Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 422 . mál.


718. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir,


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir.



1. gr.


    Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
    Við sjúkrahús, sbr. 1.–2. tölul. 1. mgr. 24. gr., skulu starfa trúnaðarmenn sjúklinga. Þeir skulu vera talsmenn sjúklinga og aðstandenda þeirra gagnvart sjúkrahúsum og heilbrigðisyfirvöldum, afla upplýsinga fyrir þá og greiða úr spurningum. Trúnaðarmaður skal efla samvinnu milli starfsfólks heilbrigðisstétta, sjúklinga og aðstandenda þeirra. Trúnaðarmaður skal hafa samband við sjúkling og aðstandendur hans í upphafi sjúkrahúsdvalar og veita nauðsynlegar upplýsingar um hana.
    Trúnaðarmaður skal hafa menntun á sviði heilsugæslu. Þar sem einn trúnaðarmaður starfar skal hann að öðru jöfnu vera hjúkrunarfræðingur að mennt en séu þeir fleiri skal leitast við að velja þá úr sem flestum heilbrigðisstéttum.
    Sjúkrahússtjórn annast ráðningu trúnaðarmanns í nánu samráði við félög sjúklinga eða aðstandendur þeirra. Trúnaðarmaður skal að jafnaði koma úr hópi fastráðins starfsliðs sjúkrahúss og gegna starfi trúnaðarmanns samhliða öðru starfi þar. Laun vegna starfa trúnaðarmanns greiðast úr ríkissjóði.
    Við sjúkrahús, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., skal trúnaðarmaður vera til taks allan sólarhringinn.
    Starfsmönnum heilbrigðisstétta og heilbrigðisyfirvöldum er skylt að veita trúnaðarmanni allar þær upplýsingar sem sjúklingar og aðstandendur þeirra eiga rétt á samkvæmt lögum. Komi upp ágreiningur um hvort upplýsingar skuli veittar má skjóta honum til úrskurðar landlæknis.
    Um þagnarskyldu trúnaðarmanns og viðurlög við brotum á starfsskyldum fer eftir ákvæðum þeirra laga eða reglugerða sem trúnaðarmaður hefur starfsleyfi sitt samkvæmt.
    Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess að honum hafi verið falið að gegna starfanum.
    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um störf trúnaðarmanns.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 112. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Það er nú flutt í nokkuð breyttri mynd, m.a. í samræmi við ábendingar sem fram hafa komið frá starfsfólki sjúkrahúsa.
    Málefni sjúklinga, aðstandenda þeirra og starfsfólks sjúkrahúsa eru nú víða til umfjöllunar og endurskoðunar. Stofnuð hafa verið fjölmörg félög sjúklinga er hafa látið sig varða málefni þeirra á margvíslegan hátt. M.a. hafa þau beint sjónum að andlegri líðan við erfiðar aðstæður. Starfsfólk sjúkrahúsa hefur einnig víða tekið höndum saman og átt frumkvæði að því að fjalla um mál er varða andlega velferð starfsfólks og sjúklinga. Í því sambandi má benda á umfjöllun um sorg og sorgarviðbrögð sem heilbrigðisstéttirnar, sjúklingar og aðstandendur þeirra hafa látið til sín taka.
    Eins og skipulagi sjúkrahúsa er nú háttað þykir mörgum, bæði starfsfólki stofnana, sjúklingum og aðstandendum þeirra, að heppilegt væri að koma á einhvers konar kerfi trúnaðarmanna fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra, líkt og trúnaðarmannakerfi á vinnustöðum. Starfssvið þessara aðila yrði án efa mjög vítt og mundi þurfa að mótast í samvinnu sjúklinga, aðstandenda þeirra og starfsfólks sjúkrahúsa. Hlutaðeigandi yrði ætlað annað hlutverk en það sem þegar er í höndum félagsráðgjafa og presta sjúkrahúsa, m.a. að leita svara við spurningum sjúklinga og aðstandenda þeirra um læknisfræðilega meðferð, liðsinna sjúklingum og aðstandendum þegar þeim þykir skorta skýringar eða upplýsingar um læknismeðferð eða aðrar ákvarðanir sem teknar eru um málefni þeirra. Einnig væri það hlutverk trúnaðarmanns að vera talsmaður sjúklinga og aðstandenda þeirra í öllum þeim margvíslegu málum sem upp kunna að koma í mannlegum samskiptum á sjúkrahúsum. Þar koma oft upp viðkvæm mál þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir. Slíkt reynir mjög á fólk, bæði líkamlega og andlega.
    Á nokkrum sjúkrahúsum er nú þegar vísir að slíkri starfsemi. Dæmi er um að geðhjúkrunarfræðingar hafi það hlutverk að styðja sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk sjúkrahúss og hefur það gefist mjög vel. Þessi þjónusta er þó takmörkuð við þá sjúklinga og aðstandendur sem sérstök ástæða þykir til að sinna. Brýnt er að uppbygging trúnaðarmannakerfis á sjúkrahúsum verði með hliðsjón af því sem þegar hefur verið gert í þeim efnum á hverjum stað.
    Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu eins og það lá fyrir í upprunalegri mynd. Þær miðast við að tryggja að trúnaðarmaður sé í nánum tengslum við annað starf sem fram fer á viðkomandi sjúkrastofnun og gegni starfi trúnaðarmanns samhliða öðrum skyldustörfum á stofnuninni. Einnig er gefið svigrúm til þess að trúnaðarmenn á stærri sjúkrahúsum komi úr fleiri heilbrigðisstéttum en hjúkrunarfræðinga og hafi þá með sér náið samstarf. Þessi háttur er hafður á til þess að hægt sé að mynda teymi trúnaðarmanna sem hafi góða yfirsýn yfir starfsemi sjúkrahússins og bein tengsl við sem flestar heilbrigðisstéttir.
    Auk þessara breytinga er bætt við ákvæði í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins um að trúnaðarmaður skuli að fyrra bragði hafa samband við sjúkling og aðstandendur hans í upphafi sjúkrahússdvalar.
    Menntun íslenskra heilbrigðisstétta er góð og tækjakostur sjúkrastofnana víða fullkominn. Nauðsynlegt er að hyggja að andlegri velferð sjúklinga og aðstandenda þeirra. Frumvarpi þessu er ætlað að vera skref í áttina að því að taka á því mikilvæga máli sem mannleg samskipti á sjúkrahúsum eru og virða rétt sjúklinga og aðstandenda þeirra til að fá fullkomnar upplýsingar og úrlausn mála hjá einum óháðum aðila sem bundinn er trúnaði og hefur þá skyldu fyrst og fremst að liðsinna sjúklingum og aðstandendum þeirra og efla samstarf þeirra við heilbrigðisstéttir.