Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 3 . mál.


3. Tillaga til þingsályktunar



um gæslu íslenskra hafsbotnsréttinda.

Flm.: Eyjólfur Konráð Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja fast eftir, á grundvelli ítrekaðra ályktana Alþingis, réttmætum kröfum Íslendinga til hafsbotnsréttinda á Reykjaneshrygg og Rockall-svæðinu í nær tvo áratugi. Sérstaklega sé nú gætt íslenskra hagsmuna vegna nýlegra fregna af athöfnum Breta og Færeyinga.
    Jafnframt ályktar Alþingi að kjósa sjö alþingismenn hlutbundinni kosningu til að starfa með ríkisstjórninni að framgangi málsins.

Greinargerð.


    Mál þetta á sér langa forsögu. Flutt var tillaga til þingsályktunar á 100. löggjafarþingi (1978–1979) um landgrunnsmörk Íslands til suðurs. Flutningsmenn voru Eyjólfur Konráð Jónsson o.fl. Var hún svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að mótmæla nú þegar öllum tilraunum Breta til að reyna að slá eignarhaldi á klettinn Rokk (Rockall).
    Alþingi lýsir því jafnframt yfir, að ákvörðun ytri landgrunnsmarka Íslands til suðurs miðast við, að engri þjóð beri tilkall til Rokksins.“
    Í greinargerð með tillögunni sagði:
    „Ríkisstjórn Stóra-Bretlands hefur gert tilraun til að slá eignarhaldi Breta á klettinn Rockall í þeim tilgangi að teygja yfirráð þeirra út á hafsbotnssvæði, sem tilheyrir Íslendingum eftir þeim þjóðréttarreglum, sem nú eru í mótun. Öllum slíkum tilraunum ber þegar í stað að mótmæla, enda þótt sker þetta mundi ekki fá sjálfstæða efnahagslögsögu eftir þeim reglum, sem nú eru skráðar í uppkasti að hafréttarsáttmála.
    Þegar fiskveiðilögsaga Íslands var loks færð út í 200 mílur, var þess að sjálfsögðu gætt, að engin skerðing yrði á henni vegna Rokksins. Bretar viðurkenndu síðan fiskveiðitakmörk Íslands skv. reglugerð frá 15. júlí 1975 með Oslóarsamkomulaginu 1. júní 1976 og staðfestu þar með, að engin efnahagslögsaga ætti að vera út frá Rokknum, þótt þeir teldu klettinn tilheyra sér. Ljóst er því, að nibba þessi getur ekki skert ytri landgrunnsmörk Íslands, fremur en efnahagslögsöguna.“
    Fyrsti flutningsmaður tillögunnar (Eyjólfur Konráð Jónsson) sagði m.a. í framsögu með tillögunni: „ . . .  vart getur farið á milli mála að ágreiningur verður milli Breta, Íra, Færeyinga og Íslendinga um ákvörðun ytri landgrunnsmarka langt suður af Íslandi og þær réttarreglur sem ákvörðun slíkra marka mun hlíta.   . . .  Rétt er að Íslendingar taki af öll tvímæli um að þeir viðurkenna ekkert tilkall Stóra-Bretlands til Rokksins, því að bein eða óbein viðurkenning á tilkalli Breta til þessarar nibbu gæti firrt okkur rétti þegar við gætum hagsmuna okkar á umræddu hafsvæði.“
    Tillögunni var vísað til utanríkismálanefndar sem varð sammála um að leggja til að henni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar svo breyttri:
    „Alþingi lýsir því yfir, að ytri landgrunnsmörk Íslands til suðurs verði ákveðin án tillits til klettsins Rockall og að samvinna verði höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnssvæðinu utan 200 sjómílna marka landanna.“
    Það var samþykkt og var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar 22. desember 1978.
    Þess má geta að þrjú fyrstu þingmál 100. löggjafarþings fjölluðu öll um hafréttarmál en auk tillögu til þingsályktunar um landgrunnsmörk Íslands til suðurs fluttu Eyjólfur Konráð Jónsson o.fl. tillögu til þingsályktunar um rannsókn landgrunns Íslands og tillögu til þingsályktunar um samninga við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi.
    Þá var flutt tillaga til þingsályktunar á 102. löggjafarþingi (1979–1980) um hafsbotnsréttindi Íslands og samvinnu við Færeyinga. Voru flutningsmenn Eyjólfur Konráð Jónsson o.fl. Var tillagan svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja fast eftir kröfum þeim, sem Íslendingar settu fram með ályktun Alþingis 22. des. 1978, til hafsbotnsréttinda sunnan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands, í fullri samvinnu við Færeyinga.
    Alþingi mótmælir öllum tilraunum Breta og Íra til að teygja hafsbotnsréttindi sín til vesturs út fyrir 200 mílur. Sérstaklega er mótmælt fyrirætlunum þeirra um að fela gerðardómi að fjalla um svæði, sem Íslendingar og Færeyingar telja tilheyra sér.
    Alþingi lýsir yfir, að það telur unnt að leysa mál varðandi yfirráðarétt þessa hafsbotnssvæðis milli Íslendinga og Færeyinga, annaðhvort með sameiginlegum yfirráðum eða skiptingu svæðisins.
    Er ríkisstjórninni heimilað að semja um, að gerðardómur ákveði skiptingu svæðisins milli Íslendinga og Færeyinga, ef Færeyingar æskja þess frekar en skipta því með samningum.
    Áður en til þess kemur, er ríkisstjórninni þó falið að taka upp viðræður við Breta og Íra til að leitast við að leysa ágreiningsefnin með samningum þessara fjögurra þjóða. Skal viðræðum þessum hraðað, þannig að niðurstaða liggi fyrir áður en fundir hafréttarráðstefnunnar hefjast í Genf í sumar.“
    Í greinargerð sagði m.a.:
    „Reglur um hafsbotnsréttindi strandríkja utan 200 sjómílna efnahagslögsögu eru nú í mótun, m.a. á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ljóst er að um víðtæk réttindi verður að ræða, sem skipt geta Íslendinga miklu máli á svæðinu suður af Íslandi. Rétt er því að við mörkum skýra og ákveðna stefnu á þessu sviði hafréttarmálanna, svo að engum geti dulist hvaða kröfum við hyggjumst fylgja fram.“
    Málinu var vísað til utanríkismálanefndar sem varð sammála um að flytja tillöguna sjálf, svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja fast eftir, á grundvelli tillögu þeirrar sem afgreidd var á Alþingi hinn 22. desember 1978, kröfum um hafsbotnsréttindi sunnan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands, að því marki sem þjóðréttarreglur frekast leyfa, og efna í því sambandi hið allra fyrsta til viðræðna við aðrar þjóðir sem gert hafa kröfur á þessu svæði.
    Jafnframt er mótmælt hvers kyns tilraunum Breta og Íra til að taka sér réttindi vestan svonefnds Rockall-trogs, utan 200 mílna þeirra, þar á meðal á Hatton-banka, enda mæla jarðfræðileg og önnur rök eindregið gegn slíku og þarna um að ræða svæði sem Íslendingar og Færeyingar telja tilheyra sér.
    Alþingi lýsir yfir, að það telur fyrir sitt leyti unnt að leysa mál varðandi yfirráðarétt þessa hafsbotnssvæðis milli Íslendinga og Færeyinga, annaðhvort með sameiginlegum yfirráðum eða skiptingu svæðisins.
    Er ríkisstjórninni heimilað að semja um, að gerðardómur ákveði skiptingu svæðisins milli Íslendinga og Færeyinga, ef Færeyingar æskja þess.“
    Formaður utanríkismálanefndar (Geir Hallgrímsson) sagði í framsögu með málinu að nefndinni hefði þótt eðlilegt að flytja sjálfstæða tillögu um málið. Var tillagan samþykkt sem ályktun frá Alþingi 19. maí 1980.
    Loks var flutt tillaga til þingsályktunar á 105. löggjafarþingi (1982–1983) um hafsbotnsréttindi Íslands í suðri. Flutningsmenn voru Eyjólfur Konráð Jónsson o.fl. Var tillagan svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar á það reyna, hvort samkomulag geti náðst við Færeyinga um sameiginlega réttargæslu á Rockall-svæðinu í samræmi við ályktanir Alþingis frá 22. desember 1978 og 19. maí 1980. Jafnframt verði haldið áfram samkomulagsumleitunum við Breta og Íra um eignar- og umráðarétt hafsbotnsins á Rockall-sléttu.
    Sameinað Alþingi kjósi með hlutbundinni kosningu fimm menn sem starfi með ríkisstjórninni að framgangi málsins.“
    Í greinargerð sagði:
    „Strandþjóðir víða um heim eru nú sem óðast að tryggja hafsbotnsréttindi sín utan 200 mílna efnahagslögsögu samkvæmt hinum nýja hafréttarsáttmála. Beinna aðgerða er þörf af strandríkisins hálfu samkvæmt 76. gr. hafréttarsáttmálans til að það öðlist þessi réttindi. Fyrir löngu er því ljóst orðið að Íslendingar þurfa að fylgja fram ályktunum Alþingis frá 22. desember 1978 og 19. maí 1980 af festu og engum tíma má lengur glata.
    Í þeim tilgangi að hraða framgangi málsins og tryggja fulla einingu innan lands er tillaga þessi flutt.
    Hér fara á eftir helstu rök, sem Íslendingar hafa sett fram til stuðnings réttindakröfum sínum.
    Í 76. grein hafréttarsáttmálans eru mjög flóknar reglur um rétt strandríkis til hafsbotnsins utan 200 mílnanna, þar sem meðal annars er miðað við þykkt setlaga, 2500 metra dýptarlínu, 350 mílna víðáttu frá grunnlínum o.s.frv. En megináhersla er lögð á það, sem kallað er eðlileg framlenging landsins eða „natural prolongation“, en nákvæma skilgreiningu þess hugtaks er þó hvergi að finna, en almennt viðurkennt að þar geti bæði verið um að ræða lögun hafsbotnsins, „landslagið“, og eiginlega jarðfræði, þ.e. að uppruni og efni botnsins séu sömu gerðar og landsins. Er þá talað um tvær megingerðir, þ.e. úthafsbotn eða basalt og meginlandsgerð gamals bergs eða setlaga.
    Vísindamenn eru sammála um að Rockall-hásléttan sé meginlandsgerðar, þ.e. að um sé að ræða sokkið land sem klofnað hafi frá Bretlandseyjum fyrir 100–170 milljónum ára og sumir telja jafnvel enn lengra um liðið. Þarna er um að ræða hina upprunalegu klofnun, þegar Atlantshaf tók að myndast. Þá myndaðist Rockall-trog. Land þetta var þá áfast við Grænland, en klofnaði frá því er nýr rekás myndaðist, núverandi Reykjaneshryggur, fyrir um það bil 60 milljónum ára. Á hinn bóginn er ljóst að Ísland er miklu yngra og af basaltgerð, og hið sama er talið eiga við um hinn mikla Íslands-Færeyjahrygg og Grænlands-Íslandshrygg. Þess er þó að gæta, að rannsóknir eru hvergi nærri fullnægjandi, og eins hins, að allt umhverfi Íslands er talið einstætt á jarðarkringlunni.
    Vegalengdin frá Bretlandseyjum að Rockall-hásléttunni er um 200 mílur, en um 250 mílur eru milli hennar og Íslands annars vegar og Færeyja hins vegar. Fljótt á litið kynni maður því að ætla að Bretar og Írar ættu meira tilkall til þessa hafsbotnssvæðis en Íslendingar og Færeyingar. Þessum sjónarmiðum mótmælum við algjörlega og færum m.a. þau rök, að í þeirri gjá, sem nefnd er Rockall-trog, sé úthafsbotn á allt að 3000 metra dýpi og út yfir þá gjá geti ekki verið um að ræða neitt eðlilegt framhald eða framlengingu bresks og írsks lands. Færeyingar gera sér auk þess vonir um að geta fært sönnur á að þetta sokkna land teygi sig djúpt í jörðu inn undir Færeyjar, og við bendum m.a. á þær staðreyndir, að sömu jarðfræðilegu umbrotin hafi sett einkenni sitt á jarðsögu alls svæðisins vestan Rockall-trogs síðustu 100 milljón ár a.m.k. og þar sé ekki um nein jarðfræðileg tengsl á þeim tíma við Bretland að ræða. Styðjumst við þar m.a. við gagnmerka og langa ritgerð, sem prófessor E.D. Brown, sérfræðingur í alþjóðalögum við háskólann í Wales, ritaði 1978, þar sem hann dregur mjög í efa, að Bretar og Írar eigi nokkurt tilkall til Rockall-svæðisins, einkum þó Írar. Hins vegar sé réttur Færeyinga meiri, en á Ísland minnist hann ekki enda höfðum við þá ekkert tilkall gert til áhrifa á svæðinu.
    Írar munu raunar um síðir hafa áttað sig á veikleika sínum og því reynt að bæta um í 76. grein með setlagakenningu sem gengur undir nafninu „írska reglan“. Og þar sem allmikil setlög eru í Rockall-trogi telja þeir sig hafa öðlast tengingu við neðansjávarhásléttuna. Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að þessi set hafa borist norðan úr höfum, að miklu leyti að minnsta kosti, og hitt kann ekki síður að reynast þeim skeinuhætt, að í upphafi 76. greinar er gengið út frá því, að framlenging botnsins þurfi að vera samfelld frá landhelgismörkum, þ.e. 12 mílum. Sú framlenging þarf að gerast óslitið eða „throughout the natural prolongation“. Vegna Rockall-trogs er ekki hægt að líta á þessa framlengingu sem óslitna.
    Bretar aftur á móti telja sig fá tengingu við Rockall-svæðið eftir svonefndum Wyville-Thomson-hrygg, sem er suður af Færeyjum, en bæði er hann heldur lítilfjörlegur og þar að auki af gerð úthafsbotns. Þá hafa þeir og gert sér vonir um að tilvist Rokksins sjálfs á útjaðri Rockall-hásléttunnar styrkti stöðu þeirra. En hvort tveggja er, að öllum réttindum þeim til handa að því er klettinn varðar er mótmælt bæði af Dönum fyrir hönd Færeyinga og af okkur Íslendingum og í þriðju málsgrein 121. greinar hafréttarsáttmálans er skýrt tekið fram að klettar á borð við Rokkinn hafi enga efnahagslögsögu eða hafsbotnsréttindi, þ.e. aðeins tólf mílna landhelgi.
    Þótt við Íslendingar mótmælum harðlega einhliða rétti Breta og Íra til að teygja hafsbotnsréttindi sín út fyrir 200 mílurnar höfum við ekki mótmælt því, að Færeyingar hefðu réttindi á þessu svæði, heldur þvert á móti óskað margsinnis eftir nánu samstarfi við þá og Dani fyrir þeirra hönd, en það verður að segja þá sögu eins og hún er, að þeir eru furðulega svifaseinir.
    En þótt við mótmælum öllum einhliða réttindum Breta og Íra höfum við engu að síður boðið þeim til samningaviðræðna, enda er það grundvallarregla þess hafréttar, sem nú er óðum að verða til á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, að ágreiningsmál eigi að leitast við að leysa með samkomulagi. Og Bretar hafa fagnað því, að við nálgumst málið með þessum hætti. Kom það sérstaklega ljóst fram á þeim formlega viðræðufundi sem haldinn var í Genf í ágústmánuði 1981.
    Við Íslendingar færum fjölmörg rök fyrir réttindum okkar á Rockall-hásléttunni og skulu nokkur talin:
    Sanngirni er sú meginregla sem ríkja á samkvæmt orðum og anda hafréttarráðstefnu og hafréttarsáttmála, og sanngjarnt hlýtur það að teljast, að við eigum einhverja íhlutun í þessum réttindum, a.m.k. ef Írar eiga það. Og sanngjarnt hlýtur það líka að teljast, hvernig við höfum nálgast málið.
    Í 100 milljónir ára hafa sömu jarðfræðilegu umbrotin sett einkenni sitt á jarðsögu Rockall-hásléttu, Íslands og Færeyja.
    Eftir Íslands-Færeyjahryggnum tengjumst við Hatton-banka beint, en hryggurinn er náttúrulegt framhald Íslands.
    Íslands-Færeyjahryggurinn er af sérstakri tegund úthafsskorpu sem kölluð er „Icelandic type crust“.
    Dýpi frá Íslandi til Hatton-banka er hvergi meira en 2500 metrar, sem er sú viðmiðun sem getið er í 76. grein. Allmikil setlög, sem myndast hafa af framburði íslenskra fljóta, eru meðfram Hatton-banka og allt suður í Biskayaflóa.
    Ef miðlínuregla væri látin gilda mundi svo til allur Hatton-banki falla í hlut Íslendinga.
    Á Íslands-Færeyjahrygg hafa fundist set mynduð á landi í borkjarna á 1300 metra dýpi frá sjávarmáli.
    Jarðfræðisaga Íslandssvæðisins allt frá Grænlandi, Jan Mayen og Færeyja- og Rockall-svæðinu er einstök á hnettinum.
    Orðin eðlilegt framhald, „natural prolongation“, hafa ekki verið skilgreind á neinn afgerandi hátt, þannig að eðli máls á að ráða, enda tilbrigðin óteljandi á heimshöfunum.
    En sú regla, sem myndaðist með Jan Mayen-samkomulaginu, á að vera vegvísir að lausn ágreiningsmála þessara fjögurra nágrannaþjóða.
    Ef ekki næst samkomulag þeirra þjóða, sem tilkall gera til svæðisins, gæti svo farið að engin fengi neitt, en svæðið yrði alþjóðlegt.
    Í niðurstöðum sáttanefndarinnar í Jan Mayen-málinu er þess í fyrsta lagi getið, að nefndin sé þeirrar skoðunar, að hugtakið „natural prolongation“ hæfi ekki við lausn deilunnar, en nefndin hafi rækilega athugað ýmiss konar dómsniðurstöður og venjur sem leiði til sanngjarnrar lausnar. Nefndin kemst síðan að þeirri niðurstöðu, að heppilegust sé sameign og samnýting auðlinda, og segir að ástæðan fyrir þeim tillögum sínum sé meðal annars sú að hvetja til enn frekari samvinnu og vinsamlegra samskipta milli Íslands og Noregs.
    Í viðtali við Morgunblaðið 6. júní 1981 segir Hans G. Andersen sendiherra um Jan Mayen-samkomulagið m.a.:
    „Þetta verður í fyrsta skipti sem slíkur samningur er gerður á grundvelli uppkastsins að hafréttarsáttmála og verður að skoðast sem þýðingarmikið framlag við þróun þessara mála.“ Hann segist mega fullyrða „að það sé leitun að öðrum tveim þjóðum, sem hefðu getað komið sér saman um slíkt“. En bætir þó við síðar í viðtalinu:
    „Og þá er mikill styrkur fyrir okkur að hafa þessa lausn í höndum, og enginn efi er á því, að Bretar, Írar og Danir munu kynna sér þessi gögn rækilega, og vissulega væri ánægjulegt ef tækist að vinna í svipuðum anda að lausn Rockall-málsins í þeim viðræðum sem fyrirhugaðar eru, enda er þar einnig um nágranna- og vinaþjóðir að ræða sem einmitt hljóta að leita að sanngjarnri lausn miðað við allar aðstæður.“
    Það kom einnig í ljós í hinum formlegu viðræðum við Breta í Genf að Jan Mayen-samkomulagið hafði vakið athygli þeirra og þeir kváðust hafa kynnt sér það og mundu kanna það miklu nánar.
    Allir velviljaðir menn hljóta að vona og treysta að ágreiningurinn um Rockall-hásléttuna leysist með einhverjum hætti á svipaðan veg og gerðist að því er Jan Mayen-svæðið varðar. Það væri öllum þeim, sem málið snertir, til sóma, en ekki síst til gagns, aukinna samskipta og traustari vináttubanda í bráð og lengd. Þótt einhvers konar skipting Rockall-hásléttunnar komi auðvitað til greina væri áreiðanlega happadrýgst að um sameign og samnýtingu yrði að ræða með svipuðum hætti og er á Jan Mayen-svæðinu.“
    Fyrsti flutningsmaður málsins (Eyjólfur Konráð Jónsson) sagði m.a. í framsögu sinni fyrir tillögunni að Íslendingar ættu mjög þýðingarmikil réttindi suður af landinu þar sem væri hafsbotninn á Rockall-svæðinu svonefnda. Væru þau réttindi enn þá ótvíræðari samkvæmt hafréttarsáttmálanum og skýringum á 76. gr. hans en þau höfðu verið á Jan-Mayen-svæðinu. Íslendingar hefðu sigrað í því máli með samstöðu og festu. Þyrfti án efa að auka þrýsting til þess að fá nágranna okkar til viðræðna og helst vildu menn ná samningum allra þeirra sem hefðu uppi kröfugerð á svæðinu. Las framsögumaður upp bréf, dagsett í maí 1982, sem fjórir fulltrúar stjórnmálaflokkanna sendu til utanríkisráðherra að loknum fundi hafréttarráðstefnunnar. Þeir voru auk framsögumanns Benedikt Gröndal, Lúðvík Jósepsson og Þórarinn Þórarinsson. Sagði m.a. í bréfinu:
    „Á síðasta degi hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York, 30. apríl 1982, ræddum við undirritaðir fulltrúar stjórnmálaflokkanna við fulltrúa úr sendinefnd Dana um Rockall-svæðið og þau réttindi sem við teljum okkur eiga til hafsbotnsins suður af 200 mílna efnahagslögsögu landsins.  . . .  [Þegar] ljóst var orðið að sjónarmið og hagsmunir Færeyinga fara mjög vel saman við ályktanir Alþingis varpaði Lúðvík Jósepsson fram þeirri hugmynd að sett yrði á fót samstarfsnefnd Íslendinga og Dana (Færeyinga) til að gæta sameiginlegra hagsmuna þjóðanna og skoða málin út í hörgul. Var þeirri hugmynd vel tekið og er það sameiginlegt álit okkar að utanríkisráðuneytið eigi nú þegar að eiga frumkvæðið að því að fylgja þessari tillögu eftir á grundvelli ítrekaðra ályktana Alþingis. Þótt við teljum réttindi Íslendinga og Færeyinga til hafsbotnsins vestur af Rokknum meiri en Breta og Íra teljum við þó eðlilegt að starfað verði áfram samkvæmt ályktunum Alþingis og rætt við Breta og Íra, að svo miklu leyti sem þeir vilja við okkur ræða, í þeim tilgangi að ná samstöðu þjóðanna fjögurra, því að harðvítugar deilur gætu leitt til þess að enginn fengi kröfum sínum framgengt og svæðið yrði alþjóðlegt.“
    Þá sagði framsögumaður að ef svo kynni að fara að Færeyingar tækju ekki upp viðræður við Íslendinga væri ekkert annað fyrir Íslendinga að gera en að grípa til einhliða aðgerða og helga sér réttindi í samræmi við reglur 76. gr. hafréttarsáttmálans.
    Við sömu umræðu gerði utanríkisráðherra (Ólafur Jóhannesson) grein fyrir því hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar af Íslands hálfu til að reyna að tryggja rétt Íslendinga til svæðisins. Óskað hafi verið eftir viðræðum við Breta og Íra. Bretar hafi svarað að þeir væru tilbúnir til viðræðna um málið en Írar hafi ekki verið reiðubúnir á þessu stigi til beinna viðræðna. Lýsti utanríkisráðherra lauslega þeim viðræðum sem fram höfðu farið milli Íslendinga og Breta. Það hafi orðið að samkomulagi að sérfræðingar könnuðu málið frá þjóðréttarlegu, landfræðilegu og jarðfræðilegu sjónarmiði og að þeir mundu skila um það skýrslu. Sama niðurstaða hafi orðið hjá Íslendingum og Dönum, að málið yrði kannað með svipuðum hætti. Væri nú verið að vinna í málunum. Ekki væri um neinar samningaviðræður að tefla, heldur könnunarviðræður í þeim tilgangi að skýra málin og gera ljósari vissar undirstöður sem þyrftu að vera fyrir hendi áður en ákvarðanir yrðu teknar.
    Í umræðunum tóku þátt auk framsögumanns og formanns utanríkismálanefndar Garðar Sigurðsson og Árni Gunnarsson og eru allar umræður í B-deild Alþingistíðinda 1982–1983 (612–627). Sagan hefur sýnt að ummæli ræðumanna áttu við rök að styðjast. Ekki skal farið nánar út í þá sálma að þessu sinni en mikinn fróðleik er þar að finna.
    Málinu var vísað til utanríkismálanefndar sem mælti með samþykkt tillögunnar svo breyttrar:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að samkomulagi við Færeyinga, Breta og Íra um yfirráð á Hatton-Rockall hafsbotnssvæðinu í samræmi við ákvæði hafréttarsáttmálans.
    Alþingi felur utanríkismálanefnd að starfa með ríkisstjórninni að framgangi málsins.“
    Tillagan var samþykkt sem ályktun frá Alþingi 14. mars 1983.
    Þess má geta að á sama löggjafarþingi var flutt tillaga til þingsályktunar um hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg og voru flutningsmenn Pétur Sigurðsson og Eyjólfur Konráð Jónsson. Var tillagan samþykkt sem ályktun frá Alþingi þann 14. mars 1983, svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að tryggja formlega þau ótvíræðu réttindi til hafsbotnsins á Reykjaneshrygg og út frá hlíðum hans sem Ísland á tilkall til samkvæmt 76. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.“
    Hvað varðar kröfur okkar Íslendinga um hafsbotnsréttindi á Rockall-svæðinu er ljóst að lítið hefur áunnist eftir að ályktun Alþingis var gerð í mars 1983. Bretar og Írar hafa gert samning um skiptingu svæðisins sín á milli, en Íslendingar og Danir hafa sett reglugerðir um lögsögu á svæðinu sem Bretland og Írland gera tilkall til. Enn deila ríkin fjögur þannig um rétt til svæðisins.
    Nýlega bárust fregnir af rannsóknum sem farið hafa fram á Rockall-svæðinu á vegum Dana (Færeyinga) annars vegar og Breta hins vegar. Stafar þessi aukni áhugi af því að fundist hafa vísbendingar um olíu á svæðinu. Auk þessa stunduðu Bretar fyrir stuttu veiðar á Hatton-bankanum.
    Í ljósi þessara fregna er brýnt að Íslendingar fylgi fast eftir kröfum sínum til svæðisins.
    Með hliðsjón af framansögðu má ljóst vera að landhelgisbaráttu Íslendinga er ekki lokið. Þvert á móti eigum við enn mikilla hagsmuna að gæta. Því er tillaga þessi flutt.