Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 452 . mál.


779. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Tómas Ingi Olrich, Guðjón Guðmundsson, Sturla Böðvarsson.



1. gr.


    Við 2. mgr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laganna bætist nýr málsliður: Hafi maður leigutekjur af íbúðarhúsnæði, án þess að það teljist vera atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi, er honum heimilt að draga húsaleigugjöld íbúðarhúsnæðis frá leigutekjum í stað beins kostnaðar, enda sé íbúðarhúsnæðið nýtt til eigin nota.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1994 á tekjur ársins 1993.

Greinargerð.


     Samkvæmt gildandi skattalögum mega einstaklingar ekki telja til gjalda neinn kostnað af öflun tekna eins og gildir um menn með atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og um lögaðila. Tekjur af útleigu á eigin íbúðarhúsnæði eru skattskyldar og hefur ekki verið lagaheimild til þess að draga leiguútgjöld íbúðarhúsnæðis frá leigutekjum. Hins vegar er heimilt skv. 2. mgr. 30. gr. tekjuskattslaga að draga beinan kostnað við íbúðarhúsnæði frá leigutekjum.
    Í 2. mgr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laganna segir að af íbúðarhúsnæði, sem skattaðili á og notar til eigin þarfa, skuli hvorki reikna tekjur né gjöld. Er með frumvarpinu leitað leiða til að útfæra nánar þetta ákvæði.
    Oft háttar svo til að menn þurfa að flytja milli byggðarlaga eða landshluta, t.d. vegna tímabundinna starfa eða náms. Við slíkar aðstæður getur verið verulega íþyngjandi fyrir íbúðareigendur að vera knúnir til þess af skattalegum ástæðum að selja eigin íbúð í heimabyggð og tryggja sér með kaupum húsnæði á þeim stað sem flutt er til. Dæmi eru um það að einstaklingar, sem þannig flytjast tímabundið milli landshluta, greiði mun hærri leigugjöld fyrir íbúð en sem nemur leigutekjum af eigin húsnæði í heimabyggð. Eru þeim þó í slíku tilfelli reiknaðar leigutekjur til skattlagningar. Sprettur af þessu bagaleg mismunun eftir búsetu.
     Með þeirri breytingu, sem hér er gerð tillaga um, verða tekjur af útleigu á eigin íbúðarhúsnæði jafnaðar út með leiguútgjöldum. Verði tekjur af útleigu eigin húsnæðis umfram leiguútgjöld er gert ráð fyrir að með slíkar tekjur verði farið samkvæmt ákvæðum laganna um skatta á tekjur utan atvinnurekstrar.
    Tillagan snertir 7. gr. laganna og ber þar til tvennt. Annars vegar er verið að útfæra nánar ákvæði 2. tölul. C-liðar 7. gr. laganna um skattalega meðferð eigin íbúðarhúsnæðis. Hins vegar verður með þessari breytingu ekki til sjálfstæður frádráttarliður og er því ekki efni til að fella þessa breytingu inn í 30. gr. laganna þar sem skilgreindir eru sjálfstæðir frádráttarliðir frá tekjum utan atvinnurekstrar.
    Ekki er gerð tillaga um að þessi breyting nái aðeins til tímabundinnar útleigu á eigin íbúðarhúsnæði. Verið er að útvíkka skattalega stöðu eigin íbúðarhúsnæðis eins og hún er skilgreind í 7. gr. Af ýmsum ástæðum getur verið hagstætt fyrir einstakling að leigja út eigin íbúðarhúsnæði í lengri eða skemmri tíma og tryggja sér íbúðarhúsnæði með leigu. Er ekki talin vera sérstök ástæða til þess að skattaleg meðferð eigin íbúða komi í veg fyrir slíkan sveigjanleika í húsnæðismálum.