Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 513 . mál.


870. Tillaga til þingsályktunar



um ráðstafanir til að efla fiskeldi.

Flm.: Guðmundur Stefánsson, Guðni Ágústsson, Stefán Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna leiðir til að efla fiskeldi sem fyrir er í landinu og hvernig unnt sé að nýta sem best þau fiskeldismannvirki sem nú þegar hafa verið byggð. Þetta verði m.a. gert með eftirfarandi hætti:
    Gerð verði úttekt á stöðu allra fiskeldisfyrirtækja með það fyrir augum að kanna hvað sé hægt að gera til að bæta aðstæður til eldis í einstökum stöðvum, hvað það muni kosta og hvaða ávinningur gæti orðið af viðkomandi ráðstöfunum.
    Leitað verði allra leiða til að lækka verulega orkuverð til fiskeldis og að gerður verði sérstakur samningur um sölu raforku til fiskeldisfyrirtækja til a.m.k. fimm ára.
    Markaðar verði sérstakar leiðir til að auðvelda innflutning erfðaefnis.
    Gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að létta skuldbindingum vegna stofnkostnaðar af fiskeldisstöðvum.
    Gerðar verði ráðstafanir til að fiskeldisfyrirtæki njóti ekki lakari möguleika og kjara til rekstrarfjármögnunar en aðrar útflutningsatvinnugreinar.

Greinargerð.


    Fiskeldi hér á landi hefur átt við ýmsa erfiðleika að etja undanfarin ár og árangur í eldi lengst af verið afar slakur. Þessa erfiðleika má að hluta til rekja til ytri aðstæðna (lágt afurðaverð) og að hluta til innri aðstæðna (fjárskortur og lakur eldisárangur). Undanfarna mánuði hefur afurðaverð hækkað töluvert, en fyrst og fremst hefur þekking og reynsla í eldinu sjálfu aukist og eldisárangur því batnað. Engu að síður er fjárhagsstaða eldisfyrirtækja erfið. Talið er að tekjur margra eldisstöðva dugi nú til að standa straum af breytilegum kostnaði og skili e.t.v. einhverju upp í afskriftir og vexti af stofnfjárfestingu.
    Greinilegt er að árangur eldisstöðva hefur batnað verulega. Á ráðstefnu um fiskeldi, sem haldin var á Akureyri 27.–28. mars sl., kom m.a. fram að nokkrar strandeldisstöðvar framleiða nú yfir 30 kg af laxi á rúmmetra eldisrýmis sem er mun betri árangur en verið hefur. Í skýrslu fiskeldisdeildar Veiðimálastofnunar fyrir árið 1992 kemur fram að sé miðað við seldar afurðir á útsett seiði árin 1991 og 1992 hafi árangur í eldi batnað um 88% milli ára.
    Ástæða er til að ætla að árangur í eldi hér á landi eigi eftir að batna enn. Því veldur fyrst og fremst að kunnátta eldismanna og reynsla er nú mun meiri en nokkru sinni, stofnar í eldi hafa verið bættir verulega og þekking á starfrækslu strandeldisstöðva er nú til staðar. Þótt verulegur árangur hafi náðst á þessum sviðum og mörgum fleirum er enn mörgum spurningum ósvarað og gera má því ráð fyrir að mun betri árangur náist í framtíðinni.
    Hvað viðvíkur tölusettum liðum í þingsályktunartillögunni skal eftirfarandi tekið fram:
    1. Við uppbyggingu margra fiskeldisstöðva olli fjárskortur og aðrar ástæður því að stöðvarnar voru í raun aldrei fullbyggðar. Þar er um að ræða atriði er varða ýmsan lokafrágang, vatns- og orkubúskap og jafnvel öryggisatriði. Til að tryggja að þessar fjárfestingar skili eins miklum tekjum og unnt er og rekstrargrundvöllur þeirra og rekstraröryggi sé tryggt eftir föngum er nauðsynlegt að gerð verði úttekt á öllum fiskeldisfyrirtækjum í landinu, kannað hvort unnt sé að bæta möguleika á eldi, hvernig það megi gera, hvað það kosti og hverju það muni skila. Ef slík skoðun leiðir í ljós að hagkvæmt sé að ráðast í endurbætur í einstökum eldisstöðvum verður að gera eigendum þeirra það kleift, t.d. með því að veita þeim hagstæð lán til slíkra framkvæmda. Ef viðbótarframkvæmdir skila engu er heldur engin ástæða til að leggja í þær fjármuni.
    Verulegar upplýsingar liggja nú þegar fyrir um eldisstöðvarnar, t.d. hjá ábyrgðadeild fiskeldislána, opinberum sjóðum, rannsóknaraðilum og ekki síst hjá eldisstöðvunum sjálfum.
    Markmiðið með þeirri úttekt, sem að framan greinir, er að fullnýta það eldisrými sem talið er borga sig að ala fisk í og gæti þá eldi laxfiska í landinu vaxið úr núverandi 3 þús. tonnum í 5–6 þús. tonn án stórfelldra stofnfjárfestinga.
    2. Margar strandeldisstöðvar eru stórnotendur raforku, en talið er að 10–15 kwst. þurfi til að framleiða 1 kg af laxi og raforkukostnaður er allt að 15% af rekstrarkostnaði strandeldisstöðva. Fiskeldisstöðvar nota rafmagn til dælingar og súrefnisframleiðslu tiltölulega jafnt allt árið og þær hafa a.m.k. allflestar öflugar varaaflsstöðvar ef rafmagn frá veitukerfinu bregst af einhverjum orsökum. Með tilliti til þeirra erfiðleika sem eru í fiskeldi, þeirra framleiðsluaðstæðna sem eru til raforkuframleiðslu og þess hve hagstæðir orkunotendur fiskeldisstöðvar eru þarf að lækka orkuverð til fiskeldis, bæði matfiskeldis og seiðaeldis, verulega og gera um það samning sem gildir til allt að fimm ára. Núgildandi raforkusamningur gildir aðeins til 31. desember nk. og er allt í óvissu með framhaldið.
    3. Innflutningur erfðaefnis, hvort sem eru seiði, hrogn eða svil, er og á að vera takmörkunum háður. Leggja ber höfuðáherslu á innlent kynbótastarf, en það mun taka langan tíma að ná nágrannaþjóðum okkar í kynbótum á matfiskeldisstofnum og því getur verið nauðsynlegt að flytja inn erfðaefni, annaðhvort til að flýta kynbótum eða til að nýta beint í eldinu. Marka þarf ákveðnar reglur eða leiðir sem gera eldisaðilum auðveldara um vik í þessum efnum en verið hefur.
    4. Ljóst er að mjög margar fiskeldisstöðvar geta ekki greitt til baka stofnkostnað sinn. Stofnkostnaður margra stöðva var óhæfilega hár og í raun lítil von til að þær tekjur, sem gera mátti ráð fyrir að stöðvarnar gætu aflað, mundu duga til að standa undir rekstri og endurgreiðslu stofnlána. Eigið fé margra þessara stöðva er uppurið og þær í raun gjaldþrota ef ekkert verður að gert. Þess vegna er mikilvægt að tekið sé á þessum málum af festu og stofnkostnaði stöðvanna aflétt að hluta eða öllu leyti, þannig að þær geti á ný aflað eigin fjár með t.d. sölu hlutabréfa. Þar sem þetta hefur verið gert hefur komið í ljós að fiskeldisfyrirtæki eiga möguleika á að afla sér rekstrarfjár með þessum hætti.
    Verði hins vegar farin sú leið að lýsa þessi fyrirtæki gjaldþrota skapast sú hætta að þeir starfsmenn, sem vinna við eldið nú, hverfi frá fyrirtækjunum, en þekking þeirra og reynsla er sá þáttur sem líklega skiptir hvað mestu um hvort eldið tekst eða ekki.
    5. Frá því að hrogn klekst út og þar til laxi er slátrað getur liðið allt að þremur árum. Það er því ljóst að fiskeldi er afar fjárfrek grein og bindur fjármuni lengi. Fiskeldi þarf því að njóta rekstrarfjárfyrirgreiðslu ekkert síður en aðrar útflutnings- og framleiðslugreinar. Engin afurðalán fást nú án ríkisábyrgðar og virðast viðskiptabankar hafa lokað á greinina án tillits til stöðu einstakra fyrirtækja. Meðan þetta ástand varir verður að efla starfsemi ábyrgðadeildar fiskeldislána, stytta afgreiðslutíma hennar og efla eftirlitsþáttinn. Jafnframt því þarf að leysa ýmis vandamál sem lúta að tryggingu á eldisstöðvum, en eins og málum er nú háttað eru iðgjöld mjög há án þess að tryggingar veiti í raun það öryggi sem að er stefnt. Útflutningsfyrirtæki fá gjarnan afurðalán sem nema um 2 / 3 hlutum af útflutningsverðmæti vörunnar. Sambærilegrar aðstöðu þarf fiskeldið að njóta og mun það auka tiltrú manna á rekstur einstakra eldisfyrirtækja og án alls efa bæta rekstrarárangur þeirra verulega.