Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 450 . mál.


1098. Nefndarálit



um frv. til l. um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma.

Frá allsherjarnefnd

.

    Nefndin hefur fjallað um málið og komu á fund hennar Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti, og Hallvarður Einvarðsson ríkissaksóknari. Enn fremur var leitað álits hjá Dómarafélagi Íslands, Fangelsismálastofnun ríkisins, Lögmannafélagi Íslands, Rannsóknarlögreglu ríkisins og Sýslumannafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu eru ákvæði sem nauðsynlegt er talið að sett verði í lög til að unnt verði að fullgilda tvo samninga sem gerðir hafa verið á vegum Evrópuráðsins, þ.e. samninginn um alþjóðlegt gildi refsidóma sem gerður var í Haag 28. maí 1970 og samninginn um flutning á dæmdum mönnum sem var gerður í Strassborg 21. mars 1983. Báðir samningarnir hafa verið undirritaðir af Íslands hálfu. Í frumvarpinu er jafnframt ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að unnt verði að fullnægja hér á landi öðrum erlendum viðurlagaákvörðunum en þeim sem dæmd eða ákvörðuð hafa verið í ríkjum sem eru aðilar að framangreindum samningum, bæði samkvæmt öðrum tvíhliða eða marghliða samningum við erlend ríki. Einnig á það við um viðurlagaákvarðanir samkvæmt einstökum dómum eða ákvörðunum sem íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar hér á landi hafa hlotið í öðru ríki sem ekki hefur gert samning við Ísland um gagnkvæma fullnustu refsidóma. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um að unnt verði að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum erlendis.
    Í frumvarpinu er farin sú leið að lögfesta efni fyrrnefndra samninga. Þegar lagasetning er nauðsynleg vegna fullgildingar alþjóðlegra samninga koma tvær leiðir til greina. Annars vegar að setja lög í samræmi við hinn fullgilta samning, eins og hér er lagt til, eða samningunum er veitt lagagildi. Þykir sú leið, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, skýrari, m.a. með tilliti til málsmeðferðar, því að hin leiðin getur haft í för með sér óvissu hvað varðar réttarfarsákvæði.
    Megintilgangur samninganna er að fullnusta viðurlagaákvörðunar verði möguleg í öðru ríki en hún var tekin í. Að baki samningunum búa mannúðarsjónarmið og refsigæslusjónarmið. Dómþola getur verið það í hag að afplána refsingu í heimalandi sínu. Á hinn bóginn gæti maður tekið út refsingu sem hann hefur hlotið í heimaríki sínu í öðru landi, t.d. ef hann hefur flúið land.
    Á samningunum er nokkur munur. Samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma getur eingöngu ríki, þar sem dómur var kveðinn upp, beðið um flutning á dómþola. Skilyrði flutningsins eru tilgreind í samningnum og séu þau uppfyllt er ríki, þar sem óskað er eftir að fullnusta fari fram, skylt að verða við beiðninni. Í öllum tilvikum á að ákvarða ný viðurlög í fullnusturíki til samræmis við réttarframkvæmd þar. Í samningnum um fullnustu refsidóma eru einfaldari málsmeðferðarreglur. Ríki, þar sem dómur var kveðinn upp og ríki þar sem óskað er eftir að fullnusta dóms fari fram, geta bæði beðið um flutning auk dómþola. Engin skylda er til að fallast á þá beiðni. Enn fremur getur fullnusturíki ráðið því hvort halda eigi áfram að fullnægja erlendum viðurlögum eða hvort ákvörðuð verði ný viðurlög fyrir verknaðinn samkvæmt lögum þess, sbr. 23. gr. frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í fjóra hluta. Í 1. hluta (1.–5. gr.) er kveðið á um gildissvið laganna. 2. hluti (6.–34. gr.) fjallar um fullnustu erlendra viðurlagaákvarðana hér á landi, 3. hluti (35.–42. gr.) um fullnustu íslenskra viðurlagaákvarðana erlendis og 4. hluti (43.–45. gr.) um gildistöku o.fl.
    Samkvæmt frumvarpinu á héraðsdómur Reykjavíkur að annast mál sem lögð skulu fyrir dóm, sbr. t.d. 1. mgr. 10. gr. Rætt var um hvort heimila ætti að málin yrðu lögð fyrir alla héraðsdóma í landinu og var ákveðið að gera það. Er lögð til breyting á frumvarpinu sem miðar að því, brott falli orðið „Reykjavíkur“ þegar fjallað er um héraðsdóm og enn fremur komi ákvæði í 28. gr. þess efnis að um varnarþing gildi lög um meðferð opinberra mála. Þá er og lögð til breyting á 28. gr. sem miðar að því að taka af allan vafa um málskot.
    Enn fremur var rætt um ákvæði 23.–25. gr. frumvarpsins en þar er kveðið á um fullnustu erlendra viðurlaga hér á landi samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna. Samkvæmt þessum ákvæðum er annaðhvort hægt að halda áfram að fullnægja viðurlögum hér á landi sem ákveðin hafa verið erlendis eða ný viðurlög yrðu ákvörðuð samkvæmt íslenskum lögum (23. gr.). Er valin sú leið í frumvarpinu að báðir kostir eru tiltækir og er það til þess að útiloka ekki þau ríki sem heimila aðeins aðra leiðina. Dómsmálaráðuneytið ákveður hvor leiðin er farin og hvað varðar tímalengd viðurlaganna er ekki heimilt að breyta henni nema hún fari fram úr því hámarki sem samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að ákvarða fyrir sambærilegt afbrot (24. gr.). Er þá tímalengd erlendu viðurlaganna færð niður að íslenska hámarkinu. Fram kom að ekki væri með þessu verið að færa dómsvald til ráðuneytisins og er ákvæðið sambærilegt við upphafsákvæði 4. gr. laga nr. 69/1963, um fullnustu refsidóma sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð o.fl. Þegar breyta á erlendri viðurlagaákvörðun leggur ríkissaksóknari málið fyrir héraðsdóm Reykjavíkur sem tekur síðan ákvörðun um breytinguna.
    Hvað varðar kostnað sem hlýst af framkvæmd laganna, ef samþykkt yrðu, kom fram að ríkissjóður mundi bera þann kostnað sem á félli hér á landi og yrði enn fremur heimilt að láta dómþola sjálfan bera kostnað af flutningi sínum á milli landa. Um þetta er að öðru leyti vísað í fylgiskjal með áliti þessu. Í þessu sambandi má geta þess að fram hefur komið að 5–7 Íslendingar eru í erlendum fangelsum, en ekki liggur fyrir hvort mögulegt er að flytja þá hingað. Þá mun vera einn erlendur maður sem afplánar refsingu hér.
    Þá hefur nefndin fjallað um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, 449. mál, en það er lagt fram sem fylgifrumvarp með þessu máli. Lýtur meginefni þess að breytingu á 8. gr. laganna sem fjallar um neikvæð réttaráhrif erlendra refsidóma og nauðsynleg er vegna fullgildingar samnings um alþjóðlegt gildi refsidóma. Loks hefur verið lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Evrópusamninga um viðurkenningu og fullnustu refsidóma, 537. mál, þar sem lagt er til að ríkisstjórninni verði heimilt að fullgilda umrædda samninga fyrir Íslands hönd. Hefur nefndin fjallað um málið að beiðni utanríkismálanefndar sem hafði málið til meðferðar í tengslum við þetta frumvarp.
    Frumvarp þetta er viðamikið og hefur að geyma fjölmörg atriði sem vert er að athuga og mun tíminn leiða í ljós kosti þess og galla. Mælist nefndin til þess að dómsmálaráðherra gefi Alþingi skýrslu um framgang þessara mála eftir þrjú ár þar sem fram komi m.a. samanburður á íslenskum dómum og erlendum.
    Mælir nefndin með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 4. maí 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson.

Ingi Björn Albertsson.

Jón Helgason.



Kristinn H. Gunnarsson.

Ólafur Þ. Þórðarson.

Sigbjörn Gunnarsson.





Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um alþjóðlega samvinnu


um fullnustu refsidóma.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Með frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda tvo alþjóðasamninga fyrir Íslands hönd, samning um alþjóðlegt gildi refsidóma og samning um flutning dæmdra manna. Samningarnir munu gera það mögulegt að erlendir menn, sem dæmdir verða til fangelsisvistar hér á landi, verði fluttir til heimalands síns og fái að afplána refsingu sína þar. Sömuleiðis opnist sá möguleiki að Íslendingar, sem dæmdir eru til refsivistar erlendis, fái að afplána refsingu sína á Íslandi.
    Samkvæmt 33. gr. frumvarpsins verður aðalreglan sú að ríkissjóður mun greiða sakarkostnað sem fellur til hér á landi vegna samninga þessara. Þó má dæma dómþola til greiðslu sakarkostnaðar þegar útivistardómur er endurupptekinn að kröfu dómþola. Einnig er heimilt að endurkrefja dómþola um kostnað vegna flutnings hingað til lands.
    Í 14. gr. samnings um alþjóðlegt gildi refsidóma segir að samningsríki skuli ekki krefja hvert annað um endurgreiðslu neins kostnaðar vegna framkvæmdar samnings þessa. Í 17. gr. samnings um flutning dæmdra manna segir í 5. tölul. að allur kostnaður, sem á fellur vegna framkvæmdar samnings þessa, skuli greiddur af fullnusturíkinu nema sá kostnaður sem á fellur einvörðungu á landsvæði dómsríkisins.
    Í gildi eru nú lög nr. 69/1963, um fullnustu refsidóma milli Norðurlandanna. Fullnusta samkvæmt þeim lögum hefur verið fátíð. Ekki er ástæða til að ætla að mikill kostnaðarauki ríkissjóðs fylgi frumvarpi þessu verði það að lögum en þó má gera ráð fyrir að fullnusta samkvæmt lögum þessum færist í aukana með árunum eftir því sem fleiri ríki fullgilda samningana.