Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 26 . mál.


921. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 55/1987, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá fjármálaráðuneytinu Indriða H. Þorláksson, Bolla Þór Bollason, Bjarnveigu Eiríksdóttur, Maríönnu Jónasdóttur, Snorra Olsen, Jón H. Steingrímsson, Rúnu Soffíu Geirsdóttur og Ingibjörgu Þorsteinsdóttur. Enn fremur komu frá ríkisskattstjóraembættinu Garðar Valdimarsson, Jón Guðmundsson og Steinþór Haraldsson. Þá komu Sigfús Bjarnason og Ólafur Baldursson frá Bandalagi íslenskra leigubílsstjóra, Gunnar Sveinsson og Þorvarður Guðjónsson frá Félagi sérleyfishafa, Þórður H. Hilmarsson frá Globus hf., Runólfur Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Jónas Þór Steinarsson frá Bílgreinasambandinu, Þorleifur Jónsson og Guðlaugur Stefánsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Haukur Halldórsson og Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, Baldvin Hafsteinsson frá Íslenskri verslun, Jónas Fr. Jónsson og Sverrir V. Bernhöft frá Verslunarráði Íslands, Gunnar Svavarsson, Víglundur Þorsteinsson, Páll Kr. Pálsson og Sveinn Hannesson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Pétur Óli Pétursson frá Bílaumboðinu hf. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Félagi íslenskra iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna, Bílgreinasambandinu, Stéttarsambandi bænda og VSÍ og einnig var stuðst við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá tollgæslustjóra, Íslenskri verslun, Verslunarráði Íslands, Sambandi garðyrkjubænda og Neytendasamtökunum.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði eftirtaldar breytingar á frumvarpinu:
    Lagt er til að við 1. gr. bætist ákvæði um heimild til niðurfellingar tolla á aðföngum til skipaviðgerða, en slík heimild er til staðar hvað varðar flugvélar.
    Lagt er til að orðalag 5. mgr. 2. gr. verði gert skýrara og víðtækara þannig að heimild fjármálaráðherra til að fella niður eða lækka tolla nái til allra vara sem verðjöfnunargjald er lagt á, hvort sem þær koma frá hinu Evrópska efnahagssvæði eða öðrum löndum.
    Lagðar eru til breytingar á 4. gr. í þremur liðum. Í fyrsta lagi verði ráðherra, til að taka af öll tvímæli, veitt heimild til að lækka almennan toll (ytri toll) á þeim vöruflokkum sem samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði tekur til. Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við nokkrum tollskrárnúmerum í 3. tölul. sem láðst hafði að geta í frumvarpinu og loks verði bætt við 4. tölul. tollnúmerum skriðdreka og bifhjóla til þess að gera upptalninguna tæmandi.
    Lagt er til að tvær nýjar greinar komi í frumvarpið. Annars vegar bætist við grein er veiti ráðherra heimild til þess að miða vörugjaldsstofn tilgreindra innfluttra vöruflokka við vörugjaldsstofn innlendra vara skv. 6. gr. vörugjaldslaga. Hins vegar komi ákvæði sem heimili skattyfirvöldum að meta eðlilegt heildsöluverð vöru þegar framleiðandi eða heildsali vöru er jafnframt smásali hennar og ekkert opinbert heildsöluverð liggur fyrir.
    Lögð er til sú breyting á 6. gr. að gjalddagi vörugjalds verði í þriðja mánuði frá lokum uppgjörstímabils en óheppilegt þykir að gjalddagi vörugjalds og virðisaukaskatts sé í sama mánuði.
    Lagt er til að 8. gr. verði breytt og gildistaka laganna verði 1. júlí 1993, en þó ekki fyrr en samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði tekur gildi að því er Ísland varðar.
    Lögð er til viðbót við ákvæði til bráðabirgða og felur hún í sér að vörugjald af byggingarvörum falli niður, en þeir vöruflokkar, sem um er að ræða, eru sement, steinsteypa og skyldar vörur, svo og steypustyrktarjárn og gler. Breytingunni er ætlað að hafa áhrif til lækkunar á byggingarkostnaði og styrkja þannig aðgerðir til eflingar atvinnustarfsemi og lækka útgjöld heimila og atvinnurekstrar vegna áhrifa á lánskjaravísitölu. Lagt er til að breytingin taki þegar gildi.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. mars 1993.


Vilhjálmur Egilsson,

Guðjón Guðmundsson.

Sólveig Pétursdóttir.

form., frsm.



Ingi Björn Albertsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

með fyrirvara.