Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 580 . mál.


1004. Frumvarp til laga



um breyting á lögræðislögum, nr. 68/1984, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                  Heimilt er að ákveða í úrskurði að lögræðissvipting skuli tímabundin. Þó skal ekki ákveða hana styttri en sex mánuði.
    Við 2. mgr., er verður 3. mgr., bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir þótt lögræðissvipting sé tímabundin.

2. gr.


    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Nú er lögræðissvipting tímbundin og öðlast hinn lögræðissvipti þá sjálfkrafa lögræði að nýju að þeim tíma liðnum.

3. gr.


    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, svohljóðandi:
    Skipa má félagsmálanefnd sveitarfélags til þess að fara með lögráð manns sem sviptur hefur verið lögræði þegar yfirlögráðandi telur fullreynt að ekki fáist hæfur maður til þess að fara með lögráð hans. Yfirlögráðandi skal leita umsagnar félagsmálanefndar áður en máli er ráðið til lykta.
    Að jafnaði skal skipa félagsmálanefnd þess sveitarfélags, þar sem hinn lögræðissvipti á lögheimili, til þess að fara með lögráðin. Verði ekki upplýst um lögheimili hans skal skipa félagsmálanefnd þess sveitarfélags þar sem hann dvelst.
    Félagsmálanefnd skal skipa einn af nefndarmönnum eða starfsmönnum sínum til þess hafa umsjón með framkvæmd lögráðanna.
    Félagsmálanefnd skal fyrir 1. september ár hvert gefa yfirlögráðanda skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið á árinu um persónulega hagi og fjárhald hins ólögráða manns.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 15. mars 1993 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að endurskoða lögræðislög, nr. 68/1984. Nefndina skipa Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, formaður, Davíð Þór Björgvinssn, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Páll Hreinsson, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis. Ritari nefndarinnar er Áslaug Þórarinsdóttir, deildarstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
    Hlutverk nefndarinnar er að endurskoða gildandi lögræðislög og semja frumvarp til nýrra lögræðislaga. Þar sem ljóst er að það verkefni mun taka nokkurn tíma hefur nefndinni verið falið að semja frumvarp þetta til breytinga á núgildandi lögræðislögum vegna brýnna þarfa á þeim breytingum er felast í frumvarpinu, einkum 3. gr., og lýst er í athugasemdum við einstakar greinar þess.
    Á fundi nefndarinnar komu Bragi Guðbrandsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Friðgeir Björnsson, dómstjóri héraðsdóms Reykjavíkur, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hefur frumvarpið hlotið góðar undirtektir hjá þeim og hafa ábendingar þeirra um efni þess verið teknar til greina.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að sett verði í lögræðislög heimild til að ákveða að lögræðissvipting skuli standa tiltekinn tíma. Þó er gert ráð fyrir að lögræðissvipting verði ekki ákveðin styttri en sex mánuði í senn.
    Í núgildandi lögræðislögum er á því byggt að lögræðissvipting, hvort sem það er eingöngu sjálfræðissvipting, eingöngu fjárræðissvipting eða hvort tveggja, sé ávallt ótímabundin. Í samræmi við það fá lögræðissviptir einstaklingar ekki lögræði aftur nema dómari felli lögræðissviptingu niður samkvæmt beiðni og þá aðeins að því tilskildu að ástæður hennar séu ekki lengur taldar vera fyrir hendi. Ákvæði um tímabundna sviptingu lögræðis er því nýmæli. Telja verður að gild rök hnígi til þess að sett sé ákvæði í lög sem heimilar að lögræðissvipting verði ákveðin tímabundið:
    Ótímabundin svipting lögræðis felur í sér mjög afdrifaríka skerðingu á grundvallarrétti fulltíða einstaklings til að ráða sér og málefnum sínum sjálfur. Með því að heimila að hægt verði að tímabinda lögræðissviptingu er í reynd verið að skapa dómara svigrúm til að ákveða að sviptingin skuli ekki standa lengur en nauðsynlegt virðist á þeim tíma sem úrskurður er kveðinn upp. Heimild til tímabindingar felur því í sér mildara úrræði en svipting til frambúðar og aukið réttaröryggi fyrir hinn lögræðissvipta.
    Lögræðissvipting, og þá sérstaklega svipting sjálfræðis, er oft liður í því að skapa grundvöll til að koma mönnum í meðferð á sjúkrastofnunum, t.d. vegna geðsjúkdóms, ofdrykkju eða misnotkunar ávana- og fíkniefna. Við þessar aðstæður getur verið heppilegra að ákveða að svipting skuli tímabundin þar sem í mörgum tilfellum má gera ráð fyrir að viðkomandi verði samvinnuþýðari í meðferðinni ef hann sér fyrir endann á vist sinni og fyrir liggur að hann muni fá lögræði sjálfkrafa að nýju að þeim tíma liðnum sem ákveðinn hefur verið.
    Leggja ber sérstaka áherslu á að skilyrði tímabundinnar lögræðissviptingar eru nákvæmlega þau sömu og ótímabundinnar sviptingar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þar sem um er að ræða afdrifaríka og viðkvæma skerðingu á grundvallarmannréttindum leiða almenn lögskýringarviðhorf til þess að ákvæðin ber að skýra þröngt. Á þetta jafnt við þótt krafist sé lögræðissviptingar tímabundið. Þá er rétt að benda á að sömu reglur gilda um sóknaraðild í málum og málsmeðferð tímabundinna lögræðissviptinga og gilda um ótímabundnar sviptingar, sbr. 5. gr. laganna.
    Rétt þykir að miða við að lögræðissvipting verði ekki skemmri en sex mánuðir. Með því er lögð áhersla á að úrræðinu verði ekki beitt nema fyrirsjáanlegt sé að þess verði þörf um einhvern tíma. Hér er einnig höfð hliðsjón af sex mánaða reglu 1. mgr. 9. gr. laganna.
    Lagt er til að við 3. mgr. 3. gr. bætist nýr málsliður þar sem tekið er sérstaklega fram að veita megi þeim sem sviptur er lögræði tímabundið lögræði að nýju þótt tíminn sé ekki liðinn ef ástæður sviptingar eru ekki lengur taldar vera fyrir hendi. Um brottfellingu tímabundinnar lögræðissviptingar gilda einnig ákvæði 9. gr. laganna.

Um 2. gr.


    Rétt þykir að taka sérstaklega fram að maður, sem sviptur hefur verið lögræði tímabundið, öðlast sjálfkrafa lögræði að þeim tíma liðnum sem ákveðinn hefur verið í úrskurði.
    Ef talin er þörf á að framlengja lögræðissviptingu verður það ekki gert nema með annaðhvort tímabundnum eða ótímabundnum úrskurði dómara í nýju lögræðissviptingamáli. Um rekstur slíks máls gilda sömu reglur og um rekstur lögræðissviptingarmála endranær. Vakin er athygli á að sé útlit fyrir að nýr úrskurður gangi ekki fyrr en eftir að tímabundinni lögræðissviptingu lýkur, en nauðsynlegt er talið að halda viðkomandi á sjúkrastofnun til áframhaldandi meðferðar, er sú leið fyrir hendi að beita ákvæðum III. kafla laganna um nauðungarvistun, eða eftir atvikum ákvæði 3. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992, þegar ungmenni eiga í hlut, enda sé skilyrðum þessara lagaákvæða að öðru leyti fullnægt.

Um 3. gr.


    Á síðustu missirum hefur það nokkrum sinnum gerst að ekki hefur tekist að finna hæfa lögráðamenn fyrir þá sem sviptir hafa verið lögræði sökum geðsjúkdóms, ofdrykkju eða misnotkunar á ávana- og fíkniefnum. Þar sem engin ákvæði eru í lögræðislögum sem taka á slíkum tilvikum er brýn nauðsyn til þess að sett verði ný ákvæði í lögræðislög til þess að leysa þennan vanda. Hér er sem betur fer um afar fá tilvik að ræða, en í hvert skipti sem slíkt hendir er um mikla erfiðleika að ræða sem erfitt hefur verið að leysa úr. Verður að telja það ótækt að lögum að maður sé sviptur lögræði án þess að honum verði skipaður einhver sá sem til þess er bær að fara með réttindi hans og skyldur til að fara með lögráð hans.
    Af þessum sökum er lagt til að ný grein bætist við lögræðislögin sem verði 27. gr. a þar sem mælt verði svo fyrir að yfirlögráðandi hafi heimild til þess að skipa félagsmálanefnd, sbr. 5. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, til að fara með lögráð manns sem sviptur hefur verið lögræði þegar yfirlögráðandi telur fullreynt að ekki fáist hæfur maður til þess að fara með lögráð hans. Af framansögðu er því ljóst að hér verður um þrönga undantekningarreglu að ræða sem einungis skal nota þegar ljóst er að ekki mun reynast unnt að skipa lögráðamann samkvæmt hinu almenna ákvæði 27. gr. lögræðislaga.
    Í ákvæðinu er lagt til að heimilt verði að fela félagsmálanefnd að fara með lögráð í slíkum tilvikum. Nefndin skoðaði hins vegar einnig þá möguleika að gera það að borgaralegri skyldu að taka að sér lögráð, svo og þann möguleika að greiða sérstaklega fyrir störf lögráðamanna í þessum tilvikum. Hvorugur þessara kosta þótti nægjanlega góður. Hætta var talin á að lögráðunum yrði ekki sinnt með fullnægjandi hætti ef gert yrði að borgaralegri skyldu að taka þau að sér. Að því er síðari kostinn varðar þótti m.a. hætta á því að almennt mundi reynast erfiðara að fá menn til að taka að sér lögráð samkvæmt hinu almenna ákvæði 27. gr. nema gegn greiðslu. Þá ber þess einnig að geta að ein af meginástæðum þess að ekki hefur tekist að finna hæfa lögráðamenn fyrir þá sem sviptir hafa verið lögræði sökum geðsjúkdóms, ofdrykkju eða misnotkunar á ávana- og fíkniefnum er sú að hér getur verið um að ræða erfið störf og draga verður í efa að rétt sé að leggja þau á einstaklinga.
    Því þótti besti kosturinn að veita yfirlögráðanda heimild til að skipa félagsmálanefnd til þess að fara með lögráð í slíkum tilvikum, en í stærri sveitarfélögunum starfa oft á vegum nefndanna félagsráðgjafar, sálfræðingar og lögfræðingar. Verður að telja að vart sé öðrum stjórnvöldum fyrir að fara sem betur séu til þess fallin að rækja þetta hlutverk. Í þessu sambandi er einnig rétt að hafa í huga að félagsmálanefndir sveitarfélaga hafa oft töluverð afskipti af þeim einstaklingum sem sviptir eru lögræði sökum geðsjúkdóms eða langvarandi misnotkunar ávana- og fíkniefna. Ef litið er til 1. tölul. 6. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, og 9. tölul. 2. gr., XI. og XIII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, verður einnig að telja að eðlilegt sé að fela félagsmálanefndum sveitarfélaga þessa hagsmunagæslu. Með 2. málsl. 1. mgr. hinnar nýju greinar er tryggt að félagsmálanefnd verða ekki falin lögráð lögræðissvipts manns ef nefndinni er kunnugt um hæfan einstakling sem hægt væri að fela lögráðin. Hér má enn fremur benda á að um eðlislík tilvik er hér að ræða og þegar forsjá barna, er verða forsjárlaus, hverfur til barnaverndarnefnda.
    Komi upp hagsmunaárekstur, t.d. þar sem félagsmálanefnd þarf að úrskurða í máli hlutaðeigandi ólögráða manns á grundvelli laga nr. 40/1991, bæri að leysa úr honum eins og ávallt þegar upp kemur árekstur milli hagsmuna lögráðamanns og hins ólögráða, þ.e. með því að skipa sérstakan lögráðamann til að fara með umrætt mál skv. 28. gr. lögræðislaga.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um hvaða félagsmálanefnd beri að fela lögráðin. Eru ákvæði greinarinnar í samræmi við 2. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Þá er í greininni lagt til grundvallar að lögráðin verði lögformlega falin félagsmálanefnd sem fer þá að öllu leyti með réttindi og skyldur lögráðamanns að lögum. Í 3. mgr. greinarinnar er hins vegar á því byggt að einum af nefndarmönnum eða starfsmönnum félagsmálanefndar verði falin umsjón með framkvæmd lögráðanna. Er þetta gert til þess að stuðla að því að samviskusamlega verði að framkvæmd lögráðanna staðið. Þá hefur þessi skipan einnig þann kost að hinn ólögráða sér ekki sífellt nýjan og nýjan starfsmann sem lítið þekkir til persónulegra haga hans. Þessi skipan er einnig líkleg til þess að nauðsynleg persónuleg tengsl skapist á milli umsjónarmanns og hins ólögráða. Hlutverk umsjónarmanns væri t.d. að leggja fyrir félagsmálanefnd tillögur varðandi mál sem nefndin þyrfti að taka ákvörðun um. Síðan félli það í hlut umsjónarmanns að sjá um framkvæmd þessara ákvarðana fyrir hönd nefndarinnar.
    Í 4. mgr. greinarinnar er kveðið á um að félagsmálanefnd skuli árlega gefa yfirlögráðanda skýrslu um helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið á árinu um persónulega hagi og fjárhald hins ólögráða. Þessu ákvæði er ætlað að stuðla að því að eftirlit yfirlögráðanda með lögráðunum verði nægjanlega virkt.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.