Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 354 . mál.


633. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og landsstjórnar Færeyja hins vegar um fríverslun milli Íslands og Færeyja.

(Lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og landsstjórnar Færeyja hins vegar um fríverslun milli Íslands og Færeyja.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


I. Inngangur.


    Undanfarin ár hafa Íslendingar veitt afurðum, sem eru upprunnar í Færeyjum, einhliða EFTA-meðferð í innflutningi til Íslands. Færeyingar hafa lagt fjáröflunartolla á innflutning íslensks varnings sem hafa ekki verið lagðir á færeyskar vörur og hefur því samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja hrakað á Færeyjamarkaði.
    Í fríverslunarsamningi, sem Færeyingar gerðu við Evrópubandalagið á síðasta ári, sem tók gildi 1. janúar 1992, er kveðið á um að Færeyingar skuli aflétta fjáröflunartollum sem innheimtir hafa verið til þessa, en taka upp í þeirra stað virðisaukaskattskerfi og sömu GATT-bundna tolla og Evrópubandalagið við innflutning frá ríkjum utan Evrópubandalagsins sem þeir hafa ekki gert fríverslunarsamning við. Þessi niðurstaða hefði haft það í för með sér að innflutningsgjöld hefðu hækkað til muna á ýmsum varningi sem fluttur hefur verið til Færeyja frá Íslandi ef Íslendingar hefðu ekki hafið viðræður við Færeyinga um fríverslun áður en samningur Færeyja og Evrópubandalagsins tók gildi 1. janúar 1993.
    Þann 23. desember 1991 sendi danska utanríkisráðuneytið bréf til sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn þar sem spurt var hvort Íslendingar hefðu áhuga á viðræðum um fríverslun við Færeyjar. Þann 30. desember 1991 óskuðu íslensk stjórnvöld formlega eftir því við danska utanríkisráðuneytið að hafnar yrðu viðræður um fríverslun milli Íslands og Færeyja.
    Gildistöku nýrrar tollskrár fyrir Færeyjar var frestað til 1. febrúar 1992. Jafnframt var reglugerð gefin út af færeysku landsstjórninni 29. janúar 1992 þar sem tollar, sem lagðir eru á í innflutningi til Færeyja á tilteknum afurðum frá Íslandi, eru tímabundið felldir niður frá 1. febrúar 1992 til 30. júní 1992. Sú reglugerð var síðan framlengd til 1. september 1992.
    Haldnir voru tveir samningafundir, sá fyrri var haldinn í Þórshöfn í Færeyjum þann 25. febrúar 1992 og sá síðari í Kaupmannahöfn dagana 11. og 12. júní 1992. Í Kaupmannahöfn náðist samkomulag um fríverslunarsamning milli Íslands og Færeyja og var hann áritaður af aðalsamningamönnum í Þórshöfn í Færeyjum 16. júní 1992. Samningurinn var síðan undirritaður í Reykjavík 6. ágúst 1992. Önnur ríki á Norðurlöndum, Finnland, Noregur og Svíþjóð, áttu í samningaviðræðum við Færeyjar um líkt leyti og var ákveðið að samræma samningstexta eftir því sem aðstæður leyfðu. Í því skyni var haldinn sérstakur samráðsfundur í Reykjavík með þátttöku Íslendinga, Norðmanna, Finna og Svía. Þó eru sum mikilvæg atriði ekki eins, t.d. hafa Íslendingar rýmri heimildir til takmörkunar á útflutningi á fiski til Færeyja en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Samningurinn nær ekki til landbúnaðarafurða og vara sem framleiddar eru úr þeim og falla undir 1.–24. kafla í tollskránni. Gengið var frá sérstökum samningi í formi erindaskipta síðar í mánuðinum um viðskipti með umræddar vörur.
    Fríverslunarsamningurinn er að mestu byggður upp eins og fríverslunarsamningar EFTA-ríkjanna við Tyrkland, Tékkóslóvakíu og önnur Austur-Evrópuríki.
    Í töflu hér að neðan er að finna yfirlit yfir vöruviðskipti Íslands og Færeyja árin 1989, 1990 og 1991.






T A F L A



    Útflutningur á fiskfóðri til Færeyja var um helmingur af vöruútflutningi Íslendinga til Færeyja á þessum árum. Árið 1989 voru flutt til Færeyja 7.900 tonn af fiskfóðri, 12.300 tonn árið 1990 fyrir 738 millj. kr. sem var um 0,8% af heildarvöruútflutningi Íslendinga það ár. Árið 1991 minnkaði útflutningur á fiskfóðri í 8.200 tonn. Fiskfóðrið er samansett úr loðnumjöli og lýsi og að auki er blandað í það litar- og bætiefnum.
    Fersk loðna til bræðslu hefur verið stór þáttur í útflutningi Íslendinga til Færeyja undanfarin ár, en var enginn á síðustu tveimur árum. Helsta skýringin á því er að íslenskar verksmiðjur greiddu hátt verð fyrir loðnuna og voru því samkeppnishæfar við færeyskar verksmiðjur.
    Ein helsta skýringin á aukningu í útflutningi til Færeyja milli áranna 1989 og 1990 er útflutningur á gömlum skipum árið 1990, en hann var enginn árin 1989 og 1991. Árið 1990 er þessi útflutningur um fjórðungur af heildarvöruútflutningi til Færeyja. Ef verðmæti útflutnings á gömlum skipum eru dregin frá verðmæti vöruútflutningsins til Færeyja verður hlutfall hans 1,15% af verðmæti heildarvöruútflutnings Íslendinga en var 1,30% árið áður, þannig að ef útflutningur á gömlum skipum er ekki tekinn með í útreikningum fyrir árið 1990 hefur hlutfall vöruútflutnings til Færeyja af heildarvöruútflutningi Íslendinga minnkað milli áranna 1989 og 1990. Samdráttur í útflutningi til Færeyja á milli áranna 1990 og 1991 skýrist fyrst og fremst af minni útflutningi af fiskfóðri og gömlum skipum. Samanlagt verðmæti annars útflutnings til Færeyja breyttist lítið milli áranna 1990 og 1991. Til fróðleiks skal þess getið að útflutningur Íslands til Færeyja árið 1991 var meiri en til Samveldis sjálfstæðra ríkja.
    Innflutningur frá Færeyjum er lítill, en þar ber helst á fiski, vélum og tækjum.
    Opinberir styrkir til sjávarútvegs í Færeyjum hafa lengi verið Íslendingum þyrnir í augum en með þessum samningum er því heitið að þeir skuli leggjast niður fyrir árslok 1994.
    Sérstakur samningur í formi erindaskipta milli samningamanna fylgir með og fjallar hann um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Samkvæmt honum skuldbinda Færeyjar sig til að fella niður tolla, þó með heimildum til verðjöfnunargjalda, á landbúnaðarafurðum og vörum framleiddum úr þeim sem flokkast undir 1.–24. kafla í tollskránni, að undanskildu kinda- og geitakjöti og afurðum úr því, mjólk, rjóma, jógúrt og öðrum mjólkurafurðum sem flokkast undir tollflokka 0401, 0402 og 0403. Færeyjar heimila þó árlegan tollfrjálsan innflutning á 700 tonnum af kindakjöti, nýju, kældu eða frystu, 150 tonnum af öðrum ætum hlutum af kindum og 100 tonnum af öðrum vörum sem unnar eru úr kindakjöti eða öðrum hlutum af kindum eða blóði.
    Á móti skuldbinda Íslendingar sig til að fella niður tolla sem lagðir eru á vatn og öl í innflutningi frá Færeyjum. Ef Færeyjar fara fram á að fá tollfrjálsan aðgang að Íslandi fyrir landbúnaðarafurðir sem samningurinn tekur ekki til skal taka slíkar beiðnir til jákvæðrar athugunar.
    Sérstakar upprunareglur gilda fyrir landbúnaðarafurðir og fylgja þær landbúnaðarsamningnum.
    Reynslan hefur sýnt að íslenskar vörur eiga greiðan aðgang að færeyskum neytendum og þó markaðurinn sé ekki ýkja stór er hann verðmæt viðbót við íslenskan heimamarkað. Aðstæður eru um margt svipaðar og smekkur neytenda líkur. Samningur þessi mun leggja grunn að greiðari viðskiptum milli Íslands og Færeyja.

Athugasemdir við einstakar greinar samningsins.


Um inngangsorð samningsins og um 1. gr. um markmið.


    Inngangsorð samningsins eru almenns eðlis. Þau kveða ekki skýrt á um skuldbindingar eða réttindi en geta verið þáttur í túlkun samningsins. Mikilvægi sjávarútvegs fyrir báða samningsaðila er áréttað. Almennt orðalag er í 1. gr. um markmið samningsins sem er að efla samvinnu Íslands og Færeyja, einkum með því að efla, með aukningu gagnkvæmra viðskipta, samfellda þróun efnahagssamskipta, skapa eðlilega forsendu fyrir samkeppni og afnema viðskiptahöft.

Um 2. gr.


Gildissvið samningsins. 1. og 2. viðauki.


Iðnaðarvörur.
    Allar iðnaðarvörur (25.–97. kafli í tollskránni) falla undir samninginn með þeim fáeinu undantekningum sem tilgreindar eru í 1. viðauka. Þessar undanþágur endurspegla samsvarandi ákvæði í fríverslunarsamningi Íslands við EB. Hér er um að ræða nokkrar vörur, svo sem albúmínkennd efni, umbreytta sterkju, lím og ensím úr 35. kafla, ýmsar kemískar vörur úr 38. kafla, kork og vörur úr korki úr 45. kafla og aðrar spunatrefjar úr jurtaríkinu, pappírsgarn og ofinn dúk úr pappírsgarni úr 53. kafla.

Fiskur og aðrar sjávarafurðir.
    Fullri fríverslun með fisk og aðrar sjávarafurðir í viðskiptum Íslands við Færeyjar, sbr. 2. viðauka, er komið á strax við gildistöku samningsins.
    Sjávarafurðir þessar eru úr 2. kafla (0208: kjöt af hval og sel), 3. kafla (fiskur, krabbadýr, lindýr og aðrir vatnahryggleysingjar), 5. kafla (afurðir úr fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatna- og sjávarhryggleysingjum, ekki til manneldis), 15. kafla (feiti og olíur úr dýra- og jurtaríkinu og klofningsefni þeirra; unnin matarfeiti; vax úr dýra- eða jurtaríkinu), 16. kafla (framleiðsla úr fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum) og 23. kafla (leifar og úrgangur frá matvælaframleiðslu; unnið skepnufóður).

Landbúnaðarvörur.
    Hér er vísað til 7. gr. og til sérstaks samnings um viðskipti með landbúnaðarafurðir.

Um 3. gr.


Upprunareglur og samvinna um tollframkvæmd. 3. og 4. viðauki.


    Í 3. gr. og 3. og 4. viðauka samningsins er kveðið á um upprunareglur og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda um tollaframkvæmd. Reglur þessar styðjast við samsvarandi reglur í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við EB frá 1972–1973 og við EFTA-samninginn. Þó er breyting á er varðar afurðir unnar úr sjávarfangi sem falla undir tollflokka 1604 og 1605. Samkvæmt þessum samningi telst afurð, sem fellur undir tollflokk 1604 eða 1605, vera af íslenskum uppruna þó að hráefni, sem notað er til framleiðslunnar, sé ekki af íslenskumn uppruna og sé að verðmæti allt að 50% af verksmiðjuverði hennar. Í öðrum samningum er sett það skilyrði fyrir upprunaviðurkenningu að allt hráefni til vinnslunnar sé að öllu leyti fengið á Íslandi.

Um 4. gr.


Bann við tollum og gjöldum sem hafa samsvarandi áhrif og afnám þeirra.


2. og 5. viðauki.


    Ákvæði 5. viðauka fjalla um framkvæmd afnáms fjáröflunartolla á Íslandi og í Færeyjum. Þar segir að samningsaðilar skuli afnema fjáröflunartolla eigi síðar en 1. janúar 1993. Færeyingar skuldbinda sig til að breyta innflutningsgjöldum sínum í virðisaukaskatt sem leggst jafnt á alla framleiðslu innlenda sem erlenda. Íslendingar skuldbinda sig til að fella niður um áramót fjáröflunartolla á varning frá Færeyjum.

Um 5. gr.


Bann við magntakmörkunum og ráðstöfunum sem hafa samsvarandi áhrif


og afnám þeirra. 2. og 6. viðauki.


    Íslendingar lögðu til að hér yrði aðeins átt við innflutning af sömu ástæðu og í 4. gr. hér að ofan. Fallist var á sömu skilmála og í 4. gr.
    Samkvæmt ákvæðum 2. viðauka falla allar sjávarafurðir undir ákvæði samningsins með þeirri undantekningu að aðilum er heimilt að beita magntakmörkunum í útflutningi. Færeyingar fóru fram á að samningsaðilar mættu þó ekki beita strangari reglum um útflutning á sjávarafurðum til hins aðilans en þeim reglum sem beitt er í útflutningi til EFTA-ríkjanna eða EB. Á þetta var ekki fallist sökum þess að samkvæmt EFTA-samningnum er bannað að beita magntakmörkunum í útflutningi á fiski til annarra EFTA-ríkja. Færeyingar beita opinberum styrkjum í sjávarútvegi næstu tvö ár og er því samkeppnisstaða íslenskra og færeyskra fiskvinnslufyrirtækja ójöfn við hráefniskaup.
    Færeyingar eru ekki aðilar að EFTA-samningnum þannig að með því orðalagi, sem þeir lögðu til, hefðu þeir haft rýmri heimild til magntakmarkana í útflutningi en Íslendingar.
    Niðurstaðan varð sú að Íslendingar mega beita magntakmörkunum í útflutningi á fiski til Færeyja með sama hætti og þeim er beitt í útflutningi á fiski til Evrópubandalagsins.
    Íslandi er heimilt að beita innflutningstakmörkunum á sópa og bursta eins og tilgreint er í 6. viðauka. Með því er verið að vernda framleiðslu á vegum Blindravinafélagsins líkt og gert var í fríverslunarsamningnum við EB 1972 og EES-samningnum.

Um 6. gr.


Viðskipti með olíuvörur.


    Hér áskilja samningsaðilar sér rétt til sérstakra aðgerða varðandi viðskipti með olíuvörur en ekki er líklegt að til þessa ákvæðis þurfi að grípa.

Um 7. gr.


Viðskipti með landbúnaðarafurðir.


    Í 1. mgr. áskilja samningsaðilar sér rétt til að halda óbreyttri landbúnaðarstefnu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að samningsaðilar skuli gera með sér samkomulag um ráðstafanir til að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarafurðir milli Íslands og Færeyja. Vísað er til umfjöllunar um samkomulagið í inngangi athugasemda.
    Þriðja málsgrein skuldbindur samningsaðila til að beita heilbrigðisreglum ekki með þeim hætti að þær mismuni afurðum frá samningsaðilum til að koma í veg fyrir að viðskipti með afurðirnar geti átt sér stað.
    Efnislega eru ákvæði 1. og 3. mgr. samhljóða ákvæðum 1. og 2. mgr. í samsvarandi grein í fríverslunarsamningi Íslands og EB frá 1972.

Um 8. gr.


Tollabandalög, fríverslunarsvæði og landamæraviðskipti.


    Samningurinn kemur ekki í veg fyrir að samningsaðilar myndi tollabandalög, stofni fríverslunarsvæði með öðrum ríkjum eða geri aðra samninga hafi þeir ekki neikvæð áhrif á viðskipti Íslands og Færeyja. Samsvarandi ákvæði er að finna í 18. gr. fríverslunarsamnings Íslands og EB.

Um 9. gr.


Innlendar álögur.


    Fyrsta málsgrein þessarar greinar felur í sér að forðast eigi allar fjármálaráðstafanir og aðgerðir sem geti mismunað innlendum og innfluttum vörum. Stjórnvöld hafa fullt svigrúm til þess að haga skattheimtu með hvaða hætti sem er, svo fremi hún leggist með jöfnum þunga á innlenda og erlenda framleiðslu. Með 2. mgr. er verið að tryggja að ekki sé mismunað með því að endurgreiða meiri skatta en þá sem lagðir hafa verið á vörur og með því móti niðurgreiða útflutning til annars samningsaðilans. Sams konar ákvæði er í 19. gr. fríverslunarsamnings Íslands og EB og í 14. og 15. gr. EES-samningsins.

Um 10. gr.


Greiðslur.


    Greinin er spegilmynd 1. mgr. 19. gr. fríverslunarsamnings einstakra EFTA-ríkja og EB. Ákvæðin fela í sér að engin höft megi leggja á greiðslur sem fara fram vegna vöruviðskipta milli Íslands og Færeyja né á yfirfærslu á þessum greiðslum til samningsaðila þar sem kröfuhafi er búsettur.

Um 11. gr.


Almennar undantekningar.


    Í samningnum eru varnaglaákvæði sem heimila bann eða takmörkun á innflutningi, útflutningi eða umflutningi ef aðgerðir þessar réttlætast af ástæðum sem varða almennt siðgæði, allsherjarreglu um almannaöryggi, verndun lífs og heilsu manna og dýra, gróðurvernd, verndun þjóðarverðmæta sem hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, verndun hugverka, reglur um meðferð á gulli og silfri eða verndun takmarkaðra náttúruauðlinda, enda séu slíkar ráðstafanir gerðar í samræmi við takmarkanir á framleiðslu eða neyslu innan lands. Samsvarandi ákvæði eru í velflestum fríverslunarsamningum.

Um 12. gr.


Undanþágur af öryggisástæðum.


    Samningsaðilar geta gert ráðstafanir vegna öryggishagsmuna samkvæmt skilyrðum þessarar greinar. Sams konar ákvæði er að finna í 21. gr. fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við EB og í 23. gr. EES-samningsins.

Um 13. gr.


Efndir skuldbindinga.


    Samningsaðilar skulu gera allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að markmið samningsins náist og svo að þau megi uppfylla skuldbindingar sínar sem í samningnum felast.

Um 14. gr.


Samkeppnisreglur.


    Ákvæði þetta má rekja til 23. gr. fríverslunarsamninga einstakra EFTA-ríkja við EB sem endurspeglar meginreglur 85. og 86. gr. Rómarsamningsins.
    Ákvæði eru í samningi þessum að allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir fyrirtækja sem miða að því að koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni eða leiða til slíks samrýmist ekki réttri framkvæmd samningsins að því leyti sem þau hafa áhrif á viðskipti Íslands og Færeyja. Einnig samrýmist ekki réttri framkvæmd samningsins misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á yfirburðastöðu sinni á yfirráðasvæðum samningsaðila í heild eða á verulegum hluta þess.
    Telji samningsaðili að tiltekið athæfi samrýmist ekki ákvæðum samningsins er honum heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana að höfðu samráði við hinn samningsaðilann eða þrjátíu dögum eftir að málinu var vísað til hans til umfjöllunar.

Um 15. gr.


Opinberar einkasölur.


    Hér er ekki um að ræða bann við opinberri einokun heldur er kveðið á um að tryggja verði að opinber einkasala geri ekki greinarmun á grundvelli ríkisfangs hvað snertir skilyrði fyrir innkaupum eða markaðssetningu vara.

Um 16. gr.


Opinber aðstoð. 7. viðauki.


    Samkvæmt samningnum er ekki lagt algjört bann á alla opinbera aðstoð þó tiltekin aðstoð sé ekki talin samrýmast framkvæmd samningsins. Í 7. viðauka er að finna túlkun á því hvaða opinber aðstoð telst samrýmanleg framkvæmd samningins og hver ekki.
    Ef samningsaðili telur að tiltekið athæfi samrýmist ekki ákvæðum 1. mgr. 16. gr. er honum heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana gegn því samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þær aðferðir sem lýst er í 23. gr. Aðgerðirnar mega þó ekki vera víðtækari en skaðinn gefur tilefni til.
    Samkvæmt 3. mgr. 7. viðauka er Færeyingum heimilt að viðhalda opinberri aðstoð til sjávarútvegs til 31. desember 1994.
    Til að tryggja skýrleika í meðferð opinberrar aðstoðar skulu samningsaðilar skiptast á upplýsingum eins og kveðið er á um í 4. mgr. 7. viðauka. Hér er um að ræða svipaðan aðlögunartíma og veittur var Norðmönnum í EFTA-samningnum um fríverslun með fisk.

Um 17. gr.


Vernd hugverka.


    Samningurinn á að veita og tryggja nægilega og árangursríka einkaréttarvernd hugverka án mismununar, þar með taldar ráðstafanir til að vernda þessi réttindi gegn brotum. Samningsaðilar skuldbinda sig til að útfæra reglur sem gilda um verndun einkaréttar á hugverkum milli samningsaðila með þeim hætti að þær tryggi vernd sem er sambærileg því sem fyrir hendi er í aðildarríkjum Evrópubandalagsins og EFTA.
    Verndun einkaréttar skal einkum ná til höfundaréttar. Í 2. mgr. 17. gr. eru nokkur dæmi tekin.

Um 18. gr.


Opinber innkaup.


    Samningsaðilar telja það vera æskilegt og mikilvægt markmið samnings þessa að auka frjálsræði í innkaupum hins opinbera. Frá og með gildistöku samningsins skulu samningsaðilar veita hvor öðrum aðgang að útboðsgerð við opinber innkaup sín í samræmi við GATT-samninginn um opinber innkaup frá 1979 og eins og honum var breytt 1987. Samningsaðilum ber að aðlaga stig af stigi reglur, skilyrði og aðferðir sem þau nota við opinber útboð til að tryggja skýrleika í gerð samninga og koma í veg fyrir mismunun á milli hugsanlegra birgja frá yfirráðasvæðum samningsaðila.

Um 19. gr.


Undirboð.


    Samkvæmt þessu ákvæði geta samningsaðilar, verði þeir varir við að beitt sé undirboðum í viðskiptum sem heyra undir samninginn, gripið til viðeigandi gagnráðstafana í samræmi við VI. gr. Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti og þeim sérsamningi GATT er túlkar þá grein nánar. VI. gr. GATT var nánar útfærð með sérsamningi í svokölluðum Tókíó-viðræðum (1973–1979). Sá sérsamningur er til umræðu í yfirstandandi viðskiptalotu GATT (Úrúgvæ-viðræðunum).

Um 20. gr.


Neyðaraðgerðir vegna innflutnings tiltekinnar vöru.


    Samkvæmt þessari grein er heimilt að grípa til öryggisráðstafana þegar innflutningur tiltekinnar vöru eykst svo mjög að valdið geti alvarlegu tjóni fyrir innlenda framleiðendur vara eða alvarlegri röskun í einhverri grein atvinnulífsins eða erfiðleikum sem gætu leitt til slæmra efnahagsþrenginga á einstökum landsvæðum.

Um 21. gr.


Endurútflutningur og alvarlegur vöruskortur.


    Hér er sleginn varnagli og svigrúm gefið til að þess að grípa til sérstakra aðgerða ef framkvæmd ákvæða 4. og 5. gr. hefur í för með sér röskun á viðskiptastefnu gagnvart þriðja ríki eða ef frjáls útflutningur leiðir til vöruskorts eða fyrirsjáanlegur er skortur á vöru sem nauðsynleg er samningsaðila.

Um 22. gr.


Erfiðleikar vegna greiðslujafnaðar.


    Lendi Ísland eða Færeyjar í alvarlegum erfiðleikum varðandi greiðslujöfnuð sinn er viðkomandi samningsaðila heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þær reglur sem settar eru í 23. gr. samningsins.

Um 23. gr.


Öryggisráðstafanir.


    Í flestum fríverslunarsamningum eru ákvæði um öryggisráðstafanir sem gera það mögulegt að fella úr gildi tímabundið hluta samningsins ef ófyrirsjánlegir erfiðleikar koma í ljós. Samningsaðilar eru sammála um að þörf sé á sams konar ákvæði í samningi þeirra á milli og að heimilt verði að grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum 23. gr. við viss skilyrði sem lýst er í 13., 14., 16., 18., 19., 20. og 21. gr. samningsins.
    Í 23. gr. er að finna samkomulag um aðferð við beitingu öryggisráðstafana en áður en hafist er handa við að beita þeim öryggisráðstöfunum, sem þar eru tilgreindar, skulu samningsaðilar leita lausnar á ágreiningi sín í milli með beinu samráði og láta hvor öðrum í té allar upplýsingar sem máli skipta.

Um 24. gr.


Fyrirkomulag samráðs.


    Samningsaðilar skulu skiptast á upplýsingum hvenær sem þurfa þykir og ræðast við. Í 2. mgr. er samningsaðilum heimilað að setja á stofn sameiginlega nefnd til að ræða um framkvæmd samningsins. Starfsreglur sameiginlegu nefndarinnar eru settar í a- til g-liðum 2. mgr. Fyrst um sinn er gert ráð fyrir að hvor aðili um sig tilnefni mann til að fylgjast með framkvæmd samningsins en ákvörðun um stofnsetningu nefndar verði tekin síðar.

Um 25. gr.


Þróunarákvæði.


    Samkvæmt þessu ákvæði getur samningsaðili sent hinum aðilanum rökstudda beiðni þess efnis að þróa beri samskipti þeirra enn frekar telji samningsaðili það til framdráttar efnahag samningsaðila.

Um 26. gr.


Viðaukar.


    Viðaukar skulu vera óaðskiljanlegur hluti samningsins en sameiginlega nefndin, verði henni komið á, getur ákveðið samhljóða að breyta viðaukum.

Um 27. gr.


Gildissvæði samningsins.


    Samningurinn skal gilda á Íslandi og í Færeyjum.

Um 28. gr.


Uppsögn.


    Tólf mánaða uppsagnarfrestur er tilgreindur eins og algengt er í samningum af þessu tagi.

Um 29. gr.


Gildistaka.


    Gildistaka samningsins er á fyrsta mánaðardegi eftir að samningsaðilar hafa tilkynnt hvor öðrum um fullgildingu hans. Óháð gildistöku skulu ákvæði samningsins koma til framkvæmda eigi síðar en 1. september 1992.

    [Samningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og landsstjórnar Færeyja hins vegar um fríverslun milli Íslands og Færeyja ásamt viðaukum og fylgigögnum og einnig sérstökum samningi í formi erindaskipta milli samningamanna var birtur í þingskjalinu ( lausaskjalinu) sem fskj. 1 og 2. Samningurinn verður enn fremur prentaður í C-deild Stjórnartíðinda.]