Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 557 . mál.


924. Frumvarp til laga



um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)


1. gr.

    Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skal vera sjálfstæð stofnun er heyrir undir menntamálaráðherra.

2. gr.

    Stofnunin skiptist í tvær deildir, rannsókna- og þróunardeild og prófa- og matsdeild.

3. gr.

    Helstu verkefni rannsókna- og þróunardeildar eru:
    Vinna að rannsóknum á sviði uppeldis- og menntamála með sérstakri áherslu á verkefni er haft geta hagnýta og/eða fræðilega þýðingu fyrir uppeldis- og menntamál í landinu.
    Veita faglega ráðgjöf um rannsóknir og þróunarverkefni á sviði uppeldis- og menntamála.
    Veita kennurum, kennaraefnum og háskólastúdentum í framhaldsnámi á sviði uppeldis- og menntamála þjálfun og ráðgjöf í fræðilegum vinnubrögðum eftir því sem aðstæður leyfa.
    Kynna íslenskar og erlendar rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála.

4. gr.

    Helstu verkefni prófa- og matsdeildar eru:
    Sjá um samningu og úrvinnslu samræmdra prófa og könnunarprófa fyrir grunnskóla- og framhaldsskóla. Tryggt verði að kennarar á grunnskóla- og framhaldsskólastigi taki þátt í prófagerð.
    Hafa umsjón með mati á úrlausnum slíkra prófa, sérstaklega á lokaprófi viðkomandi skólastigs.
    Sjá um mat á skólastarfi. Niðurstöður slíks mats skal birta opinberlega að jafnaði á fjögurra ára fresti.
    Ráðgjöf til menntamálaráðherra um breytingar á aðalnámsskrá grunnskóla og námsskrá framhaldsskóla ef þurfa þykir í ljósi mats stofnunarinnar á starfi skólanna og þróunar í skólastarfi.

5. gr.

    Starfi stofnunarinnar stýrir forstöðumaður, ráðinn til fimm ára í senn samkvæmt samningi við menntamálaráðherra. Forstöðumaður skal uppfylla þær hæfniskröfur sem gerðar eru til prófessora við Háskóla Íslands. Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn með samþykki menntamálaráðherra.

6. gr.

    Háskólakennurum, kennurum og öðrum sérfræðingum í opinberri þjónustu er heimilt að inna vinnuskyldu sína, eða hluta hennar, af hendi með störfum innan stofnunarinnar að fengnu samþykki forstöðumanns.

7. gr.

    Menntamálaráðherra skipar ráðgjafarnefnd til fimm ára í senn er vera skal forstöðumanni Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála til faglegrar ráðgjafar. Í nefndinni skulu eiga sæti sex fulltrúar, einn skipaður af menntamálaráðherra án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar, einn skipaður samkvæmt tilnefningu samtaka kennara á grunnskólastigi, einn samkvæmt tilnefningu samtaka kennara á framhaldsskólastigi, rektor Háskóla Íslands, rektor Kennaraháskóla Íslands og rektor Háskólans á Akureyri. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

8. gr.

    Meta skal starf stofnunarinnar á þriggja ára fresti af þar til kvöddum sérfræðingum sem ráðgjafarnefnd og ráðherra kalla til.

9. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessara laga.

10. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 69/1988, um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, og 65. gr. laga nr. 49/1991. Úr 68. gr. sömu laga falla burt orðin „skólum, skólastarfi“, svo og önnur lagaákvæði er fara kunna í bága við ákvæði laga þessara.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á gildandi lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Sjálfstæði stofnunarinnar er aukið, henni falin fleiri verkefni á sviði rannsókna og mats og gert ráð fyrir meiri þátttöku kennara í störfum stofnunarinnar.
    Nauðsyn vel skipulagðra og faglegra rannsókna á íslensku skólastarfi er óumdeild. Hér er verið að stíga mikilvægt skref í þá átt að auka rannsóknir í þágu menntamála með því að efla stofnun sem er stjórnunarlega óháð yfirvöldum menntamála og öðrum þeim er aðild eiga að starfsemi þeirri er meta skal. Þykir því rétt að hverfa frá því skipulagi gildandi laga að stjórnarnefnd, tilnefnd af tilteknum aðilum, stýri daglegu starfi stofnunarinnar. Þess í stað er gert ráð fyrir faglegri ráðgjafarnefnd sem tekur þátt í mótun heildarstefnu en hlutast ekki til um dagleg rannsóknastörf. Þannig verður stjórnun þessarar stofnunar með sama hætti og yfirleitt er um stofnanir ríkisins, þ.e. að forstöðumaður stýrir venjulegum rekstri. Ráðgjafarnefndin er skipuð fleiri aðilum en stjórnarnefndin var. Fulltrúum kennara er fjölgað um tvo, þannig að bæði Kennarasamband Íslands og Hið íslenska Kennarafélag eiga þar fulltrúa. Einnig á rektor Háskólans á Akureyri sæti í nefndinni, en þar er nú búið að stofna kennaradeild. Þá er sú breyting gerð á gildandi lögum að stofnuninni eru fengin veigamikil verkefni á sviði rannsókna og mats á skólastarfi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Kveðið er á um sjálfstæði Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála og að hún heyri undir menntamálaráðherra.

Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir þeim skipulagsbreytingum að stofnunin skiptist framvegis í tvær deildir með aðgreindum viðfangsefnum, þar sem önnur fæst við rannsókna- og þróunarverkefni en hin við próf og mat á skólastarfi.

Um 3. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 2. gr. gildandi laga.

Um 4. gr.

    Hér er um nýmæli að ræða þar sem í greininni eru talin helstu verkefni þeirrar deildar innan stofnunarinnar sem ætlað er að annast umsjón við gerð prófa og kannana í grunnskólum- og framhaldsskólum. Einnig er kveðið skýrt á um að kennarar á grunnskóla- og framhaldsskólastigi taki þátt í prófagerð. Þá er einnig kveðið á um skyldur Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála til þess að kynna niðurstöður sínar með reglubundnum hætti og að vera menntamálaráðherra til ráðuneytis varðandi gerð námsskrár fyrir þau skólastig er hér um ræðir.

Um 5. gr.

    Ekki er gert ráð fyrir stjórnarnefnd er stýrir daglegu starfi stofnunarinnar heldur skal ráðinn forstöðumaður annast það. Með þessu er verið að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar í daglegu starfi hennar. Þannig ætti að vera tryggt að fulltrúar menntamálaráðherra, háskólastigs eða annarra skólastiga geti ekki haft áhrif á einstakar rannsóknir eða niðurstöður þeirra. Gerðar eru sömu kröfur til hæfis forstöðumanns og gert er í núgildandi lögum. Ráðningartími er miðaður við fimm ár.

Um 6. gr.

    Rýmkuð er heimild gildandi laga er kveður á um að háskólakennurum sé heimilt að inna vinnuskyldu af hendi í stofnuninni. Þessi heimild nær nú til annarra kennara og fleiri sérfræðinga.

Um 7. gr.

    Skipa skal sérstaka ráðgjafarnefnd er sé forstöðumanni til ráðuneytis í faglegum efnum. Nefnd þessi kemur að nokkru í stað þeirrar stjórnar er núgildandi lög kveða á um. Eðlilegra sýnist að faglegir fulltrúar séu fremur til ráðgjafar á sínum sérsviðum en þeim sé ætlað að fást við stjórnun stofnunarinnar.

Um 8. gr.

    Gert er ráð fyrir að óháðir aðilar meti starfsemi stofnunarinnar á þriggja ára fresti, þannig að tryggt verði að hún standist þær kröfur sem gerðar eru til rannsóknastarfs af þessu tagi í nágrannalöndum.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.

    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að verkefni flytjist frá menntamálaráðuneyti til Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála. Breytast því ákvæði um aðra skipan mála til samræmis.


Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um

Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.

    Þetta frumvarp felur í sér nokkrar breytingar frá gildandi lögum nr. 69/1988, um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Þær eru helstar:
—    Stofnunin skiptist í tvær deildir, rannsókna- og þróunardeild og prófa- og matsdeild. Verkefni síðarnefndu deildarinnar eru að mestu ný miðað við núgildandi lög en þau eru að hluta til færð frá menntamálaráðuneyti.
—    Samkvæmt núgildandi lögum er háskólakennurum heimilt að inna hluta af vinnuskyldu sinni af hendi í stofnuninni. Þessi heimild nær nú einnig til annarra kennnara og sérfræðinga.
—    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að stjórnarnefnd stýri daglegu starfi stofnunarinnar heldur skal skipa sérstaka ráðgjafarnefnd sem sé forstöðumanni til faglegrar ráðgjafar. Nefndarmenn skulu vera sex en í stjórnarnefndinni sem starfar samkvæmt núgildandi lögum eru þeir fjórir.
—    Starf stofnunarinnar skal metið af óháðum aðilum á þriggja ára fresti.
    Ljóst er að 4. gr. frumvarpsins, um nýja prófa- og matsdeild, mun hafa mest áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Fyrir þeim útgjaldaauka er þegar áætlað í fjárlögum fyrir árið 1993 en fjárveiting til stofnunarinnar jókst úr 7,4 m.kr. í 27 m.kr. milli áranna 1992 og 1993. Að hluta til var um að ræða tilfærslu af fjárlagalið 720 Grunnskólar, almennt hjá menntamálaráðuneyti.
    Í 7. gr. er kveðið á um ráðgjafarnefnd sem að hluta til kemur í stað stjórnarnefndar núgildandi laga. Nefndarmönnum fjölgar úr fjórum í sex en gera má ráð fyrir að ráðgjafarnefnd þurfi ekki að halda eins marga fundi og stjórnarnefnd sem hefur afskipti af daglegu starfi stofnunar. Þetta ákvæði þarf því ekki að hafa í för með sér aukin útgjöld.
    Heimild kennara og annarra sérfræðinga til að inna af hendi hluta af vinnuskyldu sinni með störfum innan stofnunarinnar ætti ekki að hafa áhrif á útgjöld hennar. Ef heimild þessi er mikið notuð getur hún hins vegar haft í för með sér kostnaðarauka hjá þeirri stofnun sem viðkomandi kennari eða sérfræðingur starfar hjá. Það verður að vera mat forsvarsmanns stofnunar hvort hægt sé að mæta slíkum kostnaðarauka innan fjárhagsramma viðkomandi stofnunar.
    Kostnaðaráhrif 8. gr. um að meta skuli starf stofnunarinnar á þriggja ára fresti eru óljós. Fer það að öllu leyti eftir því með hvaða hætti það er framkvæmt, hversu margir sérfræðingar verða kallaðir til og hversu ítarlegt slíkt mat verður. Gera má þó ráð fyrir að það gæti kostað a.m.k. 200–500 þús. kr. en sá kostnaður yrði væntanlega greiddur af fjárveitingu stofnunarinnar.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er það mat fjármálaráðuneytis að það muni hafa óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs.