þrotabús eða skilastjórn gagnkvæms vátryggingarfélags geta krafið vátryggingartaka um greiðslu samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum þeirra en ekki einstakir kröfuhafar félagsins. Vátryggingareftirlitið getur heimilað stjórn gagnkvæms vátryggingarfélags að krefja vátryggingartaka um slíka greiðslu, enda sé slíks þörf til þess að félagið geti staðið við skuldbindingar sínar. Slíka heimild má þó einungis veita til eins árs í senn.
     Ákvæði laga um einstök vátryggingarfélög varðandi ábyrgð félagsmanna og vátryggingartaka halda gildi sínu þrátt fyrir ákvæði þessara laga.
     Á hverju vátryggingarskírteini, sem gagnkvæmt vátryggingarfélag gefur út, skal koma skýrt fram hvernig ábyrgð vátryggingartaka er háttað. Ákvæði þetta gildir einnig um þau vátryggingarfélög sem starfa samkvæmt sérlögum.

IV. KAFLI


Stjórn. Endurskoðun og reikningsskil.


30. gr.


    Stjórn vátryggingarfélags skal kjörin á aðalfundi samkvæmt ákvæðum samþykkta félagsins og skal skipuð þremur mönnum hið fæsta. Stjórnin hefur almennt eftirlit með því að starfsemi félagsins fari að lögum og samþykktum, þar á meðal eftirlit með bókhaldi og ráðstöfun fjármuna félagsins. Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera búsettir hér á landi, hafa náð tuttugu ára aldri, hafa óflekkað mannorð og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um búsetu hér á landi.
     Stjórnin boðar til aðalfunda. Sé ekki boðað til aðalfundar sem halda skal í samræmi við lög, samþykktir eða ákvörðun aðalfundar boðar Vátryggingareftirlitið til hans að kröfu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra, endurskoðanda eða aðila sem atkvæðisbær er á aðalfundi. Vátryggingareftirlitið tilnefnir fundarstjóra og skal stjórnin afhenda honum skrá yfir þá sem atkvæðisbærir eru, gerðabók aðalfunda og endurskoðunarbók. Félagið greiðir kostnað við aðalfundinn.
     Fái stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar þóknun eða aðrar tekjur af vátryggingum, sem félagið yfirtekur eða lætur af hendi, vegna þátttöku í umboðs- eða miðlunarstarfsemi eða vegna fjárhagslegra hagsmuna í slíkri starfsemi, skal Vátryggingareftirlitinu send tilkynning þar að lútandi.
     Stjórn móðurfélags ber að tilkynna Vátryggingareftirliti þegar mynduð er samstæða eða vátryggingarfélag öðlast meiri hluta eða virk yfirráð í öðru félagi.
     Stjórn og framkvæmdastjórn skulu án tafar gera Vátryggingareftirliti viðvart hafi þeir vitneskju um málefni sem hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins.

31. gr.


    Ársreikningur vátryggingarfélags skal gerður í því formi sem ráðherra ákveður með reglugerð. Innan mánaðar frá aðalfundi, en þó eigi síðar en 6 mánuðum eftir lok hvers reikningsárs, skal félagið senda Vátryggingareftirlitinu ársreikning ásamt þeim gögnum sem það óskar um starfsemina. Vátryggingareftirlitið skal birta meginniðurstöður ársreikninga í Lögbirtingablaði.
     Ef ársreikningur vátryggingarfélags er ekki í samræmi við lög og reglugerðir eða samþykktir félags getur Vátryggingareftirlitið krafist breytinga á reikningnum og að hann verði tekinn á ný til umfjöllunar á félagsfundi. Skal Vátryggingareftirlitið þá setja félaginu hæfilegan frest.

32. gr.


    Aðalfundur kýs endurskoðendur í samræmi við samþykktir félags og skal að minnsta kosti einn vera löggiltur. Sé vátryggingarfélagið hluti samstæðu skal löggiltur endurskoðandi vera sameiginlegur fyrir samstæðuna í heild. Ef um er að ræða félag af því tagi sem getið er í 2. mgr. 7. gr. getur Vátryggingareftirlitið gert kröfu um að a.m.k. einn löggiltur endurskoðandi sé sameiginlegur fyrir öll félögin.
     Endurskoðendur félags eiga rétt á að sitja stjórnar- og félagsfundi í vátryggingarfélagi og er skylt að mæta á aðalfundi, æski stjórn eða atkvæðisbær maður þess.
     Endurskoðendum vátryggingarfélags er skylt að veita Vátryggingareftirlitinu þær upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður endurskoðunar er það óskar og um öll þau atriði er skipta máli við mat á stöðu félags, rekstri þess og efnahag.
     Birti félag eða samstæða félaga ársreikninga opinberlega skal form og orðalag vera í samræmi við hina árituðu og endurskoðuðu ársreikninga og með áritun löggilts endurskoðanda. Ef ársreikningar eru birtir opinberlega í styttri útgáfu skal auk upplýsinga um fyrirvara við undirritun, ef einhverjir eru, einnig koma fram að um stytta útgáfu sé að ræða.

33. gr.


    Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og óbundnu fé, eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað, svo og það fé sem samkvæmt lögum og samþykktum skal lagt í sérstaka sjóði, enda sé ljóst að félagið uppfylli kröfur um tilskilið lágmark eigin fjár, þess hafi verið gætt að leggja til hliðar nægilegt fé fyrir vátryggingarskuld félagsins, svo og að settum reglum um mat á eignum félagsins og fyrningu þeirra hafi verið fylgt.

34. gr.


    Stjórn vátryggingarfélags skal sjá til þess að félagið hafi yfir að ráða nægilegri sérþekkingu til þess að meta og reikna út vátryggingarskuld félagsins og til að sjá um tryggingatæknilega útreikninga og athuganir fyrir félagið. Skal félagið tryggja sér þjónustu tryggingastærðfræðings eða sérfræðings með sambærilega menntun, sem Vátryggingareftirlitið viðurkennir, til að annast slíka útreikninga og athuganir. Tilkynningu þess efnis til Vátryggingareftirlitsins skulu fylgja þau gögn er eftirlitið óskar. Samþykki Vátryggingareftirlitið ekki tryggingastærðfræðing eða sérfræðing sem félag hefur mælt með skal eftirlitið gera félaginu grein fyrir ástæðum þess.
     Vátryggingareftirlitið getur veitt vátryggingarfélagi undanþágu frá skyldunni að ráða tryggingastærðfræðing skv. 1. mgr. sé starfsemi félags takmörkuð eða þess eðlis að ekki sé talin þörf á sérstökum sérfræðilegum athugunum, m.a. til að meta vátryggingarskuldina.

35. gr.


    Tryggingastærðfræðingur vátryggingarfélags skal fylgjast með og meta reiknigrundvöll iðgjalda og gera þær athuganir varðandi mat á tjónareynslu og vátryggingarskuld sem hann telur nauðsynlegar á hverjum tíma með tilliti til þeirrar áhættu sem félagið ber og gildandi reglna um gjaldþol og greiðsluþol vátryggingarfélaga.
    Tryggingastærðfræðingur líftryggingarfélags skal fylgjast með því að farið sé eftir reiknigrundvelli iðgjalda, iðgjaldasjóðs og ágóðaúthlutunar og að fylgt sé settum reglum um ákvörðun endurkaupsverðs og fjárhæða gjaldfrjálsra líftrygginga.
     Tryggingastærðfræðingur félags getur krafist allra gagna og upplýsinga af félaginu til að hann geti innt starf sitt af hendi. Hann getur krafist þess að stjórnin sé kölluð saman og hefur að jafnaði rétt til þess að vera viðstaddur og tjá sig á fundum stjórnarinnar. Sé hann ekki sammála ákvörðun stjórnar hefur hann rétt til að láta skrá álit sitt í gerðabók félagsins.
     Komist tryggingastærðfræðingur að því í starfi sínu að félagið fari ekki eftir settum reglum varðandi framangreind atriði skal hann tafarlaust tilkynna það Vátryggingareftirliti. Vátryggingareftirlitið getur krafið tryggingastærðfræðing vátryggingarfélags um þær upplýsingar sem því þykir þurfa við eftirlit með iðgjaldagrundvelli, mati á tjónareynslu, vátryggingarskuld og fjárhagsstöðu vátryggingarfélags.

V. KAFLI


Stjórnsýsla. Eftirlit.


36. gr.


    Ráðherra vátryggingarmála fer með yfirstjórn þeirra málefna sem falla undir lög þessi.
     Sérstök stofnun, Vátryggingareftirlitið, annast stjórnsýslu og eftirlit með þeirri starfsemi sem lögin taka til í umboði ráðherra.

37. gr.


    Ráðherra skipar þriggja manna stjórn Vátryggingareftirlitsins til fjögurra ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra tryggingafélaga og einn án tilnefningar, og skal sá vera formaður stjórnar.
     Stjórn Vátryggingareftirlitsins skal fylgjast með því að starfsemin sé í samræmi við lög. Stjórnin skal í samráði við forstöðumann Vátryggingareftirlitsins móta stefnu stofnunarinnar og fjalla um öll hin mikilvægari mál hennar, þar á meðal að ganga frá starfs- og fjárhagsáætlun fyrir eitt ár í senn. Ráðherra ákveður þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra.
     Ráðherra skipar forstöðumann Vátryggingareftirlitsins til sex ára í senn að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri Vátryggingareftirlitsins og ræður aðra starfsmenn þess.
     Starfsmenn Vátryggingareftirlitsins mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn vátryggingarfélags eða annars félags sem er undir eftirliti þess. Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slík félög eða samtök þeirra.
     Stjórnendur Vátryggingareftirlitsins mega ekki vera stjórnarmenn, starfsmenn eða í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við einstök vátryggingarfélög eða önnur félög sem eru undir eftirliti þess.
     Stjórn og starfsmenn Vátryggingareftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu um viðskipti og rekstur vátryggingarfélags og starfsemi sem lög þessi ná til. Þagnarskylda helst þótt stjórnarmenn og starfsmenn láti af störfum.
     Vátryggingareftirlitið má veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja upplýsingar sé það liður í samstarfi ríkjanna um eftirlit með vátryggingarstarfsemi og slík upplýsingagjöf sé nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti með henni. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi landi. Sama gildir um upplýsingar sem Vátryggingareftirlitið fær frá eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja.
     Ráðherra setur nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Vátryggingareftirlitsins með reglugerð.

38. gr.


    Vátryggingareftirlitið kannar þá þætti vátryggingarstarfseminnar sem lög þessi ná til og það telur ástæðu til. Vátryggingarfélög skulu veita Vátryggingareftirlitinu þær upplýsingar sem það telur nauðsynlegar í þessu skyni án tafar. Vátryggingareftirlitið getur með sama hætti aflað gagna og gert kannanir hjá félögum sem beint eða óbeint tengjast vátryggingarfélögum vegna hliðarstarfsemi, sbr. 7. gr., að því marki sem nauðsyn krefur.
     Vanræki vátryggingarfélag að láta í té þau gögn sem krafist er skv. 1. mgr. eða geri ekki þær ráðstafanir sem Vátryggingareftirlitið telur nauðsynlegar í framhaldi slíkra kannana innan þess frests sem settur er skal Vátryggingareftirlitið tilkynna ráðherra um málið og gera tillögur um hvað gera skuli. Áður en ráðherra er tilkynnt um málið skal vátryggingarfélagið þó upplýst um að slík tilkynning verði send og hvenær.

39. gr.


    Vátryggingareftirlitið skal a.m.k. árlega kanna gjaldhæfi og greiðsluhæfi vátryggingarfélaga á grundvelli ársreiknings fyrir sl. reikningsár og annarra gagna og upplýsinga um starfsemina sem nauðsynleg eru til að slík könnun geti farið fram. Vátryggingareftirlitið leggur mat á það að lokinni könnun hvort það telur gjaldhæfi og greiðsluhæfi fullnægjandi og tilkynnir félaginu hafi það athugasemdir fram að færa. Sé nauðsynlegt að grípa til ráðstafana vegna þessa eiga ákvæði IX. kafla við.
     Vátryggingareftirlitið leggur árlega mat á vátryggingarskuld vátryggingarfélaga til að tryggt verði að nægilegt fé sé á hverjum tíma lagt til hliðar til að mæta henni, þar á meðal að tekið sé á fullnægjandi hátt tillit til óvissu í mati með nauðsynlegu álagi. Vátryggingarfélög skulu í gögnum til Vátryggingareftirlitsins með ársreikningi gera grein fyrir því hvernig vátryggingarskuldin er ákveðin. Vátryggingareftirlitið getur sett sérstakar almennar reglur um mat á vátryggingarskuldinni og hvaða gögn skuli fylgja í því sambandi auk ársreiknings.
     Vátryggingareftirlitið kannar vátryggingarskilmála vátryggingarfélaga og gætir þess að þeir séu í samræmi við lög og góða viðskiptaháttu í vátryggingum. Telji Vátryggingareftirlitið að svo sé ekki, eða ekki sé með nægilega skýrum hætti gerð grein fyrir innihaldi þeirra, skal eftirlitið gera kröfu um að slíkum ákvæðum verði breytt eða þau verði afnumin. Jafnan skal leita samþykkis Vátryggingareftirlitsins á vátryggingarskilmálum lögboðinna vátrygginga. Skilmálar vátrygginga sem boðnir eru hér á landi skulu vera á íslensku.
     Vátryggingareftirlitið kannar iðgjaldagrundvöll vátryggingargreina með það fyrir augum að gætt sé samræmis milli iðgjalda annars vegar og áhættu og kostnaðar við rekstur félags hins vegar, og í því skyni að tryggt verði að vátryggingarfélag geti staðið við skuldbindingar sínar og fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru um fjárhagsstyrk þeirra. Telji Vátryggingareftirlitið að svo sé ekki eða að iðgjöld vátrygginga, sem boðin eru, séu ósanngjörn í garð vátryggingartaka, skal eftirlitið gera athugasemd og rökstyðja kröfur sínar um breytingar.
     Vátryggingareftirlitið hefur eftirlit með viðskiptaháttum vátryggingarfélaga sem reka vátryggingarstarfsemi eða bjóða vátryggingar hér á landi, sölustarfsemi þeirra og tjónsuppgjöri. Vátryggingareftirlitið skal gera þær kannanir sem það telur nauðsynlegar í þessu efni hjá vátryggingarfélögum. Við eftirlitið skal starfrækt neytendamáladeild. Vátryggingareftirlitið skal setja almennar reglur um starfsemi deildarinnar og kynna þær vátryggingarfélögunum.
     Vátryggingareftirlitið skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni skal og greint frá þróun vátryggingarstarfseminnar og um afkomu einstakra vátryggingargreina.

40. gr.


    Vátryggingarfélög, sem leyfi hafa til vátryggingarstarfsemi hér á landi svo og þeir sem leyfi hafa til miðlunar- og umboðsstarfsemi, sbr. VII. kafla, greiða allan kostnað af starfsemi Vátryggingareftirlitsins. Fyrir 1. desember ár hvert skal Vátryggingareftirlitið áætla kostnað við starfsemi sína næsta ár og jafna niður á þessa aðila.
     Kostnaði, sem jafnað er árlega á vátryggingarfélögin, skal jafna í hlutfalli við bókfærð iðgjöld þeirra samkvæmt ársreikningi viðkomandi reikningsárs. Gera má vátryggingarfélagi að greiða allt að 0,33% af bókfærðum frumtryggingariðgjöldum og 0,04% af bókfærðum fengnum endurtryggingariðgjöldum, sbr. þó 5. mgr. Eftirlitsgjald erlendra vátryggingarfélaga með atvinnustöð hérlendis og félaga sem hafa heimild til að veita hér þjónustu án atvinnustöðvar reiknast á sama hátt af bókfærðum iðgjöldum vegna seldra vátrygginga hérlendis.
     Vátryggingareftirlitið skal áætla bókfærð iðgjöld vátryggingarfélaga á yfirstandandi reikningsári á grundvelli seinasta ársreiknings þeirra, verðlagsbreytinga og almennra breytinga á markaðnum. Bókfærð iðgjöld, þannig áætluð, mynda álagningarstofn eftirlitsgjalds til bráðabirgða sem Vátryggingareftirlitið innheimtir ársfjórðungslega fyrir fram á næsta ári. Þegar ársreikningur vátryggingarfélags vegna reikningsársins liggur endanlega fyrir skal Vátryggingareftirlitið, eins fljótt og unnt er, endurreikna eftirlitsgjaldið miðað við sama álagningarhlutfall og leiðrétta álagt gjald félags til hækkunar eða lækkunar í þeim ársfjórðungum sem eftir eru á árinu. Þegar reikningsskil Vátryggingareftirlitsins liggja fyrir um heildarkostnað við starfsemi þess á rekstrarárinu skal eftirlitið, eins fljótt og auðið er, reikna út eftirstöðvar eða inneign félaga og senda tilkynningu um endanlegt eftirlitsgjald með innheimtutilkynningu næsta ársfjórðungs á eftir. Skal greiðsla, á hvorn veginn sem er, innt af hendi með eftirlitsgjaldi þess ársfjórðungs.
     Vátryggingareftirlitið skal ákveða gjald það sem lagt er á þá sem leyfi hafa til umboðs- og miðlunarstarfsemi skv. VII. kafla í samræmi við þær reglur sem ráðherra setur.
     Vátryggingareftirlitið getur gert vátryggingarfélagi að greiða sérstaklega samkvæmt reikningi kostnað vegna sérstakra kannana sem Vátryggingareftirlitið telur nauðsynlegt að framkvæma vegna eftirlits með starfsemi á þess vegum og eðlilegt telst að ekki verði jafnað á öll vátryggingarfélögin.
     Áætlun Vátryggingareftirlitsins skv. 2. og 4. mgr. skal send ráðherra vátryggingarmála til staðfestingar. Þeir sem gjald er lagt á, og samtök þeirra, eiga rétt á upplýsingum hjá Vátryggingareftirlitinu um það hvernig eftirlitsgjaldið er ákveðið og um þær áætlanir sem lagðar eru til grundvallar útreikningi þess.

VI. KAFLI


Starfsemi erlendra vátryggingarfélaga hér á landi.


1. Félög með aðalstöðvar á Evrópsku efnahagssvæði.


41. gr.


    Erlend vátryggingarfélög með aðalstöðvar á Evrópsku efnahagssvæði geta fengið leyfi til að reka vátryggingarstarfsemi hér á landi samkvæmt lögum þessum.
     Veita má hinu erlenda félagi leyfi til að starfrækja hér dótturfélag, útibú eða umboð. Einnig má heimila starfsemi atvinnustöðvar á öðru formi sem rekin er í nafni félagsins, enda sé starfsemin skráð hér á landi, félagið hafi hér sérstakan fulltrúa er komi fram fyrir hönd félagsins í málefnum er varða starfsemina hér og hann hafi heimild til að skuldbinda félagið vegna hennar, sbr. þó 43. gr.
     Vátryggingarfélag, hlutafélag, samvinnufélag eða sameignarfélag hér á landi getur haft með höndum starfsemi fyrir erlent vátryggingarfélag, enda sé hið erlenda félag skráð hér á landi og hafi hér sérstakan fulltrúa, sbr. 2. mgr.

42. gr.


    Erlent vátryggingarfélag með aðalstöðvar á Evrópsku efnahagssvæði, sem hyggst reka vátryggingarstarfsemi hér á landi er telst fjöláhætta, sbr. 10. gr., skal senda Vátryggingareftirlitinu umsókn um starfsleyfi og um skráningu í vátryggingarfélagaskrá í samræmi við ákvæði 2. mgr. 18. gr. og 21. gr. eftir því sem við á. Einnig skal áætlun um starfsemina fylgja í samræmi við 19. gr. Vátryggingareftirlitið metur umsókn félagsins, sbr. 20. gr., og skulu félaginu tilkynntar niðurstöður innan sex mánaða frá því að öll tilskilin gögn hafa borist.
     Félagið skal tilkynna til vátryggingarfélagaskrár allar breytingar á þeim atriðum sem kveðið er á um í 21. gr., þar á meðal breytingar á samþykktum félagsins er varða starfsemi þess hér á landi, og skulu gögn er, sanni samþykkt þeirra og lögmæti, fylgja. Sé gerð ný áætlun skv. 19. gr. skal hún einnig send Vátryggingareftirlitinu.
     Framangreind gögn skal senda Vátryggingareftirlitinu á íslensku í þýðingu löggilts skjalaþýðanda nema Vátryggingareftirlitið heimili annað.

43. gr.


    Heimila má erlendum vátryggingarfélögum með aðalstöðvar á Evrópsku efnahagssvæði að veita þjónustu hér á landi án sérstakrar atvinnustöðvar í vátryggingargreinum sem teljast til stóráhættu og í líftryggingum sem teknar eru að eigin frumkvæði líftryggingartaka, sbr. 10. gr. Félag skal tilkynna eftirlitsstjórnvöldum heimaríkis í hvaða vátryggingargreinum það hyggst veita slíka þjónustu hér á landi. Eftirlitsstjórnvöld skulu láta Vátryggingareftirlitinu í té vottorð um að félagið uppfylli skilyrði III. kafla um gjaldþol og ábyrgðarsjóð varðandi starfsemi þess í heild, um þær vátryggingargreinar sem félagið hefur starfsleyfi fyrir og í hvaða greinum það hyggst veita þjónustu hér á landi, svo og vottorð um að eftirlitsstjórnvöld heimaríkis geri ekki athugasemdir við að það veiti slíka þjónustu erlendis.
     Félag, sem veitir þjónustu skv. 1. mgr. í lögboðnum ábyrgðartryggingum ökutækja, skal vera aðili að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf. og láta Vátryggingareftirlitinu í té skriflega staðfestingu þess efnis. Félagið skal lúta reglum sem hér gilda um uppgjör og greiðslu bóta af völdum óþekktra og óvátryggðra ökutækja og skal tilnefna sérstakan fulltrúa sinn með aðsetri á Íslandi til að annast fyrir hönd félagsins tjónsuppgjör vegna skuldbindinga félagsins hér á landi í ábyrgðartryggingum ökutækja. Honum skal einnig skylt að veita lögbærum aðilum hér á landi upplýsingar um, hvort ábyrgðartrygging sé fyrir hendi og um gildistíma. Nafn og heimilisfang fulltrúans skal tilkynnt Vátryggingareftirlitinu og til vátryggingarfélagaskrár.
     Félagið má hefja starfsemi hér á landi þegar Vátryggingareftirlitið hefur fengið í hendur öll gögn skv. 1. og 2. mgr. og staðfesting þess liggur fyrir.
     Samtryggingar á Evrópsku efnahagssvæði skulu háðar sömu skilyrðum um starfsleyfi og starfsemi og þjónusta í greinum sem teljast til stóráhættu.

44. gr.


    Erlent vátryggingarfélag, sem starfsleyfi hefur hér á landi skv. 42. gr., skal gefa greinilega til kynna nafn sitt og aðsetur svo og aðalstöðva félagsins í öllum gögnum sem frá félaginu fara til almennings. Öll bindandi tilboð og vátryggingarsamningar af hálfu félags, sem hér starfar skv. 42. eða 43. gr., skulu hafa að geyma upplýsingar um nafn og aðsetur þess félags sem ber áhættuna og aðalstöðvar þess. Ávallt skal upplýsa vátryggingartaka um þessi atriði áður en hann er skuldbundinn samkvæmt tilboði eða vátryggingarsamningi, hvort sem um er að ræða vátryggingar sem teljast stóráhætta eða fjöláhætta.

45. gr.


    Erlent vátryggingarfélag, sem hér rekur starfsemi skv. 42., skal uppfylla skilyrði laga þessara um gjaldþol og ábyrgðarsjóð í samræmi við starfsemi þess hér, sbr. 24.–26. gr., og skulu fjármunir a.m.k. samsvarandi ábyrgðarsjóði vera til ráðstöfunar hér á landi.
     Erlent vátryggingarfélag, sem hér rekur starfsemi skv. 42., skal ávaxta á Íslandi fjármuni er samsvara vátryggingarskuld þess vegna starfseminnar hér á landi og í samræmi við útreiknings- og matsreglur er hér gilda, sbr. 27. gr. Sama gildir þegar erlent félag veitir þjónustu hér á landi skv. 43. gr. í ábyrgðartryggingum ökutækja.
     Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða gögn skuli send Vátryggingareftirlitinu um starfsemi og þjónustu erlends vátryggingarfélags hér á landi.

46. gr.


    Vátryggingareftirlitið getur heimilað erlendu vátryggingarfélagi, sem rekur starfsemi hér á landi skv. 42. gr., að flytja vátryggingarstofn sinn að nokkru eða öllu leyti til annars félags, sem hefur aðsetur á Evrópsku efnahagssvæði, í samræmi við ákvæði VIII. kafla, að því tilskildu að eftirlitsstjórnvöld heimaríkis hins síðarnefnda hafi staðfest að félagið uppfylli tilskildar kröfur um gjaldþol og ábyrgðarsjóð að lokinni yfirtöku stofnsins.
     Veiti erlent vátryggingarfélag hér þjónustu skv. 43. gr. og óski það eftir að flytja vátryggingarstofn sinn hér á landi til annars félags með aðsetur á Evrópsku efnahagssvæði geta eftirlitsstjórnvöld heimaríkis hins fyrrnefnda heimilað flutning stofnsins að fenginni staðfestingu eftirlitsstjórnvalda heimaríkis hins síðarnefnda um að tilskildar kröfur um gjaldþol séu uppfylltar að lokinni yfirtöku stofnsins og að fengnu samþykki Vátryggingareftirlitsins. Ákvæði 2. mgr. 60. gr. gilda um tilkynningar í Lögbirtingablað hér á landi og til vátryggingartaka.
     Um réttindi og skyldur vátryggingartaka, vátryggðra og annarra samkvæmt vátryggingarsamningum fer skv. 4. mgr. 60. gr.

47. gr.


    Ákvæði laga þessara eiga við um eftirlit með starfsemi og þjónustu erlends vátryggingarfélags hér á landi skv. 42. og 43. gr. svo og ákvæði um afturköllun starfsleyfis, sbr. 3. mgr. Áður en starfsleyfi félags er afturkallað skal Vátryggingareftirlitið hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis um málið. Telji Vátryggingareftirlitið nauðsynlegt að félagið hætti starfsemi áður en þeirri umfjöllun er lokið skal Vátryggingareftirlitið þegar í stað tilkynna með rökstuddum hætti álit sitt til eftirlitsstjórnvalda heimaríkis.
     Vátryggingareftirlitið skal veita eftirlitsstjórnvöldum heimaríkis erlends félags, sem hér rekur vátryggingarstarfsemi, allar nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina til að þau geti lagt heildarmat á gjaldþol hins erlenda félags.
     Brjóti erlent vátryggingarfélag, sem hér veitir þjónustu skv. 43. gr., ákvæði laga og reglugerða um vátryggingarstarfsemi skal Vátryggingareftirlitið gera kröfu um að ráðstafanir til úrbóta verði gerðar án tafar. Sinni félagið ekki kröfum Vátryggingareftirlitsins skal eftirlitsstjórnvöldum heimaríkis, eða eftir atvikum þess ríkis þar sem félagið hefur aðsetur, gert viðvart. Þau skulu gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta og tilkynna Vátryggingareftirlitinu hverjar þær eru. Geri eftirlitsstjórnvöld ekki nauðsynlegar ráðstafanir eða reynist þær ófullnægjandi getur Vátryggingareftirlitið gripið til viðeigandi ráðstafana eftir að hafa tilkynnt hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöldum um málið, þar á meðal, ef nauðsyn ber til, lagt bann við því að félagið veiti frekari þjónustu hér á landi.

2. Félög með aðalstöðvar utan Evrópsks efnahagssvæðis.


48. gr.


    Erlend vátryggingarfélög með aðalstöðvar utan Evrópsks efnahagssvæðis, sem leyfi hafa til að reka vátryggingarstarfsemi í heimalandi sínu, geta fengið leyfi til að reka slíka starfsemi á Íslandi í samræmi við lög þessi enda hafi íslensk vátryggingarfélög ekki lakari rétt í heimalandi þeirra.
     Félagið skal skráð hér á landi, hafa hér fasta atvinnustöð (aðalumboð) og aðalumboðsmann sem kemur fram fyrir þess hönd í málefnum er varða starfsemina og hefur heimild til að skuldbinda félagið vegna starfsemi þess á Íslandi. Aðalumboðsmaður skal vera einn hér á landi. Hann skal vera búsettur hér á landi, hafa náð tuttugu ára aldri, hafa óflekkað mannorð og má aldrei hafa verið sviptur forræði á búi sínu.
     Vátryggingarfélag, hlutafélag, samvinnufélag eða sameignarfélag hér á landi getur haft með höndum aðalumboð, enda tilkynni sá aðili sérstakan fulltrúa til Vátryggingareftirlitsins sem kemur fram fyrir hönd félagsins í málefnum er varða vátryggingarstarfsemi þess hér á landi.
     Ákvæði 44. gr. eiga við um alla starfsemi hins erlenda félags hér á landi. Félagið skal hafa varnarþing hér á landi að því er varðar starfsemi þess hér og má lögsækja það fyrir dómstólum á Íslandi til fullnustu á kröfum sem stofnast hafa vegna starfseminnar.

49. gr.


    Erlent vátryggingarfélag með aðsetur utan Evrópsks efnahagssvæðis, sem hyggst koma á fót fastri atvinnustöð hér á landi og reka vátryggingarstarfsemi, skal senda Vátryggingareftirlitinu umsókn um starfsleyfi og um skráningu í vátryggingarfélagaskrá og láta fylgja gögn sem kveðið er á um í 42. gr.
     Félagið skal uppfylla skilyrði 24.–26. gr. um gjaldþol og ábyrgðarsjóð er miðast við starfsemi þess hér og skulu fjármunir, sem því svarar, vera til ráðstöfunar hér á landi. Fjárhæð samsvarandi fjórðungi þess lágmarks, sem krafist er, skal lögð fram sem geymslufé í upphafi og varðveitt á stað sem Vátryggingareftirlitið samþykkir. Geymsluféð skal einungis notað til að tryggja að félagið geti staðið við skuldbindingar sínar vegna gerðra vátryggingarsamninga hér á landi. Einstakir vátryggðir geta ekki gert kröfu um fullnustu greiðslu nema að því marki sem það að mati Vátryggingareftirlitsins skerðir ekki rétt annarra vátryggðra til fullnustu á vátryggingarskuldbindingum félagsins.
     Félagið skal ávaxta á Íslandi fjármuni er samsvara vátryggingarskuld þess vegna starfseminnar hér eins og þær eru samkvæmt útreiknings- og matsreglum er gilda hér á landi. Enn fremur skal fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

50. gr.


    Aðalumboðsmaður skal senda Vátryggingareftirlitinu ársreikning hins erlenda félags, svo og ársreikning vegna starfseminnar hér á landi, eigi síðar en mánuði eftir að þeir hafa verið samþykktir ásamt ársskýrslu með undirritun stjórnar og áritun endurskoðanda, þó eigi síðar en 6 mánuðum eftir lok hvers reikningsárs. Tilskilin gögn samkvæmt reglum sem ráðherra setur, sbr. 31. gr., skulu fylgja, þar á meðal gögn skv. 27. gr. um þær eignir sem koma eiga á móti vátryggingarskuldinni.
     Aðalumboðsmaður skal án tafar tilkynna Vátryggingareftirlitinu skriflega geri eftirlitsstjórnvöld í heimalandi félagsins athugasemd við starfsemi þess, hafi greiðslustöðvun verið ákveðin, ákvörðun verið tekin um að slíta félaginu eða bú þess tekið til gjaldþrotaskipta.

51. gr.


    Brjóti félagið lög og reglugerðir um vátryggingarstarfsemi eða vanræki skyldur sínar samkvæmt þeim þannig að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé stefnt í hættu skal Vátryggingareftirlitið veita félaginu tiltekinn frest til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta. Hafi fullnægjandi ráðstafanir ekki verið gerðar innan þess frests og telji Vátryggingareftirlitið að hagsmunir vátryggingartaka og vátryggðra séu í hættu getur eftirlitið útnefnt nýjan aðalumboðsmann til að ljúka viðskiptum og uppgjöri vegna starfseminnar hér á landi. Hefur hann í því skyni leyfi til ráðstöfunar á eignum félagsins hér á landi að því marki er Vátryggingareftirlitið heimilar.
     Vátryggingareftirlitið getur heimilað að vátryggingarstofn félagsins eða hluti hans verði fluttur til vátryggingarfélags sem leyfi hefur til að reka hliðstæða vátryggingarstarfsemi hér á landi og gilda ákvæði 60. gr. um flutninginn.

52. gr.


    Ráðherra getur að fenginni tillögu Vátryggingareftirlitsins afturkallað starfsleyfi félagsins uppfylli félagið ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.
     Þegar starfsleyfi félags er afturkallað tekur Vátryggingareftirlitið ákvörðun um hvort þess skuli freistað að yfirfæra vátryggingarstofninn til eins eða fleiri vátryggingarfélaga sem reka vátryggingarstarfsemi hér á landi, eða hvort félagið skuli á annan hátt reyna að ljúka skuldbindingum sínum vegna vátryggingarsamninga sem gerðir hafa verið. Þegar rekin er líftryggingarstarfsemi getur Vátryggingareftirlitið ákveðið að líftryggingarstofninum verði komið undir sérstaka stjórn, sbr. 68. gr.
     Við afturköllun á starfsleyfi félags getur Vátryggingareftirlitið takmarkað eða bannað félaginu yfirráð yfir fjármunum sínum og eignum.

53. gr.


    Félagið skal máð úr vátryggingarfélagaskrá missi það starfsleyfi skv. 52. gr., enda sé viðskiptum þess og uppgjöri skuldbindinga hér á landi að fullu lokið.
     Tilkynni félag að það óski eftir að hætta starfsemi hér á landi og að atvinnustöð þess verði máð úr vátryggingarfélagaskrá skal það því aðeins gert að Vátryggingareftirlitið álíti að atvinnustöðin þurfi ekki að starfa áfram vegna skuldbindinga sem á henni hvíla. Sama gildir sé atvinnustöðin án aðalumboðsmanns og enginn hafi verið útnefndur innan frests sem Vátryggingareftirlitið hefur sett. Getur eftirlitið þá útnefnt aðalumboðsmann í samræmi við ákvæði 51. gr.
     Leysa má geymslufé, sem lagt er til hliðar skv. 49. gr., þá fyrst er starfsleyfi félagsins hefur verið afturkallað og félagið getur sannað að staðið hafi verið við allar skuldbindingar félagsins hér á landi eða nógu há trygging fyrir skuldbindingum hafi að mati Vátryggingareftirlitsins verið lögð fram.

VII. KAFLI


Miðlun. Umboð. Sala vátrygginga.


54. gr.


    Enginn má í atvinnuskyni stuðla að því að aðilar hér á landi, íslensk skip eða eignir á Íslandi sé frumtryggt annars staðar en hjá vátryggingarfélögum sem hér hafa starfsleyfi. Starfsleyfi vátryggingarfélags á Evrópsku efnahagssvæði telst jafngilda starfsleyfi hér á landi, sé um að ræða vátryggingar í greinum sem teljast til stóráhættu, eða líftryggingar teknar að eigin frumkvæði líftryggingartaka, sbr. 10. gr., enda sé ákvæðum 43. gr. fullnægt.
     Vátryggingareftirlitið getur, þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, heimilað undanþágur frá banni skv. 1. málsl. 1. mgr.

55. gr.


    Með vátryggingarmiðlun og vátryggingarmiðlara er í lögum þessum átt við lögaðila eða einstakling sem starfar að öllu leyti sjálfstætt og ekki á vegum einstakra vátryggingarfélaga, og ekki í endurtryggingum einvörðungu, er veitir einstaklingum og öðrum upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð á faglegum grunni við að koma á vátryggingarsamningi eða við framkvæmd ákvæða slíks samnings gagnvart vátryggingarfélagi.
     Með vátryggingarumboði og vátryggingarumboðsmanni er átt við lögaðila eða einstakling sem rekur sjálfstæða atvinnustarfsemi og starfar fyrir eitt eða fleiri vátryggingarfélög við ráðgjöf og aðstoð af því tagi sem 1. mgr. kveður á um, með eða án heimildar til að skuldbinda með vátryggingarsamningi þau vátryggingarfélög sem hann starfar fyrir.
     Með vátryggingarsölumanni er átt við einstakling sem hefur með höndum sölu vátrygginga á vegum einstakra félaga.
     Þegar lögaðili rekur vátryggingarmiðlun eða vátryggingarumboð eiga heitin vátryggingarmiðlari og vátryggingarumboðsmaður við um þá starfsmenn sem starfa samkvæmt skilgreiningu 1. og 2. mgr.

56. gr.


    Sérhver vátryggingarmiðlari og vátryggingarumboðsmaður, sbr. 1., 2. og 4. mgr. 55. gr., sem hyggst starfa hér á landi, skal skráður hjá Vátryggingareftirlitinu sem hefur með höndum eftirlit með starfsemi þeirra. Sá einn sem skráður hefur verið má nota þessi heiti. Engan má í senn skrá sem vátryggingarmiðlara og vátryggingarumboðsmann.
     Skilyrði skráningar er að einstaklingar séu búsettir hér á landi, hafi náð tuttugu ára aldri, hafi óflekkað mannorð og hafi aldrei verið sviptir forræði á búi sínu og búi yfir þeirri þekkingu sem nauðsynleg er vegna starfans og teljist að öðru leyti hæfir til að reka þessa starfsemi. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um búsetu hér á landi.
     Vátryggingarmiðlarar mega ekki vera háðir vátryggingarfélögum eða félögum í þeirra eigu á nokkurn hátt vegna eignaraðildar eða fjárhagslegra tengsla. Þeir skulu leggja fram vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu til að bæta tjón sem kann að hljótast af störfum þeirra. Skráning vátryggingarmiðlara eða vátryggingarumboðsmanna hér á landi skal bundin við skaðatryggingar, persónutryggingar eða allar greinar frumtrygginga.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari reglur um starfsábyrgðartryggingu og um önnur skilyrði skráningar.

57. gr.


    Vátryggingarmiðlari skal veita vátryggingartaka þær upplýsingar og þá aðstoð sem hann þarf á að halda til að meta skilmála og kjör vátrygginga sem í boði eru og vátryggingarþörf áður en vátryggingarsamningur er gerður. Hann skal gera vátryggingarfélaginu fullnægjandi grein fyrir tegund og umfangi vátryggingaráhættunnar til að félagið geti gert vátryggingartaka tilboð. Hann skal einnig aðstoða vátryggingartaka eftir að samningur er kominn á, þar á meðal að veita honum leiðbeiningar verði tjón samkvæmt vátryggingarsamningi sem hann hefur komið á.
     Vátryggingarumboðsmenn og vátryggingarsölumenn skulu, svo sem unnt er áður en vátryggingarsamningur er gerður, upplýsa hlutaðeigandi um iðgjöld og vátryggingarskilmála. Vátryggingarfélög skulu sjá til þess að starfsemi sölumanna, sem starfa á þeirra vegum, sé þannig að öflun vátrygginga fari fram með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum.
     Vátryggingarmiðlari má ekki miðla frumtryggingum til annarra vátryggingarfélaga en þeirra sem starfsleyfi hafa eða heimild til að veita þjónustu hér á landi. Líftryggingartaki, sem að eigin frumkvæði leitar aðstoðar vátryggingarmiðlara um líftryggingu hjá líftryggingarfélagi erlendis, skal undirrita yfirlýsingu um að hann óski eftir að vátryggingarmiðlarinn afli upplýsinga fyrir hans hönd. Hann skal einnig undirrita yfirlýsingu um að honum sé ljóst að eftirlitsreglur heimaríkis hlutaðeigandi líftryggingarfélags gilda og að eftirlit með starfsemi líftryggingarfélagsins sé á ábyrgð þeirra eftirlitsstjórnvalda sem hið erlenda félag heyrir undir. Vátryggingareftirlitið lætur í té form slíkrar yfirlýsingar.
     Vátryggingarumboðsmaður skal sjá til þess að líftryggingartaki undirriti þá yfirlýsingu sem tilgreind er í 3. málsl. 3. mgr. á formi er Vátryggingareftirlitið lætur í té.
     Vátryggingarmiðlari má ekki taka við þóknun eða greiðslum af neinu tagi frá vátryggingarfélagi nema vátryggingarsamningur hafi komist á milli vátryggingarfélagsins og vátryggingartaka. Vátryggingarmiðlari má taka við iðgjöldum fyrir hönd vátryggingarfélags samkvæmt skriflegri heimild þess. Fjármunum, sem vátryggingarmiðlari veitir viðtöku fyrir hönd vátryggingarfélags eða vátryggingartaka vegna vátryggingarsamnings eða við undirbúning og gerð þeirra, skal, svo fljótt sem auðið er, skilað til rétts aðila. Fjármunum þessum skal miðlarinn að öllu leyti halda aðgreindum frá öðrum fjármunum í sinni eigu eða vörslu.
     Vátryggingarmiðlari skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar venjur í vátryggingarviðskiptum bjóða. Hann skal liðsinna báðum aðilum og gæta hagsmuna þeirra og gæta þess að aðila séu ekki settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum. Vátryggingarmiðlara er skylt að upplýsa þá sem hann starfar fyrir um umboðslaun og þóknun sem hann þiggur frá vátryggingarfélagi vegna viðskiptanna fari þeir fram á það sérstaklega. Vátryggingarmiðlara er skylt að veita Vátryggingareftirlitinu, hvenær sem er, allar upplýsingar, sem það óskar, um vátryggingarsamninga sem hann hefur komið á.

58. gr.


    Vátryggingarmiðlari skal láta koma fram í öllu sem til almennings fer um starfsemina að hún sé skráð hér á landi, sbr. 59. gr., og að starfsemin sé óháð einstökum vátryggingarfélögum. Vátryggingarumboðsmaður skal einnig láta koma fram að starfsemin sé skráð og að um umboðsstarfsemi sé að ræða. Sérhver vátryggingarsölumaður skal framvísa skilríkjum við störf sín sem útgefin eru og undirrituð af því vátryggingarfélagi eða vátryggingarfélögum sem hann starfar fyrir.
     Hafi aðili með höndum milligöngu eða verktöku um vátryggingar fyrir vátryggingarfélag skal nafn og aðsetur þess vátryggingarfélags sem tekur á sig skuldbindingu samkvæmt vátryggingarsamningi koma skýrt fram í öllu prentuðu máli til almennings vegna starfseminnar og á öllum tilboðum og samningum sem sá aðili gerir fyrir hönd félagsins.
     Ársreikninga vátryggingarmiðlunar eða vátryggingarumboðs skal senda Vátryggingareftirlitinu innan mánaðar frá því að þeir eru samþykktir, þó eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsárs. Reikningarnir skulu undirritaðir af stjórn, endurskoðaðir og áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Ársreikningum vátryggingarmiðlunar skal fylgja greinargerð um það hvernig starfsemin dreifist á einstök vátryggingarfélög.

59. gr.


    Vátryggingareftirlitið skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa til miðlunar- og umboðsstarfsemi hér á landi. Skrá skal nafn, heimilisfesti, tegund starfsemi og skráningardag. Þegar vátryggingarmiðlun eða vátryggingarumboð er skráð skal einnig skrá nöfn þeirra starfsmanna sem heimild hafa til að starfa sem vátryggingarmiðlarar eða vátryggingarumboðsmenn.
     Þeir sem skráðir hafa verið og leyfi hafa fengið til miðlunar- eða umboðsstarfsemi hér á landi skulu greiða gjald til Vátryggingareftirlitsins sem ráðherra ákveður vegna kostnaðar sem eftirlit með starfseminni hefur í för með sér.
     Séu skilyrði leyfis til miðlunar- eða umboðsstarfsemi ekki lengur uppfyllt samkvæmt lögum þessum skal Vátryggingareftirlitið þegar í stað taka nafn hlutaðeigandi af skrá. Vátryggingareftirlitinu er þó heimilt, áður en til þess kemur að veita frest til nauðsynlegra úrbóta og eftir atvikum, að veita viðvörun telji eftirlitið það fullnægjandi. Sé skráningarskyld miðlunar- eða umboðsstarfsemi rekin án leyfis skal Vátryggingareftirlitið gera kröfu um að slíkri starfsemi verði hætt og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja þeirri kröfu.
     Birta skal í Lögbirtingablaði nöfn miðlara og umboðsmanna við skráningu þeirra. Árlega skal birta lista yfir þá sem á skrá eru hjá Vátryggingareftirlitinu.

VIII. KAFLI


Yfirfærsla stofna. Samruni félaga.


60. gr.


    Óski vátryggingarfélag eftir að flytja vátryggingarstofn sinn að nokkru eða öllu leyti til annars félags skulu bæði félögin senda Vátryggingareftirlitinu umsókn um færsluna ásamt drögum að samkomulagi milli félaganna og þeim gögnum sem eftirlitið telur nauðsynleg. Vátryggingareftirlitið kannar umsóknina með hliðsjón af hag beggja félaganna og hvort ástæða sé til að ætla að færslan geti skaðað vátryggingartaka og vátryggða hjá félögunum.
     Telji Vátryggingareftirlitið að synja beri um leyfi til yfirfærslunnar skal það án tafar tilkynnt félaginu. Að öðrum kosti skal Vátryggingareftirlitið birta tilkynningu í Lögbirtingablaði vegna yfirfærslubeiðninnar og óska eftir skriflegum athugasemdum vátryggingartaka og vátryggðra innan tiltekins frests sem eigi má vera skemmri en einn mánuður. Félagið skal greina vátryggingartaka skriflega frá fyrirhugaðri yfirfærslu og hvenær tilkynningin var birt í Lögbirtingablaði.
     Vátryggingareftirlitið veitir leyfi til færslunnar að liðnum fresti skv. 2. mgr. telji það, að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið, að orðið skuli við yfirfærslubeiðninni.
     Réttindi og skyldur vátryggingartaka, vátryggðra og annarra samkvæmt vátryggingarsamningum halda sjálfkrafa gildi sínu frá flutningsdegi. Vátryggingartakar geta sagt upp vátryggingarsamningi sínum við félagið frá þeim degi er flutningur stofnsins á sér stað tilkynni þeir uppsögn skriflega innan mánaðar frá flutningsdegi.

61. gr.


    Óski vátryggingarfélag eftir því að samruni með yfirtöku eins eða fleiri vátryggingarfélaga eigi sér stað með slitum þeirra, þannig að allar eignir og skuldir verði yfirfærðar að öllu leyti til annars félags án þess að til skiptameðferðar komi, skulu öll félögin senda Vátryggingareftirlitinu umsókn ásamt drögum að samkomulagi milli félaga um samrunann, sbr. 62. gr., og með þeim gögnum sem eftirlitið telur nauðsynleg. Sama gildir óski tvö eða fleiri vátryggingarfélög eftir því að samruni með stofnun nýs vátryggingarfélags eigi sér stað með slitum án skiptameðferðar þannig að allar eignir og skuldir verði yfirfærðar til hins nýja félags. Skilyrði samruna er að leyfi til yfirfærslu vátryggingarstofna sé veitt, sbr. 60. gr.
     Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um félög skv. 7. gr. sem óska eftir að yfirfæra eignir og skuldir að öllu leyti án skiptameðferðar til vátryggingarfélags.
     Heimila má að samruni með yfirtöku eða með stofnun nýs félags geti farið fram þótt eitt eða fleiri félaga sem yfirtekin eru, eða lögð verða niður, gangist undir skiptameðferð, að því tilskildu að sá kostur sé bundinn við félög sem hafa ekki enn hafist handa við að úthluta eignum sínum til eigenda.

62. gr.


    Í drögum að samkomulagi um samruna sem fylgja skal umsókn, sbr. 61. gr., skal m.a. koma fram hvernig greiðslum er háttað fyrir hluti í félögum sem hætta vátryggingarstarfsemi, hvenær hlutir, sem kunna að vera notaðir sem greiðsla, veiti rétt til arðs og annarra réttinda, hvaða réttindi eigendur hluta í félagi, sem hættir starfsemi, öðlast í því félagi sem tekur við eignum og skuldum, svo og aðrar ráðstafanir sem kunna að hafa í för með sér breytingar á réttindum eigenda. Einnig skal koma fram hvort stjórnarmenn, fulltrúaráðsmenn eða framkvæmdastjórar skuli njóta sérstakra hlunninda og þá hverra.
     Lögð skulu fram staðfest reikningsuppgjör sem sýna eignir og skuldir hvers félags á þeim degi þegar samruni er fyrirhugaður ásamt sameiginlegri upphafsstöðu eftir samrunann og má uppgjörið ekki vera meir en sex mánaða gamalt þegar ákvörðun er tekin um að samruni eigi sér stað. Vátryggingareftirlitið getur þó heimilað að miðað sé við ársuppgjör félaganna í lok seinasta reikningsárs.
     Ef samruni með stofnun nýs félags á sér stað skulu drög að nýjum samþykktum þess einnig lögð fram. Sama gildir verði gerðar breytingar á samþykktum félaga, aðrar en breytingar á nafni.

63. gr.


    Vátryggingareftirlitið veitir leyfi til samrunans að uppfylltum skilyrðum 60.–62. gr. enda telji eftirlitið að hagsmuna kröfuhafa annarra en vátryggingartaka eða vátryggðra sé nægilega gætt eftir að samruni hefur átt sér stað. Starfsleyfi félags eða félaga, sem hætta vátryggingarstarfsemi, skulu afturkölluð frá þeim degi er Vátryggingareftirlitið tiltekur og félagið eða félögin máð úr vátryggingarfélagaskrá.

IX. KAFLI


Sérstakar ráðstafanir. Brottfall starfsleyfis. Félagsslit.


64. gr.


    Uppfylli vátryggingarfélag ekki lágmarkskröfur um gjaldþol samkvæmt ársuppgjöri eða á öðrum tíma, sbr. 25. gr., skal félagið þegar í stað gera áætlun um hvenær og á hvern hátt markinu verði náð og skal áætlunin lögð fyrir Vátryggingareftirlitið sem ákveður hvort þær ráðstafanir, sem gera á, teljist fullnægjandi.
     Sé gjaldþol vátryggingarfélags minna en þriðjungur þess sem tilskilið er eða minna en sú lágmarksfjárhæð sem tilgreind er fyrir þá starfsemi sem félagið rekur, sbr. 26. gr., hvort sem hærra er skal áætlun skv. 1. mgr. miða að því að rétta við fjárhag félagsins á skömmum tíma og skal Vátryggingareftirlitið setja félaginu ákveðinn frest í því efni.
     Sé vátryggingarskuld félags vanmetin samkvæmt ársuppgjöri eða á öðrum tíma að mati Vátryggingareftirlitsins, eða hafi fjárhagsstaða þess með öðrum hætti versnað þannig að tilskildar kröfur um gjaldþol eru ekki uppfylltar, sbr. 1. og 2. mgr., skal með sama hætti og þar er tilgreint grípa til viðeigandi ráðstafana.
     Vátryggingareftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun félags yfir fjármunum sínum og eignum sé það liður í aðgerðum til að koma fjárhag þess á réttan kjöl.
     Starfi félagið eftir sérstakri áætlun um starfsemina, sbr. 18. og 19. gr., og hafi fjárhagsstaða félagsins rýrnað miðað við þessa áætlun skal Vátryggingareftirlitið taka ákvörðun um nauðsynlegar ráðstafanir og gera kröfu um að ný áætlun til þriggja ára verði lögð fram ef þörf er á.

65. gr.


    Sinni vátryggingarfélag ítrekað ekki tilmælum Vátryggingareftirlits um breytingar á vátryggingarskilmálum eða iðgjaldagrundvelli, um ráðstafanir til að meta á fullnægjandi hátt vátryggingarskuld sína eða að tryggja örugga ávöxtun fjármuna sem ætlað er að mæta henni, brjóti lög og reglugerðir um vátryggingarstarfsemi eða samþykktir sem það starfar eftir skal Vátryggingareftirlitið setja félaginu ákveðinn frest til að gera nauðsynlegar úrbætur.
    Hafi fullnægjandi ráðstafanir ekki verið gerðar innan settra tímamarka getur Vátryggingareftirlitið lagt til við ráðherra að starfsleyfi félagsins verði afturkallað. Vátryggingareftirlitið getur þó veitt frekari frest telji það líkur benda til að þær ráðstafanir, sem félagið hefur þegar gert, muni innan skamms tíma hafa í för með sér tilskildar úrbætur.

66. gr.


    Váryggingareftirlitið skal leggja til við ráðherra að starfsleyfi vátryggingarfélags verði afturkallað hafi félagið ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir til að rétta við fjárhag sinn, sbr. 64. gr., uppfylli félagið ekki lengur skilyrði starfsleyfis eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum og reglugerðum um vátryggingarstarfsemi, þannig að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé stefnt í hættu.

67. gr.


    Verði starfsleyfi vátryggingarfélags afturkallað skv. 64.–66. gr. skal ráðherra, að fengnum tillögum Vátryggingareftirlitsins, skipa þriggja manna skilastjórn í félagið. Skilastjórn tekur við öllum heimildum félagsstjórnar og jafnframt falla niður heimildir hennar. Skilastjórn skal þegar kalla saman félagsfund og kynna félagsmönnum hvernig komið er.
     Vátryggingareftirlitið skal, að höfðu samráði við skilastjórn, taka ákvörðun um hvort félagið skuli leitast við að flytja vátryggingarstofn sinn til eins eða fleiri vátryggingarfélaga sem reka vátryggingarstarfsemi hér á landi eða hvort félagið skuli freista þess að ljúka uppgjöri vegna hans með öðrum hætti. Vátryggingareftirlitið getur, þegar um líftryggingarfélag er að ræða, ákveðið að líftryggingarstofninn sæti sérstakri meðferð, sbr. 68. gr.
     Skilastjórn skal í samráði við Vátryggingareftirlitið taka ákvörðun um hvort óska skuli gjaldþrotaskipta á félaginu eða hvort það skuli rekið áfram. Vátryggingareftirlitið getur takmarkað eða bannað ráðstöfun félags yfir fjármunum sínum og gert kröfu um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta telji það líkur á að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé að öðrum kosti stefnt í hættu.
     Laun skilastjórnar og kostnaður hennar skal greiðast af eignum hlutaðeigandi vátryggingarfélags sem krafa utan skuldaraðar.

68. gr.


    Ef skipuð er skilastjórn í líftryggingarfélagi og ákveðið er að líftryggingarstofninn skuli sæta sérstakri meðferð, sbr. 2. mgr. 67. gr., skal Vátryggingareftirlitið þegar í stað taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga líftryggingarskuldinni, láta endurreikna skuldbindingarnar og leggja mat á verðmæti eigna. Ljúka skal greiðslu áfallinna og tilkynntra líftryggingarkrafna samkvæmt reglum sem giltu áður en skilastjórn var skipuð. Líftryggingarkröfur, sem falla til útborgunar síðar, má greiða út að því marki er Vátryggingareftirlitið telur forsvaranlegt með tilliti til eignarstöðu. Endurkaup eru óheimil nema sem greiðsla á lánum gegn veði í líftryggingum hjá félaginu.
     Þegar að loknu endurmati skv. 1. mgr. skal Vátryggingareftirlitið leita til annarra líftryggingarfélaga um yfirtöku líftryggingarstofns og líftryggingarskuldar. Vátryggingareftirlitið skal meta framkomin tilboð og velja það sem það telur hagkvæmast fyrir vátryggða. Vátryggingareftirlitið skal með tilkynningu í Lögbirtingablaði greina frá helstu atriðum tilboðsins sem það hefur valið og skal jafnframt auglýst eftir athugasemdum frá vátryggingartökum og vátryggðum sem berast skulu skriflega innan eins mánaðar frá birtingu tilkynningarinnar. Að fengnum athugasemdum getur Vátryggingareftirlitið framselt stofninn líftryggingarfélagi því er Vátryggingareftirlitið valdi ásamt eignum sem mæta eiga líftryggingarskuldinni, enda tekur viðtakandi þá við öllum skuldbindingum vegna líftrygginganna.
     Þeir vátryggingartakar eða vátryggðir, sem athugasemdir hafa gert og eigi vilja samþykkja yfirfærsluna, eiga rétt á því að fá endurgreitt verðmæti líftrygginga sinna að svo miklu leyti sem hlutfallsleg eign hrekkur til.
     Berist ekki tilboð í líftryggingarstofn eða komi ekki fram þau tilboð er Vátryggingareftirlitið vill mæla með skulu eignir hinna vátryggðu greiddar þeim í réttu hlutfalli við verðmæti líftrygginga þeirra.

69. gr.


    Verði ákveðið að beiðast gjaldþrotaskipta á búi líftryggingarfélags skal ekki telja eignir, sem mæta eiga líftryggingarskuldinni, með eignum þrotabúsins eða skuldbindingar með skuldum þess. Ákvæði 68. gr. um sérstaka meðferð líftryggingarstofnsins gilda og getur Vátryggingareftirlitið krafist allra gagna frá þrotabúinu sem nauðsynleg eru til að unnt sé að ljúka uppgjöri hans og ráðstöfun. Hafi sérstök meðferð líftryggingarstofns verið ákveðin áður en beiðst er gjaldþrotaskipta, sbr. 67. gr., hefur það ekki áhrif á framkvæmd samkvæmt þessari og 68. gr.

70. gr.


    Verði ákveðið að beiðast gjaldþrotaskipta í vátryggingarfélagi sem rekur aðra starfsemi en líftryggingarstarfsemi skal Vátryggingareftirlitið, jafnskjótt og búið hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, meta í samráði við skiptastjóra, hvort hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra verði best gætt með því að yfirfæra vátryggingarstofna að öllu leyti eða að hluta til eins eða fleiri vátryggingarfélaga sem reka vátryggingarstarfsemi hér á landi.
     Berist tilboð er Vátryggingareftirlitið metur hagkvæmt fyrir vátryggingartaka og vátryggða skal eftirlitið leggja fram tillögu til samkomulags um flutning stofnsins og tilkynna í Lögbirtingablaði um helstu efnisatriði slíks samkomulags. Einnig skal auglýsa eftir athugasemdum vátryggingartaka og vátryggðra er berast skulu skriflega innan eins mánaðar frá birtingu tilkynningarinnar. Að teknu tilliti til þeirra skal Vátryggingareftirlitið að frestinum loknum taka ákvörðun um hvort unnt sé að yfirfæra vátryggingarstofna á þann hátt sem lagt er til.

71. gr.


    Þegar tekin er ákvörðun um frjáls slit vátryggingarfélags samkvæmt samþykktum þess skal félagið leggja fyrir Vátryggingareftirlitið greinargerð um óuppgerðar vátryggingarskuldbindingar félagsins og á hvern hátt ætlunin sé að ljúka þeim.
     Vátryggingareftirlitið skal, eins og segir í 2. mgr. 67. gr., meta og taka ákvörðun um, hvort hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra teljist best borgið með flutningi vátryggingarstofns til annars eða annarra félaga, svo og þegar um líftryggingarstofn er að ræða hvort stofninn skuli sæta sérstakri meðferð, sbr. 68. gr.

X. KAFLI


Ýmis ákvæði.


72. gr.


    Ráðherra vátryggingarmála setur reglugerðir um þau efni sem í lögum þessum greinir.

73. gr.


    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum samkvæmt þeim varða fésektum eða varðhaldi nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.

74. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993 og falla þá úr gildi lög nr. 50 16. maí 1978, um vátryggingarstarfsemi, með áorðnum breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Ákvæði laga um vátryggingarstarfsemi, nr. 50/1978, og reglugerðar nr. 77/1975 um ársreikninga vátryggingarfélaga ásamt breytingum, svo og reglugerðar nr. 482/1981 um könnun á gjaldhæfi og greiðsluhæfi vátryggingarfélaga skulu gilda um reikningsskil og ársuppgjör vátryggingarfélaga fyrir reikningsárið 1992, eftir því sem við getur átt. Ákvæði laganna um lágmarksgjaldþol og ábyrgðarsjóð gilda frá 1. júlí 1993 nema um starfandi vátryggingarfélög samkvæmt sérstökum lista sem Vátryggingareftirlitið leggur fram fyrir árslok 1992 sem fá aðlögunartíma í allt að tvö ár frá 1. janúar 1993 til að uppfylla þessi skilyrði og mega ekki starfa annars staðar á Evrópsku efnahagssvæði en á Íslandi fyrr en skilyrðin eru uppfyllt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í ágúst 1989 skipaði þáverandi tryggingamálaráðherra, Guðmundur Bjarnason, nefnd til að endurskoða lög um vátryggingarstarfsemi en tímabært þótti að endurskoða gildandi lög sem eru frá 1978. Í nefndina voru skipaðir Bjarni Þórðarson tryggingafræðingur, Erlendur Lárusson tryggingafræðingur, forstöðumaður Tryggingaeftirlitsins, sem jafnframt var skipaður formaður, Guðný Björnsdóttir lögfræðingur, Jón Magnússon lögfræðingur, fulltrúi Neytendasamtakanna, og Sigmar Ármannsson lögfræðingur, fulltrúi Sambands íslenskra tryggingafélaga. Ritari nefndarinnar var Rúnar Guðmundsson lögfræðingur.
     Nefndin hélt samtals 47 fundi þar af 6 á árunum 1989 og 1990, 20 á árinu 1991 og 21 fund á árinu 1992. Í þann mund er nefndin var skipuð hófust samningaviðræður EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins um myndun Evrópsks efnahagssvæðis. Nefndin taldi rétt að við heildarendurskoðun gildandi laga um vátryggingarstarfsemi yrði tekið tillit til nauðsynlegrar aðlögunar að Evrópulöggjöfinni og niðurstaðna samningaviðræðna EFTA og EB á þessu sviði. Störf nefndarinnar á árunum 1989 og 1990 voru því einkum fólgin í undirbúningsvinnu, öflun gagna og upplýsinga og að fylgjast með þeirri þróun sem átti sér stað á alþjóðavettvangi á þessu sviði.
     Nefndin er sammála um frumvarp það sem hér liggur fyrir að öllu öðru leyti en varðar stjórn Tryggingaeftirlitsins skv. 37. gr. frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar er fylgjandi því fyrirkomulagi sem hér er lagt til en formaður skilar séráliti um fyrirkomulag þeirrar greinar.

1. Löggjöf um vátryggingarstarfsemi.
    
Sérstök löggjöf er hvarvetna í gildi um vátryggingarstarfsemi undir eftirliti opinberra stjórnvalda. Heildarlöggjöf um vátryggingarstarfsemi var sett mun seinna á Íslandi en í nágrannalöndum eða á árinu 1973 með lögum nr. 26/1973. Var þá löggjöf Norðurlanda einkum höfð til hliðsjónar en hún stendur á mjög gömlum merg. Lögin voru endurskoðuð 1978 í nokkrum atriðum og eru gildandi lög um vátryggingarstarfsemi, nr. 50/1978.
     Í greinargerð með fyrsta frumvarpinu frá 1973 er gerð grein fyrir ástæðum þess að rétt þykir að setja sérstök lög um vátryggingarstarfsemi og er það sem þar segir enn í fullu gildi:
     „Vátryggingar skipta miklu máli í nútímaþjóðfélagi og varða flesta ef ekki alla þegna þjóðfélagsins. Um hendur vátryggingaraðila rennur mjög mikið fjármagn. Það er þjóðfélagsnauðsyn að vátryggingar séu reknar á heilbrigðum grundvelli og gætt sé hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra. Vátryggingartakar og vátryggðir hafa yfirleitt ekki aðstöðu til að meta fjárhagsstöðu þeirra vátryggingaraðila sem þeir skipta við og gera sér í raun grein fyrir þeim kjörum sem þeir semja um. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að ríkisvaldið taki að sér að hafa eftirlit með starfsemi vátryggingarfélaga og fái rúmar heimildir til að taka í taumana ef eitthvað fer úrskeiðis.“
     Gildandi lög um vátryggingarstarfsemi hér á landi eru ekki eins ítarleg og löggjöf nágrannaþjóða, svo sem Norðurlanda. Miklar breytingar hafa átt sér stað á þessu og mörgum öðrum sviðum þjóðfélagsins frá því að lögin voru sett og ör þróun á sér stað með æ nánari samskiptum og samvinnu á alþjóðavettvangi þar sem aflétt er hömlum og reglur eru rýmkaðar, m.a. á sviði viðskipta-, fjármála- og þjónustustarfsemi. Skortir hér á landi lagaákvæði um ýmsa þætti vátryggingarstarfseminnar, m.a. til að tryggja réttarstöðu vátryggingartaka og vátryggðra, og þörf er skilvirkari og skýrari ákvæða um mörg atriði varðandi starfsemi vátryggingarfélaga og eftirlit með henni. Þá þarf að setja ýmis sérákvæði í lög vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.
     Nefndin hefur kynnt sér löggjöf nágrannaþjóða á þessu sviði, einkum Norðurlanda. Hefur í því sambandi mjög verið litið til dönsku laganna en dönsk lög hafa verið löguð að reglum Evrópubandalagsins sem ætlað er að gilda á Evrópsku efnahagssvæði. Einnig hefur nefndin fylgst með því lagastarfi sem á sér stað annars staðar á Norðurlöndum vegna EES-samningsins og aflað gagna og upplýsinga frá Finnlandi, Noregi og Svíþjóð í því sambandi.

2. Meginefni og helstu nýmæli frumvarpsins.
    
Frumvarpið er á mörgum sviðum mun ítarlegra en gildandi lög og ný ákvæði að finna um mörg atriði. Jafnframt því sem heimildir vátryggingarfélaga til starfsemi eru rýmkaðar og felld eru niður ýmis skilyrði á markaðs- og fjármálasviði eru sett ákvæði til eflingar neytendavernd og heimildir eftirlitsaðilans til afskipta eru skýrari og í ýmsum tilvikum auknar. Ákvæði hafa ekki verið áður í lögum um afskipti eftirlitsins af vátryggingarstofni og vátryggingarskuldbindingum félaga eftir að starfsleyfi hefur verið afturkallað og við félagsslit og sérstakur kafli er um vátryggingarmiðlun og vátryggingarumboð sem engin lagaákvæði hafa verið til um hér á landi áður. Þá eru sérkaflar annars vegar um starfsemi erlendra félaga sem eiga staðfestu á Evrópsku efnahagssvæði og hins vegar um félög sem eru utan þess, en ákvæði um hin síðarnefndu eru nokkru ítarlegri en í gildandi lögum.
    Frumvarpið er við það miðað að fullnægt verði ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði (EES-samningsins) sem undirritaður var 2. maí 1992 í Óportó í Portúgal og lagður hefur verið fyrir Alþingi til staðfestingar og þeim gerðum á vátryggingarsviði sem eru hluti þess samnings.
     Samningurinn gerir ekki nú þegar ráð fyrir myndun eins sameiginlegs vátryggingarmarkaðar með fjárhagslegu eftirliti heimaríkis og frelsi til að veita og fá þjónustu hvar sem er á svæðinu. Hafa menn farið mun hægar hjá Evrópubandalaginu á vátryggingarsviðinu en á ýmsum öðrum sviðum fjármála, viðskipta og þjónustu í þá átt að samræma löggjöf, að aflétta hömlum og falla frá gildandi reglum heima fyrir. Vegna hins sérstaka eðlis og hlutverks vátrygginga verða neytendahliðin og hin viðskiptalega hlið að fylgjast að, en menn hafa verið nokkuð á eftir að móta stefnu og setja reglur á sviði neytendaverndar.
     Fyrst um sinn verður samkvæmt samningnum eingöngu skylt að aflétta tilteknum hömlum í skaðatryggingum sem einkum tengjast atvinnurekstri og í líftryggingum þegar líftryggingartaki hefur eigin frumkvæði að töku líftryggingar og geta lög annarra aðildarríkja þá átt við um slíka vátryggingarsamninga og fjárhagslegt eftirlit með slíkri starfsemi verður í höndum erlends ríkis. Að öðru leyti gilda lög og reglur heimaríkis um þá starfsemi sem þar fer fram og eftirlit með henni en ýmsar reglur t.d. varðandi hin fjárhagslegu skilyrði eru samræmdar. Í náinni framtíð er þó ætlunin að lagareglur sem opna hliðstæða möguleika í öðrum greinum vátrygginga verði hluti EES-samningsins.
     Að fjárhagslegt eftirlit verður í höndum erlendra eftirlitsstjórnvalda þýðir þó engan veginn að öllu slíku eftirliti heima fyrir verði hætt. Þvert á móti er það almenn stefna í þessum málum að samhliða því að hömlum er aflétt verði eftirlit og neytendavernd eflt og eftirlitsstjórnvöld koma til með að hafa áfram ríkar heimildir til afskipta í samræmi við gildandi löggjöf heima fyrir, og gert er ráð fyrir nánu samstarfi milli eftirlitsstjórnvalda aðildarríkjanna. Samstarf hefur raunar um langt skeið átt sér stað á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu á sviði eftirlitsmála.
     Frumvarpið gerir sem sé ráð fyrir að reglum EES-samningsins, eins og hann liggur fyrir nú, verði fullnægt en síðar verði lögum breytt eftir þörfum og eftir því sem ný samningsákvæði verða hluti samningsins.
     Helstu nýmæli frumvarpsins eru sem hér segir:
     Í I. kafla eru heimildir vátryggingarfélaga til að reka hliðarstarfsemi, sem tengist vátryggingarstarfsemi, t.d. á fjármálasviði, rýmkaðar. Vátryggingarfélög mega samkvæmt frumvarpinu eiga meiri hluta eða hafa virk yfirráð í félagi sem rekur hliðarstarfsemi sem hingað til hefur verið óheimilt. Þetta er í samræmi við þróunina almennt og styrkir samkeppnisaðstöðu íslenskra vátryggingarfélaga á markaðnum. Jafnframt er gert ráð fyrir heimildum Tryggingaeftirlitsins til að hafa eftirlit með félögum sem reka hliðarstarfsemi.
     Þá er kveðið á um að félög, sem stofnuð eru með sérlögum, skuli, með sama hætti og einkavátryggingarfélög, vera í hlutafélagsformi, gagnkvæmu formi eða öðru lögmæltu félagsformi. Lagareglur EES-samningsins kveða á um að félög stofnuð með lögum skuli starfa á jafnréttisgrundvelli og við sömu rekstrarskilyrði og einkafélög.
     Gerður er greinarmunur á „stóráhættu“ og „fjöláhættu“ í samræmi við ákvæði EES-samningsins, sbr. nánari umfjöllun í VI. kafla.
    Þá er neytendaákvæði sem kveður á um skyldu vátryggingarfélaga til að upplýsa almennt um hvaða félag beri áhættuna og hvar það er áður en vátryggingartaki er skuldbundinn gagnvart vátryggingarfélagi og að vátryggingarsamningur beri ávallt þessar upplýsingar með sér.
     Í II. kafla eru þau nýmæli fyrst og fremst að ítarlegri ákvæði er nú að finna um hvernig standa skuli að stofnun vátryggingarfélags en um það hafa hingað til eingöngu verið ákvæði í hlutafélagalögum. Í nokkrum atriðum eru reglur samkvæmt frumvarpinu strangari eins og þegar um er að ræða mat á greiðslu hlutafjár, stofnfjár eða ábyrgðarfjár í öðru en reiðufé, og varðandi samþykktir sem ávallt skulu háðar samþykki Tryggingaeftirlitsins. Þá eru sérákvæði um gagnkvæm félög sem ekki hefur áður verið að finna í lögum um vátryggingarstarfsemi.
     Ákvæði er um hvað koma skuli fram í umsókn um starfsleyfi og hvað skuli skráð í vátryggingarfélagaskrá sem áður hafa verið í reglugerð. Nýmæli í samræmi við reglur EES-samningsins er að krafist er áætlunar um rekstur og efnahag næstu þrjú árin er fylgja skal umsókn um starfsleyfi.
     Þá eru felld niður skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt stofnenda en almennt krafist búsetu hér og hæfisskilyrða. Nýmæli hér á landi er að kveða á um að viðkomandi hafi óflekkað mannorð og hafi aldrei misst forræði á búi sínu. Ráðherra hefur heimild til að víkja frá skilyrðum um búsetu.
     Í III. kafla eru alfarið teknar upp þær reglur sem eiga að gilda á Evrópsku efnahagssvæði um gjaldþol, lágmarksgjaldþol og um ábyrgðarsjóð. Gert er ráð fyrir nánari útfærslu í reglugerð.
     Nýmæli er að vátryggingarfélag skal á hverjum tíma, og í öllum greinum vátrygginga, halda skrá yfir eignir samsvarandi vátryggingarskuldinni, en í gildandi lögum eru slík ákvæði einvörðungu á sviði líftrygginga. Í samræmi við reglur EES-samningsins eru hér settar strangari reglur á sviði skaðatrygginga en reglurnar rýmkaðar á sviði líftrygginga, með það fyrir augum að tryggja að ávallt séu fyrir hendi eignir í vátryggingarfélagi til að mæta skuldbindingum vegna gerðra vátryggingarsamninga og á hinn bóginn að aflétta hömlum er tengjast fjármálasviði.
     Nýmæli er einnig að ákvarðanir um lækkun áhættufjár, eða ef greiða á nýja hluti á annan hátt en í reiðufé, er háð samþykki Tryggingaeftirlitsins.
     Í IV. kafla er helsta nýmælið að kveðið er á um skyldu vátryggingarfélags að hafa í þjónustu sinni tryggingastærðfræðing eða sérfræðing með sambærilega menntun, m.a. til að meta vátryggingarskuld félags, en til þessa hefur skyldan verið bundin við líftryggingarstarfsemi einvörðungu. Markmiðið er að tryggja betur en áður mat á áhættuþáttum vátryggingarstarfseminnar sem ekki er síður mikilvægt á sviði skaðatrygginga en líftrygginga.
     Þá er nýmæli að kveðið er á um hæfisskilyrði stjórnarmanna og skilyrði um búsetu meiri hluta stjórnar á Íslandi. Ráðherra er heimilt að víkja frá kröfum um búsetu á Íslandi.
     Í V. kafla er meginbreytingin frá gildandi lögum að lagt er til, samkvæmt áliti meiri hluta nefndarinnar, að Tryggingaeftirlitinu verði sett sérstök yfirstjórn og með því fyrirkomulagi sem segir í 37. gr. frumvarpsins. Lagt er til að stofnunin heiti Vátryggingareftirlitið, en þar eð heitið hefur ekki öðlast lagagildi er það ekki notað í athugasemdum við frumvarpið.
    Í kaflanum eru stefnumarkandi ákvæði um hlutverk Tryggingaeftirlitsins. Nýmæli er að kveðið er sérstaklega á um að við stofnunina skuli starfrækt neytendamáladeild og að eftirlit skuli haft með viðskiptaháttum, sölumennsku og tjónsuppgjöri vátryggingarfélaga.
     Þá er lagt til að ábyrgð ríkissjóðs á útgjöldum eftirlitsins umfram álagðar sértekjur verði felld niður og að rekstur stofnunarinnar verði alfarið reistur á sértekjum.
     Í VI. kafla er það nýmæli að gerður er greinarmunur á vátryggingarfélögum sem eru á hinu Evrópska efnahagssvæði og félögum utan þess. Ákvæði um hin fyrrnefndu eru samræmd ákvæðum EES-samningsins að því er varðar staðfesturétt og heimildir til að veita hér þjónustu, en varðandi hin síðarnefndu eru ákvæðin í aðalatriðum efnislega hliðstæð gildandi ákvæðum en ítarlegri, m.a. varðandi eftirlit og heimildir eftirlitsins til afskipta.
     Meginstefna frumvarpsins varðandi félög á hinu Evrópska efnahagssvæði er ríkar heimildir Tryggingaeftirlitsins hér á landi til afskipta af starfseminni í samráði við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis um starfsleyfismál og fjárhagsleg skilyrði.
     VII. kafli er nýmæli í heild sinni að fáeinum ákvæðum undanskildum. Sérstök ákvæði um vátryggingarmiðlun og vátryggingarumboð hafa ekki verið í lögum hér á landi. Talið er víst að miðlunar- og umboðsstarfsemi muni gegna æ mikilvægara hlutverki á vátryggingarmarkaði í náinni framtíð í framhaldi myndunar Evrópsks efnahagssvæðis og sameiginlegs innri vátryggingarmarkaðar. Neytendur muni í auknum mæli þurfa á upplýsingum og aðstoð að halda um kjör og innihald við kaup vátrygginga og við tjónsuppgjör þegar tjónsatburður á sér stað. Er því mikilvægt að settar verði reglur í þágu neytenda um þessa starfsemi og að eftirlit verði haft með henni.
     Sérstök tilskipun hefur verið sett hjá EB um þessa starfsemi og er hún hluti EES-samningsins. Auk þess var nýlega (1992) ítrekað með sérstökum tilmælum frá EB, sem einnig verða tekin upp í EES-samninginn, að setja beri nánari reglur m.a. um skráningu þessarar starfsemi og kröfur gerðar um menntun og þekkingu, en reglur aðildarríkjanna eru mjög mismunandi í þessum efnum. Sums staðar eru mjög vægar kröfur gerðar og starfsemin ekki háð sérstöku starfsleyfi, annars staðar hafa verið sett sérstök lög.
     Hér á landi hefur miðlun eða umboðsstarfsemi, a.m.k. síðari ár, verið rekin í mjög litlum mæli sem sjálfstæð atvinnustarfsemi. Innlend vátryggingarfélög hafa sölumenn starfandi innan sinna veggja og reka umboð út um land og allalgengt hefur verið að vátryggingarfélög ráði sölumenn til lengri eða skemmri tíma sem ganga í hús og selja vátryggingar. Hér er lagt til að ákvæði um þessa starfsemi verði í lögum um vátryggingarstarfsemi, enda verði eftirlit með henni í höndum Tryggingaeftirlitsins og ráðherra vátryggingarmála.
     Í VIII. kafla eru hugtök samræmd hugtökum samkvæmt reglum EES-samningsins og ákvæðin eru ítarlegri. Nýmæli er m.a. að drög að samrunaáætlun fylgi umsókn til eftirlitsins og nánar er kveðið á um hvað þar skal koma fram og hvaða gögn skuli að öðru leyti fylgja.
     IX. kafli er að miklu leyti nýmæli. Að öðru leyti en varðar líftryggingar hafa engin ákvæði verið í gildandi lögum um vátryggingarstarfsemi um afskipti Tryggingaeftirlitsins þegar grípa þarf til sérstakra ráðstafana eða eftir að starfsleyfi er afturkallað. Kveðið er á um mismunandi stig aðgerða eftir eðli og efni máls. Í frumvarpinu er mælt fyrir um afskipti Tryggingaeftirlitsins við ráðstöfun vátryggingarstofns og vátryggingarskuldar til að gæta hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra. Ákvæðin um hvernig brugðist skal við þegar félag uppfyllir ekki fjárhagskröfur eru í samræmi við reglur EES-samningsins.
     Í X. kafla er gildistökuákvæði og við það miðað að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið taki gildi 1. janúar 1993 og að lög þessi taki gildi á sama tíma. Segja má að ekkert það sé í frumvarpinu sem komi í veg fyrir að lögin taki gildi á öðrum tíma en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, þó eigi síðar.
     Í bráðabirgðaákvæði kemur fram að sérákvæði er í EES-samningnum fyrir Ísland varðandi minni líf- og skaðatryggingarfélög en þau fá allt að tveggja ára aðlögunartíma frá 1. janúar 1993 til að uppfylla skilyrðin um lágmarksgjaldþol og ábyrgðarsjóð. Ber Tryggingaeftirlitinu að láta EFTA og EB í té lista yfir þessi félög áður en samningurinn gengur í gildi, en þau fá ekki aðgang að EES fyrr en skilyrðin eru uppfyllt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að „á viðskiptagrundvelli“ verði fellt niður, sbr. 1. gr. laga 50/1978, um tryggingarstarfsemi (LUV). Lögin eiga við um vátryggingarstarfsemi almennt en ekki er til tæmandi skilgreining á því hvað í slíkri starfsemi felst. Vátryggingarstarfsemi er viðskiptalegs, fjármálalegs og félagslegs eðlis og er rekin hér á landi af einkafélögum og félögum og stofnunum samkvæmt sérlögum er gegna hlutverki af ýmsum toga á þessu sviði.
     Lagt er til, eins og í gildandi lögum að ráðherra vátryggingarmála skeri úr ef ágreiningur kemur upp um það hvort starfsemi falli undir ákvæði laganna.

Um 2. gr.


    Lagt er til að lögin taki til þeirra aðila sem taldir eru í 1. mgr. 2. gr. LUV hafi þessir aðilar með höndum vátryggingarstarfsemi.

Um 3. gr.


    Meginbreytingin er, sbr. 3. gr. LUV, að skilgreining á félagsformi vátryggingarfélaga nær nú einnig til félaga sem starfa samkvæmt sérlögum, þ.e. þau mega vera á hlutafélagsformi, gagnkvæmu félagsformi eða á öðru lögmæltu félagsformi, að því tilskildu að þau starfi við hliðstæð skilyrði og einkafélög. Þetta er í samræmi við lagareglur EB sem gilda samkvæmt EES-samningi.
     Eins og í 9. gr. LUV er kveðið á um að ákvæði hlutafélagalaga gildi nema annað leiði af ákvæðum laga þessara, en hér er bætt við samsvarandi ákvæði um að lög um samvinnufélög gildi um gagnkvæm vátryggingarfélög sem stofnuð eru og rekin í samvinnufélagsformi, nema annað leiði af ákvæðum þessara laga og reglugerða settra samkvæmt þeim.

Um 4. gr.


    Sbr. 4. gr. LUV. Greinin er efnislega samhljóða 2. gr. hlutafélagalaga, nr. 32/1978, sbr. lög nr. 69/1989 (HFL), en á hér einnig við um vátryggingarfélög sem ekki eru hlutafélög.

Um 5. gr.


    Greinin er nýmæli og tengist tillögum um breytingar á starfssviði vátryggingarfélaga, sbr. 6. og 7. gr., þar sem lagt er til að heimildir vátryggingarfélaga til að reka ýmiss konar hliðarstarfsemi, sem tengist vátryggingarstarfsemi, verði rýmkaðar verulega frá gildandi lögum. Lögin eiga við um tengsl félags sem ekki er vátryggingarfélag og vátryggingarfélaga ef litið væri á hið fyrrnefnda sem móðurfélag ef það ræki vátryggingarstarfsemi og sama gildir þó að skilyrði 4. gr. um félagasamstæður séu ekki uppfyllt ef veruleg innbyrðis tengsl eru á milli þeirra og skulu félögin þá tilnefna eitt þeirra sem móðurfélag.
     Lagt er til að sú stofnun, sem eftirlit hefur með vátryggingarstarfseminni, nefnist Vátryggingareftirlit til samræmis við vátryggingarstarfsemi, vátryggingarfélög o.s.frv. í stað Tryggingaeftirlits samkvæmt LUV. Orðið „trygging“ er notað bæði um ábyrgðir, um almannatryggingar o.fl. og er í frumvarpinu eftir því sem unnt er leitast við að skeyta „vá-“ fyrir framan, þó ekki t.d. í ýmsum samsetningum, sbr. eignatryggingar, slysatryggingar o.s.frv.

Um 6. gr.


    Eins og í LUV, sbr. 4. gr., er grundvallarskilyrði að vátryggingarfélag reki ekki starfsemi sem er óskyld vátryggingarstarfsemi og er nýmæli að reynt er að skilgreina hvenær starfsemi telst óskyld starfsemi, sbr. 2. mgr. Á hinn bóginn er talið rétt að rýmka möguleika vátryggingarfélaga á að reka hliðarstarfsemi sem tengist hinni hefðbundnu vátryggingarstarfsemi, sbr. 7. gr., og að ávaxta fjármuni sína þegar það er liður í eðlilegri starfsemi á þessu sviði. Er það í samræmi við þróun sem hvarvetna hefur átt sér stað að undanförnu. Er hér lagt til að vátryggingarfélög megi eiga meiri hluta í fyrirtæki sem rekur fjármálastarfsemi að því tilskildu að fyrirtækið sé háð opinberu eftirliti, svo sem hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands eða sambærilegri stofnun.
     Skv. 4. mgr. er vátryggingarfélögum alfarið bannað að taka á sig ábyrgðir sem ekki eru vátryggingar og er fellt niður ákvæði 4. mgr. 4. gr. LUV þar sem slíkt er heimilt „í sambandi við eðlilegan rekstur félags“. Í breytingunni felst að vátryggingarfélag verður alfarið að reka slíka starfsemi sem vátryggingarstarfsemi í formi greiðslu- eða efndavátrygginga sem eru sérstakir greinaflokkar vátrygginga.

Um 7. gr.


    Hér er, eins og í 4. gr. LUV, skilgreint hvers konar hliðarstarfsemi telst heimil vátryggingarstarfsemi en 5. tölul. er nýmæli þar sem um verulega rýmkun á starfssviði vátryggingarfélaga er að ræða. Starfsemi skv. 5. tölul. er ávallt háð sérstöku leyfi Tryggingaeftirlitsins og er undir eftirliti þess og getur eftirlitið gert kröfu um að starfsemin verði rekin í sérstöku félagi.

Um 8. gr.


    Greinin er samhljóða ákvæði í eldri lögum nr. 26/1973, um vátryggingarstarfsemi, en ákvæðið var fellt niður við endurskoðun laganna 1978. Ástæða þykir til að vekja ákvæði þetta til lífs, m.a. í ljósi rýmkunar á starfssviði vátryggingarfélaga. Ákvæðið er stefnumarkandi og lögð er áhersla á það meginhlutverk vátryggingarfélaga að reka starfsemi sína með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum.

Um 9. gr.


    Meginreglan er, eins og í núgildandi lögum, sbr. 4. gr. LUV, að líftryggingar skuli reka í sérstöku félagi. Rétt þykir þó að heimila undanþágu frá því þegar um áhættulíftryggingar er að ræða sem eru teknar með öðrum vátryggingum og eigi til lengri tíma í senn en 10 ára, og megi þá reka þær í skaðatryggingarfélagi. Þetta á t.d. við um hóptryggingar fyrirtækja og félagasamtaka sem teknar eru sem ein heild í líf-, sjúkra- og slysatryggingum og eðlilegt þykir að verið geti hjá einu og sama félagi.

Um 10. gr.


    Nýmæli er að gerður er greinarmunur á svonefndri „stóráhættu“ og „fjöláhættu“ í frumtryggingum, en til hinnar fyrrnefndu teljast skaðatryggingar einkum í atvinnurekstri og í tilteknum greinaflokkum skaðatrygginga hjá stærri fyrirtækjum, en skaðatryggingar hins almenna vátryggingartaka, fjölskyldna og heimila teljast til hinnar síðarnefndu. Flokkunin er í samræmi við lagareglur EB sem eru hluti EES-samnings og eru samsvarandi hugtök í ensku máli „large risks“ og „mass risks“. Þá er gerður greinarmunur á líftryggingum sem líftryggingartaki tekur að eigin frumkvæði og líftrygginga þar sem um virka sölumennsku er að ræða af hálfu líftryggingarfélags við öflun líftrygginga. Talin er minni þörf á að vernda vátryggingartaka er teljast til fyrrnefndu flokkanna með lagasetningu og opinberu eftirliti en hina síðarnefndu, en þá er talin sérstök þörf á neytendavernd. Eru því ýmis lagaákvæði varðandi starfsemi vátryggingarfélaga mismunandi eftir tegund þeirrar starfsemi sem vátryggingarfélagið rekur, t.d. varðandi skilyrði og veitingu starfsleyfis, eftirlit með starfseminni, skil á gögnum o.fl.
     Nauðsynlegt er að skilgreina nánar með reglugerð hina ýmsu greinaflokka, mörkin milli stór- og fjöláhættu og hvað átt er við með stórfyrirtækjum og minni fyrirtækjum í þessu sambandi. Framangreind skipting er áfangi á leið til frekari rýmkunar reglna hjá EB er einnig er ætlunin að gildi á Evrópsku efnahagssvæði.

Um 11. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er að finna í 5., 14. og 34. gr. LUV. Í 2. mgr. er nýmæli, en rétt þykir að heimila að skrá megi félagsmenn með það fyrir augum að stofna gagnkvæmt félag þó að félagið hafi ekki verið skráð, að því tilskildu að ekki sé stofnað til vátryggingarsamninga eða ábyrgða eða iðgjöld innheimt.

Um 12. gr.


    Í þessari grein eru nýmæli í samræmi við lagareglur EB sem gilda eiga samkvæmt EES-samningnum. Í 2. mgr. er m.a. gerð krafa um að bæði skráð og innborgað hlutafé skuli koma fram í öllum tilkynningum frá félaginu til almennings.
     Einnig er nýmæli, sbr. 3. mgr., að ávallt skal geta nafns og aðseturs aðalstöðva vátryggingarfélags, svo og þess félags sem áhættuna ber. Ekki er samt talin ástæða til að binda í lög samsvarandi ákvæði varðandi vátryggingar er teljast til stóráhættu, nema þegar vátryggingartaki er skuldbundinn samkvæmt vátryggingarsamningi. Þá skulu þessar upplýsingar ávallt koma fram, hvort sem um fjöl- eða stóráhættu er að ræða og ávallt í líftryggingum.

Um 13. gr.


    Þessi grein er efnislega að miklu leyti samhljóða 3. gr. HFL en á hér við um öll félagsform vátryggingarfélaga. Hér er gerð krafa um að stofnendur skuli vera þrír hið fæsta, en til þessa hefur þess verið krafist að stofnendur vátryggingarfélags væru minnst fimm, sbr. 6. og 10. gr. LUV. Samkvæmt HFL skulu þeir vera tveir hið fæsta.
     Felld hefur verið niður krafan um íslenskan ríkisborgararétt stofnenda en gerð krafa um búsetu hér á landi. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá búsetuskilyrðinu enda leiðir það af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Nýmæli er að krafist er óflekkaðs mannorðs og að stofnendur hafi aldrei verið sviptir forræði á búi sínu. Ákvæðið er í samræmi við ákvæði frumvarpa sem lögð hafa verið fram að undanförnu í tengslum við EES-samninginn á fjármálasviði og þykir rétt að gera eigi minni kröfur á vátryggingarsviði en á öðrum sviðum fjármálastarfsemi. Þau sjónarmið komu fram í nefndinni að ákvæðið um að menn hafi aldrei misst forræði á búi sé of strangt og ekki í samræmi við viðtekin viðhorf og venjur á Íslandi.

Um 14. gr.


    Engin ákvæði eru í LUV eða reglugerðum samkvæmt þeim um það sem koma á fram í stofnsamningi vátryggingarfélags. Í 4. og 5. gr. HFL eru ákvæði þessa efnis. Þykir rétt að hliðstæð ákvæði séu í lögum er þá gilda um öll félagsform vátryggingarfélaga.
     Nýmæli er að koma verður fram í stofnsamningi ef stofnað er til félagsins með það fyrir augum að yfirtaka vátryggingarstofna, sbr. 4. mgr., og komi þá fram hvort samningsdrög liggi fyrir og hvort Tryggingaeftirlitið hafi fjallað um málið.
     Ákvæðin eru að öðru leyti efnislega hin sömu og í HFL nema leita þarf undanþágu hjá Tryggingaeftirlitinu ef ætlunin er að greiðslur á hlutum í félaginu verði í öðru en reiðufé, sbr. 15. gr.

Um 15. gr.


    Samkvæmt 6. gr. LUV teljast eingöngu greiðslur í peningum til innborgaðs hlutafjár, en engin hliðstæð ákvæði eru um greiðslur stofnfjár eða ábyrgðarfjár. Hér er lagt til að féð megi að fenginni heimild Tryggingaeftirlitsins greiða með öðrum hætti, en þá liggi fyrir matsgerð um verðmæti þess sem greitt er með. Sama gildir um aðra fjármuni sem lagðir eru fram samkvæmt nánari reglum og ekki eru ætlaðir til greiðslu hluta, sbr. 5. mgr.

Um 16. gr.


    Ekki eru í LUV eða reglugerðum samkvæmt þeim ákvæði um það hvað skuli koma fram í samþykktum vátryggingarfélags, nema í 13. gr. laganna um félagsslit í gagnkvæmum félögum. Í 6. gr. HFL eru ákvæði þessa efnis og þykir rétt að mæla svo fyrir um öll félagsform vátryggingarfélaga. Ákvæðin eru hliðstæð ákvæðum HFL nema ávallt skal getið í samþykktum hvernig ráðstafa skuli hagnaði og mæta skuli halla, svo og hvernig fara skuli með eignir félags við félagsslit. Þá eru nokkur sérákvæði varðandi gagnkvæm félög.

Um 17. gr.


    Greinin er efnislega hliðstæð 9. gr. HFL.

Um 18. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um umsókn um starfsleyfi og gögn sem henni eiga að fylgja. Nýmæli er að kveðið er á um að Tryggingaeftirlitið skuli staðfesta samþykktir vátryggingarfélags.
     Ákvæðið um tilkynningu til skráningar innan sex mánaða frá dagsetningu stofnsamnings er efnislega hliðstætt ákvæðum HFL en hér er kveðið á um að áhættufé skuli að fullu greitt áður en unnt er að skrá félag sem vátryggingarfélag.
     Nýmæli er í samræmi við gerðir samkvæmt EES-samningi að einungis skal gera kröfu um skil sýnishorna vátryggingarskilmála og iðgjaldagrundvallar þegar um fjöláhættu er að ræða, sbr. 10. gr. Eftirlit með öðrum skilmálum og iðgjaldagrundvelli þeirra er þó ekki fellt niður, sbr. 39. gr., en ekki verður um kerfisbundna skoðun fyrir fram að ræða eins og verið hefur.

Um 19. gr.


    Nýmæli er í samræmi við gerðir samkvæmt EES-samningnum að áætlun um fyrirhugaða starfsemi skal lögð fram með umsókn um starfsleyfi. M.a. skal áætla stöðu vátryggingarfélags næstu þrjú bókhaldsárin og gera grein fyrir því hvernig félag hyggst mæta kostnaði og skuldbindingum sínum.

Um 20. gr.


    Í LUV er ekki fjallað um meðferð umsóknar um starfsleyfi að öðru leyti en því að í 34. gr. er kveðið á um að eftirlitið skuli kanna hvort félag, sem sækir um starfsleyfi, fullnægi skilyrðum laga og reglugerða um vátryggingarstarfsemi. Í 5. gr. nefndra laga segir að félag megi ekki hefja starfsemi fyrr en það hefur fengið starfsleyfi og í 14. og 34. gr. að ráðherra veiti leyfi.
     Hér er lagt til almennt ákvæði um að Tryggingaeftirlitið skuli leggja mat á umsókn félags um starfsleyfi og hefur eftirlitið þrjá mánuði, eftir að öll gögn hafa borist, til að ljúka umsögn sinni. Samkvæmt EES-samningnum er gert ráð fyrir sex mánaða fresti í þessu sambandi sem telja verður óþarflega langan tíma miðað við íslenskar aðstæður.
     Lagt er til að ráðherra veiti starfsleyfi eins og í núgildandi lögum, en jafnframt að meðmæli Tryggingaeftirlitsins liggi fyrir. Jafnframt er krafist, líkt og í gerðum EES-samnings, að það skuli stutt rökum og tilkynnt umsækjanda skriflega mæli eftirlitið gegn umsókninni. Hafi félag hins vegar þegar fengið starfsleyfi en hyggst taka upp nýja grein vátrygginga eða breyta starfsemi sinni í verulegum atriðum er lagt til að Tryggingaeftirlitið veiti leyfi.

Um 21. gr.


    Ákvæði um skráningu í vátryggingarfélagaskrá eru nú í reglugerð nr. 463/1981. Hér er lagt til að þessi og önnur atriði um vátryggingarfélagaskrá komi fram í lögunum sjálfum.
     Nýmæli er, sbr. einnig 18. gr., að breytingar á samþykktum vátryggingarfélags öðlast ekki gildi fyrr en Tryggingaeftirlitið hefur samþykkt þær.

Um 22. gr.


    Hliðstæð ákvæði eru í reglugerð nr. 463/1981.

Um 23. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 12. gr. HFL nema bætt er við sérákvæðum um gagnkvæm vátryggingarfélög sem eigi hafa verið áður í lögum um vátryggingarstarfsemi.

Um 24. gr.


    Hér er skilgreint hvaða efnahagsliði skuli telja til gjaldþols vátryggingarfélags. Hliðstæð ákvæði er að finna í reglugerð nr. 482/1981 en þær eru í allnokkrum atriðum samhljóða ákvæðum EES-samningsins. Hér eru notuð sömu hugtök og í núgildandi LUV, þ.e. gjaldþol er eigið fé félags, þegar frá hafa verið dregnar óefnislegar eignir og eignaliðir hafa verið afskrifaðir eða færðir niður nægilega til öryggis og þegar tekið hefur verið tillit til dulinna varasjóða í eignum sem taldir eru af varanlegum toga. Gjaldþol vátryggingarfélags þarf því ekki að vera hið sama og bókfært eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi.
     Þó er ekki lagt til hér, eins og í reglum EB, að telja megi til gjaldþols tiltekinn framtíðarhagnað af líftryggingum sem heimilt er að reikna með samkvæmt nánari reglum. Í meginatriðum eru til gjaldþols taldar eignir samsvarandi áhættufé og sjóðum sem ekki er ætlað að mæta skuldbindingum félagsins en gegna því hlutverki að mæta tapi. Óheimilt er að telja með óefnislegar eignir svo sem viðskiptavild.

Um 25. gr.


    Gjaldþol vátryggingarfélaga skal á hverjum tíma nema tilteknu lágmarki sem reiknað er út eftir ákveðnum reglum með tilliti til þeirrar starfsemi sem rekin er og áhættunnar sem í henni felst. Skilyrði í vátryggingarrekstri er að vátryggingarfélag ráði ávallt yfir nægu fé til að geta örugglega staðið við skuldbindingar sínar og mætt þeirri áhættu sem í starfseminni felst.
     Bregðast verður við hvenær sem ástæða er til að ætla að gjaldþol sé lægra en lágmarksgjaldþol og eru ráðstafanir mismunandi eftir aðstæðum. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið nánar á um hin tæknilegu atriði útreiknings á lágmarksgjaldþoli, sbr. núgildandi reglugerð nr. 482/1981 um það efni. Reglur samkvæmt þeirri reglugerð eru um margt hliðstæðar reglum EB samkvæmt EES-samningnum en í nokkrum atriðum eru gerðar meiri kröfur en nú eru gerðar. Einnig þarf að setja sérstakar reglur um líftryggingarfélög þar eð um þau gilda að nokkru leyti aðrar reglur.

Um 26. gr.


    Greinin er nýmæli og er reist á samsvarandi ákvæðum lagareglna EB og EES-samnings. Mikilvæg forsenda starfsemi og eftirlits með henni á Evrópsku efnahagssvæði er samræmdar lágmarkskröfur um fjárhagsstyrk vátryggingarfélaga.
     Skilgreindur er sérstakur ábyrgðarsjóður vátryggingarfélags sem nemur þriðjungi hins reiknaða lágmarksgjaldþols. Þó má hann aldrei vera lægri en þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í þessari grein en lágmarkið er mismunandi eftir tegund vátrygginga. Sem dæmi má nefna að sé lágmarksgjaldþol líftryggingarfélags reiknað 1,5 millj. ecu skal ábyrgðarsjóður skv. 1. mgr. nema 800 þús. ecu en ekki 500 þús. ecu. Ef sama félag rekur ábyrgðartryggingar ökutækja er ábyrgðarsjóður hins vegar 500 þús. ecu (þriðjungur lágmarksgjaldþols) en ekki lágmarkið 400 þús. ecu skv. 1. mgr. af því að það er lægra. Með ábyrgðarsjóði eru skilgreind þau mörk gjaldþols sem talin eru hættumörk í starfsemi vátryggingarfélags, þ.e. að grípa þurfi til ábyrgðarsjóðs til að mæta skuldbindingum er talin slík hætta á ferðum að grípa verður til skjótra aðgerða til að rétta við hag félagsins, sbr. IX. kafla.
     Fjárhæðirnar eru í samræmi við reglur EB og með því að hafa þær í hinni evrópsku reiknieiningu, ecu, verður ekki þörf á að setja reglugerð ef breyta þarf fjárhæðum til samræmis við gengis- eða verðlagsbreytingar.
     Í gagnkvæmum félögum má taka tillit til ábyrgðar félagsmanna, en þó má aldrei lækka ábyrgðarsjóð um meira en fjórðung saman borið við hlutafélög.

Um 27. gr.


    Greinin er nýmæli. Meginatriðið er að á móti vátryggingarskuldinni skal ávallt vera til staðar hjá félagi tilteknar eignir sem að fjárhæð samsvara henni. Skulu í reglugerð settar sérstakar reglur um tegund og samsetningu þessara eigna. Þetta á bæði við um líftryggingar og aðrar vátryggingar og er hér gert ráð fyrir að reglurnar gildi bæði um frum- og endurtryggingar. Á hinn bóginn eru ekki settar sérstakar reglur um eignir félags, aðrar en þær sem þarf til að mæta vátryggingarskuldinni.
     Mjög strangar reglur eru í gildi í þessu efni varðandi líftryggingar skv. 29. og 30. gr. LUV en engar um aðrar greinar vátrygginga, nema um erlend félög. Samkvæmt frumvarpinu eru felldar niður kröfur um að tilgreina ákveðnar eignir á móti líftryggingarskuldinni og um áritun sérstakra verðbréfa og annarra eigna sem henni samsvarar. Telja má að það kerfi, sem í gildi hefur verið, hafi verið þungt í vöfum og þjóni ekki þeim tilgangi sem því var ætlað.
     Annars vegar eru því reglur um ávöxtun líftryggingarskuldarinnar í líftryggingarfélögum rýmkaðar mjög frá því sem nú er, en hins vegar eru settar sérstakar reglur um vátryggingarskuld annarra greina sem engar reglur hafa gilt um til þessa. Tillögur þessar eru í samræmi við þær reglur sem nú og í náinni framtíð verða í gildi á Evrópsku efnahagssvæði. Tilgangur þessa er að ávallt sé til staðar í vátryggingarfélagi fé sem samsvarar vátryggingarskuldbindingum þess og að settar verði haldgóðar reglur um samsetningu og dreifingu þessa fjár.
     Í 2. mgr. er nýmæli að kveðið er á um að vátryggingarfélag skuli halda skrá yfir þær eignir sem ætlað er að mæta vátryggingarskuld þess og það skal sjá til þess að nýjar eignir verði skráðar þegar breytingar verða. Senda skal Tryggingaeftirlitinu afrit skrárinnar með ársuppgjöri, og á öðrum tíma, t.d. þegar eftirlitið telur ástæðu til að kanna þennan þátt sérstaklega. Þetta fyrirkomulag kemur í stað núgildandi fyrirkomulags varðandi líftryggingarfélögin en er nýmæli varðandi aðrar vátryggingargreinar.

Um 28. gr.


    Í 3. og 4. mgr. eru settar reglur um hækkun og lækkun áhættufjár sem ekki eru í núgildandi lögum um vátryggingarstarfsemi. Lækkun áhættufjár skal ávallt háð samþykki Tryggingaeftirlitsins, einnig ef greiða á hækkun áhættufjár með skuldajöfnuði eða á annan hátt en í reiðufé. Í greininni eru einnig ákvæði um ábyrgðarhluti í gagnkvæmu félagi sem ekki er að finna í núgildandi lögum.

Um 29. gr.


    Greinin er í aðalatriðum efnislega hliðstæð 11. gr. LUV. Þó er lágmarksfjárhæð ábyrgðar vátryggingartaka ekki tilgreind í frumvarpinu, en gert ráð fyrir að alfarið verði kveðið á um ábyrgðina í samþykktum gagnkvæms vátryggingarfélags. Einnig er sú breyting að ekki má undanþiggja vátryggingarfélag sem endurtryggir í gagnkvæmu félagi ábyrgð ef endurtryggingariðgjöld nema meira en 10% heildariðgjalda félagsins. Hlutfallið er nú 20%. Tryggingaeftirlitið getur þó veitt undanþágu í þessu efni.

Um 30. gr.


    Eins og í núgildandi lögum er lagt til að stjórn vátryggingarfélags skipi þrír menn hið fæsta, Hins vegar er lagt til að fellt verði niður ákvæði 3. mgr. 6. gr. um að a.m.k. einn stjórnarmanna vátryggingarhlutafélags skuli valinn sérstaklega með það fyrir augum að gæta hagsmuna vátryggingartaka og hinna vátryggðu reki félagið ekki einvörðungu endurtryggingarstarfsemi. Ekki hefur að ráði reynt á ákvæði þetta í framkvæmd og lítt verið leitað til þeirra stjórnarmanna sem þannig hafa verið valdir um úrlausnir mála. Þó hefur komið fyrir að stjórnvöld hafi bent á þennan sérstaka fulltrúa vátryggingartaka þegar kvartanir hafa beinst gegn tilteknum félögum. Neytendaþjónusta Tryggingaeftirlitsins hefur starfað með formlegum hætti síðan 1981 og er hlutverk hennar m.a. að gegna hliðstæðu hlutverki. Auk þess er neytendaþjónusta í boði á vegum fleiri aðila á vátryggingarsviði. Verður að telja slíkt form heppilegra en það fyrirkomulag sem hér er nú í gildi.
     Ákvæðin um búsetu og hæfisskilyrði stjórnarmanna eru nýmæli, sbr. athugasemdir við 13. gr.
     Ákvæði 2. mgr. er einnig nýmæli í lögum um vátryggingarstarfsemi en er hliðstætt 2. mgr. 70. gr. HFL. en hér ber Tryggingaeftirlitinu að boða til aðalfundar í vátryggingarfélagi.
     Þá er ákvæði 3.–5. mgr. nýmæli. Þar er kveðið á um tilkynningarskyldu stjórnar til Tryggingaeftirlitsins við tilteknar aðstæður, þ.e. þegar stjórnendur öðlast vitneskju um málefni sem geta haft úrslitaþýðingu um starfsemi félagsins, þegar stjórnendur hafa sérstakra fjárhagslegra hagsmuna að gæta vegna þátttöku í umboðs- eða miðlunarstarfsemi vátrygginga og þegar samstæða vátryggingarfélaga er mynduð eða félag mun öðlast meiri hluta eða virk yfirráð í öðru félagi.

Um 31. gr.


    Í LUV eru ákvæði um efni þessarar greinar, sbr. 17. og 39. gr. Helstu frávik frá þeim eru að ekki er gert ráð fyrir ítarlegri upptalningu í lögum á þeim gögnum sem fylgja eiga ársreikningi til Tryggingaeftirlitsins og eðlilegt talið að um það verði settar reglur í reglugerð eða að Tryggingaeftirlitið setji sjálft slíkar reglur, enda getur eftirlitið ávallt krafist þeirra gagna sem það óskar.
     Önnur breyting samkvæmt frumvarpinu er að eftirlitið skal setja félagi hæfilegan frest þegar krafa er gerð um að ársreikningur, sem ekki er í samræmi við lög, reglugerðir eða samþykktir félags, skuli tekinn fyrir á ný á aðalfundi.

Um 32. gr.


    Í 17. gr. og 39. gr. LUV er að finna ákvæði um sama efni en þau eru ítarlegri í nokkrum atriðum samkvæmt frumvarpinu. Tekið er fram að löggiltur endurskoðandi skuli vera sameiginlegur fyrir félagasamstæðu í heild og að Tryggingaeftirlitið geti krafist þess að vátryggingarfélög og hin sérstöku félög, sem mega reka hliðarstarfsemi skv. 7. gr., hafi sama löggilta endurskoðanda. Samsvarandi ákvæði eru í 80. gr. HFL, en á hér við um öll félagsform vátryggingarfélaga.
     Samkvæmt 90. gr. HFL. eiga endurskoðendur hlutafélags rétt á að sitja hluthafafundi. Hér er lagt til að þetta gildi um félagsfundi almennt í vátryggingarfélagi, óháð félagsformi. Þá er lagt til að endurskoðendum verði skylt að mæta á aðalfundi, æski stjórn eða atkvæðisbær maður þess, sbr. 2. mgr.
    Ákvæði 3. mgr. er efnislega hliðstætt samsvarandi ákvæði í 39. gr. LUV en á hér við um endurskoðendur félags yfirleitt en ekki einvörðungu um löggilta endurskoðendur.
     Í 4. mgr. er nýmæli, en þar er kveðið á um á hvaða formi ársreikningur félags skuli vera og um orðalag þegar félag eða samstæða félaga birtir reikning sinn opinberlega.

Um 33. gr.


    Efnislega hliðstæð ákvæðum í 8. og 12. gr. LUV og 107. gr. HFL. Hér er tekið tillit til sérstöðu vátryggingarfélaga sem felst m.a. í kröfum um að gjaldþolsskilyrðum sé fullnægt og vátryggingarskuld félags hafi verið metin með nægilegu öryggi áður en til arðsúthlutunar má koma.

Um 34. gr.


    Hér eru lagðar til verulegar breytingar frá gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að vátryggingarfélag verði almennt að tryggja sér þjónustu tryggingastærðfræðings eða sérfræðings með sambærilega menntun en samkvæmt LUV nær sú skylda eingöngu til líftryggingarfélaga, sbr. 25. og 26. gr. þeirra laga. Ljóst er að jafnmikil nauðsyn getur verið á þjónustu af þessu tagi í félögum sem reka aðra starfsemi en líftryggingarstarfsemi. Mat á áhættu og skuldbindingum vátryggingarfélaga krefst almennt sérfræðiþekkingar enda getur það skipt sköpum um fjárhagsstöðu vátryggingarfélags að rétt sé að því mati staðið. Samkvæmt frumvarpinu er stjórn vátryggingarfélags skylt að sjá til þess að félagið hafi yfir að ráða nægilegri sérþekkingu á þessu sviði. Þó má veita undanþágu frá skyldunni að hafa tryggingastærðfræðing sé að mati Tryggingaeftirlitsins ekki talin þörf á slíku, starfsemin er takmörkuð eða af öðrum ástæðum, sbr. 2. mgr.
     Nýmæli er að lagt er til að tryggingastærðfræðingurinn þurfi ekki sérstakt starfsleyfi tryggingamálaráðherra eins og nú, en að viðurkenning Tryggingaeftirlitsins þurfi að koma til. Samþykki eftirlitið ekki tryggingastærðfræðing sem félag hefur mælt með, er eftirlitinu skylt að rökstyðja ákvörðun sína.

Um 35. gr.


    Hér er hlutverk tryggingastærðfræðings skilgreint í aðalatriðum, sbr. 1. og 2. mgr., en honum ber m.a. að meta reiknigrundvöll, tjónareynslu og vátryggingarskuld félags. Á hinn bóginn er fellt niður ákvæði um að tryggingastærðfræðingur beri ábyrgð á að félagið, sem hann starfar fyrir, fari að tilkynntum reiknigrundvelli líftrygginga o.s.frv., sbr. 26. gr. LUV. Gömul hefð er fyrir svo víðtækri ábyrgð tryggingastærðfræðings í líftryggingarfélagi, einkum á Norðurlöndum, en tímabært þykir að fella niður sérstakar kröfur til þeirra í þessu efni, umfram þá ábyrgð sem þeir eins og aðrir bera í störfum sínum.
     Samkvæmt 3. mgr. getur tryggingastærðfræðingur krafist hvers konar gagna frá félaginu sem hann þarf á að halda til að geta gegnt starfi sínu, sbr. núgildandi ákvæði 26. gr. LUV sem á við um líftryggingar eingöngu en á hér við um allar greinar vátrygginga. Nýmæli er einnig að hann hefur samkvæmt frumvarpinu að jafnaði rétt til að sitja stjórnarfundi og m.a. að láta skrá álit sitt í gerðabók félagsins.
     Nýmæli er einnig skv. 4. mgr., líkt og gildir um endurskoðendur vátryggingarfélaga, að Tryggingaeftirlitið getur krafið tryggingastærðfræðing um upplýsingar um félagið á starfssviði hans.

Um 36. gr.


    Lagt er til að stofnunin, sem eftirlit hefur með starfsemi vátryggingarfélaga, heiti „Vátryggingareftirlitið“ í stað „Tryggingaeftirlitið“ og í frumvarpinu er almennt reynt að fylgja þeirri stefnu eins og unnt er að skeyta „vá-“ fyrir framan „trygging“ til aðgreiningar en trygging merkir einnig ábyrgðir og er oft notað um almannatryggingar. Í samsetningum er þó yfirleitt „vá-“ sleppt, sbr. eignatryggingar, slysatryggingar o.s.frv.

Um 37. gr.


    Hér er gerð tillaga um veigamiklar breytingar frá LUV á yfirstjórn Tryggingaeftirlitsins. Samkvæmt þeim lögum skipar ráðherra forstöðumann ótímabundið og heyrir hann beint undir ráðherra, sbr. 38. gr. laganna. Hér er lagt til samkvæmt meirihlutaáliti nefndarmanna að þriggja manna stjórn, sem skipuð er til fjögurra ára í senn, fari með yfirstjórn stofnunarinnar, einn sé tilnefndur af Neytendasamtökunum, einn af Sambandi íslenskra tryggingafélaga og einn sé án tilnefningar og jafnframt formaður. Hafi stjórnin eftirlit með starfsemi stofnunarinnar, móti stefnu hennar í samráði við forstöðumann og fjalli um öll hin mikilvægari mál.
     Þriggja manna stjórn er talin hæfileg. Nauðsynlegt er að ákveðið trúnaðarsamband sé með stjórnarmönnum og forstöðumanni og hætt við að slíkt samband myndist síður í fjölmennri stjórn, auk þess sem hún hefði í för með sér meiri kostnað. Í samræmi við reglur, sem almennt gilda nú í stjórnkerfinu, er lagt til að skipun forstöðumanns sé tímabundin til sex ára í senn. Er þar fylgt sömu reglu og um skipun forstöðumanns bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
     Skilyrði er skv. 4. mgr. að starfsmenn eftirlitsins séu í störfum sínum óháðir vátryggingarfélögunum eða þeim aðilum öðrum sem falla undir lög þessi og eigi ekki hagsmuna að gæta í þeim eða samtökum þeirra.
     Hæfisskilyrði stjórnarmanna skv. 5. mgr. eru að þeir séu óháðir vátryggingarfélögum og öðrum þeim aðilum sem heyra undir lög þessi. Meiri hluti nefndarinnar telur eðlilegt að tilnefningaraðili, hvort heldur er Samband íslenskra tryggingafélaga eða Neytendasamtökin, geti tilnefnt stjórnarmenn Tryggingaeftirlitsins óbundið að öðru leyti en því að þeir séu ekki í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við einstakt vátryggingarfélag eða félag sem heyrir undir eftirlit Tryggingaeftirlitsins. Þetta skilyrði er sett til að tryggja það að stjórnarmenn séu óháðir sérhagsmunum einstaks vátryggingarfélags og geti í störfum sínum unnið faglega að þeim viðfangsefnum sem fyrir koma hverju sinni. Þessi hæfisskilyrði stjórnarmanna eru einnig nauðsynleg að mati meiri hluta nefndarinnar til þess að stjórnarmenn geti unnið starf sitt af trúmennsku og geti notið eðlilegs trausts og trúnaðarsambands við meðstjórnendur sína og starfsmenn Tryggingaeftirlitsins. Meiri hluti nefndarinnar lítur líka til þess að með þeirri skipan stjórnarinnar, sem hér er gerð tillaga um, skapast grundvöllur fyrir auknu samstarfi neytenda og samtaka vátryggingarfélaga, en slíkt samstarf á öðrum sviðum hefur stuðlað að bættum viðskiptaháttum, auknu öryggi neytandans og ódýrum fljótvirkum valkosti við úrlausn deilumála neytenda við einstök þjónustu- eða verslunarfyrirtæki.
     Ekki er í einstökum greinum frumvarpsins kveðið nánar á um verkaskiptingu í eftirlitinu milli stjórnar og forstöðumanns eða um ákvarðanatöku í einstökum málum að öðru leyti en segir í 2. mgr. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti kveðið nánar á um reglur í því efni.
     Í 6. mgr. er nýmæli þar sem lagt er til að Tryggingaeftirlitinu verði heimilað að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja upplýsingar á því sviði er lögin ná til sé það liður í samstarfi ríkja um eftirlit með vátryggingarstarfsemi og það sé nauðsynlegt til að framfylgja lögmæltu eftirliti. Þagnarskylda í hlutaðeigandi landi er ávallt skilyrði. Sama gildir um upplýsingar sem Tryggingaeftirlitið kann að fá frá öðrum eftirlitsaðilum. Ákvæði þessi eru sett vegna aukinna alþjóðlegra samskipta og aukins frelsis þjónustuviðskipta sem munu hafa í för með sér nauðsyn víðtæks samstarfs eftirlitsaðila í hinum ýmsu löndum og upplýsingamiðlun í auknum mæli og samræmingu eftirlitsreglna.

Um 38. gr.


    Eins og í LUV, sbr. 39. og 42. gr., eru samkvæmt frumvarpinu engar takmarkanir á heimildum Tryggingaeftirlitsins til að gera þær kannanir sem eftirlitið telur ástæðu til hverju sinni á hinum ýmsu þáttum starfseminnar og það á rétt á að fá öll þau gögn og upplýsingar sem það telur þörf á til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu. Samkvæmt frumvarpinu ná þessar heimildir nú einnig til leyfilegrar hliðarstarfsemi félaganna, sbr. 7. gr., að því leyti sem nauðsyn krefur, svo og til starfsemi miðlara og umboðsmanna, sbr. VII. kafla.
     Í 2. mgr. er kveðið á um hvað gera skuli ef vátryggingarfélag lætur ekki í té gögn skv. 1. mgr. eða ráðstafanir sem krafist er í framhaldi kannana eru ekki gerðar innan tilskilins frests. Þá ber Tryggingaeftirlitinu að tilkynna það ráðherra og gera tillögu um hvað gera skuli. Í 43. gr. LUV er mjög almennt ákvæði sem spannar mjög vítt svið um það hvenær eftirlitið skuli grípa til ráðstafana og tilkynna ráðherra um mál, svo sem vegna athugasemda við skilmála eða þegar félag er ekki gjaldhæft, og þar er ekki kveðið á um fresti. Í frumvarpinu er skilgreint nánar hvenær beri að vísa málum til ráðherra og með hvaða hætti, og hvenær tillögur skuli lagðar fyrir hann um frekari ráðstafanir, sbr. IX. kafla. Mál af þessu tagi eru mjög viðkvæm og mikilvægt að vel sé að þeim staðið, nægra upplýsinga og gagna sé aflað og framhaldið fari eftir eðli þess og mikilvægi og eftir því hverjar afleiðingarnar kunna að verða hverju sinni. Því er, sbr. seinasta málslið 2. mgr., gert ráð fyrir í tilvikum sem hér um ræðir að félagið verði upplýst um stöðu máls áður en tilkynning til ráðherra er send þannig að því gefist lokakostur á að koma að frekari gögnum eða að gera umbeðnar úrbætur.

Um 39. gr.


    Í þessari grein eru meginatriðin á verksviði Tryggingaeftirlitsins skilgreind, þ.e. könnun á gjaldhæfi og greiðsluhæfi, að leggja mat á vátryggingarskuldina, að kanna skilmála og iðgjaldagrundvöll, að hafa eftirlit með viðskiptaháttum, sölustarfsemi og tjónsuppgjöri og að starfrækja neytendamáladeild. Öll þessi svið hafa verið á verkefnaskrá Tryggingaeftirlitsins frá upphafi enda talin rúmast innan ramma LUV þótt ákvæði þar að lútandi séu misítarleg. Starfsemin hefur og verið reist á almennri stefnumörkun og markmiðum laga um vátryggingarstarfsemi.
     Ákvæði 1. mgr. um könnun á gjaldhæfi og greiðsluhæfi er að finna í 41. gr. LUV og í reglugerð nr. 482/1981 um það efni. Lagt er til að regla 3. mgr. 41. gr. falli niður. Eftirlitið skuli því aðeins tilkynna félagi um niðurstöður könnunar hafi það athugasemdir fram að færa. Ekki er þörf á að kveða sérstaklega á um í lögum að félagi skuli almennt gefinn kostur á að koma að athugasemdum eða skýringum þar eð slíkt leiðir af eðlilegu verklagi í eftirlitsstarfi. Hins vegar getur staða félags verið þannig að grípa þurfi til ráðstafana þegar í stað í samræmi við ákvæði IX. kafla og Tryggingaeftirlitið verður í slíkum tilvikum að geta tekið ákvarðanir án tafar.
     Ítarleg og ströng ákvæði eru í LUV um eftirlit með vátryggingarskilmálum og iðgjöldum vátryggingarfélaga, sbr. 40. gr. LUV. Senda skal alla fyrirhugaða skilmála og breytingar á þeim fyrir fram til eftirlitsins til skoðunar og getur eftirlitið krafist þess að ákvæði sem það samþykkir ekki verði numin brott. Sama gildir samkvæmt lögunum um iðgjöld. Samkvæmt 3. og 4. mgr. frumvarpsins eru ákvæðin um eftirlit fyrir fram með skilmálum og iðgjöldum felld niður. Samkvæmt því verða skilmálar og iðgjöld vátryggingarfélaga alfarið á ábyrgð félaganna, en Tryggingaeftirlitið skal eftir sem áður hafa eftirlit með þessum þáttum og það getur áfram krafist gagna hvenær sem er og gert þær kannanir sem það telur þörf á með sama hætti og á öðrum sviðum starfseminnar. Senda skal almenna skilmála og upplýsingar um iðgjaldagrundvöll með umsókn um starfsleyfi og þegar félag hyggst taka upp nýjar greinar vátrygginga í greinum sem teljast til fjöláhættu, sbr. 18. gr. frumvarpsins, og ávallt þegar um lögboðnar vátryggingar er að ræða.
     Engin bein ákvæði eru um starfsrækslu neytendamáladeildar í LUV en Tryggingaeftirlitið hefur eftir föngum sinnt kvörtunarþjónustu frá upphafi (1974) en frá 1981 hefur verið um formlega auglýsta þjónustu að ræða. Þjónusta af því tagi er nauðsynlegur þáttur í eftirliti með vátryggingarskilmálum og iðgjöldum, sölustarfsemi, tjónsuppgjöri og viðskiptaháttum vátryggingarfélaga. Slík starfsemi veitir eftirlitsaðila mikilvæga vitneskju um hvar skórinn helst kreppir í þessum efnum og hvaða atriði það eru sem eftirlitinu ber að fylgja eftir með sérstökum könnunum og öðrum ráðstöfunum. Neytendaþjónustan hefur um árabil mætt þörf sem óumdeilanlega hefur verið fyrir hendi á þessu sviði. Hér er lagt til að lögfest verði, sbr. 5. mgr., að eftirlitið skuli rækja neytendamáladeild og að um hana verði settar almennar reglur sem kynntar skuli vátryggingarfélögunum.
     Starfræksla neytendamáladeildar hjá Tryggingaeftirlitinu sem liður í eftirliti með vátryggingarstarfsemi og eftirliti með framkvæmd laga um þá starfsemi kemur ekki í veg fyrir að þörf geti verið fyrir neytendaþjónustu á þessu sviði á vegum fleiri aðila eins og tíðkast í nálægum löndum, svo sem á vegum vátryggingarfélaga og neytendasamtaka.

Um 40. gr.


    Hér er kveðið á um hvernig standa skuli straum af kostnaði við rekstur Tryggingaeftirlitsins. Er sú stefna óbreytt samkvæmt frumvarpinu sem verið hefur og er í nálægum löndum að litið er svo á að starfsemi eftirlitsins sé fyrst og fremst í þágu vátryggingartaka og vátryggðra og því rétt að kostnaður við starfsemi eftirlitsins sé borinn af þeim og greiddur af vátryggingaraðilum.
     Lagt er til að fyrirkomulag álagningar og innheimtu eftirlitsgjaldsins verði í aðalatriðum óbreytt frá gildandi lögum, sbr. 46. gr. LUV, sbr. lög nr. 56/1982, nema að einnig er lagt gjald á miðlunar- og umboðsstarfsemi, sbr. VII. kafla, þar eð slík starfsemi verður samkvæmt frumvarpinu skráningar- og eftirlitsskyld starfsemi.
     Gerðar eru nokkrar efnislegar breytingar á fyrirkomulagi álagningar, útreiknings og innheimtu. Í stað þess að ákveðið verði fyrir fram tiltekið álagningarhlutfall iðgjalda er lagt til að endanleg álagning verði ákveðin þegar reikningsskil eftirlitsins og heildarútgjöld liggja fyrir frá Ríkisbókhaldi. Álagning eftirlitsgjalds til bráðabirgða verði þó, eins og nú, leiðrétt þegar á yfirstandandi ári þegar ársreikningar félaganna hafa borist.
     Nýmæli er samkvæmt frumvarpinu að felld er niður ábyrgð ríkissjóðs á greiðslu kostnaðar umfram álagt gjald. Í staðinn er lagt til að hámark eftirlitsgjalds verði hækkað til að auka svigrúm vegna óvæntra útgjalda, t.d. vegna ófyrirséðra verðlagsbreytinga. Hér er lagt til að hámark þess sem leggja má á vátryggingarfélag í frumtryggingu hækki um þriðjung frá núgildandi lögum. Á hinn bóginn er álagning vegna endurtrygginga lækkuð um þriðjung þar eð í raun eru lögð tvisvar á innlend endurtryggingariðgjöld með núgildandi fyrirkomulagi. Álagning á endurtryggingariðgjöld eru óverulegur hluti eftirlitsgjalds og hefur sú lækkun því lítil áhrif á heildartekjur eftirlitsins.
     Þá er nýmæli að heimilt verður samkvæmt frumvarpinu, sbr. 5. mgr., að leggja á einstök félög sérstakt gjald þegar þörf er sérstakra kannana sem ekki telst eðlilegt að jafna á öll félögin og ákveði Tryggingaeftirlitið álagningu þess.
     Kostnaðaráætlun eftirlitsins skal senda ráðherra til staðfestingar. Miðlunar- og umboðsstarfsemi er nú mjög lítil hér á landi og gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um álagningu gjalds á slíka starfsemi.
     Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi aðilar eigi greiðan aðgang að áætlunum eftirlitsins og upplýsingum um það sem að baki þeim liggur.

Um 41. gr.


    Samkvæmt 16. gr. LUV er skilyrði þess að erlent vátryggingarfélag megi reka vátryggingarstarfsemi hér á landi að það hafi hér fasta atvinnustöð (aðalumboð) og einn aðalumboðsaðila sem hefur heimild til að skuldbinda félagið hér á landi og það hafi hér varnarþing. Samkvæmt EES-samningnum er gert ráð fyrir að einnig megi heimila á Evrópsku efnahagssvæði að reka vátryggingarstarfsemi þótt ekki sé um formleg aðalumboð eða útibú að ræða, annaðhvort með starfsliði hins erlenda félags eða af sjálfstæðum aðila, enda sé skilyrði að félagið tilnefni og tilkynni fulltrúa sem heimild hefur til að skuldbinda það hér á landi og að slík starfsemi verði skráð hér. Þegar um er að ræða vátryggingargreinar sem teljast til stóráhættu eða líftryggingar sem teknar eru að eigin frumkvæði líftryggingartaka er þó ekki krafist sérstakrar atvinnustöðvar eða sérstaks fulltrúa nema í undantekningartilvikum, sbr. 43. gr.

Um 42. gr.


    Erlend félög, sem hafa í hyggju að reka vátryggingarstarfsemi hér á landi í fjöláhættugreinum, skulu senda umsókn um starfsleyfi og skráningu í vátryggingarfélagaskrá til Tryggingaeftirlitsins með sama hætti og innlend félög og eru reglur samkvæmt frumvarpinu óbreyttar frá því sem verið hefur í þessum efnum. Gert er ráð fyrir að eftirlitið hafi sex mánuði til að fjalla um umsóknina og er sú regla í samræmi við ákvæði EES-samningsins.

Um 43. gr.


    Reglur tilskipana EB um skaðatryggingar, sem eru hluti EES-samningsins, opna leið fyrir vátryggingarfélög með aðalstöðvar á Evrópsku efnahagssvæði að bjóða vátryggingar á svæðinu í stóráhættugreinum án sérstakrar atvinnustöðvar þar sem vátryggt er. Samsvarandi reglur um líftryggingar heimila einstaklingum að kaupa líftryggingar hjá líftryggingarfélagi sem starfar án atvinnustöðvar í heimaríki hans kaupi hann líftrygginguna að eigin frumkvæði, þ.e. félagið má ekki með auglýsingum og sölumennsku eða með öðrum hætti sækjast eftir viðskiptunum. Skilyrði er að félagið hafi fengið starfsleyfi eftirlitsstjórnvalda í heimaríki sínu og skal umsókn um leyfi til að veita þjónustu með þessum hætti beint til þeirra. Umsóknina má skoða sem tilkynningu um að félagið hafi í hyggju að veita umrædda þjónustu. Eftirlitsstjórnvöld þess ríkis skulu þá senda Tryggingaeftirlitinu hér á landi m.a. staðfestingu þess að félagið uppfylli tilskildar kröfur um gjaldþol vegna starfseminnar í heild og að það hafi starfsleyfi í þeim greinum sem það hyggst veita þjónustu. Félaginu er ekki skylt að hafa hér á landi sérstakan fulltrúa nema um sé að ræða þjónustu án atvinnustöðvar í lögboðnum ábyrgðartryggingum ökutækja.
     Ekki eru gefin út sérstök starfsleyfi og félagið má hefja starfsemina og veita þjónustu þegar Tryggingaeftirlitið hefur fengið öll tilskilin gögn í hendur.

Um 44. gr.


    Sambærilegt ákvæði þessarar greinar er í 12. gr. frumvarpsins og er nýmæli. Mikilvægt er að fram komi í gögnum til almennings og til vátryggingartaka sem erlent vátryggingarfélag sendir frá sér vegna starfsemi hér á landi, hvar aðalstöðvar þess eru erlendis og hvar það félag er sem ber vátryggingaráhættuna ef ekki er um sama félag að ræða, og það er mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir áður en gengið er frá vátryggingarsamningum.
     Ekki er talin ástæða til að vernda með sama hætti í lögum þá sem vátryggja stóráhættu hjá erlendum félögum og er þá vátryggingarfélaginu ekki skylt að láta þessar upplýsingar ávallt koma fram, nema í bindandi tilboðum frá félaginu og í vátryggingarsamningum þar sem skylt er að þær komi fram, svo og ávallt í líftryggingum.

Um 45. gr.


    Ákvæði III. kafla um fjárhagsskilyrði gilda einnig um erlend félög á Evrópsku efnahagssvæði, en reglur þessar verða í samræmi við gerðir EB sem eru hluti EES-samningsins. Hér er kveðið á um að í fjöláhættugreinum skuli fjármunir er nema minnst ábyrgðarsjóði vera til ráðstöfunar hér á landi, svo og fjármunir er samsvara vátryggingarskuldinni. Ekki er samkvæmt EES-samningnum heimilt að gera kröfu um bundið geymslufé, sbr. samsvarandi ákvæði 49. gr. frumvarpsins um félög utan EES.

Um 46. gr.


    Hér er kveðið á um flutning vátryggingarstofna erlendra félaga sem hafa aðsetur á Evrópsku efnahagssvæði. Meginreglan er að eftirlitsstjórnvöld heimaríkis félags, sem tekur við stofninum, skal staðfesta að gjaldþol þess félags sé fullnægjandi að teknu tilliti til hins nýja stofns. Samþykki Tryggingaeftirlitsins fyrir flutningi stofnsins þarf þó ávallt að liggja fyrir, einnig í þeim tilvikum er félag rekur starfsemi í stóráhættugreinum eða í líftryggingum án atvinnustöðvar. Auglýsa skal í Lögbirtingablaði og tilkynna vátryggingartökum eftir reglum sem gilda hér á landi.
     Þegar félagið, sem tekur við stofninum, er ekki staðsett í heimaríki sínu, þ.e. ekki er um aðalstöðvar þess að ræða, þarf einnig að hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld þess ríkis um flutninginn.

Um 47. gr.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að erlend vátryggingarfélög sem hér starfa, hvort sem þau eru staðsett innan eða utan Evrópsks efnahagssvæðis, séu almennt háð opinberu eftirliti hér á landi með hliðstæðum hætti og innlend vátryggingarfélög og að Tryggingaeftirlitið hafi yfirleitt sömu skyldum að gegna í eftirlitshlutverki sínu og hafi jafnríkar heimildir til afskipta af starfseminni, hvort sem um innlend eða erlend félög er að ræða. Stefnumörkunina í þessum efnum er að finna í 38. og 39. gr. frumvarpsins og þær greinar eiga einnig við um erlend félög sem hér starfa.
    Þó ber að hafa í huga að EES-samningurinn hefur í för með sér að starfsleyfi í stóráhættugreinum og að hluta í líftryggingum er gefið út í heimaríki félags og það gildir alls staðar á Evrópsku efnahagssvæði. Eftirlit, einkum fjárhagslegt eftirlit með þeirri starfsemi, er að miklu leyti í höndum eftirlitsstjórnvalda heimaríkis, t.d. eftirlit með því að skilyrðum um gjaldþol sé fullnægt, mat á vátryggingarskuld, afturköllun starfsleyfis o.s.frv. Þó getur Tryggingaeftirlitið undir vissum kringumstæðum gripið til ráðstafana þegar starfsemi er rekin án atvinnustöðvar, sbr. 3. mgr.
     Þegar um fjöláhættugreinar er að ræða er starfsleyfi atvinnustöðvar gefið út hér á landi, en ábyrgðin á því að gjaldþolskröfum sé fullnægt hvílir engu að síður á eftirlitsstjórnvöldum heimaríkis hins erlenda félags, svo og mat á vátryggingarskuldinni. Skal eftirlitið hér á landi veita eftirliti heimaríkis allar nauðsynlegar upplýsingar í þessum efnum, sbr. 2. mgr. Einnig skal samráð haft við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis áður en starfsleyfið hér er afturkallað, sbr. 1. mgr.
     Óháð því sem hér segir um eftirlitsskyldu erlendra eftirlitsstjórnvalda með starfsemi erlendra félaga hér á landi er sú stefna mörkuð í frumvarpinu að Tryggingaeftirlitinu sé skylt að hafa eftirlit með starfsemi félaga sem hér starfa með hliðstæðum hætti, hvort sem um er að ræða innlend eða erlend félög og hvort sem þau eru staðsett innan eða utan Evrópsks efnahagssvæðis. Afskipti af starfseminni og kröfur um ráðstafanir yrðu þó í ríkari mæli í samráði við erlend eftirlitsstjórnvöld þegar um er að ræða erlend félög á Evrópsku efnahagssvæði.

Um 48. gr.


    Um erlend félög sem hafa aðsetur utan Evrópsks efnahagssvæðis gilda samkvæmt frumvarpinu hliðstæðar reglur og í gildi eru samkvæmt núgildandi LUV, þ.e. hér verður að vera föst atvinnustöð í formi aðalumboðs og einn aðalumboðsmaður með heimilisfesti hér á landi og varnarþing.
     Gert er að skilyrði starfsleyfis hér á landi að íslensk vátryggingarfélög njóti ekki lakari réttar í heimalandi félagsins en hið erlenda félag hér. Það hefur væntanlega í för með sér að eftirlitsstjórnvöldum hér á landi yrði skylt að kanna hjá eftirlitsstjórnvöldum heimaríkis hvort sambærilegt félag gæti fengið starfsleyfi þar og með hvaða skilyrðum áður en afstaða yrði tekin til starfsleyfisveitingar.
     Þess má geta að samkvæmt EES-samningnum ber eftirlitsstjórnvöldum hér á landi að hafa samráð við stofnanir EB og EFTA um veitingu starfsleyfis til félaga utan svæðisins og sérreglur gilda um aðild þeirra að svæðinu öllu. Sama gildir að sjálfsögðu um eftirlitsstjórnvöld aðildarríkja gagnvart eftirlitsstjórnvöldum hér á landi.

Um 49. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að erlend vátryggingarfélög utan Evrópsks efnahagssvæðis lúti yfirleitt hliðstæðum reglum og skilyrðum og félög innan þess þegar umsókn um starfsleyfi og skilyrði leyfis eru annars vegar. Þó er sá munur á að sömu reglur gilda um stóráhættugreinar og fjöláhættugreinar þegar félög utan svæðisins sækja um starfsleyfi enda er þeim ekki heimilt að reka hér starfsemi án fastrar atvinnustöðvar. Þá er krafist geymslufjár af þessum félögum eins og nánar segir í 2. mgr. og þau skulu meta og ávaxta vátryggingarskuldina eftir þeim reglum sem gilda hér á landi.

Um 50. gr.


    Hér er með hliðstæðum hætti og í LUV kveðið á um skil á gögnum til Tryggingaeftirlitsins um starfsemina hér á landi, en einnig um ársreikning hins erlenda félags sem skal sendur eftirlitinu. Nýmæli er að kveðið er á um skyldu aðalumboðsmanns að skýra eftirlitinu frá því ef eftirlitsstjórnvöld heima fyrir gera athugasemd við starfsemi þess eða meiri háttar breytingar verði á högum þess, sbr. 2. mgr.

Um 51. gr.


    Tryggingaeftirlitið setur félaginu tiltekinn frest til úrbóta brjóti félagið lög og reglugerðir um vátryggingarstarfsemi eða vanræki skyldur sínar og hefur eftirlitið mjög víðtækar heimildir til afskipta geri félagið ekki nauðsynlegar úrbætur innan þess frests og sé talið að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé stefnt í hættu ef ekkert verður að gert.
     Nýmæli er að Tryggingaeftirlitið getur útnefnt nýjan aðalumboðsmann til að ljúka viðskiptum og uppgjöri vegna starfseminnar hér og heimilað honum að ráðstafa eignum félagsins. Tryggingaeftirlitið getur einnig heimilað flutning vátryggingarstofnsins til annarra félaga sem leyfi hafa til vátryggingarstarfsemi hér á landi og sett líftryggingarstofn undir sérstaka stjórn.

Um 52. gr.


    Ákvæðin eru hliðstæð ákvæðum IX. kafla. Tryggingaeftirlitinu ber að taka ákvörðun um ráðstöfun vátryggingarstofns hins erlenda félags sé þannig komið málum að starfsleyfi hefur verið afturkallað. Skal ákveðið hvort þess skuli freistað að yfirfæra stofninn til eins eða fleiri félaga hér á landi eða skuldbindingum skuli lokið á annan hátt. Þá getur Tryggingaeftirlitið takmarkað og jafnvel bannað félaginu yfirráð yfir eignum sínum og fjármunum hér á landi.

Um 53. gr.


    Gert er ráð fyrir að hið erlenda félag verði ekki máð úr vátryggingarfélagaskrá fyrr en viðskiptum og uppgjöri vegna starfseminnar er að fullu lokið og tekur Tryggingaeftirlitið ákvörðun um hvenær það getur átt sér stað.
     Ekki er unnt að leysa geymslufé sem félagið hefur lagt fram fyrr en félagið hefur fært sönnur á að staðið hafi verið við allar skuldbindingar eða nægilega há trygging hafi að mati Tryggingaeftirlitsins verið lögð fram.

Um 54. gr.


    Vátryggingarstarfsemi er háð sérstöku starfsleyfi stjórnvalda. Almenna reglan er sú, sbr. 1. mgr. 22. gr. LUV, að enginn megi hafa atvinnu af því að miðla vátryggingum til vátryggingarfélaga sem ekki hafa starfsleyfi á Íslandi og gildir sú meginregla áfram samkvæmt frumvarpinu. Á hinn bóginn er fellt niður ákvæði 2. mgr. 22. gr. LUV sem gerir einstaklingum og öðrum skylt að sækja um leyfi til ráherra hyggist þeir vátryggja erlendis verðmæti sem eru eign viðkomandi. Erfitt er um vik að framfylgja slíku ákvæði og það er í andstöðu við almenn ákvæði EES-samningsins.
    Heimilt verður að miðla vátryggingum í stóráhættugreinum til vátryggingarfélaga á Evrópsku efnahagssvæði, svo og líftryggingum teknum að eigin frumkvæði líftryggingartaka, enda verði gætt skilyrða 43. gr., m.a. um tilkynningarskyldu vátryggingarfélagsins til eftirlitsstjórnvalda heimaríkis og um skyldu þess eftirlits að láta Tryggingaeftirlitinu í té tiltekin gögn og upplýsingar.
     Rétt þykir að veita heimild til undanþágu frá meginreglunni þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, sbr. 2. mgr. sem er nýmæli, svo sem þegar áhætta er af því tagi að hún fæst ekki vátryggð hjá félögum sem hér hafa starfsleyfi eða stærðargráða hennar, umfang eða eðli er slíkt að æskilegt sé, eða jafnvel nauðsyn beri til, að fá fleiri aðila til að taka þátt í að bera vátryggingaráhættuna.

Um 55. gr.


    Greinin er nýmæli. Hér er miðlunar- og umboðsstarfsemi í vátryggingum, sem rekin er sem sjálfstæð atvinnustarfsemi, skilgreind. Skilgreiningin er í samræmi við ákvæði tilskipunar EB á þessu sviði sem er hluti EES-samningsins. Gerður er greinarmunur á vátryggingarmiðlurum sem starfa hlutlaust gagnvart vátryggingarfélögum og ekki á vegum þeirra og vátryggingarumboðsmönnum sem starfa fyrir tiltekin vátryggingarfélög. Þriðji hópur starfsmanna á þessu sviði eru vátryggingarsölumenn einstakra vátryggingarfélaga sem bjóða vátryggingar í þeirra nafni og eru annaðhvort fastir starfsmenn þeirra eða lausráðnir til sölustarfa.

Um 56. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skilyrði leyfis til miðlunar- og umboðsstarfsemi sem rekin er sem sjálfstæð atvinnustarfsemi og hún skal skráð hjá Tryggingaeftirlitinu og vera undir eftirliti þess. Hér á landi er nú enga sérmenntun eða þjálfun að fá á þessu sviði og er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur þar um, svo og um tryggingar sem lagðar skulu fram.

Um 57. gr.


    Í þessari grein er starfssvið og starfsreglur þeirra sem þessi kafli fjallar um skilgreint. Auk hlutverks síns að aðstoða við að koma á vátryggingarsamningi ber vátryggingarmiðlara einnig skv. 1. mgr. að veita áfram almenna aðstoð, svo sem við endurnýjun samnings og leiðbeiningar þegar tjón ber að höndum, hafi hann miðlað vátryggingunni. Sérstakar reglur eru settar um miðlun líftrygginga til líftryggingarfélaga sem hér hyggjast veita þjónustu án sérstakrar atvinnustöðvar og um undirritun sérstakra yfirlýsinga hjá miðlara í þeim efnum, sbr. 3. mgr. Þessar reglur eru í samræmi við ákvæði 2. tilskipunar um líftryggingar er gildir samkvæmt EES-samningnum og er ætlað að tryggja það að líftryggingartaka sé ljóst frá byrjun að um hið erlenda líftryggingarfélag, sem hann leitar upplýsinga hjá, gilda reglur sem áhrif geta haft á réttarstöðu hans samkvæmt vátryggingarsamningi og að eftirlitsreglur erlends ríkis gilda. Einnig felst í yfirlýsingunni staðfesting líftryggingartakans á því að hann leiti að eigin frumkvæði upplýsinganna.
     Vátryggingarumboðsmaður skal einnig láta líftryggingartaka undirrita yfirlýsinguna um að honum sé ljóst að lög og reglur erlends ríkis geta í einstökum atriðum gilt um þá líftryggingu sem hann hyggst taka og um það líftryggingarfélag sem hann hyggst skuldbinda sig hjá. Yfirlýsingar um „eigið frumkvæði líftryggingartaka“ er hins vegar ekki þörf í því tilviki þar eð vátryggingarfélagi því, sem umboðsmaðurinn starfar fyrir hér á landi, ber að hafa hér starfsleyfi eða heimild til að veita þjónustu.
     Skilyrði þóknunar til miðlara er að vátryggingarsamningur hafi komist á og hann skal svo fljótt sem auðið er koma fjármunum sem hann tekur við og eru í vörslu hans í hendur réttra aðila. Hann skal að öllu leyti halda fjármunum þessum aðgreindum frá eigin fjármunum. Þá er hann skyldugur að upplýsa viðskiptavini um þá þóknun er hann fær frá vátryggingarfélagi vegna viðskiptanna ef þess er óskað.
     Miðlarinn er einnig skyldugur að veita Tryggingaeftirlitinu upplýsingar um þá samninga sem hann á aðild að og er það ákvæði í samræmi við EES-samninginn. Samsvarandi upplýsinga getur eftirlitið aflað um vátryggingarumboðsmenn sem starfa fyrir félög sem starfsleyfi hafa hér á landi.
     Í 1. málsl. 2. mgr. er kveðið á um sjálfsagða skyldu umboðsmanna og sölumanna að upplýsa viðskiptavini um skilmála og iðgjöld áður en gengið er frá vátryggingarsamningi. Í 2. málsl. sömu málsgreinar er vátryggingarfélagi gert skylt að sjá til þess að starfsemi sölumanna þeirra fari fram með hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum.

Um 58. gr.


    Hér er gerð sú krafa að í öllu sem frá vátryggingarmiðlurum eða vátryggingarumboðsmönnum fer til almennings skuli koma fram að þeir séu skráðir. Sölumenn skulu bera og framvísa skilríkjum við störf sín. Í 23. gr. LUV eru ákvæði um að sölumenn skuli bera skilríki en hér er gengið lengra og kveðið á um skyldu til að framvísa þeim.
     Einnig er kveðið á um hliðstæða almenna reglu um upplýsingaskyldu þegar annar aðili en vátryggingarfélagið sjálft annast milligöngu um viðskiptin við vátryggingartaka og vátryggða en þá ber ávallt að láta þess getið í gögnum hvaða vátryggingarfélag beri áhættuna. Dæmi um þetta er móðurfélag sem rekur tilteknar greinar en annast þjónustu og sölumennsku fyrir dótturfélag eða félög í öðrum greinum. Í 23. gr. LUV eru ákvæði af hliðstæðum toga.
     Þá er kveðið á um þá skyldu að senda Tryggingaeftirlitinu undirritaða ársreikninga og þeir skulu vera endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Tryggingaeftirlitinu ber að hafa eftirlit með því að vátryggingarmiðlarinn starfi sjálfstætt og skal miðlarinn gera grein fyrir því hversu dreifð viðskiptin eru á einstök vátryggingarfélög. Þetta ákvæði er samhljóða ákvæði í gerðum EES-samningsins.

Um 59. gr.


    Halda skal sérstaka skrá hjá Tryggingaeftirlitinu yfir vátryggingarmiðlanir og vátryggingarumboð sem skráð eru og um þá starfsmenn sem heimild hafa til að bera heitin vátryggingarmiðlari og vátryggingarumboðsmaður.
     Þeir sem skráðir hafa verið greiða gjald til Tryggingaeftirlitsins vegna eftirlits með starfseminni og setur ráðherra reglur þar um.
     Séu skilyrði leyfis til starfseminnar ekki lengur uppfyllt skal fella viðkomandi miðlara eða umboðsmann af skrá. Þó er gert ráð fyrir að veita megi viðvörun og frest telji Tryggingaeftirlitið það fullnægjandi, eðli máls samkvæmt.
     Tryggingaeftirlitinu ber einnig að fylgjast með því að starfsemi af þessu tagi sé ekki rekin hér á landi án leyfis og að gera kröfur um að slíkri starfsemi verði hætt og fylgja eftir slíkum kröfum.

Um 60. gr.


    Greinin er í aðalatriðum hliðstæð 20. gr. LUV en nokkuð ítarlegri. Tekið er fram að drög að samningi um flutning vátryggingarstofns skuli liggja fyrir þegar sótt er um leyfi og að drögin skuli fylgja umsókninni. Sú kvöð er lögð á eftirlitið að taka án tafar afstöðu til þess hvort ástæða sé til að synja strax um færslu stofnsins. Þá er tekið fram að athugasemdir vátryggingartaka og vátryggðra skuli vera skriflegar og að frestur til að skila þeim skuli eigi vera skemmri en einn mánuður. Einnig er kveðið á um að samtímis auglýsingu í Lögbirtingablaði skuli hverjum og einum tilkynnt um fyrirhugaða færslu og vakin athygli á auglýsingu eftirlitsins.
     Lagt er til að Tryggingaeftirlitið veiti leyfi til yfirfærslu stofna, sbr. 3. mgr. Samkvæmt 20. gr. LUV veitir ráðherra leyfi að fengnum meðmælum eftirlitsins.
     Tryggingaeftirlitinu ber að gæta þess að réttarstaða vátryggingartaka og vátryggðra verði eigi lakari eftir flutning stofns en áður. Vátryggingarsamningar halda sjálfkrafa gildi sínu, vátryggingartakar eru ekki sjálfkrafa lausir frá samningum sínum við flutning stofnsins. Nýmæli er að heimild er til að segja upp samningi skriflega innan eins mánaðar frá flutningsdegi, sbr. 4. mgr.

Um 61. gr.


    Sbr. 21. gr. LUV. Orðalagi og hugtökum er breytt í það horf sem er að finna í tilskipunum félagaréttar EB um hlutafélög sem verða hluti EES-samningsins. Gilda hér hliðstæð ákvæði um öll félagsform vátryggingarfélaga.
     Í þessari grein er fjallað um samruna af tvennum toga. Annars vegar er átt við „samruna með yfirtöku“ þegar félag yfirtekur allar eignir eins eða fleiri félaga sem slitið er án þess að skiptameðferð komi til og án stofnunar nýs félags, hins vegar „samruna með stofnun nýs félags“ þegar hið sama og áður segir á sér stað nema nýtt félag er stofnað sem yfirtekur allar eignir og skuldir. Á þessu er ekki ýkja mikill munur frá sjónarmiði laga um vátryggingarstarfsemi og skilyrði er ávallt að leyfi til yfirfærslu stofna liggi fyrir fyrir skv. 60. gr.
     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig, eftir því sem við getur átt, um félög sem reka hliðarstarfsemi sem vátryggingarfélögum er heimilt að reka í sérfélögum, sbr. 7. gr.
     Nýmæli er að kveða á um að heimila megi samruna þó að einhver þeirra félaga sem hlut eiga að máli gangist undir skiptameðferð, sbr. 3. mgr. Skilyrði er þá ávallt að ekki hafi verið hafist handa við að úthluta eignum til eigenda í þeim félögum.

Um 62. gr.


    Greinin er nýmæli. Tilgreind eru helstu atriðin sem koma eiga fram í samrunasamningi, svo sem skiptihlutföll bréfa og greiðslur fyrir hluti, réttindi til arðs og hlunninda og um breytingar sem verða á réttindum eigenda við samrunann. Einnig er gerð krafa um að lögð verði fram reikningsuppgjör, svo og nýjar samþykktir eða breytingar á þeim. Skort hefur ákvæði um þessi atriði varðandi vátryggingarfélög en í hlutafélagalögum og í gerðum EB, sem eru hluti EES-samningsins, eru samsvarandi ákvæði.

Um 63. gr.


    Hér er lagt til að Tryggingaeftirlitið veiti leyfi til samruna eins og til yfirfærslu stofna. Nýmæli er að eftirlitið skal, áður en það veitir leyfi, leggja mat á hvort það telji nægilega gætt hagsmuna annarra kröfuhafa en vátryggingartaka og vátryggðra.

Um 64. gr.


    Í 43. gr. LUV er almennt ákvæði um ráðstafanir sem grípa skal til gagnvart vátryggingarfélögum við ýmsar aðstæður. Þær eru fólgnar í því að eftirlitið skal tilkynna ráðherra um málið og gera tillögur til úrbóta. Ráðherra skal setja félaginu „hæfilegan“ frest til að bæta úr því sem úrskeiðis hefur farið. Eins og kom fram í athugasemdum við 38. gr. er í þessu frumvarpi lagt til að nánar verði kveðið á um til hvaða ráðstafana sé gripið eftir eðli máls hverju sinni og eftir því hve mál eru talin alvarleg og aðkallandi.
     Í 1. og 2. mgr. eru ákvæði um hvernig bregðast skuli við uppfylli vátryggingarfélag ekki tilskildar lágmarkskröfur um gjaldþol samkvæmt ársuppgjöri eða á öðrum tíma. Félagið skal þegar í stað leggja fyrir Tryggingaeftirlitið áætlun um hvernig það hyggst ná tilskildu marki og ef gjaldþol er minna en þriðjungur þess sem tilskilið er eða lægra en nemur ábyrgðarsjóði, skal gerð neyðaráætlun sem miðar að því að rétta við hag félagsins innan tiltekins frests sem eftirlitið setur. Tryggingaeftirlitið leggur mat á hvort það telur ráðstafanirnar fullnægjandi. Nýmæli er að skv. 4. mgr. hefur Tryggingaeftirlitið heimildir til að takmarka eða jafnvel banna ráðstöfun félags yfir fjármunum sínum þegar það er liður í nauðsynlegum aðgerðum til að koma fjárhag félags á réttan kjöl.
     Einnig skal gripið til hliðstæðra ráðstafana sé vátryggingarskuld félags vanmetin eða fjárhagsstaða þess hafi versnað af öðrum ástæðum þannig að félagið uppfyllir ekki tilskildar gjaldþolskröfur. Vanmat vátryggingarskuldarinnar getur haft afgerandi áhrif á fjárhagsstöðu vátryggingarfélags vegna hins mikla vægis hennar í rekstri og efnahag og vegna vandkvæða sem geta verið fyrir hendi á því að meta hana réttilega.

Um 65. gr.


    Í þessari grein er fjallað um ráðstafanir sem gripið skal til þegar vátryggingarfélag sinnir ekki tilmælum Tryggingaeftirlits í ýmsum nánar skilgreindum tilvikum, öðrum en þeim er varða gjaldþol, sbr. umfjöllun um 64. gr., og skal eftirlitið þá setja félaginu tiltekinn frest. Eftirlitið skal þó áður hafa ítrekað tilmæli sín og veita má frekari fresti ef búast má við að mál séu komin vel á veg og úrbóta að vænta innan skamms. Málalok geta engu að síður orðið þau að eftirlitið leggi til við ráðherra að starfsleyfi verði afturkallað. Ákvæði af þessu tagi hefur vantað í lög um vátryggingarstarfsemi.

Um 66. gr.


    Hér er kveðið á um hvenær Tryggingaeftirlitið skuli skilyrðislaust leggja til við ráðherra að starfsleyfi verði afturkallað, en það er þegar ekki hefur tekist að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að rétta við fjárhaginn innan þess frests sem settur var skv. 64. gr., eða þegar félagið uppfyllir ekki skilyrði starfsleyfis eða vanrækir gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum um vátryggingarstarfsemi þannig að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé stefnt í hættu. Ekkert sambærilegt ákvæði er í LUV en í 2. mgr. 43. gr. segir að ráðherra geti afturkallað starfsleyfi séu nauðsynlegar úrbætur ekki gerðar innan tilskilins frests.

Um 67. gr.


    Í 2. mgr. 43. gr. LUV er kveðið á um skipun skilastjórnar, afturkalli ráðherra starfsleyfi. Hér er hliðstætt ákvæði í 1. mgr. en það er nýmæli að Tryggingaeftirlitinu er jafnframt fengið það hlutverk að ákveða meðferð og ráðstöfun vátryggingarstofnsins, sbr. 2. mgr., en um það hafa engin ákvæði verið í lögum. Eftirlitið skal hafa samráð við skilastjórn í þeim efnum.
     Þá er einnig nýmæli að þegar ákveðið er að beiðast gjaldþrotaskipta, en ákvörðun um það skal tekin í samráði við Tryggingaeftirlitið, getur Tryggingaeftirlitið takmarkað eða bannað ráðstöfun félags yfir fjármunum sínum telji eftirlitið líkur á að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra sé annars stefnt í hættu. Tryggingaeftirlitið getur einnig við slíkar aðstæður gert kröfu um að félag verði tekið til gjaldþrotaskipta. Það getur einnig ákveðið að líftryggingarstofn skuli sæta sérstakri meðferð.

Um 68. gr.


     Sbr. 31. og 32. gr. LUV. Hér er lagt til það nýmæli að Tryggingaeftirlitið, í stað skilastjórnar, taki í sína vörslu eignir sem eiga að mæta líftryggingarskuldinni ákveði eftirlitið að líftryggingarstofninn skuli sæta sérstakri meðferð, sbr. 67. gr. Einnig er nýmæli að greiða skal út áfallnar og tilkynntar líftryggingarkröfur eftir gildandi reglum og að greiða má út líftryggingarkröfur sem falla til útborgunar síðar ef eftirlitið telur það forsvaranlegt með tilliti til eigna sem fyrir hendi eru til að mæta líftryggingarskuldinni.
     Meðferð stofnsins er að öðru leyti í aðalatriðum í samræmi við gildandi reglur samkvæmt LUV.

Um 69. gr.


    Greinin er um gjaldþrotaskipti á búi líftryggingarfélags og er efnislega samhljóða 2. mgr. 31. gr. LUV, en einnig er kveðið á um rétt Tryggingaeftirlitsins til að krefjast allra gagna frá þrotabúinu sem nauðsynleg eru til að unnt sé að ljúka uppgjöri og ráðstöfun stofnsins í samræmi við sérstaka meðferð hans skv. 67. og 68. gr.

Um 70. gr.


    Greinin er nýmæli. Með sama hætti og þegar skilastjórn er skipuð í vátryggingarfélagi skal Tryggingaeftirlitið, þegar beiðst er gjaldþrotaskipta, gegna því hlutverki í samráði við skiptastjóra að meta hvort hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra sé best gætt með því að yfirfæra vátryggingarstofna til annarra vátryggingarfélaga hér á landi. Skal Tryggingaeftirlitið meta fram komin tilboð og leggja fram tillögur til samkomulags um flutning stofnsins, svo og tilkynna helstu efnisatriði í Lögbirtingablaði telji það tilboðin hagkvæm fyrir hina vátryggðu.

Um 71. gr.


    Þessi grein er nýmæli. Gert er ráð fyrir að þegar frjáls slit vátryggingarfélags eru fyrirhuguð skuli Tryggingaeftirlitið hafa hönd í bagga með uppgjöri vátryggingarskuldbindinga og er félaginu gert að leggja fyrir eftirlitið greinargerð um skuldbindingarnar og hvernig þeim skuli lokið. Þrátt fyrir frjáls slit hefur Tryggingaeftirlitið heimild til að ákveða að stofnar verði fluttir til annarra félaga og þegar um líftryggingar er að ræða að sá stofn skuli sæta sérstakri meðferð sé það mat eftirlitsins að með þessu móti verði hagsmunum hinna vátryggðu best borgið.

Um 72.–74. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um bráðabirgðaákvæði.


    Þar eð gildandi lög nr. 50/1978 eru felld niður ásamt reglugerðum sem settar hafa verið er nauðsynlegt að kveða á um framkvæmd ársuppgjörs og reikningsskil vátryggingarfélaga fyrir árið 1992 og skal þá miðað við gildandi reglugerðarákvæði. Á hinn bóginn munu ákvæði nýrra laga gilda um fjárhagsleg skilyrði starfseminnar nema um þau félög sem samkvæmt sérstökum lista fá aðlögunartíma allt að tvö ár til að uppfylla þessi skilyrði.


Sérálit Erlends Lárussonar, formanns nefndarinnar.


     Undirritaður er ósammála meirihlutaáliti nefndarinnar varðandi fyrirkomulag 37. gr. um yfirstjórn Tryggingaeftirlitsins. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skulu hagsmunasamtök vátryggingarfélaganna tilnefna einn mann af þremur í yfirstjórn Tryggingaeftirlitsins. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar er lagt bann við því að stjórnendur séu í fjárhags- eða hagsmunatengslum við einstök vátryggingarfélög eða önnur félög undir eftirliti Tryggingaeftirlitsins en bannið nær ekki til hagsmunasamtaka vátryggingarfélaga. Er því ekkert því til fyrirstöðu að starfsmenn Sambands íslenskra tryggingafélaga eða annarra hagsmunasamtaka vátryggingarfélaga geti setið í stjórn Tryggingaeftirlitsins. Flest vátryggingarfélög hér á landi eru aðilar að Sambandi íslenskra tryggingafélaga sem m.a. hefur á stefnuskrá sinni samkvæmt samþykktum að gæta hagsmuna vátryggingarfélaganna gagnvart opinberum aðilum.
     Það hefur til þessa verið algert grundvallaratriði í löggjöf hér sem annars staðar að vátryggingarfélögin, þeir aðilar sem hið opinbera hefur eftirlit með samkvæmt lögum um vátryggingarstarfsemi með það að markmiði að gæta hagsmuna hinna vátryggðu, hafi ekki ákvörðunarvald um eða ráði á nokkurn hátt framkvæmd eða umfangi slíks eftirlits.
     Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekjustofn eftirlitsins verði alfarið gjald sem lagt er árlega á vátryggingarfélögin og að núverandi ábyrgð ríkissjóðs á útgjöldum stofnunarinnar verði felld niður. Það er algert grundvallaratriði að ákvörðunarvald um fjárhagsramma stofnunarinnar og svigrúm til eftirlits og aðhalds hverju sinni sé í höndum hennar sjálfrar í samráði við ráðuneyti og ráðherra og að hinum opinbera eftirlitsaðila verði ekki settar skorður í því efni af þeim sem eftirlit er haft með.
     Þá er óeðlilegt og afar óheppilegt, með tilliti til þess sem fram undan er vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og eftirlits með erlendum félögum sem munu eiga greiðari leið að íslenskum markaði en áður, að í stjórn eftirlitsins á Íslandi sitji fulltrúar hagsmunasamtaka innlendra félaga.
     Þetta er einnig andstætt þeirri stefnu sem mótuð er að öðru leyti í frumvarpinu um aukið sjálfstæði og svigrúm hvors aðila um sig á eigin ábyrgð. T.d. er fellt niður að hið opinbera samþykki fyrir fram iðgjöld og skilmála vátrygginga og einnig ýmis skilyrði af hálfu hins opinbera varðandi fjármálahlið starfseminnar. Á hinn bóginn eru eftirlitinu fengnar skýrari og auknar heimildir til afskipta á eigin ábyrgð. Það er að mati undirritaðs eitt af grundvallaratriðunum og í samræmi við stefnumörkun í Evrópumálum á þessu sviði að skýr mörk séu að þessu leyti milli starfsemi félaganna annars vegar og verksviðs hins opinbera hins vegar. Afskipti fyrir fram og hömlur á starfsemi vátryggingarfélaga eigi að vera sem minnst en jafnframt skuli eftirlitsaðilinn hafa ríkar heimildir og algerlega óbundnar hendur um að grípa til ráðstafana hvenær sem hann telur slíkt nauðsynlegt innan ramma gildandi laga. Það starf innir eftirlitsaðilinn af hendi á sína ábyrgð og undir stjórn síns æðra stjórnvalds, ráðuneytis og ráðherra.
     Hafi samtök vátryggingarfélaga eða einstök vátryggingarfélög kvartanir fram að færa gagnvart eftirlitsaðilanum vegna eftirlitsmála er ráðuneyti og ráðherra sá vettvangur sem þessir aðilar geta snúið sér til. Hlutverk Tryggingaeftirlitsins er að vera óháð neytendastofnun sem starfar í þágu þeirra sem vátryggja hjá vátryggingarfélagi, að sinna kvörtunarmálum, hafa eftirlit með viðskiptaháttum, sölumennsku og tjónsuppgjöri og eftirlit með ráðstöfun fjármuna vátryggingartaka og vátryggðra sem félögin hafa til vörslu. Þeir verða að geta treyst því að stofnunin starfi alfarið í þeirra þágu og með hagsmuni þeirra fyrir augum, óháð afskiptum og ákvörðunum þeirra aðila sem hafa fé þeirra til ráðstöfunar og varðveislu. Það getur ekki verið trúverðugur eftirlitsaðili í augum hinna vátryggðu sem er háður þeim sem eftirlit er haft með um afskipti og aðgerðir sem grípa má til.
     Eina tilvikið, sem undirrituðum er kunnugt um þar sem vátryggingarfélög tilnefna menn í stjórn eftirlits, er í Danmörku. Þar er ólíku saman að jafna. Um er að ræða fjölmenna eftirlitsstofnun sem bæði hefur eftirlit með starfsemi vátryggingarfélaga, lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og þar er fjölmenn stjórn og sérstök fjölmenn framkvæmdastjórn stofnunarinnar þar sem félögin koma að sjálfsögðu hvergi nærri.
     Grundvallarskilyrði er því ef yfirleitt er skipuð sérstök stjórn í Tryggingaeftirlitið og ef Samband íslenskra tryggingafélaga á að tilnefna mann í þá stjórn að sá aðili sé, eins og aðrir stjórnarmenn, algerlega óháðu vátryggingarfélögum eða samtökum þeirra og sé ekki málpípa þeirra. Honum ber eins og öðrum stjórnarmönnum að starfa á grundvelli laga um vátryggingarstarfsemi og rækja þær skyldur sem þar eru lagðar á herðar Tryggingaeftirlitinu. Tilgangurinn með því að samtökin tilnefni yfirleitt mann væri þá sá að þau gætu bent á hæfan mann sem þekkti vel til vátryggingarmála og hvers eðlis slík starfsemi er.
     Draga má í efa að þörf sé á sérstakri stjórn í Tryggingaeftirlitinu eins og nú háttar, en stofnunin hefur á að skipa aðeins sex föstum starfsmönnum auk eins í hálfu starfi. Telja verður að virkt eftirlit og yfirstjórn ráðuneytis og ráðherra með starfsemi stofnunarinnar ætti að nægja.
     Einnig ber að hafa í huga þær breytingar sem átt hafa sér stað á fjármálasviði og þá þróun sem á sér stað bæði hér og erlendis sem kallar á aukið samstarf bankaeftirlits og tryggingaeftirlits, en starfsemi þessara stofnana skarast í æ ríkari mæli. Einnig hlýtur eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða að verða eflt, en þar eru á ferðinni málefni sem eru bæði tryggingafræðilegs og fjármálalegs eðlis. Það var ekki verkefni nefndarinnar að huga að slíkum skipulagsmálum en skoðun undirritaðs er að athuga beri hvort ekki sé tímabært hér á landi að sameina eftirlitsstofnanir á fjármálasviði líkt og átt hefur sér stað í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Kanada og víðar. Frumskilyrði þess er að vátryggingarþátturinn hafi þar sjálfstæðan og öflugan sess þannig að ekki verði dregið úr eftirliti með þeim þætti. Slík stofnun ætti að geta gegnt hlutverki sínu með skilvirkari hætti en stofnanirnar hvor fyrir sig. Einnig gæti slík sameining haft í för með sér hagræðingu í rekstri þeirra.
     Undirritaður sér ekki ástæðu til að breyta núverandi fyrirkomulagi með því að skipa Tryggingaeftirlitinu sérstaka stjórn en telur tímabært að taka framtíðarskipan eftirlitsmála á fjármálasviði til sérstakrar athugunar í heild sinni með tilliti til þróunarinnar almennt á þessu sviði. Verði hins vegar skipuð sérstök stjórn verði hún algerlega og að öllu leyti óháð vátryggingarfélögum og hagsmunasamtökum þeirra og hafi ekki á nokkurn hátt áhrif á framkvæmd eftirlits eða verði stefnumarkandi í þeim málum.
     Er því lagt til að 37. gr. frumvarpsins verði eins og hér segir. Í því felst að sérstök stjórn er ekki sett yfir stofnunina og skipan er óbreytt að öðru leyti en því að forstöðumaður skal skipaður til sex ára. Undirritaður er að öllu öðru leyti sammála frumvarpinu.

Tillaga formanns að fyrirkomulagi 37. gr. frumvarps til laga


um vátryggingarstarfsemi.


37. gr.


    Ráðherra skipar forstöðumann Vátryggingareftirlitsins til sex ára í senn. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri og gætir þess að stofnunin starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma, allt undir yfirstjórn ráðherra og ráðuneytis. Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn Vátryggingareftirlitsins.
     Starfsmenn Vátryggingareftirlitsins mega ekki vera stjórnarmenn, starfsmenn, endurskoðendur eða tryggingastærðfræðingar vátryggingarfélags eða annars félags sem er undir eftirliti þess. Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slík félög eða samtök þeirra.
     Starfsmenn Vátryggingareftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu um viðskipti og rekstur vátryggingarfélags og starfsemi sem lög þessi ná til. Þagnarskylda helst þótt starfsmenn láti af störfum.
     Vátryggingareftirlitið má veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja upplýsingar sé það liður í samstarfi ríkjanna um eftirlit með vátryggingarstarfsemi og slík upplýsingagjöf sé nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti með henni. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi landi. Sama gildir um upplýsingar sem Vátryggingareftirlitið fær frá eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja.
     Ráðherra setur nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Vátryggingareftirlitsins með reglugerð.

Reykjavík, 15. nóvember 1992.



Erlendur Lárusson,


formaður nefndarinnar.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa
:

Umsögn um frumvarp til laga um vátryggingarstarfsemi.


    Frumvarpið er endurskoðun á núverandi löggjöf um vátryggingarstarfsemi og eru ákvæði þess mun ítarlegari en gildandi löggjöf í samræmi við löggjöf Norðurlanda. Einnig hefur verið tekið tillit til nauðsynlegarar aðlögunar vegna samnings um EES.
     Samkvæmt frumvarpinu verður hlutverk tryggingaeftirlits víðtækara en áður og samstarf þess við erlendar eftirlitsstofnanir aukið. Breyting er gerð á yfirstjórn eftirlitsins og er lagt til að þriggja manna stjórn fari með yfirstjórn þess og að forstöðumaður verði skipaður af ráðherra til sex ára í senn í stað ótímabundinnar skipunar eins og er í gildandi lögum. Þá er starfsemi vátryggingarfélaga rýmkuð og kveðið er á um stofnun sérstakrar neytendamáladeildar og að eftirlit skuli vera með viðskiptaháttum, sölumennsku og tjónsuppgjöri vátryggingarfélaga. Ákvæði, sem gilda eiga á Evrópsku efnahagssvæði um gjaldþol og ábyrgðarsjóði, eru tekin upp.
     Erfitt er að segja til um hver heildaráhrif frumvarpsins verða á iðgjöld tryggingafélaga vegna þess að þar vegast á auknar kröfur og meira svigrúm til fjármálastarfsemi og samkeppni. Rekstrarkostnaður vegna tryggingaeftirlits mun aukast vegna aukinna krafna og er hann borinn uppi af iðgjöldum tryggingafélaganna. Hækkun iðgjalda vegna reksturs eftirlitsins verður þó óveruleg. Líkur eru á að iðgjöld lækki vegna aukinnar samkeppni þegar litið er til lengri tíma.
     Kveðið er á um að eftirlitsgjöld standi undir kostnaði af starfsemi Tryggingaeftirlitsins eins og verið hefur, en nýmæli er að felld er niður ábyrgð ríkissjóðs á greiðslu kostnaðar umfram álagt gjald. Í raun hefur ekki reynt á gildandi ákvæði og eftirlitsgjöld staðið undir kostnaði við rekstur. Lagt er til í frumvarpinu að hámark eftirlitsgjalds verði hækkað vegna þessa til að mæta óvæntum sveiflum í útgjöldum. Einnig er veitt heimild til að innheimta gjald vegna miðlunar- og umboðsstarfsemi.
     Frumvarpið mun því ekki hafa bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs þar sem hugsanleg aukning á umfangi mun verða greidd af þjónustugjöldum. Stofnunin mun eftir sem áður vera hluti af ríkisstarfseminni og eftirlit með fjármálum hennar mun verða óbreytt. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins um vátryggingarstarfsemi nái ekki yfir slysatryggingar Tryggingastofnunar ríkisins í samræmi við gildandi lög.