Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 11:14:51 (1069)

[11:14]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig koma þær breytingar sem hér eru lagðar til ekki á óvart. Við gerðum okkur að sjálfsögðu grein fyrir þessu þegar samningurinn um EES var afgreiddur hér á Alþingi. Engu að síður hljóta að vakna upp ýmsar spurningar um það hvernig gætt er þess öryggis, vil ég segja, gagnvart íslenskum auðlindum og atvinnurekstri sem lá til grundvallar þegar lögin frá 1991 voru afgreitt á Alþingi. Við undirbúning þeirra laga var vandlega skoðað hvernig við Íslendingar gætum viðhaldið okkar eignarrétti yfir auðlindum og haldið þannig í okkar eigin hendi því sem telja má lykilinn að efnahagslegu sjálfstæði þessarar þjóðar. Að sjálfsögðu fagna ég því að sú undanþága fékkst í EES-samningnum að erlend fjárfesting í sjávarútvegi og frumvinnslu sjávarafurða er áfram ekki leyfð eða það fékkst undanþága sem heimilar okkur að halda því svo. Hins vegar var, man ég, þegar upphaflegu lögin voru samþykkt mjög um það rætt hvort of ströng ákvæði giltu um heimildir til erlendra aðila til að eignast hlut, jafnvel meiri hluta eða ráðandi hlut í íslenskum fyrirtækjum sem aftur eiga mikinn hlut í íslenskum sjávarútvegi og geta vitanlega með tímanum þar orðið ráðandi. Hér er slakað á þessu, það er viðskrh. sem getur, eins og hér er orðað, úrskurðað að slíkt fyrirtæki sem verður í eigu erlendra aðila að einhverju leyti skuli losa sig við hlut sinn í sjávarútvegi.
    Það vekur vitanlega upp fjölmargar spurningar að hér koma ekki fram neinar leiðbeiningar til viðskrh. um það hvernig á þetta skuli litið og reyndar hefði ég talið að þarna kunni að verða um mjög vandmeðfarin mál að ræða. Því er ekkert að neita að mörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa leitað eftir þátttöku í óskyldum fyrirtækjum eða fyrirtækjum sem þau eiga mikil viðskipti við. Við skulum taka t.d. olíufélögin. Olíufélögin eiga áreiðanlega sum orðið stóra eignarhluta í ýmsum mikilvægum sjávarútvegsfyrirtækjum og olíufélögin sum, ef ég veit rétt, eru með erlendri eignaraðild. Það er ekkert sem bannar það að sú erlenda eignaraðild geti orðið miklu meiri. Það væri fróðlegt t.d. að heyra hvernig núverandi viðskrh. lítur á slíkt. Mundi hann beita þessari heimild til þess að skylda olíufélögin til að losa sig við eignarhlut sinn í sjávarútvegsfyrirtæki? Vitanlega tryggir það ekki að svo yrði gert um alla framtíð því væntanlega kemur annar viðskrh. einhvern tímann, sumir segja vonandi sem fyrst en ég ætla ekkert út af fyrir sig að fara að segja það. En það væri fróðlegt að heyra það hvernig núv. hæstv. viðskrh. lítur á þessa

heimild og hvernig hann mundi beita henni í tilfellum sem við höfum þegar fyrir framan okkur.
    Mér er ljóst að á þetta hefur verið nokkur þrýstingur t.d. við samning upphaflegs frv. sem varð að lögum 1991, þá var töluverður þrýstingur þarna á og margir sem töldu að þetta ákvæði mundi torvelda olíufélögum í mörgum tilfellum að hlaupa undir bagga með því að breyta skuldum sjávarútvegsfyrirtækja í hlutafé. Þarna er því um mjög viðkvæmt atriði að ræða.
    Þá vil ég minnast á 3. tölul. 2. gr. um virkjunarréttindi sem að sjálfsögðu við afgreiðslu EES-samningsins var töluvert rætt og ég gerði miklar athugasemdir við. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé opnað fyrir mjög hættuleg hugsanleg yfirráð erlendra aðila á íslenskum auðlindum, þessari mikilvægu auðlind vatnsafli og jarðvarma. Nú sagði hæstv. viðskrh. áðan að í undirbúningi væru frumvörp sem ættu að tryggja að þetta yrði um alla ævi í eigu Íslendinga. Ég fagna því. Ég held hins vegar að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar hljóti að afla sér upplýsinga um þau frumvörp og það væri út af fyrir sig mjög æskilegt ef hæstv. viðskrh. gæti sagt okkur hvernig frá þessu verður gengið. Nú er það svo að til að virkja yfir ákveðin megavött, ég man ekki hvort það voru tvö eða þrjú þúsund megavött, þá þarf heimild á Alþingi. Stenst það? Ég vona að það standist og ég man ekki betur en að í umræðum EES byggðu menn helst von sína á áframhaldandi yfirráðum Íslendinga yfir þessum mjög verðmætu náttúruauðlindum á slíku ákvæði. En sem sagt, ég vildi mjög gjarnan fá að heyra frá hæstv. viðskrh. hvernig hann hyggst tryggja þetta um alla eilífð.
    Hér er breytt ákvæði um heimild erlendra aðila til að eignast hlut í íslenskum viðskiptabönkum, það verður frjálst frá og með 1. janúar 1996 en nú er það takmarkað við 25%. Út af fyrir sig geri ég ekki þungar athugasemdir við þetta en vil þó í þessu sambandi nefna að uppi hafa verið hugmyndir hjá ríkisvaldinu um að einkavæða bankana sem mundi þá geta orðið til þess að erlendir aðilar eignuðust hér ríkisbankana t.d. sem nú eru. Ég vildi gjarnan heyra viðhorf hæstv. viðskrh. til þess, telur hann það æskilega þróun að þessir tveir viðskiptabankar ríkisins féllu í hendur erlendra aðila? Ég þarf vonandi ekki að taka það fram að ég tel það afar óæskilegt og tel það lágmark að við Íslendingar höfum í eigin hendi einn öflugan ríkisbanka. Ég hefði reyndar gjarnan viljað sameina þá tvo sem nú eru til að fá þar öflugri banka. Ég vil gjarnan spyrja hvort þessi breyting á lögum, ég held ég leyfi mér að segja breyti eitthvað þeim viðhorfum sem komi þar fram hjá hæstv. ríkisstjórn og m.a. alþýðuflokksmönnum að einkavæða eigi báða bankana.
    Mér láðist að geta þess áðan í sambandi við fallvötnin, orkulindirnar, að í svokallaðri hvítu bók ríkisstjórnarinnar er talað um einkavæðingu orkufyrirtækjanna sem þá mundi að sjálfsögðu gera erlendum aðilum kleift að eignast þessar virkjunarheimildir þannig að þá yrði það þar með alveg opið. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé hlynntur því að einkavæða orkufyrirtækin eins og boðað var. Það er vitanlega nauðsynlegt fyrir þingið að heyra hvort þessi nýju frumvörp hæstv. ráðherra girði á einhvern máta fyrir það að verði orkufyrirtæki einkavædd, t.d. Landsvirkjun, gert að hlutafélagi, girða þau á einhvern máta fyrir það að einstakir hluthafar í slíku hlutafélagi geti selt sitt hlutafé erlendum aðilum. Vel má vera að hann geri ráð fyrir ákvæði þess efnis að ríkið megi ekki selja sinn hlut t.d. í slíku einkafyrirtæki eins og Landsvirkjun hf. ef úr því yrði, en hver bannar að aðrir aðilar geri það eins og t.d. Reykjavíkurborg sem á þarna gífurlega stóran hlut? Ég hugsa að það yrði erfitt að banna það með lögum að aðrir aðilar en hið opinbera megi selja sinn hlut svo mér finnst það vera afar forvitnilegt satt að segja hvernig hæstv. ráðherra hyggst koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti nokkru sinni, eins og hann orðaði það nokkurn veginn, eignast hér orkulindir landsins. Ég held að þetta sé það atriði sem langstærst er í þessu frv. satt að segja og svo vitanlega hitt hvernig t.d. þessi heimild ráðherra til að skylda fyrirtæki til að selja hlut sinn í sjávarútvegsfyrirtækjum yrði í raun og veru nýtt.
    Ég ætla aðeins að minnast á 10. gr. Þar er því breytt að Alþingi kjósi nefnd. Þetta var mikið til umræðu á sínum tíma og sýndist sitt hverjum satt að segja. Niðurstaðan varð sú að það væri hér um svo viðkvæm mál að ræða sem varða svo miklu í þjóðfélaginu að það væri æskilegt að Alþingi hefði þarna aðgang að. Ég hefði ekki talið óeðlilegt að þessi nefnd fjallaði einnig um ákvæði 1. og 2. liðs 2. gr., þ.e. heimild viðskrh. til að skylda fyrirtækin til að selja eignarhlut sinn í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þarna er um mjög viðkvæmt mál að ræða sem væri æskilegt að fleiri aðilar kæmu að. Ég held satt að segja að framkvæmd á þessu ákvæði verði afar erfið og hvernig hægt er að heimila einu fyrirtæki að eiga en öðru ekki sem ég ræddi um áðan. Ég held að það verði afar erfið ákvörðun og æskilegt að fleiri aðilar komi þar að.
    Hér er gert ráð fyrir upplýsingaskyldu til Alþingis og það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert. Það er afar mikilvægt að vel sé fylgst með því hver eignarhlutur erlendra aðila er í atvinnurekstri hér á landi. Ég hygg að þar sé mjög pottur brotinn, a.m.k. minnist ég þess þegar um þetta var spurt í fyrri ríkisstjórn og leitað upplýsinga að þá gekk afar illa að fá þær upplýsingar, mjög illa, og virtist ekki vera skráð hér eins og gera má ráð fyrir, svo enginn vafi er á því að þessu þarf mjög að breyta.
    Ég vil taka það fram að lokum að ég er hlynntur því að hér verði aukin þátttaka erlendra aðila í atvinnurekstri með takmörkunum að sjálfsögðu og tel satt að segja að sú leið kunni helst að verða fær þegar erlendar skuldir hafa vaxið svo mikið sem við þekkjum núna, þær eru að verða 60% af þjóðarframleiðslu og greiðslubyrðin orðin svo þung að hún er mjög mikið áhyggjuefni eða 35% gjaldeyristekna. Þess vegna get ég vel fallist á að rýmka viss ákvæði. Hitt er svo umhugsunarefni að þrátt fyrir það að menn hafa verið að rýmka þessi ákvæði og ræða við erlenda aðila hefur ekkert orðið af erlendri fjárfestingu hér.

Mig langaði til að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi lesið frétt sem er í dagblaðinu Tímanum í morgun og fjallar um stöðu Íslendinga þegar lönd eru metin með tilliti til erlendra fjárfestinga. Þar kemur fram að Ísland er í neðsta flokki með Grikklandi og Tyrklandi og það vekur athygli mína að eitt af því neikvæðasta hér er stjórnarfarið samkvæmt þessu mati hins virta blaðs Economist. Ég held að það sé ástæða fyrir hæstv. ríkisstjórn að taka þetta til athugunar hvað er t.d. hér við stjórnarfarið sem fælir erlenda fjárfesta frá að koma hingað til lands. Satt að segja tel ég að svo mikilvæg sé skikkanleg erlend fjárfesting hér í atvinnurekstri að það væri full ástæða fyrir hæstv. viðskrh., sem ég veit að er áhugamaður um slíka hluti, að taka svona frétt til vandlegrar skoðunar og e.t.v. má læra eitthvað af þessu mati blaðsins. Nú tek ég það fram að ég hef ekki séð þessa grein í Economist en allir þekkja að Economist er mjög virt tímarit. Það er alltaf verið að setja upp einhverjar nefndir sérfræðinga og það væri kannski ástæða til að setja upp nefnd til að skoða þetta og mætti eflaust fá gleggri upplýsingar frá þeim aðilum sem þetta hafa unnið fyrir þetta tímarit á hverju þeir byggja niðurstöður sínar. Ef þetta orðspor fer af Íslandi sem fjárfestingarmöguleika þá skiptir kannski litlu máli hvernig lög eru sett af Alþingi.
    Ég vildi nú, af því að við erum að ræða hér um erlenda fjárfestingu sérstaklega, minnast á þetta. Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. viðskrh. hafi út af fyrir sig svör við þessu, en fróðlegt væri að vita hvort hann hefur ekki áhyggjur af svona flutningi virts blaðs af erlendum fjárfestingarmöguleikum hér á landi.