Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 40 . mál.


43. Tillaga til þingsályktunar



um mat á umhverfisáhrifum nýrrar lagasetningar.

Flm.: Kristín Einarsdóttir, Hjörleifur Guttormsson, Jón Helgason.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta framvegis fara fram á undirbúningsstigi mat á hugsanlegum umhverfisáhrifum nýrrar löggjafar. Slíkt mat verði prentað sem fylgiskjal með stjórnarfrumvörpum með sama hætti og verið hefur með kostnaðarmat.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 116. löggjafarþingi. Var mælt fyrir henni á síðustu dögum þingsins og var málinu vísað til umhverfisnefndar. Tillagan hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt á ný óbreytt.
     Það verður æ ljósara að nauðsynlegt er að breyta ríkjandi viðhorfum í iðnríkjunum sem miða að stöðugum vexti án tillits til þess hvaða áhrif hann hefur á umhverfið. Stöðugt fleiri hagfræðingar benda á að nauðsynlegt sé að endurskoða forsendur hagvaxtarútreikninga sem beitt hefur verið hingað til og taka áhrif mannlegra athafna á umhverfi og náttúrulegar auðlindir inn í mat á þjóðhagsstærðum.
    Í lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, nr. 52/1966, með síðari breytingum, segir m.a. í 77. gr. um verkefni Fjárlaga- og hagsýslustofnunar (nú fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins) að hún skuli leggja mat á kostnað sem frumvörp hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Nú er í athugasemdum við stjórnarfrumvörp lagt fram mat á hve mikill kostnaður muni hljótast af samþykkt frumvarpsins.
    Í 30. gr. þingskapalaga eru ákvæði um að mæli nefnd með samþykkt frumvarps eða þingsályktunartillögu skuli hún láta prenta með áliti sínu áætlun um kostnað sem samþykkt gæti haft í för með sér.
    Engin ákvæði eru um það í lögum að sams konar mat skuli fara fram á áhrifum af samþykktum Alþingis á umhverfið. Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir hvaða afleiðingar samþykkt frumvarps geti haft fyrir umhverfið. Eðlilegt er að slíkt mat fylgi stjórnarfrumvörpum á sama hátt og kostnaðarmat. Einnig væri eðlilegt að nefndir létu gera áætlun um líkleg áhrif á umhverfið, hliðstætt því sem miðað er við um kostnaðarmat.
    Viðbrögð af þessu tagi ættu að geta stuðlað að stefnubreytingu til heilla fyrir umhverfið og jafnframt komið í veg fyrir margháttaðan ófarnað. Jafnframt ætti að aukast skilningur löggjafans á að efnahagsmál og umhverfismál eru samfléttuð og verða ekki aðskilin.