Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 402 . mál.


696. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo:
4.    Lán til endurbóta eða útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 11. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins er tilgreint hverjir geta notið láns úr Byggingarsjóði ríkisins. Með frumvarpi þessu er lagt til að við greinina bætist nýr töluliður er felur í sér heimild handa sjóðnum til að veita jafnframt lán til endurbóta eða útrýmingar heilsuspillandi húsnæði.
    Þegar núgildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins voru sett á árinu 1988 var gert ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins gæti veitt lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Það ákvæði var fellt brott með lögum nr. 70/1990 og talið að þær lánsumsóknir, sem bærust vegna þessa, féllu þrátt fyrir það innan ramma laganna. Það hefur síðan komið í ljós að svo er ekki. Því telja flutningsmenn þessa frumvarps brýnt að svipað ákvæði verði sett á ný í lög um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Ekki þarf að reikna með viðbótarkostnaði vegna þessa þar sem lánsumsóknir vegna endurbóta eða útrýmingar heilsuspillandi húsnæði eru fáar.