Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 515 . mál.


1244. Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.

Frá félagsmálanefnd.



    Við 1. gr.
    Í stað 3. málsl. 1. mgr. 2. tölul. komi tveir nýir málsliðir er orðist svo: Atkvæðisbærir við þessa atkvæðagreiðslu eru þeir sem eru skráðir með lögheimili í hverju sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 1. september 1993 og eiga kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningar skv. 19. gr. Að öðru leyti fer um atkvæðagreiðsluna eftir ákvæðum III. kafla laganna eftir því sem við getur átt.
    Í stað lokamálsliðar 3. tölul. komi tveir nýir málsliðir er orðist svo: Sömu reglur og tímamörk gilda um seinni tillögu og þá fyrri að því undanskildu að kjörskrá skal þá miðuð við íbúaskrá þjóðskrár 1. janúar 1994. Jafnframt gilda sömu ákvæði um ákvarðanir í framhaldi af almennri atkvæðagreiðslu og gilda um fyrri tillögu.

Greinargerð.


    Eftir afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpinu til 2. umr. hefur nefndin komið saman á ný til að fjalla um málið og fengið á fund sinn Hallgrím Snorrason hagstofustjóra og Skúla Guðmundsson skrifstofustjóra.
    Eftir að málið var afgreitt úr félagsmálanefnd komu fram ábendingar frá Hagstofu Íslands um að við samningu frumvarpsins hefði láðst að kveða með skýrum hætti á um kjörskrárgerð vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga, svo og við hvaða tíma kjörskrá skuli miðuð. Ekki verður stuðst við ákvæði sveitarstjórnarlaga þar sem þau miða við almennar kosningar í maímánuði fjórða hvert ár og tímamörk sem miðast við lok framboðsfrests. Slíku er ekki til að dreifa í þessu sambandi. Lagaákvæði um sveitarstjórnarkosningar fela ekki heldur í sér nokkra þá vinnureglu sem heimfæra má upp á sérstakar atkvæðagreiðslur eins og þær sem hér er gert ráð fyrir.
    Í lögum um sveitarstjórnarkosningar segir að lög um kosningar til Alþingis skuli gilda eftir því sem við á og með þeim frávikum sem sveitarstjórnarlög ákveða. Í samræmi við þetta gerir breytingartillaga nefndarinnar ráð fyrir að kjörskrá verði miðuð við 1. september 1993 þegar kosið verður um fyrri tillögu og við 1. janúar 1994 verði kosið um síðari tillögu. Þessi tímamörk miðast við að unnt verði að vinna kjörskrá og leggja hana fram nógu tímanlega. Þá er lagt til að kosningarréttur miðist við skráða íbúa samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár.