Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 11:24:51 (1549)

[11:24]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með virðulegum forseta Alþingis að sú mikla bók sem liggur hér fyrir ber þess glöggt vitni að starf umboðsmanns var nauðsynlegt og er orðið ákaflega viðamikið. Það er fróðlegt að kynna sér þau mörgu málefni sem þarna koma fyrir.
    Þegar ég á sínum tíma lagði fyrir Alþingi frv. til laga um umboðsmann Alþingis var mér ljóst að stjórnsýslulög þyrftu að fylgja og lagði reyndar fram einnig frv. um stjórnsýslulög. Það náði ekki fram að ganga. Hins vegar hefur núv. hæstv. forsrh. lagt fram og fengið samþykkt slík lög og vil ég fagna því.
    Mér er alveg ljóst að þetta tvennt þarf mjög að haldast í hendur. En ég vil einnig taka undir það sem kom fram áðan í upphafsorðum um þessa skýrslu frá virðulegum forseta að það kann að vera nauðsynlegt að setja á stofn einhvers konar siðanefnd sem fylgist með framkvæmd stjórnsýslulaga og framkvæmd á ýmsum úrskurðum umboðsmanns Alþingis. Reyndar hef ég verið nokkuð lengi þeirrar skoðunar að framkvæmdarvaldið ætti sjálft að setja sér eins konar siðareglur sem gangi jafnvel töluvert lengra en stjórnsýslulög út af fyrir sig ákveða, þurfi ekki að vera lögbundið en ættu þó að vera reglur sem stranglega er framfylgt. Ég vildi koma þessari hugmynd á framfæri.
    En það er annað atriði sem þó varð til þess að ég bað um orðið og það er það sem kemur fram í inngangsorðum skýrslu umboðsmanns Alþingis þar sem hann ræðir um bréfaskriftir sínar við fjmrn. út af úrskurði um ólögmæta gjaldtöku, kemur fram á bls. 228 og 229 í skýrslunni. Skrifstofustjóri fjmrn. var að því spurður hvort gæti orðið um endurgreiðslu á þessari ólögmætu gjaldheimtu að ræða. Það kemur fram í svari skrifstofustjórans að umboðsmaðurinn er ekki dómstóll og því beri ráðuneytinu ekki skylda til að endurgreiða.
    Síðan fara þarna á eftir nokkrar bréfaskriftir um þetta mál og ekki kemur fram hvort um endurgreiðslu hafi orðið að ræða en hins vegar að fjmrn. endurskoði sína gjörð að því leyti að það gaf út nýja reglugerð og að því er mér skilst felldi niður gjaldtöku fyrir tollskýrslur. Það er út af fyrir sig spor í rétta átt. En þarna vaknar sú spurning hvernig það verður leiðrétt sem ranglega var gert. Mig langar satt að segja, af því að hæstv. fjmrh. er hér, til fróðleiks að fá upplýst hvort um endurgreiðslu á þessari ólögmætu skattheimtu eða gjaldtöku varð að ræða í raun. Báðu einhverjir um slíka endurgreiðslu?
    Ég get reyndar nefnt fleiri slík mál. Ég sá t.d. nýlega úrskurð umboðsmanns Alþingis, sem reyndar er á þessu ári, frá því í ágúst sl., og varðar þá ákvörðun hæstv. utanrrh. að meina fyrirtæki sem hafði annast sorphreinsun fyrir varnarliðið að bjóða í það verk þegar samningurinn kom til endurnýjunar. Umboðsmaður Alþingis úrskurðar að hér hafi verið um óeðlilega valdbeitingu að ræða, þ.e. hæstv. utanrrh. eða menn í hans umboði ákváðu svo að varnarliðið skyldi semja við nýjan aðila um þessa sorphreinsun og meinuðu þrátt fyrir beiðni þeim sem var með sorphreinsun áður að bjóða í það verk. Úrskurður umboðsmanns er mjög skýr og raunar mætti kalla að úrskurðurinn sé að þar er um valdníðslu að ræða.
    Mig langar einnig, fyrst hæstv. utanrrh. er hér staddur, að spyrja hann hvort hann sjái ekki sóma sinn í því að leiðrétta þetta og óska eftir því við varnarliðið að þetta verk verði þegar boðið út. Vitanlega er það sú eina siðferðislega gjörð sem getur leiðrétt það sem þarna var ranglega gert. Þetta vekur jafnframt upp þá almennu spurningu hvernig Alþingi ætlar að sjá til þess að leiðrétt verði aftur í tímann það sem ranglega hefur verið gert. Mundi það falla undir slíka siðferðisnefnd sem virðulegi forseti nefndi áðan eða er ekki orðin ástæða til að hv. allshn. skoði málin einnig út frá þessum sjónarhóli? Vildi ég gjarnan heyra svör hv. formanns nefndarinnar við þeirri spurningu.