Leikskólar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 14:35:15 (6152)

[14:35]
     Petrína Baldursdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um leikskóla. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með það að þetta frv. skuli líta dagsins ljós, en eftir því hefur verið beðið í töluverðan tíma. Nú er það hér til umræðu og því fagna ég og efalaust fleiri. Ég vona að þetta mál fái málefnalega umfjöllun í sölum Alþingis og verði afgreitt fyrir þinglok sem lög frá Alþingi.
    Þetta ár er tileinkað fjölskyldunni eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum og hér á Alþingi svo að það færi vel á því að lög um leikskóla litu dagsins ljós og kæmu til framkvæmda á því ári. Aðdraganda endurskoðunar þessara laga þarf ekki að rekja hér. Fyrir þinglok 1991 voru lög um leikskóla samþykkt og voru helstu nýmæli þeirra laga, eins og hefur komið fram, að leikskólinn var lögfestur sem fyrsta skólastig barnsins eða frá því að fæðingarorlofi lýkur og til sex ára aldurs. Og leikskólinn á að mynda samfellu við grunnskólanám barnsins.
    Við setningu laganna 1991 greindi menn á hvernig fjármagna skyldi kostnaðarhlið ef lögin ættu að koma til framkvæmda. Margir töldu að það væri verið að ýta það miklum kostnaði yfir á sveitarfélögin í landinu og ríkisvaldið að fyrirséð væri að aldrei yrði hægt að uppfylla þær lagaskyldur sem verið væri að setja. Lögin voru síðan samþykkt án þess að fyrir kostnaðarhlutdeildinni væri séð með lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

    Hæstv. menntmrh. hefur nú látið endurskoða lögin um leikskólann með tilliti til verkaskiptingalaganna þannig að saman fari frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð. Þetta hefur tekist ágætlega að mínu viti í þessari endurskoðun. Í frv. eru gerð ítarleg skil á þessum þáttum í skýringum: Í fyrsta lagi markmiðum og uppeldisstefnu, í öðru lagi hlutverki ríkisins og í þriðja lagi hlutverki sveitarfélaga.
    Helstu breytingar í þessu frv. frá núgildandi lögum eru:
    1. Sveitarfélögin sjá alfarið um byggingu og rekstur leikskóla. Menntmrn. fer með yfirstjórn þessara mála.
    2. Þeir sem hyggjast reka leikskóla þurfa leyfi viðkomandi sveitarfélags og er leyfisveitingin færð frá menntmrn. til sveitarfélagsins.
    3. Lagt er til að sérstök leikskólanefnd eða sameiginleg nefnd leikskóla og grunnskóla fari með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórna.
    4. Starfsemi leikskóla tengist skólaskrifstofum grunnskólaumdæmis en ekki fræðsluskrifstofum. Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta er rekin samhliða eða í samvinnu við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.
    5. Fellt er niður ákvæði er kveður á um að menntmrn. sinni rannsóknaþætti á starfi leikskóla, heldur mun það falla undir verksvið Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála.
    Í 1. gr. I. kafla þessara laga stendur, með leyfi forseta:
    ,,Lög þessi taka til starfsemi leikskóla. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Er þá miðað við 1. september það ár sem börnin vera 6 ára. Leikskóli annast í samræmi við lög þessi, að ósk foreldra, uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í leikskólauppeldi.``
    Þessi grein er að mínu viti mjög mikilvæg og mjög góð. Leikskóli er fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Hann er samt sem áður ekki skólaskylda. En megininntakið í 1. gr. er þetta: Barni skal bjóðast leikskólavist og hljóta þar uppeldi og menntun undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í leikskólauppeldi.
    Í umræðunni um leikskólamál í þjóðfélaginu er gjarnan sett samasemmerki milli þátttöku foreldra á vinnumarkaði og framboðs sveitarfélaga á leikskólarýmum. Venjulega eru þau rök notuð að leikskólinn þurfi að vera til staðar fyrir útivinnandi foreldra. Það er að mínu viti ekki mergur málsins. Mergur málsins er númer eitt: Leikskólinn er til fyrir börnin. Börn eiga að eiga kost á því að vera á leikskóla, óháð þátttöku foreldra á vinnumarkaðnum. Hann er fyrst og síðast til fyrir börnin. Síðan getum við talað um að það sé mjög gott fyrir foreldra sem eru útivinnandi að vita um barn sitt á öruggum og góðum stað. Það held ég að enginn deili um.
    Lengi býr að fyrstu gerð er gjarnan notað á hátíðarstundum þegar leggja á upp mikilvægi menntunar og uppeldis og það á svo sannarlega við. Leikskólauppeldi er viðbót við uppeldi foreldra. Ég tel að það hvarfli ekki að nokkrum manni sem um þessi mál fjallar að uppeldi leikskólans og menntun sé eitthvað sem kemur í staðinn fyrir foreldrauppeldi. Foreldrar verða alltaf þeir sem fyrst og síðast bera ábyrgð á uppeldi síns barns. Leikskóli er þar sem hin besta viðbót. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á þeim börnum sem dvalið hafa á leikskóla styðja það að þau börn séu betur búin undir sína grunnskólagöngu og lífið almennt heldur en þau börn sem aldrei njóta leikskóladvalar.
    Það er mjög mikilvægt að hlúa vel að fyrstu æviárum barnsins. Aldrei á æviskeiði einstaklingsins verða eins mikilvægar breytingar og fyrstu sex til sjö æviárin. Leikskólar gegna því mjög mikilvægu hlutverki í okkar þjóðfélagi, í lífi barnsins og foreldra þess. Menntmrn. þjónar í þessu samhengi mjög mikilvægu hlutverki, en það fer með yfirstjórn málefna leikskóla. Það mótar þá uppeldisstefnu sem leikskólar vinna eftir og sinnir þróunar- og tilraunastarfi innan leikskólans. Uppeldisáætlun fyrir leikskóla, markmið og leiðir er það starf sem leikskólar landsins byggja sitt faglega starf á. Sú áætlun er námsskrá leikskólans sem hver leikskóli vinnur eftir samkvæmt því sem lög gera ráð fyrir.
    Í kafla IV í frv. eru ákvæði um að sveitarstjórnir geti gefið öðrum aðila leyfi til reksturs leikskóla. Ég tel mjög mikilvægt í þessu samhengi að sú kvöð verði skýr á hendur sveitarfélaga að í einu og öllu verði farið eftir því megininntaki sem segir í 1. gr. frv. að við leikskólann starfi þeir sem eru sérmenntaðir í leikskólauppeldi. Það sé skýrt tekið fram með reglugerð að við viðkomandi leikskóla skuli starfa menntað starfsfólk til þess að leyfi sé veitt.
    Ég tel einnig mjög mikilvægt að sveitarfélög sinni þeirri skyldu að meta á tveggja ára fresti þörf fyrir leikskólarými og í framhaldi gera áætlun um sína uppbyggingu í leikskólamálum. Að mínu viti hafa sveitarfélög allt of lítið sinnt því að gera heildstæða stefnumörkun með uppbyggingu leikskólans í huga. Því miður verður að segjast eins og er að allt of mikið er um að þessi mál fái vægi fyrir sveitarstjórnarkosningar og jafnvel alþingiskosningar, en svo detti botninn úr allri umræðu um uppbyggingarmál. Þetta þarf að breytast. Menn verða að meta þörfina eins og hún er og láta hendur standa fram úr ermum í uppbyggingu með þarfir barnanna í huga. Þetta er fyrst og fremst spurning um forgangsröðun verkefna eins og margt annað í okkar lífi. Biðlistar eftir leikskólaplássum eru víðast hvar gífurlegir og vantar þó nokkuð á að mínu mati að sveitarfélögin uppfylli þessar skyldur.
    Í 9. gr. frv. er talað um að leikskólanefnd fari með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórna. Þar skal eiga sæti fulltrúi foreldra og fulltrúi starfsfólks með málfrelsi og tillögurétt. Þetta ákvæði 9. gr. tel ég mjög mikilvægt. Leikskólar eiga að starfa í sérstakri nefnd. Sveitarfélögum er einnig gefinn kostur á að

sameina tvær nefndir, t.d. leikskóla- og grunnskólanefndir. Það tel ég að sé mjög heppilegt form fyrir minni sveitarfélögin að þau geti sameinað leikskólanefnd og grunnskólanefnd vegna þess að einhver sveitarfélög koma til með að segja að vegna smæðar þeirra sé mjög erfitt að koma því fyrir að setja á stofn leikskólanefnd. En þarna fá þær kjörið tækifæri til að sameina tvær nefndir, leikskólanefnd og grunnskólanefnd, og það er ekkert annað en hið besta mál þó að ég telji að það sé mun mikilvægara að sveitarfélögin hafi eftir fremsta megni sínar sérstöku leikskólanefndir. Þetta er bara hið besta mál og í 9. gr. er skýrt kveðið á um það hvaða nefndir eiga að fjalla um málefni leikskólans.
    Ég tel mjög mikilvægt, eins og kemur fram í 9. gr., að gefa fulltrúum foreldra og starfsfólks kost á því að sitja nefndarfundi. Þar með tengjast þeir þeim ákvörðunum sem skipta þá aðila yfirleitt mestu máli. Það er að mínu viti og margra annarra full þörf á því að gefa foreldrunum aukinn rétt á því að tengjast inn í umræðu um leikskólann þar sem allar stefnumótandi ákvarðanir varðandi leikskólann eru teknar. Þetta er einn hlekkur í því að virkja það samstarf sem þarf að vera milli foreldra og starfsfólks annars vegar og sveitarfélagsins hins vegar. Þegar leikskóla- og grunnskólanefndir starfa eins og ein nefnd, eins og nú er gert í nokkrum sveitarfélögum, myndast einnig heildstæð stefnumótun milli tveggja mikilvægra skólastiga hjá barninu. Í þessu felst sú stefna sem tekin var með lögunum um leikskóla frá því árið 1991 að leikskólinn sé fyrsta skólastig barnsins.
    Ég vil einnig minna á það sem stendur í ákvæði til bráðabirgða að í lögum þessum tekur starfsheitið leikskólakennari til þeirra sem lokið hafa fóstrunámi. En fóstrur greiddu nýverið um það atkvæði að breyta starfsheiti sínu í leikskólakennara. Ég tel það vera eðlilegt framhald af því að nú tölum við um leikskóla sem samheiti yfir það sem áður var dagvistarheimili, barnaheimili og leikskóli. Þetta er nokkuð sem hefur ekki skilað sér úti í þjóðfélagsumræðuna. Það er allt of oft sem fjölmiðlar t.d. og ég hef jafnvel heyrt það á hinu háa Alþingi að menn eru að tala um dagvistarheimili, um barnaheimili, og það á ekkert við. Við tölum núna um, og það gerðist með setningu laganna frá 1991, leikskóla, um leikskólarými, um leikskólastjóra, yfirmaður leikskóla er leikskólastjóri og það er eðlilegt að fóstrur noti orðið leikskólakennari.
    Virðulegur forseti. Vissulega væri ástæða til að fara hér út í nánari umræðu um uppeldisgildi leikskóla og leikskóla sem menntastofnun. Það væri einnig ástæða til að fara enn frekar inn á umræðu um uppbyggingu og framtíðarmarkmið okkar með leikskólum. Það er allt of sjaldan að mínu mati sem þessi mikilvægu mál eru til umfjöllunar í sölum Alþingis en það bíður betri tíma.
    Ég hef hér farið yfir það helsta í þessu frv. Ég vona að frv. fái málefnalega umræðu og verði afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir þinglok.