Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 471 . mál.


813. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 30/1987, um orlof.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.


    4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er heimilt að greiða mánaðarkaupsmönnum, að fengnu samþykki þeirra, orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur fara fram. Þá getur launþegi ákveðið að orlofslaun hans verði greidd jafnharðan á sérstakan orlofsreikning launþega hjá banka eða sparisjóði, enda sé tryggt að sá aðili, sem tekur að sér vörslu orlofslauna, geri upp áunnin orlofslaun, þ.e. höfuðstól og vexti, við launþega við upphaf orlofstöku.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 1993.

Greinargerð.


     Með frumvarpi þessu er lögð til sú grundvallarbreyting á ákvæði 7. gr. laganna að launþegi geti sjálfur ákveðið hvar og hvernig hann geymir orlofsfé sitt. Hann getur valið milli þess að geyma það í því fyrirtæki sem hann starfar hjá eða ávaxta það hjá þeim banka eða sparisjóði sem hann kýs. Eina skilyrðið í tillögugreininni er að bankinn eða sparisjóðurinn tryggi að áunnin orlofslaun verði gerð upp við upphaf orlofstöku.
    Lagt er til að lagabreytingin öðlist gildi við upphaf næsta orlofsárs.