Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:34:38 (3910)

[17:34]
     Jón Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér upp og blanda mér í þessa umræðu aðallega vegna atriða sem fram komu í máli hv. 4. þm. Norðurl. v. og eru það atriði sem snúa einkum að 8. gr. og síðan 14. gr.
    Fyrsta mgr. 8. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Eigendur hafna samkvæmt lögum þessum eru sveitarfélög eða hlutafélög.``
    Fram er komin brtt. frá meiri hluta samgn. þar sem lagt er til að orðið hlutafélög falli út þannig að það muni einungis verða sveitarfélög sem geti átt þessar hafnir. Einnig sýnist mér á áliti minni hlutans að hann taki undir þetta. Ef við lítum þannig á að það verði sveitarfélögin sem eigi hafnirnar þá skil ég ekki alveg það sem fram kom í máli hv. þm., þær áhyggjur sem hann hafði yfir því að þær hafnir gætu orðið eigendur eða hluthafar í fyrirtækjum sem tengdust þeirra starfsemi.
    Höfnunum er stjórnað eins og fram kemur í þessu frv. af hafnarstjórnum. Þær hafnarstjórnir eru tilnefndar af sveitarstjórnum sem eru eigendur viðkomandi hafna. Ég vil leyfa mér að vona að þetta nái fram að ganga að hafnir eða hafnarsjóðir geti orðið hluthafar í fyrirtækjum jafnvel þó starfsemi þessara fyrirtækja mundi ekki tengjast starfsemi hafnanna beint. Segi ég þetta vegna þess að víða um land er erfitt atvinnuástand og víða um land er lítið um fjármuni en sums staðar gætu hafnir tekið þátt í fyrirtækjum og lagt til þá fjármuni sem riðið gætu baggamuninn í því að þessi fyrirtæki sem þar um ræðir færu af stað.
    Ég vil treysta hafnarstjórnum sem kosnar eru af sveitarfélögum til þess að ákveða það hvort viðkomandi hafnarsjóður á að leggja fjármuni í fyrirtæki eða ekki, að þessar hafnarstjórnir meti það í hverju tilviki fyrir sig hvort hafnarsjóðurinn gerist þar hluthafi.
    Í 14. gr. kemur fram að hafnir eða hafnarsjóðir skuli vera undanþegnir sköttum til sveitarfélaga. Ef þannig verður að hafnir munu eingöngu verða í eigu sveitarfélaganna þá væri einungis um að ræða tilfærslu úr einum vasa í annan ef hafnirnar ættu að fara að greiða skatt til sveitarfélaganna sem síðan yrðu að koma þeim fjármunum með einhverjum öðrum hætti til hafnarinnar aftur.
    Með því að hafnarsjóður geti lagt fram hlutafé í fyrirtæki þá getur hann, eins og ég sagði áðan, hjálpað til við að koma fyrirtækjum á legg í því erfiða atvinnuástandi sem víða er. Þannig að ég ætla að leyfa mér að vona að ekki verði gerð breyting á þessum orðum eins og þau standa þarna og því síður að farið verði að setja mjög þröngar skorður í reglugerð þar sem talinn verður upp einhver ákveðinn flokkur eða ákveðin tegund fyrirtækja sem höfnum er leyfilegt að gerast hluthafar í.
    Annað sem kom fram í fyrri umræðu var að ráðherra skuli ákveða með reglugerð að höfðu samráði við eigendur hafna hvort mynduð verði hafnasamlög. Það kom fram í þeirri umræðu í svari hæstv. ráðherra að með samráði, eins og stendur í 8. gr., væri í raun átt við samþykki. Ég vildi aðeins hnykkja á því hér að að mínu áliti eigi hafnarstjórnirnar á hverjum stað að samþykkja ef um það væri að ræða að fleiri höfnum verði steypt saman í eitt hafnasamlag.