Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 6 . mál.


6. Frumvarp til laga



um eftirlaunaréttindi launafólks.

Flm.: Guðni Ágústsson, Finnur Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson.



I. KAFLI


Gildissvið.


1. gr.


    Lög þessi taka til fyrirtækja, hér eftir nefnd eftirlaunasjóðir, sem hafa eingöngu að markmiði
    að veita viðtöku eftirlaunaframlögum frá launamönnum til sameiginlegrar fjárfestingar í verðbréfum og fasteignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu og sjá launamönnum fyrir vátryggingavernd samkvæmt reglugerð viðkomandi eftirlaunasjóðs,
    að greiða launamanni eftirlaun og vátryggingabætur eftir þeim reglum er fram koma í reglugerð viðkomandi eftirlaunasjóðs.

II. KAFLI


Starfsleyfi eftirlaunasjóða, stofnun og skráning.


2. gr.


    Starfsemi samkvæmt lögum þessum verður einungis stunduð af eftirlaunasjóðum sem uppfylla skilyrði laga þessara og fengið hafa starfsleyfi fjármálaráðherra.
     Skilyrði fyrir starfsleyfi eru sem hér segir:
    Eftirlaunasjóðurinn sé löglega stofnaður, sbr. 4. gr.
    Eftirlaunasjóðurinn hafi yfir að ráða við stofnun minnst 50 millj. kr. eða a.m.k. 500 aðilar hafi skuldbundið sig til að uppfylla skyldu laganna til að greiða eftirlaunaframlag sitt í eftirlaunasjóðinn.
    Reglugerð sjóðsins fullnægi ákvæði 1. mgr. 19. gr.
    Rekstraraðili fullnægi skilyrðum 18. gr.
    Endurskoðun sé framkvæmd af löggiltum endurskoðanda.
     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja reglugerð eftirlaunasjóðs og aðrar þær upplýsingar sem ráðherra ákveður. Áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og tryggingaeftirlits.

3. gr.


    Eftirlaunasjóðum með fullgilt starfsleyfi er einum heimilt að stunda starfsemi skv. 1 gr. Önnur starfsemi er eftirlaunasjóðum óheimil.
    Eftirlaunasjóðum er einum heimilt og rétt, eftir því sem við verður komið, að nota orðið „eftirlaunasjóður“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum, í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni. Óheimilt er að breyta eftirlaunasjóðum samkvæmt lögum þessum í fyrirtæki sem lögin taka ekki til.

4. gr.


    Eftirlaunasjóð skal stofna sem hlutafélag samkvæmt lögum um hlutafélög. Ákvæði þeirra laga gilda að svo miklu leyti sem við getur átt að þessum lögum slepptum.

5. gr.


    Uppfylli eftirlaunasjóður ekki skilyrði laga þessara til að öðlast starfsleyfi skal umsókn synjað.
     Ráðherra getur synjað um leyfi til reksturs eftirlaunasjóðs hafi stjórnarmenn sjóðsins eða framkvæmdastjórar rekstraraðila
    verið dæmdir fyrir refsiverðan verknað sem ætla má að skapi hættu á að viðkomandi misnoti aðstöðu sína,
    sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir muni ekki sinna starfi sínu á forsvaranlegan hátt.
     Áður en ákvörðun er tekin um synjun skv. 2. mgr. skal leitað umsagnar bankaeftirlits.

6. gr.


    Synjun fjármálaráðherra á leyfi skv. 5. gr. skal rökstudd skriflega og send umsækjanda, að jafnaði eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra. Ákvörðun ráðherra skal þó ávallt liggja fyrir innan sex mánaða.

7. gr.


    Ráðherra skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um starfsleyfi eftirlaunasjóðs. Í tilkynningunni skal koma fram nafn sjóðsins, stjórnarmanna og endurskoðenda auk nafns rekstraraðila. Óheimilt er að veita viðtöku eftirlaunaframlögum fyrr en tilkynning hefur verið birt. Hefji eftirlaunasjóður ekki starfsemi innan tólf mánaða frá veitingu starfsleyfis fellur það úr gildi.

8. gr.


    Bankaeftirlitið skal halda sérstaka skrá yfir eftirlaunasjóði sem hlotið hafa starfsleyfi. Í skránni skulu koma fram nöfn stjórnarmanna eftirlaunasjóðs og hverjir séu endurskoðendur hans. Jafnframt skulu koma fram helstu upplýsingar um rekstraraðila.
    Bankaeftirlitinu er heimilt að kveða nánar á um þær upplýsingar sem veittar skulu skv. 1. mgr. Breytingar á áður tilkynntum atriðum skulu þegar tilkynntar bankaeftirlitinu.

III. KAFLI


Skilgreiningar.


9. gr.


    Með launum er í lögum þessum átt við hvers konar endurgjald fyrir vinnuframlag samkvæmt vinnusamningi eða verktakasamningi.
     Með launamanni er átt við hvern þann sem þiggur laun frá atvinnurekenda eða úr eigin atvinnurekstri.
     Með atvinnurekanda er átt við þann er hefur einstaklinga á launaskrá.
     Með lífeyrissjóði er átt við sjóð sem starfar samkvæmt reglugerð og samþykktum sem settar hafa verið af stofnendum sjóðsins og staðfestar hafa verið af fjármálaráðuneytinu skv. 2. gr. laga nr. 55/1980 eða starfa á grundvelli laga.
     Verðbréf er skilgreint á sama hátt og fram kemur í 1. tölul. 1. gr. laga nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti.

IV. KAFLI


Skylduaðild að eftirlaunasjóðum. — Valfrelsi um eftirlaunasjóð.


10. gr.


    Öllum launamönnum á aldrinum 16 til 67 ára er rétt og skylt að eiga aðild að eftirlaunasjóði.

11. gr.


    Launamenn velja sér eftirlaunasjóð samkvæmt lögum þessum.

V. KAFLI


Vátryggingavernd.


12. gr.


    Eftirlaunasjóði er skylt að hafa eftirfarandi lágmarksvátryggingavernd hjá vátrygginga- eða líftryggingafélagi:
    Örorkutryggingu sem vátryggir viðkomandi gegn slysi eða sjúkdómi bæði í vinnu og frítíma ef um sannanlega óvinnufærni er að ræða fram til 67 ára aldurs. Þegar um tímabundna örorku er að ræða þarf vátryggingarfjárhæð að vera að lágmarki 10.000 kr. á viku en með þriggja mánaða biðtíma og tveggja ára bótatíma.
                  Bætur vegna varanlegrar örorku greiðast sem eingreiðsla í hlutfalli við vátryggingarfjárhæðina, sbr. 4. mgr. þessa töluliðar, þó þannig að hvert örorkustig frá 26–50% gildir tvöfalt og hvert örorkustig frá 51–100% þrefalt. Bætur fyrir 100% varanlega örorku verða 225% af vátryggingarfjárhæðinni.
                  Bætur eru ekki greiddar fyrir lægri varanlega örorku en 25%.
    Lágmark vátryggingarfjárhæðar:     16–35 ára
8.000.000 kr.

              36–50 ára
4.000.000 kr.

              51–60 ára
2.000.000 kr.

              61–67 ára
1.000.000 kr.

    Lífeyristryggingu sem greiðir launamanni eftirlaun frá 67 ára aldri svo lengi sem hann lifir en fellur niður að honum látnum. Hafi launamaður valið sér eftirlaunasjóð, þar sem söfnun hans er séreign, verður launamaður að greiða helming eftirlaunaframlagsins til kaupa á lífeyristryggingu samkvæmt þessum tölulið sem tekur til þess tímamarks að fyrirséð er að greiðslu séreignasjóðs lýkur.
                  Þegar réttindi lífeyristryggingarinnar nema 40.000 kr. eftirlaunum á mánuði fellur niður skylda til kaupa á vátryggingunni.
                  Vátryggingarfjárhæðir breytast samkvæmt lánskjaravísitölu.
                  Það er á ábyrgð eftirlaunasjóðs að ofangreind lágmarksvátryggingavernd samkvæmt þessari grein sé fyrir hendi.

VI. KAFLI


Eftirlaunaframlagið.


13. gr.


    Reiknigrunnur að eftirlaunaframlagi er öll laun. Eftirlaunaframlag af reiknigrunni skal vera að lágmarki 13%. Hlutfall eftirlaunaframlagsins milli launamanns og atvinnurekanda er háð kjarasamningum þessara aðila á hverjum tíma. Eftirlaunaframlag er eign launamanns.

     Atvinnurekanda er skylt að halda eftir af launum starfsfólks síns framlagi þess og standa viðkomandi eftirlaunasjóði skil á því ásamt mótframlagi sínu.
     Launamaður skal einungis greiða eftirlaunaframlag í einn eftirlaunasjóð á hverjum tíma.

14. gr.


    Sé reiknigrunnur grundvallaður á eigin atvinnurekstri ákvarðast eftirlaunaframlagið samkvæmt nýjasta skattframtali eða ákvörðun skattstjóra uppfært til þess tíma sem framlagið tekur til. Fjármálaráðuneytið ákveður og birtir uppfærslustuðul reiknigrunnsins með hliðsjón af almennum launabreytingum.

VII. KAFLI


Skattareglur.


15. gr.


    Eftirlaunaframlag launamanns skv. 13. gr. er undanþegið tekjuskatti. Skattundanþága samkvæmt þessari grein getur þó ekki orðið hærri en 7% af launum.
     Greiðsla eftirlauna úr eftirlaunasjóði eða vátryggingabætur eru hins vegar tekjuskattsskyldar. Séu vátryggingabætur greiddar út sem eingreiðsla eru slíkar bætur undanþegnar tekjuskatti.
     Á skattskýrslu er launamanni skylt að geta um réttindi sín í eftirlaunasjóði. Þar skal koma fram til hvaða eftirlaunasjóðs eftirlaunaframlag er greitt og hver áunnin réttindi launamanns eru hjá sjóðnum.

VIII. KAFLI


Stjórn og skipulag eftirlaunasjóða.


16. gr.


    Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum eftirlaunasjóða. Stjórn sjóðsins fer með málefni hans milli aðalfunda. Aðalfund skal halda árlega, en boða skal til hans með minnst tíu daga fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði. Atkvæðisrétt á fundinum hafa allir þeir launamenn sem greitt hafa í sjóðinn. Atkvæðisréttur sjóðfélaga fer eftir inneign þeirra við síðustu áramót. Einfaldur meiri hluti ræður úrslitum mála.
     Reglugerð sjóðsins má breyta á aðalfundi hljóti breytingarnar samþykki tveggja þriðju hluta greiddra atkvæða, enda hafi tillögur til breytinga á reglugerð fylgt fundarboði.

17. gr.


    Stjórn sjóðsins skal kjörin á aðalfundi samkvæmt ákvæðum reglugerðar og skal skipuð fimm mönnum, þremur frá sjóðfélögum en tveimur frá rekstraraðila. Stjórnin hefur almennt eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við ákvæði laga þessara, reglur settar samkvæmt þeim og reglugerð sjóðsins, þar á meðal að nægjanlegt eftirlit sé með bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins.
     Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, hafa náð 20 ára aldri og hafa óflekkað mannorð og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu.
     Stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, eru undanþegnir búsetuskilyrði skv. 2. mgr. Fjármálaráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
     Stjórnarmenn eftirlaunasjóðs mega ekki jafnframt eiga sæti í stjórn rekstraraðila eftirlaunasjóðs skv. 18. gr.

IX. KAFLI


Rekstraraðilar.


18. gr.


    Starfræksla eftirlaunasjóðs skal falin rekstraraðila sem hlotið hefur viðurkenningu fjármálaráðuneytisins að undangenginni umsögn bankaeftirlits. Viðurkenningu sem rekstraraðilar geta hlotið:
    Lífeyrissjóðir.
    Líftryggingafélög.
    Viðskiptabankar.
    Sparisjóðir.
    Verðbréfafyrirtæki.
    Fyrirtæki skv. 1. mgr., sem teljast rekstraraðilar, mega reka einn eða fleiri eftirlaunasjóði. Stjórn eftirlaunasjóðs og rekstraraðili skulu gera með sér samstarfssamning þar sem fram kemur m.a. umsýsluþóknun rekstraraðila.
     Erlend fyrirtæki skv. 1.–5. tölul. 1. mgr., sem hafa starfsleyfi hérlendis lögum samkvæmt, geta öðlast viðurkenningu sem rekstraraðilar.
     Eftirlaunasjóði er óheimilt að skipta um rekstraraðila án samþykkis stjórnar rekstraraðila. Þó getur fjármálaráðuneytið samþykkt skipti á rekstraraðila sé brotið gegn reglugerð sjóðsins og fyrirséð að réttindi sjóðfélaga skerðast verulega.
     Fjármálaráðuneyti ber að fá greinargerðir beggja aðila og umsögn bankaeftirlitsins áður en ákvörðun er tekin um hvort heimila skuli skipti á rekstraraðila.

X. KAFLI


Reglugerð.


19. gr.


    Hver eftirlaunasjóður skal hafa reglugerð sem staðfest er af fjármálaráðuneytinu. Í henni skulu m.a. koma fram eftirfarandi atriði:
    nafn eftirlaunasjóðs, heimili og varnarþing,
    nafn rekstraraðila og heimili og ákvæði um það hvernig skipt verður um hann,
    fjárfestingarstefna,
    hver hefur rétt til að skuldbinda eftirlaunasjóðinn,
    hvernig háttað skal meðferð eignarhluta í öðrum fyrirtækjum, svo sem hverjir fari með atkvæði sjóðsins,
    hvernig reikna skal út inneign hvers sjóðfélaga þegar um slíkt er að ræða,
    hvernig ráðstafa skal arði eða hagnaði af eignum sjóðsins,
    hvernig háttað er vali stjórnarmanna og endurskoðenda sjóðsins og hvert er hlutverk stjórnar,
    hvort hægt er að breyta samþykktum sjóðsins og hvernig skal að breytingum staðið,
    hvernig háttað er greiðslu eftirlaunaframlags í sjóðinn,
    hvernig háttað er flutningi réttinda í og úr sjóðnum,
    hvernig háttað er viðurlögum gagnvart sjóðfélaga vegna brota á reglugerð sjóðsins,
    hvernig eftirlaunasjóði verður slitið,
    hvernig háttað er viðurlögum gagnvart stjórn eða starfsmönnum eftirlaunasjóðs vegna brota á reglugerð sjóðsins,
    hvaða tryggingar sjóðfélögum standa til boða,
    hvernig útgreiðslu bóta verður háttað.
    Breytingar á reglugerðum eftirlaunasjóðs öðlast ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu fjármálaráðuneytisins að undangenginni umsögn bankaeftirlitsins. Breytingarnar skulu staðfestar séu þær í samræmi við lög, enda séu þær að öðru leyti í samræmi við hagsmuni sjóðfélaga og engar aðrar fullgildar ástæður mæli gegn staðfestingu. Breytingar öðlast gildi eigi síðar en þremur mánuðum eftir staðfestingu nema fjármálaráðuneytið ákveði annað. Tilkynning um breytingar skal birt í Lögbirtingablaði.
     Eftirlaunasjóður skal tilkynna sjóðfélögum um hverja breytingu á samþykktum sjóðsins og jafnframt auglýsa hana opinberlega.

XI. KAFLI


Fjárfestingarstefna.


20. gr.


    Eftirlaunasjóði er eingöngu heimilt að fjárfesta með eftirfarandi hætti:
    Framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega og er opinn almenningi. Sé markaðurinn utan Evrópska efnhagssvæðisins skal bankaeftirlitið hafa viðurkennt hann.
    Í nýútgefnum framseljanlegum verðbréfum, enda sé í skilmálum fyrir útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu á opinberum verðbréfamarkaði eða að þau verði látin ganga kaupum og sölum á öðrum verðbréfamarkaði skv. 1. tölul. Skráning verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram eigi síðar en einu ári frá útgáfu þeirra.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er eftirlaunasjóði heimilt:
    að fjárfesta sem svarar allt að 10% af eigum sínum í öðrum verðbréfum en þar getur,
    að fjárfesta í skuldaskjölum sjóðfélaga vegna lána með fasteignaveði í íbúðarhúsnæði sem nemur allt að 15% af eignum.
    Bankaeftirlitinu er heimilt að setja reglur sem heimila eftirlaunasjóðum að fjárfesta allt að 10% af eignum sínum í skuldaskjölum sem talin eru jafngilda framseljanlegum verðbréfum, eru auðseljanleg og með verðgildi sem ákvarða má hvenær sem er.
     Eftirlaunasjóðum er óheimilt að fjárfesta í eðalmálmum eða heimildarskírteinum fyrir þeim.

21. gr.


    Eftirlaunasjóðum ber skylda til að fjárfesta að lágmarki 5% af eignum sínum í hlutafélögum eða sambærilegu félagsformi enda séu engar hömlur á viðskiptum með eignarhluti í félaginu. Félagið skal vera skráð á Íslandi og með höfuðstöðvar þar en má hafa starfsemi erlendis.
     Eftirlaunasjóður má ekki eignast meira en 10% eignarhlut í einstöku félagi, með eða án atkvæðisréttar.

22. gr.


    Eftirlaunasjóðum er heimilt að fjárfesta í íbúðarhúsnæði með allt að 10% eigna sinna. Eftirlaunasjóðum er óheimilt að fjárfesta í atvinnuhúsnæði.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er eftirlaunasjóðum heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt og eigi síðar en 18 mánuðum frá yfirtöku eignanna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu eigna skal tilkynna bankaeftirlitinu sem getur krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests.

23. gr.


    Heildarfjárfesting skv. 2.–3. mgr. 20. gr. og 22 gr. má aldrei fara fram úr 30% af eignum eftirlaunasjóðs.

24. gr.


    Eftirlaunasjóði er óheimilt að fjárfesta meira en 10% af eignum sínum í verðbréfum, útgefnum af sama útgefanda, sbr. þó 25. gr. Fjárfesti eftirlaunasjóðurinn meira en 5% í verðbréfum, útgefnum af sama útgefanda, skal samtala slíkra fjárfestinga ekki fara yfir 40% af eignum sjóðsins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er eftirlaunasjóði heimilt að fjárfesta allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagsvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur bankaeftirlitið heimilað eftirlaunasjóði að fjárfesta allt að 25% af eignum sínum í skuldabréfum útgefnum af sama útgefanda, enda sé um að ræða lánastofnun innan Evrópska efnahagssvæðisins sem lýtur lögbundnu eftirliti. Fjárfesti eftirlaunasjóður meira en 5% af eignum sínum í slíkum skuldabréfum má samanlagt verðmæti þess konar fjárfestinga ekki nema meira en 80% af eignum sjóðsins.
     Ekki skal tekið tillit til verðbréfa skv. 2. og 3. mgr. þegar fundin er samtala fjárfestinga samkvæmt síðari málslið 1. mgr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. mega samanlagðar fjárfestingar eftirlaunasjóðs í verðbréfum, útgefnum af sama útgefanda, aldrei nema meira en 35% af eignum sjóðsins.

25. gr.


    Bankaeftirlitið getur heimilað eftirlaunasjóði að fjárfesta allt að 100% af eignum sínum í framseljanlegum verðbréfum skv. 2. mgr. 24. gr. telji bankaeftirlitið það samrýmanlegt hagsmunum sjóðfélaga.
     Fjárfestingar eftirlaunasjóðs skv. 1 mgr. skulu dreifast á að minnsta kosti sex mismunandi verðbréfaflokka og má fjárfesting í einum og sama verðbréfaflokki ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 30% af eignum eftirlaunasjóðs.
     Bankaeftirlitið getur sett nánari reglur um fjárfestingu samkvæmt þessu ákvæði.

26. gr.


    Rekstraraðila er óheimilt að leggja gjöld eða kostnað á viðskipti með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs í þeim tilvikum þegar hluti eigna eftirlaunasjóðsins er fjárfestur í hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóði sem rekinn er af sama rekstraraðila eða öðru félagi sem rekstraraðili er tengdur vegna sameiginlegra stjórna eða yfirráða eða vegna verulegrar beinnar eða óbeinnar eignarhlutdeildar.

27. gr.


    Eftirlaunasjóður má ekki eignast meira en 10% af skuldaskjölum einstakra útgefenda framseljanlegra verðbréfa.

     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um að 1. mgr. taki ekki til framseljanlegra verðbréfa sem
    ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þess gefa út eða ábyrgjast,
    ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast,
    alþjóðastofnanir, sem eitt eða fleiri ríki Evrópska efnahagssvæðisins eru aðilar að, gefa út.

28. gr.


    Fari fjárfesting eftirlaunasjóðs fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögum þessum skulu þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta og skal lögmæltu hámarki jafnan náð innan sex mánaða.
     Bankaeftirlitið getur þó í einstökum tilvikum mælt fyrir um lengri frest enda sé það augljóslega í þágu sjóðfélaga.

29. gr.


    Eftirlaunasjóðir mega ekki fjárfesta í lausafé nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi sjóðsins.

30. gr.


    Eftirlaunasjóði er óheimilt að taka lán nema í þeim tilvikum sem hér greinir:
    Skammtímalán, allt að 10% af eignum sjóðsins, til að standa straum af réttindum launamanns í sjóðnum.
    Lán, allt að 10% af eignum sjóðsins, til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins.
    Lán skv. 1. mgr. mega hæst nema 15% af eignum eftirlaunasjóðs.
     Eftirlaunasjóði er óheimilt að veita lán til annarra en sjóðfélaga eða ganga í ábyrgð fyrir aðra eða taka á sig aðrar skuldbindingar en greindar eru í þessari grein.

31. gr.


    Í viðskiptum stjórnenda og starfsmanna eftirlaunasjóðs, rekstraraðila, svo og maka þeirra, skal gæta eftirtalinna atriða:
    að viðskiptin séu sérstaklega skráð.
    að stjórnir fyrirtækjanna fái kerfisbundnar upplýsingar um viðskiptin og staðfesti þau.
    Fyrirtækin skulu setja sér verklagsreglur um viðskipti skv. 1. mgr. og skulu þær staðfestar af bankaeftirlitinu.

XII. KAFLI


Innganga í og brottvikning úr eftirlaunasjóði.


32. gr.


    Fullnægi launamaður skilyrðum reglugerðar um inngöngu er eftirlaunasjóði óheimilt að hafna aðild að sjóðnum. Sé launamaður metinn öryrki þegar við inngöngu í eftirlaunasjóðinn getur sú örorka ekki orðið tilefni bótaskyldu eftirlaunasjóðs heldur einungis sú örorka sem verður til eftir inngöngu. Hafi viðkomandi fengið inngöngu í eftirlaunasjóð er óheimilt að vísa honum úr sjóðnum nema brotið sé gegn reglugerð hans.


XIII. KAFLI


Ársreikningur og endurskoðun.


33. gr.


    Stjórnir eftirlaunasjóðs og rekstraraðila hans skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga, reglugerðar og góða reikningsskilavenju. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Enn fremur skal semja ársskýrslu. Ársreikningur og ársskýrsla mynda eina heild. Reikningsár eftirlaunasjóðs er almanaksárið. Ársreikningur og ársskýrsla skulu undirrituð af stjórnum eftirlaunasjóðs og rekstraraðila. Hafi einhverjir stjórnarmanna mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skulu þeir undirrita hann með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er. Framsetning ársreiknings skal vera með skýrum hætti og í samræmi við ákvæði laga þessara og reglur settar samkvæmt þeim. Ársreikningur skal gefa glögga mynd af eignum, skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu eftirlaunasjóðs.
     Í ársskýrslu skal koma fram yfirlit yfir starfsemi eftirlaunasjóðs á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu en koma ekki fram annars staðar í ársreikningum. Bankaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um gerð ársreiknings.

34. gr.


    Ársreikningur eftirlaunasjóðs skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðandi má ekki sitja í stjórn eftirlaunasjóðs eða rekstraðila, vera starfsmaður þeirra aðila eða starfa í þágu þeirra að öðru en endurskoðun. Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eignum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum eftirlaunasjóðs. Jafnframt skulu stjórn og starfsmenn veita endurskoðanda allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.
     Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til upplýsinga og gagna hjá rekstraraðila sem nauðsynleg eru við endurskoðun hjá eftirlaunasjóði.

35. gr.


    Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Hann skal gefa yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglur og reglugerð eftirlaunasjóðs. Hann skal láta í ljós álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum að öðru leyti.
     Telji endurskoðandi að í ársreikningi komi ekki fram þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skal hann geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar ef þess er kostur. Ef ársskýrsla hefur ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita eða er ekki í samræmi við ársreikning skulu endurskoðendur vekja athygli á því í áritun sinni. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
     Leiði endurskoðun í ljós verulega ágalla á rekstri eftirlaunasjóðs, greiðslutryggingu eða öðrum atriðum er veikt geta fjárhagsstöðu sjóðsins skal endurskoðandi gera stjórn sjóðsins viðvart, svo og bankaeftirlitinu, hafi hann ástæðu til að ætla að stjórnendur sjóðsins hafi ekki rækt upplýsingaskyldu sína í þessu sambandi. Ákvæði þessarar málsgreinar taka til endurskoðanda rekstraraðila eftir því sem við getur átt.


36. gr.


    Endurskoðaður ársreikningur eftirlaunasjóðs ásamt ársskýrslu skal sendur bankaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun, en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Reikningnum skal fylgja skýrsla löggilts endurskoðanda þar sem m.a. kemur fram hvernig útreikningi á verðbréfaeign sjóðsins er háttað og jafnframt hvernig verðmati á fasteignum í eigu sjóðsins er háttað. Meginniðurstöður ársreikninga skal birta opinberlega og í samræmdu formi sem bankaeftirlitið ákveður. Slíkar meginniðurstöður skulu vera aðgengilegar almenningi og liggja frammi í starfsstöð eftirlaunasjóðs og rekstraraðila.
     Ársfjórðungslegt efnahagsyfirlit í því formi sem bankaeftirlitið ákveður skal einnig sent því og skal það liggja frammi á starfsstöð eftirlaunasjóðs og rekstraraðila.
     Auk ársreiknings eftirlaunasjóðs samkvæmt þessari grein skal einnig senda bankaeftirlitinu endurskoðaða ársreikninga rekstraraðila eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Þessum félögum er einnig skylt að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda til hagsýslugerða, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.

XIV. KAFLI


Eftirlit.


37. gr.


    Bankaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi eftirlaunasjóða og jafnframt eftirlit með því að starfsemi rekstraraðila sé í samræmi við lög þessi. Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þessum aðilum sem að mati bankaeftirlitsins eru nauðsynleg. Bankaeftirlitið leitar upplýsinga hjá tryggingaeftirliti um rekstur vátryggingaverndar eftirlaunasjóða.
     Telji bankaeftirlitið að starfsemi eftirlaunasjóðs eða rekstraraðila brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerðar eða reglna settra samkvæmt þeim eða séu að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg.

XV. KAFLI


Afturköllun leyfis.


38. gr.


    Skylt er fjármálaráðherra að afturkalla starfsleyfi eftirlaunasjóðs
    uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði til að öðlast starfsleyfi,
    sé bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta eða starfsemi hans slitið.

39. gr.


    Hafi eftirlaunasjóðir eða rekstraraðili í starfsemi sinni ítrekað eða með alvarlegum hætti brotið gegn ákvæðum laga þessara, reglna eða reglugerða settra samkvæmt þeim eða starfsemi þeirra er að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust og kröfum bankaeftirlitsins skv. 2. mgr. 37. gr. hefur ekki verið sinnt er ráðherra heimilt að afturkalla starfsleyfi eftirlaunasjóðs að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.
     Standi yfir opinber rannsókn á meintu broti eftirlaunasjóðs á ákvæðum laga þessara er ráðherra heimilt að svipta sjóðinn starfsleyfi um stundasakir. Skal þá ráðherra skipa hlutaðeigandi umsjónaraðila til bráðabirgða sem gera skal ráðstafanir sem miða að því að tryggja hag sjóðfélaga.


40. gr.


    Afturköllun á starfsleyfi eftirlaunasjóðs skal rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi skriflega. Jafnframt skal birta tilkynningu um afturköllun í Lögbirtingablaði og auglýsa hana í fjölmiðlum.
     Afturkalli ráðherra starfsleyfi eftirlaunasjóðs endanlega skal hann skipa skilanefnd þriggja manna sem sér um slit á sjóðnum eða flutning á starfsemi hans til annars eftirlaunasjóðs.

XVI. KAFLI


Lífeyrissjóðir.


41. gr.


    Ákvæði IV., VI. og VII. kafla laga þessara taka til réttinda sjóðfélaga í lífeyrissjóðum og einnig starfsemi lífeyrissjóðanna.
     Lífeyrissjóðum er heimilt að öðru leyti að breyta starfsemi sinni til samræmis við lög þessi.
     Breyti lífeyrissjóður hins vegar starfsemi sinni eftir gildistöku laga þessara og slík starfsemi rúmast ekki innan reglugerðar lífeyrissjóðsins ber honum að breyta reglugerð sinni til samræmis við lög þessi.
     Óheimilt er að breyta samþykktum, reglugerðum, vinnureglum eða venjum lífeyrissjóða með ábyrgð ríkissjóðs, sveitarfélaga, ríkisbanka eða lögaðila til rýmkunar á inntökuskilyrðum nýrra sjóðfélaga eftir gildistöku laga þessara nema það samrýmist lögum þessum og hljóti staðfestingu fjármálaráðuneytis skv. 19. gr.
     Eftirlaunasjóði er heimilt að yfirtaka rekstur lífeyrissjóðs að undangenginni úttekt á eignum og tryggingastærðfræðilegri úttekt á skuldbindingum lífeyrissjóðsins. Við slíka yfirtöku verða eignir lífeyrissjóðsins að nægja fyrir skuldbindingum.

XVII. KAFLI


Ágreiningur.


42. gr.


    Verði ágreiningur um réttindi eða skyldur aðila samkvæmt lögum þessum úrskurðar fjármálaráðuneytið að fenginni greinargerð deiluaðila. Uni málsaðilar ekki úrskurði ráðuneytisins geta deiluaðilar leitað til dómstóla.

XVIII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


43. gr.


    Verði vanskil á greiðslu framlags skv. VI. kafla laga þessara skulu vangoldin framlög innheimt með vanskilavöxtum frá gjalddaga sem heimilaðir eru samkvæmt lögum. Vangoldin framlög má fullnusta skv. 10. tölul. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.

44. gr.


    Kröfur um framlög samkvæmt lögum þessum njóta forgangsréttar í þrotabú atvinnurekenda skv. 4. tölul. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

45. gr.


    Fjármálaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

XIX. KAFLI


Viðurlög.


46. gr.


    Haldi atvinnurekandi eftir eftirlaunaframlagi, hvort heldur er launamanns eða atvinnurekanda, og standi þannig ekki skil á eftirlaunaframlagi til viðurkennds eftirlaunasjóðs samkvæmt lögum þessum, varðar slíkt brot refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.

47. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.
     Um tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum fer samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.

XX. KAFLI


Gildistaka.


48. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Við gildistöku þeirra falla niður 2.–5. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
     Orðin „eftirlaun og lífeyrir“ í 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, falla brott.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 116. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu.

Tilgangur.
    Tilgangur lagafrumvarps þessa er að breyta því fyrirkomulagi sem nú ríkir í skipan lífeyristrygginga landsmanna og færa það í nútímalegra horf. Örar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi undanfarin ár, bæði efnahagslegar og félagslegar, og er ekki séð fyrir endann á þeim. Að undanförnu hefur því æ oftar verið haldið fram í umræðum að skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum sé brot á mannréttindum og í því sambandi hefur verið vísað til mála sem farið hafa fyrir mannréttindadómstól Evrópu. Jafnvel hafa verið færð rök að því að stjórnarskráin verndi val á lífeyrissjóði.
    Hér á landi er ekki til heildarlöggjöf um starfsemi lífeyrissjóða sem um þessar mundir eru 88. Um suma þessara sjóða gilda lög frá Alþingi en um aðra gilda reglugerðir og samþykktir sem settar hafa verið af stofnendum sjóðanna. Eftirlit og opinber skráning hafa til skamms tíma verið afar bágborin og hlýtur það að vera umhugsunarefni hvers vegna þessi mikilvægi málaflokkur hefur orðið út undan í lagasetningu.
    Við undirbúning þessa frumvarps hafa flutningsmenn notið aðstoðar Baldurs P. Erlingssonar lögfræðings og Arnar Gústafssonar viðskiptafræðings. Bjarni Ármannsson, forstöðumaður fjárvörslu- og markaðssviðs Kaupþings, og Gunnar Birgisson hagfræðingur aðstoðuðu við samningu XI. kafla.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir efnahagslegu ástandi lífeyrissjóðakerfisins á Íslandi, en vert er að geta hér nokkurra atriða sem gera nýja lagasetningu nauðsynlega.
—    Lágar og ónógar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Algengustu greiðslur úr lífeyrissjóðum eru nú á bilinu 20–40 þús. kr. eða jafnvel lægri. Þetta þýðir að obbinn af lífeyrisþegum fær tæplega 50 þús. kr. þegar bótum Tryggingastofnunar hefur verið bætt við.
—    Efnahagslegt umhverfi hér á landi hefur breyst afar hratt á undanförnum árum. Meðan verðbólga lék hér lausum hala reyndist sjóðunum afar erfitt að tryggja nægilega raunávöxtun þess fjármagns sem þeir höfðu undir höndum. Hár rekstrarkostnaður og uppsafnaður fortíðarvandi margra lífeyrissjóða veldur því að við mörgum þeirra blasir ekkert annað en gjaldþrot.
—    Erfitt er fyrir sjóðina að standa undir skuldbindingum sínum. Sem dæmi um þann vanda, sem sjóðunum er búinn á næstu áratugum sýna spár um fjölda 65 ára sem hlutfall af vinnubæru fólki á Íslandi árin 1990–2040 að hlutfallið eykst úr 16% í 33%, eða um 106,3%. Lengri lífdagar Íslendinga setja þannig óvænt strik í reikninginn.
—    Hlutfall greiðslna í lífeyrissjóði annars staðar á Norðurlöndum er í öllum tilvikum mun hærra en hér á landi. Þrátt fyrir það sjá þarlendir sjóðir fram á erfiðleika við að standa við skuldbindingar sínar.
—    Verði ekki gripið í taumana er fyrirsjáanlegt að framfærslubyrði hins opinbera mun stóraukast. Í ljósi þessara staðreynda og þeirrar þróunar, sem gætir víðast í nágrannalöndunum og hér á landi um skerðingu á almannatryggingakerfinu, er ljóst að við núverandi fyrirkomulag er ekki hægt að una öllu lengur.
—    Hafa þarf í huga að í lífeyrissjóðakerfinu á að felast félagslegt öryggi, þar á meðal framfærsla öryrkja og ellilífeyrisþega. Bregðist lífeyrissjóðakerfið mun þessi framfærslubyrði falla á ríkið.
—    Í núverandi lífeyrissjóðakerfi er ákveðið misrétti. Tilteknir aðilar geta valið sér sjóð meðan aðrir eru skyldaðir til að greiða í sjóð síns stéttarfélags sem skilar lakari réttindum. Þeir aðilar, sem geta valið sér sjóð, eru í flestum tilvikum stjórnendur og forráðamenn fyrirtækja og sjálfstæðir atvinnurekendur. Þessir aðilar hafa í raun byggt upp rekstur séreignasjóðanna.
—    Hlutverk lífeyrissjóðanna í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar í dag er afar mikilvægt. Sem dæmi um þetta má nefna að heildareignir lífeyrissjóðanna um áramót 1991–1992 voru 37% af peningasparnaði landsmanna að því er segir í ársskýrslu Seðlabankans. Í ljósi þessara staðreynda og að framtíð lífeyrissjóðakerfisins er óviss verði ekkert að gert er mikilvægi lagasetningar um framtíðarskipan þessara mála augljóst.
    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að launamanni beri skylda til að greiða í eftirlaunasjóð en velji sér eftirlaunasjóðinn sjálfur og velji jafnframt þá lágmarksvátryggingavernd sem honum hentar að tilteknu lágmarki slepptu. Í þessu felst grundvallarbreyting þar sem launamaður ræður engu í núgildandi fyrirkomulagi um það hvar eftirlaun hans eru ávöxtuð eða hvernig. Frumvarp þetta leysir ekki þann ógnvænlega fortíðarvanda sem að lífeyrissjóðunum steðjar en kemur í veg fyrir frekari öfugþróun í lífeyrissjóðsmálum landsmanna.
    Frumvarpið kveður á um stofnun svokallaðra eftirlaunasjóða sem hafi það í fyrsta lagi eingöngu að markmiði að veita viðtöku eftirlaunaframlögum frá launamönnum til sameiginlegrar fjárfestingar í verðbréfum eða fasteignum samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu og sjá launamönnum fyrir vátryggingavernd samkvæmt reglugerð viðkomandi eftirlaunasjóðs. Í öðru lagi er það markmið eftirlaunasjóðs að greiða launamanni eftirlaun og vátryggingabætur eftir þeim reglum er fram koma í reglugerð viðkomandi sjóðs. Gert er ráð fyrir að eftirlaunasjóður kaupi lágmarksvátryggingavernd sem er skylda samkvæmt frumvarpinu eða víðtækari vernd af vátrygginga- eða líftryggingafélagi. Eftirlaunasjóður er stofnaður sem hlutafélag, er sérstakur lögaðili með sérstaka stjórn og sérstakt ársuppgjör og sjálfstætt aðildarhæfi. Fimm menn sitja í stjórn eftirlaunasjóðs, þrír frá sjóðfélögum en tveir frá rekstraraðila.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að tiltekin fyrirtæki hafi heimildir til reksturs eftirlaunasjóða. Hér er um að ræða núverandi lífeyrissjóði, viðskiptabanka, sparisjóði, líftryggingafélög og verðbréfafyrirtæki. Um alla þessa aðila eru til ítarleg lög, að lífeyrissjóðunum undanskildum. Þessir aðilar hafa með höndum víðtæka starfsemi í þjóðfélaginu og ætti þátttaka þeirra í eftirlaunakerfi landsmanna að styrkja þá enn frekar.
    Með þessari breyttu skipan á að myndast samkeppni milli þeirra aðila sem heimildir hafa til reksturs eftirlaunasjóða. Þetta kerfi mun hvetja þessa aðila til að fjárfesta fé launamanns á sem arðbærastan hátt með sem minnstum tilkostnaði.
    Eftirlaunasjóðir starfa á grundvelli reglugerða sem staðfestar eru af fjármálaráðuneyti. Launamaður velur sér sjóð m.a. á grundvelli þessara reglugerða sem eiga að innihalda tiltekin atriði samkvæmt frumvarpinu sem þannig ættu að auðvelda launamanni valið.
    Gert er ráð fyrir að rekstraraðilar fjárfesti fyrir hönd sjóðanna á grundvelli þeirra reglugerða sem fjármálaráðherra hefur samþykkt. Það felur í sér að viðskiptabankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir og verðbréfafyrirtæki ávaxti fjármagn með líkum hætti og verið hefur. Þannig nýtist fagþekking þessara aðila í hinu nýja eftirlaunakerfi landsmanna, en í núverandi lífeyrissjóðakerfi er því haldið fram að mjög skorti á fagþekkingu rekstraraðila lífeyrissjóðanna. Með frumvarpi þessu er rennt styrkari stoðum undir rekstur líftryggingafélaga þar sem gert er ráð fyrir þátttöku þeirra í hinu nýja eftirlaunakerfi með rekstri lífeyristrygginga.
    Eins og fram hefur komið er eftirlaunasjóði skylt að hafa lágmarksvátryggingavernd. Hér er annars vegar átt við örorkutryggingu sem tryggir viðkomandi gegn slysum eða sjúkdómum, bæði í vinnu og frítíma. Vátryggingin verður bæði að taka tillit til tímabundinnar örorku og varanlegrar örorku. Hins vegar er skylt að að hafa lífeyristryggingu sem greiðir launamanni eftirlaun frá 67 ára aldri eða síðar, svo lengi sem hann lifir, en fellur niður að honum látnum. Í frumvarpinu er lögð sú skylda á eftirlaunasjóð að hafa framangreinda vernd, þar sem öllum mönnum er þörf að hafa slíka vernd óháð fjölskylduaðstæðum. Gæta verður að því að hér er einungis um lágmarksvernd að ræða sem auka þarf við svo hún teljist viðunandi.
    Launamanni er hins vegar ekki skylt samkvæmt frumvarpinu að hafa vátryggingavernd sem samsvarar maka- og barnabótum lífeyrissjóðanna, enda háð fjölskylduaðstæðum og fjárhag hver sú vernd á að vera eða hvort þörf er fyrir hana. Það er því lagt í vald hvers og eins að ákveða hvaða þörf hann hefur fyrir þessa vernd.
    Eins og að framan getur er 10% eftirlaunaframlag talið vera alls ófullnægjandi. Þessi prósenta skiptist þannig að launamaður greiðir 4% en atvinnurekandi 6%. Prósentan kom til í frjálsum samningum milli aðila vinnumarkaðarins og náði til dagvinnulauna. Síðan var samið um að framlagið næði til allra launa. Ljóst var þegar í upphafi að 10% framlagið væri ófullnægjandi og á það enn frekar við nú. Breyttar aðstæður í þjóðfélaginu og aukið langlífi hefur orðið þess valdandi að 10% duga engan veginn til að standa undir skuldbindingum lífeyrissjóðanna. Algengt er að miða tekjur manna sem komnir eru á eftirlaun við 60–80% hlutfall af þeim launum sem þeir höfðu þar sem umsvif manna eru minni þegar eftirlaunaaldri er náð. Til þess að þetta hlutfall launatekna náist þarf eftirlaunaframlag að aukast verulega. Sé miðað við 2–3% raunvexti er talið að eftirlaunaframlag ætti að vera á bilinu 12–15% af launum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftirlaunaframlag hækki í 13%. Það er hins vegar háð kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda hvernig þessi prósenta skiptist innbyrðis milli atvinnurekanda og launamanns, enda samningsatriði milli þessara aðila. Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt er kveðið á um að „eftirlaun og lífeyrir“ séu skattskyldar tekjur. Launamaður greiðir síðan tekjuskatt af eftirlaunum eða lífeyri við ráðstöfun hans og er þannig um tvísköttun að ræða. Gert er ráð fyrir að gerðar verði breytingar á þessu, framlag launamanns í eftirlaunasjóð verði undanþegið tekjuskatti við inngreiðslu í sjóðinn að tilteknu hámarki, en sköttun eigi sér stað þegar launamaður fær eftirlaunaframlagið til ráðstöfunar.
    Hér er um viðamikla breytingu að ræða. Launamaður getur þannig haft sömu ráðstöfunartekjur eftir hækkun eftirlaunaframlagsins þar sem það er undanþegið tekjuskatti allt að 7% af launum. Verði eftirlaunaframlag undanþegið tekjuskatti allt að 7% af launum verður hið opinbera af nær 2.500 millj. kr. skatttekjum. Á móti vinnst þó ýmislegt fyrir hið opinbera:
—    Staða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins batnar verulega þegar til lengri tíma litið og þar með munu áfallnar skuldbindingar ríkisins þar minnka, en þær námu 56.110 millj. kr. 1989.
—    Aukinn langtímasparnaður leiðir til minni neyslu og þar með verða áhrifin á greiðslujöfnuð við útlönd jákvæð.
—    Aukinn styrkur lífeyrissjóðanna til að standa við skuldbindingar sínar mun leiða til þess að framfærslubyrði ríkisins mun minnka þegar til lengri tíma er litið og þar með útgjöld þess vegna Tryggingastofnunar. Þannig má gera ráð fyrir að áhrif þessarar skattbreytingar verði jákvæð í heild sinni.
    Rétt er að benda á að hægt er að auka eftirlaunaframlög með öðrum hætti en getið er hér að framan. Þannig eru launatengd gjöld í atvinnurekstri 1% framlag í sjúkrasjóði og 0,25% framlag í orlofsheimilasjóði verkalýðsfélaganna sem spyrja má hvort ekki væri betur komið í eftirlaunasjóðum. Þannig mætti auka inngreiðslur í eftirlaunasjóði enn frekar án nýrra álaga á atvinnufyrirtækin.
    Samkvæmt frumvarpinu er eftirlaunasjóðum heimilt að fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum og fasteignum. Eftirlaunasjóðum ber hins vegar að fjárfesta 70% eigna sinna í framseljanlegum verðbréfum og íslensku atvinnulífi. Þannig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að eftirlaunasjóðum beri skylda til að fjárfesta að lágmarki 5% af eignum í íslensku atvinnulífi. Með þeim hætti er tryggt að nýtt fjármagn fáist í atvinnulíf landsmanna. Þar sitji allir eftirlaunasjóðir við sama borð. Grundvöllur þess að byggð haldist í þessu landi er sá að fyrir hendi sé heilbrigt atvinnulíf og aðgengi þess að fjármagni sé tryggt. Æ fleirum er raunar að verða ljóst að þátttaka eftirlaunasjóða í atvinnulífinu er nauðsyn. Ef næg atvinna er ekki fyrir hendi má búast við að innstreymi verði bágborið í sjóðina þannig að sterkt atvinnulíf er forsenda tilvistar þeirra eins og áður greinir. Með þeim hætti geta stjórnir eftirlaunasjóðanna og launamenn sjálfir haft veruleg áhrif á þá atvinnustefnu sem í landinu er á hverjum tíma.
    Tiltekið óréttlæti viðgengst í núverandi lífeyrissjóðakerfi. Af 76 sameignarsjóðum eru 17 með ábyrgð ríkissjóðs, sveitarfélaga og ríkisbanka og þrír með ábyrgð hlutafélaga en 56 án allra ábyrgða. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að þessari tilhögun sé breytt. Ástæða þess er sú að í mörgum tilvikum er litið á þessar ábyrgðir sem launa- eða starfskjör launamanns. Umræddar bakábyrgðir styrkja mjög þá sjóði sem hana hafa, en vekja upp spurningar um þær skuldbindingar sem á ábyrgðaraðilann falla ef viðkomandi lífeyrissjóður á ekki fyrir skuldbindingum. Þar sem eftirlaunasjóðir og þeir lífeyrissjóðir, sem ekki hafa ábyrgðir þriðja aðila, yrðu ósamkeppnisfærir við hina sem slíka ábyrgð hafa þegar valfrelsi launamanns yrði að veruleika er sérstaklega kveðið á um bann við rýmkun inntökuskilyrða í lífeyrissjóði með ábyrgð þriðja aðila nema að það samrýmist frumvarpinu.

Ástand lífeyrissjóðakerfisins í dag.
—    Í landinu starfa 88 lífeyrissjóðir, þar af 76 sameignasjóðir og 12 séreignasjóðir.
—    Iðgjöld til sjóðanna árið 1991 námu 14,5 milljörðum króna.
—    Fjármunatekjur námu samtals 11,4 milljörðum króna.
—    Útgreiðslur árið 1991 námu 7,4 milljörðum króna.
—    Inngreiðslur samtals árið 1991 námu 36,9 milljörðum króna.
—    Ráðstöfunarfé ársins 1991 nam 29,5 milljörðum króna.
—    Rekstrarkostnaður ársins 1991 nam 632 milljónum króna.
—    Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 157,5 milljörðum króna.
    Það er engin nýlunda að gerðar séu athugasemdir við núverandi lífeyrissjóðakerfi. Árið 1976 var skipuð 17 manna nefnd sem gera átti tillögur um nýskipan í lífeyrissjóðakerfinu, og skilaði hún áliti árið 1987. Nefndin gerði tillögu um samræmda löggjöf um starfsemi lífeyrissjóðanna. Það frumvarp hefur enn ekki hlotið samþykki Alþingis.
    Nýverið sendi bankaeftirlitið frá sér skýrslu þar sem gerð var tilraun til úttektar á stöðu lífeyrissjóðakerfisins. Eins og fram kemur í skýrslunni er forsenda þess að unnt sé að gera sér grein fyrir fjárhagsstöðu lífeyrissjóðanna að fyrir liggi úttekt tryggingastærðfræðinga á sjóðunum. Mikill misbrestur er á að úttektir þessar hafi farið fram. Af þeirri ástæðu og mismunandi ávöxtunarprósentu er afar erfitt að meta framtíðarskuldbindingar sjóðanna. Fram kemur í skýrslunni að hjá mörgum lífeyrissjóðum vanti mikið upp á að eignir standi undir skuldbindingum og að engar líkur virðast á að viðkomandi sjóðir geti unnið sig út úr vandanum. Þannig er ástatt um flesta af þeim 88 sjóðum sem getið er um í skýrslunni.
    Hvað er til ráða fyrir þessa sjóði? Lífeyrissjóðirnir geta í fyrsta lagi skert réttindi, í öðru lagi hækkað iðgjöld og í þriðja lagi lækkað rekstrarkostnað. Eðli tveggja fyrsttöldu aðgerðanna er þannig að um leið og rekstrarafkoma sjóðanna batnar skerðast réttindi sjóðfélaganna. Hlutverk og markmið lífeyrissjóðanna er að tryggja sjóðfélaga sína og fjölskyldur þeirra gegn áföllum af völdum dauða, með maka- og barnalífeyri, og fyrir starfsmissi af völdum slysa eða veikinda með örorkulífeyri og sómasamlegu framfærslufé þegar lífeyrisaldri er náð. Fyrir þessar breytingar áttu sjóðirnir erfitt með að ná þessum markmiðum sínum en eftir breytingarnar er þetta markmið enn fjarlægara. Hvað varðar þriðja úrræði lífeyrissjóðanna, að lækka rekstrarkostnaðinn, dugar það skammt eitt sér. Skoðum þessi úrræði aðeins nánar.

Skerðing réttinda.
    Flestir lífeyrissjóðanna hafa þegar skert réttindi sjóðfélaga verulega. SAL-sjóðirnir breyttu um áramótin 1991–1992 viðmiðunarvísitölu lífeyris úr launa- yfir í lánskjaravísitölu. Skerðing þessi er mun meiri en sýnist í fyrstu. Reynsla undanfarinna ára bendir til þess að laun hækki að jafnaði nálægt 1% á ári umfram lánskjaravísitölu. Þannig hefur þetta í för með sér að sjóðirnir telja sig nú geta reiknað með 3% framtíðarraunávöxtun eigna í stað 2% áður. Hér er því um mjög mikla skerðingu að ræða, og spyrja má hvort eigendur sjóðanna geri sér grein fyrir þessari miklu skerðingu.

    Sjóðirnir hafa hækkað viðmiðunaraldur lífeyrisþega úr 67 í 70 ára aldur. Þá hefur réttur karla og kvenna til makalífeyris einnig verið skertur verulega. Kunnugt er að margir lífeyrissjóðir hafa að undanförnu íhugað að skerða réttindi til örorkubóta þar sem slíkar greiðslur eru þungar mörgum sjóðanna.

Hækkun iðgjalda.
    Í dag nemur iðgjald til sjóðanna 10% af launum. Hversu mikið skortir á að iðgjöld dugi fer eftir ávöxtun eigna. Álitið er að SAL-sjóðirnir þurfi a.m.k. 12% iðgjald af launum ef unnt er að ávaxta eignir sjóðanna með 2% ávöxtun á ári umfram launabreytingar. Við 1% ávöxtun umfram laun virðist nauðsynlegt iðgjald vera 17% en 23% ef ávöxtun eigna svarar nákvæmlega til launabreytinga.

Lækkun kostnaðar.
    Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna árið 1991 var 632 millj. kr. Ljóst er að kostnaðarhlutfall lækkar eftir því sem sjóðirnir stækka. Þannig kemur fram í skýrslu bankaeftirlitsins að kostnaðarhlutfall þetta er afar mismunandi eftir sjóðum. Þá er einnig ljóst að ávöxtunarmöguleikar sjóðanna batna eftir því sem þeir eru stærri. Þannig hníga öll rök að því að sjóðirnir sameinist í einu eða öðru formi. Þessi þróun er þegar byrjuð þó í litlum mæli sé. Enda þótt þetta sé skynsamlegt eru ýmis ljón í veginum. Sjóðirnir standa afar misjafnlega og sameining er því erfið af þeim sökum. Þá er einnig um „hreppasjónarmið“ að ræða þar sem forráðamenn sjóðanna eru ekki tilbúnir að gefa eftir þau áhrif sem þeir hafa í gegnum sjóðina. Af þessum sökum má búast við að þessi leið verði afar torfarin.
    Í allri þessari umræðu verður að hafa það í huga að þeir aðilar, sem hagsmuna hafa að gæta í núverandi lífeyriskerfi, sporna við öllum róttækum breytingum. Hér er um að ræða stéttarfélög og stjórnir og forráðamenn lífeyrissjóðanna. Þegar lög um lífeyri eru skoðuð kemur á óvart að löggjöfin er takmörkuð og ómarkviss. Orsakanna fyrir þessu er vafalítið að leita í því hvernig þróun lífeyrismála hefur átt sér stað hérlendis, þ.e. í samningum stéttarfélaga og vinnuveitenda. Jafnframt má ætla að hugsunarháttur okkar Íslendinga eigi einhverja sök hér á.
    Hvað hafa lífeyrissjóðirnir að geyma? Þeir eiga eignir upp á 157,5 milljarða kr. árið 1991. Tryggingasjóðir allra vátryggingafélaga í landinu eiga til viðmiðunar 13 milljarða kr. Eignir tryggingasjóða allra vátryggingafélaga í landinu samsvara því rúmum 8% af eignum lífeyrissjóðanna. Verðbréfaeign allra verðbréfasjóða í landinu er 10 milljarðar kr. sem svarar rúmum 6% af eignum lífeyrissjóðanna.
    En til hvers er verið að bera þetta saman? Hvað hefur löggjafinn gert? Í stað þess að setja heilsteypta löggjöf um lífeyrissjóði, sem hafa að geyma 157 milljarða kr. af eignum launafólks, hefur hann sett ítarleg lög um verðbréfasjóði og vátryggingafélög. Það var ekki fyrr en með lögum nr 27/1991, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða, að bankaeftirlitinu var falið eftirlit með lífeyrissjóðunum. Þannig hefur fjármálakerfi með 157 milljarða kr. innan borðs verið eftirlitslítið hingað til. Af þessu er ljóst að löngu er orðið tímabært að sett séu lög um eftirlaunasjóði landsmanna.

Tilhögun núverandi lífeyrissjóða.
    Í núverandi lífeyrissjóðskerfi eru fjórar tegundir bóta:
    Ellilífeyrir. Venjulega er ellilífeyrisaldur 70 ár en sjóðfélögum er í sjálfsvald sett hvenær á aldrinum 67–75 ára þeir hefja töku lífeyris. Það er ekki skilyrði að sjóðfélagi láti af starfi. Réttindi eru reiknuð í stigum og til grundvallar stigum er notaður tiltekinn kauptaxti. Flestir sjóðanna nota næstlægsta taxta Dagsbrúnar. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og nokkrum öðrum sjóðum er lífeyrisaldur 65 ár. Algengast er að krafist sé a.m.k. fimm ára iðgjaldagreiðslu áður en réttinda fer að gæta.
     Makalífeyrir. Maki sjóðfélaga öðlast rétt til makalífeyris við andlát sjóðfélaga hafi hinn látni verið fullgildur félagi í sjóðnum. Við útreikning makalífeyris er tekið tillit til hver réttindi hins látna hefðu orðið hefði hann lifað. Makalífeyrir getur varað ævilangt í undantekningartilvikum.
     Barnabætur. Almennt er barnalífeyrir greiddur vegna fráfalls sjóðfélaga hafi hann notið örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt til hans iðgjöld a.m.k. sex mánuði af tólf mánuðum fyrir andlátið. Barnalífeyrir greiðist til 18 ára aldurs.
    Örorkulífeyrir. Samkvæmt bótaákvæðum stærsta hluta lífeyrissjóðanna er það skilyrði fyrir rétti til örorkulífeyris að umsækjandi hafi greitt iðgjöld til hlutaðeigandi sjóðs undanfarandi þrjú almanaksár og a.m.k. sex mánuði af næstu tólf mánuðum áður en örorka átti sér stað. Réttindi miðast við áunnin stig. Bætur greiðast ekki ef örorka er metin minni en 40%. Sé örorka minni en 100% greiðast bætur hlutfallslega. Engu skiptir hvort örorka verður af völdum slyss eða sjúkdóms.

Tilhögun frumvarpsins.
    Samkvæmt framansögðu kveða reglugerðir lífeyrissjóðanna á um fjórþætta vernd. Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á þessari skipan. Samkvæmt frumvarpinu getur launamaður valið sér hina hefðbundnu lífeyrissjóðavernd eins og lýst er hér að framan. Hann getur hins vegar einnig valið sér annars konar vernd, víðtækari eða rýrari en að framan getur. Þar sem engir tveir einstaklingar eru eins er eðlilegt að launamaður velji þá vernd sem honum hentar. Það gerir hann með vali á eftirlaunasjóði.
    Lítum nánar á valmöguleikana sem fyrir hendi verða ef frumvarp þetta nær fram að ganga.

Ellilífeyrir.
    Markmiðið með ellilífeyri lífeyrissjóðanna er að tryggja framfærslu sjóðfélagans (og fjölskyldu hans) þegar eftirlaunaaldri er náð. Eftirlaun eða lífeyrir getur orðið til á þrenns konar hátt samkvæmt frumvarpi þessu, þ.e. launamaður getur valið eftirfarandi eftirlaunavernd.
    Í fyrsta lagi getur launamaður fengið eftirlaun (ellilífeyrir) sem söfnun með lágmarkslífeyristryggingavernd skv. 12. gr. frumvarpsins. Dæmi um slíkt form eru núverandi séreignasjóðir þar sem eftirlaunaframlagið er eign launamannsins. Eftirlaunin mynda í fyrsta lagi höfuðstólinn sem verður til við reglubundin eftirlaunaframlög. Í öðru lagi verða eftirlaunin til við ávöxtun höfuðstólsins á söfnunartímanum. Sé rekstraraðili eftirlaunasjóðs banki, sparisjóður eða verðbréfafyrirtæki mundi ellilífeyrir myndast með þessum hætti.
    Í öðru lagi getur launamaður fengið eftirlaun (ellilífeyrir) með tryggingarþætti eins og í sameignarlífeyrissjóðum (gegnumstreymissjóðum). Í sameignarsjóði fer eftirlaunaframlagið til sjóðsmyndunar en úr sjóðnum eru síðan greiddar bætur eftir þeim reglum sem reglugerð sameignarsjóðsins eða eftirlaunasjóðsins setur.
    Í þriðja lagi getur launamaður fengið lífeyristryggingu sem er víðtækari en lágmarksverndin og brúar bilið milli hreins séreignarsjóðs og sameignarsjóðs allt eftir því hvernig og hversu mikil tryggingavernd er valin í hverju tilviki. Þannig getur launamaður t.d. valið sér tryggingavernd þar sem lífeyrir hans fellur annaðhvort niður að honum látnum eða rennur til maka hans og/eða barna að honum látnum. Fjölskylduaðstæður og val launamanns í þessum efnum hefur áhrif á ávöxtun.
    Þeir rekstraraðilar, sem samkvæmt frumvarpi þessu hafa heimildir til að reka vátryggingarþátt ellilífeyris, eru núverandi sameignarsjóðir og líftryggingafélög. Hins vegar geta aðrir rekstraraðilar boðið upp á slíka tryggingu. Þannig geta stjórnir eftirlaunasjóða, sem séreignasjóðir, bankar, sparisjóðir eða verðbréfafyrirtæki eru rekstraraðilar að, keypt slíka vátryggingavernd.
    Rétt er að nefna að fyrir Alþingi liggur lagafrumvarp sem heimilar bönkum og sparisjóðum að stofna og reka vátryggingafélög.

Maka- og barnabætur.
    Markmið með maka- og barnabótum lífeyrissjóðanna er að tryggja fjölskyldur sjóðfélaga gegn fjárhagslegum áföllum og tryggja framfærslu þeirra við andlát sjóðfélaga.
    Í frumvarpi þessu er eins og áður sagði ekki gert ráð fyrir að launamanni sé skylt til kaupa á vernd sem kallast maka- eða barnabætur eða sambærilega vernd. Fjölskylduaðstæður eða fjárhagslegar skuldbindingar eru mismunandi þannig að þörfin er mismunandi.
    Jafnframt er rétt að benda á það að velji launamaður þá leið að byggja upp ellilífeyri eingöngu með söfnun eykst fjárhæð sjóðsins eftir því sem á ævina líður. Ef launamaður deyr eftir langa starfsævi getur hinn uppsafnaði sjóður dugað til framfærslu eftirlifandi eða sem vörn gegn fjárhagslegum skakkaföllum. Deyi hann hins vegar eftir stutta starfsævi dugar uppsafnaði sjóðurinn í fæstum tilvikum enda sparnaður skammt á veg kominn, uppeldi barna yfirstandandi og fjárhagslegar skuldbindingar í mörgum tilvikum verulegar. Þannig er nauðsynlegt fyrir launamann, sem velur þá leið að byggja upp séreignarsjóð, að tryggja sig ef andlát ber að höndum, en sú þörf minnkar með aldrinum.
    Sé sú leið valin að byggja upp ellilífeyri í sameignarsjóði gildir hið sama og hér að framan að því frátöldu að séreign sjóðfélaga myndast ekki. Þörfin fyrir tryggingu vegna andláts byggir því eingöngu á framfærslu og fjárþörf eftirlifandi.
    Líftryggingar, sem greiða út vátryggingarfjárhæð við andlát hins tryggða, nefnast dánaráhættutryggingar og eru stærstur hluti reksturs líftryggingafélaga hérlendis.

Örorkubætur.
    Markmið með örorkubótum lífeyrissjóðanna er að bæta tímabundinn eða varanlegan missi starfsorku sjóðfélaga vegna slysa eða sjúkdóma. Í sjálfu sér gildir það sama um þörf örorkubóta og áhættulíftryggingar fyrir aðila sem hefur valið sér séreignarleiðina við uppbyggingu eftirlaunasjóðs. Þó verður að gæta að því að reglur geta kveðið á um það að örorka þurfi að vera að varanleg og jafnframt að tilteknu lágmarki ef heimilt á að vera að fá greiddan út eftirlaunasjóð, hluta hans eða allan sjóðinn. Jafnframt fer þörfin fyrir örorkuvernd ekki eftir fjölskylduhögum, þ.e. hjúskaparstöðu eða barneign. Það er því almennt svo að launamaður hefur þörf fyrir tiltekna lágmarksörorkuvernd.
    Af þessum sökum kveður frumvarpið á um skyldu til kaupa á lágmarksörorkuvernd. Hér er um að ræða vernd sem tryggir launamann ef slys eða sjúkdómur veldur óvinnufærni þannig að viðkomandi geti ekki framfleytt sér eða sínum. Gæta verður að því að hér er einungis um að ræða lágmarksvátryggingavernd sem nauðsynlegt er að auka við ef hún á að vera viðunandi.

    Vátryggingar, sem tryggja gegn tímabundnum eða varanlegum missi starfsorku, kallast sjúkra- eða slysatryggingar eftir því hvort tryggja á starfsmissinn vegna slyss eða sjúkdóms og eru starfræktar í vátryggingafélögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. er starfsemi eftirlaunasjóðs skilgreind. Um er að ræða tvíþætta starfsemi. Annars vegar er tekið við eftirlaunaframlögum frá launamönnum og fjárfest í verðbréfum og fasteignum eftir fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Hugtakið launamaður er skilgreint í 9. gr. Gert er ráð fyrir að eftirlaunasjóðir fjárfesti aðeins í framseljanlegum verðbréfum og fasteignum. Eftirlaunasjóðir hafa þannig heimild til að fjárfesta í fasteignum en svo er ekki um verðbréfasjóði. Eftirlaunasjóður skal jafnframt fjárfesta í íslensku atvinnulífi samkvæmt frumvarpi þessu. Í IX. kafla frumvarpsins er sérstaklega kveðið á um fjárfestingarstefnu eftirlaunasjóða. Hins vegar er gert ráð fyrir að reglugerð hvers sjóðs tilgreini hvernig sjóðurinn ætlar að fjárfesta innan ramma laganna. Fjármálaráðuneytið skal síðan staðfesta reglugerð, m.a. með fjárfestingarstefnu í huga, en fjármálaráðherra fer með starfsemi eftirlaunasjóða. Það er jafnframt hlutverk eftirlaunasjóða að sjá sjóðfélaga fyrir tiltekinni vátryggingavernd sem getur verið mismunandi milli sjóða. Kveðið er á um grunnvernd í V. kafla frumvarpsins og er það lágmarksvernd sem öllum er nauðsynleg. Eftirlaunasjóði ber að kaupa lágmarksvátryggingavernd eða viðbótarvernd hjá vátrygginga- eða líftryggingafélagi. Hins vegar er það hlutverk eftirlaunasjóðs að greiða launamanni eftirlaun eða aðrar þær bætur sem réttindi sjóðfélaga segja til um samkvæmt reglugerð eftirlaunasjóðsins.
    Gert er ráð fyrir að form eftirlaunasöfnunar geti verið mismunandi að öðru leyti. Slíkt fari eftir þeirri „vöru“ sem boðið er upp á af viðkomandi eftirlaunasjóði. Þannig geta tímamörk útgreiðslu verið mismunandi eftir reglugerð eftirlaunasjóðs. Þetta er samningsatriði eftir því hvað reglugerð eftirlaunasjóðs segir til um. Þannig gæti viðkomandi hætt að vinna 65 ára eða 60 ára allt eftir því hvaða „vöru“ (samning) hann keypti af sjóðnum. Sjóðir geta boðið mismunandi vátryggingavernd. Sjóður gæti boðið upp á líftryggingar vegna maka og barnabóta til viðbótar við slysa- og sjúkratryggingar vegna tímabundinnar eða varanlegrar örorku og lífeyristryggingu. Á sama hátt má sjá fyrir sér mimunandi vátryggingarupphæðir eftir sjóðum að lágmarksfjárhæðum slepptum.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. er getið um skilyrði fyrir stofnun eftirlaunasjóðs. Um er að ræða fimm atriði. Í 1. tölul. er sett það skilyrði að eftirlaunasjóður sé stofnaður sem hlutafélag. Lög um hlutafélög gilda því að þessu lagafrumvarpi slepptu.
    Í 2. tölul. eru gerðar fjárhagslegar kröfur til eftirlaunasjóðs við stofnun hans. Annars vegar er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi stofnframlag að fjárhæð 50 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þetta fé sé til ráðstöfunar fyrir sjóðinn án nokkurra hamla. Hins vegar er hægt að uppfylla skilyrðið með því að 500 aðilar skuldbinda sig til að greiða eftirlaunaframlög í viðkomandi sjóð. Með þessum hætti myndast sjóðstreymi strax við stofnun sjóðsins. Nauðsynlegt er að gera fjárhagslega kröfu til sjóðsins þar sem sjóðurinn er sjálfstæður lögaðili. Þannig getur eftirlaunasjóður haft sjálfstætt aðildarhæfi að dómsmáli. Jafnframt mun fjárhagskrafa takmarka möguleika manna til að stofna sjóði. Sé hins vegar tiltekinn fjöldi manna, þ.e. 500 aðilar sem lýst hafa vilja sínum til að greiða í tiltekinn eftirlaunasjóð, með tiltekna reglugerð án þess að ofangreint fjármagn standi að baki eru ekki rök til að banna slíkt. Launamaðurinn er eigandi að eftirlaunaframlagi sínu og ræður hvað hann gerir við það. Hins vegar verður slíkur sjóður að uppfylla önnur skilyrði laganna, þar á meðal um ákveðinn rekstraraðila.
    Ákvæði 3. tölul. kveður á um að reglugerð fullnægi ákvæðum 1. mgr. 19. gr. Þetta ákvæði þarfnast ekki nánari skýringa.
    Samkvæmt 5. tölul. er endurskoðun falin löggiltum endurskoðanda. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa.
    Ofangreind skilyrði ættu í reynd að takmarka fjölda sjóða en um leið að gera starfandi eftirlaunasjóði öfluga. Fjármálaráðuneytið veitir starfsleyfi fyrir eftirlaunasjóði að undangenginni umsögn bankaeftirlits og tryggingaeftirlits. Nauðsynlegt er að leita álits tryggingaeftirlits þar sem starfsleyfið byggir á mati á reglugerð sem hefur að geyma hluti sem eru vátryggingalegs eðlis. Jafnframt hefur tryggingaeftirlit eftirlit með líftryggingafélögum sem geta verið rekstraraðilar eftirlaunasjóða.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er lagt bann við annarri starfsemi eftirlaunasjóðs en um getur í 1. gr. Telja verður eðlilegt að ekki sé blandað annarri starfsemi inn í starfsemi eftirlaunasjóða og þannig aukin áhætta á skerðingu réttinda sjóðfélaga. Eftirlaunasjóður veitir viðtöku eftirlaunaframlögum sem eru eign launamanns og framfærslufé launamanns síðar á ævinni. Hvernig farið er með þetta framlag launa varðar launamann miklu enda um mikla fjármuni að ræða. Með sérhæfingu eftirlaunasjóða á að myndast sérþekking á fjárfestingu eftirlaunaframlags sem lýtur m.a. sérsjónarmiðum varðandi fjárfestingarstefnu.
    Gert er ráð fyrir að einungis eftirlaunasjóðum sé heimilt að nota orðið „eftirlaunasjóður“ eitt sér eða samtengt öðrum orðum. Ákvæðið á að fyrirbyggja misskilning og rugling og eins til að koma í veg fyrir að aðilar geti villt á sér heimildir.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um í hvaða félagsformi ber að starfrækja efirlaunasjóði. Gert er ráð fyrir að einungis sé hægt að starfrækja sjóði í hlutafélagsformi. Um eftirlaunasjóði gilda því lög um hlutafélög eftir því sem við getur átt. Eftirlaunasjóður er því sérstakur lögaðili, með sjálfstæða stjórn, sérstakt ársuppgjör og sjálfstætt aðildarhæfi.
    Það mætti hugsa sér annað félagsform fyrir eftirlaunasjóði, svo sem „sjálfseignarstofnun“, en slíkt félagsform hefur ekki eins ítarlegan lagaramma að baki og hlutafélagaformið. Eins hefði mátt hugsa sér að eftirlaunasjóðir væru einungis í formi „eftirlaunareikninga“ í viðskiptabönkum. Ef slíkt væri gert mundu eftirlaunaframlög launamanna renna inn í efnahag viðskiptabankans og hætta væri á að fjármagn sjóðanna glataðist ef viðskiptabanki yrði t.d. gjaldþrota.

Um 5. gr.


    Ákvæðin eru efnislega sambærileg ákvæðum í lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði. Um athugasemdir vísast til athugasemda við 4.–7. gr. þeirra laga.

Um 6.–8. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Um III. kafla.


    Í þessum kafla er að finna skilgreiningar á meginhugtökum. Vakin er athygli á skilgreiningu lífeyrissjóða sem á að ná yfir alla starfandi lífeyrissjóði.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Hér er kveðið á um skyldu allra launþega að eiga aðild að eftirlaunasjóði. Hér er því með öðrum orðum verið að kveða á um skyldu viðkomandi til að greiða hluta launa sinna í eftirlaunasjóð. Lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55 frá 1980, gera jafnframt kröfu um skyldu til greiðslu í lífeyrissjóð.
    Með lögum þessum er ekki ætlunin að undanskilja neinn þann aðila sem þiggur laun, hvaða nafni sem þau nefnast, á tilteknu aldursbili. Aldursbilið er í lögunum ákvarðað frá 16 ára afmælisdegi til þess dags þegar launamaður verður 67 ára. Skylda til greiðslu eftirlaunaframlags fellur niður ef viðkomandi hættir störfum og hefur ekki launatekjur fyrir tilgreint tímamark.

Um 11. gr.


    Hér er kveðið á um þá meginreglu að sá aðili, sem þiggur launin, launamaðurinn, ákveði hvar hann á sinn eftirlaunasjóð. Samkvæmt þessu ræður atvinnurekandinn engu um þetta. Eftirlaunaframlagi launamannsins er ætlað að tryggja framfærslu launamannsins á ævinni. Af þessum sökum er eðlilegt að launamaðurinn sjálfur ráðstafi þessu framlagi og beri þannig ábyrgð á ávöxtun þess. Hér fer saman vald til ráðstöfunar og hagsmunir en þessi tengsl hefur skort í núverandi lífeyrissjóðakerfi.
    Í núgildandi lögum, nr. 55 frá 1980, er mælt fyrir um skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum. Samkvæmt þeim lögum var meginreglan sú að aðildin var einskorðuð við lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Sú meginregla er með lögum þessum afnumin.

Um 12. gr.


    Hér er kveðið á um það að eftirlaunasjóði sé skylt að hafa eftirfarandi lágmarksvátryggingavernd hjá vátrygginga- eða líftryggingafélagi. Um er að ræða tiltekna lágmarksvernd sem öllum launamönnum er nauðsynleg. Hér er annars vegar gert ráð fyrir sjúkra- og slysatryggingu og hins vegar lífeyristryggingu. Þessar vátryggingar eru öllum mönnum nauðsynlegar. Þar sem maka- og barnabætur eru háðar þörfum hvers og eins er ekki lögð sú skylda á launamann að kaupa slíka vátryggingu. Hér er það lagt í vald launamanns að meta sína þörf fyrir maka- og barnabætur. Jafnframt verður launamaður að meta hvort lágmarksvátryggingavernd sé nægjanleg vernd. Skylda til kaupa á lífeyristryggingu höfðar sérstaklega til þeirra sem velja sér eftirlaunasjóð sem er séreignarsjóður og eiga það á hættu að klára séreign sína.
    Rétt er að benda á að núverandi lífeyrissjóðir þurfa ekki að uppfylla skilyrði laganna um lágmarksvátryggingavernd enda hafa þeir tiltekna vátryggingavernd í reglugerðum sínum.
    Reynt er að haga vátryggingaupphæðum í samræmi við þörf. Þannig er vátryggingafjárhæðum skipt upp í fjögur aldursbil enda verður þörfin fyrir örorkutryggingu minni eftir því sem aldurinn færist yfir. Þegar um séreign er að ræða er fjárhæðin orðin veruleg á síðari stigum starfsævinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir að viðkomandi fái hlutfallslega hærri bætur þegar um háa örorku er að ræða en ef hún er lítil. Til að lækka iðgjald örorkutryggingarinnar en frekar er gert ráð fyrir að ekki verði greiddar bætur fyrir lægri örorku en 25%. Samkvæmt 12. gr. fá launamenn á aldursbilinu 16–35 ára eftirfarandi bætur eftir örorkumati:
25%
    varanlegur öryrki
2.000.000     kr.
50%
    varanlegur öryrki
6.000.000     kr.
75%
    varanlegur öryrki
12.000.000     kr.
100%
    varanlegur öryrki
18.000.000     kr.
    Samkvæmt greininni fengju launamenn á aldursbilinu 51–60 ára eftirfarandi bætur samkvæmt mati:
25%
    varanlegur öryrki
500.000     kr.
50%
    varanlegur öryrki
1.500.000     kr.
75%
    varanlegur öryrki
3.000.000     kr.
100%
    varanlegur öryrki
4.500.000     kr.
    Vátryggingarfjárhæðir eru miðaðar við lánskjaravísitölu þar sem verðmæti eigna hækkar með sömu vísitölu í flestum tilvikum.
    Það er á ábyrgð eftirlaunasjóða að þessi tiltekna lágmarksvernd sé fyrir hendi.

Um 13. gr.


    Hér er kveðið á um að öll laun, eins og þau eru skilgreind í frumvarpinu, séu notuð sem grundvöllur undir eftirlaunaframlagið. Kveðið er á um að eftirlaunaframlagið skuli vera að lágmarki 13% af reiknigrunni. Hér er um 3% hækkun að ræða enda talið að núverandi hlutfall launa sé ekki nægjanlegt til að fullnægja kröfum launamanna til sómasamlegra eftirlauna. Það er lagt í vald aðila vinnumarkaðarins, stéttarfélaga og vinnuveitenda, að ákvarða innbyrðis skiptingu eftirlaunaframlagsins. Hér er þess sérstaklega getið að allt eftirlaunaframlagið sé „eign“ launamanns að öllu leyti, þ.e. bæði hlutur launamanns sjálfs og atvinnurekanda. Vegna þessa er hægt að beita refsiviðurlögum vegna 13% eftirlaunaframlagsins að fullu. Þessi breyting ætti að gera innheimtu og fullnustu refsingar virkari í framkvæmd en nú.
    Ef launamaður vill greiða umfram 13% framlagið er atvinnurekanda ekki skylt að gera slíkt hið sama nema fyrir liggi sérstök samningsákvæði milli atvinnurekanda og launamanns.
    Samkvæmt 2. mgr. helst sú skylda atvinnurekanda að halda eftir eftirlaunaframlagi og greiða það til viðkomandi eftirlaunasjóðs. Með breytingu á meginreglunni um skyldu til greiðslu í tiltekinn lífeyrissjóð þannig að launamaður geti valið sér eftirlaunasjóð getur atvinnurekandi þurft að greiða framlög til margra eftirlaunasjóða í stað eins eða tveggja samkvæmt gömlu reglunni. Með tilkomu tölvukerfa og nútímalaunabókhalds er hér ekki um mikla fyrirhöfn að ræða eftir að búið er að breyta þessu í eitt skipti hjá starfsmannahaldi viðkomandi atvinnurekanda.
    Launamaður hefur einungis heimild til að greiða í einn eftirlaunasjóð hverju sinni. Launamaður getur þannig ekki skipt eftirlaunaframlagi á milli tveggja eða fleiri sjóða. Það kemur hins vegar fram í reglugerð hvers eftirlaunasjóðs hvernig háttað er flutningi réttinda úr sjóðnum. Slík skilyrði geta þannig verið mismunandi eftir sjóðum.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.


    Gert er ráð fyrir að eftirlaunaframlag launamanns sé undanþegið tekjuskatti. Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75 frá 1981, með síðari breytingum, eru eftirlaun og lífeyrir skattskyldar tekjur. Gert er ráð fyrir að þetta breytist samkvæmt þessu ákvæði frumvarpsins. Ákvæðið setur þak á skattfrelsið, þ.e. 7% af launum. Nauðsynlegt er að gera þetta til að koma í veg fyrir þá freistingu aðila vinnumarkaðarins að hafa hlutfall launamanns hátt og umfram það sem eðlilegt er til að ná fram verulegu skattahagræði.
    Greiðsla eftirlauna úr eftirlaunasjóði, eða vátryggingabætur, er hins vegar skattskyld. Séu vátryggingabætur greiddar út sem eingreiðsla eru slíkar bætur skattfrjálsar eins og verið hefur. Þetta þýðir að eftirlaun launamanns eru einungis sköttuð einu sinni en ekki tvísköttuð eins og nú.
    Gert er ráð fyrir að tekið verði upp það nýmæli að launamaður geti um það á skattskýrslu sinni hvar hann visti eftirlaunaframlag sitt og hversu mikil réttindi hann hefur áunnið sér. Þetta er gert svo að hægt verði að fylgjast með því hvort viðkomandi uppfyllir skyldu laganna um greiðslu eftirlaunaframlags í tiltekinn sjóð og eins hvort launamaður uppfyllir skilyrði laganna um lágmarksvátryggingavernd. Vilji menn tengja réttindi launamanns í eftirlaunasjóði við réttindi í almannatryggingakerfi er nauðsynlegt að hafa ofangreindar upplýsingar.

Um 16. gr.


    Æðsta vald í málefnum eftirlaunasjóða er aðalfundur. Aðalfundur kýs stjórn sem fer með vald milli aðalfunda. Allir sjóðfélagar hafa rétt til setu á aðalfundi en atkvæðisréttur fer eftir inneign. Með þessum hætti eru það þeir aðilar sem hagsmuna hafa að gæta sem ráða mestu um starfsemi sjóðsins. Aðalfundur tekur afstöðu til ársreikninga sjóðsins.

Um 17. gr.


    Stjórn sjóðsins er kosin á aðalfundi en í henni eiga sæti fimm menn, þrír frá sjóðfélögum en tveir frá rekstraraðila. Það hefði mátt hugsa sér að allir stjórnarmenn væru úr röðum sjóðfélaga en frá slíku var horfið þar sem þátttaka rekstraraðila getur leitt til þess að vægi faglegra sjónarmiða verði meira en ella hefði orðið. Fulltrúar rekstraraðila hafa jafnframt með höndum daglegan rekstur sjóðsins og ættu því að þekkja vel til, sérstaklega hvað varðar markaðsaðstæður. Hlutverk stjórnar er að hafa almennt eftirlit með starfsemi sjóðsins, að hún sé í samræmi við lög og reglugerð hans. Stjórnarmenn geta bakað sér ábyrgð skv. 47. gr. ef þeir brjóta gegn starfsskyldum sínum hvað þetta varðar. Jafnframt er gert ráð fyrir að fram komi í reglugerð viðkomandi sjóðs hvernig háttað er viðurlögum vegna brota á reglugerð ef stjórn eða starfsmenn brjóta gegn reglugerð sjóðsins. Stjórnarmenn í eftirlaunasjóðum verða að uppfylla almenn hæfisskilyrði. Þó er ekki gerð sú krafa að stjórnarmaður sé íslenskur ríkisborgari, heldur getur hann verið ríkisborgari aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Að fenginni sérstakri heimild fjármálaráðherra getur ríkisborgari ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins fengið heimild til setu í stjórn eftirlaunasjóðs.
    Gerð er sú krafa að stjórnarmenn eftirlaunasjóðs séu ekki í stjórn rekstraraðila. Þetta er gert til að tryggja sjálfstæði eftirlaunasjóðs í ákvörðunum og eins til að gæta hagsmuna sjóðfélaga sem best.


Um 18. gr.


    Með þessari lagagrein er kveðið á um það hverjir megi starfrækja eftirlaunasjóð. Um er að ræða lífeyrissjóði, líftryggingafélög, viðskiptabanka, sparisjóði og verðbréfafyrirtæki. Það er sammerkt öllum þessum félagaformum, að lífeyrissjóðunum undanskildum, að að baki þeim býr ítarleg löggjöf sem kveður m.a. á um eftirlit með þessum aðilum. Gert er ráð fyrir að stjórnir eftirlaunasjóða geri samstarfssamning við einn af ofangreindum aðilum um rekstur eftirlaunasjóðs. Fjárhæð umsýsluþóknunar fer eftir samkeppni eftirlaunasjóða. Umsýsluþóknun er tekin af ávöxtunartekjum eftirlaunasjóðsins og ef ávöxtun er ekki til jafns við aðra og jafntraust munu launamenn ekki velja viðkomandi sjóð. Umsýsluþóknun ræðst einnig af getu rekstraraðila til að ná sem bestri fjárfestingu eigna hverju sinni miðað við aðra sjóði.
    Enda þótt frumvarpið kveði á um verulegar breytingar á starfsemi lífeyrissjóða er gengið út frá því að þeir geti í fyrsta lagi starfað áfram í óbreyttu formi. Í öðru lagi getur eftirlaunasjóður yfirtekið lífeyrissjóð. Í þriðja lagi geta lífeyrissjóðir verið rekstraraðilar eftirlaunasjóðs skv. 18. gr. frumvarpsins. Í fjórða lagi getur lífeyrissjóður breytt starfsemi sinni í samræmi við lögin og kallast þá eftirlaunasjóður. Þannig eru lífeyrissjóðunum veittir möguleikar til að eflast og dafna í samkeppni við aðra eftirlaunasjóði.
    Gert er ráð fyrir að erlendir aðilar hafi sömu tækifæri og innlendir til að starfrækja eftirlaunasjóði og er þetta í samræmi við lög hins Evrópska efnahagssvæðis.

Um 19. gr.


    Hver eftirlaunasjóður hefur reglugerð. Launamaður velur sér eftirlaunasjóð m.a. á grundvelli reglugerðarinnar. Þar koma fram helstu atriði sem varða sjóðfélaga miklu.
    Í 17. gr. er sérstaklega kveðið á um að tiltekin atriði verði að vera í reglugerð. Þetta er gert svo að launamaður geti borið saman reglugerðir mismunandi eftirlaunasjóða og þannig valið sér sjóð. Mjög mikilvægt atriði er fjárfestingarstefnan sem mun verða mismunandi milli sjóða en þó innan ramma laganna.
    Breyta má reglugerð á aðalfundi ef tiltekinn meiri hluti er fyrir ákvörðuninni. Ef slíkt er gert verður að fara með breytingar með sérstökum hætti sem getið er í 2. og 3. mgr. greinarinnar. Þessi aðferð er nauðsynleg þar sem sjóðfélagi hefur valið sér sjóð á ákveðnum forsendum sem breytast ef til vill með breyttri reglugerð. Hann telur ef til vill að rétt sé að flytja sig úr sjóðnum vegna þessa.

Um 20. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram meginregla frumvarpsins varðandi fjárfestingarstefnu eftirlaunasjóða. Samkvæmt frumvarpinu er eftirlaunasjóðum gert að fjárfesta að langmestu leyti í framseljanlegum verðbréfum sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Um þetta er fjallað í 1. og 2. tölul. málsgreinarinnar. Ætlast er til að fjárfestingar eftirlaunasjóða í verðbréfum sem uppfylla skilyrði 1. og 2. tölul. séu að lágmarki 70% af eignum eftirlaunasjóðsins. Markmiðið er að verðmæti eigna eftirlaunasjóðsins liggi ætíð sem skýrast fyrir, bæði til að mæta óvæntu sjóðsflæði á hverjum tíma og eins til að reiknigrunnur til að mæta skuldbindingum sé ætíð sem skýrastur.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er fjallað um fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Fjárfestingarnar eru ekki bundnar við ákveðna markaði eða lönd, en sé markaðurinn utan Evrópska efnahagssvæðisins skal bankaeftirlitið hafa viðurkennt hann. Í 2. tölul. 1. mgr. er veitt heimild til fjárfestingar í nýútgefnum framseljanlegum verðbréfum sem hafa ekki verið skráð eða tekin til sölu á einhverjum þeirra markaða sem fjallað var um í umfjöllun um 1. tölul. ákvæðisins. Þessi heimild er hins vegar bundin því skilyrði að í skilmálum vegna útgáfu verðbréfanna sé kveðið á um að skráningar verði óskað á opinberum markaði eða þau verði látin ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði innan árs frá útgáfu þeirra. Ákvæðinu er ætlað að veita eftirlaunasjóðum svigrúm til að fjárfesta í nýjum verðbréfaútgáfum en eftir sem áður er ætlast til þess að veðskipti með þau hefjist innan tiltölulega skamms tíma frá útgáfu. Verði ekki af skráningu verðbréfa samkvæmt þessum tölulið innan settra tímamarka telst skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt. Hins vegar kynni eftirlaunasjóði eftir sem áður að vera heimilt að eiga verðbréfin áfram, enda séu sameiginlegt verðmæti þeirra innan þeirra takmarkana sem settar eru í 2.–4. mgr. 20. gr.
    Í 2. mgr. er eftirlaunasjóðum veitt undanþága frá meginreglu til að fjárfesta í annars konar skuldaskjölum en getið er um í 1. mgr. Með fjárfestingum í verðbréfum, sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr., er eftirlaunasjóðum veitt svigrúm til fjárfestinga án þess að skerða hagsmuni sjóðfélaga eða ganga gegn grundvallarsjónarmiði frumvarpsins um áhættudreifingu.
    Í 1. tölul. 2. mgr. er eftirlaunasjóði heimilað að fjárfesta allt að 10% eigna sinna í öðrum tegundum verðbréfa en getið er um í 1. mgr. Telja verður eðlilegt, a.m.k. meðan verðbréfamarkaðurinn hér á landi er ekki fullkomnari en raun ber vitni, að veitt sé svigrúm til fjárfestinga sem lúti ekki jafnströngum kröfum og krafist er samkvæmt meginreglu frumvarpsins.
    Í 2. tölul. 2. mgr. er eftirlaunasjóðum heimilað að fjárfesta í skuldaskjölum sjóðfélaga vegna lána með fasteignaveði í íbúðarhúsnæði sem nemur allt að 15% af eignum. Telja verður eðlilegt að hafa lagarammann nokkuð víðan hvað þetta atriði snertir. Markaðsverð á íbúðarhúsnæði er nokkuð þekkt á hverjum tíma og telja verður eðlilega stefnumörkun af hálfu eftirlaunasjóðsins sjálfs hvort hann lánar sínum sjóðfélögum vegna íbúðarkaupa eða ekki. Ekki er þó eðlilegt að hlutfall þessarar tegundar fjárfestingar sé hærra en 15% með tilliti til áhættudreifingar.
    Til skýringar á 3. og 4. mgr. vísast til laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.

Um 21. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu er eftirlaunasjóðum skylt að fjárfesta í hlutafélögum eða sambærilegu félagsformi að því skilyrði uppfylltu að ekki séu neinar hömlur á viðskiptum með eignarhluti í viðkomandi félagi. Ætlast er því til að slíkar fjárfestingar falli undir 1. mgr. 20. gr. Markmiðið með lágmarki þessu er að efla íslensk fyrirtæki og sjóðirnir séu að ákveðnu marki þátttakendur í áhætturekstri íslenskra fyrirtækja. Dreifing milli einstakra fjárfestingarkosta á hins vegar að tryggja að með þessu ákvæði sé ekki á neinn hátt vegið að meginreglu frumvarpsins er lýtur að áhættudreifingu. Fjárfestingar eftirlaunasjóða eru í eðli sínu langtímafjárfestingar og því er eðlilegt að hluti eigna sjóðanna sé fjárfestur í íslensku atvinnulífi. Einnig er kveðið á um hámark eignarhlutar í einstökum félögum.
    Í 1. mgr. er lágmark fjárfestingar í hlutafélögum eða sambærilegu félagsformi sett 5%. Ekki mega vera neinar hömlur á viðskiptum með eignarhluti í félaginu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að eftirlaunasjóði sé óheimilt að eignast meira en 10% í ákveðnu félagi með eða án atkvæðisréttar. Markmiðið með þessu ákvæði er að tryggja áhættudreifingu fjárfestinga auk þess að stuðla að því að með slíkum fjárfestingum séu arðsemissjónarmið látin ráða ferðinni.

Um 22. gr.


    Í 1. mgr. er eftirlaunasjóðum heimilað að fjárfesta allt að 10% af eignum sínum í íbúðarhúsnæði. Jafnframt er eftirlaunasjóðum bannað að fjárfesta í atvinnuhúsnæði.
    Hér er um nýjung að ræða. Ekki er talið óeðlilegt að eftirlaunasjóðir hafi val til að fjárfesta 10% af sínum eignum í íbúðarhúsnæði. Víða erlendis, sérstaklega þar sem stöðugleiki með tilliti til verðbreytinga er mikill, er hluti eigna lífeyrissjóða í fasteignum. Þetta opnar eftirlaunasjóðum einnig þann möguleika að leigja út íbúðir til sinna félagsmanna að ákveðnu marki og nýta þannig sínar fjárfestingar betur en ella í þágu sjóðfélaga. Ætlast er til að fjárfestingar eftirlaunasjóða í atvinnurekstri eigi sér stað með þeim hætti er getið er um í 21. gr. og því ekki eðlilegt að fjárfesta með beinum hætti í húsnæði til atvinnustarfsemi.
    Í 2. mgr. kemur fram að eftirlaunasjóði er heimilt að yfirtaka eignir, jafnvel þótt um sé að ræða meira en 10% af eignum, til að fullnusta kröfur, þ.e. til að verja hagsmuni sína, enda sé eignin seld jafnskjótt og talið er hagkvæmt og eigi síðar en átján mánuðum frá yfirtöku eignanna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu skal tilkynna bankaeftirlitinu sem getur krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests.

Um 23. gr.


    Í 23. gr. kemur fram að heildarfjárfesting skv. 2. og 3. mgr. 20. gr. og 22. gr. má ekki fara fram úr 30% af eignum eftirlaunasjóðs. Summa einstakra liða er 35% en út frá grundvallarsjónarmiði frumvarpsins um áhættudreifingu er talið ráðlegt að summa þessara liða fari ekki yfir 30%. Þannig er betur tryggt að sjóðurinn geti staðið við ófyrirséð sjóðsflæði á hverjum tíma. Eftirlaunasjóðir munu því að meginreglu, þ.e. 70% eigna, fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum skv. 1. mgr. 21. gr., þar á meðal framseljanlegum eignarhlutum í íslensku atvinnulífi.

Um 24. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 21. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, og vísast til athugasemda við þá grein.

Um 25. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 22. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, og vísast til athugasemda við þá grein.

Um 26. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. mgr. 23. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, og vísast til athugasemda við þá grein.

Um 27. gr.


    Í 27. gr. koma fram takmarkanir á fjárfestingum eftirlaunasjóða sem eru gerðar til að tryggja enn betur áhættudreifinguna í sjóðnum. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 24. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, eftir því sem við á.

Um 28. gr.


    Hér er sú meginregla sett að annmarkar í fjárfestingu eftirlaunasjóðs verði lagfærðir á skömmum tíma nema sérstök tilvik með tilliti til hagsmuna sjóðfélaga réttlæti lengri tímalengd og þá samkvæmt heimild bankaeftirlitsins.

Um 29. gr.


    Ekki er talin ástæða til að eftirlaunasjóðir fjárfesti í lausafjármunum, nema sem lýtur að starfsemi sjóðsins.

Um 30. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram meginregla um bann við lántökum eftirlaunasjóða nema í tveimur tilvikum. Í fyrsta lagi gerir ákvæðið ráð fyrir að veita megi heimild til 10% skammtímaláns til að standa straum af réttindum launamanns, sbr. 1. tölul. Slíkt á þó einungis að gilda í skamman tíma, enda er stærstur hluti sjóðsins í vel áhættudreifðum sjóði þar sem auðvelt er að losa eignir til að mæta skuldbindingum. Í öðru lagi veitir 2. tölul. heimild til lántöku vegna fjárfestingar í fasteignum sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi sjóðsins, svo sem til fullnustu kröfu. Eðli málsins samkvæmt er ekki rétt að binda slík lán við skammtímalán.
    Í 2. mgr. kemur fram frekari takmörkun á lánaheimildum eftirlaunasjóðs um að hæst megi lán skv. 1. mgr. nema 15% samanlagt. Þetta er gert til að minnka áhættu sjóðsins og sníða honum þrengri stakk með tilliti til lánveitinga.
    Í 3. mgr. kemur fram að eftirlaunasjóði er óheimilt að veita lán til annarra en sjóðfélaga, enda er það ekki hlutverk sjóðsins að veita öðrum en sjóðfélögum lán. Þá er eftirlaunasjóði óheimilt að ganga í ábyrgð fyrir aðra eða taka að sér aðrar skuldbindingar en að framan getur. Hér er átt við t.d. lífeyrisskuldbindingar starfsmanna eftirlaunasjóða sem hluta af launakjörum.

Um 31. gr.


    Ástæða þykir til að settar séu verklagsreglur um viðskipti stjórnenda og starfsmanna eftirlaunasjóðs rekstraraðila, svo og maka þeirra. Þykir rétt að slíkar reglur séu skýrar til að ekki komi til hagsmunaárekstra milli þessara aðila og eigenda sjóðsins.

Um 32. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að tiltekin rök verði að vera fyrir hendi svo að hafnað sé aðild að eftirlaunasjóði. Eigi slíkt sér ekki stoð í reglugerð er óheimilt að hafna aðild eða vísa manni úr sjóðnum. Ekki er algert bann við brottrekstri úr eftirlaunasjóði þar sem þannig getur staðið á að eðlilegt getur talist að vísa viðkomandi úr sjóðnum, t.d. ef viðkomandi er uppvís að svikum. Sérstök staða kemur upp ef launamaður er öryrki þegar hann sækir um inngöngu í sjóðinn. Slíkt leiðir ekki til synjunar á aðild að sjóðnum heldur einungis til skerðingar á rétti til örorkubóta hvað varðar þessa tilteknu örorku.

Um XIII. kafla.


    Í XIII. kafla frumvarpsins er fjallað um ársreikning og endurskoðun hjá eftirlaunasjóðum. Ákvæðin eru efnislega samhjóða 29.–32 gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, að öðru leyti en því að í 36. gr. er lögð sú skylda á endurskoðanda að skila sérstakri skýrslu um það hvernig verðmati fasteigna í eigu sjóðsins er háttað. Ákvæðin eru byggð á hliðstæðum ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 32/1978, með síðari breytingum, og ákvæðum í reglum Evrópubandalagsins.

Um 33.–36. gr.


    Greinarnar skýra sig sjálfar að efni til.

Um 37. gr.


    Greinin er samhjóða 33. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, að því viðbættu að bankaeftirlitið fær með ákvæðinu heimild til að afla upplýsinga hjá tryggingaeftirliti um rekstur vátryggingaverndar eftirlaunasjóða. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um XV. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað ítarlega og með skýrum hætti um afturköllun fjármálaráðherra á þegar veittum starfsleyfum. Ákvæðin eru samhljóða lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.

38.–40. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 41. gr.


    Með frumvarpi þessu er ekki lagt til að núverandi lífeyrissjóðir hætti starfsemi heldur starfi áfram. Í þessari lagagrein eru tekin af öll tvímæli um það hvort núverandi lífeyrissjóðir þurfi að breyta starfsemi eða reglugerðum sínum til samræmis við hin nýju lög.
    Gert er ráð fyrir að IV., VI. og VII. kafli gildi um réttindi sjóðfélaga í núverandi lífeyrissjóðum og þá um leið um starfsemi lífeyrissjóðanna. Að öðru leyti gilda eftirfarandi reglur. Haldist starfsemi lífeyrissjóðs óbreytt fyrir og eftir gildistöku laga þessara er kveðið á um það að óþarfi sé að breyta reglugerð til samræmis við þessi lög. Sé hins vegar fyrirhugað að breyta starfssviði sjóðsins má reglugerð sjóðsins ekki fara í bága við lög þessi.
    Af sameignarsjóðum eru 17 með ábyrgð ríkissjóðs, sveitarfélaga og ríkisbanka og þrír með ábyrgð hlutafélaga en 56 án ábyrgðar launagreiðanda eða annarra aðila samkvæmt skýrslu bankaeftirlitsins um lífeyrissjóði sem gefin var út 1992.
    Með 3. mgr. 41. gr. er girt fyrir það að þessir lífeyrissjóðir geti eða séu skuldbundir til að taka við nýjum sjóðfélögum samkvæmt öðrum inntökuskilyrðum en tíðkuðust við gildistöku laganna. Ekki er útlit fyrir að þessir sjóðir hafi áhuga á að rýmka núverandi inntökuskilyrði, heldur frekar hitt að launamenn vilji vera í slíkum sjóðum. Fyrir það er girt með þessu ákvæði. Sé ekki lagt bann við rýmkun inntökuskilyrða, þ.e. að fleiri aðilar en nú geti óskað inngöngu og fengið hana, væru aðrir lífeyrissjóðir ósamkeppnishæfir við þessa sjóði. Jafnframt stendur eftir að allflestir þessir sjóðir standa ekki undir skuldbindingum sínum, þannig að á ábyrgðaraðila munu hugsanlega falla háar fjárhæðir. Ekki getur talist rétt að auka við ábyrgðir þessara aðila með lögum þessum. Í frumvarpinu er gerður sá fyrirvari að ef það samrýmist lögum þessum og slík breyting hefur fengið staðfestingu ráðherra geti komi til þess að rýmka megi inntökuskilyrði ofangreindra sjóða.
    Samkvæmt ofansögðu getur starfsemi lífeyrissjóðs í fyrsta lagi orðið óbreytt frá því sem nú er. Í öðru lagi getur hann stofnað eftirlaunasjóð skv. 18. gr. Í þriðja lagi getur lífeyrissjóður breytt starfsemi sinni til samræmis við frumvarpið. Í fjórða lagi er heimilt samkvæmt frumvarpinu að yfirtaka rekstur lífeyrissjóðs. Þetta verður að gera að undangenginni úttekt tryggingastærðfræðings á skuldbindingum sjóðsins. Ef eignir duga ekki fyrir skuldbindingum samkvæmt úttekt verður að skerða réttindi þar til jafnvægi kemst á.

Um 42. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir að deiluaðilar geti skotið máli sínu til ráðuneytisins til úrskurðar. Rökin fyrir þessari málsmeðferð eru þau að brýna nauðsyn ber til þess fyrir launamann, atvinnurekanda eða eftirlaunasjóðinn að fá skjóta úrlausn mála. Sé hins vegar ekki vilji til að lúta ákvörðun ráðuneytisins geta deiluaðilar skotið málinu til þar til bærra dómstóla.

Um 43.–45. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 46. gr.


    Í þessu ákvæði er kveðið á um refsiviðurlög þegar ekki eru staðin skil á eftirlaunaframlagi. Það hefur verið venja að kæra atvinnurekanda fyrir fjárdrátt einungis vegna hlutar launamanns í eftirlaunaframlagi, þ.e. vegna 4% framlagsins en ekki 6%.
    Í frumvarpinu er gengið út frá því að allt eftirlaunaframlagið, þ.e. 13%, sé eign launamanns og þannig sé um fjárdrátt að ræða vegna alls eftirlaunaframlagsins, þ.e 13%.

Um 47. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 42. gr. laga, nr. 10/1993, um verðbréfasjóði. Í eftirlaunasjóðum geta verið miklir fjármunir. Brot á starfsskyldum og lagaákvæðum geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjóðfélagana sem treyst hafa viðkomandi til að gæta hluta launa sinna. Af þessum sökum er nauðsynlegt að kveða ítarlega á um þetta efni.

Um 48. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.