Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 191 . mál.


1095. Nefndarálit



um frv. til hafnalaga.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn til viðræðna Hannes Valdemarsson hafnarstjóra og Þorvald Jóhannesson, bæjarstjóra á Seyðisfirði. Nefndinni bárust umsagnir frá hafnarstjóra Reykjavíkurhafnar, hafnarstjórn Hafnarfjarðar, hafnarstjórn Seyðisfjarðar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá studdist nefndin einnig við umsagnir sem bárust á 115. löggjafarþingi frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Hafnasambandi sveitarfélaga.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Í flestum tilvikum er ekki um efnisbreytingar að ræða heldur smávægilegar lagfæringar á framsetningu og orðalagi. Helstu breytingarnar, sem lagðar eru til, eru eftirfarandi:
    Lagt er til að 3. mgr. 3. gr. verði breytt þar sem óþarft þykir að í lögum sé kveðið á um setu starfsmanna Hafnamálastofnunar ríkisins á fundum hafnaráðs. Með þessari tillögu er ekki ætlunin að breyta gildandi framkvæmd.
    Lagðar eru til breytingar á síðasta málslið 8. gr. Að óbreyttu gæti ráðherra ákveðið framkvæmdir innan hafnasamlags með áætlun sem síðar verður hluti af hafnaáætlun. Talið er eðlilegra að slíkar framkvæmdaáætlanir séu í samræmi við hafnaáætlun og þar með vilja Alþingis.
    Breytingin á 27. gr. felur í sér að 2.–4. mgr. verði að tveimur málsgreinum með breyttri framsetningu en að óbreyttu gæti orðalagið bent til að fremur sé undantekning en meginregla að hafnir njóti hámarksframlags skv. 26. gr. Ætlunin er að árétta að svo sé ekki.
    Breytingin á 33. gr. felur í sér að ráðherra skuli leita samþykkis fjárlaganefndar Alþingis áður en hann ráðstafar fé Hafnabótasjóðs. Er það sama fyrirkomulag og í gildandi lögum.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Á grundvelli 24. gr. frumvarpsins, sbr. 26. gr., munu stofnframkvæmdir við löndunarkrana, hafnarvogir og hafnsögubáta ekki njóta ríkisstyrks. Er þar um að ræða breytingar frá gildandi lögum þar sem kveðið er á um 40% ríkisframlag til slíkra framkvæmda. Breytingin, sem lögð er til, felur í sér að ríkissjóður skuli fram til loka ársins 1994 greiða allt að 40% af stofnkostnaði við slíkar framkvæmdir og verður þannig um nokkurn aðlögunartíma að ræða.
    Meiri hlutinn vill árétta þann skilning á 2. mgr. 14., gr., þar sem segir að hafnarsjóðir skuli undanþegnir sköttum til sveitarsjóða, að starfsemi sú, er hafnarsjóðir taka hugsanlega þátt í með aðild að hlutafélögum, svo sem útgerð eða fiskmarkaðir, verði skattlögð eins og önnur starfsemi. Nefndin lítur einnig svo á að ef fjárhagur hafna er slíkur að þær geti tekið þátt í atvinnurekstri hljóti ríkisframlög til þeirra að lækka frá því hámarki sem kveðið er á um í frumvarpinu.
    Minni hlutinn mun skila séráliti.

Alþingi, 4. maí 1993.



Pálmi Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Árni M. Mathiesen.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Sturla Böðvarsson.