Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:26:09 (7989)


[16:26]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Hæstv. forseti. Þótt vissulega sé tilefni til að halda hér langt mál um stöðu lífeyrissjóðanna almennt og um stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna og um forsögu þess máls hvernig til kom þessi 60 ára regla þá ætla ég að stytta mál mitt með tilliti til þess sem bent var réttilega á að það eru orðnir fáir í þingsalnum og komið að lokum þingstarfa.
    Ég get þó ekki látið hjá líða að byrja á því að taka upp þráðinn þar sem hv. 14. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, talaði hér af miklum fjálgleik um lífeyrissjóðinn og hneykslan sína á því hvernig að málum væri staðið, fortíð sjóðsins og hversu lítið hann greiddi almennt út og undraðist mjög hvernig menn voguðu sér að standa svo að málum Lífeyrissjóðs sjómanna með þeim smánargreiðslum sem inntar væru af hendi þar.
    Hún minntist hins vegar ekki á það hafandi setið hér líklega í 14 ár að Lífeyrissjóður alþingismanna gefur miklu meiri rétt en almennt þekkist á vinnumarkaðnum og ekkert við því að segja annað en að þau lög hafa verið svo frá gengin og hafa verið lengi við lýði þannig. Fyrir hvert fjögurra ára tímabil alþingismanna þá vinna þeir sér inn rétt sem samsvarar sex árum opinberra starfsmanna. En hún sleppti því. Ekki trúi ég því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir viti ekki meira en það um sín eigin lífeyrissjóðsmál. ( Gripið fram í: Því trúi ég.) Nei, ég trúi því ekki. Menn voru að undrast að Lífeyrissjóður sjómanna skyldi hafa verið fluttur úr Tryggingastofnun ríkisins. Forsaga stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna innan Tryggingastofnunar ríkisins er nokkuð löng. En í örstuttu máli þetta: Þegar sjómenn og útvegsmenn tóku sig saman og gerðu samning um stofnun lífeyrissjóðs þá voru nánast engar launahækkanir hjá sjómönnum eftir sjö vikna verkfall vegna stofnunar Lífeyrissjóðs sjómanna sem stofnaður var 1957. Vandinn hins vegar sem þá kom upp var sá hvar ætti nú að finna þessum króa þak yfir höfuðið og það tókust menn verulega á um, bæði útgerðarmenn og sjómenn. Sérstök nefnd var sett á laggirnar til að finna friðsamlega lausn og eina gráa svæðið sem menn fundu var innan veggja Tryggingastofnunar ríkisins. Og þar hefur um langan tíma Lífeyrissjóður sjómanna verið eins og hálfgert olnbogabarn. Þegar síðan tekin var sú ákvörðun með breytingu á lögum frá 1992 um að flytja lífeyrissjóðinn annað þá kom eitt og annað í ljós sem betur hefði verið haldið á af stjórnendum sjóðsins sjálfs heldur en láta aðila innan Tryggingastofnunar ríkisins sjá um þá hluti. Ég er þá ekki að tala um innheimtumálin heldur um útgáfu örorkubóta og örorkuvottorða sem þegar grannt var skoðað voru alls ekki í lagi og var farið nokkuð frjálslega með.
    Það er talað um hvað gangi forustumönnum sjómanna til með því að samþykkja að lögum verði breytt svo hægt sé að koma á reglugerð eins og allir aðrir sjóðir hafa gert? Þeim gengur það eitt til að vera ábyrgir verka sinna og ábyrgir gerða sinna vegna þess að það er eitt mál hér sem ekkert hefur verið komið inn á og það er sá alvarlegi þáttur sem snýr að Lífeyrissjóði sjómanna umfram alla aðra sjóði, það er örorkulífeyririnn, það er örorkan. Árið 1993 var greitt í örorkulífeyri 220 millj. kr. en í ellilífeyri 194 millj. kr. Þannig að menn sjá að hverju stefnir. Og af því að ég sé að hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, er kominn í salinn þá held ég að ég megi til með að rifja upp nokkur atriði varðandi 60 ára regluna og tilurð hennar. Það vill nefnilega svo vel til eða illa að ég var þá einn af forsvarsmönnum forustumanna sjómanna í samningum þegar verið var að ræða um þessa 60 ára reglu. Hvers vegna kom hún til? Jú, vegna þess að 1979 var þáv. ríkisstjórn að deila út félagsmálapökkum og enginn félagsmálapakki hafði þá komið til sjómanna. Haft var þá á orði við samninganefnd sjómanna hvort það væri ekki eðlilegt og rétt að þeir kæmu inn í þessa mynd og fengju félagsmálapakka. Jú, það var upplagt og lausnin var þessi: Það væri eðlilegt að í félagsmálapakka sjómanna kæmi m.a. þessi réttur að þeir mundu njóta lífeyris við 60 ára aldur

eftir 25 starf á sjó. En ég átti líka orðastað við þáv. hv. félmrh., ef ég man rétt, núv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, ásamt Ingólfi Ingólfssyni, þáverandi formanni Vélstjórafélags Íslands, um það hvernig ríkið ætlaði, vegna þessa félagsmálapakka sem talið var að við værum að fá, að mæta þessari auknu skuldbindingu lífeyrissjóðsins. Hvernig hygðist ríkið mæta þessari skuldbindingu vegna þess að okkur var það alveg ljóst að Lífeyrissjóður sjómanna stæði ekki undir þessum þunga sem á hann var lagður. Mér er það minnisstætt að þá fóru fram orðaskipti eitthvað á þann veg, og ég held ég fari með þau nærri orðrétt: Ráðherra, við viljum fá ávísun hjá þér vegna þess kostnaðarauka sem hlýst af þessari 60 ára reglu. Svar ráðherrans var: Ég læt ykkur ekki hafa óútfyllta ávísun vegna þessa kostnaðarauka lífeyrissjóðsins. Ég vil fyrst fá að sjá hver kostnaðurinn verður áður en ég fylli út ávísunina. ( SvG: Ábyrgur ráðherra, greinilega.)
    Þannig voru þessi mál. Hvergi var þetta hins vegar sett niður á blað, því miður, og hvergi er að finna neitt sem hendi er á festandi um það hvort ríkið sé ábyrgt gerða sinna þegar þessi félagsmálapakki var réttur sjómönnum, sem betur hefði líklega aldrei verið opnaður vegna þess að sjómenn hefðu getað samið við sig sjálfir um þetta atriði.
    Það var líka athyglisvert að lesa ræðu hv. 9. þm. Reykv. þegar hann fer svo frjálslega með það að Lífeyrissjóður sjómanna sé rekinn með sérstökum hætti og, með leyfi forseta, ( Gripið fram í: Ekki áttundi, var það?) ( Gripið fram í: Var hann ekki heilbr.- og trmrh.?) ( SvG: Hann er að hækka mig í tign.) þar segir hv. þm. Svavar Gestsson:
    ,,Þegar frá þessu máli var gengið var það alveg ljóst öllum þeim sem að því stóðu að hér væri auðvitað um að ræða tilteknar skuldbindingar sem Lífeyrissjóður sjómanna og ríkissjóður var að taka á sig. Lífeyrissjóður sjómanna annars vegar vegna sjálfs síns og hins vegar ríkissjóður vegna almannatrygginganna og framkvæmd þeirra laga.``
    Það var bara hluti af málinu, hv. þm. ( SvG: Það var staðið við það.) En þú hefðir betur komið inn á hinn hlutann þar sem talað var um líka að ríkissjóður ætlaði að standa straum af þeim kostnaðarauka sem hlytist vegna 60 ára reglunnar. ( SvG: Ertu að segja að það hafi verið lofað fé úr ríkissjóði? Er þingmaðurinn að segja það?) Ég hef borið það sem ég hef sagt hér undir fyrrv. aðstoðarmann ráðherra, Arnmund Backman, og hann hefur staðfest það sem ég hef sagt að þessi orðaskipti fóru fram. (Gripið fram í.)
    Varðandi það sem hér kemur síðan fram um fullyrðingar Svavars Gestssonar um það að Lífeyrissjóður sjómanna sé einn af fjárfrekustu lífeyrissjóðum hvað rekstur varðar þá rek ég það til föðurhúsanna aftur vegna þess að hér eru frá Seðlabanka Íslands upplýsingar um rekstur lífeyrissjóðanna. Þá kemur í ljós að Lífeyrissjóður sjómanna er þriðji lægsti sjóðurinn hvað rekstur varðar af líklega einum 25 sjóðum sem hér er um getið. ( SvG: Hvenær?) Þetta er vegna reksturs 1992 og ég get lánað hv. þm. þessar tölur vegna þess að þegar menn ætla að blanda saman, eins og hér kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur áðan, rekstri og fasteignakaupum þá eru menn náttúrlega að bera saman tvo óskylda hluti.
    En allt um það. Ég held að það sé sá hluti sjóðsins sem tryggingafræðingar hafa sagt okkur að sé það erfiðasta í málinu og rekstri lífeyrissjóðsins það er að hann byrjar að greiða lífeyri 10 árum fyrr en aðrir sjóðir og það er kannski það sem er mest íþyngjandi fyrir sjóðinn. Þess utan er Lífeyrissjóður sjómanna þannig til kominn að hann greiðir hæstu örorku miðað við lífeyri sem fyrirfinnst hjá öðrum sjóðum í landinu.
    Þótt hér liggi fyrir frv. til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna sem síðar mun verða gefin út reglugerð um varðandi þær skuldbindingar sem sjóðurinn mun taka á sig vegna sjóðfélaga þá er samkomulag um að reglugerðin muni ekki taka gildi fyrr en á haustdögum eða næsta vetur að fenginni yfirferð og umsögn sjómannasamtakanna, efh.- og viðskn. og fjmrn. þannig að ég mun beita mér fyrir því að sættir muni verða sem næstar öllum þeim sem um þetta mál munu fjalla og beita mér fyrir því að skerðingar verði ekki meiri en það sem menn geta sætt sig við og þá í harmoníu við það sem gerist hjá öðrum og hefur gerst hjá öðrum lífeyrissjóðum hér í landi.