Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 421 . mál.


717. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

(Lagt fram á Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Við 2. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Úrskurðir kveðnir upp á grundvelli laga nr. 32 19. maí 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, með áorðnum breytingum, skulu vera aðfararhæfir skv. 3. mgr. 10. gr. laga þessara.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við gildistöku laga nr. 37/1992 lá fyrir nokkur fjöldi úrskurða um upptöku ólöglegs sjávarafla sem kveðnir höfðu verið upp í gildistíð eldri laga, þ.e. laga nr. 32/1976. Við gildistöku nýju laganna voru hin eldri, sem höfðu að geyma heimild til aðfarar vegna nefndra úrskurða, felld úr gildi. Í 10 gr. laga nr. 37/1992 er kveðið á um aðfararhæfi krafna vegna gjaldtöku fyrir ólögmætan sjávarafla samkvæmt þeim lögum. Ljóst er að úrskurðir samkvæmt eldri lögunum halda að fullu gildi sínu. Nokkur vafi er hins vegar talinn leika á því hvort þeir úrskurðir séu aðfararhæfir samkvæmt þessari grein. Með frumvarpi þessu er lagt til að þeim vafa verði eytt.
    Einstakar greinar þarfnast ekki skýringa.