Ferill 380. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 380 . mál.


673. Tillaga til þingsályktunar



um stofnun sjávarútvegsskóla.

Flm.: Finnur Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa sameiningu Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði, Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands í einn sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi. Skal undirbúningurinn miða að því að skólinn verði til húsa í Sjómannaskólanum í Reykjavík. Stefnt skal að því að skólinn taki til starfa haustið 1994.

Greinargerð.


     Þeir skólar, sem nú eru starfandi og annast kennslu og fræðslu á framhaldsskólastigi fyrir íslenskan sjávarútveg, eru Stýrimannaskólinn í Reykjavík, Vélskóli Íslands, Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði og Tækniskóli Íslands. Ekki leikur vafi á að allir þessir skólar hafa gegnt mikilvægu hlutverki í að fræða og mennta fólk sem síðar hefur komið til starfa í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og því eðlileg krafa að vel sé að fræðslumálum hans búið.
     Með lögum nr. 55 15. apríl 1971 var sett heildarlöggjöf um fiskvinnsluskóla. Um starfsemi Stýrimannaskólans í Reykjavík er fjallað í lögum nr. 22 3. maí 1972 og um Vélskóla Íslands í III. kafla laga um vélstjórnarnám, nr. 11 22. apríl 1985. Framangreind lög hafa að geyma ýmis ákvæði um nám og námsskipan. Eru lögin um margt svo nákvæm hvað þessa hluti varðar að ætla má að þau geti verið þrándur í götu breytinga á námi og þess sveigjanleika sem krefjast verður af skólum eigi þeir að þjóna síbreytilegum kröfum atvinnulífsins. Nemendum Vélskólans og Stýrimannaskólans hefur fækkað verulega síðustu árin. Skýringar á þeirri þróun eru margþættar. Nemendum hefur almennt fækkað í hverjum árgangi, áhugi á bóknámi er meiri en á verknámi og fjölbreytileiki náms á framhaldsskólastigi hefur aukist verulega og þar með samkeppni um nemendur.
     Kennsla við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Vélskóla Íslands fer fram í Sjómannaskólanum. Þar sem nemendum hefur fækkað á undanförnum árum er húsnæðið stórlega vannýtt sem stendur. Þá er kennsla skólanna tveggja algjörlega aðskilin þótt almennar námsgreinar séu 30–45% námsefnis þeirra. Samræming þessa hluta námsins gæti verulega bætt nýtingu hússins og kennslukrafta. Sama máli gegnir um húsnæði fyrir stjórnir skólanna sem einnig eru algjörlega aðskildar. Fiskvinnsluskólinn hefur hingað til starfað í leiguhúsnæði og vegna vannýtingar Sjómannaskólahússins verður ekki annað séð en hæglega megi flytja bóknám Fiskvinnsluskólans þangað. Af þessu verður ráðið að skynsamlegt sé að sameina þessa þrjá skóla í einn skóla á framhaldsskólastigi.
     Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það er því mikilvægt að búa vel að menntunarskilyrðum þeirra sem stunda nám á þessu sviði því vaxandi alþjóðleg samkeppni krefst vel menntaðs fólks til starfa, fólks með breiða þekkingu á öllum þáttum sjávarútvegsins allt frá veiðum að markaðs- og sölustarfi.
    Með sameiningu þessara skóla gefst kostur á að tvinna saman í heilsteypt sjávarútvegsnám á framhaldsskólastigi þá miklu þekkingu og reynslu sem fyrir er í þeim skólum sem nú starfa á þessu sviði en eru í litlu sem engu samstarfi með þó náskylt nám. Sú þekking, sem til hefur orðið í íslenskum sjávarútvegi, er orðin að útflutningsvöru og mun í framtíðinni geta skapað þjóðinni miklar tekjur. Með sameiningu þessara skóla gefst kjörið tækifæri til að byggja hér upp öflugan alþjóðlegan sjávarútvegsskóla samhliða því að styrkja og efla menntun þess fólks sem vinnur að íslenskum sjávarútvegi.
     Í janúarmánuði 1986 komu þáverandi menntamála- og sjávarútvegsráðherrar sér saman um skipun fjögurra manna starfshóps um sjávarútvegsskóla. Hópurinn skilaði áliti sínu í október sama ár og lagði til stofnun slíks skóla. Skýrsla starfshópsins fylgir með þingsályktunartillögu þessari sem fylgiskjal.
     Menntamálaráðherra skipaði í janúar sl. nefnd til þess að gera tillögur um hagræðingu í framhaldsskólunum. Nefndin skilaði áliti sínu í mars og komst m.a. að sömu niðurstöðu og fram kom í fyrrgreindu nefndaráliti frá árinu 1986 um að til greina kæmi að sameina áðurnefnda þrjá skóla í einn sjávarútvegsskóla.



Fylgiskjal.


Skýrsla starfshóps um sjávarútvegsskóla.



1. Formáli.
    Menntamálaráðherra og sjávarútvegsráðherra komu sér saman í janúar sl. um að skipa fjögurra manna starfshóp — tvo frá hvoru ráðuneyti — til að ræða og gera síðan tillögur um stofnun sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi.
    Sem fulltrúar menntamálaráðuneytisins voru skipaðir Helgi G. Þórðarson verkfræðingur, formaður hópsins, og Stefán Stefánsson, fulltrúi í menntamálaráðuneytinu.
    Sem fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins voru skipaðir Finnur Ingólfsson, aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra, og Gylfi Gautur Pétursson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu. Starfsmaður hópsins var ráðinn Lárus Björnsson.
    Starfshópurinn hefur heimsótt og rætt við fjölda einstaklinga frá ýmsum samstökum og stofnunum, hérlendis og erlendis, þar á meðal alla helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og aðra þá sem tengjast fræðslumálum í sjávarútvegi. Í viðtölum kom í ljós að almennt er mikill áhugi fyrir stofnun sjávarútvegsskóla.
    Starfshópurinn hefur kynnt sér skipulag í sjávarútvegsfræðslu í Noregi og Danmörku.
    Það er von hópsins að skýrsla þessi veki umræðu um stöðu sjávarútvegsfræðslu á Íslandi og framtíð hennar.

2. Niðurstöður.
    Meginniðurstöður starfshópsins eru eftirfarandi:
    Stofnaður verði sjávarútvegsskóli í Reykjavík er taki við hlutverkum Stýrimannaskólans í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði.
    Gildandi lögum um sjávarútvegsfræðslu verði breytt og sett rúm rammalöggjöf er veiti svigrúm fyrir breytilegt námsframboð í takt við þróun atvinnulífsins og þarfir einstakra greina sjávarútvegsins.
    Sjávarútvegsskólinn verði sérskóli á framhaldsskólastigi og heyri undir menntamálaráðuneytið. Aðfaranám að skólanum og nám á einstökum brautum geti einnig farið fram við aðra framhaldsskóla landsins.
    Stofnað verði fræðsluráð sjávarútvegsins, skipað fulltrúum hagsmunasamtaka, rannsóknastofnana og ráðuneyta, sem verði stefnumarkandi í fræðslumálum sjávarútvegsins.
    Sjávarútvegsskólinn fái til umráða húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands í Reykjavík og hið nýja verknámshús Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði.
    Kannað verði mjög vandlega hvort stefnt skuli að því að sjávarútvegsskólinn starfi í þremur önnum, þ.e. haustönn, vetrarönn og sumarönn, og starfi þannig árið um kring.

3. Greinargerð.
A. Núverandi sjávarútvegsfræðsla.
Gildandi lög.
    Gildandi lög um fræðslu og atvinnuréttindi í sjávarútvegi eru:
—     Lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík, nr. 22/1972.
—     Lög um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, nr. 1/1973.
—     Lög um vélstjórnarnám, nr. 11/1985.
—     Lög um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984.
—     Lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984.
—     Lög um fiskvinnsluskóla, nr. 55/1971.
—     Lög um Tækniskóla Íslands, nr. 66/1972.
    Í framangreindum lögum eru ýmis ítarleg ákvæði um nám og námsskipan. Stofnun sjávarútvegsskóla krefst nýrrar lagasetningar í stað gildandi laga. Gildandi lög eru um margt það nákvæm að ætla má að þau séu þrándur í götu breytinga í námi og þess sveigjanleika sem krefjast verður af skólum er þjóna síbreytilegum þörfum atvinnulífsins. Vegna þessa er lagt til að ný rammalög um sjávarútvegsskóla verði sveigjanleg og að þau rúmi breytilegt námsframboð í takt við þróun atvinnulífsins og þarfir einstakra greina sjávarútvegsins á hverjum tíma.

Stjórn og tengsl við atvinnulífið.
    Skólar sjávarútvegsfræðslunnar heyra nú undir menntamálaráðuneytið og starfa sem sjálfstæðar stofnanir með litlum tengslum eða samstarfi sín á milli. En sem dæmi um tengsl skólanna við atvinnulífið má nefna það að í lögum um þá eru ákvæði um að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi tilnefna fulltrúa í skólanefndirnar. Auk þess tengja starfsþjálfun, svo og ýmis önnur verkefni, skólana sjávarútveginum.

Þróun nemendafjölda.
    Verulegur samdráttur hefur orðið á nemendafjölda Vélskólans og Stýrimannaskólans síðustu árin. Á níu árum hefur nemendum þessara skóla fækkað um helming. Skýringar á þessari þróun eru væntanlega margþættar. Nemendum hefur fækkað í hverjum árgangi. Áhugi á bóknámi er almennt meiri en á verknámi. Fjölbreytileiki náms á framhaldsskólastigi hefur aukist verulega og jafnframt samkeppnin um nemendur. Nám í Stýrimannaskólanum hefur ekki opna leið til frekara framhaldsnáms í skólakerfinu. Sjávarútvegsnám verður ekki hafið til vegs og virðingar, nema með samstilltu átaki allra sem hlut eiga að máli. Verði skipulagi, stjórnun og námsframboði skólanna breytt þannig að notagildi fyrir atvinnulífið aukist mun eftirspurn eftir fólki með menntun þaðan aukast og aðsóknin væntanlega um leið.

Húsnæði.
    Kennsla við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Vélskóla Íslands í Reykjavík fer fram í húsakynnun á lóð Sjómannaskólans. Eins og fram hefur komið hefur nemendum þessara skóla fækkað um helming á síðustu níu árum. Húsnæðið er því stórlega vannýtt sem stendur. Auk þess er kennsla skólanna tveggja algjörlega aðskilin, þó svo að almennar námsgreinar séu 30–45% námsefnis þeirra. Samræming þessa hluta námsins gæti bætt nýtingu hússins og kennslukrafta verulega. Sama máli gegnir um húsnæði fyrir stjórn skólanna sem er algjörlega aðskilið. Sameiginleg stjórn gæti enn bætt nýtingu húsnæðisins.
    Fiskvinnsluskólinn hefur hingað til starfað í leiguhúsnæði, bóknám í Hafnarfirði og verknám í Hafnarfirði og Reykjavík. Vegna vannýtingar Sjómannaskólahússins verður ekki annað séð en að hæglega megi flytja bóknám Fiskvinnsluskólans þangað. Nýtt 1.700 fermetra verknámshús skólans er í byggingu í Hafnarfirði og ætti það að geta þjónað sínu hlutverki samkvæmt áætlun.

Námsgreinar.
    Athugun á námsvísum Vélskólans og Stýrimannaskólans leiðir í ljós að hlutfall almennra námsgreina í námsefni þeirra eru 30–45%. Séu inntökuskilyrðin í Fiskvinnsluskólann reiknuð með í námsefni hans eru 50% námsefnisins almennar greinar. Ætla má að kennsla í almennum námsgreinum skólanna þriggja sé að mestu leyti samræmanleg þannig að verulegri hagkvæmni megi ná með sameiningu þeirra. Sameiginlegir þættir sérhæfðs námsefnis skólanna eru nánast engir sem stendur. Hins vegar gæti vægi þeirra aukist við endurskipulagningu námsmarkmiða. Nám í útgerðartækni við rekstrardeild Tækniskóla Íslands er skipulagt sem framhaldsnám fyrir stýrimenn, vélstjóra og fisktækna. Námsefni þessarar námsbrautar á því nánast ekkert sameiginlegt með námsefni hinna skólanna.

B. Stofnun sjávarútvegsskóla.
Hlutverk.
    Starfshópurinn leggur til að stofnaður verði sjávarútvegsskóli í Reykjvík og taki hann m.a. við hlutverki Stýrimannaskólans í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði.
    Skólinn starfi í upphafi í fimm deildum, siglingafræðideild, vélfræðideild, fiskvinnsludeild, fiskeldisdeild og endurmenntunardeild. Þessar tillögur byggir starfshópurinn á ítarlegum viðræðum við alla helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og þá sem tengjast kennslu í sjávarútvegsfræðum.
    Hlutverk skólans verði fyrst og fremst að fullnægja þörf sjávarútvegsgreina fyrir sérhæft starfsfólk. Skólanum verði ætlað að starfa á framhaldsskólastigi og opni brautskráðum nemendum sem það kjósa leið til háskólanáms.

Stjórn og tengsl við atvinnulífið.
    Lagt er til að sjávarútvegsskólinn heyri undir menntamálaráðuneytið, enda verði hann sérskóli á framhaldsskólastigi. Starfshópurinn telur óheppilegt fyrir sjávarútveginn að tengsl hans við hið almenna skólakerfi raskist. Tengsl skólans við sjávarútveginn verði tryggð í gegnum fræðsluráð sjávarútvegsins. Fræðsluráð sjávarútvegsins verði faglegur tengiliður milli skólans, atvinnulífsins, rannsóknastofnana sjávarútvegsins, sjávarútvegsráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins. Sjávarútvegsráðherra skipi formann fræðsluráðsins. Hlutverk fræðsluráðsins verði það að vera menntamálaráðuneytinu til ráðuneytis um mótun heildarstefnu og skipulags í sjávarútvegsfræðslu. Fræðsluráð sjávarútvegsins veiti umsögn um tillögur að námsskrá í verklegum og bóklegum faggreinum. Árlega skal fræðsluráð sjávarútvegsins gangast fyrir sérstökum fundi um menntamál í sjávarútvegi þar sem fram fer almenn umræða um stefnumörkun í fræðslumálum sjávarútvegsins.
    Stofnun fræðsluráðs sjávarútvegsins er ekki ný hugmynd, heldur kemur hún m.a. fram í áfangaskýrslu nefndar sem vann að endurskoðun á lögum um Fiskvinnsluskólann.
    Menntamálaráðherra skipar sérstaka skólanefnd skólans sem skipuð sé fimm mönnum. Í henni á sæti formaður fræðsluráðs og að auki þrír menn, tilnefndir af fræðsluráði. Skal einn þeirra vera úr röðum skipstjórnarmanna, einn úr röðum vélstjóra og einn úr röðum fiskvinnslumanna. Loks skipar ráðherra einn mann án tilnefningar og skal hann vera formaður skólanefndar.
    Skólanefnd markar stefnuna í skólahaldinu og ákveður námsframboð að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins. Skólanefnd hefur umsjón með og samþykkir fjárlagatillögur og fjárhagsáætlun samkvæmt þeim reglum sem þar um gilda á hverjum tíma. Nefndin lítur eftir því að rekstur miðist við sértekjur og fjárveitingar í fjárlögum hverju sinni.
    Skólastjóri stjórnar daglegum rekstri og starfi skólans og gætir þess að starfsemi hans sé í samræmi við lög, námsskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma.


Graphic file sjovinna. with height 132 p and width 354 p Center aligned











Deildir og námsgreinar.
    Sjávarútvegsskólinn skal ávallt vera opinn fyrir nýjungum sem fram koma og því sveigjanlegur þannig að hægt sé að taka upp kennslu í nýjum námsgreinum á nýjum námsbrautum eða með stofnun nýrra deilda. Gert er ráð fyrir að umtalsverð skörun geti orðið á námsefni milli deilda og því mikilvægt að samnýta kennslukrafta, kennslutæki og kennsluhúsnæði í þeim tilfellum.
    Í samtölum við menn í sjávarútvegi hefur þörf á nýjum námsgreinum oft borið á góma. Helst má nefna stjórnunar- og rekstrarfræði, sölu- og markaðsfræði, haffræði, líffræði sjávar, auðlindanýtingu, umhverfisfræði, veiðarfærafræði og veiðitækni. Mikilvægt er að endurnýjun á námsefni skólans sé stöðug þannig að við skólann sé ávallt kennt það nýjasta og besta sem fram kemur á sviði sjávarútvegsins hverju sinni. Að öðru leyti tekur starfshópurinn ekki afstöðu til þessara kennsluþátta að svo stöddu.

Húsnæði.
    Nefndin leggur til að sjávarútvegsskólinn fái til afnota húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands og hið nýja verknámshús Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði. Með því að sameina skólana undir einu þaki og undir einni stjórn er stefnt að betri nýtingu húsnæðis, hagkvæmni í kennslu og þar með sparnaði í rekstri skólans.

Inntökuskilyrði.
    Inntökuskilyrði í skólana þrjá, sem gert er ráð fyrir að sameinaðir verði í sjávarútvegsskólanum, eru hliðstæð inntökuskilyrðum í framhaldsskóla. Starfshópurinn sér ekki ástæðu til að inntökuskilyrðum verði breytt í hinum nýja skóla frá því sem nú er í þeim skólum sem gert er ráð fyrir að verði sameinaðir. Samt sem áður verður slíkt að vega og meta eftir aðstæðum í hverri grein.

Starfstími skólans.
    Hópurinn leggur til að kannað verði mjög nákvæmlega hvort ekki sé hagkvæmt að sjávarútvegsskólinn starfi allt árið. Með því móti má nýta sem best þá fjármuni sem bundnir eru í skólahúsnæði og kennslutækjum. Nemendur munu með þessum hætti koma út í atvinnulífið á mismunandi tímum árs og öflugt námskeiðahald, sem gert er ráð fyrir við skólann, getur farið fram á þeim árstímum er hentugast þykir.

Lokaorð.
    Gera má ráð fyrir að sjávarútvegsskóli sem ein stofnun verði sterkari eining en þrír minni skólar og þar af leiðandi betur í stakk búinn til að takast á við verkefni sín. Sérstaklega má nefna þróunarstörf við endurnýjun námsefnis og skipulag nýrra námsbrauta.
    Ætla má að betur verði séð fyrir fjárveitingum til skólans njóti hann óskipts stuðnings allra hagsmunaaðila.
    Líklegt er að styrkur og atkvæðamikill sjávarútvegsskóli muni almennt njóta meira álits en minni sérskólar og verða fýsilegri kostur efnilegum nemendum en verið hefur.