Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd, svar landbrh. við fyrirspurn

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 13:52:53 (6653)


[13:52]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með þeim sem hér hafa vakið athygli á mikilvægi þessa máls og það er leitt ef það strandar á ágreiningi í ríkisstjórninni. Ég vil hins vegar mótmæla því að það standi að nokkru leyti á Framsfl. Hins vegar hafa nokkur ákvæði þessa máls verið til umræðu fyrr, sérstaklega gagnvart stjórnarskránni og eignarréttur gagnvart stjórnarskránni sem mér hefur skilist að hafi ekki verið leystur og það er kannski það atriði sem einstakir þingmenn Framsfl. hafa bent á. En ég vil fullvissa þingheim um það að Framsfl. stendur heils hugar að því að þetta mál verði leyst þannig að þessar mikilvægu orkulindir verði á innlendum höndum. Á því er ekki nokkur minnsti vafi og ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram um seinagang. Ef þarna eru einhver tæknileg atriði sem valda vandræðum, þá verður vitanlega að setjast niður hið fyrsta og leysa þau. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert. Það mun einhver frestur vera, en hann rennur fljótlega út.