Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 44 . mál.


47. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um laun starfsmanna ríkisins, nr. 92/1955.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Valgerður Sverrisdóttir.



1. gr.


    29. gr. laganna orðast svo:
     Nú hefur maður gegnt ráðherraembætti í tvö ár samfleytt eða lengur og á hann þá rétt á biðlaunum er hann lætur af því starfi.
     Biðlaun skal greiða í þrjá mánuði ef embættistími er tvö til fjögur ár en sex mánuði ef embættistími er fjögur ár eða lengur. Greiðsla miðast við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að hlutaðeiganda var veitt lausn frá ráðherraembætti. Biðlaun skulu vera 70% af launum ráðherra eins og þau eru á biðlaunatímanum.
    Afsali ráðherra sér embætti og hverfi til annarra launaðra starfa fellur niður greiðsla biðlauna.
    Nú tekur sá er biðlauna nýtur stöðu í þjónustu ríkisins, stofnana þess eða fyrirtækja og fellur þá niður greiðsla biðlauna ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka biðlaunatímans.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt núgildandi lögum um laun starfsmanna ríkisins, nr. 92/1955, eiga ráðherrar rétt á biðlaunum í sex mánuði ef þeir hafa gegnt ráðherraembætti í tvö ár samfleytt eða lengur. Ekkert er kveðið á um það í þeim lögum frekar en í lögum um þingfararkaup alþingismanna hvernig með skuli fara ef ráðherra afsalar sér embætti til að hverfa til annarra launaðra starfa. Með þessu frumvarpi er reynt að bæta úr þeim ágalla og kveðið skýrt á um að við slíkar aðstæður falli niður greiðsla biðlauna. Er þetta til samræmis við það sem lagt er til í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna á þskj. 46 og vísast til greinargerðar með því frumvarpi.
    Þá er í þessu frumvarpi jafnframt gerð sú breyting að réttur til biðlauna taki nokkurt mið af því hversu lengi menn hafa gegnt ráðherraembætti. Þannig greiðast biðlaun í þrjá mánuði þeim sem gegnt hafa embætti í tvö til fjögur ár, en sex mánuði þeim sem hafa gegnt því lengur en í fjögur ár. Tekur þessi breyting mið af þeirri reglu sem gildir um biðlaun þingmanna þó að miðað sé við styttri tíma í embætti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eins og málum er háttað í dag eiga allir sem gegnt hafa ráðherraembætti í tvö ár samfleytt rétt á biðlaunum í sex mánuði. Í greininni er lögð til sú breyting að réttur til biðlauna miðist við tímalengd í embætti. Hafi maður gegnt embætti í tvö til fjögur ár eigi hann kost á biðlaunum í þrjá mánuði en eftir fjögur ár í embætti miðist biðlaunaréttur við sex mánuði. Biðlaunaréttur falli hins vegar niður afsali maður sér ráðherraembætti og hverfi til annarra launaðra starfa.
    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að biðlaun falli niður ef sá er þeirra nýtur tekur stöðu í þjónustu ríkisins, nema sú staða sé lægra launuð, þá greiðist launamismunurinn út biðlaunatímann. Á þessu er lögð til sú breyting að sama regla gildi ef viðkomandi staða er á vegum stofnana eða fyrirtækja ríkisins.
    Að öðru leyti er 29. gr. laganna efnislega óbreytt.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.