Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:14:40 (379)


[15:14]
     Steingrímur Hermannsson :

    Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að við fáum að heyra í hæstv. utanrrh. áður en þessu lýkur. Í raun og veru ætla ég að segja mjög svipað og hv. formaður utanrmn. Ég held að við í nefndinni og reyndar þingið hljóti að gera kröfu til þess að staðið sé við það ákvæði laga að virða utanrmn. þess að skýra henni frá því a.m.k. hver er tillaga hinnar íslensku ríkisstjórnar í þessu máli þótt orðið verði við ósk Bandaríkjamanna um trúnað gagnvart þeirra tillögum. Ég hygg að engum þeim er les leiðara Morgunblaðsins í morgun dyljist að hér er satt að segja orðið hið furðulegasta mál úr þessu alvarlega og stóra máli, dvöl varnarliðsins hér á landi. Leiðari Morgunblaðsins rekur þetta ítarlega og segir síðan að það verði að hafa það, ef utanrrh. og forsrh. viti ekki staðreyndir málsins, Morgunblaðið viti hvað er rétt í þessu máli. Hverju eigum við að trúa?
    Ég held að það sé alveg hárrétt sem hv. formaður utanrmn. sagði áðan að slík umræða um þetta mál hlýtur að stórskaða það. Ekki aðeins er þetta erfitt fyrir þá hina ýmsu sem eiga hagsmuna að gæta í þessu sambandi heldur er hér um svo stórt mál fyrir þjóðina alla að ræða það má ekki fá þá umfjöllun sem það hefur fengið í skrifum blaða og orðum þeim sem hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. hafa látið um það fjalla.
    Ég skal viðurkenna að ég hef heldur tilhneigingu til að trúa Mogganum. Að minnsta kosti þar til ég heyri annað betra. Þetta er langtum betur rakið og ítarlegar í Morgunblaðinu og virðist vera byggt þar á einhverjum upplýsingum sem ætla má að séu traustar. A.m.k. hlýt ég að gera það þar til hæstv. utanrrh. léttir þessari leynd og upplýsir okkur a.m.k. utanríkismálanefndarmenn og helst þjóðina alla um sannleika málsins.