Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 440 . mál.


1053. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Frumvarp það um Evrópska efnahagssvæðið, sem nú liggur fyrir Alþingi, markar lokaafgreiðslu Alþingis á þátttöku Íslendinga í umræddu samstarfi. Afstaða 1. minni hluta til málsins hefur komið glöggt fram við afgreiðslu utanríkismálanefndar á upphaflegu frumvarpi. Sú afstaða er óbreytt.
    Eins og fram hefur komið í áliti sérfræðinga samræmist sá samningur, sem íslenska ríkisstjórnin hefur gert um aðild Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu, ekki ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Þegar af þeirri ástæðu bæri að vísa því frumvarpi frá sem nú liggur fyrir og markar lokaafgreiðslu EES-málsins af hálfu Alþingis.
    Frá því að EES-málið var afgreitt á Alþingi í janúar sl. hefur jafnframt ýmislegt komið í ljós sem enn frekar styður það að ekki sé tímabært að afgreiða málið. Skal sérstaklega bent á eftirgreind atriði.
    Óvissa er enn mikil um afdrif EES-samningsins og er sú óvissa nú viðurkennd af utanríkisráðherra. Fjögur EFTA-ríki hafa þegar hafið viðræður við EB um fulla aðild og líta þau aðeins á EES sem biðsal.
    Samningurinn hefur ekki verið tekinn til afgreiðslu nema á fáum þingum EB-landa. Jafnframt er talið að verði Maastricht-samningurinn ekki staðfestur af Dönum eða Englendingum muni EES-samningurinn ekki verða staðfestur af öllum löndum EB.
    Fullyrðingar utanríkisráðherra um efnahagslegan ábata af EES-aðild hafa reynst stórlega ýktar og með framkomnum breytingum á samningnum er Íslandi ætlað að greiða enn stærri hlut í fjárhagsaðstoð til svæða innan EB.
    Þá hafa undanfarið komið í ljós ótrúleg mistök eða kæruleysi af hálfu utanríkisráðherra í samningum um innflutning unninna landbúnaðarafurða samkvæmt bókun 3 sem leysa þarf úr áður en EES-samningurinn er endanlega afgreiddur.
    Loks liggur ekki enn fyrir hvaða breytingar þarf að gera á íslenskum lögum vegna samningsins eða hvernig tryggð verða skilyrðislaus yfirráð Íslendinga yfir orkulindum og landi.
    Þar sem fullgilding EES-samningsins frestast gefst nægur tími til að leita álits þjóðarinnar á samningnum og styður 1. minni hlutinn framkomna tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 29. apríl 1993.



Steingrímur Hermannsson,

Páll Pétursson.


frsm.