Ferill 375. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 375 . mál.


659. Frumvarp til laga



um kirkjugarða, greftrun líka og líkbrennslu.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



I. KAFLI


Um greftrun líka og líkbrennslu.


1. gr.


    Skylt er að greftra lík í lögmætum kirkjugarði, sbr. 5. gr., eða brenna þau í viðurkenndri líkbrennslustofnun (bálstofu), sbr. 7. gr.

2. gr.


    Skylt er að virða ákvarðanir sjálfráða manns um hvort greftra skuli lík hans eða brenna.
    Nú var maður ósjálfráða er hann féll frá og tekur þá lögráðamaður (lögráðamenn) hans ákvörðun um þetta efni.
    Nú er ekki vitað um vilja látins manns sem sjálfráða var og ákveða þá eftirlifandi maki (sambúðaraðili) og niðjar (kjörniðjar) hins látna hvort lík skuli greftrað eða brennt. Ef þau eru sammála um að lík skuli brennt skal þann hátt á hafa.
    Nú er þeim vandamönnum eigi til að dreifa er greinir í 3. mgr. og taka foreldrar og systkin hins látna ákvarðanir í þessu efni og fer um það skv. 3. mgr. Ella er ákvörðunarvaldið í höndum þeirra er nákomnastir eru hinum látna. Skal í því sambandi til þess litið hjá hverjum hinn látni hefur dvalist og hver sjái um útförina.
    Ef eigi er vitað um afstöðu hins látna, sbr. 1. mgr., né þeirra er greinir í 3. og 4. mgr. má líkbrennsla fara fram, enda verði útförin gerð á stað þar sem aðstaða er til líkbrennslu, sbr. 7. gr.

3. gr.


    Óheimilt er að greftra lík eða brenna nema lögmætt dánarvottorð liggi fyrir og vottorð sýslumanns eða umboðsmanns hans um tilkynningu um látið, sbr. skiptalög. Gæta skal og ákvörðunar um líkskoðun eða krufningu líka samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála og enn fremur laga um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum.
    Áður en líkbrennsla fer fram þarf enn fremur að vera fyrir hendi vottorð lögreglustjóra þess efnis að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að líkbrennsla fari fram. Þeim er sér um framkvæmd líkbrennslu ber að afla vottorðs þessa.

4. gr.


    Hver maður á rétt til legstaðar þar í sókn sem hann andaðist eða var síðast heimilisfastur eða þar sem vandamenn hans, sbr. 2. gr., óska legs fyrir hann.

II. KAFLI


Um kirkjugarða og grafreiti og friðhelgi þeirra

,

svo og líkbrennslustofnanir.


5. gr.


    Með kirkjugörðum í lögum þessum er átt við afmörkuð grafarsvæði kirkjusóknar eða kirkjusókna sem vígð hafa verið, sbr. 6. gr.

6. gr.


    Kirkjugarðar og grafreitir eru friðhelgir, sbr. og almenn hegningarlög.
    Kirkjugarða þjóðkirkjunnar skal prestur vígja. Heimilt er að afmarka óvígðan reit innan kirkjugarðssvæðis ef hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn samþykkir.
    Eigi má reisa mannvirki, starfrækja stofnanir eða reka fyrirtæki sem frá stafar hávaði eða ys í nánd við kirkjugarða. Skal þessa gætt við skipulagningu skipulagsskyldra staða.

7. gr.


    Líkbrennsla hér á landi má eingöngu fara fram í stofnunum sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið löggildir.
    Búa ber um öskuna í þar til gerðum duftkerum sem skylt er að varðveita í kirkjugarði eða löggiltum grafreit. Skal grafa kerin niður í grafarstæði eða leggja þau í leiði ef vandamenn, er greinir í 1. mgr. 47. gr., óska þess. Dýpt duftkersgrafar skal vera um 1 metri.
    Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan reit í kirkjugarði fyrir duftker og sé stærð hvers leiðis jafnan hin sama, um 1 / 2 fermetri. Nöfn þeirra sem duft er varðveitt af í kirkjugarði skal rita á legstaðaskrá og kerin og grafirnar tölusettar, sbr. 27. gr.
    Óheimilt er að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði eða löggiltum grafreit.

III. KAFLI


Stjórn, starfslið og yfirumsjón kirkjugarða.


8. gr.


    Hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar er sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn prófasts (í Reykjavík prófasta) og biskups.
     Sóknarnefnd eða sérnefnd kjörin af safnaðarfundi, sbr. 9. gr., hefur á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarðs samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum. Er hún hér eftir nefnd kirkjugarðsstjórn.

9. gr.


    Nú hafa tvær eða fleiri sóknir sameiginlegan kirkjugarð eða kirkjugarða og skulu þá sóknarnefndir hver um sig kjósa einn mann úr hópi aðalmanna og varamanna í nefndinni í kirkjugarðsstjórn til fjögurra ára í senn, svo og varamann með sama hætti. Utanþjóðkirkjusöfnuðir með a.m.k. 2.000 gjaldskylda meðlimi kjósa einn mann úr sínum hópi og annan til vara í kirkjugarðsstjórn til fjögurra ára í senn. Bálfararfélag Íslands kýs, ef því er að skipta, einn mann og annan til vara til jafnlangs tíma í kirkjugarðsstjórn Reykjavíkurprófastsdæma. Prófastur situr fundi kirkjugarðsstjórnar og hefur atkvæðisrétt þegar tala fundarmanna er jöfn eða tilnefnir ella varamann í sinn stað. Prófastar Reykjavíkurprófastsdæma sitja fundi til skiptis sitt árið hvor og eru varamenn hvor fyrir annan.
    Kirkjugarðsstjórnir þessar hafa sömu skyldur og ábyrgð sem sóknarnefndir að því er til kirkjugarða tekur.

10. gr.


    Kirkjugarðsstjórn er heimilt að ráða sérstakan kirkjugarðsvörð, svo og framkvæmdastjóra, er hafi á hendi umsjón og eftirlit samkvæmt erindisbréfi sem kirkjugarðsstjórn setur.
    Kirkjugarðsstjórn sér um að láta taka allar grafir í garðinum, sér um árlegt viðhald legstaða og ber kostnað af prestsþjónustu vegna útfara.

11. gr.


    Skipulagsnefnd kirkjugarða hefur yfirumsjón með kirkjugörðum landsins svo sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum. Í henni eiga sæti biskup Íslands eða fulltrúi hans, húsameistari ríkisins, skipulagsstjóri ríkisins og þjóðminjavörður, einn maður kosinn af kirkjuþingi og annar af kirkjugarðsstjórn Reykjavíkurprófastsdæma, báðir til fjögurra ára í senn. Varamenn þessara tveggja manna skulu kosnir með sama hætti og til jafnlangs tíma. Biskup er formaður nefndarinnar. Ef atkvæði verða jöfn í skipulagsnefnd ræður atkvæði formanns.
    Skipulagsnefnd ræður framkvæmdastjóra kirkjugarða og setur honum erindisbréf. Hann skal vera sérfróður um gerð og skipulag kirkjugarða. Laun hans og annar starfskostnaður, svo og kostnaður við störf skipulagsnefndar kirkjugarða, greiðist úr Kirkjugarðasjóði.

IV. KAFLI


Um skyldur sveitarfélaga vegna kirkjugarða,


svo og um eignarnám vegna kirkjugarða.


12. gr.


    Skylt er sveitarfélagi því, er liggur innan sóknar, að láta ókeypis í té hæfilegt kirkjugarðsstæði svo og girðingu, þó þannig að óbreyttar haldist kvaðir þær er þegar eru á jörðum og lóðum þar sem kirkjugarðar standa.
    Þar sem ekki er völ á nægilega þurrum eða djúpum jarðvegi til kirkjugarðsstæðis skal sveitarfélag kosta framræslu og uppfyllingu landsins.

13. gr.


    Þar sem kirkja er ekki í kirkjugarði leggur sveitarfélag veg frá henni til kirkjugarðs og heldur honum akfærum, þar á meðal með snjómokstri, ef því er að skipta. Vegur þessi skal vera af sömu gerð og tíðkast í sveitarfélaginu og með sams konar lýsingu þar sem því verður við komið. Enn fremur leggur sveitarfélagið til ókeypis hæfilegan ofaníburð í götur og gangstíga kirkjugarðs ef þess er óskað og greiðir akstur hans.
    Í kaupstöðum eða kauptúnum sér sveitarfélag fyrir nægilegu vatni til vökvunar blóma og trjágróðurs í kirkjugarðinum.

14. gr.


    Nú hafa fleiri en eitt sveitarfélag eða bæjarfélag og hreppur eða hreppshluti sameiginlegan kirkjugarð og skal þá skipta kostnaðinum, sbr. 12. og 13. gr., niður á hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög eða hluta þeirra eftir mannfjölda í hverju þeirra fyrir sig.
    Rétt er kirkjugarðsstjórn, ef óhæfilegur dráttur verður á framkvæmd þeirra verka er getur í 2. mgr. 12. gr. svo og 13. gr., að taka sjálf að sér framkvæmd að nokkru eða öllu leyti. Gerir hún þá reikning yfir kostnaðinn að verkinu loknu og sætir reikningurinn úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins ef ágreiningur verður. Greiða skal reikninginn samkvæmt úrskurði ráðuneytisins innan mánaðar frá því er hann er felldur.

15. gr.


    Heimilt er með samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að taka eignarnámi hentugt land undir kirkjugarð.

V. KAFLI


Ákvarðanir um nýjan kirkjugarð og stækkun eldri kirkjugarðs.


16. gr.


    Lögmætur safnaðarfundur eða safnaðarfundir, ef fleiri söfnuðir en einn eiga í hlut, ákveður hvenær taka skuli upp nýjan kirkjugarð eða stækka gamlan, en í Reykjavíkurprófastsdæmum kirkjugarðsstjórn.
    Nú er þetta vanrækt og getur þá skipulagsnefnd kirkjugarða skipað fyrir um stækkun eða flutning kirkjugarðs, enda liggi fyrir álit prófasts (prófasta) um nauðsyn þess.
    Þegar gera á nýjan kirkjugarð eða stækka gamlan skal leita umsagnar heilbrigðisnefndar og héraðslæknis og skipulagsnefndar sveitarfélagsins um hvort heilbrigðissjónarmið eða skipulagsástæður standi framkvæmdinni í vegi. Gögn þessi ber síðan að senda ásamt uppdrætti af fyrirhuguðum kirkjugarði eða stækkun hans til skipulagsnefndar kirkjugarða til úrlausnar, en ákvörðun hennar má skjóta til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er úrskurðar málið til fullnaðar.

VI. KAFLI


Uppdrættir af kirkjugörðum og framkvæmdir við þá.


17. gr.


    Kirkjugarðsstjórnir skulu láta gera á sérstök eyðublöð uppdrætti af kirkjugörðum landsins, bæði þeim sem í notkun eru og hinum sem hætt er að nota, en enn hefur eigi verið sléttað yfir. Á uppdrætti þessa skal markað fyrir legsteinum öllum og þeim leiðum sem menn vita deili á. Lýsing fylgi á minnismerkjum og skrá yfir þau leiði sem menn vita, hverjir hvíla undir, ásamt nöfnum þeirra og dánarári.
    Að því búnu lætur framkvæmdastjóri kirkjugarða í samráði við skipulagsnefnd kirkjugarða gera uppdrátt að skipulagi garðanna, stækkun ef með þarf, girðingum og sáluhliði.

18. gr.


    Kirkjugarðar skulu girtir traustri girðingu með vönduðu sáluhliði. Þegar girða þarf kirkjugarð skal leita um það tillagna skipulagsnefndar sveitarfélagsins og skipulagsnefndar kirkjugarða. Að fengnum þessum tillögum gerir safnaðarfundur eða safnaðarfundir, ef fleiri söfnuðir en einn eiga í hlut, ályktun um gerð girðingarinnar, en kirkjugarðsstjórn í Reykjavíkurprófastsdæmum. Náist eigi samkomulag um girðingu við framkvæmdastjóra kirkjugarða ræður úrskurður skipulagsnefndar kirkjugarða.
    Nú er kirkjugarður fjarri kirkju og skal þá vera klukka í sáluhliði, stöpli eða líkhúsi.

19. gr.


    Kirkjugarðsstjórnum er skylt að láta leggja brautir og gangstíga í kirkjugörðum samkvæmt staðfestum uppdrætti, gróðursetja tré og runna, slétta garðinn, ef til þess er ætlast, halda öllu þessu vel við, láta slá garðana reglulega með varúð og hafa þá að öllu leyti vel og snyrtilega hirta.
    Kirkjugarðsstjórnir skulu stuðla að því að legstaðir séu smekklega prýddir blómjurtum og vel um þá hirt.
    Skógrækt ríkisins er skylt að veita kirkjugarðsstjórnum endurgjaldslaust leiðbeiningar um val og hirðingu trjáa er vel hæfa kirkjugörðum.

20. gr.


    Kirkjugarðsstjórn er heimilt að láta reisa kapellu og líkhús í eða við kirkjugarð á kostnað hans og koma þar upp húsnæðisaðstöðu fyrir starfsmenn kirkjugarðsins. Uppdrættir og staðsetning skulu samþykkt af skipulagsnefnd kirkjugarða og skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins. Gerð kapellu og líkhúss skal háð samþykki byggingarnefndar og heilbrigðisnefndar.
    Kirkjugarðsstjórn er enn fremur heimilt að taka þátt í kostnaðarsömum framkvæmdum við útfararkirkjur.
    Skylt er kirkjugarðsstjórn að annast greftrunarkirkjur og kosta rekstur þeirra, sbr. lög um kirkjusóknir o.fl.

VII. KAFLI


Um grafir, umhirðu leiða, legstaðaskrá o.fl.


21. gr.


    Útfararþjónustu mega þeir einir reka sem hafa til þess leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Ráðuneytið leitar umsagnar skipulagsnefndar kirkjugarða um umsóknir um slík leyfi.
    Þar sem kirkjugarðsstjórnir reka útfararþjónustu skal sú starfsemi vera algerlega aðskilin frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórnar.

22. gr.


    Kirkjugarðsstjórn ber að sjá um að greftri sé hagað skipulega og samkvæmt uppdrætti, enda óheimilt að taka gröf annars staðar en þar sem hún leyfir eða umboðsmaður hennar. Gröf má eigi taka innan kirkju eða nær grunni hennar en 1 1 / 2 metra.

23. gr.


    Grafir skulu vera svo djúpar að fullur metri sé frá kistuloki á grafarbarm. Kirkjugarðsstjórn getur heimilað að tvígrafið sé í sömu gröf ef þess er óskað af hálfu vandamanna þess er grafa á og fyrir liggur samþykki vandamanna þess er þar var áður grafinn. Skal þá grafardýpt hið fyrra sinni vera 2 1 / 2 metri. Sá sem gröf lætur taka er skyldur til þess að láta ganga vel frá legstaðnum svo fljótt sem við verður komið og slétta yfir gröfina. Sé þetta vanrækt lætur kirkjugarðsstjórn framkvæma verkið á kostnað hlutaðeiganda.
    Kirkjugarðsstjórn er enn fremur heimilt að ákveða að í tilteknum hluta kirkjugarðs, þar sem jarðvegsdýpt leyfir, skuli grafa í tveimur dýptum.

24. gr.


    Beinum, sem upp kunna að koma þegar gröf er tekin, skal koma fyrir í gröfinni á ný. Sé bálstofa fyrir hendi er heimilt að brenna allar slíkar leifar og leggja öskuna í gröf, sbr. 7. gr.

25. gr.


    Kirkjugarðsstjórn er heimilt að úthluta allt að þremur grafarstæðum til sömu fjölskyldu, enda sé eftir því leitað við greftrun þess er fyrst fellur frá. Réttur til grafarstæðanna helst í 50 ár.

26. gr.


    Vanræki hlutaðeigendur að hirða sómasamlega um gróður á leiði er kirkjugarðsstjórn heimilt að láta þekja og hreinsa leiðið á kostnað þeirra eða kirkjugarðsins. Með sama hætti er heimilt að fjarlægja af leiðum ónýtar eða óviðeigandi girðingar og minnismerki, en gera skal þá vandamönnum viðvart áður ef kostur er og jafnan haft samráð í þessum efnum við sóknarprest, í Reykjavíkurprófastsdæmum við prófasta. Minnismerkjum, sem fjarlægð eru, skal að jafnaði komið fyrir á vissum stað í garðinum þar sem best þykir á fara að dómi prófasts. Þetta gildir og um minnismerki á þeim gröfum sem eru eldri en 75 ára og enginn hefur óskað friðunar á. Séu slík minnismerki flutt skal upprunalegur staður þeirra merktur greinilega samkvæmt öðrum ákvæðum þessara laga.
    Kirkjugarðsstjórnum er heimilt að láta hefja gömul minnismerki úr moldu ef þörf krefur. Enn fremur er þeim skylt að láta smíða hlífðarstokka um þá legsteina er þjóðminjavörður tiltekur. Kostnað, sem af þessu leiðir, ber hlutaðeigandi kirkjugarði að greiða.

27. gr.


    Kirkjugarðsstjórn heldur legstaðaskrá í því formi sem skipulagsnefnd kirkjugarða ákveður. Þar skal rita nöfn, kennitölu og stöðu, heimili, aldur, greftrunardag og grafarnúmer þeirra sem jarðsettir eru, jafnóðum og greftrað er, sbr. þó 3. mgr., og enn fremur nöfn þeirra sem fyrir eru greftraðir í garðinum ef leiði þeirra þekkjast. Uppdráttur að kirkjugarðinum fylgi hverri legstaðaskrá og séu mörkuð á hann leiði allra þeirra sem standa í skránni.
    Skrá skv. 1. mgr. skal gerð í tveimur eintökum og geymist annað hjá sóknarpresti og skal það afhent honum ársfjórðungslega. Í Reykjavíkurprófastsdæmum og öðrum prófastsdæmum, ef þurfa þykir, skal afhenda skrána borgarlækni (héraðslækni), manntalsskrifstofu, þjóðskrárdeild Hagstofu Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Sambandi íslenskra lífeyrissjóða og Blóðbankanum í Reykjavík mánaðarlega.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er kirkjugarðsstjórn að höfðu samráði við prófast (prófasta) og skipulagsnefnd kirkjugarða heimilt að afmarka sérstakt svæði í kirkjugarði og greftra þar án þess að grafarnúmers innan svæðisins sé getið. Að öðru leyti fer um slíkar greftranir svo sem í 1. mgr. getur.

28. gr.


    Öll leiði í kirkjugarði, sem þekkt eru, skulu auðkennd með tölumerki er samsvarar tölu þeirra á legstaðaskrá, sbr. 3. mgr. 27. gr. Sá sem setja vill minnismerki á leiði skal fá til þess leyfi kirkjugarðsstjórnar sem ber að sjá um að minnismerkið sé traust og fari vel. Eigi má setja girðingar úr steini, málmi, timbri, plasti eða sambærilegu efni um einstök leiði eða fjölskyldugrafreiti. Eigi má gera grafhýsi í kirkjugarði.
    Ágreiningi um þessi atriði má skjóta til skipulagsnefndar kirkjugarða.

29. gr.


    Allar grafir skulu friðaðar í 75 ár. Að þeim tíma liðnum er kirkjugarðsstjórn heimilt að grafa þar að nýju eða framlengja friðun ef þess er óskað. Heimilt er og kirkjugarðsstjórn að friða leiði ef þar eru smekkleg minnismerki að mati hennar og þeim vel við haldið eða af öðrum ástæðum.

30. gr.


    Legstaðasjóðir, sbr. 20. gr. laga nr. 21/1963, verða eigi stofnaðir eftir gildistöku laga þessara.
    Kirkjugarðsstjórn hefur á hendi stjórn og reikningshald legstaðasjóða þeirra, sem myndaðir hafa verið fyrir gildistöku laganna, undir yfirstjórn prófasts. Hún ávaxtar sjóðina í Kirkjugarðasjóði eða með öðrum þeim hætti sem henni þykir best henta.
    Nú er friðunartími legstaðar liðinn og ekki nægilegt fé fyrir hendi í sjóðnum til sómasamlegs viðhalds legstaðarins að dómi prófasts (prófasta) og hverfur þá sjóðurinn til kirkjugarðsins sem eign hans.

VIII. KAFLI


Ákvarðanir um að hætt skuli að grafa í kirkjugarði


og um niðurlagningu kirkjugarðs.


31. gr.


    Ákvörðun um að hætta skuli að grafa í kirkjugarði skal gerð á lögmætum safnaðarfundi eða safnaðarfundum, í Reykjavíkurprófastsdæmum í kirkjugarðsstjórn, enda komi til samþykki skipulagsnefndar kirkjugarða.
    Niðurlagningu kirkjugarðs skal tilkynna biskupi og dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Niðurlagðir kirkjugarðar eru friðhelgir og skulu taldir til fornleifa, sbr. þjóðminjalög. Heimilt er að þinglýsa ákvörðun um niðurlagningu kirkjugarðs.
    Skylt er að halda við girðingu um niðurlagðan kirkjugarð á kostnað sóknarkirkjugarðsins svo og að hirða hann sómasamlega.
    Skipulagsnefnd kirkjugarða gerir tillögur í samráði við skipulagsnefnd sveitarfélags og sóknarnefnd (kirkjugarðsstjórn) hvernig með kirkjugarð skuli fara sem hætt er að greftra í.

32. gr.


    Nú eru liðin tuttugu ár frá niðurlagningu kirkjugarðs eða tíu ár a.m.k. frá greftrun í kirkjugarði og getur þá löglegur safnaðarfundur eða safnaðarfundir, í Reykjavíkurprófastsdæmum kirkjugarðsstjórn, fengið garðinn í hendur hlutaðeigandi sveitarfélagi sem almenningsgarð með ákveðnum skilyrðum ef skipulagsnefnd kirkjugarða samþykkir og dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfestir. Heimilt er og með samþykki sömu aðila að slétta yfir niðurlagðan kirkjugarð eða gamla grafreiti sem löngu er hætt að jarða í, en þá skal kirkjugarðsstjórn jafnframt láta reisa þar varanlegt minnismerki með áletrun um það að þar hafi kirkjugarður verið.

33. gr.


    Niðurlagðan kirkjugarð má ekki nota til neins þess sem óviðeigandi er að dómi prófasts (prófasta). Ekki má þar jarðrask gera né reisa nein mannvirki. Þó getur dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitt undanþágu frá þessu, að fengnu samþykki skipulagsnefndar kirkjugarða.
    Vandamenn eiga rétt á að halda við minnismerkjum í niðurlögðum kirkjugörðum eða flytja þau burtu þaðan.

34. gr.


    Þegar samþykkt hefur verið að leggja niður kirkjugarð eða slétta yfir hann skal það auglýst þrisvar í Lögbirtingablaðinu. Gefi þá enginn sig fram innan átta vikna er vilji varðveita minnismerki í garðinum eða taka þau í sína vörslu getur kirkjugarðsstjórn valið þeim annan stað, sbr. 26. gr.

35. gr.


    Áður en sléttað er yfir gamlan kirkjugarð skal hlutaðeigandi sóknarprestur, í Reykjavíkurprófastsdæmum kirkjugarðsstjórn, semja nákvæma skrá yfir öll minnismerki í garðinum og senda biskupi.

36. gr.


    Nú spillir uppblástur eða vatn niðurlögðum kirkjugarði og skal þá kirkjugarðsstjórn tafarlaust tilkynna það skipulagsnefnd kirkjugarða. Nefndin gerir síðan þær ráðstafanir er þurfa þykir.

IX. KAFLI


Kirkjugarðsgjöld.


37. gr.


    Kirkjugarðsstjórnir skulu árlega semja áætlun um tekjur og gjöld þeirra kirkjugarða sem þær hafa í umsjá sinni. Á sama hátt skulu þær semja reikning fyrir næstliðið ár yfir tekjur og gjöld kirkjugarðanna, svo og skýrslu um eignir þeirra að meðtöldum legstaðasjóðum, sbr. 30. gr.
    Um reikningshald kirkjugarða gilda sömu reglur sem um reikningshald kirkna.

38. gr.


    Tekjur kirkjugarða, auk þeirra sem áður er getið, skulu vera 1 1 / 2 % árlega reiknaðar af aðstöðugjöldum á því svæði er rétt á til kirkjugarðsins. Tekjur kirkjugarða samkvæmt þessari málsgrein og 39. gr. nefnast einu nafni kirkjugarðsgjöld.
    Nú hrökkva eigi tekjur kirkjugarðs fyrir nauðsynlegum útgjöldum og er þá kirkjugarðsstjórn heimilt að fengnu leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar að hækka hundraðsgjaldið af aðstöðugjöldum fyrir eitt ár í senn í allt að 4%.
    Komi það í ljós að tekjur kirkjugarðs skv. 1. mgr. að viðbættum öðrum tekjum mundu fara verulega fram úr áætluðum gjöldum það ár getur dóms- og kirkjumálaráðuneytið heimilað hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn fyrir eitt ár í senn að innheimta lægra hundraðsgjald af aðstöðugjöldum en í 1. mgr. segir.
    Innheimtuaðilar aðstöðugjalda skulu innheimta þann hluta kirkjugarðsgjaldsins sem reiknast af aðstöðugjöldum og er þeim heimilt að taka 1% í innheimtulaun. Þeim ber að skila gjaldinu mánaðarlega til viðkomandi kirkjugarðsstjórnar. Heimilt er þó að greiða gjaldið sjaldnar til fámennari safnaða eftir samkomulagi.
    Kirkjugarðsgjöld reiknuð af aðstöðugjöldum eru lögtakskræf.
    Hjón bera sameiginlega ábyrgð á greiðslu kirkjugarðsgjalda samkvæmt þessari grein.

39. gr.


    Ríkissjóður skal skila 15. hvers mánaðar af óskiptum tekjuskatti fjárhæð er rennur til kirkjugarða landsins. Fjárhæð þessi reiknast þannig að fyrir hvern einstakling, sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári, greiðist ákveðin upphæð sem ákvarðast þannig:
    Á árinu 1993 skal gjaldið vera 174,9 kr. á einstakling á mánuði, að viðbættri fjárhæð er samsvarar þeirri hækkun er verður á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli tekjuáranna 1991 og 1992.
    Á árinu 1994 og síðar ákvarðast gjaldið af endanlegri ákvörðun gjaldsins frá fyrra ári, að viðbættri hækkun er samsvarar þeirri hækkun er kann að verða á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli tveggja næstliðinna tekjuára á undan gjaldári.
    Nú verða gerðar breytingar á útreikningi tekjuskattsstofns og skal þá taka tillit til þess við ákvörðun gjaldsins hverju sinni.
    Hækkun á gjaldi samkvæmt þessari grein skal ákvarðast af kirkjumálaráðherra í samræmi við upplýsingar frá ríkisskattstjóra og Þjóðhagsstofnun eigi síðar en 1. ágúst ár hvert. Þar til ákvörðun þessi liggur fyrir skal ráðherra ákveða uppígreiðslu gjaldsins fyrir mánuðina janúar til júlí ár hvert, á grundvelli spár um tekjuþróun tveggja næstliðinna ára.
    Hver kirkjugarður á rétt á gjaldi skv. 1. mgr. fyrir hvern þann sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins gjaldárs og býr á því svæði er rétt á til kirkjugarðsins miðað við 1. desember næst á undan gjaldári. Ríkisbókhaldið annast skiptingu gjaldsins.
    Gjald vegna manna, sem eru óstaðsettir á landinu samkvæmt þjóðskrá, greiðist til Kirkjugarðasjóðs, sbr. X. kafla.

X. KAFLI


Kirkjugarðasjóður.


40. gr.


    Til Kirkjugarðasjóðs, sem stofnaður var með lögum nr. 21/1963, 27. gr., skulu renna 8% af kirkjugarðsgjöldum.
    Ríkisbókhaldið og innheimtuaðilar aðstöðugjalda skulu standa stjórn sjóðsins skil á gjaldi þessu ársfjórðungslega eða eftir nánara samkomulagi.
    Kirkjugarðsstjórnir geta ávaxtað í sjóðnum það fé kirkjugarða sem er umfram árlegar þarfir með almennum innlánskjörum lánastofnana.
    Stjórn sjóðsins skipa þrír menn kjörnir til fjögurra ára í senn af kirkjuráði, þar af einn samkvæmt tilnefningu stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Varamenn skulu kjörnir með sama hætti. Kirkjuráð ákveður hver vera skuli formaður og varaformaður stjórnarinnar.
    Reikningshald sjóðsins annast skrifstofa biskups og gilda um það sömu reglur sem um reikningshald kirkna. Reikningar Kirkjugarðasjóðs skulu árlega birtir í Stjórnartíðindum.

41. gr.


    Meginmarkmið Kirkjugarðasjóðs er að jafna aðstöðu kirkjugarða og veita aðstoð þar sem tekjur kirkjugarða hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum.
    Úr sjóðnum má veita lán og/eða styrki kirkjugarðsstjórnum til kirkjugarða og kirkna, svo og til þess að setja upp minnismerki þar sem verið hafa kirkjugarðar, kirkjur eða bænahús.
    Sjóðnum er heimilt að kosta viðhald og umhirðu kirkjugarða í sóknum sem eyðst hafa af fólki.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins að fengnum tillögum stjórnar hans.

XI. KAFLI


Heimagrafreitir.


42. gr.


    Eigi má veita leyfi til upptöku heimagrafreita.
    Leyfishafar heimagrafreits greiði sem aðrir til sóknarkirkjugarðs síns, enda er þeim heimilt leg í honum.
    Réttur til heimagrafreits á ættaróðali fellur niður ef óðalið gengur úr ættinni.

43. gr.


    Nú hefur eigi verið greftrað í heimagrafreit í full 25 ár og eigandi jarðarinnar óskar þess að leggja grafreitinn niður og er honum þá heimilt að taka niður girðingu um reitinn og breyta honum í grasflöt eða trjálund ef skipulagsnefnd kirkjugarða samþykkir. Séu minnismerki í garðinum skal jarðeigandi gera vandamönnum skv. 1. mgr. 47. gr. viðvart um að hann ætli að leggja reitinn niður. Er þeim heimilt að halda við minnismerkjum þar á sinn kostnað eða ráðstafa þeim á annan hátt.
    Um niðurlagða heimagrafreiti gilda að öðru leyti ákvæði 2. mgr. 31. gr.

XII. KAFLI


Skráning kirkjugarða og heimagrafreita.


44. gr.


    Próföstum er skylt að halda nákvæma skrá um kirkjugarða og heimagrafreiti í prófastsdæminu og skoða þá á yfirreiðum sínum og senda biskupi afrit af skoðunargerðum. Fyrir skoðun kirkjugarðs og heimagrafreits ber prófasti hálft kirkjuskoðunargjald er greiðist af sjóði kirkjugarðs eða eiganda heimagrafreits.

XIII. KAFLI


Grafreitir utanþjóðkirkjusafnaða.


45. gr.


    Heimilt er utanþjóðkirkjusöfnuðum, sem hafa löggiltan forstöðumann, að taka upp sérstakan grafreit. Gilda um upptöku hans, viðhald, afnot, stjórn, fjárhag og niðurlagningu sömu reglur sem um kirkjugarða þjóðkirkjunnar eftir því sem við getur átt.
    Safnaðarmenn utanþjóðkirkjusafnaðar, er hafa sérstakan grafreit, eru ekki skyldir til að greiða gjald til sóknarkirkjugarðsins meðan þeir halda sínum grafreit sómasamlega við og fylgja settum reglum.

XIV. KAFLI


Tilfærsla líka og flutningur þeirra.


46. gr.


    Heimilt er dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að fengnu samþykki kirkjugarðsstjórnar sem hlut á að máli og biskups að leyfa tilfærslu líka í kirkjugarði eða flutning þeirra í annan kirkjugarð eða í grafreit. Umsókn um slíka færslu skal senda biskupi, stílaða til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Í umsókn skal fram tekið nafn hins látna og aldur, greftrunardagur og dánarmein ef vitað er, svo og ástæður fyrir umsókninni. Fylgja skal og vottorð héraðslæknis um að hann telji eigi sýkingarhættu stafa af líkflutningnum.

47. gr.


    Réttir aðilar til að standa að umsókn skv. 46. gr. eru eftirlifandi maki, sambúðarkona eða sambúðarmaður, börn hins látna eða aðrir niðjar, foreldrar eða systkin. Einnig er kirkjugarðsstjórn rétt að senda slíka umsókn ef nánir ættingjar hins látna eru ekki lífs eða ef samþykki þeirra liggur ekki fyrir.
    Leyfi veitist með eftirfarandi skilyrðum:
    Héraðslæknir eða fulltrúi hans sé viðstaddur upptöku líksins.
    Ef um flutning úr kirkjugarði er að ræða, sé líkið í sterkri kistu er héraðslæknir telur fullnægjandi og hlýtt fyrirmælum hans um framkvæmd alla. Við tilfærslu líka innan kirkjugarðs sker héraðslæknir úr um það hvort þörf sé á sérstakri kistu.

48. gr.


    Upptaka líks samkvæmt dómsúrlausn fer fram eftir því sem þar greinir.

49. gr.


    Sóknarprestur skal jafnan vera viðstaddur upptöku líks. Sér hann og um að flutningsins sé getið í legstaðaskrá kirkjugarðsins. Enn fremur skal prestur vera við þegar lík er þannig jarðsett.

XV. KAFLI


Stjórnvaldsreglur, viðurlög, gildistaka og brottfallin lög.


50. gr.


    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið setur reglugerðir um málefni þau sem lög þessi taka til, þar á meðal um kirkjugarða, þar sem kveðið skal nánar á um rekstur þeirra og stjórn og tilhögun á greftri líka. Þá skal einnig kveðið nánar á um líkbrennslu í reglugerð.
    Reglugerðir um kirkjugarða skulu settar í samráði við skipulagsnefnd kirkjugarða. Um reglugerðir varðandi líkbrennslu skal einnig leita tillagna Bálfararfélags Íslands ef því er að skipta.

51. gr.


    Kirkjugarðsstjórnum er rétt að gera tillögur um reglur varðandi einstaka kirkjugarða og leita staðfestingar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á þeim. Ráðuneytið leitar umsagnar skipulagsnefndar kirkjugarða um tillögurnar.

52. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum, enda liggi eigi þyngri refsing við samkvæmt öðrum lögum.

53. gr.


    Lög þessi taka gildi þegar í stað.
    Umboð kjörinna meðlima í skipulagsnefnd kirkjugarða fellur niður 31. des. 1992 og skal kjósa nýja meðlimi í nefndina fyrir þann tíma, sbr. 11. gr.

54. gr.


    Frá gildistöku laga þessara falla úr gildi þessi lög og lagaákvæði:
    Lög um kirkjugarða, nr. 21 23. apríl 1963, svo og 35. gr. laga um ráðstafanir í efnahagsmálum o.fl., nr. 11 28. apríl 1975, svo og lög nr. 89 29. desember 1987, er breyta lögum nr. 21/1963.
    Lög um líkbrennslu, nr. 41 3. nóvember 1915.
    Ákvæði kirkjuskipunar Kristjáns fjórða frá 2. júlí 1607, sbr. tilskipun 29. nóvember 1629, II, 13.
    Lög um afhendingu á landi til kirkjugarðs í Reykjavík, nr. 38 3. nóvember 1915, svo og lög nr. 11 4. júní 1924 og lög nr. 38 7. maí 1928, er breyta þeim lögum.
    Lög um afhendingu á landi til kirkjugarðs í Stokkseyrarsókn, nr. 14 8. september 1918.
    Lög um kirkjugarðsstæði í Reykjavík o.fl., nr. 13 14. júní 1929.
    Þá eru öll önnur ákvæði eldri laga, sem fara í bága við lög þessi, úr lögum numin.
    Stjórnvaldsreglur, sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 21/1963 og nr. 41/1915, sem ekki fara í bága við lög þessi, halda gildi sínu uns nýjar reglur eru settar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta hefur áður verið lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Frá því að frumvarpið var áður lagt fram hafa verið gerðar breytingar á nokkrum greinum þess, sbr. það sem segir hér að neðan. Við endurskoðun kirkjulaganefndar á kirkjulöggjöf kannaði nefndin m.a. þörfina á breytingum á lögum um kirkjugarða, nr. 21/1963, sbr. 35. gr. laga nr. 11/1975 og 14. gr. laga nr. 10/1983 er breyta þeim lögum. Nefndinni bárust tillögur og ábendingar frá ýmsum aðilum sem kunnugir eru framkvæmd laga þessara, einkum frá stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Samdi nefndin síðan frumdrög að frumvarpi um þetta efni er kirkjuráð lagði fyrir kirkjuþing til álita 1985, en málið var afgreitt þar endanlega haustið 1986 eftir að tillögur höfðu borist frá ýmsum aðilum. Taldi kirkjuþing rétt að heildarfrumvarp yrði samið um þetta efni og tók saman slíkt frumvarp. Þá var horfið að því ráði á kirkjuþingi að fella lög um líkbrennslu, nr. 41/1915, inn í frumvarpið.
    Kirkjulaganefnd fjallaði að nýju um frumvarpið eins og það kom frá kirkjuþingi og lagði til ýmsar breytingar. Varða þær form frumvarpsins og lagatæknileg atriði. Leiddi könnun nefndarinnar til þess að nýtt frumvarp var samið. Fól dóms- og kirkjumálaráðuneytið nefndinni sérstaklega að fjalla um þann þátt er varðar líkbrennslu þar sem nefndin taldi ekki öruggt að umboð sitt næði til þess. Dr. Ármann Snævarr framkvæmdi endurskoðunina á vegum kirkjulaganefndar og samdi nýtt frumvarp og greinargerð með því er kirkjulaganefnd í heild sinni stendur að.
    Frá því að frumvarp þetta var síðast lagt fram á Alþingi á 115. löggjafarþingi hafa nokkrar breytingar verið gerðar á því í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Breytingarnar varða 10., 20. og 21. gr. frumvarpsins og miða að því að skerpa línur um það hvaða verkefni kirkjugörðum er ætlað að kosta með kirkjugarðsgjöldum.
    Sérstakri nefnd var falið að fjalla um kirkjugarðsgjöld og Kirkjugarðasjóð og var frumvarp, er sú nefnd samdi, lögfest, sbr. lög nr. 89/1987, sbr. og IX. og X. kafla þessa frumvarps og greinargerð með þeim.
    Ekki er í frumvarpinu gerð breyting varðandi þann grundvöll sem aðstöðugjald er fyrir útreikning ákveðinna tekna kirkjugarða, sbr. 38. gr. frumvarpsins, þótt innheimta aðstöðugjalds hafi verið felld niður, sbr. lög nr. 113/1992, um breyting á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga. Um þetta þarf að fjalla nánar þegar þeim atriðum, sem lög nr. 113/1992 fjalla um, verður ráðið til lykta fyrir árið 1994.
    Hér á eftir fer greinargerð kirkjulaganefndar og er fyrst vikið að almennum atriðum um greftrun líka, kirkjugarða og líkbrennslu.

I.


Um greftrun líka og þróun kirkjugarðalöggjafar.


    Það er grundvallarviðhorf kristinnar trúar að lík skuli greftruð í vígðum reit. Kirkjugarðar hljóta því að hafa myndast snemma í íslenskri kristni. Fornleifafundir benda og til þess. „Sá maður, er kirkju varðveitir, á gröft uppi að láta, og skal þar grafa, sem hann kveður á og prestur sá, er þar er“, segir í kristinna laga þætti Grágásar, t.d. III,7. Er þar og talað um kirkjugarða og gert ráð fyrir að þeir séu í námunda við kirkju. Í sömu heimild eru fyrirmæli um legkaup og líksöngskaup. Eru rækileg ákvæði um meðferð líka, gröft og skyldu manna til að greiða för þeirra er lík færðu til kirkju. Varðaði miklu að eigi lenti í undandrætti að færa lík til greftrunar, en jafnframt segir: „ . . . lík skal eigi grafa áður en kólnað er“ og eigi skal bera lík í kirkju „bert eða blóðugt“. Eru fyrirmæli kristinna laga þáttar mjög athyglisverð.
    Í Kristinrétti Árna biskups frá 1275, 18. kap., eru ákvæði um gröft í kirkjugarði. Segir þar í upphafi: „Hvern mann kristinn, sem deyr, skal jarða í kirkjugarði vígðum en eigi í kirkju, nema biskups sé lof til.“ Þá segir m.a.: „Eigi skal lík inni standa yfir fimmt nauðsynjalaust,“ en refsingu varðaði ef af var brugðið nema líkfærsla væri eigi gerleg vegna óveðurs og færðar. Skylt er mönnum að greiða för þeirra sem færa lík til kirkju. Endurtekið er boð Grágásar um að lík skuli ekki greftra fyrr en kólnað er. Þar skal greftra lík sem kirkjuprestur kveður á um „en þar á hver kristinn maður löglegan gröft, sem hann er í kirkjusókn, nema hann kjósi sér legstað að annarri graftrarkirkju með sjálfs síns minni og með skynsemd heill að viti“. Þá voru þar ákvæði um að legkaup eða líksöng skyldi eigi „meta“, en mjög samir, að menn gefi kirkju gjafir eða kennimönnum til bænahalds „fyrir þeim, sem fram eru farnir af heiminum“. Skyldi biskup jafnvel þröngva mönnum til slíkra gjafa.
    Ákvæði um kirkjugarða eru fá í kirkjulöggjöf siðskiptanna og hafa ákvæði Kristinréttar þá gilt áfram í megindráttum. Um greftrun líka voru ákvæði í kirkjuskipuninni frá 2. júlí 1607, II,13, sbr. tilskipun 29. nóvember 1629 sem enn er talin í gildi og tekin í lagasafn 1983.
    Ætla má að reglur um legkaup og líksöngseyri hafi mótast fyrir venjur smám saman.
    Af ýmsum gögnum má ráða að óvissa hafi verið eftir siðskipti um hald kirkjugarða og hver ætti til að svara og um framlög sóknarmanna til kirkjugarða. Um þetta voru síðan að nokkru fyrirmæli í tíundarreglugerð 17. júlí 1782, 15. gr., sbr. enn fremur t.d. konungsúrskurð 28. apríl 1847 um Reykjavík og tilskipun 27. janúar sama ár. Í viðaukalögum nr. 11/1882 við lög 27. febrúar 1880 um stjórn safnaðarmála o.fl. voru ákvæði um skylduvinnu er sóknarmenn eiga fram að leggja, m.a. þegar kirkjugarður er gerður.
    Fyrstu heillegu lögin um kirkjugarða og viðhald þeirra eru lög frá 8. nóvember 1901, sbr. og reglugerð 16. ágúst 1902. Voru þar allrækileg ákvæði varðandi upptöku kirkjugarðs og svo niðurlagningu hans og hversu ákvarðanir um þau efni yrðu teknar. Enn fremur var þar kveðið á um skyldu sóknarmanna til framlaga vegna kirkjugarða og m.a. viðhalds þeirra. Gert var hins vegar ráð fyrir því að reglur um friðhelgi þeirra, meðferð grafreita, tilhögun á greftri o.fl. yrðu settar með reglugerð. Voru lögin því tiltölulega stutt.
    Lög nr. 29, um líkhús, voru sett árið 1926.
    Kirkjulaganefndin, sem skipuð var 1929, samdi frumvarp til laga um kirkjugarða, nr. 64, og var það samþykkt 1932. Þessi lög eru talsvert rækilegri en fyrirrennari þeirra, m.a. um stjórnun kirkjugarða, fjárhag, upptöku og niðurlagningu kirkjugarða og um legstaðasjóði. Nýjar reglur voru settar um niðurjöfnun gjalda og skyldu þau vera hundraðshluti af útsvörum. Þá voru ákvæði í lögunum um heimagrafreiti og um grafreiti utanþjóðkirkjumanna. Lög þessi, sbr. og breytingalög nr. 70/1941, voru í gildi uns núgildandi lög nr. 21/1963 voru sett.
    Frumvarp til þeirra var samið af kirkjulaganefndinni frá 1955 og hafði kirkjuþing þrívegis fjallað um frumvarpið áður en það var samþykkt á Alþingi. Ákvæði þeirra laga eru til muna ítarlegri en laganna nr. 64/1932, þar á meðal um stjórn kirkjugarða, tilhögun grafreita, merkingu þeirra og svo um kirkjugarðsgjöld. Þessi lög bönnuðu upptöku heimagrafreita. Þeim hefur verið lítillega breytt með 35. gr. laga nr. 11/1975, 14. gr. laga nr. 10/1983 og 26. og 27. gr. laga nr. 89/1987.
    Þegar litið er á þróunarferil löggjafar um meðferð líka og kirkjugarða er sögulegt samhengi næsta skýrt.

II.


Líkbrennsla.


Bálfarir. II. A.


    Hjá fornþjóðum ýmsum var sá siður algengur að brenna lík. Þetta á t.d. við um Grikki og Rómverja og sama er víða í Austurlöndum, nema hjá Kínverjum. Þessi siður var einnig tíðkaður með norrænum þjóðum fyrir kristni. Talið hefur verið að líkbrennslu hafi lítt gætt hér á landi í heiðnum sið, sbr. Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder, V. bindi, bls. 445.
    Kristin kirkja var lengstum andsnúin bálförum. Í Evrópu komu upp hugmyndir um bálfarir á stjórnbyltingartímabilinu, en þó einkum eftir miðja 19. öld á Ítalíu og í Þýskalandi og litlu síðar í Bretlandi. Voru það einkum læknar sem voru frumkvöðlar þessara hugmynda. Rökin voru einkum sóttvarnareðlis. Hér kom það þó einnig til að kirkjugarðar eru alllandfrekir, en eftir því sem borgir uxu reyndist örðugt og dýrt að afla landsvæða fyrir þá. Í upphafi var þeim lögfræðirökum teflt fram gegn líkbrennslu að þær væru varhugaverðar þar sem líkbrennsla afmáir ummerki um dánarorsök, m.a. er andlát stafar af afbroti (manndráp með eitri o.fl.). Þau rök mótuðu þær reglur í löggjöf að vanda þyrfti mjög til líkskoðunar áður en líkbrennsla væri tæk og búa þyrfti vel um formsatriði ýmis í því sambandi. Fyrstu lögin um líkbrennslu í Evrópu geymdu ærið ströng formskilyrði og var m.a. áskilið að menn tækju sjálfir afstöðu til þessa máls og var ekki heimilt að brenna lík ólögráða manna allvíða í löndum. Lögin hafa smám saman rýmkað kosti til líkbrennslu.
    Bálfararfélög voru stofnuð skömmu eftir 1870 á Ítalíu, í Þýskalandi og Bretlandi. Hafa þau félög haft mikil áhrif, en alþjóðasamtök þeirra voru stofnuð 1937.
    Á Norðurlöndum voru bálfararfélög stofnuð síðustu áratugi 19. aldar, t.d. í Danmörku 1881 og 1889 í Noregi. Í Danmörku lagði dómsmálaráðuneytið bann við bálförum áður en lög voru sett þar í landi um líkbrennslu árið 1892 og féllust dómstólar eigi á að aflétta því banni. Árið 1894 var prestum í Danmörku leyft að leggja atbeina sinn til líkfarar ef brenna átti lík. Dönsku lögin heimiluðu eigi að lík ólögráða barns væri brennt, en því var breytt 1910. Norsk lög frá 1898 voru talin mjög frjálsleg í þessu efni og vöktu athygli í Evrópu.
    Hér á landi voru það einkum læknar sem gerðust forvígismenn í þessu máli. Má m.a. nefna greinar þeirra Steingríms Matthíassonar í Skírni 1905, bls. 48–55, og Guðmundar Björnssonar í Skírni 1913, bls. 97–122. Bálfararfélag Íslands var stofnað 1934, fyrsti formaður var dr. Gunnlaugur Claessen.

II. B.


    Á Alþingi 1914 var borið fram frumvarp til laga um afhendingu á landi til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík. Nefnd, sem fjallaði um frumvarpið, flutti þingsályktunartillögu, sem samþykkt var, um að skora á ríkisstjórnina að afla gagna um kostnaðinn við að koma upp líkbrennslustofnun í Reykjavík. Á Alþingi 1915 flutti Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands, frumvarp til laga um líkbrennslu og var það samþykkt lítið breytt með samhljóða atkvæðum og án þess að nokkrar umræður færu fram um málið sem orð er á gerandi. Lögin nr. 41/1915 hafa vel staðist tímans tönn því að þau eru óbreytt frá fyrstu gerð enn í dag.
    Í lögum nr. 41/1915, um líkbrennslu, er mælt fyrir um líkbrennslustofnanir, en þær einar stofnanir eru löggiltar sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitir viðurkenningu, sbr. 1. gr. Eru nánari ákvæði um það efni í reglugerð nr. 4/1951, þar á meðal um fyrirkomulag og búnað bálstofa, um tilkynningu um ábyrgð og fyrirsvar fyrir bálstofu, um eftirlit með bálstofum, um bálfararbók og sviptingu á leyfi til að reka bálstofu. Í lögunum eru allrækileg ákvæði um það hverjir geti tekið ákvörðun um líkbrennslu og mælt er fyrir um formbindingu á yfirlýsingu manns sjálfs um að lík hans skuli brennt. Úr lögum nr. 41/1915 má lesa þá meginreglu íslensks réttar að menn eiga frjálst val um hvort lík þeirra skuli brennt eða greftrað. Hinu sama gegnir um kosti vandamanna til ákvörðunar, enda gangi hún ekki gegn vilja hins látna. Hitt er það að ef vandamenn skilur á verða málalok þau að lík skuli greftrað. Í lögum um líkbrennslu eru enn fremur reglur um meðferð á ösku, sbr. og reglugerð nr. 4/1951 og svo 17. gr. laga um kirkjugarða, nr. 21/1963.

III.


Greftranir og bálfarir.


    Eigi eru tiltækar upplýsingar um greftranir hér á landi né um fjölda kirkjulegra athafna í sambandi við þær. Hins vegar eru til gögn um líkbrennslu, svo og um það hversu margir menn andast ár hvert (gögn frá Hagstofu og Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma). Skrá, sem unnin hefur verið úr þeim gögnum, fer hér á eftir.

     Fjöldi

        Bálfarir

     Hundraðstala


    látinna

     bálfara



1964          
1315
51 3.8
1965          
1291
55 4.3
1966          
1391
58 4.2
1967          
1385
75 5.4
1968          
1390
61 4.4
1969          
1451
77 5.3
1970          
1457
63 4.3
1971          
1501
71 4.7
1972          
1447
96 6.6
1973          
1475
70 4.8
1974          
1495
87 5.2
1975          
1412
75 6.8
1976          
1343
72 5.3
1977          
1435
115 8.0
1978          
1421
86 6.5
1979          
1482
83 5.6
1980          
1538
96 6.2
1981          
1656
123 7.4
1982          
1583
113 7.1
1983          
1653
121 7.3
1984          
1584
100 6.3
1985          
1656
116 7.0
1986          
1597
100 6.3
1987          
1724
125 7.3
1988          
1818
134 7.4
1989          
1715
121 7.1
1990          
1750
126 7.2


    Bálförum hefur fjölgað hlutfallslega yfir þetta tímabil frá 3,8% árið 1964 upp í hæst 8,0% árið 1977. Fyrsta bálför hér á landi fór fram 2. ágúst 1948. Fram til þess höfðu lík verið send til brennslu til útlanda, oftast til Kaupmannahafnar. Alls voru 1.491 lík brennd frá 1948 til ársloka 1974, þar af 762, eða ríflega helmingur, á árunum 1964–1974, að báðum árum meðtöldum. Frá 1. janúar 1975 til 31. desember 1990 eru bálfarir 1.706 eða 107 á ári, um 7% að jafnaði síðustu fimm árin. Þess munu naumast dæmi að lík hafi verið brennt hér á landi án þess að kirkjuleg athöfn hafi á undan farið. Öll lík, sem ekki eru brennd, eru grafin, nema þegar lík finnst ekki. Fjöldi kirkjulegra athafna í sambandi við greftranir er þó nokkru minni en fjöldi látinna manna segir til um því að stundum eru fleiri menn jarðsettir við sömu jarðarförina. Þar á móti kemur að vísu að stundum fer tvisvar fram kirkjuleg athöfn í sambandi við tiltekna greftrun, t.d. athöfn í Reykjavík, en greftrað er annars staðar á landinu. Til fádæma má telja að ekki njóti við atbeina prests við jarðarför. Í sambandi við jarðarfarir fer venjulega fyrst fram kistulagning þar sem prestur er viðstaddur og stendur fyrir sérstakri athöfn.

IV.


Lagasjónarmið að baki lögum um kirkjugarða og líkbrennslu.


    IV.1. Fyrst og fremst ráða hér trúræn viðhorf. Kristin trú býður að greftra lík í vígðum reit þótt það samrýmist einnig trúarskoðunum margra manna að lík sé brennt og aska þá oft jarðsett. Það er rótgróið í vitund almennings að eðlilegt sé að nokkur kveðjuathöfn fari fram um látna menn. Hér kemur það til að menn vilja tjá hinum látna virðingu sína og vandamenn kveðja hann með athöfn sem að jafnaði hefur á sér trúrækilegt snið.
    IV.2. Hér reynir og á heilbrigðissjónarmið því að greftrun eða líkbrennsla er að sínu leyti heilbrigðisráðstöfun þar sem tryggt er að við slíka meðferð líka sé gætt þeirra sóttvarnarreglna sem þörf er á.
    IV.3. Kirkjugarðar og góð umhirða þeirra er vissulega einnig menningarmál eins og ætla má að allur þorri manna virði það. Það hlýtur að vera hverju sveitarfélagi metnaðarmál að vel takist til í þessu efni. Lengi hefur þótt eðlilegt út frá þessu sjónarmiði að leggja nokkrar skyldur á sveitarfélög einkum um að láta í té land undir kirkjugarða og sjá um gerð og viðhald vega að kirkjugörðum og lýsingu þeirra o.fl. Þetta frumvarp er á því byggt að nauðsynlegt sé að auka samskipti sveitarstjórna og kirkjugarðsstjórna, bæði um val á kirkjugarðsstæði við skipulagningu fyrir sveitarfélagið, svo og við ýmsar framkvæmdir í eða við kirkjugarð. Er þá eðlilegt að mæla fyrir um samráð við skipulagsnefnd sveitarfélags og eftir atvikum við heilbrigðisnefnd, sbr. 16., 18., 20. og 31. gr. frumvarpsins.
    IV.4. Í greinargerð með frumvarpi til laga um kirkjugarða frá 1963 segir svo: „Hér á landi er skipulagi og hirðingu kirkjugarðanna mjög ábótavant og hefur svo lengi verið“, sbr. Alþt. 1962, A, bls. 914. Síðan þetta var ritað hefur skipulagning kirkjugarða og umhirða þeirra tekið miklum stakkaskiptum til bóta. Vafalaust eru þó ýmis dæmi enn um vanhirðu og tómlæti í þessu efni. Þarf því ótvírætt átak til þess að þoka þeim málum í betra horf.

V.


Yfirlit yfir efni frumvarpsins og nokkrar helstu breytingar sem það felur í sér.


    I. Form frumvarpsins og efnissvið.
    Lög nr. 21/1963 fjalla um allsundurleitt efni, en eru þó lítt kaflaskipt. Í þessu frumvarpi er ákvæðum skipað í marga kafla eftir efnistengslum ákvæða. Er þess vænst að það horfi til glöggvunar og aukinnar yfirsýnar. Nokkrar greinar laga nr. 21/1963 eru alllangar og er efni þeirra skipað í fleiri greinar en eina.
    Um efnissvið frumvarpsins er þess áður getið að hér eru tekin með ákvæðin um líkbrennslu, enda eru náin tengsl milli laga um greftrun líka og kirkjugarða annars vegar og laga um líkbrennslu og líkbrennslustofnanir hins vegar.
    II. Yfirlit yfir efni frumvarpsins og helstu breytingar sem fólgnar eru í því.
    II.1. Í I. kafla frumvarpsins eru tekin upp ákvæðin um skyldu til að greftra lík eða brenna þau í löggildum stofnunum og svo ákvæðin er lúta að því hverjir séu lögbærir til að taka ákvarðanir í því efni. Þá er einnig tekið í frumvarpið ákvæði, 3. gr., er vísar til laga er mæla fyrir um hvers gæta skuli áður en lík er greftrað eða brennt.
    II.2. Í II. kafla er m.a. skýrgreint hugtakið kirkjugarður og þar er ákvæði er heimilar að afmarka óvígðan reit innan vígðs kirkjugarðs. Þá eru þar ákvæði, 7. gr., um hverjar líkbrennslustofnanir séu löggildar hér á landi.
    II.3. Í III. kafla frumvarpsins eru ákvæði um stöðu kirkjugarða að lögum, stjórn þeirra, starfslið og yfirumsjón. Gætir þar nokkuð breytinga, þar á meðal er svo fyrir mælt að skipulagsstjóri ríkisins skuli eiga sæti í skipulagsnefnd kirkjugarða. Enn fremur er lagt til í 10. gr. frumvarpsins að kirkjugarðsstjórn sjái um að láta taka allar grafir og beri kostnað af prestsþjónustu vegna útfara.
    II.4. Í IV. kafla frumvarpsins er safnað ákvæðum um skyldu sveitarfélags vegna kirkjugarða. Eru þar nokkrar breytingar.
    II.5. Í V. kafla er ákvæði um nýjan kirkjugarð og stækkun eldri kirkjugarðs. Í þeim kafla og víðar í frumvarpinu er lagt til að skipulagsnefnd sveitarfélaga og eftir atvikum heilbrigðisnefnd þeirra fjalli um mál, enda er mikilvægt að samstarf sé traust og gott milli sveitarfélags og kirkjugarðsstjórnar, sbr. um þetta efni 16., 18., 20. og 31. gr. frumvarpsins.
    II.6. Í VI. kafla eru ákvæði um uppdrætti að kirkjugörðum og ýmsar framkvæmdir í þágu þeirra. Er m.a. lagt til að heimilt sé að reisa kapellu auk líkhúss í kirkjugarði eða við hann. Enn fremur eru nokkuð rýmri ákvæði um heimild til að útbúa húsnæði fyrir starfsmenn kirkjugarða en nú eru í lögum. Þá er lagt til að kirkjugörðum sé heimilt að taka þátt í kostnaðarsömum framkvæmdum við útfararkirkjur. Sérstakt ákvæði er í 20. gr. um umsjá greftrunarkirkju og fé til rekstrar hennar.
    II.7. Í VII. kafla frumvarpsins eru almennar reglur um greftrun líka og grafir, umhirðu leiða og legstaðaskrá. Lagt er til að leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þurfi til að reka útfararþjónustu og að skýrt sé kveðið á um í lögum að þar sem kirkjugarðsstjórnir annist útfararþjónustu skuli sú starfsemi vera aðskilin frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórnar. Ákvæðin um fjölskyldugrafreiti í 25. gr. eru nokkuð breytt, þar á meðal er lagt til að fellt sé niður leyfisgjald og tíminn, sem aðili á rétt til grafarstæðis, er styttur. Reglur um legstaðaskrár, sbr. 27. gr., eru nokkuð breyttar í frumvarpsgreininni. Þá er lagt til að lögfest verði það nýmæli í 3. mgr. 27. gr. að heimilt sé að greftra án þess að grafarnúmers innan kirkjugarðs sé getið. Í 30. gr. er lagt til að heimild til að stofna legstaðasjóði, svo sem er samkvæmt lögum nr. 21/1963 (lögfest 1932), sé afnumin, enda virðast ákvæði um það efni gegna litlu hlutverki og ákvæðin nánast óvirk.
    II.8. Í VIII. kafla frumvarpsins eru ákvæði er varða reglur um að hætt skuli að greftra í kirkjugarði (grafreiti) og um niðurlagningu hans. Í 31. gr. frumvarpsins er lagt til að lögmætur safnaðarfundur geti ráðið máli til lykta án þess að aukinn meiri hluti, 2 / 3 , sé áskilinn, svo sem nú er í 21. gr. laga nr. 21/1963. Í 31. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að samráð skuli hafa við skipulagsnefnd sveitarfélags um það hvernig fara skuli um kirkjugarð sem hætt er að greftra í.
    II.9. Í IX. og X. kafla frumvarpsins eru ákvæði um kirkjugarðsgjöld og Kirkjugarðasjóð. Um þau efni gilda nú lög nr. 89/1987 er breyta lögum nr. 21/1963. Er ákvæðum hinna nýju laga skipað án verulegra breytinga í IX. og X. kafla frumvarpsins, enda er til þess stofnað með frumvarpi þessu að það leiði til heildarlöggjafar um kirkjugarða og feli þar af leiðandi í sér ákvæðin um kirkjugarðsgjöld og Kirkjugarðasjóð, sbr. enn fremur athugasemdir við þessa tvo kafla hér á eftir.
    II.10. Í XI. kafla frumvarpsins eru ákvæði um heimagrafreiti. Er lagt til að óbreytt verði sú stefna núgildandi laga að leyfi til upptöku heimagrafreita verði ekki veitt.
    II.11. Í XII. kafla frumvarpsins er fjallað um skráningu kirkjugarða og heimagrafreita og skoðun þeirra. Þar gætir ekki nýmæla.
    II.12. Í XIII. kafla frumvarpsins eru ákvæði um grafreiti utanþjóðkirkjumanna, nálega óbreytt ákvæði gildandi laga, sbr. í þessu sambandi 2. mgr. 6. gr. frumvarps um sérstök greftrunarsvæði, sem ekki eru vígð, innan marka vígðra kirkjugarða.
    II.13. Í XIV. kafla frumvarpsins eru fyrirmæli um tilfærslu líka í kirkjugarði (grafreiti) eða flutning líks í annan kirkjugarð (grafreit). Ákvæði 47. gr. er nokkru fyllra en ákvæði 2. mgr. 32. gr. gildandi laga.
    II.14. Í XV. kafla frumvarpsins, lokakafla, eru ákvæði um stjórnvaldsreglur, viðurlög, gildistöku og brottfallin lög. Við athugun á hvaða lög eigi að falla niður er miðað við kirkjulagaþátt í lagasafni 1983. Skal þess þó getið að ýmis kirkjulagaákvæði, er varða mál sem fjallað er um í frumvarpinu, hafa aldrei verið að formi til felld úr gildi þótt þeim sé ekki skipað í lagasöfn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Hér er safnað í einn kafla meginákvæðum um greftrun líka og líkbrennslu. Er þar fyrst í 1. gr. boðið að greftra skuli lík í lögmætum kirkjugörðum og grafreitum eða brenna þau í viðurkenndum líkbrennslustofnunum. Þá eru í 2. gr. ákvæðin um ákvarðanir varðandi það hvort lík skuli greftra eða brenna. Enn fremur 3. gr. um það hvers gæta skuli áður en lík er greftrað eða það brennt og svo um rétt til legs í 4. gr. Þetta eru stofnreglur í frumvarpinu. Sums staðar í löndum eru undirstöðureglur um þessi efni í sérlögum, þ.e. utan marka hinnar almennu löggjafar um kirkjugarða og líkbrennslustofnanir. Hér er hins vegar talið heppilegt að skipa þessum reglum samfellt í einn og sama lagabálk, enda náin efnistengsl hér á milli.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. eru tekin upp ákvæðin í kirkjuskipan 2. júlí 1607, lögleidd hér með tilskipun 29. nóvember 1629, um skyldu til greftrunar líka, en bætt er við það ákvæði um líkbrennslu. Hér er því sú meðferð á líkum einskorðuð að greftra skuli lík eða brenna þau. Tilvísun til einstakra greina í 1. gr. áréttar að lík beri að greftra í lögmætum kirkjugarði (grafreit) eða brenna í viðurkenndri líkbrennslustofnun. Greftrun líka eða líkbrennsla á öðrum stöðum eða stofnunum varðar refsingu skv. 52. gr. frumvarpsins ef að lögum verður, en vafasamt er að almennri refsiheimild sé nú til að dreifa í þessu efni, sbr. þó 124. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um ósæmilega meðferð á líkum.

Um 2. gr.


    Þessi grein fjallar um ákvarðanir um greftrun líka eða líkbrennslu. Hér er tekið mið af 2. gr. laga nr. 41/1915 að því er líkbrennslu varðar.
    Frumreglan er sú skv. 1. mgr. að virða skuli ákvarðanir sjálfráða manns um hvort greftra skuli lík hans eða brenna (í 2. gr. laga nr. 41/1915 er miðað við 18 ára aldur). Þótt vandamenn, t.d. skv. 3. mgr. 2. gr., séu á annarri skoðun en hinn látni á vilji hans að ráða ef unnt er að leiða hann ótvírætt í ljós. Ákvörðun manns verður þó vitaskuld að lúta að lögmætri meðferð á líki, sbr. 1. gr. Ákvörðunin getur tekið til þess að lík skuli greftrað í óvígðum grafreit innan kirkjugarðs eða í grafreit utanþjóðkirkjusafnaðar, en þá ber þó að hafa í huga þau skilyrði sem t.d. utanþjóðkirkjusöfnuður kann að setja um leg í grafreit. Ákvörðun um að lík skuli grafið í heimagrafreit er ekki lögmæt. Lögráðamaður (lögráðamenn) ráða málinu til lykta ef ósjálfráða maður á í hlut hvort sem er fyrir æsku sakir eða sjálfræðissviptingar.
    Ekki er áskilið í greininni að ákvörðun sé formbundin, skrifleg og við votta, sbr. hins vegar nú 2. gr. laga nr. 41/1915. Á það er að líta að oft leikur ekki á tveim tungum hver vilji hins látna var í þessu efni, t.d. að lík hans skuli brennt, þótt láðst hafi að bréfa viljayfirlýsingu hans. Þykir ekki rétt að formbinda hana, en hins vegar verða að liggja fyrir glögg gögn um viljaafstöðu manns, t.d. um að brenna skuli lík hans.
    Þegar eigi er vitað um vilja hins látna taka nánar tilteknir vandamenn hans afstöðu til málsins. Ber fyrst að leita eftir afstöðu eftirlifandi maka (sambúðaraðila) og niðja (kjörniðja). Séu þau á einu máli skal fara eftir afstöðu þeirra ef ekki skal greftra lík. Þegar þessara vandamanna nýtur ekki við ráða foreldrar hins látna eða systkin málinu til lykta, en að þeim frágengnum nákomnasti vandamaður hins látna. Skal þá m.a. miða við hvar hinn látni hefur dvalist og hver kostar útförina. Ekki er líklegt að texti 2. gr. muni leiða til verulegra efnisbreytinga, miðað við framkvæmd mála nú. Ef engum þessara manna er til að dreifa er heimilt að brenna lík, sbr. lokamálsgrein 2. gr.
    Á ýmiss konar ákvarðanir um meðferð á líki getur reynt aðrar en þær er lúta að greftrun og líkbrennslu. Maður kann t.d. að mæla svo fyrir að kryfja skuli lík hans eða hann leggur bann við því að svo verði gert eða hann kveður svo á að tiltekið líffæri skuli tekið úr sér þegar eftir andlát til ígræðslu í öðrum manni. Ekki þykir það vera verkefni þessara laga að taka afstöðu til gildis slíkra fyrirmæla.
    Bent skal á að í 2. gr. er ekki fjallað um viljayfirlýsingu um nánari framkvæmd útfarar, svo sem um það hvaða prestur jarðsyngi o.s.frv.

Um 3. gr.


    Þetta er tilvísunarákvæði þar sem vitnað er í helstu lög sem gæta ber að áður en lík er greftrað eða jarðað, t.d. að fyrir liggi dánarvottorð, andlát hafi verið tilkynnt o.fl. Vakin er þó athygli á að hér er ekki vitnað til stjórnvaldsreglna sem út hafa verið gefnar, einkum samkvæmt lögum nr. 21/1963 og nr. 41/1915, er halda skulu gildi sínu skv. 54. gr., lokamálsgrein frumvarpsins. Ákvæðinu er ætlað að hafa leiðsögugildi, en það felur ekki í sér efnisbreytingu á lagaákvæðum sem til er vísað.
    Í 2. mgr. er svipað ákvæði og nú er í 3. gr. laga nr. 41/1915 að því er líkbrennslu varðar.

Um 4. gr.


    Ákvæðið er sama efnis og 2. gr. laga nr. 21/1963. Gert er ráð fyrir að framkvæmd þessara mála verði frjálsleg eins og verið hefur. Bent er á að lokamálsliður 2. mgr. 31. gr. laga nr. 21/1963 um utanþjóðkirkjumenn er ekki tekinn í frumvarp þetta.

Um II. kafla.


    Hér eru ýmis almenn ákvæði um kirkjugarða, grafreiti og líkbrennslustofnanir, þar á meðal er það afmarkað hverjir kirkjugarðar, grafreitir og líkbrennslustofnanir eru lögmætir skv. 1. gr. frumvarpsins, þ.e. löggildir til greftrunar eða líkbrennslu.

Um 5. gr.


    Rétt þykir að skýrgreina hér hugtakið kirkjugarð. Kirkjugarður er vígt og afmarkað greftrunarsvæði, þó svo að heimilt sé að hafa óvígðan grafreit innan vígðs kirkjugarðs. Eigi verður greftrað í kirkjugarði nema hann hafi verið vígður, en vígsla getur eigi farið fram fyrr en greftrunarsvæðið er svo úr garði gert að viðhlítandi sé að greftra þar að dómi prófasts og eftir atvikum biskups og skipulagsnefndar kirkjugarða. Kirkjugarður er lögmætur greftrunarstaður uns ákvörðun er tekin svo sem lög mæla fyrir um að hætt skuli að grafa í honum, sbr. 31. gr. frumvarpsins. Greftrunarsvæði, sem fríkirkjusöfnuður, er byggir á kenningargrundvelli þjóðkirkjunnar, tekur upp, mundi verða nefnt kirkjugarður.
    Greftrunarsvæði þeirra safnaða, sem ekki byggja á kenningargrundvelli þjóðkirkjunnar, hlíta almennum reglum eftir því sem við getur átt, t.d. um upptöku, viðhald og niðurlagningu kirkjugarða. Reglur um almennt eftirlit og yfirumsjón skipulagsnefndar kirkjugarða eiga hér og við. Eðlileg framkvæmd væri sú að líkgreftrunarsvæði væru ekki lögmæt fyrr en skipulagsnefnd kirkjugarða hefði lýst yfir því að þau væru svo úr garði gerð að viðhlítandi væri til greftrunar. Um helgun slíks greftunarsvæðis, ef til kæmi, færi þá eftir reglum viðkomandi safnaðar.

Um 6. gr.


    1. mgr. er að mestu í samræmi við 1. málsl. 1. gr. laga nr. 21/1963. Bætt er við vísun í almenn hegningarlög.
    Ákvæði 2. mgr. um vígslu kirkjugarðs er í samræmi við 1. gr. nefndra laga. Nýmæli er að hér er sérstaklega mælt svo fyrir að í vígðum kirkjugarði megi afmarka óvígða reiti og eru utanþjóðkirkjumenn þá sérstaklega hafðir í huga, sbr. og 3. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1963.
    Ákvæði 3. mgr. er að verulegu leyti í samræmi við 1. gr. laga nr. 21/1963. Því er bætt við að við skipulagningu skipulagsskyldra staða skuli sérstakur gaumur gefinn að staðarvali fyrir kirkjugarða og verði eigi reist í námunda við hann mannvirki eða starfræktar stofnanir eða rekin fyrirtæki sem sérstakur ys eða hávaði stafi frá. Er mikilvægt að þessa sé gætt þegar við skipulagningu svæða þessara og á það raunar einnig við um kirkjur.

Um 7. gr.


    Í 1. mgr. er ákvæði um líkbrennslustofnanir (bálstofur). Er það í samræmi við 1. gr. laga nr. 41/1915, sbr. reglugerð nr. 4/1951. Eru þær stofnanir einar lögmætar til líkbrennslu sem hlotið hafa viðurkenningu skv. 1. mgr. Tekur 1. gr. frumvarpsins mið af þessu. Gert er ráð fyrir að nánari ákvæði verði sett í reglugerð, en reglugerð nr. 4/1951 gildir uns ný er sett í staðinn, þó með þeim skilmálum er 54. gr. getur.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru sama efnis að öllu verulegu sem 1. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1963. Vísað er til 1. mgr. 47. gr. að því er greiningu á vandamönnum varðar og er það til samræmis við lagaframkvæmd.
    Ákvæði 4. mgr. er í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1963.

Um III. kafla.


    Í þessum kafla er skipað saman ákvæðum er varða stöðu kirkjugarða að lögum, stjórn, starfslið og yfirumsjón. Mynda þessi ákvæði nokkuð samfellda heild.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að yfirstjórn kirkjugarða sé í höndum prófasts, í Reykjavík prófasta og biskups, en ekki eingöngu hjá biskupi, eins og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1963 kveður á um. Frumstjórn er í höndum sóknarnefndar (kirkjugarðsstjórnar) eins og verið hefur.
    Í 2. mgr. eru fyrirmæli um kirkjugarðsstjórn og skýring á því hugtaki sem er notað víða í frumvarpinu.

Um 9. gr.


    Hún er um sama efni og 19. gr. laga nr. 21/1963.
    Í greininni er mælt fyrir um ákveðið kjörtímabil, fjögur ár, við kosningu í kirkjugarðsstjórn þá sem sú grein víkur að.
    Sóknarnefndir nefna aðalmann og varamann úr hópi aðalmanna og varamanna til setu í kirkjugarðsstjórn, en kjörtímabil þeirra helst til loka tímabilsins, þótt þeir hverfi úr sóknarnefnd (safnaðarnefnd) fyrir lok þessa tímabils. Er að því stefnt með texta greinarinnar að taka af tvímæli í þessum efnum.
    Í greininni er enn fremur það nýmæli að prófastur skuli sitja fund kirkjugarðsstjórnar þegar 9. gr. á við ef tala stjórnarmanna er jöfn. Hann getur einnig nefnt annan mann í sinn stað (varamann). Ákvæðið er lögfesting á framkvæmd sem á hefur komist.
    Við ákvæðið um tilnefningu manns af hálfu Bálfararfélags Íslands er bætt orðunum „ef því er að skipta“, þ.e. ef félagið óskar þess, en það mun ekki starfa nú.
    Aðalmaður og varamaður, er utanþjóðkirkjusöfnuður nefnir til, þurfa ekki að vera úr hópi stjórnarmanna safnaðar, en eiga hins vegar að teljast til safnaðarins.

Um 10. gr.


    Þessi grein er um sama efni og 18. gr. laga nr. 21/1963.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að kirkjugarðsstjórn sjái ávallt um að láta taka grafir í kirkjugarði, en þetta er heimildarákvæði í 2. mgr. 18. gr. laganna. Sama er um árlegt viðhald legstaða. Breytingin er gerð til að tryggja að menn sitji við sama borð alls staðar á landinu að þessu leyti, því þótt kirkjugarðar hafi víðast séð um þessa þætti er það enn svo á stöku stað að aðstandendur þurfa sjálfir að annast grafartöku.
    Það nýmæli er í 2. mgr. að lagt er til að kirkjugarðsstjórn beri kostnað af prestsþjónustu vegna útfara og er sú breyting af sama meiði og þær að ofan. Það hefur verið gagnrýnt að misjafnt sé eftir landshlutum hvaða þjónustu menn fái greidda af kirkjugarðsgjöldum og að niðurgreiðsla kostnaðar valdi mismunun eftir því hver sjái um útför. Þessi breyting miðar að því að tilgreina skýrt og tæmandi hvað það er sem er greitt og þeir liðir, sem hér eru tíundaðir, eru enn fremur hlutlausir gagnvart því hvar athöfn fer fram og hver sér um útförina. Kostnaður við prestsþjónustu er nú um 8.000 kr. vegna hverrar útfarar og er það lægri upphæð en víða virðist hafa verið varið til niðurgreiðslu á útfararkostnaði, t.d. í Reykjavík. Hins vegar hefur ekkert verið greitt sums staðar. Víðast ættu kirkjugarðsstjórnir að geta greitt það sem frumvarpið leggur þeim á herðar í þessari grein, en í undantekningartilvikunum mundi Kirkjugarðasjóður hlaupa undir bagga.

Um 11. gr.


    Hún fjallar um skipulagsnefnd kirkjugarða, sbr. 4. gr. laga nr. 21/1963.
    Í 1. mgr. er það nýmæli að skipulagsstjóri ríkisins skuli eiga sæti í nefndinni, enda snerta verkefni nefndarinnar allmjög verksvið hans, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Er mikilvægt að njóta sérþekkingar hans almennt á þessum málum, svo og þekkingar á skipulagi einstakra staða.
    Þá er í 1. mgr. mælt fyrir um að kjósa skuli varamenn þeirra tveggja nefndarmanna sem kirkjuþing og kirkjugarðsstjórn Reykjavíkurprófastsdæma kjósa. Lagt er til að kjörtímabil þessara manna skuli vera fjögur ár, sex ár nú. Í ákvæðinu segir einnig að biskup skuli vera formaður nefndarinnar og skeri atkvæði hans úr ef atkvæði verða þar jöfn.
    Í 2. mgr. er það nýmæli eitt að lagt er til að starfsheiti umsjónarmanns kirkjugarða breytist í framkvæmdastjóra kirkjugarða.
    Ákvæðið um að kostnaður við störf skipulagsnefndar greiðist úr Kirkjugarðasjóði er í samræmi við lagaframkvæmdina.

Um IV. kafla.


    Hér er safnað ákvæðum um skyldu sveitarfélaga vegna kirkjugarða (grafreita). Þar er einnig ákvæði, er tengist þessu, um eignarnám á landi undir kirkjugarð. Ákvæði 5. gr. laga nr. 21/1963 er hér klofið niður í fjórar greinar og má ætla að það horfi til glöggvunar.

Um 12. gr.


    Þessi grein er í samræmi við 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1963.

Um 13. gr.


    Hún mælir fyrir um sama efni og 3. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1963.
    Í 1. mgr. 13. gr. er skylda um vegarlagningu að kirkjugarði og um að halda vegi ökufærum lögð á sveitarfélag. Sérstaklega er vikið að snjómokstri í þessu sambandi, nánast til að taka af tvímæli. Þá er það nýmæli að vegurinn skuli vera af sömu gerð og tíðkast í sveitarfélagi og lýsing einnig ef unnt er. Horfir þetta til nánari skýringar á þeim efnisskyldum sem hér reynir á. Svipuðu gegnir um það nýmæli síðast í málsgreininni, þar sem mælt er fyrir um greiðslu kostnaðar við akstur á ofaníburði.

Um 14. gr.


    Hún er að öllu verulegu í samræmi við 5. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1963.

Um 15. gr.


    Hún er sama efnis og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1963.

Um V. kafla.


    Hér eru grundvallarákvæði um ákvarðanir um nýjan kirkjugarð (upptöku hans) og stækkun hins eldra. Er þessari grein valin sérstök kaflafyrirsögn. Til greina kom að skipa einnig í þessum kafla ákvæðum varðandi ákvörðun um að hætta að grafa í kirkjugarði og um niðurlagningu kirkjugarða, en þau ákvæði eru í VIII. kafla frumvarpsins. Mikilvægt er að vanda vel til undirbúnings þeirra ákvarðana sem um ræðir í þessum kafla.

Um 16. gr.


    1. og 2. mgr. eru í samræmi við 1. og 2. mgr 7. gr. laga nr. 21/1963, en sérákvæði er þó um Reykjavíkurprófastsdæmi þar sem sérstaklega stendur á vegna fjölda safnaða er standa að kirkjugarði.
    3. mgr. er um sama efni og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1963, en með ýmsum breytingum. Hér er boðið að leita skuli umsagnar heilbrigðisnefndar og héraðslæknis (borgarlæknis) og skipulagsnefndar sveitarfélags um fyrirhugaðar framkvæmdir. Ljóst er að á miklu stendur að náið og traust samstarf sé á milli allra þeirra aðila er frumvarpsgreinin víkur að. Það er nýmæli í greininni að unnt sé að skjóta úrlausn skipulagsnefndar kirkjugarða til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til fullnaðarúrskurðar, en nefndin fellir fullnaðarúrskurð um málið skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1963.

Um VI. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um uppdrætti af kirkjugörðum og ýmsar framkvæmdir í þágu kirkjugarða.

Um 17. gr.


    Hún er sama efnis og 1. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1963. Ákvæði 3. mgr. 8. gr. þeirra laga er skipað í 4. mgr. 31. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.


    Hún er sama efnis og 6. gr. laga nr. 21/1963. Það er nýmæli í greininni að leita skuli tillagna skipulagsnefndar sveitarfélags áður en ráðist er í framkvæmdir þær sem greinin víkur að. Girðingu umhverfis garð ber að haga í samræmi við staðfestan uppdrátt af kirkjugarði. Um sérákvæði varðandi Reykjavíkurprófastsdæmi vísast til athugasemdar við 16. gr.

Um 19. gr.


    1. mgr. er í samræmi við 14. gr. laga nr. 21/1963, en óþarft þykir að víkja þar sérstaklega að girðingu, sbr. 18. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. er í samræmi við 2. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1963 og þykja þau eiga betur heima hér efnislega. Í 3. mgr. er orðinu „endurgjaldslaust“ skotið inn í til að taka af tvímæli.

Um 20. gr.


    1. mgr. er sama efnis og 25. gr. laga nr. 21/1963. Hér er það nýmæli að heimilað er að reisa kapellu auk líkhúss og er það eðlileg rýmkun ákvæðisins. Í greininni er kveðið á um húsnæðisaðstöðu fyrir starfsmenn og er það rýmra ákvæði en í 25. gr. og styðst við breyttar þarfir. Enn er boðið í greininni að uppdrættir og staðarval húsa skuli samþykkt m.a. af skipulagsnefnd sveitarfélags og að gerð kapellu og líkhúss skuli háð samþykki þeirrar nefndar og heilbrigðisnefndar sveitarfélagsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að kirkjugarðsstjórn sé heimilt að styrkja kostnaðarsamar framkvæmdir við útfararkirkjur. Ákvæði þessa efnis er ekki í núgildandi lögum, en slíkur stuðningur mun allt að einu hafa átt sér stað. Þykir eðlilegt að þessi heimild sé sett í lög þar sem víða um landið er mikil samstaða með kirkju og kirkjugarði og getur stuðningur verið á báða vegu þegar sérstök þörf þykir á. Þetta er aðeins heimildarákvæði og er það hverrar kirkjugarðsstjórnar fyrir sig að marka sér stefnu í þessum málum. Nánar mætti kveða á um þetta í reglugerð, sbr. 50. gr. frumvarpsins, að fenginni reynslu af þessu ákvæði.
    Í 3. mgr. er fjallað um greftrunarkirkjur og svo kveðið á að kirkjugarðsstjórn skuli annast greftrunarkirkjur og kosta rekstur þeirra. Þetta er tiltölulega auðvelt í framkvæmd þegar svo hagar til að sókn sameinast annarri sókn eða sóknum, enda skulu þá eignir hinnar aflögðu sóknar renna til þeirrar sóknar eða þeirra sókna sem sóknarmenn hinnar aflögðu sóknar hverfa til. Hér getur hins vegar verið um það að ræða að sókn er aflögð vegna þess að hún eyðist af fólki. Sóknin hefur þá engar tekjur af sóknarmönnum, hvorki sóknargjöld né kirkjugarðsgjöld, og þá er engri sóknarnefnd til að dreifa er tengist sókninni og þar af leiðandi ekki kirkjugarðsstjórn. Prófastur á að verðveita eigur hennar og er eðlilegt að því fé sé varið með nokkrum hætti til að kosta rekstur greftrunarkirkju, en að öðru leyti virðist þurfa á ákvæðum að halda um tillag til rekstrar greftrunarkirkju og kemur þá m.a. til greina framlag úr Kirkjugarðasjóði, sbr. 2. mgr. 41. gr. frumvarpsins.

Um VII. kafla.


    Í þessum kafla eru almennar reglur um grafir, umhirðu leiða og legastaðaskrá.

Um 21. gr.


    1. mgr. kveður á um að leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þurfi til að reka útfararþjónustu og að ráðuneytið afli sér umsagnar skipulagsnefndar kirkjugarða um umsóknir um slík leyfi. Ekki er stefnt að því með þessu ákvæði að auka kröfur til þeirra sem nú stunda þessa starfsemi eða hafa í framtíðinni bein áhrif á fjölda þeirra aðila sem þessa þjónustu stunda, heldur leggja grunn að því að til þeirra aðila, sem ætli sér að koma inn í þessa starfsemi, séu gerðar ákveðnar eðlilegar faglegar kröfur.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að þar sem kirkjugarðsstjórnir annist útfararþjónustu skuli sú starfsemi vera aðskilin frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórnar. Þetta ákvæði er í góðu samræmi við 10. gr. frumvarpsins og það sem segir í athugasemdum um þá grein að skýrt skuli kveðið á um það til hvaða verkefna kirkjugarðsgjöldum er varið og að þau skuli ekki notuð til annars. Ákvæði 2. mgr. 21. gr. miðar að því að útfararþjónusta á vegum kirkjugarðsstjórnar sitji við sama borð í viðskiptalegu tilliti og útfararþjónusta á vegum annarra aðila.

Um 22. gr.


    Hún er óbreytt 10. gr. laga nr. 21/1963.

Um 23. gr.


    1. mgr. er óbreytt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1963.
    2. mgr. er nýmæli sem styðst við auðsæ rök. Hér er eingöngu um heimild að ræða fyrir kirkjugarðsstjórn.

Um 24. gr.


    Hún er óbreytt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1963.

Um 25. gr.


    Hún er um sama efni og 1. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1963. Orðalagsbreytingin um vandamenn horfir til einföldunar. Til fjölskyldu teljast hjón (sambúðarfólk), börn, kjörbörn og fósturbörn og fer um rétt þeirra til legs í fjölskyldugrafreit eftir þeirri röð sem þau andast, nema samkomulag sé um annað milli vandamanna.
    Lagt er til að afnumið sé gjald það er 1. mgr. 12. gr. víkur að. Þá er fellt niður það ákvæði að heimilt sé að tvígrafa ef það er tekið fram í leyfisbréfi og legstaðaskrá. Um það atriði fer samkvæmt almennu reglunni í 23. gr. og ákvörðun kirkjugarðsstjórnar sem tekur tillit til vandamanna.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1963 eru ekki tekin í frumvarpið.

Um 26. gr.


    Hún er sama efnis að öllu verulegu sem 16. gr. laga nr. 21/1963, en þó er þess að gæta að lagt er til að hér sé um heimildarákvæði að ræða. Ákvæði 16. gr. leggur á hinn veg skyldu á kirkjugarðsstjórn til tiltekinna aðgerða.

Um 27. gr.


    1. mgr. er óbreyttur fyrri hluti 1. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1963, en hér segir þó að einnig skuli greina kennitölu hinna jarðsettu ef því er að skipta.
    2. mgr. er sama efnis og síðari hluti 1. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1963. Sú breyting er lögð til að í Reykjavíkurprófastsdæmum og í öðrum prófastsdæmum, „ef þurfa þykir“, skuli afhenda afrit af legstaðaskrá mánaðarlega borgarlækni (héraðslækni), manntalsskrifstofu, þjóðskrárdeild Hagstofu Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Sambandi íslenskra lífeyrissjóða og Blóðbankanum í Reykjavík. Styðst þessi breytingartillaga við óskir sem fram hafa komið um framkvæmd þessara mála. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið mælir fyrir um, að fengnum tillögum biskups, hvaða prófastsdæmi komi undir greinda reglu um aukaskil.
    3. mgr. er nýmæli er heimilar kirkjugarðsstjórn í samráði við prófast (prófasta) og skipulagsnefnd kirkjugarða að afmarka sérstakt svæði í kirkjugarði og greftra þar án þess að grafarnúmers innan svæðisins sé getið. Er hér komið til móts við óskir þeirra sem vilja láta grafir vera ómerktar, „m.a. til þess að leggja ekki kvaðir á vandamenn að sinna reitnum“, eins og sagði í greinargerð með breytingartillögunni á sínum tíma. Mun þessi háttur vera farinn að ryðja sér til rúms erlendis. Í 1. mgr. er vitnað í 3. mgr. til þess að tengja saman tilhögun þessara tveggja málsgreina og enn fremur er í 28. gr. vísað í 3. mgr. 27. gr.

Um 28. gr.


    Hún er sama efnis og 15. gr. laga nr. 21/1963. Í 1. mgr. er vísað til 27. gr., sbr. athugasemd við hana. Á eftir orðinu „timbri“ í 1. mgr. er bætt við „plasti eða sambærilegu efni“ og standa auðsæ rök til þess. Úrskurður skipulagsnefndar kirkjugarða skv. 2. mgr. er fullnaðarúrslit máls.

Um 29. gr.


    Hún er sama efnis og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1963. Lagt er til að niður sé fellt gjald það er greinir í 1. mgr. 13. gr.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr. er skipað í 19. gr. frumvarpsins.

Um 30. gr.


    Samkvæmt 20. gr. laga nr. 21/1963 er heimilt að stofna legstaðasjóði til viðhalds einstökum legstöðum í kirkjugörðum. Á það ákvæði rót að rekja til 17.–19. gr. laga nr. 64/1932. Lítið hefur kveðið að því að slíkir sjóðir væru stofnaðir á síðustu áratugum og hefur ákvæðið að mestu misst marks. Ekki þykir rétt að halda í þessa tilhögun. Í 1. mgr. 30. gr. er því lagt til að afnumin verði hin sérstaka heimild í kirkjugarðalögum til að stofna slíka sjóði, þ.e. undir umsjá kirkjugarðsstjórnar. Allt að einu er hugsanlegt að til þeirra sé stofnað sem hverra annarra sjóða, eftir atvikum með sérstakri skipulagskrá. Er 1. mgr. við þetta miðuð. Hins vegar þarf að sjá borgið þeim sjóðum sem fyrir hendi eru. Er lagt til í 2. og 3. mgr. að sömu ákvæði að öllu verulegu gildi um þá sem nú eru í lögum, þ.e. í 2. og 3. mgr. 20. gr. laga nr. 21/1963.

Um VIII. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði er lúta að ákvörðunum um að hætt skuli að greftra í kirkjugarði (grafreit) og um niðurlagningu hans. Þá eru ákvæði um hvers gæta skuli um niðurlagða kirkjugarða til frambúðar og m.a. um að heimilt sé að gera þá að almenningsgörðum í sveitarfélagi, sbr. áður 7. gr. kirkjugarðalaga 1901 og 20.–23. gr. laga nr. 64/1932 og nú 21.–23. gr. laga nr. 21/1963.

Um 31. gr.


    1. mgr. er sama efnis og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 21/1963. Ákvörðunin um niðurlagningu kirkjugarðs er gild ef gerð er á lögmætum safnaðarfundi og er hér ekki áskilinn aukinn meiri hluti atkvæða, 2 / 3 , eins og í 1. mgr. 21. gr. Ef fleiri en einn söfnuður er um kirkjugarð á að fjalla um mál á fundi hvers safnaðar um sig. Um sérákvæði varðandi Reykjavíkurprófastsdæmi vísast til athugasemdar við 16. gr.
    2. mgr. svarar til 2. mgr. 21. gr. laga nr. 21/1963. Ekki þykir ástæða til að ráðuneytið láti þinglýsa friðhelgi niðurlagðs kirkjugarðs, enda ber að greina hann á fornleifaskrá og lýsa honum samkvæmt því. Heimilt er þó að þinglýsa ákvörðun um niðurlagningu kirkjugarðs.
    3. mgr. er sama efnis og 22. gr. laga nr. 21/1963. Síðari liður 22. gr. er eigi tekinn með í frumvarpið.
    4. mgr. samsvarar 3. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1963, en er nokkuð breytt. Gert er hér ráð fyrir að skipulagsnefnd kirkjugarða geri tillögu í samráði við skipulagsnefnd sveitarfélaga og kirkjugarðsstjórn hvernig fara skuli með kirkjugarð sem hætt er að greftra í. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1963 er það umsjónarmaður kirkjugarða sem fjallar um málið. Mikilvægt er að skipulagsnefnd sveitarfélags sé virk í meðferð þessa máls.

Um 32.–35. gr.


    Þær eru að öllu verulegu í samræmi við 23. gr. laga nr. 21/1963, en rétt hefur þótt að kljúfa þá grein niður í fleiri greinar. Um sérákvæði í 32. gr. varðandi Reykjavíkurprófastsdæmi vísast til athugasemdar við 16. gr.

Um 36. gr.


    Hún er óbreytt 24. gr. laga nr. 21/1963.

Um IX. og X. kafla.


    Í IX. kafla er fjallað um kirkjugarðsgjöld og í X. kafla um Kirkjugarðasjóð. Með lögum nr. 89/1987 var ákvæðum um þessi efni skipað að nýju. Þykir heppilegra að þau ákvæði séu í heildarlögunum um kirkjugarða en í sérlögum. Lög nr. 21/1963 verða væntanlega afnumin ef frumvarp þetta verður lögfest. Er það ankannalegt ef eftir sem áður væru í gildi lög er breyta þeim lögum.
    Ákvæðum nýju laganna um kirkjugarðsgjöld er skipað hér í IX. kafla og um Kirkjugarðasjóð í X. kafla. Efnisbreytingar eru ekki að neinu marki. Af lagatæknilegum ástæðum þykir gleggra að skipa efni 1. gr. laganna í tvær greinar, 37. og 38. gr., og ákvæðum 3. gr. laganna einnig í tvær greinar, 40. og 41. gr. frumvarpsins. Úr 2. gr. hafa verið felld niður ákvæði um gjaldtöku árin 1988–1990, en ekki er um efnisbreytingar að ræða.
    Í lögum nr. 89/1987 er hugtakið kirkjugarðsgjald tvíþætt. Það er látið taka til gjalds skv. 38. gr. þessa frumvarps er miðast við hundraðshluta af aðstöðugjöldum, svo og til hlutdeildar kirkjugarða í tekjuskatti, sbr. 39. gr. Er þetta óbreytt í þessu frumvarpi. Hlutdeild kirkjugarða í tekjuskatti var lækkuð um 15% með lánsfjárlögum, nr. 116/1989, og um 20% með lánsfjárlögum, nr. 26/1991. Upphæðin á einstakling á mánuði er 174,9 kr. árið 1992 án tillits til skerðingar samkvæmt lánsfjárlögum.
    Í lok 38. gr. frumvarpsins er kveðið svo á að hjón beri sameiginlega ábyrgð á greiðslu kirkjugarðsgjalda samkvæmt þeirri grein. Í dómi Hæstaréttar 1976, dómasafn XLVII, bls. 1011, er talið óheimilt að gera lögtak í séreign maka til tryggingar á greiðslu kirkjugarðsgjalds hins. Er því talin ástæða til að taka þessa málsgrein í 38. gr. frumvarpsins.
    Um 40. gr. þykir rétt að taka fram að Kirkjugarðasjóður var stofnaður með lögum nr. 21/1963. Er orðalagi 3. gr. framangreindra laga frá 1987 breytt til samræmis við það. Bent skal á að kirkjuráð er ekki bundið við að kjósa menn úr sínum hópi til setu í stjórn Kirkjugarðasjóðs.
    Um 41. gr. frumvarpsins skal á það bent að svo sem meginmarkmiði Kirkjugarðasjóðs er lýst verður hann eins konar jöfnunarsjóður kirkjugarða. Um 3. mgr. 41. gr. vísast til 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins og athugasemdar við það ákvæði.
    Að öðru leyti þykir mega vísa til greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum um kirkjugarða, nr. 89/1987.

Um XI. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um heimagrafreiti. Er haldið óbreyttri þeirri stefnu, sem mörkuð var með lögum nr. 21/1963, að eigi megi veita leyfi til upptöku heimagrafreita, sbr. hins vegar 33.–36. gr. laga nr. 64/1932.

Um 42. og 43. gr.


    Þær eru í samræmi við 28. og 29. gr. laga nr. 21/1963, en ákvæði 2. mgr. 43. gr. er ekki í 29. gr.

Um XII. kafla.


    Hann fjallar um skráningu kirkjugarða og heimagrafreita og skoðun þeirra. Er 44. gr. hér valin sérstök kaflafyrirsögn.

Um 44. gr.


    Hún er óbreytt 30. gr. laga nr. 21/1963.

Um XIII. kafla.


    Hér er fjallað um grafreiti utanþjóðkirkjusafnaða. Bent er á að skv. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins er heimilt að hafa sérstök greftrunarsvæði, sem ekki eru vígð, innan kirkjugarðs. Þar er og vikið að helgun eða vígslu grafreita utanþjóðkirkjumanna.

Um 45. gr.


    Hún er sama efnis og 31. gr. laga nr. 21/1963, en nokkru ítarlegri til skýringar. Fellt er niður lokaákvæði 2. mgr. 31. gr. um að utanþjóðkirkjumenn eigi ekki rétt til legs í sóknarkirkjugarði.

Um XIV. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um tilfærslu líka í kirkjugarði eða flutning líks í annan kirkjugarð eða grafreit.

Um 46. gr.


    Hún er um sama efni sem 1. mgr. 32. gr. laga nr. 21/1963, en hér er áskilið samþykki kirkjugarðsstjórnar auk samþykkis biskups. Er það lögfesting á lagaframkvæmd.

Um 47. gr.


    Hún er sambærileg við 2. mgr. 32. gr. niður að 4. tölul.
    Hér er bætt við í hóp þeirra sem veitt geta samþykki samkvæmt greininni, börnum, þar á meðal kjörbörnum og fósturbörnum, og sambúðarmanni eða sambúðarkonu.

Um 48. gr.


    Samsvarar 4. tölul. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 21/1963, en rétt þykir að þetta sé sjálfstætt ákvæði og óeðlilegt að skipa því sem skilyrði fyrir leyfisveitingu eins og gert er í greindu ákvæði. Framkvæmd dómsúrlausnar hlýtur að lúta sérstökum reglum, þar á meðal þeim er greinir í úrlausninni sjálfri.

Um 49. gr.


    Óbreytt lokamálsgrein 32. gr. laga nr. 21/1963 sem heppilegra þykir að skipa í sérstaka grein.

Um XV. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um stjórnvaldsreglur, viðurlög, gildistöku og brottfallin lög.

Um 50. gr.


    Hér er kveðið á um almennar reglugerðir um kirkjugarða. Í einstökum ákvæðum frumvarpsins er vikið að reglugerðum, sbr. 41. gr., lokamálsgrein um Kirkjugarðasjóð. Þá er einnig gert ráð fyrir erindisbréfum, sbr. 11. gr. Vegna breyttra ákvæða og af öðrum ástæðum þarf hið fyrsta að endurskoða reglugerð um kirkjugarða og svo um líkbrennslu.

Um 51. gr.


    Hér er vikið að reglum eða reglugerð fyrir hvern einstakan kirkjugarð sem þörf getur verið á vegna séraðstæðna.

Um 52. gr.


    Hún er að kalla óbreytt 35. gr. laga nr. 21/1963 eins og henni var breytt með 14. gr. laga nr. 10/1983 og er í samræmi við markaða stefnu um sektaviðurlög í sérrefsilögum, sbr. lög nr. 75/1982 og nr. 10/1983.

Um 53. og 54. gr.


    Í þeim greinum eru ákvæði um gildistöku og brottfallin lög og svo um framkvæmd laganna og gildi stjórnvaldsreglna samkvæmt lögum nr. 21/1963 og nr. 41/1915. Um þær er svo fyrir mælt að þær skuli halda gildi sínu allt til þess að nýjar reglur eru settar. Þetta á þó vitaskuld ekki við nema þær samrýmist efnisákvæðum laga þessara.
    Að öðru leyti veitir greinin ekki tilefni til athugasemda.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um kirkjugarða, greftrun líka og líkbrennslu.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 115. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt. Það er nú endurflutt með nokkrum breytingum sem ætlað er að skerpa línur um hvaða verkefni kirkjugörðum er ætlað að kosta með kirkjugarðsgjöldum. Með frumvarpinu er verið að sameina í ein lög ákvæði sem snerta kirkjugarða, greftrun líka og líkbrennslu, auk endurskoðunar núgildandi laga.
    Í I. kafla frumvarpsins eru tekin upp ákvæði um að greftrun og brennsla líka skuli gerð af löggiltum stofnunum. Í III. kafla frumvarpsins eru ákvæði um stöðu kirkjugarða að lögum, stjórn þeirra, starfslið og yfirumsjón. Þar er sú breyting að skipulagsstjóri ríkisins skuli eiga sæti í skipulagsnefnd kirkjugarða. Enn fremur er lagt til í 10. gr. frumvarpsins að kirkjugarðsstjórn sjái um að láta taka allar grafir og beri kostnað af prestsþjónustu vegna útfara. Í VII. kafla er lagt til að leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þurfi til að reka útfararþjónustu og að skýrt sé kveðið á um í lögum að þar sem kirkjugarðsstjórnir annist útfararþjónustu skuli sú starfsemi vera aðskilin frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórnar.
    Í IX. og X. kafla frumvarpsins eru ákvæði um kirkjugarðsgjöld og Kirkjugarðasjóð. Eru þau hin sömu og í núgildandi lögum nr. 89/1987 að öðru leyti en því að fjárhæð sú, er rennur til kirkjugarða landsins af óskiptum tekjuskatti, er hækkuð upp til samræmis við verðlagsbreytingar frá því sem það var í núgildandi lögum. Þannig skal gjaldið á árinu 1993 vera 174,9 kr. á einstakling á mánuði að viðbættri fjárhæð er samsvarar þeirri hækkun sem verður á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli tekjuáranna 1991 og 1992. Áætlað er að óskert kirkjugarðsgjald nemi alls um 405 m.kr. á árinu 1993. Á grundvelli laga nr. 115/1992, um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, heldur ríkissjóður eftir 20% af gjaldinu til að standa undir kostnaði ríkisins við tiltekin verkefni á sviði kirkjumála.
    Það er mat fjármálaráðuneytis að verði frumvarp þetta að lögum hafi það engin merkjanleg áhrif á ríkissjóð. Hins vegar er vakin athygli á að ekki er í frumvarpinu breyting á þeim grundvelli sem aðstöðugjaldið er fyrir útreikning kirkjugarðsgjalda þótt innheimta þess hafi verið felld niður.