Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 451 . mál.


782. Nefndarálit



um frv. til l. um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi.

Frá 2. minni hluta samgöngunefndar.



    Annar minni hluti nefndarinnar getur ekki fallist á að gripið sé til lagasetningar til að binda enda á verkfall stýrimanna á ms. Herjólfi. Kvennalistinn hefur ávallt andmælt því harðlega að ríkisvaldið grípi inn í vinnudeilur og kjarasamninga, enda hafa íslensk stjórnvöld margsinnis fengið áminningu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni vegna slíkra aðgerða og ríkið orðið að greiða háar upphæðir vegna dóma sem á það hafa fallið.
    Íslendingar verða að temja sér aðrar reglur við lausn vinnudeilna en lagasetningar og leita leiða sem ásættanlegar eru fyrir alla aðila.
    Þá er þess að geta að með þessu frumvarpi er gripið inn í kjarasamninga stéttarfélaga sem ekki eiga í vinnudeilum með því að setja þau undir gerðardóm en slíkt er ólíðandi.
    Það þarf að leysa þann mikla vanda sem steðjar að Vestmanneyingum en hér er ekki farin rétt leið til þess.
    Því munu þingkonur Kvennalistans greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.

Alþingi, 23. mars 1993.



Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.