Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 550 . mál.


915. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Í stað 2. og 3. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
     Lög þessi taka ekki til skipa og flugvéla, sem koma í landhelgi og hafa innan borðs áfengi sem hluta af tollfrjálsum forða ef með þann varning er farið samkvæmt sérákvæðum laga. Ráðherra er heimilt að setja sérreglur um innflutning ferðamanna og áhafna skipa og flugvéla á áfengi.

2. gr.


     Í stað 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Áfengisverslun ríkisins annast innflutning vínanda og áfengis samkvæmt lögum þessum og dreifingu þessara vara undir yfirstjórn fjármálaráðherra í því skyni að afla ríkissjóði tekna.
    

3. gr.


     3. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra ákveður útsöluverð áfengis á hverjum tíma.

4. gr.


    6. gr. laganna fellur niður.

5. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í samræmi við fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að draga úr ríkisumsvifum þar sem þess er kostur og vegna breyttra aðstæðna er með frumvarpi þessu lagt til að einkaréttur ríkisins til sölu á tóbaki verði afnuminn.
     Ríkið öðlaðist einkarétt til innflutnings og heildsölu tóbaks á árinu 1922. Árið 1926 var einkaréttur þessi afnuminn. Í ársbyrjun 1932 öðlaðist ríkið einkasöluréttinn á ný, sbr. lög nr. 58/1931, og hefur það átt hann æ síðan. Þau sjónarmið, sem einkum réttlættu einkarétt ríkisins til innflutnings og heildsölu á tóbaki, voru á sínum tíma þau að með þessum hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi einkasölugjalda af vörum þessum, auk þess sem líklegra þótti að þetta fyrirkomulag tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vörum þessum til landsins. Einnig var á það bent að með þessum hætti væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á þessum vörum þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með lögmætum hætti.
     Telja verður að framangreind sjónarmið eigi ekki lengur við um innflutning og heildsölu þessara vara. Kemur þar einkum þrennt til. Í fyrsta lagi má afla ríkissjóði sömu tekna og hann hefur af einkasölugjöldum þessum með mun auðveldari hætti en þeim að fela ríkinu að annast fyrir hönd umboðsmanna innflutning og dreifingu umræddra vara í heildsölu. Tekna þessara má einfaldlega afla með innflutningsgjöldum á innfluttar vörur af þessu tagi og sambærilegum gjöldum af innlendri framleiðslu sé um hana að ræða, á sama hátt og tíðkast varðandi innheimtu ýmissa annarra óbeinna skatta. Í öðru lagi hefur tóbakseinkasalan í raun aðeins annast innflutning og birgðahald fyrir umboðsmenn en engin takmörkun verið á innflutningi og smásalan frjáls. Í þriðja lagi verða möguleikar til eftirlits með ólögmætum innflutningi og sölu þessara vara ekkert síðri við þessa breytingu eftir að merkingar um hollustu eru upp teknar á tóbak. Jafnframt þessu má benda á að óeðlilegt er að ríkið sé í rekstri sem augljóst er að einkaaðilar eru fullfærir um að leysa af hendi eða annist slíkan innflutning fyrir einkaaðila, einkum þegar haft er í huga að engu máli skiptir fyrir ríkissjóð hvor hátturinn er á hafður og um engar takmarkanir á sölu tóbaks hefur verið að ræða. Loks er rétt að hafa í huga að landlæknir fullyrðir að árlega deyi hundruð Íslendinga af völdum reykinga. Í ljósi þessa má því álykta að það sé í raun siðferðislega ámælisvert af ríkinu að stunda verslun með tóbak.
    Í frumvarpi til laga um gjald af tóbaksvörum, sem flutt er samhliða frumvarpi þessu, er gerð grein fyrir því að nettótekjur ríkissjóðs af tóbakssölu muni hækka við afnám einkasölunnar. Gjöld af tóbaksvörum breytast úr einkasölugjaldi í tóbaksgjald sem verður innheimt við tollafgreiðslu.
     Eins og kunnugt er þá á sér stað verðjöfnun á tóbaki. Verði frumvarp þetta að lögum fellur hún að mestu niður, enda verður ekki séð hvaða sjónarmið það eru sem réttlæta verðjöfnun á tóbaki umfram aðrar vörur, þar á meðal ýmsar nauðsynjavörur. Í kjölfar frjálsrar verslunar með tóbak er ljóst að tóbaksdeild ÁTVR verður lögð niður. Gera má ráð fyrir að a.m.k. sex stöður í tóbaksdeild verði lagðar niður. Verði frumvarp þetta að lögum er reiknað með því að umboðsmenn hinna ýmsu tóbakstegunda annist framvegis innflutning, birgðahald og heildsöludreifingu þess með þeim hætti sem þeir telja ákjósanlegastan og hagkvæmastan. ÁTVR mun hins vegar þurfa nokkurn tíma til að selja sínar birgðir.
     Að því er einstakar greinar þessa frumvarps varðar er það að segja að frumvarpið fellir úr gildi öll ákvæði er varða einkarétt ríkisins til innflutnings og dreifingar á tóbaki. Eins og kunnugt er var kaflinn um Lyfjaverslun ríkisins felldur niður á sínum tíma með lögum nr. 16/1982, um lyfjadreifingu. Jafnframt var með lögum nr. 30/1986 felldur niður einkasöluréttur ríkisins á vindlingapappír og eldspýtum. Með vísan til þessa þykir ekki ástæða til að fjölyrða frekar um einstakar greinar frumvarpsins, en hins vegar er vísað til frumvarps um tóbaksgjald vegna hins nýja fyrirkomulags sem fyrirhugað er að koma á varðandi gjaldtöku og verslun með tóbak.