Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 596 . mál.


1199. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 48/1975, um iðnaðarmálagjald, ásamt síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
                  Leggja skal 0,09% gjald, iðnaðarmálagjald, á allan iðnað í landinu. Skal gjaldstofn þess vera velta, sbr. 11. og 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
                  Iðnaðarmálagjald skal lagt á af skattstjórum og innheimt af innheimtumönnum ríkisins. Gjalddagi skal vera 1. ágúst ár hvert og má taka gjaldið lögtaki, sbr. lög nr. 29 16. desember 1885.
                  Iðnaðarmálagjald skal vera frádráttarbært sem rekstrarkostnaður við álagningu tekjuskatts svo og tekjuútsvars ef um er að ræða. Óheimilt er að leggja gjaldið við verð á vörum eða þjónustu iðnfyrirtækja.
    Á eftir 1. gr. kemur ný grein, sem verður 2. gr., og orðast svo:
                  Til iðnaðar telst öll starfsemi sem fellur undir atvinnugreinanúmer 200–499 í atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar: 848 Hugbúnaðarþjónusta; 865 Rakarastofur; 866 Hárgreiðslu- og snyrtistofur; 867 Ljósmyndastofur.
                  Undanþegin gjaldinu er eftirfarandi starfsemi:
         —    Fyrirtæki að öllu leyti í eign opinberra aðila svo og fyrirtæki sem stofnuð eru samkvæmt sérstökum lögum til að vera eign opinberra aðila að verulegu leyti, nema annars sé getið í þeim lögum.
         —    Fiskiðnaður, atvinnugreinanúmer 203, 204, 312, 313, 314; Slátrun- og kjötiðnaður, atvinnugreinanúmer 201; Mjólkuriðnaður, atvinnugreinanúmer 202, sbr. atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar.
    2. gr. laganna, sem verður 3. gr., orðast svo:
                  Tekjum af iðnaðarmálagjaldi skal skipta að jöfnu milli Félags íslenskra iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna eða þær renna óskiptar til félags sem myndað verður með samruna þessara samtaka. Félögin ráðstafa tekjunum til þess að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu. Þau skulu senda iðnaðarráðuneytinu árlega skýrslu um ráðstöfun andvirðis þess.
    3. gr. laganna, sem verður 4. gr., orðast svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994 og skal í fyrsta sinn lagt á iðnaðarmálagjald samkvæmt þeim árið 1994 á gjaldstofn ársins 1993.
                  Iðnaðarmálagjaldið lækkar í 0,06% árið 1996 á gjaldstofn ársins 1995 og lækkar í 0,03% árið 1997 á gjaldstofn ársins 1996.
                  Iðnaðarmálagjald skal leggja á í síðasta sinn árið 1997 á gjaldstofn ársins 1996. Eftir það falla lögin úr gildi.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Nauðsynlegt er að gera breytingar á lögum um iðnaðarmálagjald vegna þess að aðstöðugjald hefur verið fellt niður og einnig stendur til að breyta rekstrarformi Iðnlánasjóðs og fella niður iðnlánasjóðsgjald.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir sem greiða gjaldið verði þeir sömu og hingað til, að því undanskildu að lagt er til að hugbúnaðarþjónusta eða hugbúnaðariðnaður falli undir iðnað í skilningi laganna.
    Helstu breytingar, sem felast í frumvarpinu, eru þessar:
    Gjaldstofninn verður nú velta, sbr. skilgreiningu 11. og 12. gr. laga um virðisaukaskatt, í stað gamla aðstöðugjaldsstofnsins.
    Gjaldhlutfallið verður 0,09%. Þetta hlutfall tryggir svipaðar tekjur af þessu gjaldi og verið hefur undanfarin ár.
    Þar sem Sölustofnun lagmetis hefur verið lögð niður og Samband íslenskra samvinnufélaga hefur ekki lengur með höndum neinn iðnrekstur geta þessir aðilar ekki verið viðtakendur iðnaðarmálagjalds.
    Gert er ráð fyrir að iðnaðarmálagjaldið lækki í áföngum. Fyrst úr 0,09% í 0,06% árið 1996 og úr 0,06% í 0,03% árið 1997. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að iðnaðarmálagjaldið verði innheimt í síðasta sinn árið 1997 og verði eftir það úr sögunni.
    Forsenda þess að iðnaðarmálagjaldið lækki í áföngum og falli að lokum brott er að frumvarp til laga um Íslenska fjárfestingarbankann hf. nái fram að ganga, enda er þetta frumvarp lagt fram í tengslum við frumvarpið um ÍFB.



Fylgiskjal.


Iðnaður.


Byggt á atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar.



30 Fiskiðnaður
203 Frysting, söltun og hersla
204 Síldarsöltun
312 Hvalvinnsla
313 Lifrarbræðsla, lýsishreinsun og -hersla
314 Síldar- og fiskmjölsvinnsla

31 Matvælaiðnaður annar en fiskiðnaður
201 Slátrun og kjötiðnaður
202 Mjólkuriðnaður
205 Niðursuða, niðurlagning o.fl.
206 Brauð- og kökugerð
207 Kexgerð
208 Sælgætisgerð
209 Annar matvælaiðnaður
211 Áfengisiðnaður
213 Öl- og gosdrykkjagerð
220 Tóbaksiðnaður

32 Vefjariðnaður, skó- og fatagerð, sútun o.fl.
231 Ullarþvottur, spuni og vefnaður
232 Prjónavöruframleiðsla
233 Veiðarfæraiðnaður
239 Spunavöruiðnaður ót. a.
241 Skógerð önnur en gúmmískógerð
243 Fatagerð
244 Framleiðsla á öðrum vefnaðarvörum
291 Sútun og önnur verkun skinna
293 Leðurvörugerð

33 Trjávöruiðnaður
252–259 Ýmis trjávöruiðnaður
261 Húsgagnagerð, innréttingasmíði o.fl.

34 Pappírsiðnaður
272 Pappa- og pappírsvörugerð
281–284 Prentun blaðaútgáfa o.fl.

35 Efnaiðnaður
311 Kemískur undirstöðuiðnaður
315 Málningar-, lakk- og límgerð
319 Sápu- og þvottaefnagerð
329 Asfalt- og tjörupappagerð
398 Plastvöruiðnaður ót. a.

36 Steinefnaiðnaður
332 Gleriðnaður, þar með talin speglagerð
333 Leirsmíði, postulínsiðnaður
334 Sementsgerð
335 Grjót-, malar- og sandnám
336 Saltvinnsla, sjóefnavinnsla
339 Steinsteypugerð og annar steinefnaiðnaður

37 Ál- og kísiljárnsframleiðsla
341 Kísiljárnframleiðsla
342 Álframleiðsla

38 Málmsmíði, vélaviðgerðir, skipasmíðar og -viðgerðir
350 Málmsmíði, vélaviðgerðir
381 Skipasmíði, skipaviðgerðir

39 Ýmis iðnaður og viðgerðir
386 Flugvélaviðgerðir
389 Önnur flutningatækjagerð og viðgerðir
391 Smíði og viðgerðir mælitækja
394 Skartvörugerð, góðmálmasmíði
395 Smíði og viðgerðir hljóðfæra
397 Burstagerð o.fl.
399 Iðnaður ót. a.

50 Byggingarstarfsemi
410 Bygging og viðgerð mannvirkja
420 Byggingarstarfsemi einkaaðila í eigin þágu
425 Eigin vinna húsbyggjenda og bænda vegna nýframkvæmda
431 Vega- og brúargerð opinberra aðila
432 Hafnar- og vitaframkvæmdir opinberra aðila
433 Raforkuvera- og raforkuframkvæmdir
434 Símaframkvæmdir
438 Starfsemi Viðlagasjóðs
439 Önnur byggingarstarfsemi opinberra aðila
450 Unglingavinna sveitarfélaga
490 Starfsemi ræktunarsambanda o.fl.
491 Húsasmíði
492 Húsamálun
493 Múrun
494 Pípulagning
495 Rafvirkjun
496 Veggfóðrun, gólfdúkalagning
497 Teppalögn o.fl.

Ýmis annar iðnaður.
242 Skóviðgerðir
300 Gúmvörugerð, hjólbarðaviðgerðir
370 Smíði og viðgerð raftækja
383 Bílaviðgerðir o.fl.
385 Reiðhjólaviðgerðir
393 Úra- og klukkuviðgerðir
848 Hugbúnaðarþjónusta
865 Rakarastofur
866 Hárgreiðslu- og snyrtistofur
867 Ljósmyndastofur.