Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 477 . mál.


824. Tillaga til þingsályktunar



um valfrelsi í lífeyristryggingum.

Flm.: Árni M. Mathiesen, Vilhjálmur Egilsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 55/1980 þannig að
    starfandi menn ráði sjálfir til hvaða lífeyrissjóðs eða samsvarandi stofnunar þeir greiða iðgjöld eða kaupa lífeyristryggingu hjá,
    bönkum, sparisjóðum og tryggingafélögum verði leyft að starfa á sviði lífeyristrygginga og veita þjónustu sem samsvarar þjónustu lífeyrissjóða.
    Í frumvarpinu verði ekki hróflað við skyldu launamanna og sjálfstæðra atvinnurekenda til kaupa á lífeyristryggingu hjá lífeyrissjóði eða samsvarandi stofnun og ekki verði gerðar minni kröfur til annarra stofnana sem selja lífeyristryggingar en gerðar eru til lífeyrissjóða.

Greinargerð.


    Samkvæmt lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Í lögunum eru ítarleg ákvæði um það hvernig skyldutryggingunni, svo og skylduaðildinni, skuli fullnægt. Þegar lög þessi voru sett voru um það bil tíu ár liðin frá því að launþegar og atvinnurekendur höfðu samið um aðild launþega að lífeyrissjóðum og í sjálfu sér eðlilegt að kveða á um skyldutryggingu allra sem launatekna afla. Lífeyrissjóðir höfðu þá fest sig í sessi á grundvelli stéttarfélagsaðildar. Á þessum tíma var fjármagnsmarkaður mjög vanþróaður og ávöxtun fjár var í hefðbundnum farvegi, þ.e. aðallega í útlánum til sjóðfélaga.
    Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í nýútkominni skýrslu bankaeftirlitsins um starfsemi lífeyrissjóða á árinu 1991 koma fram ýmsar fróðlegar upplýsingar um rekstur einstakra sjóða. Tvö atriði í rekstri lífeyrissjóðs, sem stjórnendur hans hafa veruleg áhrif á, eru annars vegar ávöxtun fjár hans og hins vegar rekstrarkostnaður. Þessi atriði hafa mikil áhrif á getu hans til að sinna meginverkefni sínu, þ.e. að greiða sjóðfélögum og aðstandendum þeirra lífeyri. Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu að raunverulegur munur er á árangri einstakra sjóða að þessu leyti og raunar svo mikill að ekki er viðunandi fyrir sjóðfélaga þeirra sjóða sem njóta lakastrar ávöxtunar eða bera mestan rekstrarkostnað. Munur á milli sjóða að þessu leyti mun valda verulegum mun á þeim lífeyri sem sjóðirnir greiða og það er ekki á nokkurn hátt verjandi að lögum sé á þann veg skipað að tilteknir hópar manna séu skikkaðir til að greiða iðgjöld til og ávinna sér lífeyrisréttindi í sjóðum sem vegna lélegrar stjórnunar (eða stærðar) koma til með að greiða mun lægri lífeyri en almennt gerist og miklu lægri lífeyri en hjá þeim sjóðum sem bestum árangri ná.
    Verði einstaklingum gefinn kostur á að velja sér lífeyrissjóð til þess að fullnægja skyldutryggingu sinni er ljóst að það verður lífeyrissjóðunum meiri hvatning til samkeppni um að ávaxta fé á sem hagstæðastan hátt, svo og að gera reksturinn eins hagfelldan og kostur er. Þetta yrði einnig hvati að frekari samruna lífeyrissjóða, en þótt nokkuð hafi miðað þar í rétta átt þarf að gera miklu betur á því sviði.
    Þá hlýtur mjög að koma til álita að heimila fleirum en lífeyrissjóðum að keppa á þessum markaði, t.d. tryggingafélögum, bönkum og sparisjóðum. Þetta er algengt erlendis og ekkert því til fyrirstöðu að það sé gert hér. Mjög eðlilegt er að stofnanir á þessu sviði veiti sveigjanlegri tryggingavernd en nú tíðkast, þannig að einstaklingarnir geti lagað hana að þörfum sínum. Stofnanir, sem fengju heimildir til þess að veita lífeyristryggingar, yrðu hins vegar að uppfylla mjög ströng skilyrði að því er varðar fjárhagsstyrk. Það verður vissulega að gera mjög ríkar kröfur til þeirra aðila sem veita viðtöku 10% allra launagreiðslna í landinu.