Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 530 . mál.


888. Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á hættu af sjávarágangi.

Flm.: Jón Helgason, Jón Kristjánsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera úttekt á hættu sem kann að stafa af sjávarágangi hérlendis og gera tillögur um hvernig við er hægt að bregðast, m.a. hvernig verja skuli núverandi mannvirki og hvaða reglur skuli gilda um byggingu nýrra mannvirkja með tilliti til breytinga sem vænta má á sjávarmáli.

Greinargerð.

    Tjón á mannvirkjum af völdum sjávarágangs hafa verið alltíð á síðustu árum. Slíkir atburðir eru engin nýlunda hérlendis. Mesta flóð, sem sögur fara af, var Básendaflóðið fyrir tæpum tveimur öldum. Ástæðan fyrir slíku tjóni er að sjálfsögðu sú að mannvirki hafa verið reist of nálægt flóðfari sem hafaldan getur náð til í mestu aftökum. Ástæða þess að byggja svo nálægt sjávarmáli var yfirleitt ekki skortur á landrými heldur var hagkvæmt að sem stystur vegur væri í byggingar sem notaðar voru vegna sjósóknar eða flutninga á sjó þegar engin tækni til flutnings á landi eða ferða var fyrir hendi.
    Nú eru aðstæður gjörbreyttar og því engin ástæða til að taka neina áhættu þegar ný mannvirki eru reist, önnur en þau sem tengjast beint hafnargerð. Þar að auki eru mannvirki nú miklu varanlegri og því meiri fyrirhyggju þörf, sérstaklega þar sem vísbendingar eru um að sjávarmál fari hækkandi, a.m.k. sums staðar á landinu. Nákvæmar mælingar eru ekki margar fyrir hendi, en ýmsar breytingar á landi, t.d. í nágrenni Reykjavíkur, sem hægt er að sjá af frásögnum fyrri tíma að hafa orðið, benda eindregið í þá átt.
    Hafnamálastofnun í samvinnu við Raunvísindastofnun er nú hins vegar að gera nokkurt átak til að ganga frá nákvæmum búnaði á nokkrum stöðum þó að fjárskortur setji því skorður. Það hlýtur svo að taka einhvern tíma að fá öruggar niðurstöður um hvaða breytingar eru að verða á sjávarmáli þó að frekari merki um hvert stefnir hljóti fljótt að koma í ljós.
    Með tilliti til þessara staðreynda virðist vera fjarstæða að reisa ný mannvirki mjög nálægt eða neðarlega miðað við sjávarmál. Í ljósi reynslu síðustu ára, þar sem stórar byggingar, sem standa eiga um aldir, ná langt niður fyrir stórstraumsflóðfar, virðist augljós þörf á að setja nú þegar reglur um það hversu varlega eigi að fara á þessu sviði.
    Jafnframt er sjálfsagt að meta, miðað við reynslu síðustu áratuga, hvaða mannvirki og staðir kunna að vera í hættu til að gera sér betur grein fyrir því hvernig er á sem hagkvæmastan hátt hægt að draga úr tjóni sem sjávarflóð gætu valdið.
    Þá hefur ágangur sjávar á sendna suðurströnd landsins á síðustu árum stefnt mannvirkjum í hættu svo að brýnt er að snúast þar til varnar eftir því sem nokkur kostur er.