Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:07:16 (4605)


[18:07]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég sá að hæstv. forsrh. var í salnum rétt áðan og það sem ég ætlaði að segja á fyrst og fremst erindi til hans. --- Þarna er hæstv. forsrh. kominn.
    Ég ætla í þessum fáu orðum mínum ekki að ræða almennt um bráðabirgðalög eða setningu þeirra. Ég hef áður sagt að svo getur ástandið orðið alvarlegt að ríkisstjórn neyðist til þess vegna þjóðarhags að leysa mál með bráðabirgðalögum. Ég vildi hins vegar ræða um þau vinnubrögð sem höfð hafa verið við setningu þeirra bráðabirgðalaga sem hér eru til staðfestingar. Mér þykja þau satt að segja mjög ótrúleg.
    Þegar í ríkisstjórn þeirri sem ég leiddi voru sett bráðabirgðalög á deilu háskólamenntaðra manna, ég held það hafi verið árið 1990, þá risu upp sjálfstæðismenn á þingi og höfðu um það hin hörðustu orð. Varð það til þess ásamt öðru að reglum um setningu bráðabirgðalaga var breytt þannig að þingið situr nú allan tímann og því miklu auðveldara að ná því saman. Þau voru mörg þung orðin sem féllu þá um, hvað eigum við að segja, þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem fælust í setningu bráðabirgðalaga og reyndar hygg ég að flestir þeir sjálfstæðismenn sem þá tóku til máls hafi lýst því yfir að setning bráðabirgðalaga mætti aldrei tíðkast eins og íslenskt lýðræði og stjórnarskrá væri úr garði búin, sérstaklega eftir þá breytingu sem var þá gerð. Þó var við setningu bráðabirgðalaga í þeirri ríkisstjórn gætt ákveðinna grundvallaratriða, t.d. var talið sjálfsagt að ræða við alla þingmenn stjórnarflokkanna og ganga úr skugga um það að fylgi allra þingmanna stjórnarflokka væri við setningu bráðabirgðalaganna. Reyndar ákvað ég að kalla fulltrúa stjórnarandstöðunnar á fund og gerði það við setningu fyrrgreindra bráðabirgðalaga. Formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar voru kvaddir á fund forsrh. og fjmrh. og við þá rætt og þeim gerð grein fyrir þessu. Það fór því ekkert á milli mála að leitað var ekki aðeins stuðnings stjórnarsinna heldur einnig stjórnarandstæðinga þó það fengist ekki.
    Ég taldi þetta reyndar sjálfsögð vinnubrögð. Ég minnist þess úr fyrri ríkisstjórnum þegar miklir lögspekingar sátu, eins og dr. Gunnar Thoroddsen og Ólafur Jóhannesson, að þá sögðu þessir menn að það væri lágmarksskilyrði við setningu bráðabirgðalaga og ekki fært að fara með slík lög til forseta og biðja um samþykki hans nema unnt væri að tilkynna forseta að meiri hluti væri tryggður fyrir viðkomandi bráðabirgðalögum á þingi. Mér er fullkomlega ljóst að um þetta hefur verið deilt. En þessir báðir menn lýstu því að það ætti að ganga úr skugga um það að stjórnarsinnar og meiri hluti á þingi styddi setningu viðkomandi bráðabirgðalaga.
    Þetta taldi ég einnig sjálfsagt og það vekur satt að segja furðu þegar maður heyrir að við setningu þeirra bráðabirgðalaga sem eru til umræðu mun, að mér er tjáð, hafa verið rætt við tvo þingmenn Sjálfstfl. auk ráðherranna. Og mig langar til að spyrja hvort þetta sé virkilega rétt. Er það virkilega rétt að alls ekki hafi verið leitað eftir því að meiri hluti væri á þingi fyrir þeim bráðabirgðalögum sem hér eru til umræðu? Ég spyr hvers vegna. Er gengið út frá því að þingmenn stjórnarinnar fylgi hverju því sem ríkisstjórnin kýs að gera? Það er vitanlega ekki mjög lýðræðislegt.
    Þetta tel ég afar ámælisvert og taldi óhjákvæmilegt að koma þessu á framfæri og gera þar lítinn samanburð á því sem áður hefur tíðkast yfirleitt a.m.k. og í þeirri tíð í íslenskri ríkisstjórn sem ég þekki og er orðin nokkuð löng og þeim háttum sem nú eru upp teknir. Eins og ég sagði í upphafi þykir mér enn furðulegra að menn skuli leyfa sér slík vinnubrögð nú eftir öll stóru orðin sem féllu á Alþingi þegar bráðabirgðalögin um BHMR voru sett og þingtíðindi bera glöggt vitni um. Þau voru stór. Og það virtist slík hneykslan á sjálfstæðismönnum þá að það skyldu sett bráðabirgðalög þrátt fyrir að leitað hefði verið eftir öruggum stuðningi á þingi við setningu þeirra.
    Hitt er svo líka vitanlega mikið umhugsunarmál að setja bráðabirgðalög átta eða níu dögum áður en þing á að koma saman, þing sem reyndar situr allan ársins hring og unnt er að kalla saman með 24 tíma fyrirvara leyfi ég mér að fullyrða. Svo væri vitanlega fróðlegt að ræða um ýmis efnisatriði þessara bráðabirgðalaga. Mér virðist að hæstv. ríkisstjórn hafi verið tekin algerlega í bólinu, ef ég má orða það svo, með þessari deilu sjómanna og útgerðarmanna um kvótabraskið, eins og það er nefnt sem þó var á allra vitorði að hlyti að leiða til þess að upp úr syði og það fyrr en síðar. Því miður hefur ekki enn tekist að finna lausn á þeirri deilu og ekki ljóst að hún finnist eins og nú standa mál á þingi og eins og þær hugmyndir sem fram hafa komið eru umdeildar. Það vekur satt að segja undrun að í öllu því starfi sem unnið var áður að mótun fiskveiðistefnu skuli þetta atriði ekki hafa verið rætt.
    Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara út í efnisatriði þess máls. Til þess gefast önnur tækifæri. Ég ætla hins vegar bara að lýsa mjög þungri gagnrýni minni á þau vinnubrögð sem frammi eru höfð við setningu þessara bráðabirgðalaga þó mér detti ekki í hug að taka mér í munn þau þungu orð sem sjálfstæðismenn notuðu minn garð og hæstv. fjmrh. þegar bráðabirgðalögin á BHMR voru sett, en þau geta menn lesið í þingtíðindum.