Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 521 . mál.


995. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um afbrot barna og unglinga og meðferðar- og vistunarúrræði.

Inngangur.
    Minnt skal á að félagsmálaráðuneytið tók ekki við málaflokknum vernd barna og ungmenna fyrr en um síðustu áramót. Því liggja ekki fyrir í ráðuneytinu umfangsmiklar upplýsingar um þetta svið. Til að unnt væri að svara fyrirspurninni reyndist nauðsynlegt að afla ýmissa frumupplýsinga. Í nokkrum liðum fyrirspurnarinnar er leitað upplýsinga um tiltekinn aldurshóp barna og ungmenna. Erfitt hefur reynst að afla sundurgreindra upplýsinga frá nokkrum stofnunum og ráðrúm hefur ekki gefist í öllum tilvikum að vinna allar upplýsingar til fulls. Enn aðrar hafa alls ekki borist í tæka tíð. Ráðuneytið mun á næstunni vinna að frekari upplýsingaöflun í því augnamiði að fá betra yfirlit yfir þau úrræði sem til er að dreifa fyrir barnaverndaryfirvöld, kostnað, aldursskiptingu skjólstæðinga og annað sem máli kann að skipta.

1.    Af hve mörgum börnum 10–15 ára þurftu barnaverndarnefndir að hafa afskipti á árunum 1990–1992 vegna afbrota? Svar óskast sundurgreint eftir aldri barnanna.
    Þetta atriði fyrirspurnarinnar varðar upplýsingar um störf barnaverndarnefnda. Í fyrsta lagi lýtur þetta atriði að því með hvaða hætti vitneskja berst til nefndanna, þar á meðal um þau mál þar sem börn eru viðriðin afbrot. Í öðru lagi er um að ræða hvernig þessi vitneskja er skráð í gögnum barnaverndarnefnda og í þriðja lagi hvernig þessu atriði eru gerð skil í skýrslum barnaverndarnefnda.
    Í lögum, sem í gildi voru á þeim tíma sem fyrirspurnin nær til, segir í 2. mgr. 19. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966: „Ef brot eru framin, sem börn eða ungmenni innan 18 ára eru viðriðin, ber löggæslumanni og dómara þegar í stað að tilkynna það barnaverndarnefnd og veita henni þess kost að fylgjast með rannsókn máls og láta nefndarmenn, fulltrúa eða annan starfsmann vera viðstaddan yfirheyrslu.“ Vitað er að nokkur misbrestur er á því að þetta ákvæði hafi verið rækt, m.a. vegna þess að barnaverndarnefnd var ekki gert kunnugt um málið. Auk þess var þessi framkvæmd örðug vegna þess að flestar barnaverndarnefndir hafa ekki starfsmönnum á að skipa. Þar sem starfsmenn barnaverndarnefnda eru til staðar er ekki tryggt til þeirra náist um helgar þegar flest afbrot ungmenna eru framin. Annað atriði í lögum, sem við kemur fyrirspurninni, lýtur að skýrslugerð barnaverndarnefnda. Í 54. gr. fyrrgreindra laga var barnaverndarráði falið að heimta ársskýrslur frá barnaverndarnefndum um störf þeirra og gefa út útdrátt úr þeim eigi sjaldnar en annað hvert ár. Barnaverndarráði hefur þótt skorta skýr lagaákvæði um þessa upplýsingaöflun, þ.e. um hvaða upplýsinga skuli aflað. Þannig hafa barnaverndarnefnir í raun gert grein fyrir störfum sínum eins og þeim hefur þótt réttast. Lítið samræmi hefur verið milli nefndanna að þessu leyti. Það var í rauninni ekki fyrr en með skýrslu ráðsins fyrir árið 1984–1985 að tilraun var gerð til að samræma þessar upplýsingar. Áhersla var lögð á að afla upplýsinga um hvernig mál berast til nefndanna, um fjölda mála, fjölda funda sem hver nefnd hélt o.s.frv. Síðast en ekki síst var lögð áhersla á að afla upplýsinga um eðli þeirra ráðstafana sem gripið var til gagnvart börnum, hvernig eftirliti var háttað með þeim börnum, sem og um fjölda barna sem um var að ræða, kyn þeirra og aldur. Við þessa tilraun til að samræma upplýsingarnar kom í ljós að frumskráning hjá nefndunum var afar mismunandi, þar á meðal skilgreiningar og skráningarmáti. Sem dæmi má nefna að mikill munur var á því hvað talið var félagslegt úrræði og hvað talið var barnaverndarúrræði, t.d. var í einu tilviki hægt að líta á sumardvöl barns í sveit sem barnaverndarúrræði ef nefndin stuðlaði að því með einhverjum hætti að barnið færi til dvalarinnar. Annars staðar var litið á slíkt sem félagslegt úrræði og það ekki skráð sem barnaverndarúrræði. Miðað við að ætla má að um 300 börn fari til sveitardvalar fyrir tilstilli barnaverndarnefnda getur flokkun og skráning þessa „úrræðis“ skekkt verulega heildaryfirlit og gert samanburð ómarktækan.
    Af öllu framangreindu leiðir að þær upplýsingar, sem barnaverndarnefndir hér á landi láta í té um störf sín, gefa lítið tilefni til að ætla hverjar ástæður hafi verið fyrir afskiptum af börnum. Vert er að hafa í huga að þau vandamál, sem börn, sem gjarnan eru skjólstæðingar barnaverndaryfirvalda, eiga við að glíma, eru oftast fjölþætt. Afbrot eru venjulega aðeins hluti þess vanda sem við er að glíma.
    Til að gefa svar við fyrirspurninni og gera sér grein fyrir umfangi afbrota á meðal ungmenna verður ekki komist nær svari en að kanna gögn frá Rannsóknarlögreglu ríkisins og lögreglunni í Reykjavík. Að sögn lögreglunnar mun flestum málum ungmenna, sem fremja afbrot, vera vísað til meðferðar barnaverndarnefnda. Skráning RLR er þó með þeim hætti að aðeins er unnt að fá upplýsingar um fjölda kærðra 16 ára og yngri. Engin sundurgreining fer fram í skráningarkerfi RLR á aldri þeirra sem eru yngri en 16 ára né hjá lögreglunni í Reykjavík á þeim sem yngri eru en 14 ára.

Fjöldi kærðra hjá RLR 16 ára eða yngri 1990–1992.



         

1990

1991

1992


         

429

405

359




Úr kæruskrá lögreglunnar í Reykjavík

.

         

1990

1991

1992



Ölvun á almannafæri:
–14     
6
4 8
15–16     
51
41 34
Hnupl:
–14     
42
75 88
15–16     
53
65 57
Innbrot:
–14     
15
11 20
15–16     
26
19 37
Líkamsárás:
–14     
8
9 4
15–16     
33
32 31
Rúðubrot:
–14     
11
15
15–16     
42
28


         

1990

1991

1992



Eignaspjöll:
–14     
44
15
15–16     
41
28
Meint ölvun við stjórn ökutækis:
–14     
0
15–16     
23
Dómsátt á lögreglustöð:
–14     
0
15–16     
1
Handteknir vegna gruns um meðferð ávana- eða fíkniefna:
–14     
0
2 0
15–16     
7
35 11


2.    Hve oft voru afbrot tengd
         
    
    vínneyslu,
         
    
    neyslu annarra vímuefna,
         
    
    geðrænum vandamálum?
                  Svar óskast sundurgreint eftir aldri barnanna.

    Því miður er ekki unnt að gefa upplýsingar um það hve oft afbrot barna og ungmenna voru tengd þeim atriðum sem spurt er um, þ.e. áfengis- eða vímuefnaneyslu eða vanda af geðrænum toga. Svo sem fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar miðar skráning mála hjá opinberum aðilum að því að halda upplýsingar um fjölda einstaklinga. Sundurgreining á þeim vanda, sem við er að glíma, fer ekki fram. Til að unnt væri að afla slíkra upplýsinga þyrfti sérstaka rannsókn sem fæli í sér alhliða athugun á hverju máli sem barnaverndarnefndir hefðu haft til umfjöllunar. Á það var bent í fyrrgreindu svari að vandi þeirra barna og ungmenna, sem eru skjólstæðingar barnaverndaryfirvalda, er gjarnan margþættur.

3.    Hvaða meðferðar- og vistunarúrræðum hafa barnaverndaryfirvöld yfir að ráða á vegum ríkis, á vegum sveitarfélaga eða á vegum einkaaðila?
    Hér verður gerð nánari grein fyrir því hvaða meðferðar- og vistunarúrræðum barnaverndaryfirvöld hafa aðgang að í sínu starfi, á vegum ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Vafamál er hvort telja beri ýmsar stofnanir til „úrræða“ enda þótt félagsmála- eða barnaverndaryfirvöld stuðli að því með einhverjum hætti að barn eða ungmenni dveljist þar um stundarsakir, svo sem í húsi Rauða krossins. Fyrir yngri börn væri markviss dvöl barna á dagvistarstofnun eða skóladagheimili dæmi um þannig úrræði. Þessi „jaðarúrræði“ eru ekki talin með í þessu yfirliti um stofnanir.

Meðferðar- og vistunarúrræði sem barnaverndaryfirvöld hafa yfir að ráða.
    Unglingaheimili ríkisins.
         Fimm starfseiningar:
             *    Móttökudeild.
             *    Meðferðarheimilið Sólheimum 7.
             *    Unglingasambýlið Sólheimum 17.
             *    Meðferðardeildin á Tindum fyrir unga fíkniefnaneytendur.
             *    Ráðgjafar- og göngudeildarþjónusta.
             *    Auk þess er í tengslum við Unglingaheimili ríkisins rekið sérstakt heimili að Árbót í Aðaldal.
    Meðferðarheimilið á Torfastöðum (UHR).
    Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).
    Vistheimili barna að Hraunbergi 15 og Mánagötu 25.
    Unglingasambýli Félagsmálastofnunar Reykjavíkur og tvö fjölskylduheimili.
    Meðferðarheimilið Kleifarvegi 15.
    Vistun á einkaheimilum.
    Önnur úrræði.

    Árbót í Aðaldal er sérhæft úrræði fyrir tvo drengi sem þurfa sérstakrar gæslu og umönnunar við, stofnað 15. ágúst 1992. Ábúendur reka meðferðarheimilið sem verktakar en UHR hefur yfirumsjón með hinu faglega og uppeldislega starfi.
    Vistheimilin á Mánagötu og í Hraunbergi eru aðeins ætluð skjólstæðingum barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Meðferðarheimilið Kleifarvegi 15 heyrir undir geðdeild Borgarspítalans í Reykjavík. Í raun er tæpast um að ræða úrræði á vegum barnaverndarnefndar. Á hinn bóginn eru mörg þeirra barna sem dvelja á heimilinu jafnframt skjólstæðingar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Börnunum er komið á heimilið fyrir milligöngu sálfræðiþjónustu skóla í Reykjavík, oft í samvinnu við Félagsmálastofnun. Sjá einnig meðfylgjandi yfirlit.

4.    Hve margar stofnanir og heimili sinna meðferðar- og umönnunarhlutverki fyrir þessa aldurshópa á vegum ríkisins, á vegum sveitarfélaga eða á vegum einkaaðila?
    Auk þeirra stofnana, sem nefndar eru í svari við 3. lið, eru nokkrar stofnanir, heimili eða áfangastaðir sem annast börn og ungmenni með einum eða öðrum hætti. Flestar koma fram í yfirliti því sem birt er í lok þessarar samantektar. Flestar þessara stofnana liðsinna ungmennum sem eru eldri en þau sem fyrirspurnin nær til, en ungmenni innan 16 ára kunna undir vissum kringumstæðum að dvelja þar. Meiri hluti þeirra staða, þar sem börn eða ungmenni dveljast, virðist vera ætlaður þeim sem eiga við fíkniefnavanda að stríða. Má þar nefna stofnanir SÁÁ, ýmsa áfangastaði, þar á meðal á vegum trúfélaga, en auk þess neyðarathvarf Rauða krossins sem áður er getið.
    Þá er þess að geta að börn eru gjarnan send til sumardvalar sem oftast varir þrjá mánuði eða skemur. Þess háttar ráðstöfun er hér á landi notuð sem „félagslegt úrræði“ eða jafnvel sem „barnaverndarúrræði“. Ekki er unnt að gefa upplýsingar um aldursskiptingu barna né fjölda þessara heimila. Upplýsingar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar leiða í ljós að árið 1992 voru 180 börn send til sumardvalar á vegum stofnunarinnar á 67 heimili, nær öll í dreifbýli. Samkvæmt munnlegum upplýsingum, sem komu fram á fundi með fulltrúum hagsmunafélags vistforeldra í sveitum, má ætla að um 250 börn eða fleiri séu í sumardvöl á vegum félagsmálastofnana, flest á aldrinum 6–12 ára.

5.    Hver var heildarkostnaður þessara stofnana og heimila á árunum 1990–1992 hjá ríki, sveitarfélögum eða hjá einkaaðilum?

1990

1991

1992



5. a. Á vegum ríkis (og sveitarfélaga):
Tindar          
38.734
76.012 46.587 
UHR          
68.121
78.625  73.106 
Torfastaðir     
12.675
12.480  14,700 
Árbót
     —  8.155 
Barna- og unglingageðdeild. — Upplýsingar bárust ekki.
Meðferðarheimilið Kleifarvegi. — Upplýsingar bárust ekki.
Samtals     
119.530
167.117  142.578 

5. b.
Á vegum sveitarfélaga eingöngu:
Fastastofnanir FR .     
68.530
62.679  63.998
Langtímafóstur á einkaheimilum     
111.000 
Sveitadvöl     
10.000 
Meðferðarheimilið Kleifarvegi. — Upplýsingar bárust ekki.
Samtals     
184.998 

5. c. Á vegum einkaaðila:
Rauðakrosshúsið     
13.000
17.000  18.000 


Upplýsingar um kostnað vegna fósturs barna:
    Kostnaður við fóstur hefur til þessa verið reiknaður út frá „meðlagsupphæð“ en framvegis er líklegt að notuð verði viðmiðunin „visteiningar“, a.m.k. af Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Í febrúar 1993 var 1 visteining u.þ.b. 7.700 kr. Ekki er óalgengt að sveitavistun unglings kosti 8 visteiningar (60.410 kr. á mánuði). Gjald fyrir börn yngri en 12 ára er 6 visteiningar. Ef um er að ræða ungmenni, sem eiga við mikla hegðunarerfiðleika að etja, fer gjaldið upp í 10 einingar (77 þús. kr. á mánuði). Í því felst húsnæðis- og fæðiskostnaður fyrir unglinginn og laun þess sem annast hann. Auk þess eru oft greiddir vasapeningar. Sú upphæð, sem greidd er með börnum sem eru í fóstri á einkaheimili, er afar mismunandi allt frá því að fósturforeldrar sjái alfarið um framfærslu barnsins og hljóti enga greiðslu til þess að greiddar séu 75–80 þús. kr. á mánuði.
    Undanskilinn í framangreindum kostnaði er launakostnaður starfsmanns barnaverndarnefndar, oftast félagsráðgjafa, sem er framkvæmdastjóri ráðstöfunarinnar og annar kostnaður af starfi hans, svo sem ferðir og dagpeningar.

6.    Er einhver sérhæfing í rekstri þessara stofnana eða heimila? Ef svo er, í hverju er hún fólgin og hversu margir einstaklingar voru vistaðir á þessum heimilum á árunum 1990–1992 skipt niður eftir aldri barnanna?
    Í yfirliti, sem fylgir þessu svari, er að finna upplýsingar um þær stofnanir þar sem unnið er að meðferð eða umönnun barna og ungmenna hér á landi. Þá eru í yfirlitinu upplýsingar sem unnt reyndist að afla um sérhæfingu þessara stofnana. Á hinn bóginn þykir rétt að gera nánari grein fyrir sérhæfingu þeirra stofnana sem sinna flestum skjólstæðingum barnaverndarnefnda og félagsmálayfirvalda.

Unglingaheimili ríkisins.
    Í 1. gr. reglugerðar um Unglingaheimili ríkisins segir svo um hlutverk þess:
    „Unglingaheimili ríkisins er stofnun þar sem yfirvöldum ber að aðstoða unglinga á aldrinum 12–15 ára (að báðum aldursflokkum meðtöldum) um lengri að skemmri tíma gerist þess þörf vegna hegðunarvandamála unglinganna, vegna alvarlegs skorts á eðlilegum aðbúnaði, umönnun og uppeldi unglinganna af hálfu forsjáraðila þeirra eða vegna alvarlegrar röskunar á högum unglinganna.
    Aðstoðin er fólgin í:
    Skammtímavistun meðan fram fara nauðsynlegar aðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga eða þegar mjög er áfátt eðlilegum aðbúnaði og aðhaldi.
    Vistun meðan rannsókn á unglingum fer fram, greining á vandamálum þeirra og ráðstafanir gerðar til úrbóta.
    Vistun til langtímameðferðar og enduruppeldis.
    Ráðgjöf, meðferð og önnur fagleg aðstoð án vistunar.
    Heimilt er að víkja frá þeim aldursmörkum sem hér er miðað við ef ástæða þykir til.“
    Eins og sjá má af þessu er skilgreiningin á hlutverki Unglingaheimilisins nokkuð rúm. Hefur þetta verið túlkað svo að Unglingaheimilinu beri að sinna öllum unglingum í vanda nema aðrar stofnanir hafi betri möguleika að sinna þeim vegna sérhæfingar sinnar. Þetta á t.d. við um þroskahefta unglinga og alvarlega geðveika unglinga.

Deildir Unglingaheimila ríkisins og sérhæfing þeirra:
1. Meðferðar- og ráðgjafardeild. — Unglingaráðgjöf (sveigjanleg aldursmörk).
    Hlutverk:
    Skipulagning á faglegu starfi á einstökum deildum innan Unglingaheimilisins í samráði við deildarstjóra.
    Leiðbeiningar og fagleg ráðgjöf til starfsmanna Unglingaheimilisins.
    Sálfræðileg og félagsleg rannsókn við upphaf vistunar.
    Meðferð og ráðgjöf til unglinga, forsjáraðila og annarra aðstandenda.
    Almenn ráðgjöf til sveitarstjórnar um málefni unglinga.
2. Móttökudeild (13–15 ára).
    Skammtímadeild (tvö rými) er opin til móttöku allan sólarhringinn. Dvöl á meðan fram fara nauðsynlegar aðgerðir á grundvelli laga um vernd barna og ungmenna.Vistun á vegum barnaverndarnefndar eða lögreglu. Ungmenni má aðeins vista á deildinni lengur en 24 klst. að fyrir liggi ákvörðun barnaverndaryfirvalda. Hámarksvistunartími er tvær vikur.
    Rannsóknardeild (fjögur rými). Deildin vistar unglinga til rannsóknar og til greiningar. Svo fljótt sem auðið er (innan fjögurra vikna) skulu liggja fyrir tillögur um áframhaldandi úrræði og faglega aðstoð.

3.–4. Uppeldis- og meðferðardeild Sólheimum 7 og Unglingasambýlið Sólheimum 17.
    Deildirnar taka við unglingum í langvarandi uppeldi og meðferð. Aðallega er um að ræða ungmenni sem verið hafa í meðferð á öðrum deildum Unglingaheimilisins en geta ekki búið á heimili sínu. Unglingar skulu ekki teknir á deildirnar nema að lokinni gagngerri sálfræðilegri, uppeldislegri, læknisfræðilegri og félagslegri rannsókn og greiningu. Áætlun skal gerð um uppeldi, meðferð, aðstoð og aðrar ráðstafanir. Hún skal endurmetin með reglulegu millibili.

5. Tindar á Kjalarnesi (13–18 ára).
    Deild fyrir vímuefnaneytendur er á Tindum. Um er að ræða langtímauppeldis- og meðferðardeild fyrir unga vímuefnaneytendur á aldrinum 13–18 ára. Hún starfar í samvinnu við þær stofnanir heilbrigðiskerfisins sem sinna neyðarþjónustu fyrir vímuefnaneytendur. Þar fer fram greining, skammtímavistun og eftirmeðferð. Aðstaða til afeitrunar er takmörkuð. Verst stöddu skjólstæðingarnir fara til afeitrunar á deild 33 A á Landspítala. Móttaka og greining tekur um 2–4 vikur, meðferð 6–12 vikur og eftirmeðferð 6–12 mánuði. Rými er fyrir 12 ungmenni. Eftirmeðferð fer fram á göngudeildarþjónustu UHR í Síðumúla. Sá hluti meðferðarinnar er í formi hópvinnu tvisvar til þrisvar í viku hverri og einkaviðtala 2–8 sinnum í mánuði eftir þörfum. Einnig er um að ræða fjölskylduviðtöl á meðferðartíma ásamt fjölskyldukvöldi einu sinni í viku.

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).
    Barna- og unglingageðdeild Landspítalans er hluti af geðdeild Landspítalans. Stofnunin skiptist í göngudeild fyrir börn og ungmenni, legu- og dagdeild barna og legudeild unglinga. BUGL sinnir einnig bráðaþjónustu. Barnaverndarnefndir og foreldrar geta leitað til deildarinnar eftir ráðgjöf og meðferð vegna geðrænna erfiðleika barna og unglinga.
    Unglingadeild, sem er lokuð, er með átta skráð vistrými en getur í raun einungis tekið við sjö einstaklingum.
    Á barna- og unglingageðdeild fer fram greining og bráðameðferð. Starfsemi BUGL felst fyrst og fremst í meðferð á alvarlegri geðsjúkdómum og sállíkamlegum truflunum eða meðferð barna eða ungmenna í sjálfsvígshættu. Ungmenni með hegðunartruflanir, eða í mikilli vímuefnaneyslu, eru einnig vistaðir á unglingageðdeild en hámarkfjöldi er einn til tveir. Til bráðainnlagna kemur þegar um er að ræða alvarlega geðsjúkdóma eða sjálfsvígshættu.

Skammtíma- og langtímafóstur á einkaheimilum. Sumardvöl.
    Eitt helsta langtímaúrræði barnaverndaryfirvalda er fóstur barna á einkaheimilim. Almennt má segja að í fóstur á einkaheimili fari aðeins þau börn sem teljast „fósturhæf“. Með því er átt við að þau eigi ekki við svo mikinn tilfinningalegan vanda að etja að þau þurfi sérstaka umönnun. Fá úrræði eru til í landinu fyrir börn sem svo er ástatt um. Dvöl barna og ungmenna á einkaheimilum er oft beitt sem skammtímaúrræði, sérstaklega hvað varðar yngri börn en 12 ára, enda er ekkert vist- eða meðferðarheimili til í landinu fyrir yngri börn fyrir utan þau sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur rekur og hið sérhæfða úrræði sem barna- og unglingageðdeild Landspítalans er. Vistun á heimilum barnaverndarnefndar Reykjavíkur kemur gjarnan til á meðan unnið er að því að bæta uppeldishæfni foreldra. Einnig getur verið um að ræða að vistunartími sé notaður til að meta hæfni foreldra, andlega líðan barna o.s.frv. eða að foreldar séu þannig á sig komnir að þeim sé um megn að annast forsjá barna sinna.
    Skýrslur barnaverndarnefnda gefa til kynna að árið 1990 hafi um 300 börn verið í varanlegu fóstri á landinu öllu. Öll þessi börn dvelja á einkaheimilum en ekki á stofnunum. Á sama tíma gefa upplýsingar þessa árs til kynna að auk þess hafi 429 börn dvalist utan heimilis í skemmri tíma „á vegum“ barnaverndarnefnda, ýmist í tímabundnu fóstri, á vistheimili, unglingaheimili eða annarri stofnun eða verið í sumardvöl. Upplýsingar frá barnaverndarnefndum um framangreind atriði eru fremur ónákvæmar og ber að taka þeim með nokkrum fyrirvara af þeim sökum. Þá vantar í sumum tilvikum allar upplýsingar frá mörgum nefndanna um framangreind atriði.
    Hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar störfuðu árið 1991 fjórar fjölskyldur sem tóku börn í fóstur með litlum fyrirvara. 23 börn dvöldu í slíku skammtímafóstri á vegum stofnunarinnar árið 1991. Þá rekur Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar tvö fjölskylduheimili sem ætluð eru börnum sem ekki geta farið í fóstur á hefðbundin fósturheimili. Þannig heimili er á Ásvallagötu 4. Þar geta dvalið fimm börn.
    Auk þessa fjölda barna og ungmenna, sem einhverjar upplýsingar eru til um, má gera ráð fyrir að einhver börn eða ungmenni hafi dvalið utan heimilis í lengri eða skemmri tíma án þess að sú ráðstöfun hafi verið með íhlutun viðkomandi barnaverndarnefndar. Engar upplýsingar eru til um fjölda þeirra barna.

Upplýsingar um fjölda barna á helstu stofnunum.


Sundurgreint eftir aldri þeirra þar sem þær upplýsingar fengust.



Unglingaheimili ríkisins:

Móttökudeild:
1990 — 106 vistanir     1991 — 101 vistanir     1992 — 100 vistanir
    1 var 21 árs          2 voru 17 ára          1 var      17 ára
    15 voru 16 ára          32 voru 16 ára          21 var  16 ára
    59 voru 15 ára          46 voru 15 ára          49 voru 15 ára
    30 voru 14 ára          14 voru 14 ára          22 voru 14 ára
      1 var 13 ára          7 voru 13 ára          7 voru 13 ára

Meðferðarheimilið Sólheimum 7:
1990 — 11 vistanir     1991 — 12 vistanir     1992 — 15 vistanir
     3 voru 16 ára           5 voru 16 ára           4 voru 16 ára
     7 voru 15 ára           6 voru 15 ára           7 voru 15 ára
     1 var  14 ára           1 var  13 ára           4 voru 14 ára

Sambýlið Sólheimum 17:
1990 — 7 vistanir     1991 — 7 vistanir     1992 — 10 vistanir
     2 voru 18 ára           1 var 19 ára           1 var 18 ára
     2 voru 16 ára           6 voru 16 ára           5 voru 17 ára
     3 voru 15 ára          3 voru 16 ára          1 var 15 ára

Tindar:
1990 (starfaði ekki)     1991 — 50 vistanir     1992 — 62 vistanir
              3 voru 19 ára          1 var 19 ára
              3 voru 18 ára          7 voru 18 ára
              13 voru 17 ára          19 voru 17 ára
              10 voru 16 ára          12 voru 16 ára
              16 voru 15 ára          12 voru 15 ára
              3 voru 14 ára          8 voru 14 ára
              2 voru 13 ára          3 voru 13 ára

Ráðgjöf, göngudeildarþjónusta:
1990 — 137 unglingar     1991 — 146 unglingar     1992 — 202 unglingar
    1 var 20 ára          7 voru 19 ára          6 voru 20 ára
    6 voru 19 ára          22 voru 18 ára          7 voru 19 ára
    9 voru 18 ára          17 voru 17 ára          11 voru 18 ára
    25 voru 17 ára          30 voru 16 ára          29 voru 17 ára
    30 voru 16 ára          31 voru 15 ára          37 voru 16 ára
    32 voru 15 ára          19 voru 14 ára          48 voru 15 ára
    17 voru 14 ára          7 voru 13 ára          40 voru 14 ára
    13 voru 13 ára          8 voru 12 ára          21 voru 13 ára
    2 voru 12 ára          1 var 11 ára          1 var 12 ára
    2 óvíst um aldur          4 óvíst um aldur          2 óvíst um aldur     

Rauðakrosshúsið:
      1990            1991            1992
    1 var 13 ára          1 var 12 ára          2 voru 13 ára
    10 voru 14 ára          1 var 13 ára          10 voru 14 ára
    15 voru 12 ára          9 voru 14 ára          19 voru 15 ára
              10 voru 15 ára     

Vistheimili barna Hraunbergi og Mánagötu:
      1990            1991
       32             29
       33             24

Unglingasambýli FR:
      1990            1991
       12             12

Meðferðarheimilið á Kleifarvegi:
    1990 – 1992     
     9–10 ára — 6 börn
    12–13 ára — 3 börn
    10–11 ára — 3 börn
     7–8 ára — 1 barn

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans:
    Upplýsingar bárust ekki í tæka tíð

7.    Hvaða faglegar kröfur eru gerðar til stofnana eða heimila þar sem börn, sem brotið hafa af sér, eru vistuð á vegum ríkisins, á vegum sveitarfélaga eða á vegum einkaaðila?
    Ekkert þeirra meðferðarúrræða, sem getið er í þessari samantekt, fæst eingöngu við að sinna börnum eða ungmennum sem brotið hafa af sér. Almennt eru afbrot talin birtingarform annarra undirliggjandi vandkvæða (tilfinningalegra, félagslegra, geðrænna o.s.frv.). Því verður að líta svo á að fjölmargar þær stofnanir, sem vinna meðferðar- og greiningarvinnu með þessum aldurshópum, sinni að einhverju leyti börnum og ungmennum sem komist hafa í kast við lögin. Sérstaklega á þetta við um Unglingaheimili ríkisins. Vísað er til þess sem segir annars staðar í þessari greinargerð um faglegar kröfur til þeirra stofnana.

8.    Hvaða faglegar kröfur eru gerðar til stofnana eða heimila þar sem börn, sem neytt hafa vímuefna, eru vistuð á vegum ríkisins, á vegum sveitarfélaga eða á vegum einkaaðila?
    Meðferðarheimilið Tindar er eina sérhæfða meðferðarúrræðið fyrir unglinga í vímuefnavanda á Íslandi. Unglingaheimilið og samstarfsnefnd ráðuneyta í ávana- og fíkniefnamálum völdu í sameiningu fyrirmynd í Bandaríkjunum, Fairview Deconess stofnunina í Minneapolis. Bandarískur prófessor í sálarfræði, viðurkenndur fyrir kenningar sínar og rannsóknir á sviði vímuefnamála, dr. Harvey Milkman, var valinn sem faglegur ráðunautur. Hefur hann fylgst reglulega með starfsemi Tinda frá upphafi. Á Tindum starfa félagsráðgjafi, sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur, geðlæknir, kennarar, uppeldisfræðingar með þriggja ára háskólanám á uppeldissviði og óvirkir alkóhólistar sem hafa farið í meðferð vegna eigin vímuefnavanda.

9.    Hvaða faglegar kröfur eru gerðar til stofnana eða heimila þar sem börn, sem eiga við geðræn vandamál að stríða, eru vistuð á vegum ríkisins, á vegum sveitarfélaga eða á vegum einkaaðila?
    Barna- og unglingageðdeild Landspítalans er eina stofnunin í landinu sem hefur það sem skilgreint hlutverk að veita börnum og ungmennum með geðsjúkdóma greiningu og meðferð. Að einhverju leyti má einnig skilgreina Meðferðarheimilið á Kleifarvegi sem slíka stofnun. Í svari við fyrri hluta 6. liðar er greint nokkuð frá starfsemi barna- og unglingageðdeildarinnar. Skriflegar upplýsingar bárust því miður ekki frá stofnuninni í tæka tíð og var því stuðst við munnlegar upplýsingar.
    Þessir starfsmenn starfa á barna- og unglingageðdeildinni samkvæmt því:
    Á unglingageðdeild eru stöðugildi fyrir 1 sérfræðing, 5,2 hjúkrunarfræðinga, 1 deildarsálfræðing, 1 deildarfélagsráðgjafa og 12 meðferðarfulltrúa.
    Á legudeild barna er starfandi 1 sérfræðingur, 1 sálfræðingur, 1 félagsráðgjafi, 1 hjúkrunarfræðingur og 4 fóstrur. Auk þess starfa þar meðferðarfulltrúar (ekki fengust upplýsingar um fjölda).
    Á dagdeild barna er 1 sérfræðingur, 1 sálfræðingur, 1 félagsráðgjafi, 3 hjúkrunarfræðingar og 4 meðferðarfulltrúar. Auk þess starfa á stofnuninni 1 listþjálfi og annar í hlutastarfi.
    Á göngudeild eru starfandi sérfræðingur í 75% starfi, 1 sálfræðingur og 1 félagsráðgjafi. Deildin er fjarri því að geta annað því sem hún á að gera.
    Ekki eru gerðar sérstakar menntunarkröfur til meðferðarfulltrúa á barna- og unglingageðdeild, en oftast hafa þeir starfsreynslu og reynt er að forðast að ráða fólk undir 25–30 ára aldri. Nýir meðferðarfulltrúar fá 10 daga námskeið í starfsbyrjun.
    Greining tekur u.þ.b. sex vikur en meðferð getur staðið í eitt ár eða lengur.

    Meðferðarheimilið á Kleifarvegi er rekið sem deild við Borgarspítalann í Reykjavík fyrir börn á aldrinum 7–12 ára sem að mati sérfræðinga sálfræðideilda skóla í Reykjavík hafa þörf fyrir meðferð vegna geðrænna og tilfinningalegra erfiðleika og hegðunarvandkvæða. Um er að ræða sólarhringsdvöl fyrir fjögur börn og dagvistun fyrir fjögur börn. Um faglegar kröfur vísast til almennra reglna sem gilda fyrir starf á geðdeildum. Meðferðarvinna fer fram undir stjórn geðlæknis, sálfræðings og félagsráðgjafa. Á Kleifarvegi starfa einnig deildarstjóri og sex uppeldisfulltrúar, ásamt matráðskonu.

Y F I R L I T



Bráðameðferð, greining, meðferð, eftirmeðferð.



Stofnun     Aldur     Vistrými     Sérhæfing


UHR Móttaka     12–15           6    Bráðavistun unglinga á vegum lögreglu og barnaverndarnefnda. Auk þess rannsókn og meðferð.
UHR Meðferðarheimili     12–15           7    Langtímadvöl vegna hegðunarvanda, skorts á aðbúnaði vegna annarrar röskunar á högum ungmennis.
UHR Tindar     13–18          12    Vistun vegna misnotkunar fíkniefna (þrír mánuðir).
BUGL
  Barnageðdeild     0–12
  Unglingageðdeild     12–18              Meðferð á geðsjúkdómum barna og ungmenna, sjálfsvígshugleiðingum o.fl.
Torfastaðir     12–15           6    Langtímavistun fyrir unglinga með hegðunarefiðleika og félagsleg vandamál.
Félagsmálastofnun     
Reykjavíkurborgar     15–18          5–6    Unglingasambýli.
  Unglingadeild                    Ekki meðferð.
UHR Unglingasambýli     14–18           7     Unglingasambýli.
FR. Vistheimilið
Mánagötu     0–12           7    Bráðavistun, hvíldarvistun, vistun vegna veikinda foreldra, rannsóknarvistun, aðlögun að fóstri.
FR. Vistheimilið
Hraunbergi     0–12           7    Bráðavistun, hvíldarvistun, vistun vegna veikinda foreldra, rannsóknarvistun, aðlögun að fóstri.

Forvarnastarf, ráðgjöf, fræðsla, viðtöl.



Stofnun          Aldur     Sérhæfing

FR. Meðferðar- og ráðgjafar-
  deild fyrir unglinga          12–18    Umsjón með málefnum ungmenna eldri en 12 ára, vinnuþjálfun, ráðgjöf og fræðsla í vímuefnamálum. Meðferð á málum afbrotaunglinga.
FR. Útideild          12–18    Vettvangs- og leitarstarf. Hópvinna og einstaklingsviðtöl.
FR. Unglingaathvörf
  (2 talsins)          13–16    Almenn aðstoð við unglinga í félagslegum erfiðleikum
Íþrótta- og tómstundaráð
  Reykjavíkur, hálendishópur     13–16    Skipulögð ferðalög með ungmenni sem eiga í félagslegum erfiðleikum
Unglingadeild Félagsmála-
  stofnunar Kópavogs          12–18    Forvarnastarf, ráðgjöf, stuðningur, einstaklingsviðtöl.
Fjölskyldu- og ráðgjafardeild
  Félagsmálastofnunar
  Hafnarfjarðar          12–18    Barna- og fjölskylduvernd, forvarnastarf og endurhæfing fjölskyldna.
UHR Unglingaráðgjöf          12–18    Aðstoð í göngudeildarþjónustu við unglinga með sálræna og félagslega erfiðleika. Fjölskylduviðtöl. Eftirmeðferð fyrir unglinga sem útskrifast hafa úr vistun UHR.
Forvarnadeild lögreglunnar
  í Reykjavík          Ekki aldurs-
                   bundið    Almennar forvarnir meðal ungmenna, þar með talið á sviði áfengis- og vímuefnavarna.
AA-samtökin          Unglingar
                   (og full-
                   orðnir)    Hópstarf, fræðsla o.fl.
Foreldrasamtökin
  Vímulaus æska          Börn,
                   unglingar,
                   fullorðnir    Fræðsla fyrir foreldra og unglinga. Útgáfa á fræðsluefni, neyðarsími, ráðgjöf.
Stígamót          Ekki aldurs-
                   bundið    Viðtöl, fræðsla, símaþjónusta, námskeið.
Neðanmálsgrein: 1
 Skammtíma- og langtímafóstur. Sumardvalir.
Neðanmálsgrein: 2
 Svo sem stuðningsfjölskylda, skipaður tilsjónarmaður (ekki eru til upplýsingar um umfang þessara úrræða).
Neðanmálsgrein: 3
 Upplýsingar um Tinda, UHR, Torfastaði og Árbót samkvæmt upplýsingum úr Ríkisbókhaldi, með fyrirvara um mögulegar breytingar.
Neðanmálsgrein: 4
 Þar af er hluti „sértekna“, þ.e. hluti sveitarfélaga í rekstri ríkisstofnananna Torfastaða og UHR, 6.733 kr. árið 1990 og 6.135 árið 1991 í rekstri Torfastaða og 21.968 kr. árið 1990 og 25.500 kr. 1991 í rekstri UHR.
         Ekki liggja fyrir upplýsingar um skiptingu greiðslnanna fyrir árið 1992. Frá og með árinu 1993 greiðist rekstur UHR af ríki eingöngu.
Neðanmálsgrein: 5
Samtala rekstrarkostnaðar og stofnkostnaðar.
Neðanmálsgrein: 6
Vistheimilin á Mánagötu og í Hraunbergi, unglingasambýli í Búðargerði og tvö fjölskylduheimili.
Neðanmálsgrein: 7
Aðeins fengust upplýsingar um áætlaðan kostnað þriggja fyrstnefndu stofnananna 1993.
Neðanmálsgrein: 8
Upplýsingar um þennan kostnaðarlið eru ekki fyrir hendi og er hér um að ræða áætlaða tölu. Vegna tímaskorts reyndist ekki unnt að leita tryggilegrar umsagnar um forsendur þessara útreikninga. Miðað er við að 300 börn séu í fóstri yfir árið og greidd sé fjórföld upphæð barnalífeyris, sem er 7.700 kr., með hverju barni. Auk þess er gert ráð fyrir öðrum minni háttar útgjöldum vegna fósturs barnanna. Nánari grein er gerð fyrir þeim reglum sem fylgt er af Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar í sérstökum kafla.
Neðanmálsgrein: 9
Einnig áætluð upphæð. Reiknað er með að 250 börn dveljist einn mánuð hvert og að kostnaður sé að upphæð 40.000 kr. fyrir hvert barn um sig á mánuði. Áætlað er að kostnaðarhlutdeild foreldra sé einhver en á móti komi ýmis útgjöld, svo sem vegna sérstaks eftirlits, aksturs o.fl. Jafnframt er gert ráð fyrir að sum barnanna dveljist lengur en einn mánuð.
Neðanmálsgrein: 10
Ekki reyndist unnt að fá upplýsingar um aldur barnanna en búast má við að meiri hluti þeirra hafi verið yngri en 10 ára.