Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 273 . mál.


777. Frumvarp til hjúskaparlaga



(Eftir 2. umr., 23. mars.)



    Samhljóða þskj. 369 með þessum breytingum:

    16. gr. hljóðar svo:
    Stofna má til hjúskapar fyrir presti, forstöðumanni skráðs trúfélags er hefur vígsluheimild, sbr. 17. gr., eða borgaralegum vígslumanni.

    17. gr. hljóðar svo:
     2. Prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga.
    Prestar þjóðkirkjunnar annast kirkjulega hjónavígslu, svo og prestar og forstöðumenn annarra skráðra trúfélaga hér á landi sem fengið hafa löggildingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess.
     Prestar þeir, er greinir í lögum nr. 62/1990, eru löggildir vígslumenn. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákveður að öðru leyti, að fengnum tillögum biskups, hvort aðrir prestar, sem starfa innan þjóðkirkjunnar, séu löggildir vígslumenn.
     Þjóðkirkjupresti, sem látið hefur af prestsembætti, er rétt að gefa saman hjón, að fenginni heimild tiltekins prests þjóðkirkju er kannað hefur hjónavígsluskilyrði og tekist á hendur ábyrgð á færslu hjónavígslu í kirkjubók og skýrsluskilum í því sambandi.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur löggilt íslenska presta til að framkvæma hjónavígslur erlendis.

    43. gr. hljóðar svo:
     E. Skilnaðarkjör.
    Áður en skilnaður að borði og sæng eða lögskilnaður er veittur skal sýslumaður eða dómari reyna að koma á samkomulagi milli hjóna um skipan forsjár fyrir börnum, um framfærslueyri og aðra skilnaðarskilmála. Hjón skulu staðfesta samkomulag um þessi efni fyrir sýslumanni eða dómara.
     Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. á ekki við ef óskað er lögskilnaðar á grundvelli skilnaðar að borði og sæng, sbr. 36. gr., með óbreyttum skilnaðarskilmálum.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti getur sett nánari reglur um umleitun skv. 1. mgr.

    69. gr. hljóðar svo:
    Meðan sambúðin varir er hvoru hjóna heimilt gagnvart þriðja manni að gera á ábyrgð beggja samninga sem venjulegir eru vegna sameiginlegs heimilishalds, svo og vegna þarfa barna og sérþarfa þess maka er stendur að samningi. Þetta gildir einnig um leigu húsnæðis sem ætlað er til sameiginlegs heimilis hjónanna. Slíkir samningar teljast gerðir á ábyrgð beggja hjóna nema atvik segi öðruvísi til.
     Ef viðsemjandi sá eða átti að sjá að samingurinn lá utan heimildar maka til samningsgerðar eins og á stóð verður hitt hjónanna eigi bundið við samninginn.