Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 533 . mál.


1111. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu samnings um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða Evrópu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk á sinn fund til viðræðna um efni hennar Jón Gunnar Ottósson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu, og Þóri Ibsen, deildarsérfræðing í umhverfisráðuneytinu. Þá barst nefndinni umsögn um málið frá umhverfisnefnd og er umsögnin birt sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar.

Alþingi, 5. maí 1993.



Björn Bjarnason,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Steingrímur Hermannsson.


form., frsm.



Geir H. Haarde.

Páll Pétursson.

Hjörleifur Guttormsson.



Tómas Ingi Olrich.

Árni R. Árnason.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.






Fylgiskjal.

Umsögn umhverfisnefndar Alþingis.


(5. maí 1993.

)

    Umhverfisnefnd hefur fjallað um fjórar þingsályktunartillögur til staðfestingar á alþjóðasamningum á sviði umhverfismála sem utanríkismálanefnd sendi nefndinni til umsagnar.
    Umhverfisnefnd fékk til viðræðna um málin Jón Gunnar Ottósson og Þóri Ibsen frá umhverfisráðuneytinu. Að ósk nefndarinnar tók umhverfisráðuneytið saman minnisblað um þá fyrirvara sem gerðir eru af hálfu Íslands við einn þessara samninga, Bernarsamninginn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða Evrópu.
    Umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við samþykkt þessara tillagna en bendir á eftirfarandi varðandi fyrirvara Íslands í Bernarsamningnum:
    Með tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða Evrópu er fylgiskjal (fskj. II) með skrá yfir þá fyrirvara sem ástæða er talin til að gera við samninginn við aðild að honum. Í 1. mgr. 22. gr. samningsins segir svo: „Við undirritun eða við afhendingu skjals um fullgildingu, viðurkenningu, samþykki eða aðild getur sérhvert ríki gert einn eða fleiri fyrirvara um ákveðnar tegundir sem tilgreindar eru í viðaukum I–III  . . . 
    Í viðauka I er ein íslensk plöntutegund og í viðauka II eru nokkur íslensk dýr auk nokkurra dýrategunda sem flækjast stöku sinnum til landsins og njóta ekki verndar samkvæmt íslenskum lögum. Ástæða var talin til að gera fyrirvara um friðun þessara tegunda að óbreyttum lögum og í samræmi við íslenskar aðstæður svo að ósamræmi skapist ekki á milli íslenskrar löggjafar og þeirra þjóðréttarlegu ákvæða sem samningurinn felur í sér.
    Fyrir Alþingi liggur frumvarp um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum. Taki lög þessi gildi munu tvær af þeim tegundum, sem fyrirvari er gerður um, lómur og ísbjörn, njóta verndar. Verði frumvarpið að lögum áður en samningurinn yrði fullgiltur fyrir Íslands hönd er ástæðulaust að gera fyrirvara um friðun þessara tegunda þar sem 9. gr. samningsins veitir sérhverjum samningsaðila rúma heimild til að veita undanþágur vegna ákvæða samningsins um verndun þeirra tegunda sem eru skráðar í viðauka II. Þess ber og að geta að samningsaðilum er heimilt hvenær sem er skv. 4. mgr. 22. gr. að afturkalla að fullu eða að hluta þá fyrirvara sem þeir hafa gert við samninginn.

F.h. umhverfisnefndar

,

Gunnlaugur Stefánsson

,

formaður

.