Ferill 498. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 498 . mál.


850. Tillaga til þingsályktunar



um reglur um umfjöllun fjölmiðla um alvarleg afbrotamál og upplýsingaskyldu opinberra stofnana á því sviði.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Ólafur Þ. Þórðarson, Össur Skarphéðinsson,


Lilja Rafney Magnúsdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Jón Helgason, Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að gera tillögur um hvort og með hvaða hætti setja eigi reglur um umfjöllun fjölmiðla og upplýsingaskyldu opinberra aðila um alvarleg afbrotamál. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar frá Fangelsismálastofnun, lögreglunni, Dómarafélagi Íslands, ríkissaksóknara, barnaverndarráði, Rannsóknastofnun Háskólans í siðfræði og Blaðamannafélagi Íslands. Dómsmálaráðherra skipar formann nefndarinnar.

Greinargerð.


    Í tillögu þessari er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að skipa nefnd til þess að gera tillögur um hvort og með hvaða hætti setja eigi reglur um umfjöllun fjölmiðla og upplýsingaskyldu opinberra aðila um alvarleg afbrotamál.
    Á undanförnum árum hefur það færst í aukana að fjölmiðlar fjalli ítarlega um alvarleg afbrotamál og birti myndir er þeim tengjast. Aukin samkeppni fjölmiðla um fréttaöflun af atburðum hefur orðið til þess að í einstaka tilfellum hafa fjölmiðlar ekki gætt þeirrar varkárni sem nauðsynleg í málum af þessu tagi.
    Algengt er að fjölmiðlar nánast sakfelli einstaklinga er hlut eiga að málum áður en dómur er genginn. Það hefur jafnvel gerst að fjallað hafi verið um mál í fjölmiðlum áður en lögregla hefur náð að taka skýrslu af málsaðilum. Hætt er við að slík fréttamennska verði til þess að almenningur felli dóma og jafnvel krefjist aðgerða sem lítt eða ekki eru byggðar á faglegri umfjöllun, þekkingu eða rannsóknum.
    Þá skal jafnframt nefnt að óheppilegt getur verið út frá rannsóknar- og öryggishagsmunum að fjölmiðlar séu á vettvangi þar sem brot hefur verið framið og myndefni sýnt þaðan, svo að ekki sé talað um að þá fréttamennsku sem getur orðið til þess að venjulegu fólki sé misboðið og er andstæð siðrænum gildum.
    Með þessari tillögu er ekki verið að leggja til að allur fréttaflutningur af afbrotamálum verði bannaður. Fjölmiðlar eiga kröfu á að geta upplýst almenning um málefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma. Flutningsmenn telja hins vegar eðlilegt að settar verði reglur um hversu langt má ganga í því að „upplýsa“ almenning um afbrotamál áður en búið er að rannsaka þau og sakfella viðkomandi fyrir dómstólum.
    Þá telja flutningsmenn einnig mikilvægt að skilgreina betur upplýsingaskyldu opinberra stofnana og starfsstétta er að þessum málum koma, hvort sem um er að ræða aðila innan refsivörslukerfisins eða barnaverndaraðila. Í allri umfjöllun um viðkvæm mál, er varða einstaklinga, verður að hafa í huga að enginn er eyland. Fjölmargir eiga um sárt að binda vegna slíkrar umfjöllunar, fólk sem ekkert hefur til saka unnið, svo sem börn, makar, foreldrar eða aðrir nánir ættingjar eða vinir.