Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 587 . mál.


1148. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, ásamt síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



1. gr.


    Við 43. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Nú verða útgjöld sjúkratryggðs vegna læknishjálpar og lyfja umtalsverð og er þá heimilt að endurgreiða hlutaðeigandi þennan kostnað að hluta eða að fullu að teknu tilliti til tekna og í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setur.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með breyttum reglum um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra geta útgjöld í undantekningartilvikum orðið veruleg. Til að tryggja að þessi útgjöld verði aldrei fjárhagsleg ofraun fyrir sjúkratryggða er hér sett heimildarákvæði um endurgreiðslu á þessum kostnaði að hluta eða fullu. Gert er ráð fyrir að tekið sé tillit til tekna við mat á þessu atriði og að öðru leyti sé fylgt reglum sem ráðherra setur.